Borgarráð
Ár 2024, fimmtudaginn 28. nóvember, var haldinn 5764. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2024, ásamt fylgiskjölum:
Greinargerð starfshóps um skipulagsvinnu og samninga vegna lífsgæðakjarna, dags. 25. nóvember 2024, er lögð fram til kynningar. Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa málinu til umhverfis- og skipulagssviðs til frekari meðferðar.
Samþykkt.
Björn Axelsson, Margrét Lára Baldursdóttir og Valný Aðalsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er afar ánægjulegt að sjá þessa fallegu sýn borgarinnar um lífsgæðakjarna birtast. Hér birtist framtíðarsýn sem er í takti við þá þróun að fleiri verða í hópi þeirra sem eru eldri og þarfir þess hóps eru mjög ólíkar. Reynt verður að koma til móts við þær þarfir þannig að hugað sé að lýðfræðilegum og menningarlegum þáttum sem eru viðeigandi. Meirihlutinn ítrekar mikilvægi þess að gerðar séu dagsbirtugreiningar í íbúðum og að hönnun og dýpt húskroppa tryggi góða birtu. Þá er mikilvægt að allt umhverfi taki mið af ólíkum þörfum, t.a.m þörfum eldra fólks fyrir leiktæki fyrir barnabörn í görðum. Þá er rétt að minna á að huga að ólíkum búsetuformum eins og co-housing og kanna áhuga eldra fólks á þeirri hugmyndafræði, þá gæti verið svigrúm til að víkja frá kröfu um stærri íbúðir. Mikilvægt er að tryggja að á jarðhæðum sé þjónusta, kaffihús, veitingastaðir eða verslanir sem tengja íbúa í samveru og einfalda líf borgaranna.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að við þróun á svokölluðum lífsgæðakjörnum að hugað sé að því að þeir verði aðgengilegir fyrir alla eldri borgara, óháð efnahag. Kjarnar þurfa að byggjast upp á forsendum félagslegrar blöndunar en jafn mikilvægt er að það byggist örugglega upp fjölbreyttir kjarnar með íbúðum sem eru sannarlega á viðráðanlegu verði fyrir efnaminna fólk og að ekki sé mikill hvati til þess að byggja upp sem dýrasta húsnæðið sem mest er hægt að hagnast á. Sömuleiðis þarf að huga betur að því að hjúkrunarrými séu byggð í tengslum við lífsgæðakjarna. Það er mikilvægt fyrir íbúa sem eru í sambúð en annar aðilinn fer að þarfnast dvalar í hjúkrunarrými. Slík tenging er mjög mikilvæg fyrir lífsgæði sambýlisfólks, að geta verið nálægt hvert öðru og notið samvista sem mest þrátt fyrir mismikla þjónustuþörf. Gera þarf ráð fyrir því að fólk vilji búa lengi á sínu heimili sem hafa keypt sér húsnæði í slíkum kjarna, þó það hafi flutt inn tiltölulega hraust.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Kynnt er greinargerð starfshóps um skipulagsvinnu og samninga vegna lífsgæðakjarna. Greinargerðin virðist í fljótu bragði vera yfirgripsmikil og taka á helstu þáttum. Að mörgu er að huga. Flokkur fólksins hefur talið mest um vert sé að lífsgæðakjarnar séu vel tengdir innviðum þjónustu s.s. matvörubúð, heilsugæslu, veitingastöðum, almenningsgarði, almenningssamgöngum o.fl. sem skuli vera innan 10 mínútna göngufjarlægðar frá heimili fólks. Einnig líkamsrækt og sundlaugar. Þessi þjónusta þarf að vera hentug öllum án tillits til hreyfigetu og huga þarf að því að fjárhagsleg staða fólks hafi sem minnst áhrif á aðgengi að þjónustu. Ekki er þörf á þjónustueiningum sem þessi aldurshópur nýtir ekki. Almenningssamgöngur þurfa að vera í nágrenninu. Gæta þarf að samráði, og að samráðsferli verði strax sett af stað áður en hugmyndir taka á sig einhverja alvöru mynd.Gæta þarf þess að í upphafi sé haft samráð við fjölbreyttan hóp fyrirhugaðra notenda til að draga fram þarfir og væntingar t.d. um hönnun og aðbúnað kjarnanna. Einnig samráð við nærliggjandi íbúa. Gefa þarf þessu atriði góðan tíma.