Borgarráð - Fundur nr. 5725

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, var haldinn 5725. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. nóvember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi vegna náttúruhamfara á Reykjanesi. Grindavík hefur verið rýmd. Vegna þessarar alvarlegu stöðu er lagt til við borgarráð að Reykjavíkurborg greiði götu bæjarstjórnar Grindavíkur og Grindvíkinga og aðstoði eins og hægt er við þessar hörmulegu aðstæður. Bæjarskrifstofum Grindavíkurbæjar og bæjarstjórn hefur nú þegar verið boðið aðsetur í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þá er lagt er til að fagsviðum borgarinnar og miðlægri stjórnsýslu verði falið að útfæra tillögur til að greiða aðgengi íbúa Grindavíkur að þjónustu Reykjavíkurborgar eins og kostur er og í samræmi við formlegar óskir almannavarna. Lagt er til að Grindvíkingum verði boðið að nýta sér sundlaugar borgarinnar og söfn, sér að endurgjaldslausu. Sama gildi um Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þá er óskað eftir því að borgarráð staðfesti samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. nóvember sl. um að veita Bílastæðasjóði tímabundna heimild vegna ríkjandi neyðarástands, til að víkja frá reglum um íbúakort.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson, Rannveig Einarsdóttir og Jón Viðar Matthíasson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Eiríkur Björn Björgvinsson, Tómas Guðberg Gíslason og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum með rafrænum hætti. MSS23110093

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð Reykjavíkur sendir bæjarstjórn Grindavíkur og Grindvíkingum öllum innilegar samstöðukveðjur vegna þeirra alvarlegu atburða sem hafa átt sér stað í Grindavík og óvissunnar sem nú ríkir. Borgarráð lýsir jafnframt yfir þakklæti sínu í garð starfsfólks almannavarna, björgunarsveita og Grindvíkinga sjálfra sem unnið hafa sleitulaust að því að tryggja öryggi íbúa. Borgarráð býður starfsfólk Grindavíkurbæjar velkomið í Ráðhús Reykjavíkur og lýsir yfir eindregnum vilja til þess að aðstoða við þau brýnu verkefni sem framundan eru.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 14. nóvember 2023, varðandi skýrslu starfshóps um betri rekstur og afkomu bílahúsa Bílastæðasjóðs og tillögur starfshópsins, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 10:40 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti. MSS23020131

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í samstarfssáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar segir „Við ætlum að endurskoða bílastæðastefnuna, bæta þjónustu Bílastæðasjóðs og beita virkri verðstýringu.“ Starfshópur um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa var skipaður í mars 2023 og hefur hann nú skilað skýrslu sinni. Meirihlutinn fagnar þeim tillögunum og meginmarkmiðum sem fram koma í skýrslunni en lagt er til að fjögur meginmarkmið úr henni verði stefna Reykjavíkurborgar og tilteknar tillögur úr henni samþykktar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fyrst fram tillögu um rekstrarútboð á bílastæðahúsum borgarinnar í febrúar árið 2019. Tillagan var samþykkt og vísað til frekari rýni og útfærslu. Í kjölfarið hefur tillagan verið ítrekuð og samþykkt nokkrum sinnum af flestum fulltrúum bæði meirihluta og minnihluta. Síðast í desember árið 2022. Það er því óásættanlegt að nú, tæpum fimm árum frá því tillagan var fyrst samþykkt, sé niðurstaða úrvinnslunnar sú að málið þurfi að skoða áfram. Fulltrúarnir minna á umdeildar gjaldskrárhækkanir Bílastæðasjóðs nýverið og telja mikilvægt að við endurskoðun gjaldskráa bílastæðahúsa verði ekki ráðist í beina hækkun heldur endurskipulagningu og breytta notkun. Fulltrúarnir fagna þeim hluta tillögunnar sem snýr að því að mæta bílastæðaþörf í borginni þar sem bílastæði eru annars af skornum skammti og að stutt verði við aukna notkun vistvænna ferðamáta, svo eitthvað sé nefnt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru lagðar fram ýmsar tillögur sem snúa að bílastæðahúsum borgarinnar. Mikilvægt er að þau séu aðlaðandi þannig að hægt sé að minnka þörf fyrir bílastæði í borgarlandi. Það þarf þó að tryggja nægileg P-stæði í nálægð við byggingar og stofnanir. Þá þarf einnig að bæta almenningssamgöngur svo að slíkt verði áreiðanlegur kostur. Ein tillagan sem er lögð fram hér snýr að því að skoða nánar möguleika á útvistun rekstrar bílahúsa að hluta eða í heild og mótun viðskiptamódels fyrir slíkt útboð. Fulltrúi Sósíalista styður ekki útvistun á þjónustu bílastæðahúsanna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í skýrslunni kemur fram að nýting bílastæðahúsa er léleg eða 27% að meðaltali. Þess vegna er aðalatriðið að bæta nýtingu þeirra. Sérstaklega er áríðandi að þau nýtist að nóttu sem ekki er raunin nú. Markmiðið hlýtur að vera að koma bílum af götu ef kostur er. Margar tillögur skýrslunnar miða að því að draga úr notkun bílastæðahúsa enn frekar svo sem að hætta að gefa afslátt ef lagt er lengi og jafnvel hækka gjaldið sem er ekki ástæða til þegar nýting er svo lítil. Betra væri að leggja áherslu á að einfalda aðgengi að bílastæðahúsunum og um það eru reyndar nokkrar tillögur komnar frá Flokki fólksins.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna varar við hugmyndum um útvistun eða sölu bílastæðahúsa sem í dag eru í eigu Reykjavíkurborgar. Bílastæðahúsin eru mikilvægt tæki til stýringar á umferð og brýnt að þau séu, sem meginregla, fyllilega á forræði borgarinnar í stað þess að lúta hagsmunum aðila á markaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 70 íbúðir á lóð við Haukahlíð 6.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030259

