Borgarráð
Ár 2024, fimmtudaginn 5. desember, var haldinn 5765. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram sameiginleg umsögn Borgarsögusafns og umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2024, um tillögu að friðlýsingu Hólavallagarðs á grundvelli menningarminjalaga, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.- 9:09 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. desember 2024, ásamt fylgiskjölum, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hætta framkvæmdum og segja upp verksamningi við verktaka um viðgerðir og endurbætur á leikskólanum Laugasól, Leirulæk 6. Þá er jafnframt óskað eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að óska eftir heimild til niðurrifs á núverandi húsi og að láta hanna nýjan leikskóla á lóðinni.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Við framkvæmdir á leikskólanum Laugasól sem byggður var árið 1965 kom í ljós að jarðvegur sem byggingin er á er ekki burðarhæfur. Þar með eru forsendur við frekari endurbætur brostnar og því heimilar borgarráð að núverandi hús verði rifið. Meirihlutinn leggur mikla áherslu á að nýr leikskóli á lóðinni fari strax í uppbyggingu, verði í miklum gæðum og rísi hratt. Yfirstandandi er umfangsmikið átak sem miðar að því að fjölga plássum í leikskólum og vinna til baka pláss í leikskólum sem ekki er hægt að nýta vegna framkvæmda og er Laugasól hluti af því.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að leikskólinn Laugasól verði rifinn en leggja áherslu á að skynsemi ráði för við uppbyggingu nýs leikskóla. Ný leikskólabygging verði byggð af hófsemd en vandi skólakerfisins hérlendis hefur ekki síst verið sá að miklu hefur verið varið í skólabyggingar og umbúðir meðan innihaldið, námið sjálft, hefur setið á hakanum. Þá er vakin athygli á því að þessa stundina eru um 370 leikskólapláss ónothæf vegna myglu, raka og viðhalds í Reykjavík. Mikilvægt er að viðhaldi skólahúsnæðis sé vel sinnt í borginni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn óskar eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að hætta framkvæmdum og segja upp verksamningi við verktaka um viðgerðir og endurbætur á leikskólanum Laugasól, Leirulæk 6, og hefja niðurrif. Þetta er eitt vandræðalegasta mál sem komið hefur upp í borginni: Mál sem enginn skilur. Flokkur fólksins hefur óskað upplýsinga um hversu miklu fé hefur verið varið í endurbætur á húsnæði leikskólans Laugasól í Reykjavík og hvort ekki hafi verið hægt að sjá og meta burðarstyrk í jarðvegi og undirstöðum áður en ráðist var í framkvæmdirnar. En ekki er öll vitleysan eins: Vandinn er bara að svona mál eru ekki ný af nálinni í borgarkerfinu. Dæmi eru um að offjár er eytt í endurgerð á ónýtum húsum. Endurbætur sem hér um ræðir hófust í sumar. Til stóð að reisa viðbyggingu, stækka kjallara og fara í aðrar viðgerðir. Við nánari skoðun á byggingunni, jarðvegi og burði kemur í ljós að húsið er ekki í því ástandi sem gert var ráð fyrir. Þetta er hús sem var byggt 1965. Það virðist vera að það sé ekki mikill burður í jarðveginum né heldur undirstöðunum. Búið er að henda háum fjárhæðum út um gluggann því nú skal rífa húsið og byggja nýtt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. desember 2024, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki meðfylgjandi samkomulag um uppbyggingu á Skeifunni 7 og Skeifunni 9, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Oddný Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera ekki athugasemdir við fyrirhugaða uppbyggingu en sem fyrr gera fulltrúarnir fyrirvara við þau innviðagjöld og þær kvaðir sem almennt eru lagðar á uppbyggingaraðila í Reykjavík.
Fylgigögn
-
Afgreiðsla og bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók.
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. desember 2024, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Karlsruhe í Þýskalandi dagana 7.-11. desember 2024 til að taka þátt á fundi í stefnumótunarnefnd Evrópusamtaka sveitarfélaga, ásamt fylgiskjölum.
Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju bréf borgarritara, dags. 8. október 2024, þar sem óskað var eftir því að borgarráð samþykki að rifta kaupsamningi, dags. 16. janúar 2018, upphaflega milli Loftkastalans ehf. og Reykjavíkurborgar um kaup á fasteignum ásamt tilheyrandi lóðarréttindum og byggingarrétti í landi Gufuness, vegna verulegra vanefnda kaupanda á greiðslum skv. kaupsamningi og síðari viðaukum, sem samþykkt var á fundi borgarráðs 10. október 2024 og fært í trúnaðarbók.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sátu hjá við afgreiðslu málsins.Ívar Örn Ívarsson tók sæti á fundinum undir þessum líð með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:
Um er að ræða verulega umdeilt mál þar sem Reykjavíkurborg hefur viðurkennt mistök. Fleiri en einn lóðarhafi á svæðinu hefur lent í basli meðal annars vegna þess að forsendur um ástand lóðanna og svæðisins stóðust ekki. Það að þeir aðilar hafi ekki lagt í þá baráttu að leita réttar síns er ekki sama og syndaaflausn fyrir borgina. Ljóst er að margt mátti betur fara í Gufunesi að ónefndum öðrum álitamálum. Eðli málsins samkvæmt er borgin í yfirburðarstöðu gagnvart lóðarhöfum á svæðinu en fram kemur að borgin hafi getað leiðrétt vankanta gagnvart Loftkastalanum en valið aðrar leiðir vegna kostnaðar. Réttast væri að þegar slíkar aðstæður koma upp að borgaryfirvöld séu til fyrirmyndar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:
Meirihlutinn vill rifta kaupsamningi vegna vanefnda milli Loftkastalans og Reykjavíkurborgar um kaup á fasteignum og lóðarréttindum í landi Gufuness. Loftkastalinn vill ekki greiða fyrir vöru sem ekki er tilbúin til afhendingar og einskis virði þar sem hún nýtist ekki í þeim tilgangi sem henni var ætlað en nýta átti húsið fyrir leikmyndagerð. Lóðinni var skipt í tvennt eftir að kaupin gengu í gegn en án samráðs við kaupendur. Síðar kom í ljós að hækka átti baklóðina. Lóðarhafi reyndi að fá staðfesta hæðarkóta í kringum eignir sínar sem dróst og þegar kótar loks komu voru þeir rangir. Reykjavíkurborg hefur þegar viðurkennt mistökin í viðaukum við kaupsamning. Óbyggð lóð er hækkuð um allt að 60 cm. Þessi mismunandi hæð á lóðum hindrar nýtingu þar sem ekki er hægt að renna stórum hlutum, leikmunum, á milli húsanna og einnig hindrar þetta aðkomu að núverandi húsum. Ekki er búið að finna lausn á þessum vandamálum. Í deiliskipulagi er ekkert sem gefur heimild til að breyta landslagi. Enginn hæðarkóti er enn komin á Þengilsbás 1. Í júlí 2022 var greiðslum frestað og Reykjavíkurborg ætlaði að finna viðunandi lausn. Það hefur ekki gengið eftir. Staðan hefur ekkert breyst og þess vegna hafa byggingarréttargjöld ekki verið greidd.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. desember 2024, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki meðfylgjandi viðbótarleigusamning við KSÍ um afnot af hluta af aðstöðu á Laugardalsvelli, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja fyrirliggjandi viðbótarleigusamning við KSÍ vegna afnota af aðstöðu á Laugardalsvelli fyrir nemendur Laugarnesskóla á meðan unnið er að viðgerðum á skólanum. Fulltrúarnir harma hve viðhaldsmálum skólans hefur verið illa sinnt síðasta áratuginn með tilheyrandi áhrifum á skólastarf, starfsfólk, nemendur og fjölskyldur þeirra.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. desember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi viðauka um leigusamning vegna Hólmaslóðar 2 vegna Tónlistarþróunarmiðstöðvar, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2024 ásamt greinargerðum fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 5. desember 2024, og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 5. september 2024. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. desember 2024, framvinduskýrsla nýframkvæmda, ódags., og umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 2. desember 2024.
- Kl. 9:25 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.
Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Óli Jón Hertervig og Jónas Skúlason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð sem nemur ríflega 1,1 milljarði króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan yrði jákvæð um tæpa 5,5 milljarða króna. Hér er því um að ræða neikvæða sveiflu sem nemur tæplega 4,4 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins. Það stafar meðal annars af því að Perlan hefur ekki verið seld, líkt og áætlanir gerðu ráð fyrir, en jafnframt á eftir að ljúka áætlaðri sölu byggingarréttar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera athugasemdir við að rekstur borgarinnar sé ekki sjálfbær og að grunnþjónusta borgarinnar hangi á eignasölu.
Fylgigögn
- Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar-september 2024
- Skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs með árshlutareikningi Reykjavíkurborgar janúar - september 2024
- Greinargerð fagsviða með árshlutareikningi Reykjavíkurborgar janúar - september 2024
- Framvinduskýrsla janúar-september 2024
- Umsögn endurskoðunarnefndar um samantekinn árshlutareikning Reykjavíkurborgar
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 6. nóvember 2024, varðandi starfs- og fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2025, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2024.
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Óli Jón Hertervig og Jónas Skúlason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 14. nóvember 2024, varðandi endurgreiðsluhlutfall vegna réttindasafns Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2024.
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Óli Jón Hertervig og Jónas Skúlason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg vegna Safamýri 58-60, uppfærð umsókn 37 leiguíbúða; nýbygging Safamýri 58-60, áætlað stofnvirði 2.779.968.699 kr. og 12% stofnframlag 273.596.244 kr. Búið er að afgreiða umsókn vegna Safamýri 58-60 þá 32 íbúðir og stofnvirði 1.887.090.996 kr. og 12% stofnframlag 226.450.920 í formi byggingaréttar, sbr. samþykkt borgarráðs þann 1. febrúar 2024. Að teknu tilliti til áður samþykkts stofnframlags er mismunur umsókna fimm íbúðir að stofnvirði 392.877.703 kr. og 12% stofnframlag 47.145.324 kr. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 25. nóvember 2024.
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir, Karl Einarsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg til Brynju leigufélags ses. vegna kaupa 20 leiguíbúða; kaupáætlun 2024, áætlað stofnvirði 1.409.178.176 kr. og 12% stofnframlag 169.101.381 kr. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 25. nóvember 2024.
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir, Karl Einarsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. desember 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg til Félagsbústaða hf. vegna kaupa 82 leiguíbúða; kaupáætlun 2024, þriðja úthlutun, áætlað stofnvirði kr. 4.564.575.000 og 12% stofnframlag kr. 547.749.000. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 25. nóvember 2024.
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir, Karl Einarsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. nóvember 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. nóvember 2024, varðandi drög að reglum um nýtingu húsnæðis starfsstaða skóla- og frístundasviðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. nóvember 2024.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Helgi Grímsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 26. nóvember 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 25. nóvember 2024, varðandi viðauka við þjónustusamning Söngskólans í Reykjavík vegna efri stiga tónlistarnáms, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 28. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja verkefnið stafrænt borgarkort, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft áður lagt fram fyrirspurnir varðandi lausnir sem þessar – sem bæði fyrirtæki og opinberir aðilar eru fyrir löngu komin með. Til gamans má geta þess að það virðist oft vera svo að fljótlega eftir að fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt skort á svona lausnum, fara að dúkka upp verkefnaáætlanir og annað fyrir þau sömu verkefni. Eflaust gæti verið þarna um að ræða tilviljanir, en hvernig sem í því liggur fagnar fulltrúinn hverri þeirri lausn sem sparar tíma borgarbúa og starfsfólks. Það er bara ekki í lagi að stærsta sveitarfélag á Íslandi skuli í raun vera svo langt á eftir í innleiðingu svona snjalllausna. Fulltrúinn minnist þess varla að til sé nokkurt Reykjavíkur-app til hægðarauka fyrir borgarbúa – svona eitthvað í líkingu við Ísland.is-appið sem tilbúið var í mars 2022. Sundkort er t.d. fyrir löngu komið í síma Garðbæinga svo annað dæmi sé tekið fram.
