Borgarráð - Fundur nr. 5769

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 16. janúar, var haldinn 5769. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Andrea Helgadóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf Faxaflóahafna, dags. 14. janúar 2025, varðandi uppfærða stefnu félagsins, ásamt fylgiskjölum.

    Gunnar Tryggvason og Inga Rut Hjaltadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Skúli Helgason og Stefán Pálsson.

    -    Kl. 9.11 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði. MSS24120036

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á mögulegum trjáfellingum í Öskjuhlíð vegna erindis Samgöngustofu til Reykjavíkurborgar, dags. 27. maí 2024.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Glóeyju Helgudóttur Finnsdóttur sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK23080128

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og það er því mikið áhyggjuefni að flugbraut hafi verið lokað tímabundið. Sömuleiðis er Öskjuhlíð dýrmætur borgargarður sem stendur undir mikilvægum lífsgæðum borgarbúa. Reykjavíkurborg hefur nýlega fellt tré í Öskjuhlíð samkvæmt því verklagi sem tíðkast hefur á undanförnum árum. Isavia og Samgöngustofa óska þess að 1.400 tré verði felld á um 5 hekturum í Öskjuhlíð. Slíka ákvörðun þarf að byggja á skýrum lagaheimildum þar sem skógurinn er mikilvægt útivistarsvæði, nýtur hverfisverndar, svæðið er á náttúruminjaskrá og framkvæmdin líklega framkvæmdaleyfisskyld. Auk þess er framkvæmdin kostnaðarsöm og þarf að liggja ljóst fyrir hvar ábyrgð á þeim kostnaði liggur. Viðbrögð borgarinnar eru að lýsa yfir skýrum vilja til að tryggja flugöryggi og rekstrarhæfi flugvallarins, en þó þarf að liggja fyrir að meðalhófs sé gætt við svo umfangsmikið inngrip í dýrmætan borgargarð. Í því skyni hefur borgin óskað skýrs rökstuðnings frá Isavia og Samgöngustofu svo undirbyggja megi ákvörðun og viðbragð borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa áhyggjum af þeim farvegi sem flugöryggismál Reykjavíkurflugvallar eru nú komin í. Fyrir liggur sú afstaða Samgöngustofu, að loka skuli annarri tveggja flugbrauta Reykjavíkurflugvallar sem allra fyrst, í ljósi þess að borgin hafi ekki ráðist í nauðsynlegar trjáfellingar í Öskjuhlíð. Öryggi þeirra sem ferðist í lofti sé hreinlega í húfi. Lokun annarrar flugbrautar Reykjavíkurflugvallar mun sannarlega hafa lamandi áhrif á innanlandsflug og því óskiljanlegt að meirihlutinn hafi hleypt málinu í þennan farveg. Leita þarf að farsælli lausn án tafar enda skal öryggi fólks ávallt vera sett í fyrsta forgang. Samhliða þarf að leita að farsælli lausn á trjágrisjun í Öskjuhlíð, án þess að vegið sé of freklega að því mikilvæga útivistarsvæði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sennilega er fátt annað hægt að gera en að fjarlægja þessi háu tré og setja lægri tré og trjágróður í stað þeirra sem fjarlægð eru eins og t.d. lauftré, birki, reynivið, selju, hlyn eða gullregn. Allt tegundir koma til greina sem ekki vaxa beint upp heldur líka til hliðar sem gerir það að verkum að auðvelt er að hindra hækkun þeirra sem ekki er hægt að gera þegar um sitkagreni er að ræða. Mörgum þykir þetta miður en flugöryggi verður ávallt að ganga fyrir. Fram kemur í erindinu frá Isavia að í undangengnu samkomulagi milli ríkis og borgar um framtíð og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hefur verið ákvæði um að fara þurfi í trjáfellingar í Öskjuhlíð en Reykjavíkurborg hefur aðeins framkvæmt lítinn hluta af því verkefni. Nú er svo komið að trjágróður í Öskjuhlíð er farinn að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13 og ekki er hægt að una við það.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kröfur þær sem settar hafa verið fram um stórfelldar trjáfellingar í Öskjuhlíð vekja ýmsar spurningar um eðlilega og góða stjórnsýslu. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur áherslu á að Reykjavíkurborg standi í lappirnar í málinu og standi vörð um hagsmuni náttúrunnar og eins mikilvægasta og gróðursælasta útivistarsvæði borgarinnar.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. maí 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. maí 2024 á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.1 Ártúnsholt vegna lóðarinnar nr. 9 við Straum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23120094

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. janúar 2025, yfir alþjóðleg rannsókna- og nýsköpunarverkefni hjá Reykjavíkurborg og yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa frá júní 2022 til desember 2023.

