Borgarráð - Fundur nr.5129

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2010, fimmtudaginn 2. september, var haldinn 5129. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 17. ágúst. R10010013

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 20. ágúst. R10010018

3. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 25. ágúst og 1. sepember. R10010027
B-hlutar fundargerðanna samþykktir.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 30. ágúst. R10010029

5. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 13. og 27. ágúst. R10010033

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R10080103

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag Voga sunnan Skeiðarvogs. R10050120
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytt deiliskipulag Sogavegar vegna lóðar nr. 19 við Tunguveg. R10050048
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 18. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Stjórnarráðsreits vegna hússins að Skúlagötu 4. R10080069
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Mógilsár og Kollafjarðar vegna tveggja lóða fyrir dreifistöðvar rafmagns. R10080114
Samþykkt.

11. Lagt fram minnisblað forstöðumanns upplýsingatæknimiðstöðvar frá 29. júlí sl. varðandi stuðning við framkvæmd stefnu Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni og Icepro um rafræn viðskipti 2010-2012. R10070092
Samþykkt.

12. Lagður fram samningur um stuðning Reykjavíkurborgar við Heimili kvikmyndanna ses. frá 20. f.m., sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. júlí sl. R10050082
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti með 5 samhljóða atkvæðum, enda kalli ákvæði 2. mgr. 4. gr. ekki á aukinn kostnað Reykjavíkurborgar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa til fyrri bókana.

13. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar frá 19. f.m. varðandi umsókn Olíuverslunar Íslands hf. um leyfi til áfengisveitinga í veitingasölu félagsins að Norðlingabraut 7, þar sem lagst er gegn því að leyfið verði veitt. R10050001
Umsögn skrifstofu borgarstjórnar samþykkt.

14. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs 25. s.m., þar sem óskað er eftir 102 m.kr. viðbótarfjármagni vegna tónlistarskóla á árinu 2010. R10080116
Samþykkt. Fjárveitingin færist af handbæru fé.
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar samstöðu í menntaráði um að marka stefnu um tónlistarfræðslu í Reykjavík þar sem tónlistarnám barna og ungmenna verði í forgangi. Í samþykkt menntaráðs kemur fram að frá og með hausti 2011 verði sett aldursviðmið um þá nemendur sem Reykjavík niðurgreiðir tónlistarnám hjá og er brýnt að vinna í nánu samráði við fagstétt tónlistarfólks að þessu marki. Borgarráð ítrekar þá skoðun að ríkið eigi að greiða fyrir framhaldsmenntun í tónlist sem og öðrum fögum.

15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs frá 25. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., um stofnun heimilis fyrir heimilislausar konur. R10060083
Samþykkt.
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að heimili fyrir heimilislausar konur muni opna nú í september og óskar tilvonandi íbúum velfarnaðar. Heimilið er í samræmi við stefnu borgarstjórnar um málefni utangarðsfólks sem samþykkt var árið 2008.

16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 24. s.m., varðandi tillögu að gjaldskyldu á tilteknum bílastæðum við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. R10070094
Samþykkt.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. f.m.:
Lagt er til að skipaður verði 5 manna stýrihópur til þess að vinna leiksvæðastefnu fyrir Reykjavík. Með hópnum starfi 3 sérfræðingar frá framkvæmda- og eignasviði, skipulags- og byggingarsviði og umhverfis- og samgöngusviði. Auk þess leiti stýrihópurinn upplýsinga og ráðgjafar frá fulltrúum leikskólasviðs, menntasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs, fulltrúa íbúasamtaka og öðrum sem hafa látið sig málið varða. Hópurinn skili af sér fyrir 15. janúar 2011.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10060068
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs til umsagnar, m.a. um samhengi við þá vinnu sem unnin hefur verið við undirbúning leikjastefnu borgarinnar.

18. Lagður fram úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 7. júlí sl. í máli nr. 72/2009 varðandi greiðslu þjónustutryggingar. R09100211

19. Lagður fram úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 13. júlí sl. í máli nr. 86/2009, varðandi greiðslu þjónustutryggingar. R09120043

20. Lögð fram að nýju bréf innri endurskoðanda frá 9. júní sl. um samninga Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur, lögmanns stjórnar Golfklúbbs Reykjavíkur, Gests Jónssonar hrl., frá 30. júlí sl. og bréf borgarstjóra til golfklúbbsins, dags. 11. f.m. Jafnframt er lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar um málið frá 22. júlí sl. Þá eru lögð fram bréf borgarlögmanns frá 16. f.m. og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 17. s.m. R09030061
Frestað.

