Borgarráð - Fundur nr. 5810

Borgarráð

Ár 2026, fimmtudaginn 22. janúar, var haldinn 5810. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru Alexandra Briem, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Sabine Leskopf. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: borgarstjóri og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Heimir Snær Guðmundsson, Róbert Marshall og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2026, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda við endurgerð götu og veitukerfa í Lönguhlíð og Drápuhlíð, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun er 1.170 m.kr., þar af er kostnaður Reykjavíkurborgar 525 m.kr.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðni Guðmundsson og Rúnar Gísli Valdimarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25040261

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar vekur athygli á mikilli andstöðu íbúa í Drápuhlíð við þau áform sem kynnt hafa verið um breytingu á götunni. Tillögur borgarinnar fela í sér mikla fækkun bílastæða og þannig verður íbúum gert afar erfitt fyrir að leggja bílum sínum nálægt heimilum sínum. Það er bagalegt því íbúum hefur fjölgað nokkuð í hverfinu með tilkomu íbúða í bílskúrum og breytingum á húsum sem borgin hefur heimilað. Í þeim gögnum sem liggja fyrir fundinum er gerður fyrirvari um endanlegt útlit Drápuhlíðar og fyrirkomulagi bílastæða og borgarfulltrúi Framsóknar bindur vonir við að hlustað verði á sjónarmið íbúa.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram til kynningar erindisbréf valnefndar vegna námsstyrks Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur, dags. 11. desember 2025, ásamt fylgiskjölum.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25110423

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að selja Vegagerðinni um 15.765,4 m2 sem er hluti af landi Jörfa, landnúmer 125701, Kjalarnesi, Reykjavík, á 6.243.100 kr., ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK26010133

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að selja Vegagerðinni um 986,7 m2 sem er hluti af landi Grundarhverfis, landnúmer 221616, Kjalarnesi, Reykjavík, á 390.733 kr., ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK26010132

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að selja Vegagerðinni um 17.819 m2 sem er hluti af landi Lykkju, landnúmer 223691, Kjalarnesi, Reykjavík, á 7.038.505 kr., ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK26010129

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. desember 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi samninga um húsnæði að Austurstræti 8 fyrir Vesturmiðstöð velferðarsviðs, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25120231

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um bruna í skemmu í eigu Reykjavíkurborgar í Gufunesi.

    -    Kl. 09:30 tekur borgarstjóri sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Ólöf Örvarsdóttir, Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS26010096

  8. Fram fer kynning á stöðu á vinnu starfshóps um skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar.

    Ólöf Örvarsdóttir og Glóey Helgudóttir Finnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23100178

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2026, vegna úthlutunar úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen. MSS26010090

    -    Kl. 10:21 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum og Hjálmar Sveinsson víkur af fundi.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. janúar 2026, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi viðauka við þjónustusamning sem gildir út árið 2026 um starfsemi Þjóðarleikvangs ehf. þar sem framlag Reykjavíkurborgar árið 2026 er 6.845.000 kr. sem er í samræmi við 50% eignarhlut borgarinnar í félaginu. Gert er ráð fyrir framlaginu í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Steinþór Einarsson og Helga Friðriksdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS26010100

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 15. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki hjálögð samningsdrög um uppfærslu og endurnýjun samnings Reykjavíkurborgar og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins þar sem Reykjavíkurborg fól Markaðsstofunni að taka að sér alla framkvæmd, þróun, útfærslu og markaðssetningu Reykjavík City Card, ásamt fylgiskjölum. 
    Samþykkt.

    Steinþór Einarsson og Helga Friðriksdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MIR24040010

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi uppfærsla og endurnýjun á samningnum er mikilvæg, en það eru töluverð tækifæri í því að Reykjavík City Card verði gert stafrænt. Við væntum þess að sú vinna verði unnin í góðu samstarfi Reykjavíkurborgar, Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og annarra samstarfsaðila eftir þörfum og að samstarf verði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. janúar 2026, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögur (i) um umgjörð á geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu eða aðra sértæka þjónustu fyrir fyrrum vöggustofubörn, (ii) að vísa vöggustofuskýrslunni til umsagnar velferðarráðs og mannréttindaráðs, (iii) að skora á dómsmálaráðuneytið að ljúka við gerð frumvarps um sanngirnisbætur sem allra fyrst til að leitast við að rétta hlut þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins með fjárgreiðslu í formi skaðabóta og (iv) að ekki verði um frekari athuganir að ræða á vöggustofum á grundvelli laga nr. 45/2022 því ekki liggur fyrir að önnur vistheimili fyrir börn hafi sem slík beinlínis verið skilgreind sem vöggustofur. Áætlaður kostnaður vegna geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu er í fyrstu um 15 m.kr. og lagt er til að kostnaðurinn verði tekinn af liðnum ófyrirséð og falli að mestu til á árinu 2026.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS26010078

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. janúar 2026, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð, og eftir atvikum borgarstjórn, samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 20. janúar 2026, um skipan varafulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Félagsbústaða hf. Lagt er til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti varamanns í stjórn Félagsbústaða hf. í stað Helga Áss Grétarssonar.