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti að byggingarrétti á lóðunum Hlésgötu 1 annars vegar og Hlésgötu 2 hinsvegar, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu við málsins.Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2024, varðandi starfshóp um eignarhald íþróttamannvirkja á starfssvæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. september 2024, ásamt fylgiskjölum, sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 12. september 2024 og færð var í trúnaðarbók:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samningi og veiti borgarstjóra heimild til að skrifa undir meðfylgjandi loftslagsborgarsamning sem felur í sér yfirlýsingu um að Reykjavík stefni að kolefnishlutleysi 2030 og hvetji aðra til að taka þátt í því verkefni. Málið er enn í vinnslu á vettvangi Evrópusambandsins og síðustu forvöð til að skila undirrituðum samningi er 16. september nk. en Reykjavíkurborg hefur frest til 19. október nk. til að safna undirskriftum samstarfsaðila. Trúnaður ríkir því um málið fram að 19. október nk.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Ólöf Örvarsdóttir tók sæti á fundinum undir þessum lið. Hrönn Hrafnsdóttir tók sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:
Eyðilegging náttúru af mannavöldum, loftslagsbreytingar og mengun eru afleiðing kapítalismans, þess að auðvaldið hefur fengið að ráða ferðinni og farið sínu fram. Frumforsenda þess að vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva eyðileggingu náttúrugæða er að taka völdin af auðvaldinu. Það er stærsta aðgerðin í loftslagsmálum. Þegar litið er til sveitarstjórnarstigsins þá eru vegasamgöngur stór þáttur í kolefnisfótspori höfuðborgarsvæðisins þar sem bílaumferð spilar stóran hlut. Grípa þarf til aðgerða til að tryggja að almenningssamgöngur séu áreiðanlegar. Skilaboð borgaryfirvalda og byggðasamlaga hvetur íbúa til þess að nota strætó í stað bílsins á meðan að almenningssamgöngur og umgjörðin í kringum þær eru mjög óáreiðanlegar. Þá eru einnig allskyns stefnur við lýði hjá borginni sem miða við að umhverfisvænar leiðir séu farnar í starfsemi borgarinnar, líkt og finna má í matarstefnu þar sem fjallað er um það markmið að matur sé framleiddur í nærumhverfi sem á síðan ekki alltaf við. Allar kerfisbreytingar þurfa að miða við hag almennings, þar sem rödd þeirra stýrir breytingum í loftslagsmálum. Fulltrúi Sósíalista þakkar fyrir vinnu starfsfólks sem hefur verið lögð í aðgerðaráætlunina og verkefnið sem hér um ræðir og tekur undir markmið samningsins um að flýta því að ná fram kolefnishlutleysi.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarssviðs, dags. 25. nóvember 2024, varðandi frumvarp að fjárhagsáætlun og uppfærða þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagðar fram breytingatillögur Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, dags. 28. nóvember 2024, við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025.
