Borgarráð - Fundur nr. 5767

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn 5767. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Borgarstjóri tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á stöðu undirbúnings vegna þjóðarhallar í innanhúsíþróttum.

    -    Kl. 9:10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Ómar Einarsson og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Björn Gíslason, Helga Þórðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir og Sabine Leskopf. MSS22050013

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þrjú teymi hafa verið valin til þátttöku í samkeppnisútboði um hönnun og byggingu nýrrar þjóðarhallar. Það er stór og mikilvægur áfangi í uppbyggingu þjóðarhallar sem rís í hjarta Laugardals með góðri tengingu við borgarlínu, göngu- og hjólaleiðir og fyrirliggjandi mannvirki. Með tilkomu hallarinnar fjölgar æfingatímum barnanna í hverfinu verulega, byggð verður upp aðstaða fyrir fimleikaiðkun og Reykjavík styrkist sem borg sem hefur öflugt íþróttastarf og lýðheilsu í forgrunni. Meirihlutinn leggur áherslu á að höllin rísi hratt og örugglega.
     

  2. Fram fer kynning á framfylgd Aðalskipulags Reykjavíkur 2015-2040, mælikvörðum og vöktun.

    Haraldur Sigurðsson og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundium undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Björn Gíslason, Helga Þórðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Þorvaldur Daníelsson. MSS21120152

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir frábært yfirlit og tölfræði um þróun borgarinnar, lykilstærðir og markmið aðalskipulags. Reykjavík er sannarlega borg í blómlegum vexti. Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir húsnæðisuppbyggingu, aðgengi að grænum svæðum, samgöngumál og ferðavenjur, þróun atvinnulífs og ferðaþjónustu svo fátt eitt sé nefnt, og ómetanleg yfirsýn yfir þessi mál birtist glögglega í samantektinni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er ágætt yfirlit, en þarna kemur fram að „þéttingarstefnan“ hefur enn sem komið er lítið þétt byggðina. Íbúum á hektara hefur aðeins fjölgað um tæpa fimm á síðasta áratug, eða um hálfan mann á ári. Frá 2014-2024 úr 23,96 í 28,27 á hektara. Eftir alla umræðuna er þetta ekki mikil íbúaþétting sem samt sem áður hefur skapað vandamál í samgöngum en bílum hefur fjölgað mikið, eða um 60 á viku. Flokkur fólksins fagnar því að íbúðum á vegum óhagnaðardrifinna félaga er að fjölga. Þar erum við á réttri leið. Ef horft er til umferðar þá kemur fram að það er fækkun bílferða á íbúa. Hvað sem því líður þá sýna kannanir að bílum fjölgar jafnt og þétt. Samhliða eru vaxandi vandræði með hvar fólk á að leggja bílum sínum. Kvartanir berast vegna þrengsla, aðgengisvanda og birtuskerðingar.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um samgöngumál í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins til samræmis við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Með tilvísun í áherslur sem markaðar voru með samkomulagi sveitarfélaganna frá 2013 eru aðilar því sammála um að leggja enn meiri áherslu á samstarf þegar kemur að þróun samgöngu- og skipulagsmála og skerpa á mikilvægi greiðrar og öruggrar umferðar í þágu íbúa í vesturhluta Reykjavíkurborgar og í Seltjarnarnesbæ.

    Samþykkt.
    Haraldur Sigurðsson og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Björn Gíslason, Helga Þórðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Þorvaldur Daníelsson. MSS24120059

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið fagnaðarefni að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi nú samþykkt og staðfest uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Seltjarnarnes var síðast sveitarfélaga til þess og var samþykktin einróma. Með því og samþykkt fjárlaga á Alþingi er ljóst að framkvæmdir á grundvelli uppfærðs sáttmála geta farið á fullt. Jafnframt er hægt að fagna því að þetta þýðir betri fjármögnun og eflingu Strætó með aukinni tíðni á lykilleiðum sem mun eiga sér stað á árinu 2025 samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að fara að framkvæma þar sem lengi hefur verið kallað eftir samgönguúrbótum á þessu svæði, sérstaklega þannig að hægt sé að nota Strætó til að komast að og frá verslunar- og þjónustusvæði á Granda og við Fiskislóð.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á stöðu verkefna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundium undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Björn Gíslason, Helga Þórðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Þorvaldur Daníelsson. MSS24080093

  5. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, um endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons 2025, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Eva Bergþóra Guðbergsdóttir og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Björn Gíslason, Helga Þórðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Þorvaldur Daníelsson. MSS24090075