    Kristín Þorleifsdóttir og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25010086

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Beinn fjárhagslegur ávinningur borgarinnar af alþjóðasamskiptum er áætlaður um einn milljarður á síðustu fimm árum. Þessi áætlun er auðvitað bara einhver tala út í loftið því það er eiginlega vonlaust að áætla skammtíma eða langtíma fjárhagsleg áhrif af þátttöku borgarfulltrúa og eða embættismanna á einhverjum fundum eða ráðstefnum út í heimi. Ef ferðir eru styrktar af alþjóðlegum sjóðum er sjálfsagt að mæta til leiks. Með tilkomu internetsins er hægt að að fylgjast með straumum og stefnum, þróun og nýsköpun og öllu mögulegu öðru eftir atvikum. Það byggist á hverjum og einum stjórnmálamanni og starfsmönnum hversu mikinn áhuga þeir hafa á að afla sér þekkingar, miðla þekkingu og innleiða hana í sitt starf. Einnig með tilkomu tækni er auðvelt að vera í samstarfi. Hér er ekki verið að gera lítið úr mikilvægi þess að fara á staðinn í þeim tilfellum þar sem verið er að ræða viðkvæm mál sem kallar á nærveru og nánd aðila. Almennt er það mat fulltrúa Flokks fólksins að margar ferðir sem farnar eru skila þegar upp er staðið afar takmörkuðu öðru en upplifun þess sem fer.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um Evrópustyrk til að meta loftslagsáhrif uppbyggingar.

    Kristín Þorleifsdóttir og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS21120238

  6. Lagt fram yfirlit fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. desember 2024, yfir ferðakostnað miðlægrar stjórnsýslu, fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs júní 2022 til des. 2023. MSS24050055

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. desember 2024, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um utanlandsferðir og ferðakostnað kjörinna fulltrúa, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2024. MSS24030050

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja alþjóðasamstarf sannarlega geta haft mikla þýðingu fyrir Reykjavíkurborg en telja þó mikilvægt að ferðalög hafi skýran tilgang og ávinning fyrir borgina. 

    Fylgigögn

  8. Afgreiðsla og bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók borgarráðs. MSS25010084

  9. Lagt fram bréf velferðsviðs, dags. 9. desember 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. desember 2024, varðandi tillögu um breytingar á reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með þeirri breytingu að gildistaka miðast við 1. janúar 2025.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Heiða Björg Hilmisdóttir og Rannveig Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. VEL24110063

