Borgarráð
Ár 2024, fimmtudaginn 12. september, var haldinn 5753. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. september sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs sama dag á kynningu á verklýsingu breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur og umhverfismats Keldna sbr. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana.
Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Haraldi Sigurðssyni sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK24080321
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirhugað íbúðahverfi í Keldnalandi er mikilvægasta skipulagsverkefni í Reykjavík í áratugi. Þar gefst einstakt tækifæri til að hanna eftirsóknarvert íbúðahverfi enda er svæðið fallegt og staðsetningin góð. Við skipulag hverfisins er rétt að áhersla verði lögð á að skapa þar fallegt og mannvænlegt hverfi í samræmi við þá byggðarþróun sem fyrir er í stað áherslu á ofurþéttingu og hámarksafrakstur af lóðasölu. Ofurþétting myndi hafa neikvæð áhrif á þá íbúabyggð sem fyrir er í Grafarvogi og lífsgæði íbúa. Tryggja þarf góðar umferðartengingar allra fararmáta við Keldnahverfi sem og bifreiðastæði fyrir íbúa við hús þeirra. Óraunhæft er að ætla íbúum í hverfinu að ganga langar leiðir frá heimilum sínum að bílastæðahúsum, sem virðast eiga að koma í stað hefðbundinna stæða. Við friðlýsingu Grafarvogs er æskilegt að farið verði eftir tillögu umhverfisráðuneytisins um verndarmörk, sem felur í sér að grunnsævi, leirur og fjörur innan vogsins verði friðlýstar, auk menningarminja og skilgreinds útivistarsvæðis Grafarvogsbúa. Þá er ljóst að hverfisíþróttafélagið Fjölnir mun þurfa á auknu landrými og íþróttamannvirkjum að halda með tilkomu hins nýja hverfis.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er fjallað um uppbyggingu við Keldur. Nota á ábatann af þróun landsins til fjármögnunar samgöngusáttmálans. Ef lóðir til húsnæðisuppbyggingar eru seldar hæstbjóðanda þá aukast líkur á að slíkt skili sér í hærra íbúðaverði og bitni á framtíðaríbúum þessa svæðis. Almenningur ætti ekki að þurfa að greiða fyrir samgönguúrbætur með þessum hætti og leggja Sósíalistar áherslu á að tekjur verði sóttar til þeirra sem peningana eiga, þeirra sem greiða ekki eins og aðrir til nærsamfélagsins. Markmið með uppbyggingu að Keldum ætti allt að miða að því að byggja á félagslegum grunni í stað þess að halda sig við ákveðna prósentutölu slíks húsnæðis sem hefur sýnt sig að er ekki nóg til að vinna gegn húsnæðiskrísunni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Gert er ráð fyrir að í Keldnalandinu verði heilmikil atvinnustarfsemi umfram þá starfsemi sem nú þegar er þar. Það er afráð því landið er of dýrmætt til að setja það í svo miklum mæli undir atvinnustarfsemi þegar stefnt er að því að hafa góðar almenningssamgöngur í gegnum hverfið. Skoða þarf einnig að hafa bílastæðakjallara undir húsum þar sem hentar auk þeirra sex bílastæðahúsa sem gert er ráð fyrir í hverfinu. Ef vel tekst til með aðgengi í og úr hverfinu og fólk hafi val um samgöngumáta þá ætti að vera auðvelt að sækja vinnu utan hverfis, t.d. í austurhluta Höfðahverfis og Hólmsheiði, og bein leið verður til miðsvæðis m.a. með væntanlegri Borgarlínu. Í Keldnalandinu eiga að vera íbúðir og hús fyrst og síðast að mati fulltrúa Flokks fólksins enda íbúðaskortur mikill. Hér eru grundvallar þjónustustörf svo sem verslun undanskilin að sjálfsögðu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur tjáð sig um þetta atriði bæði við vinningshafa tillögunnar og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í tvígang. Einnig er brýnt að þetta hverfi verði ekki aðeins eyrnamerkt efnameira fólki heldur gert ráð fyrir hagkvæmu húsnæði til kaups og leigu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. september 2024 á auglýsingu á tillögu að aðalskipulagi vegna 1. lotu Borgarlínu, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Sósíalistaflokks Íslands. Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Haraldi Sigurðssyni sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK24080320