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að lagt er til að formlegri dagskrá Menningarnætur ljúki klukkustund fyrr en áður, eða klukkan 22:00 í stað klukkan 23:00. Áfram á þó að bjóða upp á flugeldasýningu. Stýrihópurinn lagði til að auka framboð á viðburðum sem hefjast fyrr um daginn til að gera dagskrána enn fjölskylduvænni. Reyndar hefur verið mikið af viðburðum yfir daginn, nánast eitthvað að ske á hverju horni. Vandinn við Menningarnótt er að þegar líður á kvöldið streyma unglingar og ungt fólk í bæinn og í þeim hópi eru alltof mörg eftirlitslaus börn. Fram kemur að efla eigi forvarnir og styrkja, en ekki eru lagðar frekari línur í þeim efnum. Brýnt er að ná til foreldra og hefja fyrirbyggjandi aðgerðir í formi forvarna, fræðslu og samtals í samvinnu við skóla- og íþróttasamfélagið. Öryggismál og eftirlit er það sem skiptir mestu máli til að hægt sé að stemma stigu við neyslu áfengis- og vímuefna, grípa þá sem eru orðnir ofurölvi og koma þeim í skjól. Þetta þarf að skoða strax en ekki setja inn í framtíðarskipulag. Flokkur fólksins hefði viljað sjá hópinn ganga lengra. Þessar breytingar duga skammt til að byrgja brunninn fyrir næstu Menningarnótt.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024, á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttur tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Ingvari Jóni Bates sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK23030053

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vegna fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu um Veðurstofureit minna borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins enn og aftur á að huga þarf að innviðum þegar um er að ræða svo mikla fjölgun íbúa á þéttingarreitum. Nú anna skólar hverfisins ekki eftirspurn og íþróttaaðstaða mætti vera betri. Fjölga þarf rýmum verulega í leikskólum og grunnskólum hverfisins vegna hinnar miklu uppbyggingar sem fyrirhuguð er á Veðurstofureit og Kringlureit. Bent skal á að einungis nokkrir metrar eru á milli fyrirhugaðs uppbyggingarsvæðis og íbúðabyggðar við Stigahlíð. Vegna mikils landhalla á svæðinu liggja umræddar fasteignir við Stigahlíð mun lægra en fyrirhugað uppbyggingarsvæði. Bygging 2-5 hæða fjölbýlishúsa hefði í för með sér stórfelld óæskileg grenndaráhrif fyrir umrædda íbúa við Stigahlíð og er því rétt að taka tillit til athugasemda þeirra. Mikið virðist vanta upp á að bílastæðamál séu leyst með fullnægjandi hætti í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Hætt er við að íbúar hins nýja hverfis leitist við að leggja bifreiðum sínum í Stigahlíð og öðrum nærliggjandi hverfum, verði bílastæðamál ekki leyst með fullnægjandi hætti innan reitsins. Það gæti leitt til þess að umferðarþungi í næstu götum aukist til muna með óæskilegum afleiðingum. Tekið er undir áhyggjur Veðurstofunnar um að ekki sé nægilegt tillit tekið til starfsemi hennar í deiliskipulagstillögunni. Af þessum ástæðum greiða fulltrúar Sjálfstæðisflokks atkvæði gegn tillögunni.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Jákvætt er að þriðjungur byggingarmagns fari til Bjargs íbúðafélags. Taka þarf tillit til athugasemda sem komu fram í umsagnarferli. Aðgengi er ágætt og umhverfið aðlaðandi, stutt í þjónustu, stóra vinnustaði og skóla. Fulltrúi sósíalista í umhverfis- og skipulagsráði hefur þó á öllum stigum málsins eftir að yfirlitsteikning barst af byggðinni sem er til grundvallar deiliskipulaginu gert rökstudda athugasemd við það að ekki er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið út af norðausturhorni svæðisins í deiliskipulagi yfir á gangstétt meðfram Kringlumýrarbraut vestanverðri. Þar er styst leið hjólandi og gangandi í átt að Kringlu og strætóstoppistöðvar við Kringlu, með verslun, bíóhús, bókasafn og leikhús, sem og styst leið í Verzlunarskólann. Þetta eru allt staðir sem íbúar munu líklega sækja í leit að þjónustu og vinnu. Íbúar austanmegin á hæðinni munu að öllum líkindum leita út af svæðinu þá leið, og yfir á gangstétt við Kringlumýrarbraut en stígakerfið sem teiknað hefur verið fyrir svæðið styður ekki stystu útgönguleið fyrir þá á þennan aðdráttarmikla ás. Fyrirséð er að þarna muni myndast óskastígur, og því best fyrir íbúana og farsælast fyrir borgina að gera strax ráð fyrir þeirri útgönguleið svo hún verði örugg og aðgengileg og hægt verði að þjónusta hana að vetrarlagi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er mikið byggingarmagn, allt að 300 íbúðir. Fækka á bílastæðum. Fjöldi athugasemda hefur borist, þar með talið frá Heilbrigðiseftirliti. Áhyggjur eru af aðgengi og þrengslum, þarna eru nú þegar mikil þrengsl. Hvað með skuggavarp, liggur ljóst fyrir að þarna leynist ekki einhver íbúð sem er myrkrakompa? Gleðjast má yfir að þriðjungur byggingarmagns fari til Bjargs íbúðafélags. Fram kemur í kynningu skipulagsyfirvalda að búið sé að vinna málið vel og því megi treysta að ekkert eigi eftir að koma á óvart. Flokkur fólksins vonar að það sé rétt.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024, á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi fyrir Skeifuna-Fenin vegna lóðanna nr. 7 og 9 við Skeifuna, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttur tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050162

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024, á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur vegna breytingar á legu Borgarlínu og stoppistöðvar hennar sem færist út af deiliskipulagssvæðinu, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050158

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024, á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinar nr. 3-5 við Bríetartún, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100004

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista getur ekki séð að þörf sé á fleiri hótelum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. desember 2024, þar sem staða húsnæðisáætlunar við lok þriðja ársfjórðungs er lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    Óli Örn Eiríksson, Hulda Hallgrímsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120067

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta yfirlit dregur fram að allt of lítið er byggt í Reykjavík þótt talsvert hafi verið byggt. Ekki er hægt að kenna háu vaxtastigi um þetta því að verktakar eiga auðvelt með að velta þeim kostnaði yfir á kaupendur þegar skortur er á húsnæði. Skýringa er frekar að leita í skipulagi og lóðaúthlutun. Einstaklingar eru t.d nærri hættir að reyna að byggja yfir sig og sína. En sú aðferð var algeng fyrir nokkrum árum. Breyta þarf um taktík. Ekki gengur að einblína aðeins á þéttingu. Brjóta þarf land undir byggð og viðurkenna að borgin stækkar og íbúum fjölgar. Sú þróun hefur verið lengi í gangi og verður fyrirsjáanlega áfram. Gera þarf fólki auðveldar fyrir og slaka þarf á skortstefnu lóða sem lengi hefur ríkt í Reykjavík. Flokkur fólksins vill undirbúa að brjóta land undir byggð og viðurkenna að borgin stækkar og íbúum fjölgar.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, þar sem áfangaskýrsla græna plansins fyrir janúar-júní 2024 er lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    Óli Örn Eiríksson, Hulda Hallgrímsdóttir og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120114

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 13. desember, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sama dag á samningum við félög og samtök um samskiptamál, ásamt fylgiskjölum.

    -     Kl. 11:25 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti.

    Samþykkt.

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR24030002

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu eigendavettvangs Sorpu bs. um uppbyggingu nýrrar endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg á grundvelli sviðsmyndar 1 og að framkvæmdin verði fjármögnuð með töku verðtryggðs láns til 30 ára að fjárhæð 1.332 m.kr. hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Fjármögnun komi til endanlegrar samþykktar borgarstjórnar þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um fyrirhugaða lántöku ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Jón Viggó Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24120038

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. desember 2024, þar sem erindi Sorpu bs. um skil starfshóps um staðarval endurvinnslustöðvar í stað stöðvar við Dalveg er lagt fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.
    Jón Viggó Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24120041

    Fylgigögn

  15. Lagt fram trúnarðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-október 2024.

    Hörður Hilmarsson, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Jónas Skúlason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24060009

  16. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók. MSS24120078

  17. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. desember 2024, varðandi samstarf Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna sameiginlegrar þróunar og reksturs Veitu, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON24110021

    Fylgigögn

  18. Lagt fram minnisblað þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. desember 2024, vegna viðtöku Reykjavíkurborgar á alþjóðlegu verðlaununum Seoul Smart City Prize fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn.
    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON21100031

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki viðbótarhúsnæðisstyrk að upphæð 14,6 m.kr. til Dansverkstæðisins og felli niður vexti upp á 0,4 m.kr. Fjármagnið verði tekið af ófyrirséðum kostnaði og alfarið skuldajafnað upp í skuld Dansverkstæðisins við eignasjóð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS24120070

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að framlengja uppfærðar tímabundnar reglur um ráðningar hjá Reykjavíkurborg og gildistími þeirra verði til 31. desember 2026. Tilgangur ráðningareglnanna er að auka enn frekar yfirsýn með ráðningum og aðhald með ráðningum í störf og draga úr launakostnaði. Jafnframt er lagt fram uppfært erindisbréf starfshóps um ráðningarýni þar sem gildistími hefur verið framlengdur til 31. desember 2026.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24120076

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. desember 2024, varðandi aðild Reykjavíkurborgar að stofnun bandalags strandborga og -svæða sem verða fyrir áhrifum af hækkandi sjávarborði og loftslagsbreytinga í tengslum við hafið, ásamt fylgiskjölum. MSS24120039

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. desember 2024, varðandi þáttöku borgarstjóra í OECD Champion Mayors for Inclusive Growth Initiative, ásamt fylgiskjölum. MSS22070048

    Fylgigögn

  23. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 778/2024 dags. 9. desember 2024. MSS24020035

  24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. desember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita frest til 1. maí 2025 á tímamörkum um afnám bensínafgreiðslu á lóð við Ægisíðu 102 og flutning þeirra á lóð við Fiskislóð 15-21, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22120052

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. desember 2024. MSS24010007
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Lögð fram deiliskipulagslýsing fyrir Elliðaárvog, Geirsnef, vegna breytinga á deiliskipulagi, dags. nóvember 2024, þar sem farið er fram á umsagnarbeiðni í Skipulagsgátt, mál nr. 1382/2024. Breytingar á deiliskipulagi Elliðaárvogs fyrir Geirsnef. Hér er verið að skerða útivistar- og athafnasvæði hunda. Hér vantar samráð. Tekið er undir að Geirsnef er sífellt að verða mikilvægara útivistarsvæði fyrir íbúa nágrennisins. Gert er ráð fyrir að Geirsnef verði borgargarður. Styrkja á náttúru, landslag og útivistarsvæði í borginni. En óþarfi er að klípa af athafnasvæði hunda. Það er nóg pláss fyrir alla.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 11. desember 2024. MSS24010033

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 10. desember 2024. MSS24010009

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. nóvember 2024. MSS24010015
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram eitt atriði í yfirliti yfir ábendingar um umhverfismál í Laugardal. Öll atriði í yfirlitinu eru þó afar mikilvæg. En skoða þarf lausnir til að auka öryggi gangandi vegfaranda við leikskólann Sunnuás. Flokkur fólksins hefur áður bókað um þetta mál. Við núverandi aðstæður hafa bílastæði leikskólans verið tekin undir bráðabirgðahúsnæði og foreldrar að koma og fara með börn sín eru oft að leggja nálægt enda Laugarásvegar beggja vegna, eins og segir í yfirlitinu. Ökumenn sem koma frá Langholtsvegi til vesturs hafa takmarkaða yfirsýn vegna legu vegarins í sveig til suðurs/vesturs. Hugmynd er að loka 1-2 stæðum beint fyrir framan leikskólann til að bæta yfirsýn bílstjóra yfir svæðið. Áhyggjurnar snúa að stöðunni þegar aðstæður verða erfiðari í vetur vegna veðurs sérstaklega. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði í nóvember sl. „í dag eru engin stæði, ekki einu sinni sleppistæði, við innganginn að leikskólanum við Laugarásveg. Þess vegna myndast alltaf umferðarteppur þegar foreldrar reyna að leggja annað hvort á Laugarásvegi sjálfum eða hálf uppi á gangstéttinni við Laugarásveg.“

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 22. nóvember 2024. MSS24010026

    Fylgigögn

  30. Lögð fram undargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. desember.
    8. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðarinnar:

    Stórt vöruhús hefur nú verið reist steinsnar frá fjölbýlishúsi í Breiðholti. Íbúar í húsinu eru eðlilega miður sín með nýbygginguna því við þeim blasir 13 metra hár stálveggur vöruhúss sé horft út um stofuglugga íbúa blokkarinnar. Margt hefur skýrst í þessu máli síðustu daga og liggur ljóst fyrir að skipulagsyfirvöld vissu nákvæmlega hvernig vöruskemman liti út fullbyggð og þau neikvæðu áhrif sem hún hefur á nærliggjandi blokk. Reykjavíkurborg ber fulla ábyrgð á að hafa veitt svo rúmar byggingarheimildir. Hins vegar má einnig hneykslast á hönnuðum og eigendum að geta ekki sett sig í spor íbúa blokkar sem tapa öllu útsýni. Það er með öllu óskiljanlegt. Stöðva verður framkvæmdina strax og hefja samtal um lausn á þessum vanda sem íbúar verða sáttir við. Þess má geta að þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni þann 15. júní 2023 lá skýrt fyrir í gögnum málsins að um þjónustu- og verslunarlóð væri að ræða. En eins og hendi er veifað rís á á lóðinni stærðarinnar vöruhús sem varla er hægt að segja að eigi þarna heima. Starfseminni munu fylgja hávaðasamir vöruflutningar jafnvel allan sólarhringinn. Ekkert af þessu var kynnt umhverfis- og skipulagsráði eða borgarráði. Varla er hægt að finna fordæmi fyrir öðru eins.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sex mál (MSS24010022, MSS24010024, MSS24010052, MSS24120085, MSS22100214). MSS24120009

    Fylgigögn

  32. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24120011

    Fylgigögn

  33. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. Öllum styrkumsóknum er hafnað. MSS24010168

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:10

Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 19.12.2024 - prentvæn útgáfa