No translated content text
Borgarráð - Fundur nr. 5768
Borgarráð
Ár 2025, fimmtudaginn 9. janúar, var haldinn 5768. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. janúar 2025, vegna árshelmingaskýrslu Betri samgangna ohf. desember 2024, um framgang og stöðu verkefna, ásamt fylgiskjölum.
Ólöf Örvarsdóttir, Davíð Þorláksson, Atli Björn Levy, Katrín Halldórsdóttir og Bryndís Friðriksdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Þorsteini R. Hermannssyni sem tekur sæti með rafrænum hætti. Einnig taka sæti með rafrænum hætti eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, , Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Skúli Helgason og Stefán Pálsson. MSS24080093
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu Sundabrautar.
Ólöf Örvarsdóttir, Bryndís Friðriksdóttir og Helga Jóna Jónasdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Skúli Helgason og Stefán Pálsson. MSS23100110
Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar er að ná niður kolefnissporinu sem stafar af samgöngum m.a. með því að innleiða breyttar ferðavenjur. Ekki ætti að ráðast í milljarða vegaframkvæmd sem hefur umferðaraukandi áhrif á borgarumhverfið fyrr en borgin og ríkið hafa náð markmiðum sínum um kolefnishlutleysi og breyttar ferðavenjur. Það er löngu orðið brýnt að endurskoða umfang núverandi vega til að draga úr heildarumfangi vegakerfisins frekar en að auka við það. Verði framkvæmdin að veruleika er mikilvægt að tryggja að hún valdi ekki mengun og umferðarhávaða, sé ekki lýti í borgarlandslaginu, skeri ekki í sundur Grafarvog og höfnina og sé beint frá íbúabyggð. Eins ætti hún að vera hugsuð þannig að Sundabraut/-göng tengi landsbyggð og flugvöll og hafi þann tilgang að vera meginstofnvegur gegnum höfuðborgarsvæðið fyrir vöruflutninga en ekki umferðaræð inn í hjarta Reykjavíkur. Þá eru mörg dýrmæt náttúrusvæði undir í verklýsingu Sundabrautar/-gangna og væri það dapurlegt ef þau færu undir í framkvæmdum fyrir grátt mengandi ferlíki. Þá er nauðsynlegt að fá svör við því í umhverfismati hversu mörg ár það taki að fá til baka þá stórfelldu losun gróðurhúsalofttegunda sem bygging, viðhald og rekstur Sundabrautar/-gangna framkallar í formi minni losunar frá bílum sem nota umferðarmannvirkið.
-
Lögð fram kynning umhverfis- og skipulagssviðs dags. 9. janúar 2025 á þróunaráætlun háskólasvæðis Háskóla Íslands.
Ólöf Örvarsdóttir, Ingvar Jón Bates Gíslason og Hrund Ólöf Andradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Magnúsi Diðrik Baldurssyni og Kristni Jóhannessyni sem taka sæti með rafrænum hætti. Einnig taka sæti með rafrænum hætti eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Skúli Helgason og Stefán Pálsson. MSS24010046
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar vandlega unninni þróunaráætlun fyrir Háskóla Íslands en um er að ræða samvinnuverkefni Háskólans og Reykjavíkurborgar. Áætlunin festir í sessi styrkleika svæðisins sem háskólakampus með fólk, mannlíf og vistvænar samgöngur í forgrunni en dregur líka fram sérkenni svæðisins og umhverfisverðmæti sem fyrir eru. Svæðinu er ætlað að bera skýr einkenni, vera aðlaðandi og til fyrirmyndar sem sjálfbært staðbundið samfélag. Áhersla er lögð á eflingu vistvænna samgangna meðal annars með tilkomu Borgarlínunnar og grænum tengingum innan svæðisins. Háskólasvæðið er dýrmætt í borgarlandinu og því hagsmunamál fyrir borgina að hér sé komin fram mjög metnaðarfull og skýr framtíðarsýn sem meirihlutinn fagnar mjög.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Margar góðar og metnaðarfullar hugmyndir koma fram í fyrirliggjandi þróunaráætlun fyrir Háskóla Íslands en aðrar vekja spurningar og jafnvel efasemdir. HÍ er líklega stærsti vinnustaður landsins með um fjórtán þúsund nemendur og tvö þúsund starfsmenn, auk fjölda stundakennara. Stór hluti nemenda og starfsmanna sækir skólann langt að, t.d. úr eystri hverfum borgarinnar, nágrannasveitarfélögum og jafnvel utan af landi. Mikilvægt er að huga vel að greiðum aðgangi ólíkra hópa að svæðinu en margir sækja jafnframt skólann meðfram annarri vinnu og eiga því mikið undir því að komast greiðlega til og frá háskólasvæðinu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á ríkt samráð við stúdentaráð Háskóla Íslands og samtök starfsmanna við frekari útfærslu fyrirliggjandi þróunaráætlunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins telur að aðgengi virkra ferðamáta (gangandi og hjólandi) verði klárlega betra á svæðinu eftir því sem fram kemur í gögnum. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig almenningssamgöngur muni virka. Fulltrúi Flokks fólksins er einnig mjög óviss um hvernig deilifararmátum á eftir að vegna í íslensku samfélagi. Fram kemur að núverandi fjöldi bílastæða sé í hámarki. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að gengið hafi verið of harkalega á bílastæði á sama tíma og bílum fer fjölgandi. Skortur á bílastæðum er víða áþreifanlegur og hefur skapað mikil vandamál. Fram kemur að bílastæðahús verði byggð úr vistvænum efnum til að lágmarka kolefnisspor og með stöðluðum einingum sem geta þannig verið stækkuð eða minnkuð eftir því sem eftirspurn þróast. Það er jákvætt, sveigjanleiki eykur hagkvæmni og notagildi húsanna og lengir líftíma þeirra.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. desember 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu deiliskipulagi Reykjavíkurfugvallar, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur sæti með rafrænum hætti Ámundi Brynjólfsson. USK24120041
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að setja málið í lögbundið samráðsferli með fyrirvara um endanlega afgreiðslu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. desember 2024 á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir göturými á Ártúnshöfða 2 vegna 1. lotu Borgarlínu, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur sæti með rafrænum hætti Ámundi Brynjólfsson. USK24120106
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. nóvember 2024 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 61 við Njarðargötu, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur sæti með rafrænum hætti Ámundi Brynjólfsson. USK23070148
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í ljósi þessa alvarlega máls í Álfabakka þar sem heimildir voru allt of rúmar, mál sem við flest erum í miklu uppnámi yfir, er það mat Flokks fólksins að það er oft sama hvað fólk gerir athugasemdir við, jafnvel sendir inn alvarlega kvörtun um að verið sé að skerða eignir þeirra, birtumagn, aðgengi, þrengja að bílastæðum og svo framvegis, þá er bara bent á gildandi deiliskipulag og þar við látið sitja. Svoleiðis er einmitt í þessu máli, varðandi athugasemdir sem eiga við fyrirliggjandi erindi að Njarðargötu 61 þá er viðkvæðið að þetta sé í gildandi deiliskipulagi og fyrir þessu séu heimildir. Eitthvað hlýtur að vera hægt að gera í málum af þessu tagi, s.s. bæta í skilmálana. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hlustað verði á þá sem fyrir eru á svæðinu, það er óboðlegt að gera breytingar og/eða viðbætur sem draga úr gæðum eigna sem fyrir eru.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar Vatnsstígs á milli Laugavegar og Hverfisgötu, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur sæti með rafrænum hætti Ámundi Brynjólfsson. USK25010030
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að endurgerðin og framkvæmdatíminn verði auglýstur vel gagnvart íbúum og þeim sem fara um svæðið sem og ef farið er yfir áætluð verklok.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta á saunaklefum og vegna aðgengismála í Vesturbæjarlaug, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur sæti með rafrænum hætti Ámundi Brynjólfsson. USK25010029
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sundlaugar Reykjavíkur gegna mikilvægu lýðheilsuhlutverki og eru algengur samkomustaður fólks í hverfum borgarinnar. Sannarlega er nauðsynlegt að ráðast í endurbætur á saunaklefum Vesturbæjarlaugar en fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að fylgja vilja íbúanna við alla útfærslu. Íbúar Vesturbæjar hafa þegar lýst ríkum vilja til að hafa saunaklefa sundlaugarinnar áfram kynjaskipta og undrast fulltrúar Sjálfstæðisflokks áform borgaryfirvalda að ætla ekki að fylgja þeirri afstöðu íbúa.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. janúar 2025, vegna úthlutunar úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen. MSS24120080
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. janúar 2025, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Stein Jóhannsson í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs en hann er metinn hæfastur til þess af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði í nóvember 2024.