    Samþykkt. MSS22060144

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 12. janúar 2026, með yfirliti yfir styrki mannréttindaráðs vegna verkefna á árinu 2026, ásamt fylgiskjölum. ÞON25100008 

    Fylgigögn

  15. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarstjóra, dags. 22. janúar 2026:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að flagga fána Grænlands við Ráðhús Reykjavíkurborgar til að sýna nágrönnum okkar táknræna samstöðu í anda vestnorrænnar samvinnu. Grænlenska fánanum verði flaggað við hlið íslenska fánans á fánastöngum norðvestan við Ráðhús Reykjavíkurborgar í samræmi við íslensk fánalög, næstu vikur.

    -    Kl. 11:18 víkur borgarstjóri af fundi og tekur sæti með rafrænum hætti.

    Frestað. MSS26010133

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. janúar 2026, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar 2026 á tillögu um breytingu á 12. grein reglna um styrkveitingar B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Steinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS25120086

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 14. janúar 2026, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar 2026 á samkomulagi UNICEF á Íslandi og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins Réttindaskóli og -frístund UNICEF og Réttindaskóli UNICEF á leikskólastigi, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Steinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22020013

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar styður þetta verkefni en minnir á að betra hefði verið að samþykkja tillögu Framsóknar í borgarstjórn í fyrra um að Reykjavík verði UNICEF barnvænt samfélag.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 14. janúar 2026, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar 2026 á samstarfs- og styrktarsamningi skóla- og frístundasviðs og RÚV um UngRÚV 2026-2028, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Steinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22120075

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmiðlalæsi er ein af meginstoðum lýðræðislegrar þátttöku en markmið samningsins er einmitt að styðja við unglingalýðræði og skapa vettvang fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi í samræmi við menntastefnu Reykjavíkurborgar. Að gefa unglingum tækifæri og vettvang til að láta raddir sínar heyrast og læra á fjölmiðlaumhverfi er í samræmi við nýja menntastefnu, m.a. með námskeiðum í tækni- og dagskrárgerð fyrir nemendur á unglingastigi grunnskóla, auk þess sem það er ómetanleg reynsla fyrir unglingana sjálfa. Hjarta þessa samstarfs er ekki síst samstarf um Skrekk – hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar og gerir þetta samstarf mögulegt að öll börn geti fylgst með úrslitakvöldi í þessu fyrirmyndarverkefni. Samningurinn samræmist innkaupareglum Reykjavíkurborgar líkt og borgarlögmaður hefur áður staðfest og samningurinn fellur undir þá starfsemi sem tilgreind er í 13. gr. innkaupareglna borgarinnar og fjárhæð samningsins er undir viðmiðunarfjárhæðum VIII. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þar til bærum þjónustusamningi stofnunarinnar við íslenska ríkið. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér eða annarra fjölmiðla. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundasvið að styrkja RÚV ohf. Ekki liggja fyrir skýrar talningar um áhorf á efnið sem framleitt hefur verið hingað til, það er á grundvelli fyrri samnings við RÚV sem nú stendur til að endurnýja. Vert er hér að hafa í huga víðtækt viðskiptasamband sem Reykjavíkurborg hefur haft við RÚV, samanber svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, lagt fram á fundi borgarráðs 24. júlí 2025 (MSS24050002). Það er því þörf á að rýna með gagnrýnum hætti viðskiptatengsl borgarinnar við RÚV og gæta varhug við áframhaldandi samningsgerð af þessum toga. Þetta á ekki síst við þegar aðrir valkostir halda áfram að vera ókannaðir, það er, gætu ekki aðrir fjölmiðlar sinnt þessu verkefni sem Reykjavíkurborg hyggst hér fjármagna?

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. janúar 2026, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 14. janúar 2026, á tillögu um aukið samstarf Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á sviði stafrænnar þróunar, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    -    Kl. 11:49 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundi og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti með rafrænum hætti.

    Óskar Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25110033

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samstarfssáttmála samstarfsflokkanna frá 21. febrúar 2025 er kveðið á um eftirfarandi: „Við viljum efla samstarf við ríki og önnur sveitarfélög um skilvirka nýtingu stafrænna lausna og notkun gervigreindar.“ Hér er verið að stíga skref í þessa átt með því að formgera og efla samstarf borgarinnar við Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur sveitarfélög um stafræn mál. Það er mikilvægt skref til framtíðar að efla samstarf opinberra aðila á milli og möguleikar á hagræði í því samhengi eru miklir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tillögu um aukið og formlegt samstarf Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á sviði stafrænnar þróunar. Slík samvinna getur skilað verulegum ávinningi, dregið úr tvíverknaði, aukið samræmi í þjónustu og styrkt sveitarfélögin gagnvart ríkisverkefnum og sameiginlegum stafrænum innviðum. Þó bendum við á að brýnt sé að samspil ákvörðunartöku og kostnaðar verði skýrara áður en skuldbindingar borgarinnar aukast. Til að tryggja eðlilegt jafnvægi þarf skýra stjórnskipan, gagnsæja kostnaðarskiptingu og reglur um fjármögnun breytinga og viðbótarkrafna. Það er forsenda þess að samstarfið verði bæði sanngjarnt og sjálfbært til lengri tíma.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að tilnefna Alexöndru Briem sem varamann í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur.
    Samþykkt. MSS23110125

