Borgarráð
Ár 2025, fimmtudaginn 25. september, var haldinn 5795. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson, Róbert Marshall og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. september 2025, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 756 m.kr. í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 44 1 á ávöxtunarkröfunni 4,0%, þar af eru 56 m.kr. að nafnvirði greiddar í skiptiútboði með bréfum í RVK 32 1. Markaðsvirði nýrrar lántöku nemur 699 m.kr. Ennfremur er lagt til að samþykkt verði tilboð að nafnvirði 955 m.kr. í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1 á ávöxtunarkröfunni 8,45%. Markaðsvirði nemur 427 m.kr. Samanlagt markaðsvirði nýrrar lántöku er 1.126 m.kr. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 24. september 2025.
Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 9:06 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson, Jónas Skúlason og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010003
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar, dags. 25. september, fyrir janúar-júlí 2025.
Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson, Jónas Skúlason og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25050057
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. september 2025, sbr. vísun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. september 2025 á skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags Heiðmerkur og umsögnum sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar, ásamt fylgiskjölum.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Hrönn Valdimarsdóttur, Drífu Árnadóttur og Ragnheiði Sigvaldadóttur sem taka sæti með rafrænum hætti. USK24030262
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Heiðmörk er stærsta og fjölsóttasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Fjöldi fólks á öllum aldri sækir Mörkina reglulega til að njóta náttúrunnar og kynnast gróðri, dýralífi, tjörnum, vötnum og jarðmyndunum. Greiður aðgangur almennings að grænum svæðum hefur ómetanlegt gildi fyrir lýðheilsu og menntun. Í fyrirliggjandi skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk kemur fram að takmarka eigi stórlega aðgang almennings að Heiðmörk í nafni vatnsverndar. Ekkert bendir hins vegar til þess að núverandi útivist á svæðinu hafi neikvæð áhrif á vatnsgæði. Með slíkri breytingu væri almennur réttur borgara til að njóta stærsta útivistarsvæðis höfuðborgarsvæðisins takmarkaður verulega. Innarlega í Heiðmörk eru mörg falleg svæði sem langt er að sækja fótgangandi. Margir unnendur svæðisins eiga ekki auðvelt með gang. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að unnt sé að tryggja gæði neysluvatns án þess að skerða stórlega aðgang almennings að Heiðmörk. Fyrirhugaðar lokanir, þar sem loka á öllu grannsvæði vatnsverndar fyrir bílaumferð, orka tvímælis. Ófullnægjandi kynning og rökstuðningur fyrir takmörkunum á aðgangi að Heiðmörk hefur þegar haft neikvæð áhrif, t.d. vegna skipulagðra ferða skólabarna, sem erfitt er að sjá að ógni vatnsvernd. Tryggja verður greiðan aðgang að friðlandinu í Heiðmörk hér eftir sem hingað til. Óviðunandi væri að takmarka slíkan aðgang eins og nú virðist vera stefnt að.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. september 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf samráðshóps um Heiðmörk. Hlutverk hópsins er að tryggja að hugað sé að hagsmunum íbúa, nærsamfélags og helstu hagaðila varðandi deiliskipulag Heiðmerkur, vera til stuðnings og ráðgjafar við deiliskipulagsgerðina til að tryggja öryggi grunnvatns, skógræktar og að svæðið nýtist áfram til útivistar.