Samþykkt.
Lóa Birna Birgisdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Haraldur L. Haraldsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25010060
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. desember 2024, ásamt fylgiskjölum, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók borgarráðs, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. desember 2024:
Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar þar sem lagt er til að fjórir umsækjendur leysi raunhæf verkefni sem hæfnisnefnd mun leggja drög að, til samræmis við hjálagða greinargerð hæfnisnefndar, dags. í dag. Að lokum mun hæfnisnefnd vinna skýrslu og leggja fram tillögu til borgarráðs um þann einstakling sem hún metur hæfastan í starfið. Áætlað er að leggja endanlega tillögu fyrir borgarráðsfund þann 9. janúar nk.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. janúar 2025, að útgáfuáætlun skuldabréfa fyrir janúar til júní 2025, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Bjarki Rafn Elísson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010003
Fylgigögn
-
Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók. MSS25010052
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 6. janúar 2025, þar sem óskað er eftir samþykki borgarráðs á kaupsamningi fyrir sumarhúsið Bláskóga á Hólmsheiði, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090013
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 16. desember 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. desember 2024 á breytingu á skipuriti skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum.
Frestað.Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS24110150
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 7. janúar 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í innkaup á umsjónarkerfi fyrir Vinnuskóla Reykjavíkur á umhverfis- og skipulagssviði, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON24110027
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Verið er að biðja borgarráð að samþykkja heimild til að fara í innkaup á umsjónarkerfi fyrir Vinnuskóla Reykjavíkur. Kaupa á kerfi sem er til, hefur verið notað í öðru sveitarfélagi. Flokkur fólksins fagnar að þjónustu- og nýsköpunarsvið ætlar ekki að hefja þróunar-, uppgötvunar- og tilraunavinnu í þessu tilfelli sem er dýrt ferðalag. Mikilvægt er að nýta það sem til er og eiga góða samvinnu við önnur sveitarfélög og Stafrænt Ísland þegar finna á stafræna lausn sem ekki er þegar til í Reykjavík. Vonandi verður þetta kerfi vel nýtilegt og notendavænt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að erindi heilbrigðisráðuneytisins vegna beiðni um flutning dagdvalar Þorrasels vegna stækkunar Heilsugæslustöðvar Miðbæjar verði vísað til velferðarsviðs til meðferðar. Huga þurfi fyrst að húsnæði fyrir staðsetningu dagvalar Þorrasels áður en mál Heilsugæslustöðvar verði skoðuð nánar.
