Borgarráð
Ár 2024, fimmtudaginn 17. október, var haldinn 5758. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:12. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Alexandra Briem, Ásta Þórdís Skjalddal, Kjartan Magnússon, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Borgarstjóri sat fundinn með rafrænum hætti. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Hulda Hólmkelsdóttir, Theodór Kjartansson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 14. október, 2024 varðandi kynningu á þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Haraldi Sigurðssyni, Jóni Kjartani Ágústssyni, Stefáni Gunnari Thors og Páli Björgvin Guðmundssyni sem taka sæti á fundinum með rafrænum hætti. Einnig taka borgarfulltrúarnir Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson og Marta Guðjónsdóttir sæti með rafrænum hætti. MSS22040012
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er lögð fram þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024 þar sem eru bestu upplýsingar frá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um stöðu skipulagsmála og uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Þegar í stað má ráðast i byggingu 6.262 íbúða sem eru á byggingarhæfum lóðum en vaxtastig og staða efnahagsmála hefur hægt á uppbyggingunni. Alls eru byggingarheimildir fyrir 12.083 íbúðir í fyrirliggjandi gildandi deiliskipulagi. Þær geta allar komið fljótt til uppbyggingar um leið og aðstæður leyfa. Uppbyggingarmöguleikar á grunni gildandi aðalskipulags sveitarfélaga er umtalsvert meira en ráða má af opinberri umræðu. Alls má byggja 57.700 íbúðir innan núgildandi vaxtarmarka. Það jafngildir heildarfjölda allra íbúða í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og tíu Seltjarnarnesjum til samans. Núverandi heildarfjöldi fullbúinna íbúða á höfuðborgarsvæðinu er 97.958 íbúðir. Það vekur athygli að margar íbúðir eru í pípunum í skipulagsferli, auk þeirra 12.000 sem eru þegar fyrirliggjandi í deiliskipulagi. Því er það metið svo að mögulegt sé að hefja uppbyggingu 3.375 íbúða að meðaltali á ári næstu fjögur árin, sem er hærra en undanfarin ár. Metnaður Reykjavíkurborgar til þess að efla húsnæðisuppbyggingu er mikill og ljóst að deiliskipulagðar lóðir eru ekki flöskuhálsinn á húsnæðismarkaði, heldur hátt vaxtastig og staða efnahagsmála.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt skýrslunni vantar um 8.000 íbúðir til þess að mæta íbúðaþörf árið 2027. Vitað er að í Reykjavík er húsnæðisuppbygging langt frá því að mæta þörf en í þessari greiningu var til skoðunar í fyrsta skipti aldur skipulagsheimilda í staðfestu deiliskipulagi. Þar var sláandi að sjá að í Reykjavík er nánast helmingur þeirra skipulagsheimilda þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar orðnar 5 ára eða eldri. Þetta bendir til að aðilar sem fá lóðirnar séu ekki að nýta fyrirliggjandi heimildir til fulls. Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því, vandi við fjármögnun, staða innviða, kostnaður eða þörf á niðurrifi fyrri bygginga á lóð. En í greiningunni kemur einnig fram að rúm 70% af þeim skipulagsheimildum sem búið er að staðfesta í deiliskipulagi í Reykjavík séu í reynd á óbyggingarhæfum lóðum. Það hlýtur að vera markmiðið að byggja á þeim lóðum þar sem skipulagsheimildum er úthlutað því má spyrja sig hversvegna svo margar þeirra séu óbyggingarhæfar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. október 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs sama dag á auglýsingu á tillögu að nærþjónustukjarna innan íbúðarbyggðar í Skerjafirði, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum ásamt Haraldi Sigurðssyni sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK24020304
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. október 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs sama dag á auglýsingu á verklýsingu og drögum að breytingu á landnotkunarheimildum vði Hringbraut, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum ásamt Haraldi Sigurðssyni sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK24100121
Fylgigögn
-
Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 15. október 2024, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2024 ásamt fylgiskjölum.