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér á að samþykkja í auglýsingu aðalskipulagsbreytingu vegna fyrstu lotu Borgarlínu uppfærðs samgöngusáttmála, sem hefur þó ekki verið samþykktur af borgarstjórn. Um helmingur kostnaðarins við samgöngusáttmálann er vegna Borgarlínu en kostnaðurinn hefur á fjórum árum vaxið úr 67 ma.kr. í 130 ma.kr. Því telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eðlilegast að samþykki borgarstjórnar á samgöngusáttmálanum liggi fyrir áður en aðalskipulagsbreyting vegna Borgarlínu er tekin til endanlegrar afgreiðslu.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi tillaga fer í auglýsingu þar sem hægt er að setja fram athugasemdir. Í gögnum stendur eftirfarandi: „Borgarlínan mun gera almenningssamgöngur eftirsóknarverðari og raunhæfan valkost sem er lykilforsenda til að breyta ferðavenjum í samræmi við markmið sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“ Mikilvægt er að úrbætur á núverandi almenningssamgangnakerfi komi strax fram svo að strætófarþegar þurfi ekki að bíða til fjölda ára eftir áreiðanlegu kerfi. Þá þarf að bæta almenningssamgöngur núna svo að litið verði á þær sem raunhæfan valkost í framtíðinni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Setja á tillögu að aðalskipulagsbreytingu vegna Borgarlínu í auglýsingu og hlakkar fulltrúi Flokks fólksins til að sjá viðbrögð. Nú fær almenningur að tjá sig með beinum hætti og er þess vænst að meirihlutinn leggi við hlustir. Eins og fram hefur komið stefna stjórnvöld á að verja 311 milljörðum króna í samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2040. Fjármögnun er mikið til óljós. Flokkur fólksins telur mikilvægt að gera einhverjar breytingar í umferðarmálum strax. Sumt getur ekki beðið lengur. Bæta þarf almenningssamgöngur, strætó, tíðni ferða og þjónustu við farþega og taka á helstu umferðarteppum með breyttu snjallljósastýrikerfi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. september 2024 á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Breiðholts hverfi 6.1, Neðra Breiðholt, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar. Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050012
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur síðustu ár staðið fyrir fjöldamörgum verkefnum í Breiðholti til að styrkja og efla þetta frábæra hverfi sem býr yfir svo mikilli grósku og fjölbreytileika. Hluti af þessari lyftistöng voru uppkaup á gömlum og þreyttum verslunarkjörnum við Arnarbakka og Völvufell í því skyni að endurlífga kjarnana og bæta ásýndina. Hér erum við að samþykkja skipulag fyrir Arnarbakka þar sem gert er ráð fyrir verslun, þjónustu, leikskólastarfsemi og stúdentaíbúðum auk þess sem grænu svæðin verða betur skilgreind og römmuð inn. Við trúum því að þetta muni gera svæðið meira aðlaðandi og nýtilegt. Lögð er áhersla á fjölskylduvænt og öruggt umhverfi, hverfisverslun, líf og fjör.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan felur í sér miklar breytingar á stóru svæði við Arnarbakka, sem hingað til hefur verið litið á að sé miðja fjölmenns og hverfisverndaðs íbúasvæðis. Tekið er undir þá skoðun íbúaráðs Breiðholts, sem leggst gegn umræddum byggingaráformum, að lóðin við Arnarbakka 10 sé hið græna torg hverfisins og sannkallað hverfishjarta, sem sé mikið notað af börnum í hverfinu og öðrum íbúum þess fyrir viðburði og leiki. Að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fela fyrirliggjandi breytingar í sér of mikla þéttingu byggðar og að of freklega sé gengið á græn svæði. Um er að ræða sólríkan og skjólsælan stað, sem stendur hærra en nærliggjandi skólalóð. Fyrirhugaðar nýbyggingar munu standa hátt og þannig breyta ásýnd hverfisins. Sparkvöllur á leiksvæði Breiðholtsskóla verður að verulegu leyti í skugga á skólatíma, verði