Borgarráð - Fundur nr. 5727

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 30. nóvember, var haldinn 5727. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ívar Vincent Smárason, Þorsteinn Gunnarsson og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. nóvember 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits og Vesturbugtar, Gömlu hafnarinnar vegna reita 03 og 04, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 9:09 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Bjarni Rúnar Ingvarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23100159

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Gott er að sjá að hreyfing er komin á þróun svæðisins á nýjan leik. Bætt birtuskilyrði og aukin áhersla á græn svæði hafa verið færð til aukinnar áherslu á svæðinu og er það til bóta.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja, með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu, að fyrirliggjandi tillaga um breytingu á deiliskipulagi Slipp- og Ellingsenreits verði auglýst. Þeir telja þó æskilegt að við endanlega útfærslu verði leikvelli og/eða sparkvelli komið fyrir á svæðinu í því skyni að þjóna þörfum barna og ungmenna í hverfinu.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2023 sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. nóvember 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar, ásamt fylgiskjölum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að málinu verði frestað.
    Frestunartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar er samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050037

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mikilvægt fyrir framgang samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins að stór skipulags- og innviðaverkefni haldi takti. Hér er um að ræða brú sem verður mikilvægur tengipunktur milli Kársness og Vatnsmýrarsvæðisins og mun umbylta samgöngum á svæðinu, ekki síst fyrir háskólasvæðið, en í raun fyrir alla miðborgina. Hér er verið að afgreiða nauðsynlegar deiliskipulagsbreytingar til að undirbúa þá framkvæmd.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrirhuguð brú yfir Fossvog mun hafa takmarkaðan almennan tilgang fyrir Reykvíkinga en hins vegar er ljóst að hún verður skattgreiðendum dýr. Ekki eru rök fyrir því að forgangsraða með þessum hætti og ljóst að mörg önnur samgönguverkefni eru brýnni. Brúin mun hafa neikvæð áhrif á siglingastarfsemi í Fossvogi, sem er mikil og hefur farið vaxandi. Gagnrýni hefur komið fram á hönnun brúarinnar og ekki hefur fengist skýring á því af hverju horfið hefur verið frá því að hafa hana úr ryðfríu stáli, sem áður var talið nauðsynlegt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir því að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar yrði frestað um að minnsta kosti viku og var sú tillaga felld. Óskað var frestunar því ekki hefur gefist nægur tími fyrir þá sem fengu svör við ábendingum sínum að rýna svörin með sérfræðingum og fá um þau málefnalega umfjöllun. Ef athugasemdir eiga ekki að fá málefnalega umfjöllun er hér um algert sýndarsamráð að ræða. Hið nýja deiliskipulag við Fossvogsbrúna var auglýst í ágúst 2023 og opnað var þá fyrir athugasemdir. Þegar þarna var komið við sögu var hönnun brúarinnar langt komin. Eðlilegt hefði verið að fresta málinu og gefa þeim sem vilja rýna athugasemdir og svör meiri tíma. Hér er um galla í hönnun að ræða. Hönnun er kynnt þannig að sólin færi að skína á vesturhlið brúarinnar milli kl. 13:00 og 14:00. Þá myndast skuggar frá handriðum inn á brúna. Göngusvæði austan megin króast af og skerðist þá útsýnisupplifun þeirra sem yfir brúna ganga. Í stuttu máli kallar allt á að gönguleiðin verði vestanmegin brúarinnar og hjólaleiðin austanmegin. Svörin sem bárust voru þess utan hálfgerðir útúrsnúningar, s.s. að búið sé að ákveða þetta, eða „athugasemdin kemur of seint“. Ekki er tekið á aðalatriðum í svörum. Fossvogsbrúin er rándýrt mannvirki og það er miður að halda eigi áfram og byggja mannvirki af þessari stærðargráðu með galla sem þennan.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð göngu- og hjólastígs í Elliðaárdal auk smíði nýrrar brúar við Grænugróf, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 460 m.kr., þar af er hluti Reykjavíkurborgar 60 m.kr.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23070074

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 27. nóvember 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. nóvember 2023 á tillögu um stofnun starfshóps um mótun framtíðarstefnu fyrir listamiðstöð á Korpúlfsstöðum, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MIR23110014

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands fyrir árið 2024. Samningurinn er til eins árs. Kostnaður samkvæmt samningnum er 2.750.000 kr. sem færist á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 3. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS23010075

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan viðauka við samkomulag Reykjavíkurborgar og Römpum upp Ísland, dags. 27. nóvember 2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS22020088

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum viðauka við samkomulag Reykjavíkurborgar og Römpum upp Ísland og þakkar sérstaklega frumkvöðli þessa verkefnis fyrir allt sem hann hefur gert í þágu þeirra sem njóta góðs af römpum. Verkefnið er ómetanlegt og hefði sennilega ella aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstilli þessa einkaframtaks sem hefur lyft grettistaki í að auka og auðvelda aðgengi.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samning við Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís) um áframhaldandi stuðning Reykjavíkurborgar við Nýsköpunarsjóð námsmanna fyrir árin 2024-2026.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS23110150

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg lækkar nú árlegt framlag sitt til Rannís úr 30 milljónum í 15 milljónir. Því til viðbótar er kveðið á um að framlag borgarinnar sé sérstaklega ætlað verkefnum sem tengjast borginni á einhvern hátt. Hér er um að ræða hagræðingartillögu meirihlutans við gerð fjárhagsáætlunar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skynsamleg hagræðing enda skerðir hún á engan hátt þjónustu við borgarbúa.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2023, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um menningar- og samfélagshús á Ártúnshöfða eru send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS23050012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Því er fagnað að reisa eigi menningar- og samfélagshús á Ártúnshöfða enda þótt spyrja megi hvort þetta sé besta tímasetningin í ljósi viðkvæms fjárhags borgarinnar. Nú er lagt fram erindisbréf starfshóps um menningar- og samfélagshús Ártúnshöfða sem er skipaður fimm fulltrúum frá sviðum borgarinnar. Fram kemur í erindisbréfinu að starfshópurinn leiti ráðgjafar utan kerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á. Ætla mætti að þeir starfsmenn borgarinnar sem eru skipaðir í hópinn væru það vegna sérþekkingar sinnar svo ekki þurfi að kaupa sérþekkingu utan hans. Því ber þó að fagna að starfsmaður hópsins er starfsmaður borgarinnar en ekki aðkeyptur ráðgjafi, verkfræðingur eða arkitekt eins og stundum hefur verið raunin. Minnt er á að fara skal vel með fjármagn borgarinnar. Aðkeypt ráðgjafar- og verkefnavinna er rándýr enda iðulega keypt af verkfræðinga- eða arkitektastofum. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins þar sem fjöldi sérfræðinga starfa.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viðauka við þjónustusamning Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

    Samþykkt.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23110124

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. nóvember 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að gengið verði til samstarfs við Samhjálp sem lið í vetraráætlun um opnun neyðarskýla, með vísan í hjálagða tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 15. nóvember 2023. Áætlaður heildarkostnaður vegna þriggja mánaða vetraropnunar er 5,2 m.kr. en kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar er 56,6% af heildarkostnaði samstarfsins, eða 2.941.640 kr., og lagt er til að kostnaðurinn verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð.

    Samþykkt.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. VEL23100028

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarsvið hefur gert samning við Samhjálp um samstarf vegna vetraropnunar sérstaks neyðarskýlis sem opið verður fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir frá kl. 14:00-16:30 alla daga í desember 2023 og janúar og febrúar 2024. Reynsla af þessari opnun verður nýtt í áframhaldandi þróun þjónustu fyrir þennan hóp fólks. Samkomulag hefur einnig náðst við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að taka þátt í fjámögnun þessa úrræðis sem er jákvætt og mikilvægt skref í að ná sátt um skiptingu á ábyrgð kostnaðar.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samhjálp vinnur mjög gott starf en tekið er undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá manni sem hefur búið við heimilisleysi og mótmælt úrræðaleysi fyrir hópinn sem segir þetta fyrirkomulag ekki nægilega gott úrræði fyrir heimilislausa. Þetta sé ekki lausnin sem heimilislausir þurfi, heldur þurfi dagsetur í sérstöku húsnæði. Tekið er undir það að dagsetur þurfi að vera til staðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú er spáð hörkugaddi og mögulega harður vetur genginn í garð. Hópur fólks er heimilislaus og treystir á að fá inni í neyðarskýlum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum samningi og almennt góðu samstarfi borgarinnar við Samhjálp sem bjargað hefur lífi fjölda manns í orðsins fyllstu merkingu. Hér er því miður aðeins verið að tala um athvarf sem er opið yfir daginn. Það dugar skammt ef notendur þjónustunnar fá ekki næturskjól. Þær krónur og aurar sem Reykjavíkurborg setur í þennan málaflokk eru aðeins smápeningar ef borið er saman við annað sem borgin stússast í og óþarfa sem eytt er í. Það verður að tryggja framtíð neyðarskýla sem opin eru á nóttunni og sjá til þess að næg pláss séu til svo engum verði úthýst, ekki heldur þeim sem ekki eiga lögheimili í Reykjavík. Það er ekki notendum að kenna ef vandræðagangur er í samningum borgarinnar við önnur sveitarfélög með endurgreiðslur fyrir gistinætur. Hér er um líf og dauða að ræða.

    Fylgigögn

  11. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2023, dags. 30. nóvember 2023, ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 30. nóvember 2023. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. nóvember 2023. 

    Halldóra Káradóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23110024

    Fylgigögn

  12. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. nóvember 2023, varðandi uppfærða þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010019

    Fylgigögn

  13. Lagðar fram breytingatillögur Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, dags. 30. nóvember 2023, við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010019

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. nóvember 2023, varðandi uppfærða greinargerð fagsviða með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010019

    Fylgigögn

  15. Lögð fram skýrsla umhverfis- og skipulagssviðs, ódags., um verkstöðu nýframkvæmda janúar-september 2023.

    Halldóra Káradóttir, Jón Valgeir Björnsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23110024

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning um Hallgerðargötu 11A, íbúð 217, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Jón Valgeir Björnsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23080004

  17. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning um Hallgerðargötu 11A, íbúð 317, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Jón Valgeir Björnsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23080004

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti að lóðarvilyrði vegna lóðarinnar Lágmúla 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100205

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að afturkalla lóðarúthlutun vegna Nauthólsvegar 79 og að byggingarréttur á lóðinni verði seldur á föstu verði, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080109

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði vegna uppbyggingar á grænu húsnæði á lóðinni Hlíðar-Veðurstofuhæð og að fallið verði frá skilmálum samkeppninnar um grænt húsnæði framtíðarinnar.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23110024

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg vegna Brekknaáss 6: 6 leiguíbúðir; nýbygging Brekknaás 6, áætlað stofnvirði kr. 790.589.858 og 12% stofnframlag kr. 94.870.783. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 27. nóvember 2023.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23090003

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg vegna kaupáætlunar 2023 seinni úthlutun: 24 leiguíbúðir; kaupáætlun 2023 seinni úthlutun, áætlað stofnvirði kr. 1.291.435.000 og 12% stofnframlag, kr. 154.972.200. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 27. nóvember 2023.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23090003

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu matsnefndar um stofnframlag frá Reykjavíkurborg vegna kaupáætlunar 2023: Tvær leiguíbúðir; kaupáætlun 2023, áætlað stofnvirði 127.000.000 kr. og 12% stofnframlag, 15.240.000 kr. Ofangreind tillaga var samþykkt af matsnefnd vegna veitingar stofnframlaga 27. nóvember 2023.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23090003

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. nóvember 2023, varðandi fyrirhugaða ferð forseta borgarstjórnar til Brussel dagana 6.-7. desember nk., ásamt fylgiskjölum. MSS23110158

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárhagsáætlun 2024, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. nóvember 2023. FAS23010019

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvort það teldist eðlilegt og rétt að greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárfestingaáætlun fyrir árið 2024 sé skrifuð áður en fjárfestingaáætlun borgarinnar liggur fyrir. Lagt er fram svar í borgarráði 30. nóvember sem segir að búið sé að uppfæra greinargerðina til samræmis við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins er alveg hissa á þessu máli og hefur aldrei séð svona áður á fimm árum sínum í borgarstjórn. Rangar, úreltar forsendur eru lagðar til grundvallar fjárhagsáætlun. Lagðar voru rangar upplýsingar fyrir kjörna fulltrúa í upphafi. Greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs hefði aldrei átt að fara inn í skjalið í upphafi eins og hún var unnin. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað komi til að svona vinnubrögð eru viðhöfð og hver beri ábyrgð á yfirstjórn vinnunnar við undirbúning fjárhagsáætlunar.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 22. nóvember 2023. MSS23010029

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 23. nóvember 2023. MSS23010035

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Undir þessum lið um gjaldskyldu bílastæða er birt útskrift úr fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 um hækkun á bílastæðagjöldum og bókaði fulltrúi Flokks fólksins um málið. Hækka á gjald fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar umtalsvert og þrengja reglurnar samhliða hækkun. Þess utan bætast við sunnudagar. Að gjaldskylda verði á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnana og níu á kvöldin á sunnudögum. Þessar breytingar hafa mikinn fælingarmátt fyrir þá sem koma akandi í bæinn og er nú nóg samt. Þess utan hefur hækkun á gjöldum áhrif á verðbólgudrauginn. Þetta er róttækt og stríðir gegn skynsemi þegar horft er á hversu almenningssamgöngur eru slakar hvað varðar tíðni og fleira. Þetta kemur verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna og fyrir aðra hefur þetta ekki síður fælingarmátt. Fulltrúi Flokks fólksins hefði haldið að hagaðilar myndu mótmæla þessu. Miðbærinn er orðið eingöngu fyrir erlenda ferðamenn og er það mjög miður. Það má auk þess nefna að gjaldskrárhækkanir hjá borginni eru viðamiklar og fara að sjálfsögðu beint út í verðlagið og auka verðbólgu.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 20. nóvember 2023. MSS23010036

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. september 2023.
    10. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Niðurstöður þessarar könnunar eru eins og þær fyrri, einkabíllinn er hástökkvari í öllum spurningum og meira en búist hefði mátt við því talið var að hjólin væru að koma sterkar inn. Notkun strætó minnkar. Þeir sem búa langt frá vinnu og almennt í efri byggðum í Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi og Kjalarnesi eru eðlilega að nota bílinn í yfirgnæfandi meirihluta. Vel kann að vera að fleiri gætu mögulega verið að nota almenningssamgöngur væru þær að mæta þörfum fleira fólks hvað varðar tíðni, aðgengi, leiðakerfi og bætta þjónustulund. Þeir sem eru efnaminni samkvæmt þessari könnun eru minnst að nota hjól og hlaupahjól. Það vekur upp spurningar. Gott er að sjá að börn eru að ganga heilmikið í skólann í sumum hverfum en minna í öðrum. Hjólanotkun barna er einnig mismunandi eftir hverfum. Nú í skammdeginu fara börn vissulega síður hjólandi í skólann. Áhyggjur eru af lýsingu í sumum hverfum og hefur verið lögð fram fyrirspurn í því sambandi. Sé lýsingu ábótavant ógnar það verulega öryggi barna, gangandi og hjólandi. Í kringum skóla og á öllum leiðum að skóla, hvort heldur er frá bílastæði, gönguleið eða hjólastígum, þarf lýsing að vera jöfn, heildstæð og kröftug en ekki blindandi.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. MSS23100188

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS23100189

    Fylgigögn

  32. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Í ljósi þeirra miklu og jákvæðu viðbragða hjá borgarbúum sem fögnuðu einlæglega palestínsku fánunum, sem loksins sáust dregnir að húni við Ráðhúsið í gær, að því er talið var af Reykjavíkurborg, og síðan þeirra gríðarlegu vonbrigða sem borgin olli þeim sama almenningi í kjölfarið þegar hún ákvað að taka þá niður er lagt til að borgarráð skýri afstöðu sína í eitt skipti fyrir öll með því að afgreiða tillögu borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fána Palestínu við Ráðhúsið. Tillagan var lögð fram og frestað á fundi borgarráðs 16. nóvember sl., fyrir mörg þúsund mannslífum síðan, en tillagan er svohljóðandi: Lagt er til að fáni Palestínu verði dreginn að húni við Ráðhús Reykjavíkur til að sýna samstöðu með íbúum í Palestínu. MSS23110111

    Greinargerð fylgir tillögunni
    Frestað.

    Fylgigögn

  33. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um fjölda íbúðarhúsnæðis sem breytt hefur verið í leyfisskylda gististarfsemi frá árinu 2008. 1. Fyrir hve mörg fastanúmer íbúða/húsa hefur verið gefið út leyfi fyrir gististarfsemi, þ.e. í húsnæði sem áður hýsti íbúðir eða var reist og notað sem íbúðarhúsnæði áður frá árinu 2008? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum. 2. Hversu mörgum fastanúmerum íbúða hefur verið breytt þannig að íbúðarhúsnæði hafi fengið breytta skráningu sem gistihús eða hótel í Reykjavík frá árinu 2008?

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  34. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á vefsíðu borgarinnar kemur fram að Reykjavíkurborg sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignagjöld hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Þá veitir Reykjavíkurborg einnig afslátt af fráveitugjaldi sem greitt er til Orkuveitu Reykjavíkur. Miðað er við ákveðin tekjumörk. Þá kemur einnig fram að ekki þurfi að sækja sérstaklega um afslátt vegna þessara gjalda þar sem fjármála- og áhættustýringarsvið sjái um að framkvæma breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð á skattframtölum elli- og örorkulífeyrisþega. Þau sem eigi von á afslætti eða endurgreiðslu eigi að skrá bankaupplýsingar sínar. Spurt er hvort öll sem eigi rétt á þessum afslætti hafi fengið hann á síðustu árum og ef ekki, hversu mörg hafi ekki fengið afsláttinn eða niðurfellingu gjalda. Spurt er um það sem liðið er af þessu ári sem og síðustu tvö ár. Þá er einnig spurt hvernig brugðist sé við ef að bankaupplýsingar liggja ekki fyrir hjá öllum þeim sem eiga rétt á lækkun eða niðurfellingu gjalda. Er borgin að leitast sérstaklega við að ná til þeirra og tilkynna þeim sérstaklega að þau eigi rétt á afslætti? Hvernig er slíkt þá gert? MSS23110172

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela spretthópi vegna hávaða í miðborginni að funda og skoða hávaðamálin í heild sinni með það að markmiði að finna lausnir. Nauðsynlegt er að framhald verði á endurskoðun á skemmtanamálum í miðbænum vegna aukins hávaðavanda m.a. frá götuhátölurum. Nefndar hafa verið leiðir eins og að skoða hvort stytta eigi opnunartíma eða hvort færa eigi þennan hluta skemmtanalífsins út fyrir hjarta Reykjavíkur. Það liggur fyrir að munur er á hávaða um helgar eftir að Kofi Tómasar frænda gerði breytingar. Enn berst samt mikill hávaði á næturnar og fram á morgun frá planinu bak við Krónuna við Hallveigarstíg og vandamál er með hávaða og skrílslæti frá Danska barnum/Prikinu og Bankastræti þar sem opnunartímar eru langir. Þetta eru upplýsingar frá nágrönnum ofangreindra staða. Einnig er nú aftur kominn hávaði frá götuhátölurum t.d. í tengslum við skautasvellið sem er umfram leyfileg mörk. MSS22090038

    Frestað.

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að setja upp hljóðmæla við Ingólfstorg í ljósi þeirrar miklu umræðu sem fram hefur farið í tengslum við hljóðmengun miðborgar Reykjavíkur. Ingólfssvell er handan við hornið, þar sem jólatónlist er leikin utandyra 10 til 12 tíma daglega í heilan mánuð. Tónlist sem fer yfir viðmiðunarmörk Heilbrigðiseftirlitsins (55 dB), brýtur ákvæði lögreglusamþykktar Reykjavíkur og reglugerð um hávaða. Heilbrigðiseftirlitið verður að sjá til þess að styrkur og bassastilling verði í algjöru lágmarki. Íbúar þurfa að geta hringt í starfsmann Reykjavíkurborgar þegar hávaðinn fer úr böndunum, sem er afar mikilvægt og hefur reynst vel á síðustu árum Ingólfssvells. MSS23110171

    Vísað til meðferðar heilbrigðisnefndar.

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í framhaldi af svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hvort það teljist eðlilegt og rétt að greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárfestingaráætlun fyrir árið 2024 sé skrifuð á undan fjárfestingaráætlun borgarinnar er óskað frekari upplýsingar. Í framlögðu svari kemur fram að greinargerðin hafi verið uppfærð og byggi nú á réttum upplýsingum. Óskað er upplýsinga um hverjar uppfærslurnar voru, nákvæmlega hvað breyttist frá fyrri greinargerð til seinni. Af hverju var lögð fram greinargerð sem byggði á gömlum og úreltum upplýsingum? Þurfa kjörnir fulltrúar að vera á varðbergi fyrir því að gögn séu byggð á úreltum upplýsingum? Hver ber ábyrgð á þessu? Eiga endurskoðendur ekki að ganga úr skugga um að upplýsingar sem fjárhagsáætlun er byggð á séu nýjar? FAS23010019

    Vísað til umagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Fundi slitið kl. 11:20

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 30.11.2023 - Prentvæn útgáfa