Samþykkt. MSS24120098
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að ganga til viðræðna við fasteignafélagið Heima um að stækka húsnæði leikskólans Múlaborgar að Ármúla 6 á grundvelli tilboðs dags 15. október 2024. Í því felst að breyta 2. og mögulega 3. hæð hússins úr skrifstofurými í leikskóladeildir og starfsmannarými en leikskólinn Múlaborg starfar nú þegar á 1. hæð.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24120068Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú er yfirstandandi umfangsmikið viðhalds- og framkvæmdaátak meirihlutans til þess að fjölga leikskólaplássum í borginni. Stækkun Múlaborgar og nýr leikskóli í Elliðaárdal eru hvort tveggja liðir í því átaki. Leikskólinn Múlaborg er á 1. hæð í Ármúla 6 en nú verður 2. og mögulega 3. hæð hússins breytt í leikskóladeildir sem geta rúmað allt að 120 leikskólabörn til viðbótar. Stefnt er að því að stækkunin verði tilbúin til notkunar í lok janúar 2026. Í hjarta Reykjavíkur, Elliðaárdal, stendur svo til að byggja leikskóla fyrir 180-200 börn. Sá leikskóli á að vera tilbúinn til notkunar á fyrsta ársfjórðungi 2026. Bæði stækkun Múlaborgar og nýr leikskóli á Rafstöðvarvegi eru spennandi verkefni sem munu bæta stöðu barnafjölskyldna í borginni.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að skoða allar skynsamlegar leiðir sem hægt er að fara við að byggja upp leikskóla. Ýmsar spurningar vakna við þessa útfærslu þar sem leigja á húsnæðið af fasteignafélagi í 10-15 ár. Best færi á því að Reykjavíkurborg ætti sjálf húsnæði leikskólanna í stað þess að greiða til utanaðkomandi aðila til lengdar vegna leigu á húsnæði. Í fylgigögnum koma fram tölur sem nánari umræða á eftir að fara fram um en þar er nefnt að mánaðarleg grunnhúsaleiga taki mið af endanlegu gæðastigi og skilalýsingu, áætluð á bilinu 5.400-6.700 kr./m2, samtals um 4.860.000-6.030.000 kr. Í tillögunni sjálfri kemur fram að Heimar myndu sjá um að standsetja hæðirnar til leikskólastarfs og innheimta leigu til samræmis við þá fjárfestingu. Það er því ekki skýrt hver endanleg lokatala yrði fyrir leigu þar sem það á eftir að fara í frekari umræður um slíkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að ganga til viðræðna við fasteignafélagið Laka fasteignir ehf. um að félagið byggi nýjan leikskóla við Rafstöðvarveg sem Reykjavíkurborg taki á leigu fyrir nýjan borgarrekinn leikskóla ef samningar nást. Viðræðurnar byggja á auglýsingu Reykjavíkurborgar um húsnæði og lóð fyrir leikskóla. Stefnt verði að byggingu 2000 m2 leikskólahúsnæðis fyrir allt að 10 deilda leikskóla fyrir 180-200 börn. Jafnframt verði umhverfis- og skipulagssviði falið að undirbúa breytingu á deiliskipulagi og afmörkun leikskólalóðar. Stefnt verði að undirritun leigusamnings fyrir lok janúar 2025 og að leikskólinn verði tilbúinn til notkunar á fyrsta ársfjórðungi 2026. Jafnframt verði skoðað hvort nýta megi núverandi húsnæði Hins hússins að Rafstöðvarvegi 7 að hluta undir starfsemi leikskóla.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24120067
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun:Mikilvægt er að skoða allar skynsamlegar leiðir sem hægt er að fara við að byggja upp leikskóla. Ýmsar spurningar vakna við þessa útfærslu þar sem fasteignafélag á að byggja leikskóla sem borgin tekur síðan á leigu. Best færi á því að Reykjavíkurborg ætti sjálf húsnæði leikskólanna í stað þess að greiða til utanaðkomandi aðila til lengdar vegna leigu á húsnæði. Þá er ekki skýrt hversu lengi fyrirkomulagið eigi að vara en gert er ráð fyrir að leigutími verði 10-15 ár með mögulegri framlengingu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 6. janúar 2025, þar sem óskað er eftir samþykki borgarráðs fyrir framlengingu leigusamnings um afnot af hluta 1. hæðar að Tryggvagötu 19. Einnig er óskað eftir að eignaskrifstofu verði heimilað að gera tímabundinn húsaleigu- og rekstrarsamning um tímabundinn rekstur á almenningsmarkaði í Tryggvagötu 19 út janúarmánuð með heimild til framlengingar um allt að sex mánuði, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22100131