byggingaráformin að veruleika. Þá er augljóst að bílastæðum mun fækka um of en nú þegar ríkir bílastæðaskortur í hverfinu. Horft er framhjá þörfinni fyrir fjölgun bílastæða vegna umfangsmikillar starfsemi leikskóla, grunnskóla, verslunar og þjónustu á svæðinu, auk íbúabyggðar. Ekki þýðir að horfa framhjá þeirri staðreynd að margir stúdentar nota bifreiðar til að komast leiðar sinnar eins og aðrir borgarar. Þá er ljóst að umræddar breytingar munu hafa í för með sér verulega aukna umferð um þetta viðkvæma svæði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 9. september 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. desember á umsókn um breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðanna nr. 2-6, 8 og 10 við Arnarbakka, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar. Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 9:30 tekur borgarstjóri sæti á fundinum ásamt Björgu Magnúsdóttur. USK24030341
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur síðustu ár staðið fyrir fjöldamörgum verkefnum í Breiðholti til að styrkja og efla þetta frábæra hverfi sem býr yfir svo mikilli grósku og fjölbreytileika. Hluti af þessari lyftistöng voru uppkaup á gömlum og þreyttum verslunarkjörnum við Arnarbakka og Völvufell í því skyni að endurlífga kjarnana og bæta ásýndina. Hér erum við að samþykkja skipulag fyrir Arnarbakka þar sem gert er ráð fyrir verslun, þjónustu, leikskólastarfsemi og stúdentaíbúðum auk þess sem grænu svæðin verða betur skilgreind og römmuð inn. Við trúum því að þetta muni gera svæðið meira aðlaðandi og nýtilegt. Lögð er áhersla á fjölskylduvænt og öruggt umhverfi, hverfisverslun, líf og fjör.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan felur í sér miklar breytingar á stóru svæði við Arnarbakka, sem hingað til hefur verið litið á að sé miðja fjölmenns og hverfisverndaðs íbúasvæðis. Tekið er undir þá skoðun íbúaráðs Breiðholts, sem leggst gegn umræddum byggingaráformum, að lóðin við Arnarbakka 10 sé hið græna torg hverfisins og sannkallað hverfishjarta, sem sé mikið notað af börnum í hverfinu og öðrum íbúum þess fyrir viðburði og leiki. Að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fela fyrirliggjandi breytingar í sér of mikla þéttingu byggðar og að of freklega sé gengið á græn svæði. Um er að ræða sólríkan og skjólsælan stað, sem stendur hærra en nærliggjandi skólalóð. Fyrirhugaðar nýbyggingar munu standa hátt og þannig breyta ásýnd hverfisins. Sparkvöllur á leiksvæði Breiðholtsskóla verður að verulegu leyti í skugga á skólatíma, verði byggingaráformin að veruleika. Þá er augljóst að bílastæðum mun fækka um of en nú þegar ríkir bílastæðaskortur í hverfinu. Horft er framhjá þörfinni fyrir fjölgun bílastæða vegna umfangsmikillar starfsemi leikskóla, grunnskóla, verslunar og þjónustu á svæðinu, auk íbúabyggðar. Ekki þýðir að horfa framhjá þeirri staðreynd að margir stúdentar nota bifreiðar til að komast leiðar sinnar eins og aðrir borgarar. Þá er ljóst að umræddar breytingar munu hafa í för með sér verulega aukna umferð um þetta viðkvæma svæði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Gott er að breyta úreltu húsnæði við Arnarbakka í íbúðir enda eru innviðir góðir í næsta nágrenni, verslun, þjónusta og viðunandi samgöngumöguleikar. Hins vegar má setja spurningamerki við að ekki eigi að vera kjallari undir húsunum. Í kjöllurum má geyma bíla og önnur farartæki og spara þannig rými á opnu svæði, eða bara að fjölga bílastæðum. Það er líka í stefnu borgarinnar að geyma bíla sem mest neðanjarðar, en af hverju ekki hér? Á neðstu hæð húsanna eiga m.a. að vera verslanir og hagur getur verið af því að þær hafi aðgang að geymslu í kjallara. Af öðrum athugasemdum að segja eru áhyggjur af því að gengið sé á græn svæði og leiksvæði barna og byggingarmagn sé of mikið og þéttleiki byggðar of mikill. Þessar athugasemdir eru rauði þráðurinn í nánast í öllum deiliskipulagsmálum í borginni.