Samþykkt.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25090108
Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Stofnun þessa hóps vekur furðu því meirihlutinn felldi í borgarstjórn 3. júní tillögu Framsóknar um nákvæmlega sama mál – að stofnaður verði stýrihópur um framtíðarsýn Heiðmerkur í ljósi áforma Veitna um að stækka mjög vatnsverndarsvæðið og takmarka mjög aðgengi almennings að Heiðmörk. Framsókn gagnrýnir harðlega vandræðaleg vinnubrögð meirihlutans í þessu máli enda hefði verið eðlilegast að samþykkja tillögu Framsóknar og hefja vinnuna strax. Þar var hið sama lagt til, að fulltrúar allra flokka í borgarstjórn fengju aðkomu að málinu og gætu átt í milliliðalausu samtali við alla hagaðila til að tryggja bæði útivist og vatnsvernd.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. september 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. september 2025 á að forkynna drög að aðalskipulagsbreytingu ásamt drögum að umhverfismati Sundabrautar, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram trúnaðarmerkt umhverfisskýrsla Eflu, dags. 6. september 2025.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Haraldi Sigurðssyni sem tekur sæti með rafrænum hætti. Borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23090007
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Drög að aðalskipulagsbreytingu og umhverfismati fyrir Sundabraut liggja fyrir og eru nú samþykkt til forkynningar. Í kjölfarið verða haldnir fundir í þeim hverfum borgarinnar sem verkefnið snertir mest. Ekki er búið að ákveða endanlegan valkost fyrir verkefnið. Verkefnið byggir á viljayfirlýsingu ríkis og borgar frá 2021. Þar kemur fram að samhliða undirbúningi verði skoðaðar líklegar breytingar á dreifingu umferðar og hvernig bregðast megi við mögulegum neikvæðum áhrifum á íbúðahverfi á áhrifasvæði Sundabrautar og mikilvægt er að það sé hluti af verkefninu að vinna mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að tryggja þann valkost sem fer sem mýkstum höndum um hverfi og íbúa borgarinnar. Lagt er upp með að huga að aðgengi gangandi og hjólandi. Aðgengi almenningssamgangna um Sundabraut er algjört lykilatriði. Verði niðurstaðan sú að Sundabrú verði fyrir valinu eru aðilar sammála um að efna til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um mannvirkið.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir góða kynningu á drögum að breytingu á aðalskipulagi vegna Sundabrautar. Þar kemur skýrt fram hversu brýnt er að ráðast í framkvæmdina. Rannsóknir sýna að Sundabraut muni skila verulegum samfélagslegum ábata og er ein hagkvæmasta samgöngubótin sem hægt er að ráðast í á landinu. Framkvæmdin mun bæta umferðarflæði, draga úr álagi í Ártúnsbrekku og á Vesturlandsvegi og þar með minnka tafir, sem aftur dregur úr útblæstri og mengun.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Framsóknar fagnar þessum áfanga í gerð Sundabrautar. Allt kjörtímabilið hefur verið unnið hörðum höndum að því að undirbúa umhverfismat og breytingu á aðalskipulagi, greina valkosti vegna leiðarvals og tryggja gott upplýsingaflæði til íbúa. Í því skyni hefur starfað samráðshópur með fulltrúum íbúa þar sem hvert skref í vinnunni hefur fengið ítarlega kynningu. Framsókn leggur mikla áherslu á að góður gangur verði áfram í verkefninu enda um afar brýna framkvæmd að ræða sem mun skila miklum samfélagslegum ábata og bæta umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Ártúnsbrekku og á Vesturlandsvegi.
Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar þakkar fyrir góða kynningu á drögum að breytingu á aðalskipulagi vegna Sundabrautar. Félags- og hagfræðigreining sýnir að Sundabraut muni skila verulegum þjóðfélagslegum ábata og er ein hagkvæmasta samgöngubótin sem hægt er að ráðast í á landinu. Framkvæmdin mun bæta umferðarflæði, draga úr álagi í Ártúnsbrekku og á Vesturlandsvegi og þar með minnka tafir, sem aftur dregur úr útblæstri og mengun. Afar brýnt er því að ráðast í framkvæmdina sem fyrst og að núverandi tímaáætlanir standist. Málið hefur verið til umfjöllunar í áratugi en í dag er undirbúningur kominn lengra en nokkru sinni áður.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. september 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. september 2025 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, Nauthólsvegar 50-52, ásamt fylgigögnum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24110089
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. september 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. september 2025 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar og skilgreiningu nýrra lóða, ásamt fylgigögnum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25090065
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sumarið 2023 sendi Isavia þrjú erindi til Reykjavíkurborgar með ósk um minniháttar breytingar á skipulagi í því skyni að auka öryggi á Reykjavíkurflugvelli. Erindin varða breytingar á deiliskipulagi vegna nýrra aðflugsljósa við vesturenda flugvallarins, lítils háttar færslu á eldsneytisgeymum innan flugvallarins, og uppsetningu á myndavélamastri fyrir fjarturn á flugvellinum. Óhæfilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu áðurnefndra erinda. Hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað óskað eftir að úr því verði bætt og umrædd erindi lögð sem fyrst fyrir umhverfis- og skipulagsráð til umfjöllunar og afgreiðslu. Ánægjulegt er að fyrirliggjandi tillaga felur m.a. í sér afmörkun lóðar fyrir umrætt myndavélamastur. Æskilegt er að önnur erindi Isavia um skipulagsbreytingar í þágu flugöryggis hljóti afgreiðslu sem fyrst.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Framsóknar styður eindregið að Isavia fái afmarkaðan reit í skipulagi til þess að reisa turn fyrir fjarstýrða flugumferðarstjórn. Brýnt er að tryggja rekstraröryggi flugvallarins enda gegnir hann lykilhlutverki í samgöngum fyrir landið allt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um lóðastækkun og uppbyggingu á lóðinni Álfabakka 8, ásamt fylgiskjölum.
