Borgarráð - Fundur nr. 5766

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 12. desember, var haldinn 5766. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Dóra Björt Guðjónsdóttir og Hildur Björnsdóttir tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. desember 2024, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.030 m.kr. í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 44 1 á ávöxtunarkröfunni 3,65% en það eru 1.028 m.kr. að markaðsvirði og samþykki tilboð að nafnvirði 1.285 m.kr. í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1 á ávöxtunarkröfunni 8,20% en það eru 649 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 11. desember 2024.

    -    Kl. 09:08 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 12. desember 2024, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2024. 
    Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 1. október 2024, vegna ársreiknings Reykjavíkurborgar 2023. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. desember 2024.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þann 1. október 2024 barst Reykjavíkurborg bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Í bréfinu kom fram að enn eina ferðina hefði borgin annars vegar ekki uppfyllt þau lágmarksviðmið fyrir rekstur sveitarfélags sem kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum (sem þó eru nú óvirk vegna tímabundinnar undanþágu í reglugerð), og hins vegar félli borgin á viðmiðum nefndarinnar um jákvæða rekstrarniðurstöðu, framlegð í hlutfalli við rekstrartekjur og skuldaviðmið undir 100%. Í umsögn sinni um bréf eftirlitsnefndarinnar tekur fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar undir ábendingar nefndarinnar og áréttar mikilvægi þess að borgarstjórn vinni að því að lögfest lágmarkasskilyrði séu uppfyllt. Jafnframt hefur endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar ítrekað gert athugasemdir við hve illa bréf eftirlitsnefndarinnar berast nefndinni, og hefur sú afstaða verið bókuð ítrekað í fundargerðum nefndarinnar. Endurskoðunarnefnd hefur skýru eftirlitshlutverki að gegna og ljóst að bréf eftirlitsnefndarinnar eiga skýrt erindi við nefndina. Þá hefur endurskoðunarnefnd jafnframt skorað á borgina að bregðast við bréfum eftirlitsnefndarinnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir þessar áréttingar fjármála- og áhættustýringarsviðs og endurskoðunarnefndar borgarinnar og telja löngu tímabært að taka rekstur borgarinnar föstum tökum – enda er traustur rekstur lykilforsenda öflugrar þjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur yfirfarið ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 ásamt skýrslu endurskoðanda. Samkvæmt ársreikningnum hefði sveitarfélagið ekki uppfyllt þau lágmarksviðmið sem kveðið er á um í lögum né heldur lágmarksviðmiðum eftirlitsnefndarinnar. Lögin eru ekki orðin virk en lögin um lágmarksviðmið verða virk fyrir árið 2026. Bréf eftirlitsnefndarinnar er klárlega áminning til borgarinnar um að nú sé alvaran að taka við á ný og nú sé tími til að huga að því að uppfylla lágmarksviðmiðin því það styttist í að þau taki gildi. Fjárhagsstaðan er ekki góð í Reykjavík eins og fjárhagsáætlun 2025 ber vott um. Flokkur fólksins tekur undir varnaðarorð eftirlitsnefndarinnar og vonar að á hana verði hlustað.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. desember, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki heimild til að framlengja samningi við Gjaldheimtuna ehf. og Momentum greiðslu- og innheimtuþjónustu ehf. um milli- og löginnheimtu.. Jafnframt er óskað eftir því að borgarráð samþykki hjálögð drög að viðauka við samninginn.
    Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar leggjast gegn því að borgin styðjist við innheimtufyrirtæki til að rukka borgarbúa. Innheimtufyrirtæki eiga ekki að græða á erfiðri efnahagsstöðu borgarbúa. Fátækt fólk sem er ekki í aðstöðu til þess að greiða reikninga sína á ekki að þurfa að kljást við slík innheimtufyrirtæki. Í apríl árið 2022 lögðu Sósíalistar fram tillögu í borgarstjórn um að borgin hætti notkun á starfsemi innheimtufyrirtækja. Þeirri tillögu var vísað til meðferðar borgarráðs en hefur enn ekki fengið afgreiðslu. Eðlilegra væri að taka þá tillögu til umfjöllunar og rýni áður en gengið er til framlengingar á samningi við innheimtufyrirtæki. Sósíalistar leggja áherslu á að fundnar verði leiðir til að koma til móts við stöðu fólks hverju sinni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins skilur að það þurfi að vera eitthvert skipulag á innheimtu vangoldinna greiðslna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi haft áhyggjur af þeim hópi sem ekki getur greitt reikninga sína vegna sárafátæktar, fólk sem á ekki mat á diskinn. Fyrst þegar ákveðið var að innheimtustofnanir önnuðust innheimtu skulda fannst Flokki fólksins gengið of harkalega fram því skuldir smáar sem stórar voru sendar í lögfræðiinnheimtu með ómældum lögfræðikostnaði. Sýna þarf hópi þeirra sem verst eru settir og hafa ekki getað greitt reikninga sína meira umburðarlyndi og skilning. Auka mætti valmöguleika, t.d. auka greiðsludreifingu almennra krafna til enn lengri tíma og fresta gjalddögum í meira mæli.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. desember 2024, varðandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 4. desember 2024, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta.
    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 9:40 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Óli Jón Hertervig og Hróðný Njarðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. desember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki frestun á tímamörkun rammasamkomulags og samkomulags um bensínstöð að lóðinni Ægisíðu 102.
    Frestað.

    Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. desember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hafna öllum tilboðum í lóðirnar Helgugrund 9, 11 og 12 og Búagrund 16 á Kjalarnesi, Reykjavík. Jafnframt er óskað eftir heimild borgarráðs til að selja byggingarrétt  á lóðunum við Helgugrund 9, 11 og 12 og Búagrund 16 á föstu verði.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 9. desember 2024, varðandi kjarasamninga við Rafiðnarsamband Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Stéttarfélag tölvunarfræðinga, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Kolbeinn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 9. desember 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. desember 2024, á tillögu um breytingar á reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), ásamt fylgiskjölum.
    Frestað.

    Rannveig Einarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  11. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 9. desember 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. desember 2024, á tillögu um framlengingu þjónustusamnings um samræmda móttöku flóttafólks, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Rannveig Einarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 9. desember 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. desember 2024, á tillögu um nýjan þjónustusamning við Vinnumálastofnun vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Rannveig Einarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja skólagöngu barna á leik- og grunnskólastigi sem og aðgengi að frístund. En hér kemur fram að samkvæmt hinum nýja samningi er einungis gert ráð fyrir grunnskólagöngu barna í daggjaldi en ekki leikskóla eða frístund og ekki náðist inn það samningsmarkmið Reykjavíkurborgar.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. desember sl., á tillögu um skóla- og frístundastarf í Laugardal, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Helgi Grímsson og Gréta Þórsdóttir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. desember 2024:

    Lagt er til að borgarráð veiti heimild til að fara í útboð og ganga frá kaupum á færanlegum kennslustofum auk samtengdra ganga og salerna vegna viðhaldsframkvæmda, fyrir skólastarf í Laugardal, í samræmi við framlagða fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2025.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson og Gréta Þórsdóttir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa vonbrigðum með framgöngu meirihlutans gagnvart skólasamfélaginu í Laugardal. Í október 2022 var samþykkt í þverpólitískri sátt í borgarstjórn að fara þá leið að byggja við Langholtsskóla, Laugarlækjarskóla og Laugarnesskóla, til að mæta langvarandi þörf en jafnframt ríkum vilja skólasamfélagsins. Á vordögum varð þó ljóst að meirihlutinn hyggðist ganga á bak orða sinna, falla frá fyrri áformum og byggja þess í stað einn unglingaskóla. Nú er ljóst að þeim skóla er ætlað að rísa á þríhyrningnum, en sú lóð er og verður á íþróttasvæði Þróttar samkvæmt samkomulagi félagsins við borgina frá 1996. Það er því ljóst að meirihlutinn hefur ákveðið að hefja þessa vegferð í mikilli andstöðu við bæði skólasamfélagið og íþróttafélagið Þrótt. Meirihlutinn hefur haldið illa á viðhaldsmálum skólahúsnæðis síðastliðinn áratug. Afleiðingin er meðal annars það alvarlega ástand sem skapast hefur í skólamálum Laugardals. Nú er framundan umtalsvert viðhald skólahúsnæðis í hverfinu en samhliða þarf að reisa svokallað skólaþorp, sem samanstanda mun af færanlegum kennslustofum á bílastæði við Laugardalsvöll. Enn er óljóst í hve mörg ár börnin í Laugardal þurfa að verja sinni grunnskólagöngu á téðu bílastæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa ríkum vonbrigðum með málið og munu greiða atkvæði gegn tillögu um skóla- og frístundastarf í Laugardal þegar hún kemur til afgreiðslu í borgarstjórn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að teikna upp nýja sviðsmynd með nýjum veruleika. Setja á upp færanlegar kennslustofur á KSÍ bílastæðinu við Reykjaveg. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur að aðkomu, aðgengi og umferð þarna þegar allt er komið. Það verður erfitt með Reykjaveginn, t.d. ef börnin fara yfir í skólann í listasmiðjur, hádegismat, bókasafnið eða íþróttir (eftir því hvað verður hægt að hafa opið). Það þarf því fyrst og fremst að tryggja umferðaröryggið yfir Reykjaveginn. Finna þarf leiðir til að tryggja öryggi barna á leið yfir og meðfram götunni en lausnir, staðsetning þeirra og útfærslur þarf að vinna í samráði við nemendur, íbúa, starfsfólk og stjórnendur skóla- og frístundastarfs. Vissulega er kostur að krakkarnir geti nýtt skólabygginguna og aðra hluti sem hægt verður að samnýta vegna nálægðar við Laugarnesskóla. Einnig þarf að drífa í að setja upp leiksvæði á grasblettinum sunnan megin við gámaskólana svo börnin geti líka verið þar.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. desember 2024, varðandi samanburð á mögulegum valkostum fyrir þyrluflugvöll fyrir höfuðborgarsvæðið, ásamt fylgiskjölum.
    Frestað.

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 10. desember 2024, varðandi stöðu húsnæðisáætlunar við lok þriðja ársfjórðungs 2024, ásamt fylgiskjölum.
    Frestað.

  17. Lagður fram dómur Hæstaréttar Íslands frá 9. desember 2024 í máli nr. 18/2024.

  18. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. desember 2024, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við menningarnótt, sbr. 13. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 30. ágúst 2024. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Óskað var eftir sundurliðaðri greinargerð um kostnað Reykjavíkurborgar vegna menningarnætur undanfarin þrjú ár, 2022-2024. Þar verði m.a. yfirlit um aðkeypta þjónustu vegna viðburðarins með sundurliðuðum upplýsingum um aðila og upphæðir. Ef svör eru skoðuð má sjá að það vantar sundurliðun á hver rekstrarkostnaðurinn er og hver aðkeypta þjónustan er. Þessu tvennu er blandað saman. Fyrirspurninni er því ekki svarað að fullu. Varla er t.d. flókið að nefna þá aðila/fyrirtæki sem keypt var af, hvað var keypt og hvað það kostaði.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024.
    4. liður fundargerðarinnar er samþykktur. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar:

    Óskað var upplýsinga um hvort ákveðið hafi verið að byggja bryggju yfir leirur og gera göngustíg út í sjó þar sem á að vera útsýnispallur í miðju leirunnar, í samræmi við tillögu FOJAB arkitekta. Í svari segir „í tillögugerðinni verður lífríki Grafarvogs alltaf sett í forgrunn“. Hugmyndir um útsýnisbryggju yfir leirur Grafarvogsins eru fjarri því að tekið sé tillit til lífríkisins að mati Flokks fólksins. Slíkum hugmyndum á að hafna strax. Þær eiga ekki að koma til álita. Hafa áhrif þessarar tillögu á náttúru og fuglalíf verið könnuð og ef svo er hver er niðurstaða þess? Aðilar eins og Náttúrufræðistofnun og Landvernd hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þessari tillögu og m.a. sagt: „Sú aðalskipulagsbreyting sem liggur hér til umsagnar mun að óbreyttu ganga gegn verndargildi svæðisins.“ Er slíkt m.a. byggt á tillögu FOJAB arkitekta, líklega vegna þess stíls og arkitektúrs sem þar er sýndur. Í þeirri tillögu er verið að setja göngubrú út í leirurnar. Er það von Flokks fólksins að farið verði vel yfir athugasemdir Náttúrufræðistofnunar sem eru vel unnar og benda á hvað þetta er viðkvæmt og mikilvægt svæði fyrir fjörulíf. 