Fylgigögn
-
Afgreiðsla undir þessum lið er færð i trúnaðarbók borgarráðs. MSS21120238
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands fyrir árið 2024. Samningurinn er til eins árs. Kostnaður samkvæmt samningnum er 2.750.000 kr. sem færist á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Sósíalistaflokks Íslands, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS23010075Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að endurnýjuðum samningi við Háskóla Íslands um fjárframlag að upphæð 5 m.kr. auk vinnuframlags að verðmæti 1 m.kr. og samþykki þar með áframhaldandi samstarf við Háskóla Íslands um þróun og rekstur samfélagshraðalsins Snjallræðis þar sem sjálfbærar lausnir fyrir umhverfi og samfélag eru í forgrunni. Samningurinn gildir til eins árs. Kostnaðurinn verður færður af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað MSS22010044 -
Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 10. september 2024, að breytingum á fjárfestingaáætlun A-hluta Reykjavíkurborgar.
Vísað til borgarstjórnar.Óli Jón Hertervig, Ámundi Brynjólfsson, Guðni Guðmundsson og Hróðný Njarðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24040013
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur með tvennt í þessum viðauka a.m.k. Kostnaður við breytingar á bökkunum í Sundhöll Reykjavíkur er of mikill. Þessi breyting er umdeild og fjölmargir telja hana ekki hafa neitt að gera með öryggi. Hitt atriðið er að hætt er við að stækka hjúkrunarrýmið á Droplaugarstöðum. Öll vitum við hvað mikil þörf er á að fjölga rýmum þar. Ef vikið er aftur að Sundhöllinni þá lagði Fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu fyrir skemmstu um að borgarráð endurskoði ákvörðun um að breyta laugarbökkum Sundhallarinnar eins og stendur til að gera. Fram hefur komið að verið sé að endurgera sundlaugina í samræmi við nútímakröfur. Flokkur fólksins telur það sé með öllu óþarft að eyðileggja laugarbakkana sem eru órjúfanlegur hluti af heildinni. Þessi breyting er ekki gerð með þarfir sundgesta að leiðarljósi. Hér er heldur ekki um öryggismál að ræða, því eftir að gripstallurinn verður fjarlægður verður erfiðara að staldra við bakkann. Fyrir eldra fólk verður snúningurinn örðugri og ógerningur að hvíla sig stund við bakkann. Þetta er sagt vera hluti af nútíma hönnun. Hér er um tilfinningalegt málefni að ræða enda er Sundhöllin einstakt listaverk. Það er enn tími til að hverfa frá þessari ákvörðun.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. ágúst 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning um 532 fermetra borgarland á Þorragötu 1, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24080015
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 9. september 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 4. september 2024 á breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. VEL24090002Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista getur ekki samþykkt breytingar á reglum sem leiða til hækkunar á leiguverði en eftir breytingar sem eru tilkynntar í þessari tillögu er heimilt að vísitölutengja umrædda leigusamninga sem þýðir að leigjendur greiða hærra leiguverð á milli mánaða.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að gildistími leigusamninga um áfangahúsnæði verði lengdir úr sex mánuðum í eitt ár. Fulltrúa Flokks fólksins finnst neikvætt að verið sé að lengja samningstímann gagngert til að geta hækkað leigu á samningstímanum. Þetta er gert því í nýjum húsaleigulögum er óheimilt að semja um að leigufjárhæð breytist ef leigutíminn er styttri en eitt ár þegar gerður er tímabundinn leigusamningur. Samkvæmt nýjum húsaleigulögum verða leigusamningar að vera að minnsta kosti til eins árs til að hægt sé að vísitölutengja þá. Jákvætt er þó að auka húsnæðisöryggi leigjenda í áfangahúsnæði. Í raun hefði verið sanngjarnara að halda áfram með fyrsta samning til sex mánaða með föstu verðlagi, engin vísitölutenging og ef vel gengur þá væri hægt að hafa næsta leigusamning til eins árs. Eftir breytingar sem eru tilkynntar í þessari tillögu er heimilt að vísitölutengja umrædda leigusamninga sem þýðir að leiga getur hækkað milli mánaða. Það verður að hafa í huga að þetta er áfangahúsnæði þar sem leigjendur eru í mjög viðkvæmri stöðu.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viljayfirlýsingar vegna þjóðarleikvanga, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2024. Einnig lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. september 2024. MSS24080052
