Borgarráð - Fundur nr. 5804

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 27. nóvember, var haldinn 5804. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Þór Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir, Stefán Pálsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Einar Þorsteinsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson. 
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2025, þar sem erindisbréf starfshóps til að hefja undirbúning að samstarfi við innviðafélag um þróun og uppbyggingu nýs íbúðahverfis í Höllum er sent borgarráði til kynningar.

    Ólöf Örvarsdóttir, Haraldur Sigurðsson, Margrét Lilja Gunnarsdóttur, Margrét Lára Baldursdóttir, Oddrún Helga Oddsdóttir og Stefanía Scheving Thorsteinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25100149

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við fögnum framgangi undirbúnings uppbyggingar íbúða í Úlfarsárdal í samstarfi við innviðafélag. Meginmarkmið aðgerðanna er að auka framboð húsnæðis og flýta innviðauppbyggingu í Reykjavík. Fyrirhuguð uppbygging, einkum í svokölluðum Höllum, svarar brýnni þörf á hagkvæmu og vistvænu húsnæði. Mikilvægt er að við skipulag svæðisins verði meginmarkmið aðalskipulags Reykjavíkur höfð að leiðarljósi um félagslega blöndun, vistvænar samgöngur, græn svæði og aðlaðandi göturými auk þeirra atriða sem nefnd eru í nýsamþykktri borgarhönnunarstefnu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja verulega hafa skort á vandaða stjórnsýslu í málinu á fyrstu stigum þess. Vísa fulltrúarnir til skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar um lóðasamninga borgarinnar við olíufélögin og þeirra úrbótatillagna sem þar voru lagðar fram. Telja fulltrúarnir að betur þurfi að rýna hvort fyrirliggjandi fyrirkomulag standist þau sjónarmið sem rakin voru í skýrslu innri endurskoðanda. Fulltrúarnir undirstrika þó ánægju með að fyrirhuguð sé frekari uppbygging á M22 í Úlfarsárdal en lýsa miklum efasemdum um þann mikla þéttleika sem ráðgerður er á svæðinu. Gögn málsins undirstrika að miðað við þéttleika í fullbyggðum núverandi hverfum (35 íbúðir á hektara), gætu rúmast innan svæðis M22 yfir 2.000 íbúðir sem gæti verið hæfileg stærð fyrir eitt grunnskólahverfi, ásamt tveimur leikskólum. Ef litið væri til meðalþéttleika við Leirtjörn og við Skyggnisbraut (50 íbúðir á hektara), mætti gera ráð fyrir rúmlega 2.900 íbúðum. Hér gerir borgarstjóri hins vegar ráð fyrir allt að 4.000 íbúðum á svæðinu sem verður að teljast verulega þétt miðað við núverandi byggð í hverfinu. Þá undirstrika fulltrúarnir mikilvægi þess að vandað verði til verka við skipulag hverfisins og að tryggð verði góð félagsleg blöndun.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er áhugaverð uppbygging sem Viðreisn fagnar enda var málið hafið m.a. undir stjórn Viðreisnar í borginni. Forsendur eru stórfelld efling almenningssamgangna, framtíðartenging við Borgarlínu ásamt styrkingu stofn- og tengibrauta. Tafir á framkvæmdum við samgöngumannvirki geta tafið uppbyggingu verulega. Verkefnið byggir á því að byggingarreiturinn seljist á markaði. Hækkandi vaxtastig, minnkandi eftirspurn eða aukinn byggingarkostnaður hafa áhrif og er ákveðin áhætta. Verkefnið byggir á mörgum samhliða ferlum: aðalskipulagsbreytingu, rammaskipulagi, samkeppnisviðræðum, útboðum og samningagerð. Einnig er áhættan pólitísk vegna tímalengdar og pólitískrar forgangsröðunar. Fleiri lykilspurningar vakna og þarf að vakta vel í ferlinu, s.s. hvaða innviðir þurfa að vera tilbúnir áður en hægt er að hefja úthlutun byggingarréttar? Tímalína fyrir aðalskipulagsbreytingu, rammaskipulag og deiliskipulög? Hvernig verður fösun innviða, skóla og íbúða tryggð þannig að þjónustustig fylgi uppbyggingu? Hvernig verður tryggt að ferlið sé gagnsætt og að jafnræði seljenda/aðila sé virt? Einnig vakna fjármálalegar spurningar, s.s. hvernig er áhættu og kostnaði skipt milli borgar og innviðafélags? Hvaða tryggingar eru fyrir því að byggingarréttur seljist í takt við áætlanir? Hvernig er brugðist við framúrkeyrslu í innviðaframkvæmdum? Viðreisn leggur áherslu á að verkefnið sé undirbúið vel og ekki verði slík tímapressa sett að áhætta sé á mistökum og hroðvirkni.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2025 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.240.2., Bankareits, vegna lóðarinnar nr. 120 við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25100343

