Borgarráð - Fundur nr. 5788

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 24. júlí, var haldinn 5788. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Alexandra Briem, Einar Þorsteinsson, Kjartan Magnússon, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ágúst Ólafur Ágústsson, Ívar Vincent Smárason og Theodór Kjartansson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 22. júlí 2025, varðandi framþróun í málaflokki fatlaðs fólks, ásamt greiningu HLH um málaflokk fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg, dags. í janúar 2025.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Rannveig Einarsdóttir, Halldóra Káradóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Arnar Haraldsson og Ragnheiður Agnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Borgarfulltrúarnir Friðjón R. Friðjónsson, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25060104

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hlutverk Reykjavíkurborgar sem sveitarfélags er að leggja grunn að auknum lífsgæðum borgarbúa til lengri og skemmri tíma. Í þjónustu við fatlað fólk hefur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verið borginni leiðarljós en í honum felst viðurkenning á fjölbreytileika mannlífsins og því að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vinnur stöðugt að framþróun í málaflokknum og stöðugt er leitað leiða til að bæta þjónustu, auka hagkvæmni og fagmennsku. Fyrir fundinum lá greining á fjárhagslegum þáttum málaflokksins, kynning á skipulagsbreytingum frá upphafi árs og verkefni sem unnið er með Bloomberg. Markmið þess er m.a. að minnka veikindi og álag á starfsfólk og auka fagmennsku og gæði þjónustunnar. Velferðarsvið hefur þegar hafið innleiðingu skipulagsbreytinga sem er ætlað að auka gæði þjónustu við fatlað fólk með því að einfalda stjórnskipulag og ákvarðanatöku, skýra verkaskiptingu og auka jafnræði þjónustunnar. Tillögum úr fjárhagslegri greiningu er vísað til meðferðar innan ráða og sviða borgarinnar. Samstarfsflokkanir árétta að mikilvægt er að greina útgjaldaliði og tryggja hagkvæmni en á sama tíma að forðast að líta á manneskjur með fjölbreyttar þarfir út frá kostnaði einum saman. Málaflokkurinn er enn vanfjármagnaður af hendi ríkisins og mikilvægt er að úr því verði leyst hið fyrsta.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skýrslan er greinargóð og gagnleg og geymir ýmsar góðar tillögur en líka tillögur sem borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hugnast síður. Sumar tillagnanna þarf að skoða betur að mati borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem höfðu afar takmarkaðan tíma til að kynna sér skýrsluna og tillögur hennar. Að sama skapi var ekki hægt vegna tímamarka fundarins að fara ofan í kjölinn á hverri tillögu með skýrsluhöfundum þó borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi svo sannarlega gert tilraun til þess. Fyrir vikið er torvelt fyrir borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að taka upplýsta afstöðu til ágæti tillagnanna og samþykkja frekari vinnslu þeirra í heild sinni.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eitt af fyrstu verkum nýs borgarstjóra í síðasta meirihluta var að setja af stað djúpa greiningu á málaflokki fatlaðs fólks enda hafði hann verið rekinn með miklum halla undanfarin ár og mikilvægt að rýna tækifæri til úrbóta. Á grundvelli greiningar HLH var í upphafi þessa árs gripið til mikilvægra skipulagsbreytinga sem voru grunnur að frekari aðgerðum sem birtast hér í 67 tillögum. Til stóð að leggja fram skýrsluna og innleiða fleiri aðgerðir en við meirihlutaskiptin færðist forræði málsins til nýs meirihluta. Framsókn hefur beðið með óþreyju fregna af afdrifum þessarar mikilvægu skýrslu og þeirra tillagna sem lágu á borðinu. Afar brýnt er að ráðist sé í þær tillögur sem birtast í greiningunni enda sýnir hún fjölmörg tækifæri til betri rekstrar og bættrar þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Borgarfulltrúi Framsóknar samþykkir afgreiðslu málsins en óttast að nýr meirihluti muni ekki ráðast í þær aðgerðir sem er vísað til meðferðar velferðarráðs, velferðarsviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eitt af fyrstu verkefnum meirihluta Viðreisnar, Framsóknar, Pírata og Samfylkingar var að setja af stað ítarlega rýni á málaflokki fatlaðs fólks. HLH ráðgjöf vann úrbótatillögur og nú er skýrslan gerð opinber en aðgerðir hófust strax í upphafi ársins undir stjórn fyrrum meirihluta og er hér lögð fram og búið að aðgerðabinda tillögur. Skýrslan gefur gríðarlega gott yfirlit yfir áskoranir og tækifæri sem borgin stendur frammi fyrir nú 14 árum eftir að málaflokkurinn kom yfir til sveitarfélaga. Í skýrslunni eru 67 tillögur lagðar fram til úrbóta og dregið er fram að kostnaður borgarinnar hefur aukist mikið umfram fjölgun notenda. Stöðugildum hefur fjölgað á hvern notenda undanfarin ár og er kostnaður Reykjavíkurborgar um 20% hærri en hjá öðrum sveitarfélögum. Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur áherslu á að tillögur til úrbóta fái algjöran forgang innan borgarinnar og verði framkvæmdar og innleiddar hið snarasta. Um er að ræða mikið framfaramál enda geta breytingar sem lagt er til að farið verði í skilað verulegum ávinningi hvað varðar þjónustugæði og rekstur málaflokksins. Verði það gert má snúa við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur í rekstri málaflokksins á síðustu árum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Ekki er rétt að tala um „óheillaþróun“, eins og um sé að ræða slaka stjórn málaflokksins af hálfu borgarinnar. Það eru vissulega tækifæri til að nýta fjármuni betur, en staða málaflokksins er fyrst og fremst til komin vegna þess að honum hefur ekki fylgt eðlilegt eða nægjanlegt fjármagn frá ríkinu þegar verkefnið var flutt, eða þegar lögum var breytt á þann hátt að þjónusta væri aukin. Auk þess má taka fram að Reykjavíkurborg sinnir ákveðnu höfuðborgarhlutverki í málaflokknum og hefur viljað standa sig í því hlutverki að veita þessa mikilvægu þjónustu með viðunandi hætti.

