Borgarráð - Fundur nr. 5740

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 4. apríl, var haldinn 5740. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:06. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Líf Magneudóttir og Rúnar Sigurjónsson. Dóra Björt Guðjónsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. apríl 2024:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 120 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,45% í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1, sem eru 215 m.kr. að markaðsvirði og samþykki tilboð að nafnvirði 200 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 8,85% í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 101 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 3. apríl 2024.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 9:14 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010012

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta er fjórða skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar á árinu 2024 samkvæmt útgáfuáætlun en athygli vekur hve lítil eftirspurn hefur verið eftir skuldabréfum borgarinnar. Ríkissjóður Íslands gaf á dögunum út grænt skuldabréf að fjárhæð 750 milljónir evra, jafnvirði um 111 milljarða króna. Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurnin um 7 milljörðum evra eða rúmlega nífaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjármálaráðherra sagði einkar ánægjulegt að sjá það mikla traust sem útgáfan fékk frá fjölbreyttum hópi alþjóðlegra fjárfesta. Sagði hún það meðal annars til marks um trúverðugleika stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Með sama hætti mætti segja dapurlegt hve lítið traust markaðurinn ber til stefnu meirihlutans í fjármálum borgarinnar. Ljóst er að markaðurinn hefur kveðið upp sinn dóm, lítil eftirspurn er eftir skuldabréfum borgarinnar og lýsir niðurstaðan trúleysi á áformum og fyrirætlunum núverandi meirihluta.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. apríl 2024, varðandi endurskoðaða tíma- og verkáætlun fjárhagsáætlunar 2025-2029 ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010022

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning vegna svæðis innan lóðar Perlunnar undir færanlegt sýningarrými, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24030044

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. apríl 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð framlengi lóðarvilyrði vegna uppbyggingar á umhverfisvænu húsnæði á lóð að Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040238

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. apríl 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg undirriti sáttmála Bandalags frjálsra borga, Pact of Free Cities, og gangi þar með til liðs við rúmlega 30 borgir í Evrópu ásamt Los Angeles, Taipai og Taoyuan City sem hafa frelsi, lýðræði og jafnrétti að leiðarljósi.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS24030140

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 2. apríl 2024, þar sem áfangaskýrsla Græna plansins fyrir júlí-desember 2023 er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030045

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Græna planið er hagfræðileg aðgerð og var flott útspil til að styrkja efnahagslífið á Íslandi. Vandinn er sá að það er svo ótal margt sem meirihlutinn er að gera í borginni sem styrkir ekki efnahagslífið á Íslandi og styður heldur ekki við Græna planið en nefna má t.d. kaup á 15.000 tölvum frá útlöndum. Íslenskt efnahagslíf græðir ekkert á að borgin eyði miljörðum í nýja tegund af Microsoft-leyfum. Það er heldur ekkert grænt við 400 milljóna gagnalandslag sem er gæluverkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs, hvað þá allt óskipulagið í kringum stafræn verkefni sviðsins sem ekki getur einu sinni mælt árangur af verkefnunum. Ef horft er til umhverfisins þá hefur þétting byggðar víða gengið of langt, myndast hafa dimm og drungaleg borgarhverfi. Gengið hefur verið á græn svæði og fágætar fjörur fylltar. Umferðarljósin í borginni eru ekki til að styðja við Græna planið. Enn hafa helstu umferðarhnútar ekki verið leystir. Það hlýst mengun af bílum sem eru óþarflega lengi í hægagangi. Auka á vistvænar samgöngur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og jafnframt á að auka á hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldsneytis. Auk þess þarf að bæta almenningssamgöngur verulega til að þær verði raunverulegur valkostur.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. apríl 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samning og samstarfsyfirlýsingu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið um samstarf um rekstur stafrænnar smiðju, Fab Lab Reykjavík. Samningurinn er til þriggja ára og gildir til ársloka 2026. Árlegt framlag Reykjavíkurborgar samkvæmt samningnum er 16.500.000 kr., samtals 49.500.000 kr. á samningstímanum, sem færist á kostnaðarstað R3400, verkefni F3485. Framlag Reykjavíkurborgar fer í að greiða launakostnað tveggja starfsmanna í fullu starfi. Gert er ráð fyrir framlagi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 í fjárhagsáætlun þessa árs en framlög vegna áranna 2025 og 2026 eru með fyrirvara um samþykkt fjárhagsáætlana.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24030117

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. apríl 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu, dags. 2. apríl 2024.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24020025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstefna tengist sameiginlegri þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Suðurland og Vesturland. Ekki er séð að fjallað sé neitt um sameiningu þeirra sveitarfélaga sem um ræðir. Sameining sveitarfélaga væri einfaldasta skrefið. Þarft væri að sameina byggðir á svæðinu frá Hvalfirði til Hellisheiðar og að sama skapi ætti að sameina byggðir við Eyjafjörð, byggðir við Skagafjörð og Húnaflóa, alla Vestfirði, Vestur-, Suður- og Austurland. Miða þarf við að atvinna sé sameiginleg og þá er hægt að mynda öfluga byggðakjarna sem geta verið eins sjálfstæðir og höfuðborgarsvæðið. Til að svæði geti verið öflugur byggðakjarni með sameiginlegri atvinnu þá þarf að efla almenningssamgöngur á milli svæða. Mælanleg markmið þarf og svo auðvitað að ákveða hvaða aðgerðir skuli fara í og hvernig skuli forgangsraða þeim. Þetta á eftir að skoða betur að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. apríl 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framtíð Kolaportsins, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. mars 2024. MSS24030078

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hver væri framtíð Kolaportsins næstu vikur og mánuði. Fyrirspurninni er ekki svarað eða öllu heldur er svarið eiginlega hreinn útúrsnúningur. Komið hefur fram í nýlegu viðtali við borgarstjóra að Kolaportið þurfi að víkja fyrir Listaháskólanum, en enginn veit hvenær það mun gerast. Einnig er mikilvægt að vita hvort núverandi rekstri verði lokið þegar núverandi leigusamningi lýkur. Þetta þarf að vera skýrt og mun fulltrúi Flokks fólksins ítreka fyrirspurnina og óska eftir svari við þessum atriðum. Um þetta ríkir algjör óvissa sem ekki er boðleg.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 18. mars 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt innri endurskoðunar á brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. janúar 2024. MSS23010015

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um af hverju úttekt á brunavarnaáætlun er frestað. Í svari kemur fram að athugasemdir varðandi Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sneru aðallega að aðstöðu og búnaði á Kjalarnesi og frestun framkvæmda við endurnýjun tækja og húsnæðis samkvæmt áætlun. Forvitnilegt væri að sjá þessar athugasemdir. Fram kemur að úttekt af hálfu innri endurskoðunar á brunavarnaáætlun til viðbótar við vinnu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar myndi ekki vera virðisaukandi fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur af því spurnir að úrbætur séu hafnar á Kjalarnesi m.a. að framkvæmdir vegna húsnæðis séu komnar af stað. Þessu ber að fagna.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 21. mars 2024. MSS24010035

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 19. mars 2024. MSS24010003

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 20. mars 2024. MSS24010005

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 21. mars 2024. MSS24010008

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 20. mars 2024. MSS24010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir lið 1 í fundargerðinni þar sem íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals bókar um ófremdarástand vegna mönnunarvanda í frístundaheimilum hverfisins sem birtist í því að nemendur í 3. og 4. bekk fá vistun seint og illa eða alls ekki. Þetta ástand er ekki aðeins á leikskólum borgarinnar heldur einnig á frístundaheimilum og er mismikið eftir hverfum. Áhrif þessa vanda eru afar neikvæð fyrir börnin og ekki síður fyrir foreldra sem haldið er í óvissu svo mánuðum skiptir. Tekið er undir að mikilvægt er að ráðist verði í stórátak í mönnunarmálum frístundaheimilanna sem og að bæta upplýsingagjöf til foreldra um stöðu og framvindu mála.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 21. mars 2024. MSS24010016

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 18. mars 2024. MSS24010017

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur að mörgu leyti undir bókun íbúaráðsins varðandi áætlanir bandaríska sendiráðsins á Sólvallagötu 14 vegna stífari öryggiskrafna en gengur og gerist hér á landi í kringum sendiherrabústaði. Almenn öryggisgæsla er mun sýnilegri en það sem tíðkast hérlendis. Flokkur fólksins telur að sendiráð verði að aðlaga sig að reglum/venjum í þeim löndum sem þau eru staðsett í. Sólvallagata 14 er í einu elsta hverfi Reykjavíkur og við götu sem býr að mjög einkennandi og heildstæðri götumynd. Áætlaðar eru verulegar breytingar á sögulegu húsi og lóðinni sjálfri sem samræmast illa rólegu fjölskylduhverfi og stinga í stúf við götumyndina. Ef starfsemi er þessleg að hún kalli á sérstaklega miklar öryggisvarnir vegna þess að hún geti ógnað nærstöddum á hún ekki heima inn í miðju íbúðahverfi.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 20. mars 2024. MSS24010023

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. apríl 2024. MSS24010031
    12. liður fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar:

    Nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og 16 við Brekkustíg. Tugir athugasemda hafa borist og fjölmargar háalvarlegar. Hér er greinilega um afar erfitt mál að ræða og tilfinningalegt fyrir marga sem ekki skal gera lítið úr. Skoða á allar athugasemdir hvort sem þær teljast efnislegar eða ekki. Athugasemdir eru samhljóða og ganga m.a. út á að deiliskipulagstillagan sé ekki í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Í athugasemdum er minnst á mikilvægi þess að haldið verði í sögulegt samhengi byggðar. Þétting og skuggavarp er sem áður litið alvarlegum augum. Í athugasemdum er gagnrýni á byggingarmagn í deiliskipulagstillögu. Gamli Vesturbærinn er hvað þéttbýlastur af hverfum Reykjavíkur. Íbúar lýsa jafnframt yfir áhyggjum af því að hæð byggingar á horni reitsins auki umferðarhættu og að fjöldi bílastæða á borgarlandi sé ekki nægur til að anna svo miklum fjölda íbúða til viðbótar við þær sem fyrir eru eins og fram kemur í samantekt. Athugasemdir ná yfir mörg önnur atriði. Mæta á hluta athugasemdanna sem virðist ekki leysa aðalvandamálin. Flokki fólksins finnst að það þurfi að endurskoða framkvæmdaáætlanir í ljósi athugasemda. Hér þarf að staldra við og hlusta á borgarbúa, virða skoðanir þeirra og hafa alvöru samráð.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls átta mál. MSS24030139

    Fylgigögn

  21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24030138

    Fylgigögn

  22. Fram fer umræða um þjóðhagslegt tjón vegna samkeppnisbrota Samskipa og Eimskipa.

    Breki Karlsson, Gunnar Tryggvason og Ólafur Stephensen taka sæti á fundinum undir þessum lið.
    Borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Friðjón R. Friðjónsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24010046

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að tjón samfélagsins af samkeppnisbrotum er í slíkum tölum að mikilvægt er að bregðast við. Reykjavíkurborg með aðkomu að stjórn Faxaflóahafna á verkfæri í kistu sinni til að bregðast við og gera breytingar til batnaðar. Mikilvægt er að hraða breytingum á skipulagi Sundahafnar í þá átt að breyta henni í „fjölnotendahöfn“ til að auka möguleika fyrir önnur skipafélög en þau sem þar eru starfandi í dag að koma fyrir starfsemi þar og stuðla þannig að aukinni samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur.

Fundi slitið kl. 10:50

Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 04.04.2024 - Prentvæn útgáfa