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2025 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðis 1 í Vogabyggð vegna lóðarinnar nr. 1 við Stefnisvog, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25100467

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsbreytingin kveður á um fjölgun íbúða úr 60 í 72 þannig verður hægt að bjóða upp á fleiri minni íbúðir í samræmi við þá þörf sem er fyrir hendi. Breytingin endurómar þá stefnubreytingu að víkja frá stöðluðum viðmiðum um samsetningu íbúða og viðhafa aukna næmni gagnvart þörf á húsnæðismarkaði og þörf innan hverfanna fyrir íbúðaruppbyggingu. Brugðist er við ábendingum íbúa um fjölgun bílastæða, þeim er fjölgað úr 60 í 106. Einnig má nefna að bílastæðahús verður opið fyrir íbúa í hverfinu.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2025 á tillögu að reglum um bílastæðakort fyrir íbúa innan og við gjaldsvæði Bílastæðasjóðs, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25060150

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka jákvætt í að verið sé að endurskoða og víkka út reglur um íbúakort. Tillögurnar fela í sér aukinn sveigjanleika og bregðast að nokkru leyti við ábendingum íbúa, sérstaklega varðandi möguleikann á íbúakorti 2 og einfaldari skilyrðum um afnotaskipti þegar stæði eru í sameign. Slíkar breytingar eru til bóta. Þó teljum við að mikilvægar athugasemdir íbúa hafi ekki fengið nægilega umfjöllun. Það á sérstaklega við um afmörkun íbúakortasvæða, sem margir íbúar telja ranglega stillt eða ekki taka mið af raunverulegri notkun og aðstæðum í eldri hverfum. Þessi gagnrýni hefur verið áberandi í samráðsgátt og nauðsynlegt er að hún verði tekin til ítarlegri skoðunar, enda hefur hún bein áhrif á lífsgæði íbúa. Að auki teljum við 20.000 kr. á mánuði fyrir íbúakort 2, vera óhóflega hátt gjald og langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Gjaldtakan er í engu samræmi við raunverulegt framboð stæða í mörgum hverfum og getur reynst heimilum verulega íþyngjandi. Við teljum eðlilegt að gjaldið sé endurmetið og lækkað verulega.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. nóvember 2025 á tillögu að reglum fyrir bílastæðakort rekstraraðila innan gjaldsvæða Bílastæðasjóðs, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030096

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja reglur um bílastæðakort fyrir rekstraraðila. Með samþykkt þessara reglna kemst loks til framkvæmdar tillaga Sjálfstæðisflokksins frá 4. október 2023 um að rekstraraðilar, sem sinna beinni og daglegri nærþjónustu við íbúa á gjaldsvæðum Bílastæðasjóðs, t.d. rekstri hverfisverslana, verði gefinn kostur á að kaupa bílastæðakort samkvæmt gjaldskrá sjóðsins. Óviðunandi er hins vegar að það skuli hafa tekið rúm tvö ár að móta reglur þar að lútandi og koma áðurnefndri tillögu þar með til framkvæmdar.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2025 á tillögu að gjaldskrá fyrir íbúa- og rekstraraðilakort innan gjaldsvæða bílastæðasjóðs í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25060260

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. nóvember 2025, sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 13. nóvember 2025 og færð í trúnaðarbók, ásamt fylgiskjölum:

    Boðað hefur verið til reglulegs eigendafundar í Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. ákvæði 5.5. í sameignarsamningi um félagið, þann 14. nóvember nk. Samkvæmt grein 5.4. í sameignarsamningi hafa handhafar eigendavalds OR tillögu- og atkvæðisrétt á eigendafundum. Í samræmi við lið 4.4. í almennri eigandastefnu Reykjavíkurborgar þarf samþykki borgarráðs til beitingar réttinda eigandafyrirsvars vegna framlagðra tillagna. Eftirfarandi tillögur verða lagðar fram til afgreiðslu á eigendafundi OR þann 14. nóvember: 2. Arðsemisstefna. Til samþykktar. 3. Arðgreiðslustefna. Til samþykktar. 4. Áhættustefna. Til samþykktar (m.br.). Fyrir liggja umsagnir fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar um tillögur nr. 2, 3 og 4. Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur nr. 2, 3 og 4. Trúnaður ríkir um afgreiðslu borgarráðs og gögn málsins fram yfir eigendafund Orkuveitu Reykjavíkur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. MSS25110024

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og félags- og húsnæðismálaráðherra um uppbyggingu öryggisvistunarúrræða þar sem staðfestur er sameiginlegur vilji til að ráðuneytinu verði tryggð lóð undir öryggisvistunarúrræði og starfsemi því tengda á Hólmsheiði. Aðilar munu hvor um sig tilnefna tvo fulltrúa til að vinna að og framfylgja viljayfirlýsingunni og áhersla verður lögð á að formlegur samningur um úthlutun lóðarinnar verði gerður eigi síðar en í janúar 2026.

    Samþykkt. MSS25100148

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með þessari viljayfirlýsingu stígum við mikilvægt skref til að tryggja að öryggisvistunarúrræði verði að veruleika sem sveitarfélög hafa kallað eftir árum saman. Á grundvelli þessarar viljayfirlýsingar er gert ráð fyrir að á lóðinni á Hólmsheiðarsvæðinu rísi bygging á einni hæð undir starfsemi nýrrar fyrirhugaðrar ríkisstofnunar, Miðstöð um öryggisráðstafanir. Hlutverk stofnunarinnar verður að reka úrræði fyrir einstaklinga sem dæmdir hafa verið til þess að sæta öryggisráðstöfunum skv. dómsúrlausn í samræmi við ákvæði almennra hegningarlaga. Við byggingu húsnæðisins skal leggja áherslu á öruggar og tryggar aðstæður sem stuðla að því að endurhæfa þá einstaklinga sem þar vistast allt með það að markmiði að þeir geti aðlagast samfélaginu með tryggum hætti og tekið virkan þátt í því.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í úttekt á vegum GRECO (Samtök ríkja gegn spillingu á vegum Evrópuráðsins) sem beinist að sveitarfélögum á Íslandi sbr. hjálagt erindi frá dómsmálaráðuneytinu. Þátttaka í úttektinni er bundin því skilyrði að ekki falli annar kostnaður á Reykjavíkurborg en vinna starfsfólks.

    Samþykkt. MSS25100145

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa hjálögðum tillögum stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna til eftirfarandi meðferðar: Tillögum 1.1, 1.2, 1.3B, 1.3C, 1.3D, 1.4, 1.7, 1.8, 2.1, 2.3, 2.4, verði vísað til skóla- og frístundaráðs til frekari meðferðar. Tillögum 1.3A, 1.5B, 1.6A, 1.6, 2.2 og 3 verði vísað til velferðarráðs til frekari meðferðar.Tillögu 1.5A verði vísað til mannauðs- og starfsumhverfissviðs til frekari meðferðar. Sviðin hafi samráð sín á milli og við aðra viðeigandi aðila þar sem þess er þörf. Fjármögnun á einstökum verkefnum tekur mið af fjárhagsáætlun viðkomandi sviða hverju sinni.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Sabine Leskopf og Guðrún Halla Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25020124

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar fagnar góðum tillögum stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna. Hér er um að ræða margar góðar og þarfar tillögur sem kosta 187 milljónir kr. sem gera 251 milljón kr. á ársgrundvelli. Þetta eru miklir fjármunir sem þarf að halda vel utan um ef af verður. Borgarfulltrúi Viðreisnar hvetur til þess að dreginn verði fram sameiginlegur vettvangur sem heldur utan um verkefni sem snýr að verkefnum barna og ungmenna og er tilvalið að verkefnið betri borg fyrir börn verði þar í forgrunni. Einnig leggjum við áherslu á að verkefnið verði unnið í nærumhverfi barna og foreldra þeirra.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2025, þar sem erindisbréf starfshóps um Græna planið – heildarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS22030045