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. desember 2024. 

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 2. desember 2024.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 4. desember 2024.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. desember 2024. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins er sammála bókun íbúaráðs Grafarvogs frá fundi ráðsins í desember. Í bókuninni segir: „Íbúaráð Grafarvogs gerir alvarlegar athugasemdir við nýjar framkvæmdir við strætóskýli við eystri akrein Strandvegar við gatnamótin við Rimaflöt. Láðst hefur að gera útskot við skýlið svo stöðvun vagna við skýlið mun enn auka á umferðarteppur sem myndast þarna. Nú þegar eru miklar tafir á umræddum vegi, sérstaklega á annatímum og í ljósi þess að íbúum og starfsemi í Gufunesi hefur vaxið verulega. Ráðið óskar eftir að þetta verði lagfært sem allra fyrst, útskot fyrir vagna gert við skýlið og hæð gangstéttarbrúnar lækkuð.“ Það getur ekki verið mikil aðgerð að gera útskot við strætóskýlið til að liðka fyrir umferð. Flokkur fólksins leggur áherslu á bætt flæði umferðar í borginni. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að aðgengi hreyfihamlaðra sé gott í almenningssamgöngur og því styður Flokkur fólksins þessa bókun.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 5. desember 2024.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 18. október 2024.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 6. nóvember 2024.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 13. nóvember 2024.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál (MSS24120047, MSS24120031, MSS24100050).

    Fylgigögn

  29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.

    -    Kl. 11:00 víkur Árelía Eydís Guðmundsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 6. desember 2024, varðandi tillögur vegna stofnunar nýs félags um rekstur almenningssamgangna, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum.

    -    Kl. 11:20 víkja borgarstjóri og Björg Magnúsdóttir af fundinum.

    Páll Björgvin Guðmundsson, Hildigunnur Hafsteinsdóttir og Ragnar Þórir Guðgeirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt borgarfulltrúunum Andreu Helgadóttur, Ástu Þórdísi Skjalddal, Kjartan Magnússon og Sabine Leskopf. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um mjög miklar breytingar að ræða vegna stofnunar nýs félags um rekstur almenningssamgangna. Fulltrúi Sósíalista ítrekar mikilvægi þess að vagnstjórar Strætó bs. fái aðkomu að nýrri stjórn þar sem mikilvægt er að fólk með þekkingu og reynslu af almenningssamgöngum sitji í stjórn. Þá leggjast Sósíalistar gegn útvistun á rekstri almenningssamgangna. 

  31. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir því að tillaga sem snýr að því að að fáni Palestínu verði dreginn að húni við Ráðhús Reykjavíkur til að sýna samstöðu með íbúum í Palestínu, verði sett á dagskrá borgarráðs. Tillagan var fyrst lögð fram 16. nóvember 2023 en hefur enn ekki hlotið afgreiðslu þrátt fyrir ítrekanir.

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hyggist styðja eitthvað við kennara í Laugarnesskóla í þessum sviptingum sem framundan eru. Benda má á að samkvæmt tímalínu sem kynnt er þá er áætlað að fyrstu húsin komi ekki fyrir en eftir að næsta skólaár er hafið. Margir kennarar eru búnir að pína sig til að starfa áfram, þeim er alltaf sagt að það sé bara eitt skólaár í viðbót. Þá var áfall fyrir marga að heyra að þetta verði ekki klárt fyrir byrjun næsta skólaárs. Einnig er óskað upplýsinga um hvaða mótvægisaðgerða borgin ætlar að grípa til vegna fyrirsjáanlegrar skerðingar á vinnuaðstöðu starfsfólks Laugarnesskóla og í framhaldinu uppbroti á skólagerðinni.

Fundi slitið kl. 11:40

Dagur B. Eggertsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 12.12.2024 - prentvæn útgáfa