Frestað.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25030023
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. september 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi milli Reykjavíkurborgar, Kópavogs, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar um svæðisbundið farsældarráð í samræmi við 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna ásamt drögum að starfsreglum ráðsins. Borgarstjóra verði jafnframt veitt umboð til undirritunar samnings og starfsreglna fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Til upplýsinga eru einnig meðfylgjandi drög að skipuriti ráðsins. Þann 15. september samþykkti stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrirliggjandi drög að samningi og starfsreglum ráðsins sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu senda nú til afgreiðslu á vettvangi sveitarfélaganna.
Samþykkt. MSS25090096
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. september 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki áframhaldandi samstarf um framkvæmd rannsóknarinnar Reykjavík Index á Íslandi fyrir árið 2025 í samræmi við meðfylgjandi samning. Kostnaður við rannsóknina fyrir árið 2025 er 920.000 kr. og verður fjármagnaður af kostnaðarstað 09516, þróun og nýsköpun.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. MSS25080077
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt bréf borgarstjóra, dags. 23. september 2025, varðandi samningsstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í virðismatsvegferð Sambandsins, ríkisins og Kennarasambands Íslands, ásamt fylgiskjölum.
Lóa Birna Birgisdóttir og Rakel Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS25090001
-
Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2471/2024, dags. 16. september 2025. MSS24030146
-
Lagt fram bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. 19. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarstjórn taki brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til afgreiðslu, ásamt fylgiskjölum.
Vísað til borgarstjórnar. MSS25090099Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. september 2025, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við hverfadaga borgarstjóra, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. september 2025. MSS25090056
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun borgarstjóra að taka 10 milljónir króna úr borgarsjóði til að fjármagna heimsóknir sínar í hverfin í aðdraganda kosninga. Jafnframt eru gerðar athugasemdir við að borgarstarfsmenn verji 4800 vinnustundum í heimsóknirnar en eðlilegra væri að vinnustundunum starfsfólks yrði varið í þjónustu við borgarana. Telja fulltrúarnir um að ræða verulega ámælisverða misnotkun á almannafé og mannauði borgarinnar í persónulegum pólitískum tilgangi.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkana fagna því að borgarstjóri eigi í samtali við íbúa í hverfum borgarinnar. Áralöng hefð er fyrir þessum hverfafundum með íbúum og kostnaði við þá er haldið í algjöru lágmarki.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. ágúst 2025, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu stafrænna verkefna, sbr. 37. liðar fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2024. MSS24110043
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins um afslátt af gatnagerðargjöldum við byggingu bílastæðakjallara, sbr. 22. liðar fundargerðar borgarráðs frá 18. september 2025.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25090088Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Framsóknar gagnrýnir harðlega afgreiðslu meirihlutans í þessu máli. Bílakjallarar eru góð leið til þess að mæta væntingum íbúa um bílastæði, draga úr fjölda bíla á yfirborði og gefur því frekar tækifæri á því að auka gróður í götum og mannvæn hverfi. Að tuttugufalda gatnagerðargjöld á bílakjallara til þess að þrýsta uppbyggingaraðilum í að byggja frekar bílastæðahús ofanjarðar er óskynsamleg stefnumótun og tekur ekki mið af íslenskum raunveruleika.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ákvörðun um hækkun gatnagerðargjalda var tekin af þáverandi borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni, og afgreidd í borgarstjórn í embættistíð hans. Það er ábyrgðarleysi að koma svo eftir á og slá sig til riddara með breytingartillögum á þegar samþykktum gatnagerðargjöldum þegar honum og flokknum hans var í lófa lagið að færa þessa afslætti inn á sínum tíma. Hringlandaháttur af þessu tagi er engum til sóma sem vill láta taka sig alvarlega í stjórnmálum og sýna ábyrgð.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgarfulltrúi Framsóknar hafnar alfarið þeirri fullyrðingu að hafa lagt til og samþykkt tuttugufalda hækkun gatnagerðargjalda á bílastæðakjallara. Slík ákvörðun var aldrei rædd né kynnt í þeim meirihluta sem Framsókn leiddi. Afnám afsláttarins er framkvæmd af núverandi meirihlutaflokkum og gengur gróflega gegn hagsmunum borgarbúa.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að fulltrúi Framsóknarflokks leggi nú til afslætti af gatnagerðargjöldum sem hann sjálfur felldi niður sem borgarstjóri. Batnandi mönnum er best að lifa.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. september 2025.
4. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 17. september 2025. MSS25010007
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð Strætó bs. frá 12. september 2025. MSS25010029
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál (MSS25010023, MSS25090100, MSS25090078, MSS25090086, MSS25010043, MSS24100050, USK25090143, MSS25090042, MSS25090089, MSS25090087). MSS25090002
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25090005
Fylgigögn
-
Lagt fram leiðrétt bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi viðauka vegna Álfabakka 7, ásamt fylgiskjölum, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. september 2025.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090037Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera ekki athugasemdir við framlengda atvinnustarfsemi á lóðinni. Fulltrúarnir standa þó við þá almennu afstöðu að ekki skuli taka til afgreiðslu mál sem varða rammasamkomulag borgarinnar við olíufélögin meðan beðið er skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um samningana. Með samningunum veitti þáverandi borgarstjóri olíufélögum gjaldfrjálsar heimildir til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á lóðum eldsneytisstöðva, að því skilyrði uppfylltu að starfsemi stöðvanna yrði lögð niður. Hafa samningarnir hlotið töluverða gagnrýni enda óvenjulegt að byggingarheimildir séu afhentar án endurgjalds í borgarlandinu. Er þess vænst að skýrsla innri endurskoðunar muni varpa ljósi á lögmæti samninganna og hvort þáverandi borgarstjóri hafi gætt að bestu hagsmunum borgarbúa og borgarsjóðs við samningsgerðina. Í ljósi þess að skýrslan liggur ekki fyrir sitja fulltrúarnir hjá við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Lagt fram leiðrétt bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi viðauka vegna Álfheima 49, ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. september 2025.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090038Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera ekki athugasemdir við framlengda atvinnustarfsemi á lóðinni. Fulltrúarnir standa þó við þá almennu afstöðu að ekki skuli taka til afgreiðslu mál sem varða rammasamkomulag borgarinnar við olíufélögin meðan beðið er skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um samningana. Með samningunum veitti þáverandi borgarstjóri olíufélögum gjaldfrjálsar heimildir til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á lóðum eldsneytisstöðva, að því skilyrði uppfylltu að starfsemi stöðvanna yrði lögð niður. Hafa samningarnir hlotið töluverða gagnrýni enda óvenjulegt að byggingarheimildir séu afhentar án endurgjalds í borgarlandinu. Er þess vænst að skýrsla innri endurskoðunar muni varpa ljósi á lögmæti samninganna og hvort þáverandi borgarstjóri hafi gætt að bestu hagsmunum borgarbúa og borgarsjóðs við samningsgerðina. Í ljósi þess að skýrslan liggur ekki fyrir sitja fulltrúarnir hjá við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um samanlagðan kostnað við framkvæmdir, viðhald og endurbætur á Fossvogsskóla síðustu ár vegna vandamála tengdum raka, myglu og annars viðhalds. Jafnframt er óskað upplýsinga um áætlaðan kostnað við sambærilegar framkvæmdir sem hugsanlega eru fyrirhugaðar eða enn ólokið.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. MSS25090115
Fundi slitið kl. 11:14
Líf Magneudóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir
Einar Þorsteinsson Hildur Björnsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 25.9.2025 - prentvæn útgáfa