Borgarráð - Fundur nr. 5793

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 11. september, var haldinn 5793. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2025 ásamt  skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. september 2025, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 11. september 2025, og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 11. september 2025, verkstöðuskýrslu nýframkvæmda fyrir janúar-júní 2025 og umsögn innri endurskoðunar, dags. 1. september 2025.

    -     Kl 9:04 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

    Hörður Hilmarsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Jónas Skúlason og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS25080016

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B-hluta, var jákvæð um 5,1 milljarða króna sem var 4,7 milljörðum betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2024. Rekstrarniðurstaða var 1,6 milljarði króna betri en áætlað var. Rekstur A-hluta er í jafnvægi, einungis 47 m. kr yfir fjárheimildum.  Þar vega langþyngst áhrif kjarasamninga sem skila sér í mun hærri gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga en áætlanir gerðu ráð fyrir. Heilt yfir er rekstur Reykjavíkurborgar í góðu jafnvægi. Veltufé frá rekstri er mun sterkara en áætlanir gerðu ráð fyrir og jákvæð teikn á lofti um það geti haldið áfram að styrkjast þegar líður á árið

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirliggjandi árshlutauppgjör gefur vísbendingar um áframhaldandi lausatök í rekstri borgarinnar. Grunnreksturinn er neikvæður á fyrstu sex mánuðum ársins þrátt fyrir að rekstrartekjur aukist um 8,9 milljarða milli ára. Skýringuna má finna í gríðarlegum útgjaldavexti en rekstrargjöld aukast um 11,8 milljarða króna milli ára og fara 5 milljarða umfram áætlun. Ef litið er til samstæðu borgarinnar er ljóst að ef ekki væri fyrir matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða sem nema tæpum 7,3 milljörðum króna væri rekstrarniðurstaða samstæðu neikvæð sem nemur 2,2 milljörðum. Veikindahlutföll í borgarkerfinu valda áhyggjum enda kostnaður af veikindum starfsmanna numið rúmlega 6 milljörðum árlega síðustu ár. Veikindahlutfall á leikskólum er 10% og taka fulltrúarnir undir með fjármála- og áhættustýringarsviði að stöðuna þurfi að greina svo grípa megi til aðgerða, enda geti árangur við lækkun veikindahlutfalla skilað verulegum fjárhagslegum ávinningi í rekstri og aukinni vellíðan starfsmanna.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Leitt er að sjá að þrátt fyrir hátt í 5 milljarða rekstrarafgang á síðasta ári sýnir þetta hálfs árs uppgjör tæplega 50 milljóna króna tap en áætlun ársins gerir ráð fyrir 438 milljóna afgangi. Miðað við góðan rekstrarafgang síðasta árs í A-hluta ætti að vera greið leið að því marki að skila góðum afgangi af rekstri á þessu ári eins og áætlun gerir ráð fyrir. Áhyggjuefni er að sjá umtalsverð frávik séu í rekstri velferðarsviðs. Einnig er mikið áhyggjuefni að sjá veikindahlutfall starfsmanna leikskóla í 10% og mikilvægt að borgin efli aðgerðir til þess að bæta starfsaðstæður og aðrar mannauðsaðgerðir til þess að ná niður veikindahlutfalli. Tekjur borgarinnar hafa aukist talsvert miðað við sama tímabil síðasta árs og ljóst að mati borgarfulltrúa Framsóknar að miklir möguleikar eru á því að styrkja enn rekstur borgarinnar. Ráðast þarf í skipulagsbreytingar, forgangsraða fjármunum í lögbundna þjónustu og skapa svigrúm til þess að draga úr lántöku vegna þeirra miklu fjárfestinga sem borgin þarf að fjármagna. Á endanum er markmiðið að bæta þjónustu við borgarbúa en það gerum við ekki nema sýna mikla ábyrgð í rekstri borgarinnar.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 9. september 2025, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025.
    Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Hörður Hilmarsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Jónas Skúlason, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS25010024

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssvið, dags. 3. september 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. september 2025 á tillögu á því að hafinn verði undirbúningur að því að Reykjavíkurborg taki þátt í Náttúruborgarsamningi Berlínar, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Benedikt Traustason tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25080284

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2025, varðandi skýrslu starfshóps um hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu og tillögur starfshópsins, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Freyr Eyjólfsson, Bryndís Björnsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Hjalti Jóhannes Guðmundsson og Kamma Thordarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24050066

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. september 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. september 2025 um hækkun tekjumarka í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL25080047

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að hækka tekjumörk í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Þetta er gert í kjölfar þess að frítekjumörk húsnæðisbóta hækka frá og með 1. september í kjölfar breytinga á örorkulífeyriskerfinu þannig að hækkanir leiði ekki til skerðinga á húsnæðisstuðningi. Reykjavíkurborg aðlagar hér með reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og hækkar tekjumörkin. Samstarfsflokkunum finnst mikilvægt að uppfæra reglur borgarinnar til samræmis við breytingar hjá ríkinu.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að sameiginlegum samningi sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2026-2028. Borgarstjóra verði jafnframt veitt umboð til undirritunar samnings fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Þann 1. september sl. samþykkti stjórn SSH fyrirliggjandi drög að samningi sem SSH sendir nú til afgreiðslu á vettvangi sveitarfélaganna.