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. nóvember 2023, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Þórshafnar í Færeyjum dagana 24.-27. nóvember nk. MSS23110089

    Fylgigögn

  5. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar, dags. 16. nóvember 2023, fyrir janúar-ágúst 2023.

    Halldóra Káradóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23060028

  6. Lagt fram svar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. 13. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um búsetu í ósamþykktu húsnæði, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. október 2023. MSS23100165

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvað talið er að margir búi í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði og standist því mögulega ekki öryggismat. Nýlega lést einstaklingur af sárum sínum í kjölfar bruna sem varð í atvinnuhúsnæði. Brunar í ósamþykktu húsnæði hafa færst í aukana síðustu misseri og hafa þessi mál oft verið rædd í borgarstjórn, sérstaklega eftir mannskæðan bruna á Bræðraborgarstíg. Af svari má sjá að áætla má að fjölgað hafi í þessum hópi síðan. Eftir síðustu kortlagningu sem lauk í febrúar 2022 voru um 1868 einstaklingar búsettir í atvinnuhúsnæði í 204 heimilisföngum á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim voru 860 einstaklingar búsettir í Reykjavík, þ.e. 856 fullorðnir og 4 börn, með 78 heimilisföng eða um 0,7% íbúa Reykjavíkur. Það sem af er þessu ári hefur slökkviliðið gert athugasemdir við búsetu í iðnaðarhúsnæði í 27 tilvikum. Ljóst er að vert er að hafa áhyggjur af þessum málum. Mikilvægt er að að drífa í gegn frumvarp innviðaráðherra sem felur í sér auknar heimildir fyrir slökkvilið til þess að hafa eftirlit með húsnæði þar sem fólk býr við ófullnægjandi öryggi. Önnur áhrifabreyta, sennilega sú stærsta, er sár skortur á húsnæði af öllum tegundum í Reykjavík.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kemur fram að síðasta kortlagning á umfangi búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafi átt sér stað á tímabilinu haust 2021 til febrúar 2022. Niðurstöður voru birtar í skýrslu í apríl 2022. Eftir þá kortlagningu var áætlað að 1868 einstaklingar væru búsettir í atvinnuhúsnæði með 204 heimilisföng á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim voru 860 einstaklingar búsettir í Reykjavík, þ.e. 856 fullorðnir og 4 börn, í 78 heimilisföngum. Þetta voru um 0,7% íbúa Reykjavíkur. Slökkviliðið telur ekki óvarlegt að áætla að fjölgun hafi orðið í þessum hópi síðan. Það sem af er þessu ári hefur slökkviliðið gert athugasemdir við brunavarnir á 63 heimilisföngum á höfuðborgarsvæðinu þar sem um búsetu er að ræða í iðnaðarhúsnæði, þar af eru 27 í Reykjavík. Fulltrúi Sósíalista ítrekar mikilvægi þess að húsnæðisstefnur verði gerðar þannig að byggt sé á félagslegum grunni því enginn á að neyðast til að búa í húsnæði sem ekki er hannað til búsetu. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 13. nóvember 2023, og svar Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 8. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ofbeldi meðal barna þar sem notuð eru eiturefni, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. október 2023. MSS23100167