    Fylgigögn

  12. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. nóvember 2025, varðandi frumvarp að fjárhagsáætlun og uppfærða þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010023

    Fylgigögn

  13. Lagðar fram breytingartillögur Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna, dags. 27. nóvember 2025, við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010023

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa eftirfarandi tillögum, sem byggja á innsendum álitum sem komu frá starfsmönnum og íbúum í gegnum samráðsgátt Reykjavíkurborgar um betri nýtingu á tíma og fjármunum Reykjavíkurborgar, til meðferðar fagráða og miðlægrar stjórnsýslu. Mótaðar tillögur sem byggja á þessum álitum eða öðrum sem fagráð samþykkja verði lagðar fyrir borgarráð eigi síðar en 15. febrúar 2026. Fjárhagslegum ávinningi verði varið til hagræðingar í rekstri Reykjavíkurborgar eða í mikilvæg stefnumótandi verkefni á sviðum í samræmi við forgangsröðun borgarstjórnar. Tillögurnar skiptast með eftirfarandi hætti niður á fag- og kjarnasvið og miðlæga stjórnsýslu: Skóla- og frístundasvið: 1. Umsjónarmenn fasteigna sjái um að þjónusta skóla í stað verktaka. 2. Skoða samlegð í stjórnun félags- og frístundamiðstöðva. 3. Betri nýting á húsnæði leik- og grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. 4. Innkaup verði innan rammasamninga og mögulega í gegnum miðlægt vöruhús. Velferðarsvið: 1. Endurskoða matsviðmið fyrir heimaþjónustu/stuðning. 2. Aukinn samrekstur í sólarhringsúrræðum. 3. Endurskoða samkomulag við ríkið vegna hjúkrunarheimila og stuðning við dagdvalir. Umhverfis- og skipulagssvið: 1. Bæta eftirfylgni með rammasamningum. 2. Fara í aðgerðir til að minnka nagladekkjanotkun. 3. Draga úr útvistun og endurskoða ráðgjafa- og verktakakaup. 4. Fjárfesta í aukinni LED væðingu og uppfæra ljósastýringakerfi. Menningar- og íþróttasvið: 1. Fara í greiningu á rekstri skíðasvæða með hagræðingu að leiðarljósi. 2. Rýna upplýsinga- og markaðsmál á sviðinu og skoða samlegð og aukið hagræði. Fjármála- og áhættustýringarsvið: 1. Rafræn skil á kvittunum vegna innkaupa. 2. Endurskoða ráðgjafakaup og verkkaup og tryggja samningsstjórnun. 3. Rýna samrekstur á bílaflota Reykjavíkurborgar með græn viðmið að leiðarljósi. 4. Endurskoða ferla varðandi ferðaheimildir og gera afgreiðslu stafræna. Þjónustu- og nýsköpunarsvið: 1. Nýta gervigreind á markvissan hátt til að spara tíma og kostnað. 2. Rýna samlegð og samnýtingu framlínuþjónustu. 3. Rýna fyrirkomulag ræstinga. Mannauðs- og starfsumhverfissvið: 1. Minnka veikindahlutfall og kulnun starfsfólks í allri starfsemi borgarinnar. 2. Endurskoða mannauðsstefnu til að draga úr starfsmannaveltu. 3. Innleiða stjórnendastefnu. Miðlæg stjórnsýsla: 1. Rýna nýtingu á skrifstofuhúsnæði borgarinnar. 2. Rýna hvaða tækifæri liggja í fjölbreyttari og hagkvæmari ferðamáta fyrir starfsfólk. 3. Rýna mönnun og skipulag verkefna með hagræði að leiðarljósi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25040003

