Borgarráð - Fundur nr. 5750

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 22.  ágúst var haldinn 5750. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru: Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Kjartan Magnússon tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Eiríkur Búi Halldórsson, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.


Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Einnig er lögð fram sex mánaða skýrsla Betri samgangna dags. í júní 2024.

    -    Kl. 9:08 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.

    -    Kl. 10:00 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

    -    Kl. 10:05 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum og Kjartan Magnússon víkur sæti.

    Ólöf Örvarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Páll Björgvin Guðmundsson, Davíð Þorláksson, Þorsteinn R. Hermannsson, Þröstur Guðmundsson og Jóhannes Svavar Rúnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson. MSS22080126

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að bæta samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngusáttmálinn felur í sér að sveitarfélögin fjármagni 12,5% með beinum framlögum og að ríkið fjármagni 87,5% m.a. með svokölluðum flýti- og umferðargjöldum, einnig þekkt sem veggjöld. Fulltrúi Sósíalista getur ekki tekið undir slíka gjaldtöku og lítur svo á að uppbyggingu samgönguinnviða eigi að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum. Alvarleg skekkja er á þeim sjóðum þar sem fjármagnseigendur greiða ekki til nærsamfélagsins líkt og launafólk gerir í formi útsvars. Nauðsynlegt er að styrkja sameiginlega sjóði til að standa undir uppbyggingu samgönguinnviða í stað þess að rukka almenning. Gjaldtaka veggjalda bitnar harðast á þeim efnaminni, sem á við um stóran hluta barnafjölskyldna eins og staðan er í dag. Sósíalistar hafa lengi talað fyrir því að núverandi strætósamgöngur verði bættar sem virðist vera niðurstaða uppfærðs samgöngusáttmála. Sósíalistar ítreka mikilvægi þess að farið verði strax í þær úrbætur og að almenningssamgöngur verði byggðar upp út frá væntingum þeirra sem treysta á strætó.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar uppfærslu samgöngusáttmálans sem nú stendur í 310 milljörðum og hafa áætlanir tvöfaldast. Því er fagnað að nú á að taka almenningssamgöngur inn í jöfnuna. Horft er á samgöngur í meiri heild en áður. Í dag ríkir ófremdarástand í umferðarmálum borgarinnar og er það nú meira viðurkennt en áður. Síðasti meirihluti borgarstjórnar vanrækti að taka á umferðarvanda borgarinnar sem fer versnandi með hverjum degi. Bílum fjölgar og ekki er hægt að hunsa lengur kraðak í umferðarmálum sem m.a. má rekja til úreltrar ljósastýringar. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að farið verði í að snjallvæða umferðarljósakerfið á þeim stöðum sem mest á mæðir. Nýlega lagði Flokkur fólksins t.d. fram tillögu um að snjallljós með innrauðum búnaði (nemum) sem lesa umferðina og aðstæður, taka myndir og greina lifandi verur, verði settir upp við Höfðabakka en þessi ljós hafa nú þegar verið keypt og eru komin til landsins. Mikilvægt er að ljósin verði sett upp fyrir haustið til að auka afkastagetu umferðarflæðis. Miklabraut er löngu sprungin og þar eru ljósastýringar í miklum ólestri á annatímum. Einnig er lagt til að snjallljósum af nýjustu gerð verði komið upp á helstu umferðargötum borgarinnar til að auka umferðaröryggi.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. ágúst 2024:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar að ráðast í heildarúttekt á ferlinu í kringum byggingu leikskólans Brákaborgar í ljósi mögulegra hönnunar- og/eða framkvæmdagalla. Í því felst heildarúttekt á hönnun, framkvæmdum og eftirliti við framkvæmdir leikskólans. Einnig er óskað eftir því að Innri endurskoðun og ráðgjöf geri tillögur að umbótum í tengslum við ferlið.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka Helgi Grímsson, Guðni Guðmundsson og Halla Haraldsdóttir Hamar sæti með rafrænum hætti ásamt borgarfulltrúunum Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur, Aðalsteini Hauki Sverrissyni, Birni Gíslasyni, Dóru Björt Guðjónsdóttur, Friðjóni R. Friðjónssyni, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, Helgu Þórðardóttur, Helga Áss Grétarssyni, Hjálmari Sveinssyni, Kjartani Magnússyni, Magneu Gná Jóhannsdóttur, Mörtu Guðjónsdóttur, Sabine Leskopf, Skúla Helgasyni og Þorvaldi Daníelssyni. MSS24080062