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á grundvelli þess að innleiðingartímabilið samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í lögum nr. 38/2018 er nú lokið. Miðað er við að fjöldi nýrra samninga miði við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Mikilvægt er að framlengja gildistíma reglnanna þannig að ekki verði rof í þjónustu og áfram er stefnan að mæta þörf fyrir fjölgun NPA samninga. Hins vegar er reglugerð frá félagsmálaráðuneyti ekki komin og enn er ósamið um framtíðarfjármögnun málaflokksins. Um leið og þau mál skýrast þarf að taka upp reglur um NPA að nýju.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð samþykkir breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á grundvelli þess að innleiðingartímabilið samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í lögum nr. 38/2018 er nú lokið. Miðað er við að fjöldi nýrra samninga miði við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Velferðarráð telur mikilvægt að framlengja gildistíma reglnanna þannig að ekki verði rof í þjónustu og leggur áherslu að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar endurspegli þörfina á fjölgun NPA samninga. Hins vegar er reglugerð frá félagsmálaráðuneyti ekki komin og enn er ósamið um framtíðarfjármögnun málaflokksins. Um leið og þau mál skýrast þarf að taka upp reglur um NPA að nýju.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar telja mikilvægt að framlengja gildistíma reglnanna þannig að ekki verði rof í þjónustu en geta alls ekki tekið undir að árlegur fjöldi nýrra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Fjárhagsáætlun hefur hingað til ekki gert ráð fyrir því að allir samningar verði fjármagnaðir. Hér er um að ræða þjónustu sem fólk á rétt á. Það er ekki góður bragur á að skorast undan og bera fyrir sig kostnað þegar kemur að lagalegum rétti fólks, á sama tíma og reikningar borgarinnar sem íbúar hafa ekki haft ráð á að greiða eru sendir til innheimtu hjá innheimtufyrirtækjum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á grundvelli þess að innleiðingartímabilið samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í lögum nr. 38/2018 er nú lokið og hefur verið samþykkt af velferðarráði. Mikilvægt er að ekki verði rof í þjónustu. Framundan eru örugglega fleiri breytingar á þessum reglum eftir því hvernig fram vindur. Ekki er hægt að taka undir það að árlegur fjöldi nýrra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Fjárhagsáætlun hefur hingað til ekki gert ráð fyrir því að allir samningar verði fjármagnaðir. Hér er um að ræða þjónustu sem fólk á rétt á.

    Áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tryggja þarf að fólk sem hefur verið samþykkt fyrir NPA aðstoð fái hana og að fjárhagsáætlun geri ráð fyrir því. Nú eru breytingar á reglunum sem kveða á um að NPA samningar borgarinnar miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Nú þegar eru um 40 manns á biðlista í Reykjavík eftir NPA aðstoð sem eiga rétt á henni. Reykjavíkurborg ber skylda samkvæmt lögum til að veita þjónustuna. Þessar breytingar á reglunum, með því að miða úthlutun við fjárhagsáætlun hvers árs, kann að leiða af sér að færri fái mat um NPA þjónustu því ekki verði gert ráð fyrir fullfjármögnun þjónustunnar við vinnslu fjárhagsáætlunar. Það er ekki breyting til batnaðar í þessari mikilvægu þjónustu við fatlað fólk.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. janúar 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar 2025, á tillögu um endurskoðaða aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Heiða Björg Hilmisdóttir og Rannveig Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. VEL25010024

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn fagnar uppfærslu á aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Aðgerðaráætlunin tekur mið af því að þjónusta borgarinnar mæti fólki þar sem það er statt hverju sinni með aukinni þrepaskiptingu í þjónustunni og tryggi að viðeigandi þjónusta sé til staðar fyrir fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir með skaðaminnkun að leiðarljósi. Áfram verður lögð áherslu á samvinnu við ríkið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins um kostnaðarþátttöku og áframhaldandi uppbyggingu í málaflokknum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og tryggja að nægt húsnæði og gistirými sé til staðar sem og viðeigandi stuðningur, þannig að ekki sé beðið til lengdar. Þá er mikilvægt að hægt sé að aðlaga stefnuna og aðgerðaáætlun í þessum málum ef þörf er á. Það þarf að hlusta á raddir þeirra með beina reynslu af vinnunni og af þjónustunni þegar stefnumótun er gerð.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða tillögu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir um nýja aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt árið 2019 en aðgerðaráætlunin með henni  fór síðan tveimur árum síðar í endurskoðun. Margt hefur áunnist svo sannarlega, 29 aðgerðum er lokið. Fimm eru í ferli. Flokkur fólksins vísaði tveimur tillögum til stýrihópsins, annarri um aukinn opnunartíma neyðarskýla. Flokkur fólksins lagði líka til að bæta og efla heilbrigðisþjónustu við þennan hóp. Í kjölfar samtals við ríki samþykkti  ráðuneytið að ráðstafa 30 m.kr. til að tryggja heimilislausu fólki betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Það er verkefni að fá önnur sveitarfélög til að sinna þessum málum. Mest um vert er þó að borgin reyni að sinna þessum hópi vel, t.d. byggi húsnæði og hafi neyðarskýli opin helst allan sólarhringinn. Önnur sveitarfélög virðast hafa hafnað því að styðja við þennan hóp sbr. Það sem segir í gögnum: „Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis sveitarfélaganna til úrbóta“. Þetta er auðvitað bagalegt.
     