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010023
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. október 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. október 2024 á breytingum á reglum fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu nr. 645/2020, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Rannveig Einarsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Bára Sigurjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL24100014
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar því að loksins sé verið að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um að Reykjavíkurborg beri að breyta gjaldskrám fyrir sameiginlega akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri að bjóða upp á gjaldskrá sambærilega og gjaldskrá í almenningssamgöngum. Því miður náðist ekki samstaða í velferðarráði innan meirihlutans um að ákveða sjálfa gjaldskrána þannig að hér er eingöngu verið að viðurkenna álit umboðsmanns Alþingis um að breyta þurfi gjaldskrám. Velferðarsvið lagði fram tillögu að gjaldskrá um að allur akstur fatlaðra barna bæði leik og grunnskólabarna til 16 ára aldurs skuli verða gjaldfrjáls. Flokkur fólksins lagði áherslu á að þessi tillaga næði fram að ganga enda mikið réttlætismál hjá þessum viðkvæma hópi. Mikil óvissa ríkir í þessu máli.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 14. október 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 11. október 2024 á niðurlagningu Forvarnarsjóðs Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Rannveig Einarsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Bára Sigurjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL24100045
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 11. október 2024, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sama dag á samningi við Icebike til tveggja ára vegna lagningar gönguskíðabrauta, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR24030002
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. október 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fallast á hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 3. júlí 2024, varðandi ósk um undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði. Vísað er til umsagna borgarlögmanns varðandi rökstuðning í því efni. Um er að ræða dótturfélögin Orku náttúrunnar ohf., ON Power ohf., Ljósleiðarann ehf., Eignarhaldsfélagið Carbfix ohf., Carbfix hf. og Coda Terminal hf. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg fari þess á leit við forsætisráðherra að félögin fái undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012, með vísan til hjálagðrar umsagnar borgarlögmanns, dags. 1. október 2024. Þrátt fyrir ofangreint beinir borgarráð þeim tilmælum til Orkuveitu Reykjavíkur að huga að gagnsæi í framsetningu á fjárhagsupplýsingum og bókhaldi eftir því sem kostur er.
Samþykkt. MSS24070017
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Veitt er heimild til undanþágu frá upplýsingalögum á grundvelli samkeppnissjónarmiða. Lögð er áhersla á mikilvægi gagnsæis innan starfseminnar að því marki sem mögulegt er. Það skiptir máli að hægt sé að viðhafa eðlilegt eftirlit með starfseminni hvort sem það er af hendi almennings, fjölmiðla eða kjörinna fulltrúa. Yfir stendur vinna við eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur og eðlilegt er að þar sé ávarpað mikilvægi þess að viðhafa gagnsæ vinnubrögð og að skilgreina bestu leiðir til að veita allar þær upplýsingar sem hægt er og máli skipta um rekstur fyrirtækjanna, innan ramma samkeppnislaga.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Upplýsingalög ná til fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera, líkt og félög í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Þar sem sum fyrirtæki í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru í samkeppnisrekstri en önnur í sérleyfis- og einokunarrekstri, gilda ólíkar reglur um einstakar einingar. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að ráðist verði í að ljúka uppskiptingu Orkuveitunnar eins og lagt hefur verið til. Þá verður minni hætta á hagsmunaárekstrum og óþarfi að sækja sérstaka undanþágu frá upplýsingalögum. Rétt er að benda á að með slíkri undanþágu skapast hætta á að hún sé misnotuð í því skyni að halda upplýsingum um fjármögnun og rekstur dótturfyrirtækja OR með markvissum hætti frá kjörnum fulltrúum, fjölmiðlum og þar með almenningi. Slíkt hefur t.d. gerst í málefnum Ljósleiðara Orkuveitunnar.
Fylgigögn
-
Lagt er til að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í stýrihópi um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík í stað Birnu Hafstein.
Samþykkt. MSS24090132 -
Lögð fram viljayfirlýsing á milli Reykjavíkurborgar, heilbrigðisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Landspítala, Landhelgisgæslu og stýrihóps um skipulag framkvæmda við Landspítala um deiliskipulag annars áfanga uppbygingar Landspítalans og samstarf um lendingarstað fyrir björgunarþyrlur í Nauthólsvík. MSS24010082
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Við lestur þessarar viljayfirlýsingar virðist vera tregða við að hafa góðan þyrlupall við nýjan Landspítala. Fulltrúi Flokks fólksins á bágt með að skilja þá tregðu að hafa góðan þyrlupall á eða beint við nýjan Landspítala. Kallað er eftir skýringum. Það er mikilvægt að gera ráð fyrir því að þyrla með bráðveikan eða slasaðan sjúkling geti lent á eða beint við nýjan Landspítala til að forðast óþarfa tafir og áhættu. Samkvæmt starfandi þyrlulæknum þá tekur það í dag 3-5 mínútur að koma sjúklingi úr þyrlu og inn á bráðamóttöku í Fossvogi og telst það eðlilegt verklag. Aftur á móti er miðgildi 28 mínútur frá lendingu þyrlu á Reykjavíkurflugvelli þar til komið er á Hringbraut. Munurinn er þannig 23-25 mínútur sem minnkar kannski í 15-20 mínútur með tilkomu borgarlínubrautar úr Nauthólsvík á NLSH. Slík töf og flutningur sjúklinga milli farartækja skapar mög vel þekkta áhættu og getur ekki talist æskilegt verklag og ber ekki að stuðla að slíku. Allir fagaðilar telja að töf á flutningi mikið veikra sjúklinga geti skipt sköpum fyrir þá. Bent hefur t.d. verið á af læknum að tafir geti orðið á komu hjartasjúklinga á leið í bráðaaðgerð, vanti þyrlupall.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. október 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að greiða 250 m.kr. styrk til KSÍ ehf., kt. 501202-2820, vegna endurnýjunar Laugardalsvallar sem er í samræmi við viljayfirlýsingu forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Reykjavíkurborgar, Knattspyrnusambands Íslands og Frjálsíþróttasambands Íslands um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal, dags. 2. september 2024, með fyrirvara um fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar 2025.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. MSS24100103Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um rekstrarkostnað grenndarstöðva, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2023. Einnig lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. október 2024.
- Kl. 10:45 tekur borgarstjóri sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. MSS23080042
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. október 2024, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 1. október 2024 um að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið framboð lóða til uppbyggingar til meðferðar borgarráðs. Einnig lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. október 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð vísi tillögunni til umsagnar Svæðisskipulagsnefndar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, umhverfis- og skipulagsráðs, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og fjármála- og áhættustýringarsviðs í samráði við umhverfis- og skipulagssvið og Seðlabankann. MSS24090172
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda enn einu sinni á að forsendur Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins eru brostnar og tímabært er að endurskoða vaxtarmörk þéttbýlis á svæðinu. Mannfjöldatölur að baki vaxtarmörkunum eru verulega vanáætlaðar og breytt samfélagsgerð hefur leitt af sér breytt búsetuform. Mikilvægt er að borgarráð vinni þetta mál hratt og vel enda verður ekki bætt úr hússnæðisskorti höfuðborgarsvæðisins nema með því að byggja meira og ódýrar en stefna meirihlutans býður upp á.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar því að vísa eigi tillögunni til umsagnar aðila sem hafa með málið að gera s.s. Svæðisskipulagsnefndar SSH og HMS. Flokkur fólksins hefur lengi talað fyrir því að brjóta þurfi nýtt land undir byggð. Það hefur verið hangið of stíft í þéttingarstefnunni til að geta sett sem flesta í kringum framtíðar borgarlínu. Þétting byggðar var vissulega nauðsynleg á ýmsum stöðum í borginni en vandinn er meiri en svo að þétting í hverfum dugi til. Reykjavíkurborg hefur aldrei haldið í við þörfina eftir íbúðarhúsnæði og lengi var stöðnun. Þetta hefur leitt til óstöðugleika þar sem hækkun húsnæðisverðs veldur verðbólgu og leiðir til hærra vaxtastigs. Borgin hefur legið á lóðum til einstaklinga og smærri hópa sem vilja byggja sjálfir yfir sig og sína. Hræðslan við að borgin dreifist hefur tálmað byggingaframkvæmdir. Skapa þarf einnig betri skilyrði til uppbyggingar. Nú eru vísbendingar um samdrátt í verkefnum meðal arkitekta og verkfræðinga. Hvernig sem á þetta mál er litið, hvort sem byggja á íbúðir til kaups eða leigu, þá hefur lóðaskortur heft íbúðauppbyggingu.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 7. og 9. október 2024. MSS24010003
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 8. október 2024. MSS24010009
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 7. október 2024. MSS24010012
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn þeim hugmyndum, sem borgarstjóri hefur kynnt um þéttingu byggðar í Grafarvogi. Afar mikilvægt er að frekari uppbygging í úthverfum borgarinnar sé ekki þvinguð fram á forsendum ofurþéttingar heldur útfærð í góðri sátt og með raunverulegu samráði við íbúa viðkomandi hverfa. Við allar breytingar á skipulagi Grafarvogs þarf að taka ríkt tillit til staðaranda hverfisins og hagsmuna núverandi íbúa, t.d. með því að ganga ekki á græn svæði, sem mörg eru rótgróin og ein helsta ástæða þess að fólk hefur valið hverfið til búsetu. Ljóst er að margir þeir þéttingarreitir, sem borgarstjóri hefur kynnt að séu til skoðunar í Grafarvogi, ganga gegn þessum sjónarmiðum og koma því ekki til greina. Í tillögunum er gert ráð fyrir mun meiri þéttleika byggðar en tíðkast í hverfinu. Víða, t.d. við Sóleyjarrima, er gert ráð fyrir byggð með margfalt meiri þéttleika en aðliggjandi byggð. Þá er í mörgum tilvikum gert ráð fyrir alltof fáum bílastæðum en slíkt skipulag myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir eru til hins verra. Samráð við Grafarvogsbúa hefur verið afar takmarkað í málinu og hafa tillögurnar mætt mikilli andstöðu meðal þeirra. Æskilegt er því að tillögurnar verði dregnar til baka en þess gætt í framtíðinni að auka samráð við íbúa hverfisins varðandi allar slíkar hugmyndar um viðamiklar breytingar á skipulagi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins harmar hversu illa tókst til hjá borgarstjóra við kynningu á þéttingarhugmyndum í Grafarvogi. Byrjað var á öfugum enda. Í fundargerð má sjá bókun frá stjórn íbúasamtaka Grafarvogs sem harma þær þéttingatillögur í Grafarvogshverfi sem borgarstjóri kynnti lauslega í fjölmiðlum þann 26. júní sl. og eru núna loksins til sýnis og kynningar í Borgarbókasafninu í Spönginni. Ljóst er að ekkert samráð hefur verið við íbúa hverfisins, íbúasamtökin eða íbúaráð varðandi þessar þéttingahugmyndir sem hafa farið illa í íbúa. Íbúasamtökin skora á borgarstjóra að draga þessar hugmyndir til baka og efla samráð við íbúa varðandi öll slík mál í framtíðinni. Eftir umræddan fund var allt kynningarefni rifið niður og hefur Flokkur fólksins lagt fram fyrirspurn um málið sem ekki hefur borist svar við. Hún er eftirfarandi: Eftir íbúafundinn í Grafarvogi 7. október sl. höfðu verið sett upp plaköt, uppdrættir og myndir sem nú hafa verið rifin niður. Margir áttu eftir að skoða þetta betur og fresturinn til að skila inn athugasemdum er til 15. október. Er vitað hverjir tóku þetta niður? Geta íbúar skoðað þetta efni á vefnum eða annars staðar? Í skipulagsgáttinni, í aðalskipulaginu?
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 13. september 2024. MSS24010030
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 9. október 2024. MSS24010033
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar:
1. liður: Fyrir liggur umsögn borgarlögmanns. Í raun má segja að óþarfi hafi verið að biðja um þessa umsögn sem hefur haft þær einu afleiðingar að málið hefur tafist. Niðurstaða borgarlögmanns er sú sama og var í svari ráðuneytisins um málið sem er að að lögin skilgreina ekki hvaða fulltrúar skuli eiga sæti í ráðinu, einungis að það skuli vera að lágmarki þrír fulltrúar félaga sem gæta hagsmuna eldra fólks í sveitarfélaginu. Sjálfsagt er að tryggja aðkomu fleiri félagasamtaka sem annast hagsmunagæslu fyrir eldra fólk við borð öldungaráðs. Fulltrúi Flokks fólksins vill að sætum fulltrúa verði fjölgað í takt við vaxandi hlutfall eldra fólks í sveitarfélaginu. 4. liður: Kynning á á aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi gegn eldra fólki hefur aukist. Mikilvægt er að ræða þessi mál opinskátt. Tekið er undir bókun ráðsins um að fræðsluefni sé fylgt eftir með markvissri upplýsingagjöf og samtali á þeim stöðum sem eldra fólk kemur saman. Það er góð hugmynd að setja tilkynningahnapp á heimasíðu borgarinnar þar sem má tilkynna um ofbeldi sem er sambærilegt verklag og barnavernd vinnur eftir. Mikilvægt er að fræðsla og verklag sé skýrt fyrir það starfsfólk sem kemur að þjónustu við eldra fólk.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. október 2024.
4. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins lagði fram 2. október sl. tillögu um að setja göngubrú yfir Sæbraut sem forgangsverkefni í ljósi hörmulegs banaslyss sem varð við Sæbraut fyrir skemmstu. Sú framkvæmd er að hefjast. Koma verður strax upp snjallstýrðum gangbrautarljósum sem lesa umferðarflæði, aðstæður og hreyfingar vegfarenda. Aðgerðir til lengri tíma snúa að Sæbraut í stokk því vitað var að að göngubrú yrði yfir Sæbraut milli Tranavogs og Snekkjuvogs, yrði hæðarlega erfið. Stokkur myndi tengja saman Vogabyggðina við Vogana vestan Sæbrautar, og gera göngubrúna óþarfa. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur heldur úti akstri skólabíls milli Vogabyggðar og Vogaskóla á virkum dögum, sem þó fullnægir ekki ferðaþörf allra nemenda í Vogabyggð, s.s. í tengslum við frístund. Sæbrautarstokkur mun bæta úr vandamálum en fram að þeim tíma ætti að nota snjallljósakerfi til að stýra umferðinni. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð og börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar hafa lengi verið að kalla eftir úrbótum. Þetta er hættulegar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Íbúar Vogabyggðar hafa þurft að takast á við ótta um öryggi barna sinna alltof lengi og gangandi vegfarendur eru í stöðugri hættu.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls fimm mál. MSS24090166
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24090167
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir greinargerð um fasteignagjöld, fasteignaskatta og önnur opinber gjöld, sem lögð eru á atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Í greinargerðinni verði yfirlit um álagningu slikra gjalda í borginni í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuborgarsvæðinu. Einnig verði veittar samanburðarhæfar upplýsingar um það hvernig staðið er að slíkri álagningu á atvinnuhúsnæði í borgum á norðurlöndum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. MSS24100154
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nýlega féll úrskurður mennta-og barnmálaráðuneytisins í máli nr. MRN23110405 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita foreldrum ekki systkinaafslátt af gjöldum skólamáltíða var kærð. Í úrskurðarorðum kom fram að það er niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 6. janúar 2023 um að synja beiðni kærenda um systkinaafslátt á þeim forsendum að reglur sveitarfélagsins gerðu ráð fyrir því að réttur til systkinaafsláttar væri bundinn við að systkini væru með sama lögheimili hafi ekki samrýmst jafnræðis- og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Gerð hefur verið sú krafa að Reykjavíkurborg endurgreiði aðilum þann afslátt sem þau hefðu annars notið í samræmi við aðra íbúa Reykjavíkur sem eru foreldrar og eiga þrjú börn sem ganga í grunnskóla í borginni, frá maí 2022. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort endurgreiðsla hafi farið fram og ef ekki, hvenær standi til að hún fari fram. MSS24100155
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita hver sé staðan á stafræna skólaþjónustukerfinu Búa. Af hverju bólar ekkert á Búa þrátt fyrir að langt sé síðan fjármagni var veitt í það verkefni? MSS24100156
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort viljayfirlýsing milli Reykjavíkurborgar, Landspítala, Landhelgisgæslu og nokkurra ráðuneyta um lendingarstað fyrir björgunarþyrlur í Nauthólsvík lúti helst að lendingarstað í Nauthólsvík, þ.e. nálægt Landspítala frekar en við Landspítala og um þetta er spurt vegna þess að við lestur viljayfirlýsingarinnar er áberandi að talað er helst um lendingarstað nálægt Landspítala en ekki við Landspítala. Það tekur um 15-20 mínútum lengur að flytja slasaðan einstakling frá Nauthólsvík yfir á Landspítala en ef lent væri með hann við Landspítala. Þessar mínútur gætu verið skilin milli lífs og dauða. MSS24100157
Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um það hvaða kjarasamningar Reykjavíkurborgar innihalda ákvæði um starfsmat en fyrir borgarráð liggur viðauki þar sem lagt er til að fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu verði hækkaðar um 20.000þ.kr. vegna endurmats á störfum. Um hvaða störf er verið að ræða að þessu sinni, voru þau öll metin til hækkunar og þá á hvaða forsendum. MSS24100158
Fundi slitið kl. 10:45
Dagur B. Eggertsson Alexandra Briem
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Kjartan Magnússon
Magnea Gná Jóhannsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 17.10.2024 - prentvæn útgáfa