Borgarráð - Fundur nr. 5746

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 13. júní, var haldinn 5746. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Kjartan Magnusson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Hulda Hólmkelsdóttir, Theódór Kjartansson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út áframhaldandi framkvæmdir vegna uppbyggingar í Vogabyggð, ásamt fylgiskjölum. USK24060093
    Samþykkt.

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á niðurstöðu opinnar hönnunarsamkeppni vegna byggingar á nýjum samþættum leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð og nýrri göngu- og hjólabrú á Fleyvangi. USK24060090

    Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi Brynjólfsson, Ósk Soffía Valtýsdóttir, Baldur Svavarsson og Brynjar Darri Baldursson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýr samþættur leik- og grunnskóli, frístundaheimili, félagsmiðstöð og göngu- og hjólabrú í Vogabyggð, sem sigraði nýlega hönnunarsamkeppni og var kynntur í borgarráði, er afar vel heppnað mannvirki að mati meirihlutans. Byggingin er margnota, skemmtileg og mætir vel kröfum íbúa í nýja hverfinu um grænt svæði. Í framhaldi verða fjárhagslegar forsendur verkefnisins rýndar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggja niðurstöður hönnunarsamkeppni um byggingu á nýjum samþættum leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð og nýrri göngu- og hjólabrú á Fleyvangi. Varðandi fyrra málið finnst fulltrúa Flokks fólksins þessar hönnunarsamkeppnir farnar að vekja upp alls konar efasemdir. Þeir sem taka þátt í þessu eru greinilega ekki með slæma fjárhagsstöðu borgarinnar í huga. Alveg óþarfi er að fara offari þegar hanna á einfaldan og góðan leik- og grunnskóla, frístundaheimili eða félagsmiðstöð. Hér er ekki verið að biðja um hönnun hallar fyrir kónga eða keisara heldur skólabyggingu sem þarf að vera smekkleg, traust og vistvæn. Eigi að vera hönnunarsamkeppni verða þeir sem taka þátt að hafa ákveðinn ramma sem tekur mið af heildarfjármagni sem veita á í verkið. Sama gildir um brúarsmíði. Við höfum nú þegar dæmi um hönnun brúar sem reiknað er með að fari langt yfir fjárhagsáætlun jafnvel áður en bygging brúarinnar er hafin.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-mars 2024, dags. 13. júní 2023, ásamt fylgiskjölum. FAS24060009

    Hörður Hilmarsson, Jónas Skúlason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Erik Tryggvi S. Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það kemur ekki á óvart að rekstrarniðurstaðan felur í sér veruleg frávik frá samþykktum fjárheimildum. Sviðsstjórar bera mikla fjárhagslega ábyrgð sbr. ákvæði 3.4 í reglum um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar en hin pólitíska ábyrgð liggur hjá þessum og síðasta meirihluta. Margsinnis hefur fulltrúi Flokks fólksins bent á fjáraustur þjónustu- og nýsköpunarsviðs allt frá 2019. Fjármál borgarinnar væru ekki svona slæm ef sett hefði verið stopp á botnlausar tilraunir og uppgötvunarleiki þessa tiltekna sviðs. Flokkur fólksins hefur ekki enn í dag fengið svör við fyrirspurnum um bruðl eins og kostnað við vínkæli á þjónustu- og nýsköpunarsviði upp á 1,3 milljónir frá Ölgerðinni yfir níu mánaða tímabil. Einnig eru engin svör við því hvernig heildarkostnaður þjónustu- og nýsköpunarsviðs í notendaþjónustu og kerfisrekstri skiptist á milli fastra starfsmanna sviðsins og svo verktakagreiðslna sjálfstæðra verktaka annars vegar og starfsmanna fyrirtækja hins vegar sem vinna samkvæmt föstum eða lausum samningum við þjónustu- og nýsköpunarsvið. Það tekur síðan steininn úr mitt í öllu þessu fjáraustri þjónustu- og nýsköpunarsviðs að meirihlutinn skuli vera að amast yfir þjónustu við börn með geðraskanir enda um að ræða lögbundna þjónustu. Tugir barna í neyð, í þörf eftir aðstoð, eru ekki að fá hana sbr. langa biðlista í alla þjónustu.

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 13. júní 2024, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2024. Greinargerðir fylgja tillögunum. FAS24010023
    Vísað til borgarstjórnar.