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í breytingartillögu SBPC-7 er lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.737.000 þ.kr. vegna innleiðingar á nýju leikskólalíkani, Snorra. Í tillögunni er lögð til hækkun á framlagi upp á tæpa 2,2 milljarða til almennra leikskóla (1,7 milljarður) og til einkarekinna leikskóla (rúmar 400 milljónir). Hér eru um mikla aukningu að ræða sem þarfnast útfærslu og skýringar, t.d. hvort fjárþörfin hafi verið vanmetin í fyrri drögum að fjárhagsáætlun. Í breytingartillögu SBPC-11 er fjallað um fjárfestingu í stafrænni innviðum flutt í rekstur, þessi breytingartillaga er ekki samþykkjanleg. Í fyrsta lagi verður rekstur ÞON á næsta ári umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Því er verið að færa fjármuni frá fyrirhugaðri fjárfestingu í rekstur eða samtals rúmlega 900 milljónir. Í öðru lagi á að hækka rekstrarkostnað vegna fjárfestinga um 181 milljón. Í þriðja lagi er verið að reyna að dylja sífellt meira umfang þjónustu- og nýsköpunarsviðs með því að færa hluta af rekstrarkostnaði sviðsins bæði yfir á sameiginlegan kostnað Reykjavíkurborgar (242.768+400.000=642.768 þús. kr. eða nær 650 milljónir) og svo er hluti kostnaðar þjónustu- og nýsköpunarsviðs upp á 275 milljónir króna færður yfir á fagsvið. Samtals er verið að færa tæpan milljarð af rekstrarkostnaði sviðsins yfir á sameiginlegan kostnað og á önnur fagsvið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagðar eru fram eftirfarandi tillögur til samþykktar í borgarráði um fjármál og rekstur leikskóla á skóla- og frístundasviði: 1. Lagt er fram til samþykktar líkan til úthlutunar á fjárheimildum til leikskóla Reykjavíkurborgar, Leikskólalíkanið Snorri, sbr. kynning í borgarráði dags. 14. nóvember 2024 og skóla- og frístundaráði 20. nóvember 2024. 2. Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2025 hækki um 1.737 m.kr. sem felur í sér fulla fjármögnun á áætluðum rekstri borgarrekinna leikskóla Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 skv. líkaninu og forsendum þess. 3. Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækki um 432 m.kr. sem felur í sér afleidd áhrif á sjálfstætt rekna leikskóla. 4. Lagt til að reynslutímabil líkansins verði til tveggja ára eða rekstrartímabilið 1. jan. 2025–31. des. 2026. Áhersla verði lögð að leikskólar Reykjavíkur sem fá úthlutað fjármagni með hliðsjón af forsendum reiknilíkansins hagi rekstri innan fjárheimilda og í jafnvægi á tímabilinu. Á reynslutímabilinu verði markvisst unnið að því að fínstilla forsendur líkansins með áherslu á skilvirka nýtingu mannauðs og fjármagns, mælingar, ferla- og árangursstjórnun. Þá er rík áhersla lögð á að virkan stuðning við stjórnendur um skipulag rekstrar í samræmi við forsendur rekstrarlíkansins og eftirlit með framgangi í samræmi við reglur um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg (FMS-STE-001).
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Helgi Grímsson og Frans Páll Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Allt sem eykur skilvirkni og hagræðingu er gott og bera að fagna. Nýtt leikskólalíkan er líklegt til að bæta fjármálastjórn og gegnsæi í rekstrinum. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir ánægju fulltrúa leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði um hækkað stöðuhlutfall aðstoðarleikskólastjóra og fjármagn vegna fæðis starfsmanna sem er í samningum þeirra en hefur ekki verið fjármagnað í líkaninu. Það kemur hins vegar á óvart hin mikla hækkun sem verið er að leggja til og sjá má í einni af breytingartillögu meirihlutans nr. 6. Þar er lagt til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.737.000 þ.kr. vegna innleiðingar á nýju leikskólalíkani, Snorra. Í tillögunni er lögð til hækkun á framlagi upp á tæpa 2,2 milljarða til almennra leikskóla (1,7 milljarður) og til einkarekinna leikskóla (rúmar 400 milljónir). Hér eru ansi mikla aukningu að ræða sem þarfnast frekari útfærslu og skýringar t.d. hvort fjárþörfin var vanmetin í fyrri drögum að fjárhagsáætlun.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2024:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar reglur um rekstur Leikskólalíkansins Snorra, merktar FAS-STE-022.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Helgi Grímsson og Frans Páll Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 25. nóvember, varðandi kjarasamninga við Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga og Visku stéttarfélag sérfræðinga, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Lóa Birna Birgisdóttir og Kolbeinn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu kjarasamningsviðræðna Reykjavíkurborgar.