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra, dags. 13. janúar 2025, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki meðfylgjandi samkomulag við lóðarhafa að lóðinni Bíldshöfði 2.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Oddrún Helga Oddsdóttir og Sonja Wiium taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24060028

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. janúar 2025, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki meðfylgjandi samkomulag við lóðarhafa að lóðinni Straumi 9.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Oddrún Helga Oddsdóttir og Sonja Wiium taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24060030

    Fylgigögn

  13. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2025, um að borgarráð samþykki að úthluta Þjóðarhöll ehf. byggingarreit F innan lóðar Engjarvegar 8 og sölu byggingarréttar lóðarinnar, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr  hjá við afgreiðslu málsins.

    Oddrún Helga Oddsdóttir og Sonja Wiium taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25010095

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna löngu tímabærri uppbyggingu þjóðarhallar í Laugardal. Mikilvægt er að ný þjóðarhöll þjóni þörfum bæði Þróttar og Ármanns, en verði jafnframt liður í því að leysa aðstöðuvanda fyrir skólaíþróttir í hverfinu. Fulltrúarnir undirstrika mikilvægi þess að fjárfestingin komi ekki niður á mikilvægri fjárfestingu í íþróttamannvirkjum hverfisfélaga um alla borg.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að uppfærðum reglum um réttindi og skyldur æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Erna Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24120074

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Viðhorf sósíalista er að það eigi að vera til staðar viðmið um hámarks bil milli þeirra sem þiggja hæstar tekjur frá borginni, og þeirra með lægstu tekjurnar og skjólstæðinga borgarinnar sem reiða sig á fjárhagslega aðstoð. Með því gætu hálaunamenn borgarinnar ekki komist í launakapphlaup við annað hálaunafólk á almennum eða opinberum markaði ef láglaunafólk dregst aftur úr í kjarabaráttunni á nýjan leik. Ætti þetta sér í lagi að eiga við um kjörna fulltrúa en auðvitað einnig um efstu yfirmenn óbreytts starfsfólks á gólfi og þá sem sitja yfir málefnum skjólstæðinga borgarinnar.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að nýjum verklagsreglum kjaranefndar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Erna Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25010096

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Viðhorf sósíalista er að það eigi að vera til staðar viðmið um hámarks bil milli þeirra sem þiggja hæstar tekjur frá borginni, og þeirra með lægstu tekjurnar og skjólstæðinga borgarinnar sem reiða sig á fjárhagslega aðstoð. Með því gætu hálaunamenn borgarinnar ekki komist í launakapphlaup við annað hálaunafólk á almennum eða opinberum markaði ef láglaunafólk dregst aftur úr í kjarabaráttunni á nýjan leik. Ætti þetta sér í lagi að eiga við um kjörna fulltrúa en auðvitað einnig um efstu yfirmenn óbreytts starfsfólks á gólfi, og þá sem sitja yfir málefnum skjólstæðinga borgarinnar.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók borgarráðs, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2025:

    Boðað hefur verið til reglulegs eigendafundar í Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. ákvæði 5.5. í sameignarsamningi um félagið, þann 10. janúar n.k. vegna 2024. Samkvæmt grein 5.4. í sameignarsamningi hafa handhafar eigendavalds OR tillögu- og atkvæðisrétt á eigendafundum. Í samræmi við lið 4.4 í Almennri eigandastefnu Reykjavíkurborgar þarf samþykki borgarráðs til beitingar réttinda eigandafyrirsvars vegna framlagðra tillagna. Eftirfarandi tillögur verða lagðar fram til afgreiðslu á eigendafundi OR þann 10. janúar n.k.: 2. Arðsemisstefna. Til samþykktar. 3. Arðgreiðslustefna. Til samþykktar. 4. Áhættustefna. Til samþykktar (m br). 5. Endurskoðun. Til samþykktar. Fyrir liggja umsagnir fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar um tillögur nr. 2, 3 og 4. Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur nr. 2, 3, 4 og 5. Trúnaður ríkir um afgreiðslu borgarráðs og gögn málsins fram yfir eigendafund OR.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sátu hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010052