    Hörður Hilmarsson, Jónas Skúlason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Erik Tryggvi S. Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður lið 1 og 2 í viðauka við fjárhagsáætlun 2024, dagforeldrar, hækkun um 130.000 þ.kr. vegna eflingar á dagforeldrakerfinu, og vegna sumarstarfa fyrir 17 ára þar sem áætlað er að bjóða allt að 50 sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Áætlaður heildarkostnaður vegna 50 ráðninga í 8 vikur er 50.600 þ.kr. Margt annað í þessum viðauka er verulega athugavert en við suma þætti vantar haldbærar skýringar. Hækka á fjárheimildir vegna heilsustefnu. Hér vantar skýringar, t.d. af hverju upphæðir eru svo mjög mismunandi til sviða. Sama gildir um launa- og starfsmannakostnað sem hækkar um 25 milljónir. Einu skýringar eru að verið sé að mæta breytingum án þess að það komi fram hvaða breytingar það eru. Hækka á laun stjórnenda sem eru kjaranefndarraðaðir og hækka á fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu um 85. 420 þ.kr. vegna ákvarðana kjaranefndar Reykjavíkurborgar. Laun æðstu stjórnenda borgarinnar sem kjaranefnd raðar eru að fá umtalsverðar hækkanir. Loks á að hækka fjárheimildir vegna skipulagsbreytinga á fjármála- og áhættustýringarsviði. En áttu þessar skipulagsbreytingar ekki einmitt að vera til að hagræða, spara og skila meiri skilvirkni frekar en að auka útgjöld?
     

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 6. júní 2024, varðandi úttekt á styrkjaverkefnum Reykjavíkurborgar og styrkjaúthlutunum, ásamt fylgiskjölum. IER22110004

    Ingunn Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins hefur lengi fundist styrkjakerfi Reykjavíkurborgar eins og frumskógur. Árið 2022 námu styrkir samtals 1.088 m.kr. Heildarumfang styrkjakerfis er því gríðarlegt. Flokkur fólksins hefur lengi haft grun um að hægt sé að komast upp með að sækja um styrk fyrir ákveðnu verkefni en nota hann svo bara í eitthvað allt annað enda eru allmörg dæmi um að styrkþegar skili engri greinargerð eða staðfestingu (samkvæmt 3. gr. styrkjahandbókar) um verkefnið sem styrkja átti. Þetta var skoðað af innri endurskoðun og í 29 tilfellum höfðu tveir ekki skilað lokagreinargerð til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs en til borgarráðs var aðeins búið að skila inn sjö greinargerðum af þeim nítján styrkveitingum sem voru í úrtakinu. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá að dregið verði rösklega úr styrkjakerfinu enda skilvirkni þess ekki nógu góð. Dæmi eru jafnvel um að aðilar fái aftur styrk þótt þeir hafi ekki skilað inn greinargerð vegna fyrri styrkja. Af öðru sem fram kemur í gögnum er að skortur er á sýnileika og aðgengi samkvæmt innri endurskoðun og eins er styrkjakerfið fljótandi milli kerfa í borginni og ekki er nægjanleg yfirsýn yfir það. Ábyrgðarsvið styrkjakerfisins í heild er hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. júní 2024:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skýrslu og tillögum starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa verði vísað til umsagnar velferðarráðs, skóla- og frístundaráðs, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og öldungaráðs. MSS24060032

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Eiríkur Björn Björgvinsson, Anna Sigrún Baldursdóttir, Ævar Harðarson, Guðrún Kaldal, Árni Guðmundsson, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Árið 2020 var fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði í stýrihóp um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Hópurinn lauk aldrei störfum. Meðal hugmynda hópsins var að ákveðnar félagsmiðstöðvar, sumar þeirra sem væru tengdar við þjónustukjarna, fengi sérhæfðara hlutverk. Ekki var sátt um þessa tillögu þá og komu mótmæli frá fulltrúa meirihlutans. Fulltrúa Flokks fólksins fannst þetta alltaf góð hugmynd og skiljanleg. Ekki er betur séð en að hér sé verið að leggja fram sömu tillögu. Sjálfsagt er að gera einhverjar félagsmiðstöðvar sérhæfðari. Gæta þarf þess að aðgengi að hinum sérhæfðu félagsmiðstöðvum sé tryggt og að fólk komist án vandræða á þær og milli þeirra. Strætó er því miður ekki nógu góður kostur fyrir margra sakir. Finna þarf aðrar leiðir. Þegar talað er um sérhæfingu þá þýðir það líka að leggja skuli áherslu á sérhæfð áhugamál. Til dæmis að efla virkni líkama og sálar með göngu- og hlaupahópum, dansi, jóga og hugleiðslu, mat, næringu og heilsueflingu. Nýta má áhugamál sem forvarnir, þ.e. með sönghópum, spilahópum, leshringjum, umræðuhópum um stjórnmál, tónlist, hannyrðum, smíðum, viðgerðum og listasmiðjum, golfi, ferðalögum, leikhúsi og garðyrkju. Þekking og námskeið verði í brennidepli, þ.e. tungumálakennsla, kennsla á notkun tækni og ættfræði svo eitthvað sé nefnt.