-
Lagt fram trúnaðarmerkt bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 28. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja frumathugun fyrir verkefnið rafrænar beiðnabækur fyrir FAS, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um að ræða þrjú mál frá þjónustu- og nýsköpunarsviði: Heimild til að hefja verkefnið stafrænt borgarkort, heimild til að hefja frumathugun fyrir verkefnið rafrænar beiðnabækur og heimild til að ljúka innleiðingu á Teams Phone símakerfi inn á öll svið Reykjavíkurborgar. Eftir því er tekið að það er trúnaður á öllum þessum málum. Af hverju þessi leynd, leyndarmál? Hvað er það á þessu stigi sem ekki þolir dagsins ljós hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði? Sem svar við fyrirspurn um þetta atriði er ástæðan sú að kostnaðartölur eru birtar og gæti það haft áhrif á útboð. Það er þannig í fjölmörgum málum og er þó ekki trúnaður á þeim. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um pappírsbeiðnakerfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Um er að ræða handskrifaðar pappírsbeiðnir sem fylgja pappírsreikningum sem sendir eru til borgarinnar sem síðan þarf að skrá handvirkt í tölvukerfi. Beiðnakerfið býður upp á alls konar misnotkun. Beiðnum úr beiðnaheftum borgarinnar hefur stundum verið stolið og í einu tilfelli var ekki hægt að gera grein fyrir allt að sjö milljónum sem verslað var fyrir með handskrifaðri innkaupabeiðni frá Reykjavíkurborg. Tapast hafa e.t.v. tugir milljóna á þessu úrelta kerfi. Verklag innkaupabeiðna hefur verið nánast óbreytt undanfarna áratugi.
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 28. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að ljúka innleiðingu á Teams Phone símakerfi inn á öll svið Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Því ber að fagna að loksins sjái fyrir endann á rekstri og útgjöldum vegna gamalla og löngu úr sér genginna símalausna sem ekkert virðist hafa verið hróflað við árum saman. Reykjavíkurborg hefur verið að greiða gríðarlegar fjárhæðir vegna Microsoft leyfissamninga – og eflaust verið greitt af Teams leyfum í langan tíma. Það er því fyrir löngu komin tími til þess að þetta verkefni verði klárað. Verður fulltrúi því enn og aftur að taka það fram að eitthvað meira en lítið virðist vera bogið við forgangsröðunina á verkefnalista þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Er það von fulltrúans að enn fleiri verkefni, sem ekki hefur verið hugað að fyrr, sjái dagsins ljós með hag bæði starfsfólks og borgarbúa að leiðarljósi.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sölu Perlunnar, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2024. MSS24110046
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði um söluferli Perlunnar og skilyrði sem snúa að m.a. notkun hússins, aðgengi almennings og bílastæðum, t.d. hvort þau verði opin almenningi endurgjaldslaust. Í svari má lesa að greiða þarf bílastæðagjöld, hófleg, hvað svo sem það þýðir. Líklegt er að bílastæðin verið tekjuuppspretta þeim sem þau eiga. Það er ekki ásættanlegt og taka þarf fyrir slíkt í leigusamningi. Einnig kemur fram að ákvörðun um sölu Perlunnar var tekin í ljósi þess að húsnæði hennar nýtist ekki fyrir kjarnastarfsemi Reykjavíkurborgar. Það hefur aldrei verið þörf á þessu húsnæði fyrir starfsemi borgarinnar svo ekkert er nýtt í þeim efnum. Segir í svari að tilgangurinn með sölu hennar til lengri tíma litið er að ná fram hagræðingu í rekstri og skerpa með þeim hætti á hlutverki borgarinnar. Auðvitað á að færa söluna í bókhald á því ári sem hún selst en ekki að færa mögulegt söluandvirði fyrirfram eitthvert ár þar sem er alls ekki víst að hún seljist á því ári. En það er rétt sem kemur fram í svari að litlu máli skiptir hvort Perlan verði seld fyrir eða eftir áramót. En meirihlutinn gefur sér hins vegar að hún verði seld fyrir áramót og lappi þá uppá bókhald ársins 2024.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 26. nóvember 2024.