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 04:00 til Lebowski bar aðfaranótt mánudagsins 9. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS26010102

  22. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. janúar 2026, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 03:30 til Vinnustofu Kjarvals aðfaranótt mánudagsins 9. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS26010094

  23. Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 15. janúar 2026, sbr. 1. lið fundargerðar endurskoðunarnefndar varðandi starfsskýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 12. janúar 2026, fyrir tímabilið 1. janúar 2024 til 1. júlí 2025, ásamt fylgiskjölum.

    Ingunn Ólafsdóttir og Kristín Henley Vilhjálmsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. IER25110007

    -    Kl.11:40 víkur borgarstjóri af fundi og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. janúar 2026, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að SORPU bs. verði heimilað að stofna tvö ný dótturfélög með takmarkaðri ábyrgð, nánar tiltekið Lok ehf. og Líf ehf., sem munu taka yfir efnahagslega starfsemi SORPU bs. Í því felst að Lok ehf. mun annast móttöku rekstrarúrgangs og rekstur urðunar og Líf ehf. mun annast rekstur GAJA og meðhöndlun lífræns úrgangs. Lögbundin starfsemi eigendasveitarfélaganna, þar með talin ábyrgð á farvegi úrgangs frá heimilum, verður áfram rekin innan SORPU bs. Með þessari útfærslu er sá rammi sem samið var um við ESA árið 2024 útfærður í framkvæmd, á grundvelli fyrri samþykkta eigenda.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Samþykkt. MSS26010109

    Fylgigögn

  25. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-nóvember 2025.

    Hörður Hilmarsson, Jónas Skúlason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25050057

  26. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 20. janúar 2026, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar telur afar brýnt að bregðast við fjárhagsstöðu Félagsbústaða og tryggja sjálfbæran rekstur félagsins þannig að hægt sé að styðja við efnaminna fólk í Reykjavík. Framsókn gagnrýnir þó harðlega að fjármunum sé ráðstafað með þessum hætti. Mikilvægt er að fjárhagsleg endurskipulagning Félagsbústaða sé byggð á gögnum og greiningum sem nú þegar liggja fyrir en meirihlutinn hefur hinsvegar ákveðið að hunsa þá greiningu sem starfshópur hefur skilað af sér og kynnt borgarráði, velferðarráði og stjórn Félagsbústaða. Á þessum fundi borgarráðs kemur einnig fram að þessi lækkun á fjárfestingaáætlun verður sótt í viðhaldsfjármuni grunn- og leikskóla auk þess sem fjármagn verður skorið niður til frágangs gatna í Vogabyggð.

    Hörður Hilmarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010024

    Fylgigögn

  27. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 20. janúar 2026, að viðauka við fjárfestingaáætlun 2025.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða tilfærslu á fjármagni í fjárfestingaáætlun ársins 2025, en vegna þess hvernig framvinda framkvæmda var á árinu er um að ræða fjármagn sem ekki var nýtt á tímabilinu, en þessi tilfærsla kemur ekki til með að hægja á þeim verkefnum á árinu 2026.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar gagnrýnir harðlega að meirihlutinn skuli skera niður fjármagn til viðhalds grunn- og leikskóla auk afar brýnna verkefna við yfirborðsfrágang gatna í Vogabyggð til þess að fjármagna Félagsbústaði með óútfærðum hætti. Eins og barnafjölskyldur í Reykjavík og starfsfólk grunn- og leikskóla vita þá er uppsöfnuð viðhaldsþörf í skólahúsnæði afar mikil og því fullkomlega óskiljanlegt að meirihlutinn skuli skera niður fjármagn til þeirra verkefna. Þá hafa íbúar í Vogabyggð ítrekað kvartað yfir því að enn sé ekki lokið frágangi gatna og göngustíga í þessu nýbyggingarhverfi.

    -    Kl. 12:26 víkur Líf Magneudóttir af fundi og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Hörður Hilmarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010013

    Fylgigögn

  28. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Viðreisnar um lagalega rýni á skýrslu verkefnahóps um Félagsbústaði, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. janúar 2026.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25110099

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 12. janúar 2026. MSS26010004

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 15. janúar 2026. MSS26010008

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. janúar 2026.
    8. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS26010020

    Fylgigögn

  32. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls átta mál (MSS26010006, MSS26010073, MSS26010073, MSS25020108, MSS24100050, MSS26010029, MSS26010097, MSS25110123). MSS25120150

    Fylgigögn

  33. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS26010048

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:40

Alexandra Briem Einar Þorsteinsson

Hildur Björnsdóttir Sabine Leskopf

Sanna Magdalena Mörtudottir Skúli Helgason

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 22.1.2026 - Prentvæn útgáfa