Borgarráð - Fundur nr,4862

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2004, fimmtudaginn 14. október, var haldinn 4862. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Kjartan Magnússon, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 24. september. R04010040

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 13. október. R04010018

3. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 6. október. R04010005

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Fasteignastofu frá 12. október. R04010020

5. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 6. október. R04010019

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 20 mál. R04090143

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 8. þ.m. um breytingu á skipan borgarráðs, sbr. samþykkt borgarstjórnar 7. s.m. R03060120

8. Lögð fram tillaga borgarstjóra um nýtt skipurit Reykjavíkurborgar og útfærslu stjórnkerfisbreytinga, dags. í dag, ásamt greinargerðum stjórnkerfisnefndar og borgarstjóra, dags. í dag. R04100035
Vísað til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Fram hefur komið ábending frá einum starfsmanni Ráðhússins um að tímasetning kynningarfundar með starfsfólki á nýju skipuriti kl. 16:30 í dag sé óheppileg og gera megi ráð fyrir að stór hluti starfsmanna geti ekki mætt. Það er miður að ekki hafi fundist heppilegri tími fyrir þennan kynningarfund.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu einnig bókað:

Ítrekaðar en árangurslitlar tilraunir til breytinga.
R-listinn hefur á valdatíma sínum ítrekað gert tilraunir til breytinga á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Margar þeirra hafa ekki gengið eftir og oft hefur verið horfið frá upphaflegum áætlunum. Þær breytingatillögur sem nú liggja fyrir að gera eigi á stjórnkerfi borgarinnar yrðu þriðja meginbreytingin á stjórnkerfinu frá því R-listinn tók við árið 1994.
Breytingunum hefur iðulega verið fylgt úr hlaði með háleitum markmiðum og loforðum um aukið lýðræði og betri stjórnsýslu en nánari útfærslur og skýrar leiðir að settum markmiðum hefur skort. Þetta á einnig við nú. Þannig segir í greinargerð með fyrirliggjandi tillögu að meðal meginmarkmiða sé að hraða málsmeðferð, auka skilvirkni, lýðræðisleg vinnubrögð og samráð til að stuðla að jafnræði og gagnsæi. Allt eru þetta háleit markmið sem kjörnir fulltrúar, hvar í flokki sem þeir standa, eiga að vinna að. Í þessum tillögum og fylgigögnum þeirra kemur hins vegar hvergi fram á hvern hátt þessum markmiðum verði náð.
R-listinn hefur haldið þessum markmiðum á lofti í 10 ár en sýnilegur árangur er hverfandi og á nokkrum sviðum enginn. Sem dæmi um það má nefna mikinn og vaxandi seinagang við afgreiðslu skipulags- og byggingarmála. Þá voru tillögur um þjónustumiðstöðvar í hverfum borgarinnar illa undirbúnar, nutu ekki stuðnings innan R-listans og lítið samráð var haft við fagnefndir og starfsmenn viðkomandi stofnana. Í fyrirliggjandi tillögum er til dæmis engin grein gerð fyrir því hvernig þjónustumiðstöðvarnar eigi að tengjast fagráðunum innan stjórnsýslunnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja ýmsar af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram enda sumar hverjar í samræmi við fyrri tillögur sjálfstæðismanna í borgarráði og borgarstjórn. Þannig hafa sjálfstæðismenn lagt til að fræðsluráð og leikskólaráð verði sameinuð og telja að í kjölfarið sé rétt að skipta Reykjavík í sérstök skólahverfi. Að auki hafa sjálfstæðismenn lagt til að Aflvaki verði lagður niður. Íþrótta- og tómstundamálin og menningarmálin heyra áfram undir sitt hvort sviðið öfugt við fyrri áform R-listans sem sjálfstæðismenn lögðust gegn.