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Af svörum skóla- og frístundasviðs og Barnaverndar Reykjavíkur að dæma er metnaðarfullt kerfi í gangi sem grípa mál af því tagi sem hér er spurt um. Mestu máli skiptir að ferlar virki þegar á reynir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir með það að markmiði að grípa þau börn sem sýna merki þess að vera í áhættuhópi. Vegna langs biðlista barna eftir faglegri aðstoð er það sífelldur ótti fulltrúa Flokks fólksins um að af þessum 2.300 barna biðlista séu börn sem einmitt séu í áhættuhópi en vegna biðar fá þau ekki þá aðstoð sem þau þurfa þegar þau þurfa hana. Þetta er staðreynd þrátt fyrir ný kerfi eins og Betri borg fyrir börn og Keðjuna, sem er reyndar ekki alveg séð hvernig nýtist börnum beint en sannarlega óbeint. Kontakt barns við fagaðila má aldrei vanmeta. Annað þessu tengt eru áhyggjur af auknum vopnaburði barna sem ekki hefur fengið næga athygli. Tillaga Flokks fólksins um að senda bréf til foreldra og forráðamanna vegna aukins hnífaburðar barna og ungmenna var sem dæmi felld í skóla- og frístundaráði. Þetta er tillaga sem ekkert hefði kostað en gæti haft fyrirbyggjandi áhrif.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. nóvember 2023, við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu tillagna um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí 2022. MSS22010214

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í svari að tillögum sem hafði verið frestað í borgarráði og vörðuðu málaflokkinn var vísað til stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaáætlunar um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára. Fulltrúi Flokks fólksins situr i hópnum. Tillögurnar hafa ekki enn komið til umræðu í hópnum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því hvernig tillögurnar verða meðhöndlaðar í hópnum, hvort einhverjar meiri líkur eru á að þær nái fram að ganga í meðförum hópsins. Hópnum stýra auk þess utanaðkomandi aðilar sem eru e.t.v. ekki alveg innstilltir á þarfir barna í Reykjavík. Ekki skal þó fullyrt neitt um það. Allavega má hópur sem þessi ekki virka eins og einhver ruslakista sem notuð er til að fleygja í erfiðum tillögum sem meirihlutinn treystir sér ekki til að taka á, en spyrja þarf að leikslokum. Sú fyrirspurn sem hér um ræðir snýr að innleiðingu Barnasáttmálans og hvað vanti upp á til að hægt verði að innleiða hann. Mikilvægt er að leggjast yfir innleiðingarferlið og laga það sem þarf að laga til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann. Daglega er brotið á börnum í Reykjavík og er skemmst að nefna að þau fá ekki nauðsynlega sálfræði- og talmeinaþjónustu.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 30. október 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 9. nóvember 2023. MSS23010012

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 8. nóvember 2023. MSS23010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillögu um verklag til að koma í veg fyrir efnissöfnun frá framkvæmdum nálægt íbúabyggð í því skyni að koma í veg fyrir að efni og úrgangur frá framkvæmdum geti staðið um langa hríð nálægt íbúðarbyggð, líkt og hefur átt sér stað á horni Árskóga og Álfabakka í Suður-Mjódd á þessu ári en þar hafa háir haugar af möl og grjóti valdið íbúum tjóni. Fulltrúi Flokks fólksins veit um annað dæmi en við Álfabakka 2a er t.d. malarhaugur þar sem hlaðið hefur verið upp grjóti og möl og virðist sem enginn kannist við hver gaf leyfi. Íbúar hafa lengi reynt að fá upplýsingar um hvað standi til að gera við þennan haug. Ekki er vitað út á hvað núgildandi byggingarleyfi gengur. Af þessum haug er mikil sjónmengun og önnur mengun. Við þurrviðri og þegar blæs vel um svæðið fýkur ryk út um allt og mörgum með öndunarvandamál líður illa. Íbúum finnst skelfilegt að hafa allt þetta grjót svona nálægt blokkinni. 