     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. júní 2024:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela velferðarsviði að kanna fýsileika þess að í stað fimm félagsmiðstöðva sem nú eru reknar í þjónustuíbúðakjörnum sem Reykjavíkurborg rekur, komi sérhæfðar dagdvalir sem er í samræmi við stefnumótun ríkisstjórnarinnar, „gott að eldast“ þar sem sérstök áhersla er á eflingu og þróun dagdvala í aðgerð A3. MSS24060033

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Eiríkur Björn Björgvinsson, Anna Sigrún Baldursdóttir, Ævar Harðarson, Guðrún Kaldal, Árni Guðmundsson, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokki fólksins líst vel á að fjölga sérhæfðum dagdvölum. Það vantar t.d. fleiri úrræði eins og dagdvöl Alzheimersjúklinga og sennilega er gott að samræma stefnumótun Reykjavíkur við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í verkefninu „gott að eldast“ en þar er sérstök áhersla á eflingu og þróun dagdvala. Líka er jákvætt ef það er hægt að nýta þessar félagsmiðstöðvar meira en nú er gert. Núna eru það fyrst og fremst íbúar í þjónustuíbúðakjörnum sem nýta kjarnana.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 10. júní 2024, vegna framhaldseigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur. Trúnaður ríkir um afgreiðslu borgarráðs og gögn málsins fram yfir eigendafund. MSS24010162
  9. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 11. júní 2024, vegna aðalfundar Faxaflóahafna sf. Trúnaður ríkir um afgreiðslu borgarráðs og gögn málsins fram yfir aðalfund. MSS24060038
  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. apríl 2024, sbr. samþykkt forsætisnefndar frá 19. apríl 2024 að vísa drögum að samningi við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins vegna Reykjavík City Card til borgarráðs, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 24. maí 2024. MSS23090053
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 6. júní 2024. MSS24010035

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins styður þessa tillögu um rólegt svæði/skynrými á Menningarnótt. Þetta er þörf tillaga. Hvort sem það verður tjald eða afmarkað rými innanhús þá er um að ræða svæði þar sem gestir geta dvalið til þess að hvíla skynfærin frá skarkalanum sem fylgir mannmergðinni og hátíðarhöldunum, í þeim tilgangi að bæta aðgengi ýmissa hópa að borgarhátíðinni að fyrirmynd Svigrúms sem sett var upp í Iðnó á Hinsegin dögum síðastliðnum. Þá verði rýmið auglýst sérstaklega fyrir þá hópa sem það kann að nýtast eins og t.d. einhverfu fólki eða öðru fólki með skynúrvinnsluvanda eins og segir í tillögunni.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 4. júní 2024. MSS24010005

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 3. júní 2024. MSS24010029

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Fram fer umræða um öryggismyndavélar í Reykjavík í íbúaráðinu. Það er í raun sérkennilegt hvað mikið þarf að hafa fyrir einu máli og þótt mál sé ofarlega í Hverfið mitt keppninni virðist það ekki skipta neinu máli. Brýnt er að þessu máli sé haldið á lofti og það komist í verk að net öryggismyndavéla verði sett upp í hverfinu og fleiri hverfum borgarinnar. Flokkur fólksins fagnar því að íbúaráðið ítrekar rafræna vöktun sem var í Hverfinu mínu 2018 í 2. sæti. Þá hafði áður verið búið að senda inn þessa tillögu í samkeppnina og hún hlotið brautargengi og grænt ljós hjá borginni. En síðan má segja að ekkert hafi gerst þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, aðeins sagt að málið sé í ferli. Flokki fólksins finnst mikilvægt að hlustað verði á borgarbúa og farið verði eftir óskum íbúa. Hverfið mitt er verkefni sem talið var að væri til að fá skoðanir íbúa fram og hvað er þeim hugleikið en síðan er oft ekki söguna meir.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. maí 2024. MSS24010029

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar: 

    Lögð er fram og samþykkt tillaga starfskjaranefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 27. maí 2024, um kjör forstjóra. Heildarlaun forstjóra verða kr. 3.800.000 á mánuði. Þessi laun eins aðila eru gjörsamlega út úr kú og ekki í neinum takti við raunveruleikann. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir betra siðferði þegar kemur að ofurlaunum einstakra aðila hjá Orkuveitunni. Hér er um að ræða fyrirtæki borgarinnar og enda þótt gangi vel hjá því er ekki þar með sagt að borgarbúar samþykki slík laun á meðan í borginni er fátækt og ójöfnuður. Stór hópur á ekki til hnífs og skeiðar. Enginn þarf slíka upphæð á mánuði til að geta lifað góðu og gjöfulu lífi.