Lóa Birna Birgisdóttir og Kolbeinn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 732/2023 dags. 21. nóvember 2024.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 27. nóvember 2024, varðandi fundadagatal borgarráðs 2025, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. nóvember 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Loftkastalann, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2024.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um stöðu á máli Loftkastalans sem varðar lóðirnar Gufunesvegur 34. Þengilsbás 1 þar sem farið var í landslagsbreytingar án fyrirvara í deiliskipulagi. Spurt var hvort farið hafi fram könnun á stjórnsýslu Loftkastalamálsins ásamt ábendingum frá forsvarsmönnum Loftkastalans. Staðfest hefur verið að borgarlögmanni var falið þetta verkefni, að gera minnisblað um málið og stóðu vonir til að það yrði unnið með hlutlausum hætti. Eins og fram hefur komið er því miður mikið af rangfærslum í umræddu minnisblaði. Fullyrt er að eigendur hafi ítrekað hafnað fundum en nú hefur verið staðfest að enginn fundur var afboðaður. Það er heldur ekki rétt að hönnun hafi verið uppfærð og breytt í kringum hús við G34 og taki gatnahönnun því fullt tillit til núverandi húsa. Hér er talað um eins og allt hafi verið lagað að fullu sem er fjarri sanni. Einnig er rangt að ekki sé hægt að finna í fyrirliggjandi gögnum að öllum hafi mátt vera kunnugt um forsendur félagsins fyrir kaupunum. Það er alvarlegt að Reykjavíkurborg fríi sig allri ábyrgð á þessu máli. Enn vantar að opinbera gögn. Kaupsamningi hefur verið rift af hálfu borgarinnar. Málið stefnir fyrir dómstóla og spyrja þarf því að leikslokum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 21. nóvember 2024.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Afar áhugaverð kynning frá Þroskahjálp á stafrænu aðgengi fatlaðs fólks með áherslu á þroskahömlun. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá þjónustu- og nýsköpunarsvið halda sambærilega kynningu um hvernig sviðið hugi að aðgengi fatlaðs fólks að stafrænum lausnum og hvort tekið hafi verið tillit til fatlaðra í hinni stafrænu vegferð Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins hefði einnig viljað sjá meirihlutann í Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráði ávarpa þetta atriði. Eins og fram kemur í kynningu þarf að gæta þess einmitt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að auka líkur á að tækni og þróun hennar samræmist mannréttindalögum. Aðilar sem þróa eða nota tæknilausnir eru ekki með réttindi eða þarfir fatlaðs fólks í huga og er það bagalegt. Tekið er undir að ástæðan sé m.a. að umræðan er ekki til staðar, gögn eru ekki til og rannsóknir af skornum skammti. Fatlað fólk er nánast ósýnilegt í bæði almennri umræðu sem og samtali tæknigeirans. Þessu þurfum við að breyta. Komið er inn á gervigreind. Þar er margt að varast. Hópar sem hafa sætt fordómum, mismunun eða einfaldlega verið ósýnilegir eiga á hættu að verða fyrir enn meiri mismunun sé þess ekki sérstaklega gætt að leiðrétta þau gögn sem gervigreind er mötuð á.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 18. nóvember 2024.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaup og framkvæmdaráðs frá 21. nóvember 2024.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Lögð fram kynning á verklagi innkaupa, dags. 18. nóvember 2024, merkt ÞON24110042, frá þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir þessu, hvort það sé eitthvað sérferli fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið sem önnur svið þurfi ekki að fylgja. Hér þarf að koma inn einhverjum skýringum t.d. hvort innkaupaferli og eða verklag innkaupa hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði sé á einhvern hátt frábrugðið innkaupaferlum hjá öðrum skrifstofum og sviðum Reykjavíkurborgar eða hvernig verklagi beinna innkaupa sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur gert án samninga, er háttað. Flokkur fólksins mun leggja inn formlegar spurningar um þessi atriði. Áhyggjur eru af hvernig bæði eftirfylgni og eftirliti er háttað með öllum þessum innkaupaferlum sem sviðið virðist vera með í gangi á sama tíma.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 21. nóvember 2024.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 18. nóvember 2024.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 27. nóvember 2024.
7. liður fundargerðarinnar er samþykktur.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Eftir því er tekið að jólaborgin eða öllu heldur jólamiðborgin sem er meira réttnefni er að stærstu leyti í miðbænum og miðsvæðis. Flokkur fólksins hefur áhyggjur að aðgengi að þessum svæðum, t.d. aðgengi fyrir þá sem ekki búa í nágrenni við miðbæinn og geta gengið til að skoða dýrðina svo ekki sé minnst á fatlað fólk eða fólk með skerta hreyfigetu sem mundi njóta þess að skoða jóladýrðina í sínu næsta nágrenni. Fólk í efri byggðum á erfitt með að fá bílastæði í miðbænum. Auk þess er fokdýrt að leggja bíl í bænum og ekki allir sem hafa ráð á slíku. Þetta er bagalegt ekki síst vegna barnanna utan miðborgar sem mörg hver munu aldrei njóta „jólaborgarinnar“. Skipta þarf þessari köku jafnar út í hverfin í stað þess að öll skemmtilegheitin séu miðsvæðis. Verkefnið jólaborgin er ekki gamalt og rótgróið og því engin vandi að endurskoða það þannig að það verði alvöru „jólaborg“ en ekki aðeins „jólamiðborg“. Þetta eru vangaveltur sem fulltrúi Flokks fólksins telur sig knúinn til að varpa fram hér enda um augljóst misrétti að ræða eftir búsetustað.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 20. nóvember 2024.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins finnst áhugaverð fyrirspurn í lið 4 en öldungaráð óskar eftir tölfræðiupplýsingum frá Strætó um nýtingu Klappsins annarsvegar hjá eldra fólki, skipt eftir aldursbilum 60-67 ára, 68-75 og 76–83 ára og 84 ára og eldri og hinsvegar í hópi öryrkja sem tilheyra sama aldursbili. Jafnframt hefur ráðið áhuga á upplýsingum hvort vissar biðstöðvar sýni fleiri eða færri inn/útstig en aðrar. Ef sýnilegur munur er á nýtingu eldra fólks við vissar biðstöðvar, hverjar eru þær og hver er fjöldi inn/útstiga í kringum þær stöðvar? Eru til biðstöðvar sem bera enginn inn- og útstig úr þessum hópi eldra fólks? Býr Strætó yfir ferðavenjukönnunum eða annarskonar upplýsingum að auki, sem geta varpað ljósi á ferðavenjur eldra fólks í borginni? Hér er kallað eftir mikilvægum upplýsingum að mati fulltrúa Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál (MSS22030266, MSS24010024, MSS24010004, MSS24010022, MSS24110156, MSS24110163, MSS23050117, MSS24110113, MSS24110146, MSS24010049).
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að endurskoða leiðakerfi Strætó í þeim tilgangi að bæta þjónustu almenningssamgangna að Gufunesbæ svo hún mæti þjónustuþörf skólastarfs í Reykjavík og samstarfsstofnana svo sem Miðstöðvar útivistar og útináms (MÚÚ). Sem stendur þurfa öll þau leikskóla- og grunnskólabörn sem sækja svæðið vegna dagskrár Miðstöðvarinnar að ganga í hálftíma frá strætóstoppistöð við Olís til að komast í Gufunesbæ en svo langur ferðatími torveldir starfsfólki verulega við að koma dagskrá MÚÚ að í skólastarfinu og uppfylla þannig markmið skóla- og frístundasviðs.
Frestað.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Spurt er um heildarkostnað vegna lokunar leikskólans Árborgar og allra tilheyrandi framkvæmda, þar með talið vegna bráðabirgðahúsnæði leikskólans í Selásskóla og allrar hönnunarvinnu sem tengist leikskólanum.
-
Lagðar fram breytingatillögur Sósíalistaflokks Íslands merktar J-1 til J-4 við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025.
Vísað til borgarstjórnar.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til stjórnar Félagsbústaða að endurskoða ákvörðun um að innheimta aukagjöld hjá leigjendum sínum vegna óflokkaðs sorps í sameiginlegum sorpgeymslum félagsins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um tilgang þjónustu og nýsköpunarsviðs að fá vottun fyrirtækis í Bandaríkjunum á vinnustaðamenningu sviðs hjá Reykjavíkurborg? Er þjónustu- og nýsköpunarsvið að hefja leit að starfsfólki erlendis frá? Eru öll svið og skrifstofur Reykjavíkurborgar að sækjast eftir þessari vottun frá Bandaríkjunum eða bara þjónustu og nýsköpunarsvið? Hver er kostnaðurinn við undirbúning þessarar vottunar og hversu margt starfsfólk kemur að þeirri vinnu og hversu miklum tíma starfsfólk er nú þegar búið að varið í þetta atriði? Einnig er spurt um hversu margir starfsmenn sviðsins muni ferðast til Bandaríkjanna á kostnað borgarbúa til þess að taka á móti þessari viðurkenningu ef af verður?
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort að verklag innkaupa hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði sé á einhvern hátt frábrugðið innkaupaferlum hjá öðrum skrifstofum og sviðum Reykjavíkurborgar með vísan til 1. liðar fundargerðar innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 21. nóvember 2024. Einnig er óskað eftir upplýsingum varðandi það hvernig verklagi varðandi bein innkaup sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur gert án samninga, er háttað? Óskað er útskýringar á því hvernig gagnvirkt innkaupakerfi sviðsins (svokallaðir DPS samningar) passa inn í glærukynningu sviðsins á verklagi innkaupa hjá þjónustu- og nýsköpunarsviðs? Óskað er upplýsinga um hversu margar tegundir af verklagi varðandi innkaup sviðið er að notast við? Loks er spurt hvernig bæði eftirfylgni og eftirliti er háttað með öllum þessum innkaupaferlum sem sviðið virðist vera með í gangi á sama tíma?
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í breytingartillögu meirihlutans SBPC-7 sem taka á fyrir við seinni umræðu er lagt til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.737.000 þ.kr. vegna innleiðingar á nýju leikskólalíkani, Snorra. Í tillögunni er lögð til hækkun á framlagi upp á tæpa 2,2 milljarða til almennra leikskóla (1,7 milljarður) og til einkarekinna leikskóla (rúmar 400 milljónir). Hér eru ansi mikið aukin fjárútlát sem þarfnast frekari útfærslu. Hvað veldur? Er eitthvað nýtt í þessu líkani sem kallar á þessi auknu fjárútlát eða var fjárþörfin vanmetin í fyrri drögum að fjárhagsáætlun?
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvenær Sjálfstæðisflokkurinn fékk lóðina Háaleitisbraut 1? Hvaða meirihluti var þá í Reykjavík? Á hvaða verði var lóðin seld? Með hvað skilmálum fékk flokkurinn lóðina? Var það t.d. fyrir stjórnmálastarfsemi? Hvers vegna var lóðin það stór að hægt er að selja stóran hluta af henni til almennra byggingaframkvæmda? Hver er mismunur á upphaflegu lóðaverði og því verði sem lóðahlutar hafa verið seldar á síðustu misseri?
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 10:43
Dagur B. Eggertsson Andrea Helgadóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir
Hildur Björnsdóttir Pawel Bartoszek
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 28.11.2024 - prentvæn útgáfa