Sjálfstæðismenn leggjast alfarið gegn því að embætti borgarlögmanns og borgarritara verði lögð niður enda hafa engin haldbær rök verið færð fyrir því. Þvert á móti hefur því verið haldið fram að með því fyrirkomulagi yrði varpað fyrir róða þeirri meginhugsun sem nú er byggt á, að embætti borgarlögmanns sé sjálfstæð stofnun og að borgarlögmaður heyri beint undir borgarstjóra. Að auki telja sjálfstæðismenn fráleitt að ætla umhverfisráði að fara með stefnumótun í samgöngumálum og þar með almenningssamgöngum. Þessi mál eiga að vera sameiginlegt verkefni skipulagsráðs og framkvæmdaráðs eins og verið hefur.
Sjálfstæðismenn taka undir það að margt má betur fara í stjórnsýslu borgarinnar. Þær tillögur að breytingum á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar bera þess því miður merki að vera enn ein tilraun R-listans til að bæta það flókna stjórnskipulag sem hann hefur þróað í borginni í valdatíð sinni. Einn borgarfulltrúi R-listans gaf þessu kerfi nýlega þá einkunn að fólk ætti ekki að þurfa masterspróf í stjórnsýslufræðum til að skilja stjórnsýslu borgarinnar og þess vegna væri breytinga þörf.
Breytingarnar sem R-listinn leggur nú til bera þess merki að R-listinn er valdabandalag ólíkra afla sem ekki hafa burði til að koma sér saman um grundvallarþætti í stjórn borgarinnar. Þess vegna skortir nauðsynlegan stöðugleika í stjórnkerfi borgarinnar, enda R-listinn ekki það kjölfestuafl í reykvískum stjórnmálum sem Reykjavíkurborg þarf á að halda.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Markmið umbóta í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar eru:
- Einföldun stjórnkerfis, fækkun nefnda, sameining málaflokka og samsvörun nefndakerfis- og stjórnsýslu.
- Skýrari ábyrgðarsvið; efling pólitískrar stefnumörkunar og eftirlits fagnefnda.
- Hraðari málsmeðferð og aukin skilvirkni.
- Skýrari staða borgarstjórnar og markvissari og áheyrilegri borgarstjórnarfundir.
- Lýðræðisleg vinnubrögð og samráð til að stuðla að jafnræði og gagnsæi.
Fyrirliggjandi tillögur fela í sér heildarendurskoðun á núverandi stjórnkerfi. Umbæturnar eru líklega þær umfangsmestu um árabil en stór skref hafa áður verið stigin til sameiningar nefnda og fyrirtækja borgarinnar, sölu eigna og félagavæðingu í rekstri íþróttamannvirkja auk breytinga sem stuðlað hafa að valddreifingu, aukins og bætts samráðs við íbúa, atvinnulíf og hagsmunasamtök. Þá er ógetið þeirra alhliða umbóta sem gerðar hafa verið á fjármálastjórn, reikningsskilum, áætlanagerð og árangursstjórnun sem hefur verið rauður þráður í umbótastarfi Reykjavíkurborgar undanfarinn áratug.
Núverandi endurskoðun stjórnkerfisins er lykilþáttur í áframhaldandi umbótaferli sem beinir sjónum sínum sérstaklega að hraðari málsmeðferð og aukinni skilvirkni í stjórnsýslunni annars vegar og opnari og lýðræðislegri vinnubrögðum málaflokkanefnda hins vegar. Þessi markmið eru ekki aðeins mikilvæg heldur verður þeim best náð með einföldun stjórnkerfis og skýrari ábyrgðarsviðum, eins og tillögurnar bera með sér.
Hið fullkomna stjórnkerfi verður seint kynnt til sögunnar. Umbótatillögurnar sem nú liggja fyrir eru hins vegar ótvítrætt framfaraspor og rökrétt framhald þeirra umbóta sem gerðar hafa verið í vinnubrögðum, starfsháttum og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar síðastliðinn áratug. Allar hafa þær haft það að leiðarljósi að Reykjavíkurborg verði nútímalegt þjónustufyrirtæki fremur en gamaldags embættismannakerfi. Þetta er eitt megineinkenni fyrirliggjandi tillagna. Þeir málaflokkar, sem snúa að þjónustu við fjölskyldur í borginni, eru styrktir innan stjórnkerfisins og umhverfismálum er gert hærra undir höfði.
Bókun Sjálfstæðisflokksins veldur vonbrigðum. Þar er reynt að drepa því meginatriði málsins á dreif að sátt er um öll meginatriði fyrirliggjandi tillagna. Vekur furðu hversu langa lykkju minnihlutinn leggur á leið sína til að ólundast um óskylda hluti. Enn einu sinni virðist fulltrúum Sjálfstæðisflokksins líða verst þegar best gengur. Enn einu sinni heykjast sjálfstæðismenn á því að fylgja eftir góðu samstarfi og samstöðu í nefndum þegar á hólminn er komið.