21. Rætt er um fyrirhugaða sölu á fasteigninni að Fríkirkjuvegi 1, Miðbæjarskólanum, til ríkisins. R10060145

- Kl. 11.30 taka Dagur B. Eggertsson og Oddný Sturludóttir sæti á fundinum og Björk Vilhelmsdóttir og Einar Örn Benediktsson víkja af fundi.

22. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 30. f.m. varðandi aðgerðir stjórnar Orkuveitunnar til styrkingar á rekstri fyrirtækisins. Jafnframt lagt fram minnisblað fjármálastjóra, dags. 31. f.m. R10080089
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð lýsir fullum stuðningi við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í erfiðum verkefnum. Jafnframt veitir borgarráð borgarstjóra umboð til að leggja fram tillögu á eigendafundi um að fallið verði frá arðgreiðslum frá fyrirtækinu á meðan unnið er úr erfiðri stöðu þess.

Frestað.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Ákvörðun um gjaldskrárhækkun og hagræðingaraðgerðir væri góðra gjalda verð ef fyrir lægi rökstuðningur og áætlun um næstu skref. Orkuveita Reykjavíkur er ekkert venjulegt fyrirtæki. Það er grunnstoð velferðar í borginni og í eigu yfir 100 þúsund einstaklinga. Stjórnin situr í umboði alls þessa fólks og hefur því ríkari skyldum að gegna en gengur og gerist í fyrirtækjum. Henni ber að hafa hagsmuni borgarbúa, starfsfólks og fyrirtækisins að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku, sem því miður virðist hafa farið forgörðum við þá afdrifaríku ákvörðun sem hér um ræðir. Undanfarin tvö ár hefur verið í gildi aðgerðaáætlun með pólitískum grunnlínum fyrir Reykjavíkurborg sem hefur skapað ákveðna sátt í samfélaginu á viðsjárverðum tímum. Ákvörðun meirihluta stjórnar Orkuveitunnar er á skjön við þá áætlun án þess að önnur liggi fyrir. Engin lína var lögð varðandi starfsmannamál eða þjónustu við borgarbúa, hvaða eignir megi selja, hvort til uppsagna þurfi að koma eða hvort leggja eigi áherslu á hagræðingu með öðrum hætti, heldur voru hráar prósentutölur lagðar til grundvallar þegar forstjóra var falið að hagræða. Engin tilraun var heldur gerð til að auka arðsemi af orkusölu til stóriðju, þrátt fyrir að arðsemismarkmiðum sé hvergi nærri náð í þeim samningum sem í gildi eru. Við þetta vakna upp spurningar um stöðu stjórnarinnar sem stefnumótandi aðila og þeirrar ábyrgðar sem á hennar herðum hvílir. Að sama skapi vekur gerningurinn upp spurningar um pólitískar áherslur meirihluta borgarstjórnar varðandi rekstur fyrirtækisins, sér í lagi í ljósi ítrekaðra athugasemda frá embættismönnum borgarinnar um óæskilega fjarlægð fyrirtækisins frá kjörnum fulltrúum. Ef reka á fyrirtækið sem hvert annað fyrirtæki á markaði er hætta á að hagsmunir borgarbúa verði fyrir borð bornir en það má aldrei gerast.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega þeirri miklu gjaldskrárhækkun sem nú hefur verið lögð á íbúa. Svo mikil hækkun er hvorki í samræmi við fyrri afstöðu borgarstjórnar um að standa með íbúum, né í samræmi við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi. Rétta leiðin og lausnin hefði verið sú að standa við fyrri áætlanir, grípa til róttækrar hagræðingar og endurskoðunar á umfangi fyrirtækisins, en dreifa hækkunum á almenning yfir lengra tímabil. Slík aðgerð, samhliða áframhaldandi hagræðingaraðgerðum, hefði mætt þörfum fyrirtækisins en um leið verið mun sanngjarnari og eðlilegri gagnvart íbúum. Á liðnu kjörtímabili var tekið fast á fjármálum Orkuveitu Reykjavíkur og mikið starf unnið á vegum stjórnar fyrirtækisins og starfsmanna til að verja stöðu þess og styrkja fjárhagsgrundvöll. Eftir bankahrun ákvað borgarstjórn samhljóða að hækka ekki gjaldskrár í Reykjavík vegna yfirvofandi erfiðleika fjölskyldna í borginni, heldur að ná niður kostnaði með endurskoðun og hagræðingu. Sama stefnumótun gilti um Orkuveituna, enda lengi legið fyrir að innan þess fyrirtækis finnast ýmis tækifæri til lægri kostnaðar og minna umfangs. Umrætt hagræðingarátak hefur þegar skilað um milljarði króna