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mál Brákarborgar er hneyksli og ber vott um dómgreindarleysi fólks sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingar á sviðinu. Nú vill meirihlutinn að Innri endurskoðun og ráðgjöf rannsaki málið en Flokkur fólksins telur að finna þurfi aðila ótengdan borgarkerfinu til að kryfja þetta mál ef finna á út hver ber ábyrgðina. Meirihlutinn, ekki síst sá síðasti, hefur verið gapandi yfir ótrúlegustu hlutum og látið plata sig upp úr skónum. Hver man ekki eftir verkinu Pálmatré eða dönsku stráunum? Það eru eiginlega engin takmörk fyrir hvað valdhafar borgarinnar hafa látið temja sig út í mikla vitleysu á kostnað borgarbúa. Hinn 30. júlí skrifaði oddviti Flokks fólksins grein um Brákarborg og torfþakið sem bar titilinn „Torfþakið varð að mýri“. Auðvitað reikna allir með að skipulags-, hönnunar- og arkitektasviðið viti t.d. að vatn er þungt. Losna þarf fljótt við það vatn ef það er á flötu þaki. Vatnið þarf að færast frá miðju þaksins út í rennur sem tekur óratíma. Því má segja að með torfþakinu á Brákarborg hafi verið mynduð mýri. Torfþök fyrr á öldum voru algeng en þau voru brött. Þá skildu menn að vatnið þurfti að renna fljótt á brott. Hefur þessi þekking glatast meðal hönnuða?

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Reykjavík á stærsta fasteignasafn landsins og framkvæmdir sem þeim tengjast skipta hundruðum á hverju ári. Brákarborg er verulegt frávik sem kallar á ítarlega rannsókn. Málið er alvarlegt en starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs og skóla- og frístundasviðs tók það strax föstum tökum, tryggði börnunum áframhaldandi leikskólavist og ráðist var strax í framkvæmdir á húsnæðinu. Tillagan kveður á um að Innri endurskoðun og ráðgjöf geri heildarúttekt á ferlinu í ljósi mögulegra hönnunar- og/eða framkvæmdagalla. Þetta er hins vegar ekki staður og stund til að vera með sleggjudóma, dónaskap, ýkjur og upphrópanir. Sérstaklega frábiður meirihlutinn sér ærumeiðingar sem beinast að starfsfólki borgarinnar. Höldum okkur við staðreyndir og vinnum faglega í þágu borgarbúa.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. ágúst 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á breytingu á deiliskipulagi Vesturhafnar vegna lóðarinnar 15-21 við Fiskislóð að lokinni auglýsingu, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100095

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. ágúst 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. ágúst 2024, á úthlutun styrkja úr loftslagssjóði ungs fólks, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Benedikt Traustasyni sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK24030270

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum umsóknum sem eru merki um áhuga ungs fólks á loftslagsmálum. Styrkumsóknir eru mismunandi eins og gengur. Votlendi er ein stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Vandasamt er að endurheimta votlendið og eru því allar hugmyndir vel þegnar. Endurheimt votlendis skiptir miklu máli en Reykjavík er ekki á votlendissvæði, ekki síst því að mýrar sem voru í Reykjavík hafa að mestu verið þurrkaðar upp og vandasamt er að endurheimta þær, svo sem Kringlumýri og Laugarmýri. Þá hefur meirihlutinn hafnað því að auka skógrækt með kolefnisbindingu í huga.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. ágúst 2024, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. ágúst 2024, um að ljúka máli gagnvart ESA er varðar ríkisstyrk í formi tekjuskattsundanþágu. Tillagan felur í sér að efnahagsleg starfsemi SORPU bs. verði flutt í félag eða eftir atvikum félög með takmarkaðri ábyrgð.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Haraldur Flosi Tryggvason og Jón Viggó Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24080057

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Svo virðist vera að þeir þættir í rekstrarfyrirkomulagi SORPU sem þarf að breyta muni leiða til þess að þau muni þurfa að afla meiri tekna. Útgjöldin munu aukast við það að skattaafsláttur fellur niður. Ólíklegt er t.d að molta verði gefin í framtíðinni og einhver gjöld verða sett á þá sem úrgangi henda.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. júní 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. júní 2024 á hækkun tekjumarka í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. júní 2024.

    Samþykkt.

    Agnes Sif Andrésdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL24050048

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að styðja við leigjendur sem greiða háan húsnæðiskostnað en rót vandans er markaðsvæddur húsnæðismarkaður sem leiðir til þess að hið opinbera niðurgreiðir okurleigu í stað þess að einblína á að byggja félagslegt húsnæði á viðráðanlegu verði. Á þessu ári er gert ráð fyrir því að borgin greiði um 1,7 milljarð í sérstakan húsnæðisstuðning. Frá árinu 2022 til ársins 2024 er áætlað að kostnaður vegna sérstaks húsnæðisstuðnings verði um 4,6 milljarðar.

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á sjálfsmati borgarráðs.

    Guðjón Hlynur Guðmundsson og Ingunn Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24040219

  8. Afgreiðsla undir þessum lið og bókanir eru færð í trúnaðarbók. MSS24080032

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 20. ágúst 2024, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra og borgarfulltrúa til Malmö og Kaupmannahafnar, ásamt fylgiskjölum. MSS24080060

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. ágúst 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita vilyrði fyrir lóð á athafnasvæðinu á Hólmsheiði til allt að þriggja ára, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MSS24060095

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 15. ágúst 2024. MSS24010007

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 29. maí 2024. MSS24010015

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Þær sviptingar sem urðu frá sviðsmynd 1 sem eftir miklar bollaleggingar og rannsóknarvinnu var valin af íbúum Laugardals yfir í sviðsmynd 4 (afbrigði af sviðsmynd 3) sem mikill meirihluti hafði hafnað flokkast ekki undir neitt nema vanvirðingu gagnvart heilu hverfi enda voru viðbrögð samkvæmt því. Tekið er undir bókun foreldrafélagsins þar sem segir „stjórnsýsla borgarinnar er átalin og virðingarleysi borgaryfirvalda gagnvart íbúalýðræði. Skóla- og frístundaráð og fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn hyggjast nú ganga gegn öllu samráði sem m.a. byggði á endurteknum umsögnum sem unnar voru m.a. af skólastjórnendum, starfsmönnum og börnum í Laugardal. Til stuðnings breyttri afstöðu hefur borgaryfirvöldum mistekist hrapallega að sýna fram á breyttar forsendur og sundurlaus rök um erfiðar framkvæmdir og rask sannfæra engan.“ Flokkur fólksins gerir þá kröfu að tillaga um sviðsmynd 1 sem valin var af íbúum Laugardals og samþykkt var í borgarráði 2022 verði fylgt. Þetta eru gróf samráðssvik. Sviðsmynd 1 hefur aldrei verið könnuð til hlítar. Tilkoma Þjóðarhallar eru ekki rök fyrir því að ekki sé hægt að fylgja sviðsmynd 1 enda hefur lengi verið vitað að Þjóðarhöll muni rísa á þessum stað. Íbúar Laugardals og Flokkur fólksins hafna því að skólahverfinu verði umbylt með vanhugsuðum breytingum sem virðast bera keim af tækifæriskenndum lausnum.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. ágúst 2024.

    3. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 14. ágúst 2024. MSS24010033

    Fylgigögn

  15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. (MSS24010024, MSS22030265, MSS24010024, MSS24010051, MSS24080041, MSS24080050, MSS24080048, MSS24080040) MSS24080027

    Fylgigögn

  16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24080028

    Fylgigögn

  17. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að gjaldskyldu sé breytt á núverandi gjaldsvæði P2 í gamla Vesturbænum svokallaða yfir í gjaldsvæði P4, með það fyrir sjónum að mæta ábendingum íbúa svæðisins um óþarflega dýra gjaldskrá á svæðinu. Átt er við það svæði sem nær frá Reykjavíkurtjörn til Hringbrautar, Hofsvallagötu, Nýlendugötu og Mýrargötu. MSS24080080

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. 

    Fylgigögn

  18. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um alla þá grunnskóla í Reykjavík sem eru sérstaklega skilgreindir sem símalausir skólar. MSS24080081

  19. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um starfsmannafjölda OR samstæðunnar við áramót 2022, áramót 2023 og þegar þessari fyrirspurn er svarað 2024, sundurliðað eftir dótturfélögum. Jafnframt er óskað upplýsinga um starfsmannakostnað yfir sömu tímabil, sundurliðað eftir dótturfélögum. Loks er óskað upplýsinga um meðallaun innan samstæðunnar, yfir sömu tímabil, sundurliðað eftir dótturfélögum. MSS24080082

    Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.

  20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að breyta opnunartíma í sjósundsaðstöðunni í Nauthólsvík þannig að hún verði áfram opin á sunnudögum og mánudögum. MSS24080083

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Fylgigögn

  21. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðu á máli Loftkastalans sem varðar lóðirnar Gufunesvegur 34 og Þengilsbás 1 sem skipt var í tvennt. Hefur farið fram könnun á stjórnsýslu Loftkastalamálsins ofan í kjölinn? Til dæmis á hlut borgarlögmanns. Staðfest hefur verið að borgarstjóri óskaði eftir að hann kafaði ofan í stjórnsýslu málsins frá upphafi þess ásamt ábendingum sem hafa komið frá forsvarsmönnum Loftkastalans. Spurt er hvort öll gögn í Loftkastalamálinu séu uppi á borði og aðgengileg borgarfulltrúum og er hér með vísað m.a. til gagna sem sýna útfærslu á deiliskipulagi sem ber að gera samkvæmt skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa, hæð landslags á lóðum og fleira. MSS23060042

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni. 

    Fylgigögn

  22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað margir skólar í Reykjavík bjóða hunda velkomna í skólana til að veita nemendum stuðning og vellíðan? MSS24080085

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað margir starfsmenn Reykjavíkurborgar fara út á meðal ungmenna þar sem þau hópast saman eftir skóla. MSS24080086

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:00

Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Hildur Björnsdóttir Kristinn Jón Ólafsson

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 22.08.2024 - prentvæn útgáfa