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fréttir bárust að því fyrir jól að borgin ætlaði að loka Kolaportinu sökum gjaldþrots rekstraraðilans sem hefur litla leigu greitt til borgarinnar í áraraðir þó litlu söluaðilarnir hafi sannarlega staðið í fullum skilum til rekstraraðilans. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þráspurðu um málið á fundi borgarráðs fyrir jól en tóku loforð af fundarmönnum um áframhald Kolaportsins í núverandi mynd. Í þessum nýja samning hefur stærsti söluaðili Kolaportsins tekið það á sig að gerast rekstraraðili til að brúa bilið á meðan meirihluti borgarstjórnar ákveður framtíð Kolaportsins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt samninginn fyrir að gefa söluaðilum lítið sem ekkert rekstraröryggi en söluaðilar fá einungis mánuð í gálgafrest og eiga svo að tæma bygginguna samkvæmt samningnum. Þó heimild sé til framlengingar til sex mánaða. Það segir sig sjálft að engin verslun getur blómstrað við slíkar aðstæður. Ljóst er að húsnæði Kolaportsins er laust um ókomna tíð og ekkert því til fyrirstöðu að halda starfsemi Kolaportsins áfram sé vilji fyrir hendi. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara eindregið fram á það að Kolaportinu verði gert kleift að starfa áfram.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokki fólksins finnst mjög mikilvægt að það sé markaður eins og Kolaportið í Reykjavík, einn og kannski tveir, annar miðsvæðis og annar utan miðborgar. Kolaportið á sér farsæla sögu, þangað leggur fjöldi fólks leið sína bæði til að skoða varning, versla og hitta annað fólk. Tímabundinn húsaleigusamningur á milli Reykjavíkurborgar og FSRE um 1. hæð í Tryggvagötu 19, rann út 31. desember 2024 sl. Mikilvægt er að gefa aðilum svigrúm, tíma og rými til að ganga frá og rýma, helst nokkra mánuði.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 16. desember 2024. MSS24010003
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 18. desember 2024. MSS24010005
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 16. desember 2024. MSS24010017
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. nóvember 2024. MSS24010029
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. nóvember 2024. MSS24010029
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sex mál (MSS24010024, MSS24010022, MSS24010052, MSS24100050, MSS24010052, MSS24110030). MSS25010057
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25010062
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um hvað fór úrskeiðis hjá Ferðaþjónustu fatlaðs fólks þegar fötluð kona með þroskahömlun var keyrð á rangan áfangastað og skilin eftir þar á aðfangadagskvöld. MSS25010072
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að ekki verði beðið lengur með að borgarráð taki til umfjöllunar mál fyrirhugaða uppbyggingu unglingaskóla í Laugardalnum og fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um byggingu safnskóla á svæði sem Þróttur hefur ótímabundin og samningsbundin afnot af, svokölluðum Þríhyrningi. Fram hefur komið að Þróttur er ósáttur við þau vinnubrögð sem hafa einkennt ákvarðanatöku í þessu máli og skort á samráði við félagið. MSS25010073
Greinargerð fylgir tillögunni.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Er meirihlutinn í Reykjavík, borgarstjóri, búinn að hafa samband við fyrri rekstraraðila og eiga við hann samtal um hvernig hægt er að leysa mál Kolaportsins? Í öllum deilumálum eru tvær hliðar. Einnig er óskað upplýsinga um hvort og þá hvað er búið að gera í samvinnu við fyrri rekstraraðila til að leysa og lenda þeirri fjárhagsstöðu sem Kolaportið er í. Hversu margir starfsmenn eru í því verkefni, hversu margir fundir hafa verið haldnir? MSS25010074
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 12:05
Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir
Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 9.1.2025 - prentvæn útgáfa