og á grundvelli þess hefur m.a. verið hægt að standa við samþykktir borgarstjórnar um frystingu gjaldskrár. Það hefur hins vegar alltaf legið fyrir að slík frysting gjaldskráa gæti aðeins varað tímabundið og að gjaldskrár þyrftu að taka aukið mið að verðlagi og stefnu stjórnar fyrirtækisins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar verið og eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt hafi verið að stilla slíkri hækkun í hóf eins og kostur er í því skyni að verja hagsmuni heimilanna. Viðbrögðin við þeirri hækkun sem meirihluti stjórnar tók ákvörðun um, staðfesta að þessi harkalega ákvörðun var bæði ósanngjörn og alltof mikil á alltof stuttum tíma. Þannig hafa forsvarsmenn stéttarfélaga launþega lýst því hvernig þetta kemur þungt niður á þeirra umbjóðendum, ekki aðeins með hækkandi gjöldum til OR heldur einnig vegna þeirra áhrifa sem þetta hefur á verðlag, verðbólgu, stöðu lána og stöðugleikann almennt. Þessir aðilar hafa bent á að þessi ákvörðun geti einnig haft áhrif á viðræður aðila á vinnumarkaði og kallað á ríkari kröfur launþega. Framkvæmd gjaldskrárhækkananna virðist hafa verið vanhugsuð með tilliti til samkeppnissjónarmiða og einnig hefur Orkustofnun gert athugasemd við það að tilkynna beri hækkanir á gjaldskrá með tveggja mánaða fyrirvara. Slíkt var ekki gert og því getur hækkunin ekki orðið 1. október eins og áætlað var. Allt ber þetta mál þess merki að vera vanhugsað. Athygli hefur hins vegar vakið að hvorki borgarstjóri né formaður borgarráðs hafa séð ástæðu til að tjá sig um þessar hækkanir eða bregðast við áhyggjum þeirra fjölmörgu aðila sem telja þetta óvarlega ákvörðun. Af því tilefni er spurt hvernig borgin hyggist bregðast við þeim athugasemdum og hvernig þessi harkalega hækkun samræmist annars vegar þeirri aðgerðaáætlun sem í gildi hefur verið á vettvangi borgarstjórnar og hins vegar því sem ríkisvaldið hefur kallað stöðugleikasáttmála?
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Aðgerðir stjórnar Orkuveitunnar eru ýtarlega rökstuddar og studdar áliti rýnihóps sérfræðinga á vegum eigenda og sérfræðinga sem kallaðir hafa verið til af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki hefði verið réttlætanlegt að ýta öllum vanda fyrirtækisins út í gjaldskrárhækkanir. Þess vegna þarf að grípa til erfiðra hagræðingaraðgerða. Þetta gerir hins vegar alla framkvæmd málsins viðkvæma og mikilvægt er að hvorki sé gert of mikið eða lítið úr vandanum sem við er að etja. Þess vegna hefur verið farsælt að stjórnarformaður OR hafi haft forystu um kynningu málsins. Rétt er að árétta að í stöðunni er ekki valkostur að fresta vandanum eða gera ekki neitt. Fjárhagsstaða Orkuveitunnar verður ekki endurreist með góðum óskum eða fögrum orðum heldur raunverulegum aðgerðum þótt erfiðar séu. Vandi fyrirtækisins hingað til hefur verið að þessum lykilstaðreyndum hefur verið afneitað. Ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að hækka gjaldskrá með þessum hætti nýtur fulls stuðnings meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar. Að auki lýsir meirihlutinn stuðningi við starfsfólk Orkuveitunnar sem stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum. Orkuveita Reykjavíkur er fyrirtæki okkar allra og það þarf að standa traustan og öruggan vörð um það.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það eru allir sammála um nauðsyn þess að taka á málefnum fyrirtækisins, enda hafa eigendur beitt sér mjög ákveðið fyrir slíkum aðgerðum á umliðnum misserum. Um þá stefnumótun að grípa ekki til gjaldskrárhækkana eftir kreppu var einnig full samstaða um á vettvangi borgarstjórnar á síðasta kjörtímabili, auk þess sem sameiginlega var unnið að hagræðingu hjá fyrirtækinu. Ágreiningurinn snýst því ekki um hvort fara þurfi í aðgerðir, heldur hvernig það er gert og þá fullvissu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hægt hefði verið að gera það betur með tilliti til hagsmuna borgarbúa.