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðningarferli hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2024. Einnig lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, ódags. MSS24080049
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvernig umsækjendur í Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins séu metnir með tilliti til andlegra styrkleika í ljósi þess að starf slökkviliðsfólks er gríðarlega álagsmikið. Spurt var hvort umsækjendur gangi í gegnum ítarlegt sálfræðimat og sálfræðiviðtöl til að kanna andlegan styrk þeirra og getu til að standast andlegt álag áður en þeir fá inngöngu í Slökkviliðið. Í svari kemur fram að umsækjendur fara ekki í ítarlegt sálfræðimat. Það hafi verið rætt en ekki farið í þá vinnu sem þurfti til að tryggja réttmæti og áreiðanleika slíks mats. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það sé afar mikilvægt að umsækjendur gangi í gegnum alvöru sálfræðimat enda reynir fátt meira á andlegan styrk en starf í Slökkviliðinu. Útiloka þarf eins og hægt er að umsækjendur séu með einhver alvarleg andleg veikindi, hamlandi persónuleikaþætti (bresti), erfið skapgerðareinkenni eða röskun af einhverju tagi, kvíða eða þunglyndi sem verið gæti þeim og öðrum í slökkviliðinu fjötur um fót þegar mest á reynir.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. september 2024. MSS24010035
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar:
Á fundi aðgengis- og samráðsnefndar 5. september sl. voru mikilvæg mál á dagskrá sem fulltrúi Flokks fólksins hefur skoðun á. Engar bókanir voru í fundargerð frá nefndarmönnum. Á dagskrá var kynning á aðgengi að strætó og önnur á störfum aðgengisfulltrúa sem hóf störf á árinu. Markmið aðgengisstefnu 2022-2030 er að borgin og húsnæði á hennar vegum sé aðgengileg öllum. Aðgengisstefna er fínasta plagg en aðeins brot af henni er virkt og virðist býsna langt í land með fjölda mikilvægra atriða sem lúta að aðgengismálum. Ekki er til samræmd skrá yfir aðgengi stoppistöðva á höfuðborgarsvæðinu, sem eru um 950. Tiltæk gögn eru ekki á því formi að hægt sé að nota í leiðarvísi. Fyrir liggur tillaga aðgengis- og samráðsnefndar um að upplýsingar um aðgengileika biðstöðva Strætó verði gerðar aðgengilegar farþegum og að hægt verði að sjá á rauntímakorti Strætó hvort vagnar á kortinu séu aðgengilegir eða ekki. Í umsögnum um tillöguna frá Strætó kemur fram að ekki eru til gögn á því formi sem þarf en borgin hafi unnið gögn um stoppistöðvar en það sé ekki hægt að tengja þær við leiðarvísi Strætó. Stafræn mál er ljóslega öll í ólestri hjá Strætó.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 2. september 2024. MSS24010003
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 5. september 2024. MSS24010008
Fylgigögn
-
16. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. september 2024. MSS24010012
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:Nauðsynlegt er að skoða frekari uppbyggingu í úthverfum borgarinnar þar sem innviðir þola aukna byggð. Úlfarsárdalurinn er annað hverfi sem býður upp á mikla uppbyggingarmöguleika en nauðsynlegt er þó fyrst að fjölga bílastæðum eins og t.d. við sundlaugina og bókasafnið. Þar skapast oft umferðaröngþveiti og fólk þarf að finna stæði fyrir utan íbúðarhús. Öll áform af þessu tagi þarf að gera í sátt og samlyndi við íbúa. Tillögur borgarstjóra um fyrirhugað húsnæðisátak í Grafarvogi ollu usla enda farið af stað með umræðuna án þess að ræða við íbúana. Mörgum íbúum var verulega brugðið. Sem dæmi mótmæltu íbúar Grafarvogs fyrirhugaðri byggingu á fjölbýlishúsi á lóð við Smárarima því þar yrði þá gengið á grænt svæði. Margir hafa auk þess áhyggjur af umferðarmálum í Grafarvogi. Aðalatriðið er að stíga ekki á tær íbúa eða valta yfir skoðanir þeirra.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september.
5. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Grófarhúsverkefnið er gríðarlega fjárfrekt verkefni og hefur Flokkur fólksins gagnrýnt að það hafi verið sett í forgang þegar borgin var í djúpum fjárhagslegum kröggum. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja ræða um kostnaðartölur á þessu stigi. Eins gaman og það er að setja hugmynd í hönnunarsamkeppni þá vilja þau verkefni verða alltof kostnaðarsöm og fara jafnvel mikið fram úr áætlunum. Hér eru lagðir til margir fjárfrekir breytingarþættir. Gera á innri og ytri breytingar á Grófarhúsi, breyta útliti á veggflötum hússins til að líkjast upprunalegu útliti. Rífa á niður hæðir innanhúss til að opna milli hæða, breyta þakformi með tveimur glerjuðum þakhæðum í stað núverandi þakhæðar og hækka á hæðarkóta þaks sem nemur um hálfum metra. Vinningstillagan er metnaðarfull, en sýnilega mjög kostnaðarsöm. Til dæmis eru framkvæmdir á borð við að gera framtíðartengingu við starfsemi Listasafns Reykjavíkur við Tryggvagötu 17 með að hámarki tveimur göngubrúm. Á jákvæðu hliðinni má segja að þakgarður getur sannarlega orðið jákvæð viðbót, þar sem hann á að vera opinn almenningi væntanlega eins og húsið allt.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 16. ágúst 2024. MSS24010030
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins hafnar því alfarið að hækka eigi laun framkvæmdastjóra. Réttast væri að frysta laun æðstu embættismanna borgarinnar í a.m.k. 2 ár enda þau löngu komin úr böndum. Það þarf varla að minna á baráttu okkar allra að ná niður verðbólgu sem hefur komið hvað verst niður á þeim sem minnst hafa, þeim sem hafa lægstu launin og þeim sem eru skuldsettir. Í þessari baráttu eigum við öll að taka þátt. Minnka þarf bilið milli hæst og lægst launuðu hópanna í borginni. Ójöfnuður hefur aukist allt of mikið síðustu árin.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sjö mál (MSS22030266, MSS24010024, MSS24090016, MSS24010051, MSS24030167, MSS24090023, MSS24070048). MSS24090001
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24090002
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði og skóla- og frístundasviði að fara í sérstakt átak í ráðningum í lausar stöður á frístundaheimilum. Í átakinu skal m.a. leita óhefðbundinna leiða s.s. með því að samþykkja sérstaka umbun fyrir starfsfólk í formi styrkja eða hlunninda og með því að leita samstarfs við hagsmunafélög eldra fólks með það að markmiði að finna fólk sem komið er af hefðbundnum vinnumarkaði sem hefur áhuga á hlutastörfum á frístundaheimili. Tilgangurinn er að hugsa út fyrir boxið og nota óhefðbundnari aðferðir með það að markmiði að laða fólk til starfa á frístundaheimilum. MSS24090059
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðsFylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar fyrirspurn sína um styttingu vinnuvikunnar, s.s. hvernig aðgerðin gekk, hvort útfærslu sé lokið og fleira. Fyrirspurnin var lögð fram 28. september sl. og er hún því að verða ársgömul. Engar upplýsingar hafa borist um það hvenær svar verður tilbúið og verður að líta svo á að um óhóflega langan vinnslutíma sé að ræða. Óskað er eftir að svar berist hið fyrsta. MSS23090177
Fundi slitið kl. 10:10
Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Kjartan Magnússon
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 12.9.2024 - prentvæn útgáfa