    Fylgigögn

  15. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 9. apríl, 7. maí og 4. júní 2024. MSS24010027

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júní 2024. MSS24010031
    10. liður fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar: 

    Hér er verið að breyta góðu og gömlu íbúðarhúsi í víggirt sendiherrahús, þar sem íslensk lög gilda ekki einu sinni. Fjölmargar athugasemdir eru gerðar við það og tekur Flokkur fólksins undir flestar. Spurning hvort það henti að gera slíka grunnbreytingu á hverfinu. Starfsemi sem þessi á einfaldlega ekki heima í íbúðahverfi. Meðal athugasemda er að málið uppfylli ekki skilyrði skipulagslaga um málsmeðferð samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 44. gr. laganna og að kynningin uppfylli ekki skilyrði 44. gr. skipulagslaga og 5. kafla skipulagsreglugerðar um þau gögn sem leggja ber fram við grenndarkynningu. Ætla má að þau byggingaráform sem kynnt eru séu hluti áformaðrar öryggisgæslu á lóðinni sem felst í viðvarandi mannaðri öryggisgæslu, sem vel kann að vera vopnuð. Sé sú ógn raunveruleg sem áformuðum öryggisráðstöfunum á lóð Sólvallagötu 14 er ætlað að verjast, þá verða lóðir og eftir atvikum heimili á aðliggjandi lóðum mögulegur vettvangur þeirra aðila sem ógna sendiherrabústaðnum, sem kallar á hættu og ógn yfir næstu nágranna og er óásættanlegt með öllu fyrir þá. Þetta er áhyggjuefni. Þetta mál er í raun allt hið ótrúlegasta að áliti fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. MSS24050104

    Fylgigögn

  18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24060001

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. júní 2024, varðandi endurskoðun málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitinga- og gististaði. Óskað er eftir að endurskoðun á ákvæðum um áfengisveitingar í íþróttamannvirkjum í tengslum við íþróttaviðburði verði vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til að leita samráðs við íþróttafélögin og aðra hagaðila. MSS23080053
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. júní 2024, um ferð formanns borgarráðs til Valencia til þátttöku á fundi um kolefnishlutlausar og snjallar borgir, ásamt fylgiskjölum. MSS24060058

    Fylgigögn

  21. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Kallað er eftir upplýsingum um þá hverfisskipulagsvinnu sem nú er í gangi. Hvert er umfang þessa verkefnis á heildina litið, í hverju felst vinnan? Hverju á hún að skila og hvernig er það mælt? Hver er munurinn á hverfisskipulagi annars vegar og þá deiliskipulagi og aðalskipulagi hins vegar? Hversu bindandi er þessi hverfisskipulagsgerð miðað við deiliskipulagsgerð? Hvaða áhrif hefur umrædd hverfisskipulagsgerð á tækifæri íbúa til að gera athugasemdir við breytingar á síðari stigum? Hvernig breytist upplýsingagjöf til íbúa vegna breytinga í hverfinu? Fer hverfisskipulagsgerð fyrir Skipulagsstofnun? Er samráð haft við viðkomandi stofnanir, t.d. Minjavernd, og hvernig er því samráði þá háttað? Hver er heildarkostnaðurinn við vinnuna og gerð þessara hverfaskipulagsverkefna? Einnig er spurt um hverfisvernd. Hvað þýðir hverfisvernd, hvað felur hún í sér, hvernig er henni fylgt eftir og hver sér um það? MSS24060061

  22. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir sundurliðaðri greinargerð um kostnað við Klapp-greiðslukerfið. Upplýsingarnar verði sundurliðaðar eftir aðilum og árum og nái yfir allan kostnað Strætó bs. við fjárfestingu og rekstur kerfisins frá upphafi og til þess tíma er fyrirspurninni verður svarað. Gerð verði grein fyrir greiðslum fyrirtækisins til allra aðila, innlendra sem erlendra, í tengslum við verkefnið, sem og kostnaði sem skráður hefur verið innan Strætó bs. vegna þess. MSS24060062

  23. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um hvenær von sé á skýrslu nefndar um hugsanlega flugvallarlagningu í Hvassahrauni. Upphaflega var áformað að umrædd skýrsla kæmi út fyrir árslok 2021. MSS24060063

  24. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Áfangaheimilinu Brú við Stórhöfða var lokað í janúar síðastliðnum en þar bjuggu þá um átján einstaklingar, sem voru í endurhæfingu eftir áfengis- og fíknimeðferð. Formaður velferðarráðs Reykjavíkur tilkynnti í desember að Reykjavíkurborg myndi finna umræddum einstaklingum annan stað og þannig leysa húsnæðisvanda þeirra. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig sú vinna gengur. Hvernig verður vandi þessa hóps leystur og hvenær verður hann leystur að fullu? MSS24060064

Fundi slitið kl. 11:30

Dagur B. Eggertsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Kjartan Magnússon Magnea Gná Jóhannsdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 13.6.2024 - prentvæn útgáfa