- Kl. 12.00 vék borgarstjóri af fundi.

9. Lagt fram bréf borgarstjóra um breytingar á fjárhagsrömmum í fjárhagsáætlun ársins 2005, dags. í dag. R04070012
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

10. Rætt um fjárhagsáætlun ársins 2005. R04070012

- Kl. 13.10 tók borgarstjóri sæti á fundinum.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d., varðandi auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 1-9 við Álftamýri. R04070033
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

12. Lagðar fram greinargerðir Félagsþjónustunnar um annars vegar atvinnuleysi og fjárhagsaðstoð, ódags., og hins vegar um bundna liði hjá Félagsþjónustunni, dags. 4. þ.m., ásamt bréfi fjárhagsáætlunarfulltrúa, dags. 11. s.m. R04100061

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 10. þ.m., þar sem lagt er til að Atlandsolíu ehf. verði úthlutað lóð að Bústaðavegi 151 fyrir bensínsjálfsafgreiðslustöð, með nánar tilgreindum skilyrðum. R03080015
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins s.d., varðandi reglur íþrótta- og tómstundaráðs um styrkveitingar. R04010094
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 13. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 8. s.m., varðandi reglur leikskólaráðs um styrkveitingar. R04010094
Samþykkt.

16. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar um áfengismál frá 28. f.m. í máli nr. 20/2004, kæra Skallagrímsveitinga ehf. vegna synjunar um veitingu áfengisleyfis á veitingastaðnum Sportbitanum í Egilshöll. Jafnframt lagt fram bréf Heimis Arnar Herbertssonar hdl. frá 6. þ.m. varðandi málið. Þá er lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 11. þ.m., þar sem lagt er til að Skallagrímsveitingum ehf. verði veitt leyfi til veitinga léttvíns og áfengs öls á veitingastaðnum Sportbitanum í Egilshöll til eins árs til reynslu. R03100169
Tillaga skrifstofustjóra borgarstjórnar samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Árni Þór Sigurðsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðrún Ebba Ólafsdóttir sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Árni Þór Sigurðsson óskaði bókað:

Úrskurðarnefnd áfengismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að synja um vínveitingaleyfi í Egilshöll m.t.t. jafnræðis- og meðalhófssjónarmiða stjórnsýslulaga. Engu að síður telur nefndin að þau sjónarmið sem að baki synjuninni lágu séu málefnaleg og eigi þannig fullan rétt á sér. Þessi niðurstaða nefndarinnar er sérkennileg því hún byggir á þeirri forsendu að rekstrarlegir hagsmunir veitingastaðarins vegi þyngra en almannahagsmunir barna og ungmenna. Þeim sjónarmiðum mótmæli ég kröftuglega. Röksemdum úrskurðarnefndarinnar um að áður hafi borgaryfirvöld veitt áfengisleyfi við sambærilegar aðstæður er einfaldlega vísað á bug sem röngum.
Egilshöll er íþróttamannvirki þar sem m.a. fara fram í stórum stíl íþróttaæfingar og keppni barna og unglinga, auk þess sem þar fer fram kennsla grunnskólabarna í leikfimi. Veitingastaðurinn Sportbitinn er staðsettur innan veggja Egilshallar og hluti veitingastaðarins er ísbúð og sælgætisverslun, og því ljóst að hann dregur einmitt að sér börn og unglinga. Það er og hefur verið skýr stefna Reykjavíkurborgar að íþróttir og áfengisveitingar fari ekki saman, og birtist hún m.a. í ákvæðum málsmeðferðarreglna borgarráðs vegna vínveitingaleyfa, þar sem bannað er að veita tækifærisleyfi til áfengisveitinga í íþróttamannvirkjum í tengslum við íþróttaviðburði. Þá hefur það einnig ætíð verið skýr stefna Reykjavíkurborgar, að halda beri áfengi frá börnum og unglingum, eins og birst hefur í fræðslu- og forvarnarstarfi borgarinnar um árabil. Fyrir liggja hörð viðbrögð bæði foreldra barna sem stunda íþróttir í Egilshöllinni og foreldrafélaga grunnskólanna, sem og forsvarsmanna íþróttahreyfingarinnar, sem telja áfengisveitingar á þessum stað ganga þvert á öll yfirlýst markmið á þessu sviði. Vínveitingar í Egilshöll eru því ekki í samræmi við pólitískan vilja borgaryfirvalda né heldur í sátt við umhverfið.
Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar áfengismála sit ég hjá við afgreiðslu málsins í borgarráði, en áskil mér rétt til að leggja fram tillögur um breytingar á málsmeðferðarreglum um vínveitingaleyfi til að taka af allan vafa um að íþróttir og áfengi fari ekki saman né heldur áfengi og barna- og unglingastarf.

Stefán Jón Hafstein óskaði bókað:

Ég get tekið undir aðalatriði bókunar Árna Þórs Sigurðssonar, en í ljósi þess álits sem liggur fyrir tel ég ekki unnt að greiða atkvæði gegn; lýsi mig eindregið fylgjandi því að vinnureglur verði skýrðar sem fyrst um þessi mál og kalla eftir raunverulegum áhuga íþróttahreyfingarinnar á því að íþróttir og áfengi fari ekki saman.

17. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Klæðningar ehf. frá 30. f.m. varðandi meinta mismunun fyrirtækja við framkvæmd útboða hjá Reykjavíkurborg. Jafnframt lögð fram umsögn innkauparáðs um erindið frá 13. þ.m., sbr. bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. s.d. R04060074

18. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Frjálslyndra og óháðra um lækkanir á fargjöldum Strætó bs. ásamt greinargerð, vísað til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 5. þ.m. R03090140
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

19. Lagðar fram tillögur nefndar félagsmálaráðuneytisins um sameiningu sveitarfélaga, ódags., ásamt bréfi nefndarinnar til allra sveitarstjórna, ódags. R04010181
Samþykkt að fela borgarstjóra að vinna að framhaldi málsins.

20. Afgreitt 41 útsvarsmál. R04010153

Fundi slitið kl. 14:20.

Alfreð Þorsteinsson

Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Kjartan Magnússon
Stefán Jón Hafstein Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson