Borgarráð - Fundur nr. 5742

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 18. apríl, var haldinn 5742. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:09. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Kjartan Magnússon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir og Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Bjarni Þóroddsson, Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram og Þorsteinn Gunnarsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. apríl 2024:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 3.000 m.kr., í nýjan óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 27 1, sem eru 3.000 m.kr. að markaðsvirði. Skuldabréfaflokkurinn ber 9,52% fasta vexti sem greiðast tvisvar á ári. Tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 17. apríl 2024.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 9:20 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi S. Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010012

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti borgarráðs hefur samþykkt beina sölu á óverðtryggðum skuldabréfum borgarsjóðs fyrir þrjá milljarða króna. Skuldabréfaflokkurinn ber 9,52% fasta vexti, sem eru afarkjör fyrir stóran aðila eins og Reykjavíkurborg. Slík afarkjör sýna glöggt versnandi stöðu borgarinnar á lánsfjármarkaði. Gerð er alvarleg athugasemd við afgreiðslu málsins og er lögmæti hennar dregið í efa. Tillaga borgarstjóra um umrædda skuldabréfasölu ásamt gögnum var ekki á útsendri dagskrá fundarins. Var tillaga borgarstjóra um söluna ekki lögð fram undir sérlið heldur skotið inn undir liðnum „Útgáfuáætlun skuldabréfa.“ Ljóst er að umrædd tillaga fullnægir ekki þeim skilyrðum sem gerð eru til framlagningar mála í borgarráði. Samkvæmt samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar skal borgarráð boðað til fundar með rafrænu fundarboði ásamt dagskrá og fundargögnum a.m.k. 40 klukkustundum fyrir fund. Áréttað skal að umrædd tillaga felur í sér mikilvæga fjárhagslega hagsmuni fyrir borgina. Umrædd tillaga var ekki kynnt með slíkum hætti heldur lögð fram án fyrirvara í upphafi fundar. Var tillagan t.d. ekki á prentaðri dagskrá fundarins sem dreift var til borgarráðsfulltrúa í upphafi hans. Lágmark væri að leita samþykkis fundarmanna til að setja slíka tillögu á dagskrá með afbrigðum en það var ekki gert.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Útgáfa þessa skuldabréfaflokks og afgreiðsla hans í borgarráði er í samræmi við hefðbundið verklag sem fulltrúar í borgarráði þekkja vel.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 16. apríl 2024, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024. Greinargerðir fylgja tillögunum.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi S. Bjarnason og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010023

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hækka eigi fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs um 22.000 þ.kr. vegna launakostnaðar nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur 2024. Krakkar í vinnuskólanum hafa verið snuðaðir allt of lengi um launahækkun. Vinnuframlag unglinganna er mikilvægt. Laun þeirra hækkuðu síðast sumarið 2022 en voru síðan óbreytt 2023 samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihlutans. Um þetta var ekki vitað fyrr en eftir að unglingarnir hófu störf um sumarið og fól í sér verulega kjaraskerðingu fyrir þá. Auðvitað ætti að leiðrétta nú laun unglinganna í samræmi við breytingar á launavísitölu frá síðustu breytingu árið 2022. Þá myndu launin hækka um helming þess sem nú er lagt til. Af öðru í viðaukanum: Fulltrúi Flokks fólksins er hins vegar ekki sammála um að hækka eigi fjárheimildir skrifstofu miðlægrar stjórnsýslu um 1.740 þ.kr. vegna hækkunar á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. apríl 2024 sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. apríl 2024 á tillögu um að framlengingu tímabundinnar heimildar til frávika frá reglum um íbúakort.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK23110144

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. apríl 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. apríl 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Bústaðahverfis.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK24040055

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. apríl 2024, sbr. samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. apríl 2024 á samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. HER24010001

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í gögnum frá umhverfis- og skipulagssviði, samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, er sagt og það með réttu að „sá geldur sem veldur“, verði höfð að leiðarljósi við ákvörðun gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs. Það mætti líka hafa í huga að sá sem greiðir ætti einnig að hafa áhrif á hvernig meðhöndlun fer fram. Hætta er á að fyrirtæki sem SORPA geti farið frjálslega með málin ef alltaf er hægt að senda reikninga á merkta greiðendur. Stutt getur orðið í að innheimtan verði að skatti. Í gögnum segir: „Gjöld fyrir söfnun á heimilisúrgangi og rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva innheimtist með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum“. Þetta mætti allavega skilja sem svo að hægt sé að henda rusli í gáma í grenndarstöð án sérstakrar greiðslu, eða er það svo? Í samþykktum sem slíkum mætti hvetja til heimajarðgerðar en í einbýlishúsum er hægt að vera með jarðgerð. Það minnkar sorpmagn. Þá er óþarft að skylda til að setja allan úrgang úr eldhúsi í pappírspoka nema kjöt- og fiskúrgang sem úldnar.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir í nýbyggingahverfum og vegna þéttingar byggðar á árinu 2024, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 400 m.kr.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK24040062

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Bjóða á út framkvæmdir í nýbyggingahverfum og vegna þéttingar byggðar á árinu 2024. Setja þarf kvaðir á lóðarhafa til að hindra að byggingarréttur sé geymdur og seldur seinna á hærra verði en keypt var. Krafa á að vera að byggt sé innan tiltekins tíma. Nauðsynlegt er að byggja meira en gert hefur verið. Þétting byggðar ætti ekki að vera fókusinn heldur að byggja alls staðar sem hægt er að byggja og byggja fjölbreytt. Það vantar ekki pláss til að byggja á og hafa margsinnis verið nefndir reitir og land sem bíða þess að byggt verði á. Brjóta þarf nýtt land undir byggð áður en langt um líður. Meirihlutanum finnst sem verið sé að byggja mikið í Reykjavík og það er kannski rétt en það er einfaldlega ekki verið að byggja nóg. Fjöldi nýrra íbúða heldur ekki í við mannfjöldaþróun. Reykjavík á stóran þátt í hvað húsnæðisverð hefur hækkað. Afleiðingar framboðsskorts á íbúðum hafa komið fram í mikilli hækkun íbúðaverðs, verðbólgu og háum vöxtum sem vegið hefur að efnahagslegri stöðu fyrirtækja og heimila í landinu. Reykjavík er stærst sveitarfélaga og höfuðborgin. Allt of lengi var sofið á verðinum og loks þegar tekið er við sér er ekki nóg gert.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. apríl 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. apríl 2024 um hækkun launa í Vinnuskóla Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur hækki frá og með næsta sumri í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta launahækkun tók gildi vorið 2022. Jafnframt er lagt til að umrædd laun séu fest við launaflokk 217 til framtíðar í hlutfalli við áðurnefnda hækkun.

    Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs um hækkun launa í Vinnuskóla Reykjavíkur er samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK24030123

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með þessari ákvörðun eru laun nemenda Vinnuskólans fest við grunnlaunaflokk í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Sameykis. Launin munu þess vegna hækka í takt við launaþróun samkvæmt samningum sem skapar fyrirsjáanleika til frambúðar fyrir öflugt starfsfólk Vinnuskólans. Vinnuskólinn í Reykjavík er stærsti vinnuveitandi ungs fólk á landinu sem tryggir öllum ungmennum í 8.-10. bekk sem eftir því óska atvinnu og gegnir mikilvægu hlutverki í því að hjálpa þeim að stíga fyrstu sporin á vinnumarkaðnum. Sömuleiðis er tekið vel utan um ungmenni sem þurfa sértæka aðstoð og stuðning. Samhliða er verið að uppfæra starfsemi Vinnuskólans og taka betur utan um verkefnin og börnin sem þar starfa.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Störf unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur eru mikilvæg og vega þungt í umhirðu, þrifum og viðhaldi í borginni. Laun í unglingavinnunni hækkuðu síðast sumarið 2022 en voru síðan óbreytt 2023 samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Launafrystingin 2023 var ekki tilkynnt fyrr en eftir að unglingarnir hófu störf um sumarið og fól hún í sér verulega kjaraskerðingu gagnvart þessum yngstu starfsmönnum borgarinnar. Eðlilegt og sanngjarnt væri að leiðrétta nú laun unglinganna í samræmi við breytingar á launavísitölu frá síðustu breytingu árið 2022. Þyrftu launin að hækka um rúmlega 14% til að þau héldu verðgildi sínu miðað við 2022. Meirihlutinn ætlar hins vegar að skammta unglingunum 7,8% hækkun, sem er langt frá því að vinna upp þá kjaraskerðingu er þeir hafa orðið fyrir frá síðustu breytingu. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að launin hækki í samræmi við launavísitölu frá 2022, eins og fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna lögðu til á fundi með borgarfulltrúum í febrúar sl., var felld með atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að laun í vinnuskólanum taki hækkunum í samræmi við tillögu ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðbæjar og Hlíða. Laun vinnuskólans ættu ávallt að fylgja launaflokki, bundið við hlutfall af viðeigandi launaflokk sambærilegs starfs, og taka hækkunum eftir því. Sósíalistar ítreka þá afstöðu sína að ef starfsemi vinnuskólans á að vera undanþegin reglum á vinnumarkaði um kjarasamninga og samningsrétt, þá þarf hún að vera byggð á grunni fræðslu og leiðsögn til ungmenna sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, fremur en því að vera hefðbundið samband launagreiðanda og launamanneskju. Þessu má ekki víkja útaf án þess að endurskoða þurfi launasetningu og stöðu ungmennanna gagnvart sínum launagreiðanda.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar þessa tillögu ungmennaráðsins um hækkun launa í Vinnuskóla Reykjavíkur. Laun ungmenna sem starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur hafa verið langt undir því sem unglingar fá í öðrum sveitarfélögum fyrir sambærileg störf. Kallað er eftir því að unglingum sé ekki mismunað eftir því hvar þeir búa, jafnræði sé tryggt og að laun í Vinnuskólanum fylgi launaþróun í landinu. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að vinnuskólanum að öllu leyti. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Þótt verðbólga sé eitthvað að síga niður má ætla að langur tími sé í einhvern viðvarandi stöðugleika í efnahagslífinu. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram áfangaskýrsla I um kostnaðar- og ábyrgðarskipting ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, dags. í janúar 2024.

    Haraldur L. Haraldsson, Arnar Haraldsson, Halldóra Káradóttir, Rannveig Einarsdóttir, Hörður Hilmarsson, Aðalbjörg Traustadóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Skúli Þór Helgason, Sabine Leskopf og Þorvaldur Daníelsson sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120072

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Manneskjur sem eiga rétt á lögbundinni þjónustu eiga ekki að upplifa sig fasta á milli samningsviðræðna ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun varðandi lögbundin réttindi, stuðning og þjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kostnaðar- og ábyrgðarskipting ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk er sagan endalausa eða öllu heldur baráttan endalausa. Í málaflokknum hefur verið glímt við tekjuvanda nánast allar götur frá yfirfærslu. Flokkur fólksins styður heilshugar meirihlutann í þessari baráttu enda er hér um að ræða eitt helsta baráttumál Flokks fólksins bæði í borgarstjórn og á Alþingi. Kostnaðar- og ábyrgðarskipting ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk þarf að vera eðlileg og sanngjörn og umfram allt þarf að gæta jafnræðis. Tekjuaukning sveitarfélaga vegna málaflokksins er sífellt í formi plásturs og dugar rétt til að kroppa í halla málaflokksins. Þetta er auðvitað óþolandi staða. Draumur okkar flestra er að sjá einhvern myndugskap hjá ríkisvaldinu en ekki er að vænta mikils af þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd. Vonbrigðin eru meiri því væntingar voru um að með yfirfærslunni yrði þjónusta betri en verið hafði enda var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafður að leiðarljósi við gerð framtíðarsýnar borgarinnar í málaflokknum. Hvað sem öllu þessu líður má þetta ekki bitna á fötluðu fólki. Sveitarfélög verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna úr þessari erfiðu stöðu í þeirri von um að nægjanlegt fjármagn komi einn góðan veðurdag.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viljayfirlýsingu við Þorpið vistfélag ehf., vegna mögulegrar þróunar og uppbyggingar lífsgæðakjarna á tilteknum lóðum á deiliskipulagssvæði 2 á Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum.

    Frestað. MSS24040098

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viljayfirlýsingu við Reiti fasteignafélag hf., vegna mögulegrar þróunar og uppbyggingar lífsgæðakjarna á tilteknum lóðum á Borgarhöfða á Loftleiðasvæðinu, ásamt fylgiskjölum. 

    Frestað. MSS24040100

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viljayfirlýsingu við Köllunarklett ehf., vegna mögulegrar þróunar og uppbyggingar lífsgæðakjarna á tilteknum lóðum á Köllunarklettsvegi og Héðinsgötu, ásamt fylgiskjölum.

    Frestað. MSS24040101

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viljayfirlýsingu vegna mögulegrar þróunar og uppbyggingar lífsgæðakjarna á tilteknum lóðum á Borgarhöfða á Ártúnshöfða, Álfheima og/eða í Norður-Mjódd.

    Frestað. MSS24040102

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. apríl 2024, ásamt fylgiskölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar að skipan fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. Þá er lagt til við borgarráð að styðja Ingibjörgu Ósk Stefánsdóttur sem formann stjórnar Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.

    Samþykkt. MSS24040099

    Fylgigögn

  14. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók borgarráðs. MSS24040106

  15. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók borgarráðs. MSS24040107

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. apríl 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Félagsfundur Jafnlaunastofu verður haldinn þann 29. apríl nk. kl. 14:30 í húsnæði félagsins í Borgartúni 18, 105 Reykjavík. Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa Lóu Birnu Birgisdóttur sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs og Sigríði Finnbogadóttur sérfræðing á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í stjórn Jafnlaunastofu sf., ásamt því að skipa Halldóru Gunnarsdóttur jafnréttisráðgjafa á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu sem varamann í stjórn til eins árs í samræmi við 7. gr. sameignarfélagssamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eigendastefna Reykjavíkurborgar gildir ekki um Jafnlaunastofu sf. þar sem félagið uppfyllir ekki skilyrði 2. gr. eigendastefnunnar um bókfært virði eignarhlutar.

    Samþykkt. MOS21110005

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 15. apríl 2024, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra á European Mayors Summit, fundi evrópskra borgarstjóra, dagana 3.-4. maí nk. í París, ásamt fylgiskjölum. MSS24040095

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins minnir á í þessu sambandi kolefnisspor og loftlagsmál svo ekki sé minnst á kostnað nema auðvitað komi til styrkja. Ef þess er nokkur kostur að taka þátt í fjarfundi eða fylgjast með streymi þá ætti sá kostur að vera valinn. Fulltrúi Flokks fólksins skilur að stundum er nauðsynlegt að mæta í eigin persónu. Mæting í eigin persónu á fundi og ráðstefnur er oftast nær ofmetin að mati Flokks fólksins. Eftir á munu sennilega fæstir muna hvort borgarstjóri var mættur á fund evrópskra borgarstjóra eða ekki. Hvað varðar ferð formanns borgarráðs til Parísar er auðvitað sjálfsagt að Bandalag borgarstjóra OECD um hagvöxt án aðgreiningar borgi kostnað sé nærveru hans óskað.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. apríl 2024, varðandi fyrirhugaða ferð formanns borgarráðs til Parísar 22-23. apríl, til að taka þátt í fundi OECD Champion Mayors for Inclusive Growth. MSS24040126

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins minnir á í þessu sambandi kolefnisspor og loftlagsmál svo ekki sé minnst á kostnað nema auðvitað komi til styrkja. Ef þess er nokkur kostur að taka þátt í fjarfundi eða fylgjast með streymi þá ætti sá kostur að vera valinn. Fulltrúi Flokks fólksins skilur að stundum er nauðsynlegt að mæta í eigin persónu. Mæting í eigin persónu á fundi og ráðstefnur er oftast nær ofmetin að mati Flokks fólksins. Eftir á munu sennilega fæstir muna hvort borgarstjóri var mættur á fund evrópskra borgarstjóra eða ekki. Hvað varðar ferð formanns borgarráðs til Parísar er auðvitað sjálfsagt að Bandalag borgarstjóra OECD um hagvöxt án aðgreiningar borgi kostnað sé nærveru hans óskað.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning við Brynju leigufélag ses um húsnæði fyrir starfsmannaaðstöðu fyrir heimahjúkrun að Sléttuvegi 9, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. FAS24040023

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. apríl 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl 2024 á tillögu um tímabundinn flutning leikskólabarna úr Grandaborg í Hagaborg frá 1. september 2024 til 1. september 2025 eða þangað til að húsnæði leikskólans við Boðagranda 9 er fullklárað, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. SFS24030113

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að löngu tímabærar framkvæmdir og endurbætur á leikskólahúsnæði Grandaborgar hefjist. Fulltrúarnir gangrýna þó seinaganginn í málinu en leikskólahúsnæðinu var lokað haustið 2022 og foreldrum gefnar væntingar um að viðhaldsframkvæmdir myndu hefjast samstundis. Leikskólahúsnæðið hefur nú verið lokað í tæp tvö ár og ljóst að leikskólastarf getur ekki farið fram í Grandaborg fyrr en í fyrsta lagi haustið 2025, þremur árum eftir að húsnæðinu var lokað. Leikskólinn er fjögurra deilda leikskóli fyrir 75 börn og því ljóst að seinagangur í málinu hefur veruleg áhrif á biðlistavanda leikskólanna.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. apríl 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl 2024 á tillögu um skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir börn á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólaaldri í kjölfar fjölskyldusameiningar fólks frá Palestínu, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MSS24030094

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 1. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnið eignaumsjónarkerfi fyrir stofnanir menningar- og íþróttasviðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. ÞON23080004

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram trúnaðarmerkt ársfjórðungslegt minnisblað borgarlögmanns, dags. 15. apríl 2024, um málaferli Reykjavíkurborgar. MSS24010163

  24. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3456/2023. MSS23060049

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um skipan 25 hverfiskjörstjórna vegna forsetakosninga 1. júní 2024 og að borgarstjóra verði falið að skipa í hverfiskjörstjórnir í stað þeirra sem kunna að forfallast.

    Samþykkt. MSS23050177

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um skipan undirkjörstjórna vegna forsetakosninga 1. júní 2024 og að borgarstjóra verði falið að skipa í undirkjörstjórnir í stað þeirra sem kunna að forfallast.

    Samþykkt. MSS23050177

    Fylgigögn

  27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. apríl 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagt erindi formanns stýrihóps um stefnumótun í málefnum barna á aldrinum 0-6 ára, dags. 13. mars 2024, varðandi fyrirkomulag

    borgaraþings sem haldið verður 8. júní 2024, varðandi stefnumótun um málefni barna á aldrinum 0-6 ára.

    Samþykkt. MSS23050103

    Fylgigögn

  28. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt innri endurskoðunar á viðskiptum þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 39. liður fundargerðar borgarráðs frá 21. mars 2024. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. apríl 2024.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24030121

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vakti fyrstur athygli á meintu spillingarmáli vegna viðskipta borgarinnar við fyrirtæki í eigu fjölskyldu sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Það var á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 13. janúar 2022 sem svar barst við fyrirspurn um málið. Flokkur fólksins bókaði að ekki kæmu fram skýr svör um fjölskyldufyrirtæki sviðsstjórans og viðskipti þess við borgina. Það sætir furðu að stjórnandi og embættismaður hjá Reykjavíkurborg skuli hafa verið undanfarin ár í beinum viðskiptum við skrifstofuna og sviðið sem hann stýrir. Það hlýtur að teljast vafasamt hvernig sem á það er litið þegar stjórnandi situr beggja vegna borðs, lætur vinnustað sinn versla við fjölskyldufyrirtæki. Flokkur fólksins átti fund með Innri endurskoðun um þetta mál og óskaði eftir að það yrði skoðað. Nú tveimur árum síðar dúkkar upp minnisblað frá Innri endurskoðun um þetta mál sem reynist síðan vera trúnaðargagn. Innihald þess mun aldrei verða opinbert sem eykur stórlega á tortryggni um að þarna kunni að vera staðfesting á að hér sé um spillingarmál að ræða. Málinu er því hvergi nærri lokið og verður það ekki fyrr en niðurstöður könnunar Innri endurskoðunar verða gerðar opinberar. Ella má telja að meirihlutinn sé að taka þátt í að hylma yfir spillingu.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 8. apríl 2024. MSS24010003

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 11. apríl 2024. MSS24010007

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 4. apríl 2024. MSS24010008

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 8. apríl 2024. MSS24010012

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 8. apríl 2024. MSS24010015

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. mars 2024. MSS24010029

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 19. mars 2024. MSS24010027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Í fundargerð segir: „Stjórn SORPU fagnar því að textílsöfnun á höfuðborgarsvæðinu sé að komast í fastari skorður í takt við hringrásarlögn. Einnig að SORPA geti sinnt því verkefni án teljandi kostnaðarhækkana á þessu ári.“ En jafnframt segir: „Framkvæmdastjóri áætlar að aukinn kostnaður vegna söfnunar á textíl á seinni hluta árs 2024 verði um 15 milljónir króna, og að áætluð fjárfestingarþörf sé um 33 milljónir króna“. Þetta hlýtur að teljast kostnaðarhækkun. Ekki kemur þó fram í þessum gögnum hvort SORPA fái síðan greitt fyrir textíl.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. apríl 2024.

    6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins lagði til að settur yrði á laggirnar hópur til að skoða hvaða leiðir er hægt að fara til að gera bílastæðahús sem Reykjavíkurborg rekur meira aðlaðandi, öruggari og aðgengilegri. Tillögunni var vísað frá. Bílastæðahús/kjallarar eru í dag mörg rekin með tapi enda standa þau auð oft löngum stundum. Aðgangskerfið virkar illa. Mörg fyrirtæki sjá um að rukka inn fyrir bílastæði hér á landi og er það afar misjafnt hvað, hvenær og hvernig á að greiða fyrir stæðin. Hvernig upplýsingum er komið á framfæri og hver sektin er ef fólk greiðir ekki fyrir stæði. Þegar fólk veit ekki af hverju það gengur mun það forðast enn frekar að nota bílastæðahúsin. Þetta allt hefur fælingarmátt. Það eru hópar fólks sem ekki treysta sér til að nota bílastæðahúsin, finnst þau þröng, óaðlaðandi og finnst greiðslukerfið erfitt. Enga aðstoð er hægt að fá í bílastæðahúsum ef upp koma vandamál. Leggjast þarf yfir þessi mál með heildstæðum hætti. Útvistun er ekki svarið. Einkavæðing hefur jafnan í för með sér samdrátt í þjónustu og/eða hækkun verðskrár. Bílum er að fjölga enda almenningssamgöngur ekki nógu góðar. Þess vegna er mikilvægt að geta nýtt bílastæðahúsin og með því fengið fleiri bíla af götunum.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS24030139

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið yfirlitsins:

    Flokkur fólksins tekur undir ályktun Leiknis þar sem óskað er eftir því að Borgarstjórn Reykjavíkur hefji samtal við félagið um stuðning sem jafngildir þeim stuðningi sem hverfisfélög í borginni fá með stöðugildi íþróttafulltrúa. Fram kemur að Leiknir hefur starfað í hverfi 111 í rúm 50 ár og verið athvarf barna í fjölmörgum íþróttum. Það bitnar á íþróttastarfi Leiknis að njóta ekki stuðnings eins og stöðugildi íþróttafulltrúa sem í reynd gerir ekki annað en að bitna á íbúum í efra Breiðholti. Leiknir er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt og þar sem býr einn mesti fjölbreytileiki mannlífsins í borginni. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi var frístundakortið lengst af minnst nýtt og er jafnvel enn. Leiknir er að takast á við verkefni umfram önnur félög vegna þess að í hverfinu er fátækt mest í borginni.

    Fylgigögn

  38. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS24030138

    Fylgigögn

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að endurskoða 10 m.kr. niðurskurð á fjárframlögum til Tónskóla Sigursveins sem telst niðurskurður um 626 nemendastundir á skólaárinu. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að borgin auki kennslumagn til tónlistarskólanna í samræmi við mikla fólksfjölgun í borginni og langa biðlista i tónlistarnám enda er hlutfall nemenda í tónlistarnámi í Reykjavík langt undir því sem tíðkast í öðrum sveitarfélögum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24040168

    Frestað.

    Fylgigögn

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn ásamt greinargerð:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að fá að vita hver er heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna verkefna í stafrænni umbreytingu á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs frá stofnun sviðsins árið 2019. MSS24040165

    Fylgigögn

  41. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort það sé rétt sem fullyrt hefur verið af heimildarmönnum að vínkælir sé til staðar á upplýsingatækniskrifstofu þjónustu- og nýsköpunarsviðs á 5. hæð í Borgartúni í rými sem lengi vel gekk undir nafninu Vínstofan en hefur nýlega verið breytt í Bríetarstofa, hvort sem er í innréttingum eða á öðrum stöðum í húsakynnum sviðsins. Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins fá úr því skorið með formlegum hætti hvort starfsfólki sviðsins hafi staðið til boða frítt gos úr kæli. Ef svo er, þá óskar fulltrúinn eftir því að fá að vita yfir hvað langt tímabil þau hlunnindi hafa verið til staðar. Í svari borgarfulltrúa meirihlutans varðandi ofangreint á borgarstjórnarfundi 9. apríl, kom fram að þetta hafi verið kannað hjá sviðinu og ekkert sé hæft í því að vínkælir sé eða hafi verið í húsakynnum sviðsins né það að starfsfólki hafi staðið til boða frítt gos. Ef fulltrúar meirihlutans halda því enn fram að ekkert sé hæft í þessu óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá nánari skýringu á því hvað sviðið var að kaupa af Ölgerðinni fyrir 1,3 milljónir yfir 9 mánaða tímabil árið 2023. MSS24040166

  42. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hefur skjölum verið eytt hjá Borgarskjalasafni frá því að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að leggja safnið niður þann 7. mars 2023. Ennfremur, hefur einhverjum skjölum verið eytt hjá safninu eftir ljósmyndun? Ef svo er, er óskað eftir lista yfir skjölin, bæði afhendingaraðila, tegund skjala og magn. Halda skal lista yfir skjöl sem er eytt skv. 4. grein reglna nr. 627/2010 og 3. grein reglna 1022/2023. MSS24040169

Fundi slitið kl. 12:00

Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 18.04.2024 - Prentvæn útgáfa