23. Lagður fram árshlutareikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2010. Jafnframt lögð fram skýrsla Aska Capital um þróun erlendra lána og gengishreyfingar frá áramótum, dags. í júlí 2010. Þá er lögð fram yfirlýsing fjármálastjóra varðandi ábyrgð Reykjavíkurborgar á skuldum Orkuveitunnar, dags. 27. f.m. R10080111
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Árshlutauppgjör OR staðfestir betri stöðu fyrirtækisins og sýnir að þær aðgerðir sem farið var í eftir efnahagshrun eru að skila sér í töluvert betri rekstrarniðurstöðu. Tekist hefur að snúa 70 milljarða tapi vegna efnahagshruns árið 2008 í 5,1 milljarðs hagnað í hálfsársuppgjöri 2010. Þessi góða rekstrarniðurstaða styður við tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkins um að ekki hefði þurft að fara í svo snarpar gjaldskrárhækkanir og alls ekki í einu lagi. Auk þess má benda á að lausafjárstaða borgarinnar er gríðarlega sterk eða rúmlega 17 milljarðar króna en það styrkir fjármögnunarmöguleika OR töluvert.

24. Kynnt er rekstraryfirlit vegna tímabilsins janúar til júní 2010. R10020043

25. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 31. f.m. um skipan áhættustýringarhóps Reykjavíkurborgar ásamt erindisbréfi hópsins. R10080133

26. Lagt fram bréf formanns sóknarnefndar Grafarvogssóknar frá 6. maí sl. þar sem óskað er samþykkis á breytingum á lánasamningi sóknarinnar við Arion banka. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. í dag. Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð veiti borgarlögmanni og fjármálastjóra umboð til að ganga frá samkomulagi um endurnýjaða ábyrgð Reykjavíkurborgar á lánum sem Grafarvogssókn tók á sínum tíma vegna kirkjubyggingar. Þau skilyrði eru sett af hálfu borgarráðs að tryggt verði með formlegu samkomulagi aðila að greiðslur af þessum lánum hafi forgang af sóknargjöldum kirkjunnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10080030
Tillaga borgarstjóra samþykkt.

27. Lagt fram yfirlit yfir innkaup framkvæmda- og eignasviðs í apríl, maí og júní 2010. R10080137

28. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 26. f.m. varðandi framkomna ósk um að komið verði fyrir minnisvarða um Helga Hóseasson á horni gatnamóta Langholtsvegar og Holtavegar. R09090062
Samþykkt.

29. Lagt er til að Óttarr Proppé taki sæti varamanns í skipulagsráði í stað Barða Jóhannssonar. R10060080
Vísað til borgarstjórnar.

30. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra borgarstjóra varðandi IPA-umsóknir Reykjavíkurborgar, dags. 1. þ.m. R10070066

31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er ýtarlegra upplýsinga um stöðu Völundarverks og þeirra verkefna sem þar hafa verið í gangi í tengslum við verndun gamalla húsa og uppbyggingu í miðborginni. Svo virðist sem ákvarðanir nýs meirihluta um breytta forgangsröðun fjármagns hægi nokkuð á þessu mikilvæga verkefni og því nauðsynlegt að fá glögga mynd af stöðu þess. R10030022

Fundi slitið kl. 13.40

Dagur B. Eggertsson

Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir