Borgarráð - Fundur nr. 5732

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 25. janúar, var haldinn 5732. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:06. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson. 
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. janúar 2024, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 16. janúar 2024 hafi verið samþykkt að Dagur B. Eggertsson og Árelía Eydís Guðmundsdóttir taki sæti í borgarráði í stað Heiðu Bjargar Hilmisdóttur og Einars Þorsteinssonar og að Heiða Björg Hilmisdóttir og Magnea Gná Jóhannsdóttir taki sæti sem varafulltrúar í ráðinu í stað Skúla Helgasonar og Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur. Jafnframt var samþykkt að Dagur B. Eggertsson yrði formaður ráðsins.
    Lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði varaformaður borgarráðs.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060043

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2024, varðandi breytingar á fulltrúum Reykjavíkurborgar í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins.
    Vísað til borgarstjórnar. MSS22060051

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2024, varðandi breytingar á fulltrúum Reykjavíkurborgar í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
    Lagt til að Dagur B. Eggertsson taki sæti sem varamaður í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060155

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2024, varðandi breytingar á fulltrúum Reykjavíkurborgar í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
    Lagt til að Dagur B. Eggertsson taki sæti varamanns í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23110125

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. janúar 2024:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 305 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,49%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1, sem eru 532 m.kr. að markaðsvirði og samþykki tilboð að nafnvirði 1.425 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 8,94% í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 770 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 24. janúar 2024.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010012

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. janúar 2024, varðandi álagningu fasteignagjalda 2024.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23110026

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og þeir sem liggja yfir fasteignaauglýsingavefjum hafa tekið eftir hefur íbúðaverð verið auglýst undir fasteignamati að undanförnu. Þetta bendir til að vænta megi lækkunar á þessum gjaldstofni borgarinnar, þó nú sé að koma hækkun, því gjaldstofninn fylgir fasteignamati og nýja fasteignamatið sem kemur núna er lagt til grundvallar álagningarstofni næsta árs. Þannig að þó borgin sé að fá inn mikið af tekjum inn á þessu ári er það alls óvíst að það verði sömu tekjur að fá á næsta ári. Það þarf að ganga hægt um gleðinnar dyr við að eyða þessum fjármunum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á þessu ári er gert ráð fyrir því að fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði nemi um 17,7 milljörðum. Fulltrúi Sósíalista vekur athygli á því að þessir skattar voru lækkaðir árið 2021 í kjölfar COVID og hefur tekjutap borgarinnar numið um 500 milljónum ár hvert vegna þessarar ákvörðunar.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. janúar 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. janúar 2024 á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi, Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi, vegna lóðarinnar nr. 17 við Öldusel, Ölduselsskóli, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23080222

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að fjölga markvisst leikskólaplássum í Reykjavík til að koma til móts við barnafjölskyldur að loknu fæðingarorlofi. Fjölgun plássa í Seljahverfi er hluti af því verkefni. Við útfærsluna verður tekið mið af sjónarmiðum íbúa með það að markmiði að áfram verði hægt að nýta þá aðstöðu sem komið hefur verið upp á lóðinni, s.s. aparólu og frisbígolf.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að leikskólarýmum í Reykjavík verði fjölgað. Hvað fyrirliggjandi tillögu varðar telja fulltrúarnir þó ástæðu til að kanna betur aðrar lóðir fyrir húsnæði ævintýraborgar enda gerir tillagan ráð fyrir að gengið verði á mikilvægt útivistarsvæði í hverfinu, en slík svæði eru takmörkuð auðlind í Reykjavík. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa haldið þessum sjónarmiðum á lofti og fengið þau svör að leiksvæðinu og leiktækjunum verði hliðrað til en þau fái þó að halda sér. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa talað fyrir þeirri breytingu á verklagi að íbúar fái kynningu á því hvernig unnið er úr ábendingum þeirra áður en mál eru endanlega afgreidd og setja því þann fyrirvara við afgreiðslu sína að vilja fyrst eiga samráð við íbúa um málið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill ítreka mikilvægi þess að vinna með fólkinu i borginni og að þessu sinni íbúum Seljahverfis. Eins og fram kemur í gögnum þykir mörgum að verið sé að ganga á græn svæði í hjarta Seljahverfis og heppilegra hefði verið að velja annan stað fyrir ævintýraborgina. Flokkur fólksins sér að hér er um mikilvægt útivistarsvæði íbúa að ræða og er hluti af Seljadalnum. Á svæðinu eru leiktæki, m.a. aparóla sem er mikið notuð og einnig er svæðið hluti af frisbígolfvelli sem er mjög vinsæll. Allmargar athugasemdir snúa einmitt um þetta atriði. Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka fulltrúa foreldrafélagsins í íbúaráði Breiðholts fyrir ábendingar um málefnið. Það skiptir miklu máli að íbúar tjái sig og auðvitað að meirihlutinn hlusti og taki til greina ábendingar fólksins eins og mögulegt er. Oftast ætti að vera hægt að finna lendingu á máli sem langflestir geta sætt sig við.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. janúar 2024 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð Strætó, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090029

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Endastöð við Skúlagötuna er hluti af nýju leiðarkerfi strætó sem mun stórbæta þjónustu við íbúa. Tengist þetta líka umfangsmiklum breytingum á Hlemmi sem verið er að breyta í glæsilegt almannarými og göngusvæði. Verið er að taka bílastæðaplan við Skúlagötuna undir þessa notkun sem ekki er sérstök prýði af í dag. Ekki er talið að grenndin verði fyrir óhóflegu ónæði af breytingunni enda myndi sú umferð sem af þessu hlýst blikna í samanburði við þá 20 þúsund bíla sem ferðast daglega um Sæbrautina nokkrum metrum utar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um árabil hefur legið fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir endastöð strætisvagna í staðinn fyrir núverandi endastöð og skiptistöð við Hlemm. Fyrirliggjandi staðsetning við Skúlagötu er ekki ákjósanleg og mun hafa ónæði í för með sér fyrir nærliggjandi íbúa. Óheppilegt er að mikil óvissa ríki um hversu lengi umrædd endastöð muni vera við Skúlagötu þrátt fyrir að einungis sé um staðsetningu til bráðabirgða að ræða. Heppilegra hefði verið að finna framtíðarstaðsetningu slíkrar endastöðvar til framtíðar í stað þess að koma henni fyrir til bráðabirgða á þeim stað sem hér er lagt til. Hér virðist því vera um skipulagsklúður að ræða.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja góða aðstöðu fyrir strætófarþega, þannig að hægt sé að komast á salernið og að skjól sé fyrir veðri og vindum, sérstaklega norðanáttum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld leggja til tímabundna endastöð Strætó við Skúlagötu vegna flutnings frá Hlemmi. Legið hefur fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir endastöð strætisvagna í staðinn fyrir núverandi endastöð og skiptistöð við Hlemm. Fyrirliggjandi staðsetning við Skúlagötu er ekki ákjósanleg og mun hafa ónæði í för með sér fyrir nærliggjandi íbúa. Óheppilegt er að mikil óvissa ríki um hversu lengi umrædd endastöð muni vera við Skúlagötu þrátt fyrir að einungis sé um staðsetningu til bráðabirgða að ræða. Fjöldi athugasemda hefur borist, einna helst er bent á óæskilega staðsetningu fyrir strætóstöð í íbúðahverfi og nálægð við svefnherbergi íbúa. Mikil umferð strætisvagna með hljóð og loftmengun hlýtur að teljast ógn við heilsu og friðhelgi íbúa. Bílastæðið sé einnig fullnýtt alla daga. Æskilegra væri að finna annan stað fjær íbúðabyggð, til dæmis vestasta hluta Miðbakkans. Flokkur fólksins tekur undir þetta. Mótvægisaðgerðir mega sín lítils því erfitt er t.d. að koma upp frekari hljóðvörnum umfram þær sem eru í dag án þess að ganga á útsýni íbúa til norðurs. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki duga að hafa samráð aðeins með því að auglýsa tillöguna heldur væri nær að hafa íbúafund og hlusta á það sem fólkið segir.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. janúar 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. janúar 2024 um framlengingu tímabundinna heimilda til að víkja frá reglum um íbúakort, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23110144

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins tekur heilshugar undir tillögu um framlengingu á heimildum um frávik á reglum um íbúakort til handa Grindvíkingum. Frá því að tillagan var samþykkt í nóvember á síðasta ári hafa verið gefin út 30 íbúakort til 23 heimila Grindvíkinga með tímabundna búsetu innan íbúakortasvæða í 20 íbúðum. Það er því augljós þörf fyrir þessi íbúakort fyrir Grindvíkinga. Framlengingin á að gilda til 30. apríl 2024. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá þessa framlengingu ná fram á mitt sumar í ljósi nýjustu viðburða í Grindavík.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. janúar 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi 2040 fyrir skotæfingasvæði á Álfsnesi, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
    Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23030130

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að fyrirliggjandi tillaga að aðalskipulagsbreytingu verði auglýst svo kalla megi fram sjónarmið íbúa til málsins. Setja fulltrúarnir því hefðbundinn fyrirvara um endanlega afstöðu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þær breytingar sem hér eru lagðar til, að skapa skilyrði fyrir skotæfingar, bera merki um hversu kappsamur meirihlutinn er að þjóna þessum hópi fólks sem vill skjóta. Aðstaða á svæðinu hefur verið byggð upp og kostuð af Reykjavíkurborg. Miklu hefur verið til kostað vegna landmótunar og annarra mannvirkja til að réttlæta frekar að svæðið verði notað fyrir skotæfingar. Flokkur fólksins harmar að hunsa eigi alfarið áralanga baráttu íbúanna við að losna við skotæfingasvæði svo hlífa megi fólki og dýrum við mengun. Eftir því er tekið að hvergi í gögnum er minnst á viðurlög ef reglur eru brotnar. Umræða um að þetta sé þjóðarleikvöllur í skotfimi ætti að leiða til þess að fleiri en borgin greiði fyrir allar þessar breytingar. Hvernig getur skotæfingasvæði verið þjóðarleikvöllur þegar stór hópur er e.t.v. alfarið á móti þessu sporti? Þótt blýhögl séu bönnuð hafa þau fundist í fuglum sem ekki gera greinarmun á blýhöglum og sandkornum sem þeir éta til að auðvelda meltinguna. Ætlast er til að Reykjavíkurborg beri kostnað af rannsóknum á menguninni. Með öllu þessu tilstandi má ætla að þessi skotvöllur verði þarna um aldur og ævi.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á ákvæðum aðalskipulags um skammtímagistingu.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
    Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120073

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borginni er skipt upp í 3 svæði. Rauð svæði eru t.d. Stjórnarráðsreitur og Hlemmur og þar eru engar takmarkanir á gististöðum. Svæðið í kringum Hlemm er reyndar líka íbúðahverfi. Rauða svæðið við Skúlagötuna er nokkuð stórt og vill fulltrúi Flokks fólksins minnka það til að setja frekari hömlur á skammtímaleigu eða nota deiliskipulagsbreytingu til að þrengja að skammtímaleigusvæðum. Í einni mestu húsnæðiskreppu Íslandssögunnar eru sjö prósent íbúða borgarinnar með virka skráningu á Airbnb, eða 3.800 híbýli. Í helstu ferðamannaborgum Evrópu er hlutfallið að meðaltali tvö prósent. Takmarkanir á skammtímaleigu eru mikilvægar til að verja leigjendur, viðhalda hverfismenningu og sporna við of miklum ágangi ferðamanna. Skammtímaleigumarkaðurinn er farinn að auka þrýsting á fasteigna- og langtímaleigumarkaðinn með því að draga til sín íbúðir sem annars væru notaðar undir íbúðarhúsnæði. Fram kemur í gögnum að það sé mikilvægt að vakta og hafa eftirlit með þáttum sem geta leitt til skerðingar á framboði íbúðarhúsnæðis til búsetu og langtímadvalar. Ekki er verið að vakta rauð svæði sem eru reyndar mest atvinnusvæði en þó ekki eingöngu, sbr. Hlemmsvæðið. Önnur vöktun er í gegnum lögheimilisskráningu. Gera þarf á þessu úttekt til að fylgjast með að ekki sé verið að ryðja burt íbúðarhúsnæði fyrir húsnæði fyrir skammtímaleigu.

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. janúar 2024, þar sem drög að erindisbréfi samningateymis vegna skila á Elliðaárdal eru lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Eiríkur Hjálmarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23120124

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þeir sem vilja stífluna burt rökstyðja mál sitt þannig að öðruvísi verði Elliðaárdalurinn ekki færður í fyrra form. Einnig er þetta spurning um hið „sjónræna“. Dalurinn verður þá ekki lengur tvískiptur. Lífríkisrannsóknir 2021-2023 sýna afgerandi jákvæða útkomu fyrir lífríkið eins og segir í kynningu um málið. „Rannsóknarniðurstöður 2022 vitna um mikla velgengni laxins í Árbæjarkvísl í kjölfar þess að sá einkennisfiskur Elliðaánna endurheimti gönguleið sína þar sem hrygningar- og uppeldissvæði, í kjölfar þess að vatnsmiðlun fyrir tilstilli manngerðs Árbæjarlóns var aflögð.“ Vistfræðilegt ástand Elliðavatns telst vera mjög gott. Það er afstaða fulltrúa Flokks fólksins að varðveita náttúru eins og hægt er. Því miður hefur verið gengið freklega á græn svæði, fjörur og aðra náttúru í borgarlandinu. Nú þegar er Elliðaárdalurinn heilmikið mótaður af mönnum og náttúran hefur vikið. Skoðun fulltrúa Fulltrúa Flokks fólksins er að náttúran eigi að njóta vafans og unnið verði að því að Elliðaárnar renni eins og áður en þær voru virkjaðar.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. janúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti stjórn Aflvaka hf. heimild til að leggja til við hluthafafund að félagaformi félagsins verði breytt í einkahlutafélag, að breytingar verði gerðar á samþykktum félagsins og að félaginu verði slitið, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS24010158

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. janúar 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi Seljahlíðar, heimili aldraðra, og Sjúkratrygginga Íslands um frestun uppsagnar á samningi um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimilis að Hjallaseli 55.

    Frestað. MSS24010165

  15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. janúar 2024, þar sem bréf frá innviðaráðherra til Reykjavíkurborgar, dags. 8. janúar 2024, varðandi stefnu í málefnum sveitarfélaga, heildarendurskoðun á lagaumgjörð og úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, er lagt fram til kynningar. Jafnframt er lagt fram svarbréf borgarstjóra til innviðaráðherra, dags. 15. janúar 2024. MSS22010225

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 8. janúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja greiningarverkefni í tengslum við rafrænar beiðnir, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23120017

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þjónustu- og nýsköpunarsvið kallar eftir fjármagni til að útrýma beiðnabókum og að þær verði rafrænar fyrir tilfallandi innkaup starfsfólks Reykjavíkurborgar. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt. Flokkur fólksins undrast hins vegar að þessi beiðni sé núna fyrst að koma fram. Svona lausn hefði átt að vera með þeim fyrstu en er hér spurning um gagnsæi og skilvirkni og koma í veg fyrir misnotkun, svo eitthvað sé nefnt. Flokkur fólksins vill því enn og aftur ítreka að forgangsröðun verkefna innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs er algjörlega í lamasessi. Einnig er vert að benda á að hér er um að ræða fjármagn í greiningarvinnu en ekki til kaupa á tilbúnu kerfi. Það er þess vegna ekki útséð með hvenær endanlegur árangur næst af þessu verkefni og rafrænar innkaupabeiðnir muni líta dagsins ljós hjá Reykjavíkurborg.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 17. janúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði, í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið, að hefja þróun á Hverfasjá Reykjavíkur og millilagi fyrir auðguð gögn úr landupplýsingakerfi, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23070003

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ef horft er til Hverfasjár verkefnisins þá hlýtur slíkt verkefni að eiga að vinnast með öðrum sveitarfélögum. Hvað með þá gömlu sem útbúin var 2019? Er ekki verið að tala um að halda þeirri lausn og vinna áfram á þeim grunni? Sé það ekki þannig óttast fulltrúi Flokks fólksins að þetta verkefni geti sprengt alla mælikvarða í kostnaði. Umfram allt hlýtur þetta að vera samstarfsverkefni með öðrum sveitarfélögum. Er þetta ekki dæmi um að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé að óska eftir fjármagni til þess að hanna frá grunni rafræn kerfi sem nú þegar eru líklegast til og í notkun annars staðar? Eins og kemur fram í greinargerð að þá á allt hverfa- og deiliskipulag á Íslandi að vera orðið rafrænt fyrir janúar 2025. Reykjavíkurborg er þess vegna ekki eina sveitarfélagið sem er að fara í þessa vegferð. Þegar litið er til þess mikla fjármagns sem búið er að setja í málaflokkinn síðustu ár þá má furða sig af hverju svona hægt gengur og af hverju svona mikið á eftir að vinna.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 19. janúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefnið Torgið 2.0, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23110045

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að það sé ótækt að starfsfólk á einum stærsta vinnustað landsins skuli ekki enn hafa aðgang að fræðslukerfi eins og því sem lýst er í greinargerð. Málið er hins vegar það að fulltrúinn minnist þess að það séu nokkur ár síðan kynningar á fræðslukerfi fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar byrjaðu að koma frá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Það var alltaf eins og umrætt fræðslukerfi væri nánast á næsta leiti en ekkert virðist hafa heyrst né sést af þessu kerfi fyrr en nú. Samkvæmt greinargerð virðist ekkert fræðslukerfi hafa verið í boði fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar. Aftur má minnast á mikilvægi samstarfs við önnur sveitarfélög. Hér má velta fyrir sér af hverju Reykjavíkurborg sér um að búa til og reka svona upplýsingatorg sjálf. Ýmis fyrirtæki á Íslandi kaupa bara aðgang að sérlausnum sem sjá alfarið um svona lagað.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 19. janúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs að hefja verkefnið BYGG 2.0, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON24010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst í þessu máli þá hefðu margir haldið að þetta Bygg 2.0 hefði átt að vera búið fyrir löngu. Af hverju er þetta ekki komið lengra? Þetta eru svona dæmigerðar spurningar um lausnir sem hafa verið að malla mjög lengi þrátt fyrir mikið fjármagn sem farið hefur til sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að fyrstu umsóknirnar hafi verið komnar í gegn í þessu verkefni fyrir alllöngu síðan, þannig það ætti ekki að vera of mikil vinna að tengja fleiri umsóknir inn í þetta. Stafræn vegferð er mikilvæg í nútímasamfélagi. Þegar litið er til þess mikla fjármagns sem búið er að setja í málaflokkinn síðustu ár þá má furða sig af hverju svona hægt gengur og af hverju svona mikið á eftir að vinna.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. janúar 2024, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um endurskoðun stjórnskipulags eigna- og viðhaldsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg eru lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS23110134

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hlutverk þessa hóps er helst að endurskoða stjórnskipulag eigna- og viðhaldsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg. Nýlega skilaði starfshópur af sér áfangaskýrslu þar sem m.a. var lagt til að slíkur hópur yrði settur í gang í kjölfar úttektarskýrslu innri endurskoðunar en í henni var dregið upp ýmislegt sem laga þarf á þessum vettvangi. Í úttekt innri endurskoðunar kom fram að umsýslu með fasteignir A-hluta borgarinnar sé ábótavant. Mörg dæmi voru nefnd um galla kerfisins sem dæmi að borgarráð/borgarstjórn, sem útdeilir fjármunum til viðhalds, hefur ekki haft fullnægjandi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir um fjármagn til viðhalds. Bent var á í skýrslunni að bæta þurfi skipulagið og endurskoða stjórnskipulag sem styður við skilvirka eigna- og viðhaldsstjórnun hjá Reykjavíkurborg og draga úr hættu á að skipting ábyrgðar milli leigusala og leigutaka leiði til aukins viðhalds og meiri viðhaldskostnaðar. Þessum hópi ber vonandi gæfa til að rýna þessa þætti og gera viðeigandi breytingar því viðhaldi á mörgum byggingum borgarinnar var of lítið sinnt og þau mistök öll mega ekki endurtaka sig.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 17. janúar 2024, þar sem yfirlit yfir styrki mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs árið 2024 er lagt fram til kynningar. MSS23100060

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 5. janúar 2024, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. janúar 2024 á samstarfssamningi milli Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MIR24010001

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nýr samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur liggur á borðinu. Fulltrúa Flokks fólksins er umhugað um eina reglu sem er í gildi og er um styrki vegna aðstöðu til æfinga og keppni í íþróttamannvirkjum í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á og lýst áhyggjum yfir aðstöðumun félaga, t.d. í Laugardal. Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur ekki boðlega aðstöðu til æfinga nema í Laugardalshöll. Þessi félög eiga engan stað vísan, stað sem þau geta kallað „sinn“. Takmarkað aðgengi að Laugardalshöll kemur að sama skapi niður á blak- og handboltadeildum Þróttar. Ef horft er yfir skólaárið verða börnin í hverfinu af 40-45% af æfingum vegna forgangs sérsambanda og Íþrótta- og sýningarhallarinnar. Þau íþróttahús sem eiga að nýtast í staðinn eru annað hvort allt of lítil eða utan hverfis. Jafnræðis er því engan veginn gætt. Flokkur fólksins óskaði eftir að fá samanburð á fjármögnunarsamningum íþróttahúsa borgarinnar og sérstaklega aðgengi félaga sem nota Laugardalshöllina. Í svari frá 15. nóvember 2023 kemur fram að Íþróttabandalag Reykjavíkur sjái um að úthluta æfingatímum til félaganna í íþróttamannvirkjum borgarinnar og notar til þess einhver „sérstök“ viðmið. Þarna er mismunun í gangi sem taka þarf á í þessum nýja samstarfssamningi.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram trúnaðarmerkt ársfjórðungslegt minnisblað borgarlögmanns, dags. 23. janúar 2024, um málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að. MSS24010163

  24. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um dreifingu pappírspoka fyrir lífrænan úrgang, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024.
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS24010108

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að beina því til stjórnar SORPU og þeirra sem annast sorphirðu í borginni að huga sérstaklega að eldra fólki og hreyfihömluðum, sem ekki geta nálgast poka fyrir lífrænan úrgang á endurvinnslustöðvum, er felld af meirihlutanum með mótatkvæðum allra atkvæðabærra minnihlutafulltrúa í borgarráði. Tillagan fer því til borgarstjórnar til frekari umræðu. Þessu fagnar fulltrúi Flokks fólksins. Þessi skerðing á þjónustu getur haft slæmar afleiðingar fyrir marga eldri borgara, hreyfihamlaða og þau sem ekki aka bíl eða þau sem vilja lifa bíllausum lífstíl. Flokkur fólksins leggur til að eldri borgarar og þeir sem ekki geta nálgast pokana á SORPU fái tækifæri til að panta pokana heim til sín eða að sorphirðufólk geti afhent þeim nýja poka t.d. á sama tíma og sorphirða á sér stað. Þetta fyrirkomulag, þ.e. að sorphirðufólk afhendi pappírspoka með reglulegu millibili er viðhaft í öðrum löndum. Meirihlutinn á að hugsa vel um eldra fólk og öryrkja en ekki haga málum þannig að meira sé lagt á það fólk en nauðsynlegt er. Hér er um skerðingu á þjónustu að ræða. Til að mæta þessum hópi sem hér um ræðir með þetta atriði er vel hægt að finna leiðir að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta er allt spurning um vilja.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ný samræmd flokkun sorps á höfuðborgarsvæðinu hefur gengið vonum framar. Útdeiling bréfpoka fyrir lífrænan úrgang hefur verið langt umfram væntingar. SORPA hefur lýst því yfir að bæði verði hægt að fá poka endurgjaldslaust á endurvinnslustöðvum og gegn vægu gjaldi í verslunum. Þar sem verkefnið er á borði stjórnar SORPU og þar er unnið að því að útfæra framtíðarfyrirkomulag á dreifingu poka vísar meirihluti borgarráðs tillögunni frá.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innkaup á endurnýttum símum, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2023. Einnig lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 11. janúar 2024.
    Tillagan er felld.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23080068

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að einungis endurnýttir símar verði keyptir fyrir þá starfsmenn borgarinnar sem eiga rétt á símtæki. Raftækjasóun á Íslandi er gríðarleg og til að reyna að minnka þá sóun var þessi tillaga lögð fram. Flokkur fólksins vill leggja fram eftirfarandi ábendingar og athugasemd við svör sviðsstjóra þjónustu og nýsköpunarsviðs. Það ætti að vera hægt að beina því til innkaupaskrifstofu borgarinnar að hún fái tilboð í endurnýtta síma og þeir verði fyrsta val. Ef þeir eru ekki til þá megi kaupa aðra. Ein ástæða þess að tegundarval er ekki meira, er sú að fáir kaupa endurnýtta síma. Margt af því sem verið er að gera í umhverfismálum kostar og spurning er hvernig aðilar verðmeta hluti á móti umhverfisáhrifum eins og getið er hér í svari. Til staðar er virkt endurvinnslukerfi eins og Foxway. Viljum við endurnýta síma og lengja þannig líftíma síma og þar með fresta því að framleiddur sé nýr sími. Ekki er hægt að endurvinna 100% farsíma. Er betra í umhverfismálum að nota síma í 2-3 ár og endurvinna hann þá, eða nota hann í 4-6 ár og endurvinna þá? Nú er lag fyrir borgina að sýna hvort henni sé alvara með umhverfismálin.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ekki er ásættanlegt framboð af endurnýttum símum og tækjum til staðar á Íslandi eins og stendur en slíkur markaður væri forsenda þess að Reykjavíkurborg myndi íhuga tillöguna. Til staðar er þó virkt endurvinnslukerfi á notuðum raftækjum og víða er boðið upp á að skila inn gömlum tækjum til endurvinnslu. Reykjavíkurborg skilar öllum raftækjum sem ekki er hægt að nýta í slíka endurvinnslu. Flestar íslenskar verslanir sem selja snjallsíma eru samstarfsaðilar Foxway sem hýsir endurvinnslukerfi fyrir snjalltæki. Þar eru tækin ýmist yfirfarin, endurnýtt eða endurunnin. Þær aðferðir tryggja að þær auðlindir sem notaðar eru til framleiðslu raftækja séu nýttar eins og hægt er.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 9. janúar 2024. MSS24010009

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 10. janúar 2024. MSS24010010

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 17. janúar 2024. MSS24010011

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 8. janúar 2024. MSS24010012

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 11. janúar 2024. MSS24010014

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 17. janúar 2024. MSS24010015

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 15. janúar 2024. MSS24010017

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 17. janúar 2024. MSS24010023

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 14. desember 2023. MSS23010015

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. janúar 2024. MSS24010027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Stjórn SORPU ræðir gjaldskrárbreytingar SORPU sem tóku gildi um áramótin. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að tekjur SORPU hækki um tæp 12% milli ára. Ástæða hækkunarinnar er fyrst og fremst bætt meðhöndlun úrgangs og með útflutningi á blönduðu rusli til orkuvinnslu. Einnig því að verulega verður dregið úr urðun í Álfsnesi. Gjaldskrárhækkanir eru viðkvæmt mál um þessar mundir. Í miðri umræðu meirihlutans um að halda aftur af gjaldskrárbreytingum til að leggja sitt af mörkum við að sporna gegn hækkun verðbólgu hefur SORPA hækkað sína gjaldskrá svo um munar. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt og mun fara eins og aðrar gjaldskrárhækkanir beint út í verðlagið. Sumt af nýja sorphirðukerfinu hefur gengið vel en annað ekki. Engu að síður er mikilvægt að setja allar gjaldskrárhækkanir sem mögulegt er á frest enda er það í þágu almannahags.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15. desember 2023. MSS23010021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst ánægjulegt að sjá í fundargerð Strætó bs. að verið sé að fjárfesta í nýjum vögnum en eins og vitað er eru margir vagnar Strætó orðnir gamlir og úr sér gengnir. Það kemur ekki fram hvenær er hugsanlegt að nýir vagnar komi í notkun en vonandi þurfum við ekki að bíða lengi eftir því. Hægt virðist ganga með að lagfæra Klappið sem er ætlað að hraða tíma við skönnun á farmiðum. Samkvæmt nýjustu tímaáætlun frá birginum FARA er gert ráð fyrir að snertilausar greiðslur verði tilbúnar á fyrsta ársfjórðungi 2024.

    Fylgigögn

  37. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. janúar 2024. MSS24010030

    Fylgigögn

  38. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. og 24. janúar 2024.
    5. liður fundargerðarinnar frá 17. janúar er samþykktur.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010031

    Fylgigögn

  39. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 10. janúar 2024. MSS24010033

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Öldungaráð óskar eftir upplýsingum um stuðningsþjónustu fyrir eldra fólk, upplýsingar um fjölda aðila sem eru eldri en 67 ára og uppfylla skilyrði fyrir stuðningsþjónustu, oft nefnt félagsleg liðveisla, vegna skertrar færni sem kann að hafa áhrif á athafnir daglegs lífs. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari fyrirspurn enda hefur flokkurinn verið með tillögur um sálfélagslegt úrræði fyrir fólk eldra en 67 til að sporna við leiða og einmanaleika. Í svari kemur fram að borgin veiti stuðning, áður kallað liðveisla. Í þessari fyrirspurn er ekki verið að spyrja um stuðning við athafnir daglegs lífs eins og Flokkur fólksins skilur þetta heldur félagslegan stuðning til að rjúfa félagslega einangrun. Slíkur stuðningur er ekki nægur því ekki gefst nægur tími til að sinna þeim þætti þegar veitt er önnur þjónusta samhliða á heimilinu. Félagslegi stuðningurinn verður afgangs eða útundan því þeir sem sinna þessum hluta hafa iðulega stífa dagskrá. Ekki komast allir á félagsmiðstöðvarnar og það er einmitt það fólk sem þarf að sinna betur sálfélagslega. Velferðartækni getur aldrei komið í staðinn fyrir samveru og samtal í návist manneskju þótt hún sé góð upp að vissu marki.

    Fylgigögn

  40. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. MSS24010065

    Fylgigögn

  41. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24010071

    Fylgigögn

  42. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. janúar 2024, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 12. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn American Bar, Austurstræti 8-10, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2023 í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 04:30 til American Bar aðfaranótt mánudagsins 12. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS24010062

    Fylgigögn

  43. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. janúar 2024, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 12. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Keiluhöllina Egilshöll, Fossaleyni 1, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2023 í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007 til kl. 04:30 til Keiluhallarinnar í Egilshöll aðfaranótt mánudagsins 12. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar. MSS24010080
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  44. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. janúar 2024, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 12. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Lebowski bar, Laugavegi 20, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2023 í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 04:30 til Lebowski bar aðfaranótt mánudagsins 12. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS24010131

    Fylgigögn

  45. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. janúar 2024, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 12. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Just Winging it, Snorrabraut 56, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2023 í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 04:30 til Just Winging it aðfaranótt mánudagsins 12. febrúar nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS24010140

    Fylgigögn

  46. Lagðar fram styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
    Öllum styrkumsóknum er hafnað. MSS24010168

    Fylgigögn

  47. Lagt til að Dagur B. Eggertsson taki sæti í styrkjahópi borgarráðs í stað Einars Þorsteinssonar.
    Samþykkt. MSS23120008

  48. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Vikuna 15.-21. janúar hélt borgarfulltrúinn og oddviti Samfylkingarinnar Dagur B. Eggertsson fjórar veislur í tilefni þess að hann væri að láta af embætti borgarstjóra og taka við formennsku í borgarráði. Að minnsta kosti þrjár af þessum fjórum veislum voru kostaðar af skattgreiðendum. Spurt er hver var heildarkostnaður borgarsjóðs vegna veisluhalda Dags B. Eggertssonar og óskað er eftir sundurliðun þess kostnaðar. Einnig er spurt hvort háttsettir embættismenn og borgarfulltrúar njóti jafnan þeirra sérkjara að fá að taka Höfða á leigu til einkasamkvæma og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá að taka Höfða á leigu. Hvernig er sótt um það og hvað kostar það að jafnaði að leigja Höfða?

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. MSS24010213

  49. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Þann 16. janúar sl. voru birtar fréttir af því að breytingar hefðu verið gerðar á 23 stöðugildum á þjónustu- og nýsköpunarsviði, 12 hafi verið sagt upp og 11 samningar ekki endurnýjaðir eða ekki ráðið í lausar stöður. 1. Stendur til að fara í frekari hagræðingu og/eða skipulagsbreytingar á þjónustu- og nýsköpunarsviði en kynnt hefur verið? 2. Hefur fleiri verið sagt upp til viðbótar við þessa 12? 3. Eru dæmi um fleiri tilvik þar sem samningar hafa ekki verið endurnýjaðir eða ekki ráðið í lausar stöður? 4. Hvert verður hlutverk sviðsstjóra nú þegar skrifstofa sviðsstjóra hefur verið lögð niður? Stendur til að leggja niður stafrænt ráð í tengslum við þessar skipulagsbreytingar?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24010208

  50. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hver er kostnaður þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna starfsmannaviðburða undanfarin fjögur ár?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24010208

  51. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hver er kostnaður þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna ráðstefnuhalds undanfarin fjögur ár? Hversu mikill tími starfsfólks hefur farið í ráðstefnur og undirbúning þeirra? Hver er kostnaður sviðsins vegna fyrirlesara? Hverjir hafa tekið þátt í slíkum viðburðum á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs og stafræns ráðs?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24010208

  52. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hver er fjöldi verktaka sem starfa fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið í tengslum við stafræna umbreytingu og í gegnum hvaða fyrirtæki eru þeir ráðnir? Hver er kostnaður við hvern verktaka? Hver er kostnaður borgarinnar af fundum með verktökum í tengslum við stafræna umbreytingu? Er verktökum boðið á starfsmannaviðburði á kostnað borgarinnar?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24010208

  53. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Er verkefnið Gróðurhúsið enn starfandi á þjónustu- og nýsköpunarsviði í einhverju formi?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24010208

  54. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hafa komið fram kvartanir um kynferðislega áreitni á þjónustu- og nýsköpunarsviði síðastliðin fjögur ár? Hefur einhver hætt störfum hjá Reykjavíkurborg í tengslum við slíkt mál?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24010208

  55. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 14. desember 2023 í lið 1 kemur fram að innri endurskoðun gerir grein fyrir ákvörðun sinni um stöðvun á vinnu við úttekt á brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju úttekt á brunavarnaáætlun er frestað. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé verið að uppfylla áætlunina. MSS23010015

Fundi slitið kl. 11:55

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 25.1.2024 - prentvæn útgáfa