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaða frá 26. nóvember 2024.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. október 2024.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í fundargerð kemur fram að samþykkt er heimild til kaupa á lóðum úr landi Æsustaða. Um er að ræða land þar sem þegar boraðar holur eru. Er það ekki slök verkstjórn að kaupa lóðir eftir að borholur hafa verið gerðar og nýting þeirra hafin? Orkuveitan þarf þá að taka hverju því verði sem sett er upp. Væri ekki betri stjórnun að kaupa fyrst og bora svo? Undir öðrum málum, lið 13, er sagt að „Líkur eru á því að hundruð megavatta liggi þar ónýtt í jörðu“ á Hellisheiðarsvæðinu. Þetta er hæpin fullyrðing að vatnið liggi ónýtt, en margoft hefur komið fram hjá jarðvísindamönnum að heitt vatn í jörðu sé einnota auðlind. Það eyðist sem af er tekið. Þannig að ef vatnið er ekki nýtt núna getur það nýst komandi kynslóðum, en ekki ef það er nýtt núna.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 30. september og 2. og 18. október 2024.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 30. september 2024 og 3. lið fundargerðarinnar frá 2. október 2024:
1. liður: Stjórn felur framkvæmdastjóra, í samræmi við fjárhagsáætlun, að flytja rekstur gashreinsistöðvar SORPU yfir í einkahlutafélagið Metan ehf., sem er í 100% eigu SORPU bs. Fulltrúa Flokks fólksins finnst athyglisvert að það þyki sjálfsagt að SORPA flytji rekstur gashreinsistöðvar SORPU yfir í einkahlutafélagið Metan ehf., sem er þó í 100% eigu SORPU bs. Ekki er séð hvernig hagræði er af þessu, öllu heldur kallar þetta hugsanlega á meiri yfirbyggingu. 3. liður: Ekki er annað að sjá en að stefnt sé að hátæknisorpbrennslu á Helguvíkursvæðinu. Því er velt upp hvort það sé vel ígrundað og hvernig þessi ákvörðun var tekin. Þar eru minni möguleikar á að nýta varma og orku sem myndast í brennslunni en ef brennslan væri nær höfuðborgarsvæðinu, t.d á Álfsnesi. Flokkur fólksins hefur áður bókað um þessi mál. Hátæknisorpbrennsla á Sjálandi í Danmörku er nálægt miðborg Kaupmannahafnar til að auðvelt sé að nýta afurði sorpbrennslunnar. Þessi staðsetning sýnir að slík brennsla hefur lítið slæmt í för með sér fyrir umhverfið. Út að Helguvík er miklu lengra að aka með sorp frá Reykjavík en á Álfsnes. Það eykur kolefnissporið sem alltaf er verið að berjast við.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál (MSS24010024, MSS24010022, MSS23050105, MSS24100031, MSS24100155, MOS24080005, FAS24110030).
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.
Fylgigögn
-
heyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig standi á því að Reykjavíkurborg hafi selt byggingarrétt uppá 15.000 kr.m2. án nokkurs fyrirvara í fyrsta kaupsamningi í Gufunesi 26. maí 2016 með hagnað upp á rúman einn milljarð fyrir kaupanda. Er ekki rétt að viðskipti sem þessi stangist á við ríkisaðstoð samkvæmt 61. gr. EES-samningsins og jafnaðarreglu í stjórnarskrá? Sjá nánar í greinargerð. Byggingarréttur á óbyggðum fermetrum er seldur á 15.000- krónur óverðtryggður og engir vextir og engin takmörk á byggingarmagni og að ekki þurfi að greiða fyrr en teikningar eru lagðar inn. Spurt er hvernig þetta má vera.
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvers vegna er fyrirhuguð hátæknisorpbrennsla ekki staðsett þar sem auðvelt er að nýta afurðirnar? Afurðir hátæknisorpbrennslu eru aðallega varmi sem myndast í brennslunni. Má ekki nýta þennan varma til að hita upp vatn sem yrði best nýtt til hitaveitu? Ekki er annað að sjá en að stefnt sé að hátæknisorpbrennslu á Helguvíkursvæðinu. Er það vel ígrundað og hvernig var þessi ákvörðun tekin ef svo er?
Greinargerð fylgir tillögunni.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stefnumótun Hörpu.
- Kl. 10:35 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundi og tekur sæti með rafrænum hætti.
Svanhildur Konráðsdóttir og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fundi slitið kl. 10:56
Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 05.12.2024 - prentvæn útgáfa