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. desember 2024, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók borgarráðs, sbr. 4 lið fundargerðar borgarráðs frá 5. desember 2024:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg gefi öllu starfsfólki sínu gjafakort og að starfsfólk hafi val á milli tveggja gjafakorta í jólagjöf árið 2024. Annars vegar getur það valið gjafakort fyrir tvo á sýningar í Borgarleikhúsinu og hins vegar gjafakort hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Heildarkostnaður við jólagjöfina er 69 m.kr. og færist af liðnum 09126 Launa- og starfsmannakostnaður. MSS24110197

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að viðauka við samning um viðskiptavakt á eftirmarkaði með skuldabréf Reykjavíkurborgar og drög að viðauka við samning um fyrirgreiðslu vegna samnings um viðskiptavakt. Reykjavíkurborg mun gera samhljóða samninga við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku banka og Landsbankann sem gildir fram að næstu endurnýjun samninga um viðskiptavakt en gildistími núverandi samninga er til 31. mars 2025.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson og Hörður Hilmarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010007

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki samning um starfsemi Þjóðarleikvangs ehf. til ársloka 2025 með fyrirvara um að aðrir aðilar samnings samþykki fjármögnun í hlutfalli við sinn eignarhluta. Hlutur Reykjavíkurborgar er 50% eða samtals 13 milljónir króna. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að gera viðauka við fjárhagsáætlun 2025 vegna þessa.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson og Hörður Hilmarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010022

    Fylgigögn

  20. Lagt fram erindi Þróttar, dags. 7. janúar 2025, varðandi fyrirhugaða uppbyggingu unglingaskóla í Laugardal, ásamt fylgiskjölum.

    Steinþór Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS25010087

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og fram kom í erindi Þróttar til borgarráðs, kom það fyrirsvarsmönnum Þróttar verulega á óvart þegar tilkynnt var um að samþykkt hafi verið að byggja skóla á landssvæði sem Þróttur hefur, skýran og óuppsegjanlegan samningsbundinn afnotarétt af. Einkum í ljósi þess að félagið hafði áður útlistað afstöðu sína á afar skýran hátt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð meirihlutans, að taka ákvörðun um uppbyggingu unglingaskóla á íþróttasvæði Þróttar í Laugardal, án viðunandi samráðs við félagið. Telja fulltrúarnir vel mega finna nýjum unglingaskóla æskilegri lóð á svæðinu, til að mynda á horni Suðurlandsbrautar og Reykjavegar niður við Engjaveg. Þar eru góðar tengingar bæði við almenningssamgöngur og stígakerfi á svæðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í málflutningi meirihlutans í borginni um staðsetningu safnskóla sem rísa á í Laugardal á reiti Þróttar hefur verið látið að því liggja að Þróttur sé sammála og sáttur við ákvörðunina en svo er aldeilis ekki. Í umsögn frá félaginu kemur fram að „Reykjavíkurborg hefur engar heimildir til að einhliða taka til baka svæði sem Þróttur hefur ótímabundin endurgjaldslaus afnot af samkvæmt samningi aðila frá 12. desember 1996“. Ennfremur segir: „Þau samningsbundnu afnotaréttindi eru eingöngu bundin því skilyrði að Þróttur hafi áfram starfsemi í Laugardalnum, en engin breyting hefur orðið þar á frá því samningurinn var gerður og slík breyting er ekki fyrirsjáanleg.“ Þróttur er því ekki knúinn til að láta lóðina Miðheima af hendi og við lestur umsagnarinnar stendur það heldur ekki til. „Einhliða takmörkun Reykjavíkurborgar á afnotarétti Þróttar samkvæmt samningi félagsins við Reykjavíkurborg er enn fremur óheimil. Afnotaréttur Þróttar að lóðinni verður ekki skertur nema með samkomulagi Þróttar og Reykjavíkurborgar, þar sem ákvæðis 6. gr. samningsins frá 1996 væri gætt til hins ítrasta“. Af þessu má sjá að Þróttur er hvergi nærri að fara að afhenda afnotaréttinn til borgarinnar og furðar sig á málflutningi borgarstjóra sem er á skjön við allan raunveruleika.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 16. desember 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs 9. desember 2024, varðandi tillögu um breytingu á skipuriti skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. SFS24110150

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með fyrirhuguðu nýju skipuriti skóla- og frístundasviðs er ekki gengið nægjanlega langt í að breyta skipulagi starfseminnar í því skyni að auka skilvirkni. Með skipuritinu er sem dæmi verið að fjölga einingum. Breytingin er því ólíkleg til að fela í sér þá hagræðingu sem fyrrverandi og núverandi borgarstjóri boðuðu í nóvember 2022 um að starfsmönnum borgarinnar yrði ekki fjölgað. Minnt er á þá almennu stefnu Sjálfstæðisflokksins að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja miðlægja stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og er skóla- og frístundasvið þar ekki undanskilið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn telur að í nýju skipuriti birtist bæði skilvirkni og faglegur metnaður sem skilar sér í faglegu starfi innan stofnana skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort hægt hefði verið að ganga lengra í að breyta skipulagi starfseminnar í því skyni að auka skilvirkni enn frekar og þar með auka hagræðingu. Svo virðist sem eigi að fjölga einingum. Sameining er leiðin til að bæði hagræða og auka skilvirkni. Því hefði verið betra að sjá meira að slíku en fjölgun eininga.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 13. janúar 2025, sbr. samþykkt mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. desember 2024, varðandi afgreiðslu styrkumsókna til ráðsins. MSS25010082
     

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs og þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. janúar 2025, við fyrirspurn borgarfulltrúa Vinstri grænna um hagræn áhrif stafrænnar umbreytingar, sbr. 6. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. nóvember 2024. MSS24110030

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 9. janúar 2025. MSS25010008

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 6. janúar 2025. MSS25010012

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 13. desember 2024. MSS24010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 8. lið fundargerðarinnar:

    Liður 2: Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir varnarorð sem fram koma í bókun fulltrúa Reykjavíkurborgar í fundargerðinni. Þar segir m.a. „Stök fargjöld og 12 mánaða kortin eru komin að sársaukamörkum og því varhugavert að hækka þessa flokka enn frekar á þessum tímapunkti. Sú gjaldskrárstefna sem er í gildi gengur út frá rekstrarkostnaði og vísitöluhækkunum en hefur enga snertingu við verðteygni, notkun eða samkeppnishæfni við aðra ferðamáta“. Það er nokkuð ljóst að mati Flokks fólksins að erfitt verður að auka notkun almenningssamgangna ef fargjaldið er orðið svo hátt að fólki finnist ekki borga sig að nota strætó. Flokkur fólksins hvetur stjórn Strætó bs. til að halda aftur af verðhækkunum á fargjöldum í strætó. Finna þarf aðrar leiðir til að halda Strætó bs. á floti. Liður 8: Í fundargerð kemur einnig fram að íbúar við Skúlagötu hafi kvartað yfir hávaðamengun vegna endastöðvar strætó þar. Ástandið þar er að mati fulltrúa Flokks fólksins óásættanlegt. Fulltrúi Flokks fólksins telur brýnt að brugðist verði við þessum kvörtunum og fer fram á að stjórn Strætó bs. taki þessar kvartanir alvarlega.
     

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. janúar 2025.
    11. liður fundargerðarinnar er samþykktar.
    Hildur Björnsdóttir víkur sæti af fundinum við afgreiðslu málsins. MSS25010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til á fundi borgarstjórnar 7. janúar sl. að gerð verði úttekt á skipulagsferli í Álfabakka helst af óháðum aðila. Tillögunni var vísað frá en þess í stað samþykkti meirihlutinn sína eigin tillögu sama efnis. Niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja kannski fyrir í lok árs. En núna þarf að leggja áherslu á hvernig meirihlutinn hyggst beita sér í að fá þennan óskapnað lagaðan, helst rifinn. Stöðva ætti framkvæmdir strax enda út í hött að halda áfram að reisa skemmuna þegar á sama tíma er verið að tala um breytingar á henni eða jafnvel niðurrif að hluta eða öllu leyti. Flokkur fólksins óttast að ekkert verði gert, málið verði þaggað, beðið verði eftir að fólk gefist upp eins og svo oft áður. Það er ekki aðeins hörmulegt fyrir þá sem búa í blokkinni sem snýr að vöruskemmunni heldur öll nærliggjandi hús en í þeim mörgum búa 60 ára og eldri sem sækja félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær. Við skemmuferlíkið er íþróttavöllur ÍR. Aukin umferð flutningabíla við íþróttavöllinn mun skapa hættu þegar börn sækja íþróttasvæðið hvort sem þau eru gangandi eða hjólandi.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 22 mál (MSS25010023, MSS25010005, MSS24110084, MSS24110085, MSS24110086, MSS24110088, MSS24110078, MSS24110075, MSS24110079, MSS24110080, MSS24110081, MSS24110189, MSS24110190, MSS24110184, MSS24110185, MSS24110186, MSS24110187, MSS24120026, MSS24120027, MSS24120060, MSS25010072, MSS25010074). MSS25010057

    Fylgigögn

  29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25010062

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. janúar 2025, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 10. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn American bar, Austurstræti 8-10, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Super Bowl í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007 til kl. 04:30 til American bar aðfaranótt mánudagsins 10. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS25010055

  31. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. janúar 2025, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 10. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Keiluhöllin Egilshöll, Fossaleyni 1, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Super Bowl í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007 til kl. 04:30 til Keiluhallarinnar í Egilshöll aðfaranótt mánudagsins 10. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS25010088

  32. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2025.

    Samþykkt að veita UN Women á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins Alheimssamstöðuganga UN Women á Íslandi.

    Samþykkt að veita Borgarkórnum styrk að fjárhæð 500.000 kr. vegna starfsemi kórsins.

    Samþykkt að veita Hannesarholti ses. styrk að fjárhæð 500.000 kr. vegna fundarraðar Heimilis Heimsmarkmiðana.

    Samþykkt að veita Norræna félaginu á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins möguleikar ungs fólks á Norðurlöndunum.

    Samþykkt að veita Saman hópnum – félag um forvarnir styrk að fjárhæð 250.000 kr. vegna verkefnisins SAMAN – Menningarnótt.

    Samþykkt að veita Snorrasjóði, sjálfseignarstofnun, styrk að fjárhæð kr. 750.000 vegna Snorraverkefnisins.

    Samþykkt að veita Golfklúbbi borgarstarfsmanna styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna starfsemi klúbbsins.

    Samþykkt að veita Ástráði – kynfræðslufélagi læknanema styrk að fjárhæð kr. 200.000 vegna starfsemi félagsins.

    Samþykkt að veita Hringrásarsetri Íslands styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna starfsemi félagsins.

    Samþykkt að veita Skrautás ehf. styrk að fjárhæð 1.300.000 vegna útgáfu hverfablaðanna Grafarvogs-, Grafarholts- og Árbæjarblaðsins.

    Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að fjárhæð kr. 650.000 vegna útgáfu hverfablaðsins Miðborg og Hlíðar.

    Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að fjárhæð kr. 650.000 vegna útgáfu hverfablaðsins Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir.

    Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að fjárhæð kr. 650.000 vegna útgáfu hverfablaðs í Breiðholti.

    Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að fjárhæð kr. 650.000 vegna útgáfu hverfablaðs í Vesturbæ.

    Öðrum styrkumsóknum er hafnað. ÞON24080006

  33. Lagt er til að Kjartan Magnússon taki sæti í samráðshópi um Sundabraut í stað Hildar Björnsdóttur.
    Samþykkt. MSS23100110

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs að hefja endurskoðun á eineltisstefnu og viðbrögðum grunnskóla Reykjavíkurborgar við einelti og öðru ofbeldi. Í endurskoðuninni skal huga að því að tímabært er að auka eftirlit utan skólastofunnar í grunnskólum borgarinnar, svo sem á göngum, salernum og jafnvel einnig í útiveru.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. MSS25010110

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12.25

Dagur B. Eggertsson Andrea Helgadóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 16.01.2025 - prentvæn útgáfa