    Samþykkt. MSS25090007

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. september 2025, sbr. samþykkt forsætisnefndar frá 29. ágúst 2025 varðandi reglur um fjarfundi, ásamt fylgiskjölum. MSS25070098

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um breytingu á samþykkt endurskoðunarnefndar. MSS23010279

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi forsætisnefndar þann 29. ágúst sl. var lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar vegna tillögu að breytingum á 5. tl. 1. mgr. 2. gr. samþykktar fyrir endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar ásamt erindi borgarritara og minnisblaði borgarlögmanns. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar sem samþykkti tillöguna á fundi sínum þann 2. september sl. Svo óheppilega vildi til að í þeim gögnum sem lögð voru fram á fundi borgarstjórnar fylgdu óuppfærð drög að textabreytingu þar sem fyrri hluti töluliðsins hefur fallið út í lokafrágangi skjalsins. Ákvæðið var rétt tilgreint í erindi borgarritara. Ákvæðið sem var samþykkt á fundinum var svohljóðandi: „Veita borgarráði og borgarstjórn umsögn um tillögu ráðgefandi hæfnisnefndar við ráðningu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar.“ Ákvæðið á að vera svohljóðandi í samræmi við bréf borgarritara: „Setja fram tillögu til borgarstjórnar um val á ytri endurskoðendum og gera umsögn um skýrslu ráðgefandi hæfnisnefndar um umsækjendur um starf innri endurskoðanda.“ Óskað er eftir að forsætisnefnd vísi meðfylgjandi leiðréttingu að breytingu á samþykkt endurskoðunarnefndar til þóknanlegrar meðferðar borgarstjórnar um leið og beðist er velvirðingar á mistökunum

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að rétt verði staðið að ráðningu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar og að við ráðninguna verði farið eftir lögum og góðum stjórnarháttum. Óska fulltrúarnir þess að endurskoðunarnefnd komi á næsta fund borgarráðs svo sjónarmið nefndarinnar komi fram í málinu.

  9. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 5. september 2025. MSS25010004

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 26. maí 2025. MSS25010028

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. september 2025.
    7. liður fundargerðinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  12. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál (MSS25010044, MSS25010021, MSS25010023, USK25060043, MSS25090031, MSS25090020, MSS25090030, MSS25010042, MSS25010042, MSS25090034, MSS25090011, MSS24100050). MSS25090002

    Fylgigögn

  13. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25090005

    Fylgigögn

  14. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að taka upp símatíma og gefa almenningi kost á því að hafa beint samband við starfsfólk eftirlitsins. Starfsfólk eftirlitsins skal í símatímunum geta veitt helstu upplýsingar og leiðbeiningar varðandi verkefni embættisins líkt tilgreint er í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

    Frestað. MSS25090055

  15. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að gera úttekt á starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og starfsháttum starfsmanna þess. Helsti tilgangur slikrar úttektar væri að tryggja samræmi í túlkun laga og reglugerða og jafna meðferð gagnvart þjónustuþegum af hálfu eftirlitsins sbr. 11 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

    Frestað. MSS25090055

  16. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til Heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar að vinna verklagsreglur um fastan tímaramma í svörun og úrvinnslu erinda til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skulu verklagsreglurnar vera í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um skjótar ákvarðanir í málum, tryggja að erindum sé svarað vel og tímanlega og skilvirka úrvinnslu umsókna. Í verklagsreglunum skal einnig gætt að því að ákvarða tímafresti þannig að úrvinnsla erinda til heilbrigðiseftirlitsins valdi ekki sérstökum töfum í úrvinnslu samhangandi erinda viðkomandi embætta svo sem sýslumanni, byggingarfulltrúa eða skrifstofu borgarstjórnar.

    Frestað. MSS25090055

  17. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að gerð verði árleg þjónustukönnun á þjónustu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skulu niðurstöður könnunarinnar nýtar til mælanlegrar umbóta og framþróunar í störfum heilbrigðiseftirlitis Reykjavíkur.

    Frestað. MSS25090055

  18. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um þann kostnað sem fellur á skattgreiðendur vegna fundaraðar borgarstjóra í hverfum Reykjavíkurborgar sem hefst átta mánuðum fyrir kosningar. Óskað er upplýsinga um allan kostnað sem fylgir fundaröðinni, þar með talið en ekki takmarkað við, kostnað við markaðssetningu, efni á samfélagsmiðlum, veitingar, aðstöðuleigu og yfirvinnu starfsfólks. Jafnframt er óskað upplýsinga um þann samanlagða fjölda vinnustunda sem starfsfólk borgarinnar, að borgarstjóra meðtöldum, mun verja í heimsóknirnar. MSS25090056

Fundi slitið kl. 11:15

Líf Magneudóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Einar Þorsteinsson Hildur Björnsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 11.9.2025 - prentvæn útgáfa