    -    Kl. 11:43 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundi. 
    -    Kl. 11:45 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar furðar sig á seinagangi í vinnu með tillögur um hagræðingu sem fóru í opið samráðsferli í mars á þessu ári. Hér eru lagðar fram margar fínar tillögur, margir gamlir kunningjar þar en engin tekjutillaga sem Viðreisn lagði inn í samráðið, meirihlutinn hefur greinilega lítinn áhuga á að auka tekjur sínar og minnka þannig rekstrarkostnað borgarinnar og lýsum við okkar áhyggjum yfir því áhugaleysi vinstriflokkanna. Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur áherslu á að tækifæri til hagræðingar innan kerfis borgarinnar eru mörg og mikilvægt að stoppa aldrei þann þrýsting og þann rekstrarlega fókus sem slíkar hagræðingar kalla á.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg til Brynju leigufélags ses. vegna: 50 leiguíbúða: Kaupáætlun 2026, áætlað stofnvirði 3.993.679.930 kr. og 12% stofnframlag 479.241.592 kr. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 12. nóvember 2025.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25060026

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að stofnað verði sérstakt stuðningsteymi sem muni styðja við stjórnendur á starfsstöðum Reykjavíkurborgar þar sem veikindafjarvistir eru miklar en einnig aðstoða stjórnendur við útfærslu á mönnun m.t.t. starfsemi og mannafla. Lagt er til að fjárheimildir mannauðs- og starfsumhverfissviðs hækki um 41 m.kr. vegna þessa og tillögunni verði vísað til frágangs fjárhagsáætlunar fyrir 2026. Á móti kæmi vænt kostnaðarlækkun vegna virkari fjarvistastjórnunar, á bilinu 480-800 milljónir króna á ári, auk þess sem minni veikindafjarvistir draga úr þjónustuskerðingu og minnka álag almennt á starfsfólk og stjórnendur. Mikilvægt er að stjórnendur fái aukinn stuðning við að draga úr veikindafjarvistum sem og stuðning við að skoða hvernig megi nýta fjármagn og mannafla á sem hagkvæmastan máta þannig að það styrki starfsemina.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25110114 
    Vísað til borgarstjórnar.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Ásta Bjarnadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tryggja áframhaldandi rekstur stuðnings- og ráðgjafateymis og fjárheimildir mannauðs- og starfsumhverfissviðs hækki um 10 m.kr. frá og með 2026. Tillögunni verði vísað til frágangs fjárhagsáætlunar fyrir 2026. Stuðnings- og ráðgjafateymið fór af stað vorið 2024 sem ein af aðgerðum í fyrstu heilsustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg. Á þeim tíma var aðgerðin ekki að fullu fjármögnuð en síðan stuðnings- og ráðgjafateymi tók til starfa hefur komið í ljós rík þörf fyrir slíkan stuðning fyrir allt starfsfólk og stjórnendur sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Mikilvægt er því að tryggja starfsemi teymisins áfram og því lagt til að fjármagna rekstur þess að fullu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25110115
    Vísað til borgarstjórnar.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Ásta Bjarnadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. nóvember 2025, varðandi starfs- og fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2026, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. nóvember 2025.
    Vísað til borgarstjórnar. MSS25110094

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. nóvember 2025, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samanlagðan kostnað vegna framkvæmda og viðhalds í Fossvogsskóla, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. september 2025. MSS25090115

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. nóvember 2025, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins um kostnað við túlkaþjónustu, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. október 2025. MSS25100097

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 17. nóvember 2025. MSS25010004

    Fylgigögn

  22. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 30. júní og 25. ágúst 2025. MSS25010028

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. nóvember 2025.
    6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  24. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls níu mál (MSS25010005, MSS25110094, MSS25010043, MSS24120085, MSS25110085, MSS25110078, MSS25110077, USK25090023, MSS25100020). MSS25100132

    Fylgigögn

  25. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25110004

    Fylgigögn

  26. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2025 í máli nr. E-5511/2024 – Vesturbugt ehf. gegn Reykjavíkurborg. MSS24090160.

  27. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til stjórnar Strætó bs. að bæta aðgengi og auka tíðni almenningssamgangna að Hinu húsinu við Rafstöðvarveg. MSS25110123

    Frestað.

Fundi slitið kl. 12:10

Dóra Björt Guðjónsdóttir Einar Þorsteinsson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Marta Guðjónsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 27.11.2025 - prentvæn útgáfa