Borgarráð - Fundur nr. 5726

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 23. nóvember, var haldinn 5726. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. nóvember 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. nóvember 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Saltvíkur á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220797

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á bókun íbúaráðsins sem er afar afgerandi um tillögu að breyttu deiliskipulagi Kjalarnes, Saltvík. Bókunin var lögð fram á fundi íbúaráðs Kjalarness þann 11. maí 2023. Í henni vill íbúaráðið koma á framfæri að ítrekað eru gerðar breytingar á deiliskipulagi án þess að aðalskipulag sé uppfært. Þetta þykir miður. Íbúar eru uggandi yfir þróun skipulagsmála á Kjalarnesi og hafa áhyggjur af deiliskipulagsbreytingum sem varða landbúnað og iðnað á svæðinu. Aðrar athugasemdir snúa að því að gerðar séu deiliskipulagsbreytingar án uppfærslu í aðalskipulagi; að áhyggjur af deiliskipulagsbreytingum er varða landbúnað og iðnað á svæðinu og loks að fornleifar séu ekki skráðar. Fulltrúi Flokks fólksins treystir því að unnið verði vel úr þessum athugasemdum í samstarfi við íbúana.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 20. nóvember 2023, varðandi skýrslu starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum, ásamt fylgiskjölum.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Tómasi Guðberg Gíslasyni sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. HER23110001

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er miður að skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hafi ekki verið unnin í samvinnu við Reykjavíkurborg eða sveitarfélögin í landinu þar sem verið er að ríkisvæða starfsemi borgarinnar. Verið er að fjalla um mikilvæga þætti sem snúa að lífsgæðum Reykvíkinga, m.a. hollustuháttum og öryggismálum á sundstöðum og leikskólum. Áður en farið er í kostnaðarsamar breytingar þarf að liggja fyrir að ríkið greiði breytingakostnað í tengslum við starfsmannamál og það komi fram nákvæm útfærsla á þeirri þjónustu sem ríkisstofnanirnar sem ætlað er að taka við hlutverki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur munu veita. Verður t.d. Matvælastofnun með starfsstöð í Reykjavík? En stofnunin er með höfuðstöðvar á Selfossi og útibú í Hafnarfirði. Mun Reykjavíkurborg hafa aðkomu að málum sem snúa að veitingastöðum, málum sem snúa að myglu í skólum, hávaða frá veitingahúsum, loftgæðum eða lélegs íbúðarhúsnæðis, o.fl.? Enga útfærslu er að finna eða tímaás breytinganna. Það veikir núverandi eftirlit í störfum sínum þegar skipulag starfseminnar er sett í óvissu. Flokkur fólksins fer fram á nánari útfærslu á þeirri þjónustu sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun er ætlað að veita í borginni og tímaás breytinganna og nánari upplýsingar frá ráðherra áður en hægt er að taka afstöðu til þeirra skipulagsbreytinga sem ráðherra boðar.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna lýsir áhyggjum sínum yfir þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið um að færa heilbrigðiseftirlit að miklu eða mestu leyti frá sveitarfélögum til ríkis. Heilbrigðiseftirlit er gríðarlega mikilvægt fyrir velsæld og heilsu íbúanna og á heima í héraði. Brýnt er að fylgjast grannt með framvindu þessa máls.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að endurskoða rekstrarfyrirkomulag íþróttahúsa í eigu Reykjavíkurborgar og fela menningar- og íþróttasviði og skóla- og frístundasviði í samstarfi við fjármála- og áhættustýringarsvið að útfæra tillögur um framtíðarsýn, verkaskiptingu og gjaldskrá svo rekstur þeirra standi undir sér.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Helgi Grímsson sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. MSS23110123

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga um að endurskoða rekstrarfyrirkomulag íþróttahúsa í eigu Reykjavíkurborgar er án efa þörf en að mörgu er að hyggja. Huga þarf að framtíðarsýn ekki síst í ljósi tilkomu Þjóðarhallar. Flokkur fólksins hefur fjallað um mikilvægan flöt á þessu máli sem er hvernig afnotum af íþróttahúsum er útdeilt og hvort gætt sé jafnræðis í þeim efnum. Skoða þarf og bera saman fjármögnunarsamninga íþróttahúsa borgarinnar og draga fram greiningu á aðstöðu og aðstöðumun íþróttafélaga í íþróttahúsum borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá samanburð á fjármögnunarsamningum íþróttahúsa. Þetta er ekki síst mikilvægt í Laugardalnum þar sem aðstöðumunur hefur verið ríkjandi hjá félögum sem nota Laugardalshöllina, félögum eins og Ármanni og Þrótti, ÍR, Val, KR og Fjölni og fleiri. Með endurskoðun eins og þessari er hægt að skoða hvernig aðgengi félaganna er að íþróttahúsum borgarinnar. Hver sér um að úthluta tíma/dögum til íþróttafélaganna og eftir hvaða reglum er farið? Hvernig er t.d. gætt að jafnræði milli félaganna við úthlutun tíma? Þetta þarf að skoða í öllum íþróttahúsum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Í samræmi við samþykkt borgarráðs 9. nóvember 2023 var leitað umsagnar KFUM og KFUK og Listasafns Reykjavíkur um hvort taka eigi minnismerki um sr. Friðrik Friðriksson, sem er á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu, af stalli í ljósi ásakana sem fram hafa komið um að hann hafi beitt drengi kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Umsagnirnar liggja fyrir og hníga í sömu átt. Lagt er til við borgarráð að samþykkja að verkið verði tekið niður og því fundinn staður í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. Þá verði umhverfis- og skipulagssviði falið að koma með tillögur að frágangi svæðisins í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. MSS23110034

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Einnig er lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að stytta af séra Friðriki Friðrikssyni verði fjarlægð, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. nóvember 2023. MSS23116010

    Tillaga borgarstjóra og tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins eru samþykktar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hinn 3. nóvember sl. lagði Flokkur fólksins það til að borgarráð samþykkti að láta fjarlægja styttu af sr. Friðriki Friðrikssyni (1868-1961) presti og æskulýðsleiðtoga af þeim stað þar sem hún nú stendur. Umfjöllun um meint kynferðisbrot séra Friðriks í nýrri bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um ævi og störf prestsins sem stofnaði Val, Hauka og KFUM á Íslandi gerir það að verkum að fulltrúi Flokks fólksins telur að fjarlægja beri styttuna úr augsýn almennings. Nú hefur borgarráð samþykkt að verkið verði tekið niður og hefur tillaga Flokks fólksins þar með verið samþykkt. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari niðurstöðu. Fundur var haldinn í borgarráði með forsvarsaðila KFUM og KFUK sem skilað hafa umsögnum. Í umsögn segir m.a. „þegar styttur senda önnur skilaboð út í samfélagið en þeim var upphaflega ætlað þá er eðlilegt að borgaryfirvöld skoði að gera breytingar.“

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt til að þjónustu- og nýsköpunarsviði verði falið að leiða þarfagreiningu fyrir menningar- og samfélagshús á vegum Reykjavíkurborgar í fyrirhuguðu nýju hverfi á Ártúnshöfða. Til verkefnisins verði skipaður starfshópur með aðkomu annarra sviða Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lagt til að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og eignaskrifstofu verði falið að semja við Borgarhöfða Fasteignaþróun II ehf. um að Reykjavíkurborg eignist þann byggingarrétt lóðarinnar sem ætlaður er fyrir menningarhús við Krossamýrartorg á Ártúnshöfða. Fyrir byggingarrétt menningarhúss verður greitt með byggingarrétti á nálægum lóðum á Ártúnshöfða og verður samningur lagður fyrir borgarráð þegar niðurstaða þarfagreiningar liggur fyrir.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23050012

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er lagt til að þjónustu- og nýsköpunarsviði verði falið að leiða þarfagreiningu fyrir menningar- og samfélagshús á vegum Reykjavíkurborgar í fyrirhuguðu nýju hverfi á Ártúnshöfða. Fulltrúi Sósíalista styður heilshugar að menningar- og samfélagshús rísi á Ártúnshöfða. Hér er verið að fara í þarfagreiningu á stöðunni og samningur verður svo lagður fyrir borgarráð. Hér er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og eignaskrifstofu falið að semja við Borgarhöfða Fasteignaþróun II ehf. um að Reykjavíkurborg eignist þann byggingarrétt lóðarinnar sem ætlað er fyrir menningarhús við Krossamýrartorg á Ártúnshöfða. Fyrir byggingarrétt menningarhúss verði greitt fyrir með byggingarrétti á nálægum lóðum á Ártúnshöfða og verður samningur lagður fyrir borgarráð þegar niðurstaða þarfagreiningar liggur fyrir. Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvort það sé besta leiðin fyrir greiðslu.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2023:

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að kanna kosti þess og hugsanlega galla þess að friðlýsa ytra byrði Kjarvalsstaða sem um þessar mundir fagnar hálfrar aldar afmæli. Verkefnið verði unnið í náinni samvinnu við Listasafn Reykjavíkur og Minjastofnun og þess gætt að Kjarvalsstaðir hafi áfram þróunarmöguleika sem sú kraftmikla menningarmiðstöð og flaggskip myndlistar sem húsið og starfsemi þess er og svigrúm og sveigjanleiki fjölbreytts og framsækins sýningarhalds, innan veggja og utan, verði því ekki skert.

    Samþykkt. MSS23110126

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2023:

    Lagt er til að fjármunum minnisvarðasjóðs Þórs Sandholt verði ráðstafað til Listasafns Reykjavíkur í því skyni að endurgera listaverkið Landnám og að sjóðnum verði slitið við sama tækifæri.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt. FAS22110030

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning um landspildu hússins Vegamót í Hólmslandi við Suðurlandsveg, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23100028

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð falli frá forkaupsrétti að svo stöddu vegna sölu á einbýlishúsi við Lambhagaveg 23, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23110022

  10. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaup á þremur íbúðum á 1. hæð við Háteigsveg 33 með það að markmiði að stækka leikskólann Klambra, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23110023

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki sölu á eigninni Hallgerðargötu 1A, íbúð 103, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23080004

  12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 20. nóvember 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. nóvember 2023 á hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar til framfærslu, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23110016

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsaðstoð er fyrir þau sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar og er hugsað sem neyðarnet þegar ekkert annað er til staðar. Sósíalistar árétta mikilvægi þess að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð þar sem ómögulegt er að sjá hvernig ætlast er til þess að hægt sé að framfleyta sér á svo lágri upphæð. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar verður eftir breytingu 239.895 kr. á mánuði fyrir skatt, fyrir manneskju sem rekur eigið heimili og getur sýnt fram á það eins og með þinglýstum leigusamningi. Upphæðin er síðan breytileg eftir sambúðar- og búsetuformi. Ljóst er að um alltof lága upphæð er að ræða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á nokkur atriði í umræddri tillögu. Lagt er til að hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu um 4,9% um næstu áramót í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar. Vert er að taka fram að vegin meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna á yfirstandandi ári er 7,3%. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 6,75% samkvæmt kjarasamningum, þó ekki minna en um 35.000 kr. Auk þess mældist vísitala neysluverðs 7,9% síðastliðinn október og hefur hækkað um 7,9% síðustu tólf mánuði, sbr. nýjustu tölur Hagstofunnar. Eðli málsins samkvæmt rýrnar fjárhagsaðstoðin þar sem hækkunin heldur ekki í við laun og verðlag. Þetta telur fulltrúi Flokks fólksins að þurfi að taka til greina þegar hækkun fjárhagsaðstoðar er ákvörðuð.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða breytingatillögu á félagssamþykktum fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík. Síðustu félagssamþykktir fulltrúaráðsins eru frá árinu 2008 sem jafnframt eru hjálagðar.

    Samþykkt. MSS23100179

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um skipan götunafnanefndar Reykjavíkurborgar, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. desember 2022. MSS22120082

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 16. nóvember 2023. MSS23010026

    Fylgigögn

  16. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 6., 13. og 17. nóvember 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 16. nóvember 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 14. nóvember 2023. MSS23010027

    Fylgigögn

  19. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Laugardals frá 9. október og 13. nóvember 2023. MSS23010033

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 13. nóvember:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillögu íbúaráðs Laugardals varðandi Sundabrautarverkefni. Laugardalurinn er eitt tveggja hverfa sem kemur til með að verða fyrir hve mestum áhrifum af því stóra verkefni sem fyrirhuguð áform um byggingu Sundabrautar eru. Íbúar hverfanna sem verða fyrir mestum áhrifum eru eðlilega að hugsa um hvernig þetta stóra verkefni muni þróast og að samgönguæðin sem Sundabraut er sé ekki á kostnað íbúanna. „Umhverfis og loftgæði ásamt umferðaröryggi eru mikilvægir þættir lífsgæða íbúa hverfisins og gæta þarf að því að aukin umferð stuðli ekki að neikvæðri þróun í þeim efnum. Sérstaklega þarf að gæta að umferð nálægt skólum hverfisins“ eins og segir í bókun íbúaráðsins. Flokkur fólksins hvetur til virks samráðs og samtals við borgarbúa á sem víðustum grunni.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. nóvember 2023.

    11. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Fram kemur í gögnum að á brúnni verða tvær akreinar fyrir almenningssamgöngur, ein í hvora átt, með tvöfaldan hjólastíg vestan megin og göngustíg austan megin. Þetta eru mistök. Eðlilegast er að göngustígurinn sé vestast, síðan strætó og hjólastígur austast. Rökin eru útsýni og upplifun sérstaklega í tengslum við kvöldsólarlag. Svo er að sjá sem Landssamband hjólreiðamanna telji líka hentugt að hjólastígurinn sé austan megin. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í síðustu viku ábendingu sem barst honum sem þar sem færð eru rök fyrir því að betur færi á að göngustígur sé á vesturhluta brúarinnar og hjólastígurinn austan megin á brúnni. Eins og hönnun Fossvogsbrúar hefur verið kynnt myndi sólin fara að skína á vesturhlið brúarinnar milli kl. 13:00 og 14:00. Þá myndast skuggar frá handriðum inn á brúnna. Göngusvæði austan megin „króast“ af og skerðist þá útsýnisupplifun þeirra sem yfir brúna ganga. Í stuttu máli er upplifunin sterkari ef gönguleiðin er vestanmegin brúarinnar og hjólaleiðin austanmegin. Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna segir ekki koma til greina að breyta hönnuninni og að hönnunin sé algerlega úthugsuð. Það getur varla staðist og miður að fara eigi í svo fjárfrekt verkefni með eins áberandi galla og hér um ræðir.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. MSS23100188

    Fylgigögn

  22. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23100189

    Fylgigögn

  23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á bókhaldslyklum og þeim fjölgað með það að markmiði að gera bókhald borgarinnar gagnsærra. Eins og staðan er núna virðist það vera hálfgert kraðak, það ægir of mörgu saman og erfitt að draga nokkuð þar út með nákvæmni. Á einn og sama lykil er hægt að setja of margt og sumar tölur eru ekki sundurliðaðar þótt þær tilheyri ólíkum verkþáttum. Sem dæmi ef óskað er eftir upplýsingum um ráðgjafakaup þá er það ekki hægt því að upphæðin sem ráðgjöf kostaði er samofin kaupum á annarri þjónustu óháð tegund. Taka má sem dæmi lykilinn „verkfræðingar“ og undir hann ægir öllu saman sem mögulega hefur að gera með verkfræðinga. Eins og staðan er núna er því mjög auðvelt að fela kaup og ástæður fyrir þeim. MSS23110140

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Frestað. 

    Fylgigögn

  24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu mörgum af þeim 2.565 byggingarhæfu lóðum sem eru til samkvæmt kortasjá borgarinnar hefur þegar verið úthlutað og komið í hendur verktaka? Hversu margar lóðir bíða enn útboðs? Lóð telst byggingarhæf þegar tenging við vatn og rafmagn er komin á. Þegar lóð hefur verið úthlutað er hægt að hefja framkvæmdir og þá er hraði uppbyggingarinnar í höndum lóðarhafa. Einnig er spurt hvort lóðarhöfum/verktökum séu sett einhver skilyrði um hvenær uppbyggingu skuli lokið á lóðinni. MSS23110141

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Fundi slitið kl. 10:40

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 23.11.2023 - Prentvæn útgáfa