Borgarráð - Fundur nr. 5792

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 4. september, var haldinn 5792 fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra sem tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson, Róbert Marshall og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda við breytingar á Korpuskóla, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun er 300 m.kr.

    -     Kl. 09:04 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt.

    Guðni Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25020337

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðsókn í Klettaskóla er mikil og hefur skólinn ekki rúmað alla nemendur sem hafa sótt um að komast í hann enda tekur hann við nemendum frá öllu landinu. Það er því fagnaðarefni að ráðist sé í breytingar á Korpuskóla til að anna eftirspurninni eftir sérskólavist í Reykjavík. Brýnt er að ráðast í frekari uppbyggingu sérskóla svo ekki þurfi að synja nemendum um skólavist sem sannarlega eiga rétt á því að sækja sér nám í umhverfi sem hæfir þeim. Þá má halda því til haga að verið er að rýna framtíðarfyrirkomulag á uppbyggingu sérskóla á höfuðborgarsvæðinu hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar styður að ráðist verði í þessar framkvæmdir á Korpuskóla enda hafa þær verið í undirbúningi um langt skeið og þegar gert ráð fyrir þeim á fjárfestingaáætlun sem unnin var í fyrra. Þörfin fyrir þessi pláss er afar brýn eins og sést á því að 26 börnum var synjað um skólavist í Klettaskóla núna í haust.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda við breytingar á Hlöðunni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, ásamt fylgiskjölum.
    Frestað.

    Guðni Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25060043

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda við breytingar á Gerðubergi 3-5, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun er 70 m.kr.
    Samþykkt.

    Guðni Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK25090007

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að fundist hafi farsæl leið til að koma fyrir mikilvægri starfsemi frístundastarfs ungmenna í Breiðholti í Gerðubergi 1-3. Það er mikilvægt að samnýta húsnæði borgarinnar þvert á svið eins og gert hefur verið hér í lausnamiðuðu samstarfi skóla- og frístundasviðs og menningar- og íþróttasviðs. Stjórnendum og starfsfólki Borgarbókasafns er sérstaklega þakkað fyrir sinn þátt í að ná þessari niðurstöðu. Mikilvægt er að skapa unglingum góða aðstöðu.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar fagnar því að komið sé að framkvæmdum í þessu mikilvæga verkefni sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Afar mikilvægt er að tryggja óraskaða starfsemi frístundastarfs í hverfinu.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar fagnar því að farið sé í aðgerðir í Gerðubergi til að bregðast við þeirri stöðu sem þar er uppi í málefnum ungmenna. Að það sé lagður forgangur á að börnin hafi góðan áfangastað er lykilatriði í þessari framkvæmd sem við treystum á að verði haft að leiðarljósi.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 4. júlí 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki endurnýjun á samningi Reykjavíkurborgar við Samtökin ´78 til þriggja ára, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. september 2025.
    Samþykkt.

    Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25070012

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í þessum nýja samningi við Samtökin  ´78 er verið að hækka framlögin til þeirra fyrir mikilvæga fræðslu um hinseginleikann og aftur er tekin upp fræðsla fyrir 3. bekk grunnskóla og fræðsla til starfsfólks leikskóla. Markmið Samtakanna ´78 er að vinna að sýnileika og viðurkenningu hinsegin fólks og berjast fyrir því að það njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Samtökin leitast við að breyta fordómum, hroka og andúð í garð hinsegin fólks í viðurkenningu, sátt og mannvirðingu. Þetta eru einnig markmið Reykjavíkurborgar sem finna má m.a. í mannréttindastefnunni sem var samþykkt af borgarstjórn 2016 og unnið hefur verið eftir æ síðan.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðresinar fagnar því að tryggt sé að fræðsla Samtakanna ´78 geti hafist með nýju móti, á tímum sem þessum er fræðsla lykilþáttur í að byggja betra samfélag fyrir öll.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. september 2025, varðandi samþykkt menningar- og íþróttaráðs frá 22. ágúst 2025 á styrkjum til borgarhátíða Reykjavíkurborgar 2026-2028, ásamt fylgiskjölum.

    Steinþór Einarsson og Arnfríður S. Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR25080008

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. september 2025:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að styrkja Hinsegin daga/Reykjavík Pride um 2 m.kr. úr styrkjapotti borgarráðs 2025. Styrkurinn verði tekinn af kostnaðarstað 09301. Heildarframlag Reykjavíkurborgar til Hinsegin daga 2026 verður þá 12 m.kr., 7.m.kr. koma úr samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við Hinsegin daga og 3. m.kr. koma úr sérstakri fjárveitingu menningar- og íþróttasviðs.

    Samþykkt. MSS25090021

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. ágúst 2025, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025 á samstarfssamningi við Móðurmál, samtök um tvítyngi, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Steinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23090177

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Móðurmálskennsla er mikilvægur þáttur í þroska og lífi barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna tekur skýrt fram að öll börn skuli hafa rétt til eigin móðurmáls og menningar. Mikilvægt er að börn hafi aðgang að þessari þjónustu óháð efnahag foreldra og geti þess vegna nýtt frístundakort Reykjavíkurborgar til að stunda aðrar frístundir til jafns við börn sem hafa einungis íslensku sem móðurmál. Þessi samningur er afrakstur samtals við Móðurmál, samtök um tvítyngi, og Pólska skólans sem nú eru með sameiginlegan rekstur. Samningurinn felur í sér að Reykjavíkurborg greiðir Móðurmáli 10 m.kr. vegna barna á aldrinum þriggja til sextán ára með lögheimili í Reykjavík sem stunda nám hjá samtökunum á samningstíma þessa samstarfssamnings. Markmiðið er að stuðla að frekari þróun starfsemi samtakanna og vinna að því að fjölga tungumálum sem hægt er að kenna á vegum samtakanna Móðurmál með það að markmiði að jafnræði gildi milli barna í Reykjavík af erlendum uppruna.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar styður áframhaldandi farsælt samstarf við Móðurmál enda skiptir móðurmálskennsla barna af erlendum uppruna afar miklu máli. Slík kennsla styður við nám sömu barna í íslensku og því er þetta allra hagur.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samningur við Móðurmál er lykilþáttur í menntaumhverfi Reykjavíkurborgar þegar litið er til borgarinnar í alþjóðlegu samhengi. Mikilvægi barns að halda færni í sínu móðurmáli og vinna að tvítyngi er grunnþáttur að horfa til þegar fjölskyldur flytja milli landa. Samningurinn styrkir okkur í þessari þróun og það er vel.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dag. 28. ágúst 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 27. ágúst 2025 á heimild til að hefja verkefnið „Nýtt fjárhagskerfi. Dýpri greining“, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25080011

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dag. 28. ágúst 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 27. ágúst 2025 á heimild til að hefja verkefnið „Innri þjónustugátt“, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25080012

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dag. 28. ágúst 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 27. ágúst 2025 á heimild til að hefja verkefnið „Notendamiðuð gervigreindaraðstoð á vef“, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25080010

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dag. 28. ágúst 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 27. ágúst 2025 á heimild til að hefja verkefnið „Þýðingar 3.0 – Framtíð vélstuddra þýðinga og túlkunar“, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25070217

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 28. ágúst 2025. MSS25010008

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. september 2025.
    8. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  14. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls þrjú mál (MSS25080074, MSS24100050, MSS24110156). MSS25090002

    Fylgigögn

  15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25090005

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 10:16

Líf Magneudóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Einar Þorsteinsson Hildur Björnsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 04.09.2025 - prentvæn útgáfa