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 6. nóvember 2023. MSS23010030

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 9. nóvember 2023. MSS23010032

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar:

    Íbúi á Kjalarnesi gerir alvarlegar athugasemdir við kynningarferli á breytingum á aðalskipulagi á Álfsnesi vegna fyrirhugaðs skotsvæðis. Kynningin hefur ekki farið fram skv. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 123/2010. Íbúinn óskar eftir að kynningin fari fram og sé það sérlega mikilvægt vegna áralangra kvartana, athugasemda og kærur íbúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einnig er þess óskað að þessi bókun verði send umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ásamt því að hún fylgi fundargerð þessa fundar. Fulltrúi Flokks fólksins vill hjálpa til í þessu máli og bókar um þetta þess vegna hér.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 14. nóvember 2023. MSS23020174

    Fylgigögn

  15. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 13. og 20. október 2023. MSS23010021

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 13. október:

    Fulltrúar Sósíalista hafa lengi vel gagnrýnt útvistun á grunnþjónustu. Hér er augljóst að útvistun er ekki hagkvæmur kostur en í fundargerð Strætó bs. frá 13. október, 2. lið sem fjallar um útboð, kemur eftirfarandi fram: „Framkvæmdastjóri fór yfir stöðuna og tilboð sem bárust. Fjögur tilboð bárust í þrjá útboðshluta og voru öll þeirra yfir kostnaðaráætlun. Lagt var fram minnisblað frá lögfræðingi félagsins varðandi mögulegar leiðir. Haldnir voru skýringarfundir með lægstbjóðendum í hvern útboðshluta. Verið er að fara ítarlega yfir tilboðin og verður málið tekið upp að nýju á eigendafundi Strætó, mánudaginn 16. október og rætt áfram á vettvangi stjórnar á næsta stjórnarfundi.“ 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið í fundargerðinni frá 20. október: 

    Áfram er rætt um útboð á akstri Strætó og veldur það fulltrúa Flokks fólksins áhyggjum því í raun er ekki vitað meira um hvað þarna stendur að baki. Þó er vitað að fjögur tilboð bárust í þrjá útboðshluta og voru öll þeirra yfir kostnaðaráætlun. Þessi mál eru því snúin. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að einblína á óhófleg ráðgjafakaup og fram kemur að verið sé að leita ráða hjá Mannviti, en Mannvit sá um framkvæmd og undirbúning útboðsins. Er það þannig hjá borginni að enginn geti annast undirbúning útboðs öðruvísi en að kaupa rándýra ráðgjöf?

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. nóvember 2023.

    6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Suðurfell – þróunarsvæði í suðausturhluta Fellahverfis – skipulagslýsing. Fjölmargir mótmæla harðlega þessari tillögu þar sem hér er gengið freklega á græn svæði innan borgarmarkanna. Fjöldi fólks nýtir sér þennan hluta náttúru innan borgarmarkanna m.a. með göngu- og reiðhjólatúrum hvern einasta dag eins og segir í einni athugasemdinni. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað klifað á þá mun Arnarnesvegurinn koma til með að skemma þetta svæði mikið. Ef gripið er niður í fleiri athugasemdir segir: „Borgaryfirvöld hafa þegar stutt gríðarlega umfangsmikla eyðileggingu græns svæðis, eða 11,4 hektara af mikið notuðu útivistar- og náttúrusvæði á Vatnsendahvarfi, sem verður sprengt í loft upp og malbikað yfir til að leggja Arnarnesveg. Fram kemur í athugasemdum að Vinir Vatnsendahvarfs eru á móti þessum framkvæmdum og er þess krafist að græn svæði borgarinnar hljóti viðeigandi vernd, líka þau sem eru í efri byggðum.“ Fulltrúi Flokks fólksins skorar á skipulagsyfirvöld að ljá athugasemdunum eyra og fara ekki gegn straumnum í þessu umdeilda máli.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 8. nóvember 2023. MSS23010025

    Fylgigögn

  18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. MSS23100188

    Fylgigögn

  19. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23100189

    Fylgigögn

  20. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf borgarstjóra, dags. 15. nóvember 2023, varðandi drög að húsnæðisáætlun 2024-2033, ásamt fylgiskjölum.

    Haraldur Sigurðsson og Ívar Örn Ívarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22110233

  21. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í dag barst íbúum á höfuðborgarsvæðinu bæklingur um uppbyggingu íbúða í borginni. Kostnaður við útgáfu bæklingsins árið 2022 nam um 15 milljónum króna með virðisaukaskatti. Óskað er upplýsinga um kostnað við útgáfu bæklingsins árið 2023, þar með talið allan kostnað við umsjón og ritstjórn, hönnun og umbrot, prentun og dreifingu, auk annars sem til fellur við vinnslu bæklingsins. MSS22110233

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  22. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um fjölda tilfella þar sem gripið hefur verið til lokana leikskóladeilda í Reykjavík, vegna fáliðunar. Þess er óskað að tilfellin verði talin í leikskóladögum, sundurliðuð eftir leikskólum. Jafnframt er óskað upplýsinga um fjölda leikskólabarna sem lokanir hafa haft áhrif á. MSS23110115

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs. 

  23. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fáni Palestínu verði dreginn að húni við Ráðhús Reykjavíkur til að sýna samstöðu með íbúum í Palestínu. MSS23110111

    Frestað.

  24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um stöðu mála við endurgerð Laugardalslaugar en skýrsla um endurgerð laugarinnar og tengdra mannvirkja var lögð fram á fundi borgarráðs 10. júní 2022. Þá var lagt til að efna til opinnar tveggja þrepa hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um endurgerð Laugardalslaugar og tengdra mannvirkja og áætlað var að niðurstaða dómnefndar lægi fyrir 2023. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað sé að frétta en í skýrslunni voru margar áhugaverðar hugmyndir. Áberandi samhljómur var t.d. um að Laugardalslaug ásamt stúkumannvirki verði lýðheilsu- og menningarmiðstöð. Benda má á vannýtt svæði í kjallara stúkubyggingar, norðurhluta hennar auk gömlu afgreiðslunnar í aðalbyggingu. Endurhugsa á stúkuna og þar yrði t.d. tilvalið að koma fyrir ýmiss konar afþreyingu. Stúka Laugardalslaugar er eitt af kennileitum borgarinnar en nýtist ekkert. MSS22050193

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um framtíð skólabókasafna í Reykjavík og hvort hægt sé að ganga út frá því að þau lifi áfram í þeirri mynd sem þau eru. Skólabókasöfn gegna mikilvægu hlutverki. Þangað koma börn á öllum tímum dags. Ýmist í hléi milli kennslustunda, í frímínútum, eftir skóla og jafnvel áður en skóladagurinn hefst. Þangað fara heilu bekkirnir til að brjóta upp kennslustundir og njóta bókmennta í hlýlegum aðstæðum skólabókasafna. Í kjölfar ákvörðunar meirihlutans að leggja niður Borgarskjalasafn myndaðist ótti hjá mörgum um að það væri aðeins upphafið af röð niðurlagninga bókasafna og þeim ætti frekar að steypa saman á einhverjum fáum stöðum í borginni. Um leið og skólabókasafn fer út úr skólanum er það ekki lengur skólabókasafn og nýting þess gjörbreytist. Þá eru börn ekki að skjótast inn til að lesa eða skoða bók þegar mínúta gefst inn á milli á skólatíma, hvað þá að koma við í byrjun eða lok skóladags. MSS23110112

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fundi borgarráðs 16. nóvember var lögð fram skýrsla um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhuga á að vita hvað þessi skýrsla kostaði með tilheyrandi vinnu sem hún krafðist. MSS23020131

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Fundi slitið kl. 11:45

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 16.11.2023 - Prentvæn útgáfa