    Fylgigögn

  2. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók. MSS25050052

  3. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júlí 2025, varðandi breytingar á reglubundnum skólaakstri frá upphafi skólaársins 2025-2026, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 12:30 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti.

    Samþykkt.

    Steinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS25040090

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á gasmengun á höfuðborgarsvæðinu.

    Svava S. Steinarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 13:00 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum. MSS25070078

  5. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 24. júlí 2025, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025. Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Samþykkt að bera viðaukana upp í fimm liðum.
    1. liður; Hjallastefnan - fjölgun nemenda, er samþykktur.
    2. liður; Landakotsskóli - einskiptisgreiðslur, er samþykktur.
    3. liður; sumarstörf fyrir 17 ára, er samþykktur.
    4. liður; skipulagsbreytingar á þjónustu- og nýsköpunarsviði, er samþykktur.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    5. liður; skipulagsbreytingar á mannauðs- og starfsumhverfissviði, er samþykktur.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið er fullnaðarafgreitt á vettvangi borgarráðs með vísan til heimilda í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. FAS25010024

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. júlí 2025, varðandi forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2026-2029, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25070022

    Fylgigögn

  7. Lagt fram leiðrétt bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. júlí 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní 2025 á tillögu um reglur um bílastæðakort fyrir deilibíla og deilibílakort, sbr. 16. lið borgarráðs frá 10. júlí 2025, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. USK23060327

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. júlí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Alexöndru Briem borgarfulltrúa, Bolla Thoroddsen, Helgu Þórðardóttur borgarfulltrúa og Magnús Geir Kjartansson sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefnd Menntaskólans í Reykjavík 2025-2029 sbr. hjálagða beiðni mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þess er óskað að Alexandra Briem og Bolli Thoroddsen verði skipaðir aðalfulltrúar í nefndinni og að Helga Þórðardóttir og Magnús Geir Kjartansson verði skipaðir varafulltrúar.

    Samþykkt.
    Kjartan Magnússon víkur af fundinum undir þessum lið. MSS25060124

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 21. júlí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð hafni beiðni SORPU bs. um tímabundin afnot af lóðinni sem hverfastöð Breiðholts stendur á undir endurvinnslustöð með vísan til umsagna fjármála- og áhættustýringarsviðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

    Samþykkt. MSS25020032

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. júlí 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að endurnýjuðum samningi Reykjavíkurborgar við Háskóla Íslands um fjárframlag að upphæð 3 m.kr. árlega vegna samstarfs um þróun og rekstur samfélagshraðalsins Snjallræðis, þar sem sjálfbærar lausnir fyrir umhverfi og samfélag eru í forgrunni. Samningurinn gildir til tveggja ára. Kostnaðurinn verður færður af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS22010044

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. júlí 2025, varðandi leiðrétt erindisbréf starfshóps samvinnuvettvangs til höfuðs misnotkunar vinnuafls, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júlí 2025, ásamt fylgiskjölum. MSS25070028

    Fylgigögn

  12. Lagt fram leiðrétt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. júlí 2025, með umsögn innkaupa- og framkvæmdaráðs vegna tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samvinnuvettvang til höfuðs misnotkunar vinnuafls, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. júní 2025. MSS24090173

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. júlí 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tengsl Reykjavíkurborgar og Ríkisútvarpsins, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2024. MSS24050002

    Fylgigögn

  14. Lagðar fram fundargerðir menningar- og íþróttaráðs frá 20. og 27. júní. MSS25010020

    Fylgigögn

  15. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 19. júní og 10. júlí 2025. MSS25010008

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. apríl 2025. MSS25010028

    Fylgigögn

  17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál (MSS25010023, MSS22030265, MSS25070046, MSS25070006, MSS25070047, MSS25070043, MIR24070001, MSS24100035, MSS23070018). MSS25070004

    Fylgigögn

  18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25070025

    Fylgigögn

  19. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg komi til móts við athugasemdir íbúa fjölbýlishússins Árskóga 1-3 vegna lagningar göngustígs við húsið. Framkvæmdir verði stöðvaðar við stíginn á meðan fundað verði með íbúunum og sátta leitað við þá um málið.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. MSS25070090

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 13:15

Alexandra Briem Einar Þorsteinsson

Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 24.07.2025 - Prentvæn útgáfa