Borgarráð - Fundur nr. 5803

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 20. nóvember, var haldinn 5803. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einar Þorsteinsson og Hildur Björnsdóttir tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2025, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 530 m.kr. í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 44 1 á ávöxtunarkröfunni 3,65% en það eru um 536 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 19. nóvember 2025.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 09:08 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og tengist fjarfundarbúnaði.

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010003

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. nóvember 2025 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts III, Hólahverfi, Norðurdeild, vegna reits við Suðurhóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Hjördís Sóley Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25040245

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við vinnu hverfisskipulags Breiðholts, sem unnið var í miklu samráði við íbúa, var reiturinn við Suðurhóla skilgreindur sem þróunarreitur þar sem uppbygging yrði útfærð síðar. Hér er lagt til að byggja 40 íbúðir í raðhúsum og sérhæðum við Suðurhóla með áherslu á vandaðan arkitektúr, grænt yfirbragð og gæði íbúða. 49 bílastæði fylgja reitum. Unnið er vel með landslagið og form þess. Byggðin verður aðlögunarhæf þar sem íbúar geta mótað íbúðirnar og stækkað eftir þörfum. Vistgata liðast um svæðið sem skilur eftir grænt og barnvænt umhverfi á meginþorra svæðisins. Skapa á góð græn almenningsrými á borgarlandi að norðan og vestan og nýta á áfram leiktækin sem staðsett eru á svæðinu en þau verða flutt til á tvö ný leiksvæði á hinu nýja uppbyggingarsvæði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna áformum um uppbyggingu raðhúsa í Breiðholti en lítið hefur borið á uppbyggingu húsagerða af þeim toga síðustu árin. Fulltrúarnir lýsa þó áhyggjum af því að þéttleiki reitsins verði of mikill. Leggja fulltrúarnir áherslu á að hugað verði að sjónarmiðum nágrennis við uppbygginguna og að tryggð verði gæði þess græna svæðis sem verður skipulagt samhliða.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar fagnar því að byggð séu raðhús í Breiðholti enda fegrar ný byggð jafnan eldri hverfi. Framsókn hefur þó áhyggjur af þéttleika og fjölda bílastæða og hvetur til þess að þegar uppbyggingaraðilar óska eftir því að fá að fjölga stæðum í bílakjallara að þá verði tekið vel í þá ósk. Annars er hætta á því að bílum verði lagt í stæði annarra í hverfinu. Mikilvægt er að tryggja að leiktæki sem þegar eru á svæðinu verði áfram aðgengileg börnum í hverfinu og hugað vel að því að halda grænum svæðum aðgengilegum.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. nóvember 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík frá 2007 um ráðstöfun á landi undir starfsemi Háskólans í Reykjavík.
    Frestað. USK25110157

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. nóvember 2025, varðandi áfangaskýrslu Græna plansins fyrir júlí 2024-júní 2025, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 9:30 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Hulda Hallgrímsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23120114

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 14. nóvember 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 12. nóvember 2025 á heimild til að halda áfram með verkefnið Stafrænt vinnuafl (sjálfvirknivæðing verkferla), ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON24050039

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmið verkefnisins er að innleiða sjálfvirka ferla á öllum sviðum borgarinnar og sýna hvernig má nýta tæknina til að leysa verkefnin og auka enn frekar skilvirkni í starfsemi borgarinnar. Áætlaður ábati þessarar fjárfestingar upp á 7 m.kr. eru 210 m.kr., fyrst og fremst vegna tímasparnaðar í vinnu starfsfólks.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að þau verkefni sem þjónustu- og nýsköpunarsvið vinnur fyrir önnur svið, og stafrænt ráð samþykkir, sýni fram á að fjárhagslegur ábati endurspeglist í fjárhagsáætlunum viðkomandi sviða.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 14. nóvember 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 12. nóvember 2025, á heimild til að hefja verkefnið Námsumsjónarkerfi grunnskóla - fyrsti fasi, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25100081

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að þau verkefni sem þjónustu- og nýsköpunarsvið vinnur fyrir önnur svið, og stafrænt ráð samþykkir, sýni fram á að fjárhagslegur ábati endurspeglist í fjárhagsáætlunum viðkomandi sviða.

    Fylgigögn

  7. Lagður fram dómur Landsréttar, dags 13. nóvember 2025, í máli nr. 880/2024. MSS24010129

  8. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 10. nóvember 2025. MSS25010004

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. nóvember 2025. MSS25010007

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. nóvember 2025.
    8. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  11. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls fimm mál (MSS25010023, MSS24100050, MSS25010045, MSS25110058, MSS25110057). MSS25100132

    Fylgigögn

  12. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25110004

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Magnús Svein Helgason, Katrínu Jakobsdóttur, Steinar Inga Kolbeinsson og Oliver Nordquist sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefnd Menntaskólans við Sund 2025-2029, sbr. hjálagða beiðni mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þess er óskað að Katrín Jakobsdóttir og Steinar Ingi Kolbeinsson, verði skipuð sem aðalfulltrúar í nefndinni og að Magnús Sveinn Helgason og Oliver Nordquist, verði skipaðir varafulltrúar í nefndinni.

    Samþykkt. MSS25060124

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 10:29.

Dóra Björt Guðjónsdóttir Einar Þorsteinsson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Sanna Magdalena Mörtudottir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 20.11.2025 - prentvæn útgáfa