Borgarráð - Fundur nr. 5717

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 28. september, var haldinn 5717. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram trúnaðarmerkt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-júlí 2023.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki nýtt skipulag fjármála- og áhættustýringarsviðs og 13 tillögur að breyttri skipan verkefna á sviði fjármála, innkaupa og áhættustýringar, ásamt hjálagðri tillögu að stefnu fjármála- og áhættustýringarsviðs. Í skipulagsbreytingunum er skerpt á hlutverki sviðsins og í þeim eru áherslubreytingar sem fela í sér sterkara umboð og skýrara eftirlitshlutverk með fjármálum og fjármálastjórn borgarinnar. Tilfærslur verkefna á milli sviða innan Reykjavíkurborgar hafa það að markmiði að ná fram jafnvægi í umfangi og afmörkun kjarnaverkefna fjármála- og áhættustýringarsviðs. Tillagan felur jafnframt í sér flutning verkefna frá sviðinu sem hafa skýrari skírskotun til annarrar starfsemi innan borgarinnar. Tilflutningur verkefna myndi efla þau og á sama tíma veita fjármála- og áhættustýringarsviði svigrúm til að þróa fjármálaþjónustu borgarinnar enn frekar á næstu árum.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir, Hörður Hilmarsson og Arnar Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 26. september 2023, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta. Greinargerð fylgir tillögunum.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Jón Valgeir Björnsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23030049

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Af þessum viðauka má sjá hvað mörg verkefni hafa verið vanáætluð. Í fjölmörgum verkefnum og það stórum og fjárfrekum þarf að hækka fjárheimild vegna þess eins og segir að „umfang verkefna á árinu er meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir“. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það vera gegnumgangandi vandamál að áætlanir eru óraunhæfar. Svo virðist ekki vera neitt mál að fá hækkun, bara búa til viðauka. Sum atriða í þessum viðauka eru víðtæk og opin og erfitt að ná utan um eins og að fjárheimild vegna þéttingar byggðar verði hækkuð um 50 m.kr. og verði 100 m.kr. í stað 50 m.kr. „Samantekið nemur hækkun á heimildum til fjárfestinga 2.204 m.kr. Á móti nemi samanteknar lækkanir fjárfestinga 2.204 m.kr. Nettó breyting fjárfestingarheimilda nema því samtals 0 kr.“

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. september 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samning um afnot af landspildu á Landakotstúni, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Jón Valgeir Björnsson og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010105

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. september 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. september 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðarinnar nr. 9 við Almannadal, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23020066

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. september 2023, varðandi niðurstöður skipulagssamkeppni um Keldur og Keldnaholt, ásamt fylgiskjölum.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23090164

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fagnar því að góður skriður sé á uppbyggingaráformum á Keldum og Keldnaholti í samræmi við stefnu meirihlutans um aukið framboð á íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg og Betri samgöngur stóðu fyrir alþjóðlegri samkeppni um þróun lands í Keldnum og Keldnaholti og vinningstillagan Crafting Keldur var kynnt í vikunni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Keldnaland verður borgarhluti með alla kosti þéttrar og lifandi borgarbyggðar fyrir íbúa og gesti. Að baki vinningstillögunni er sænska arkitektastofan FOJAB og var sænska verkfræðistofan Ramboll í ráðgjafahlutverki. Í tillögunni er lögð áhersla á að einfalt sé fyrir íbúa að lifa sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi vegna nálægðar við náttúruna, með grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum og grænu skipulagi sem kjarnast í kringum borgarlínustöðvar svæðisins.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. september 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki sölu á lóðarskika vegna Laugavegar 157, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23090110

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar vegna lífsgæðakjarna framtíðarinnar.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040200

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Lífsgæðakjarnar er heiti yfir nýja nálgun á húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðum og leiguíbúðum er raðað saman í aðlaðandi umhverfi með aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa og jafnvel hjúkrunarrými. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir fólks á ólíkum aldri sem og ólíka tekjuhópa. Þá verður að huga að innviðum til þess að styðja við samveru og vinna gegn einangrun og einmannaleika eins og til dæmis sameiginlegri eldunaraðstöðu og svæðum sem henta til fjölbreyttra samverustunda og jafnvel kaffihúsum og veitingastöðum auk góðra leiksvæða sem henta fyrir góðar samverustundir allra kynslóða.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista styður hugmyndafræði lífsgæðakjarna þar sem markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir fólks á ólíkum aldri sem og ólíka tekjuhópa. Í drögum að samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar vegna lífsgæðakjarna framtíðarinnar kemur fram áhersla á að byggja upp í samræmi við húsnæðisáætlun og stuðla að uppbyggingu leigumarkaðar og félagslegri blöndun íbúa. Fulltrúi sósíalista telur húsnæðisáætlun borgarinnar ekki standa á traustum grunni þar sem þörf er á aukinni félagsvæðingu innan þeirrar áætlunar. Í drögum að samningsmarkmiðum kemur einnig fram að að lágmarki 30% íbúða verði hagkvæmar og vistvænar, en að sérstaka áherslu skuli leggja á samstarf með óhagnaðardrifnum uppbyggingarfélögum. Þá skuli Félagsbústaðir eiga kauprétt á a.m.k. 5% íbúða fyrir félagslegt leiguhúsnæði og/eða íbúðakjarna á föstu verði bundið byggingarvísitölu. Fulltrúi sósíalista fagnar uppbyggingu með óhagnaðardrifnum félögum og það þarf að auka hana innan borgarinnar. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að skilgreina betur hvað sé átt við með því að a.m.k. 30% íbúða verði hagkvæmar og vistvænar, þar sem íbúðir geta t.a.m. verið vistvænar en þó ekki hagkvæmar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hugmyndin að baki lífsgæðakjörnum er fín. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur hana er um að ræða eldra fólk á aldrinum 60 ára og upp úr þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform og ólíka tekjuhópa. Um er að ræða kjarna þar sem aðgengi er að fjölbreyttri þjónustu og þar á jafnvel að vera hjúkrunarrými. Þessi tillaga borgarstjóra og hans fólks er í góðu samræmi við tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í desember 2021 um skipulagða byggð fyrir eldra fólk með áherslu á „að eldast á sínu eigin heimili“. Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að takast á við. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsnæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð. Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að horfa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíku er hægt að styðja fólk við að eldast heima. Þessi tillaga Flokks fólksins var felld af meirihlutanum en aðrir í minnihlutanum sátu hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að hefja viðræður við eftirfarandi fimm aðila vegna hugmynda um þróun lífsgæðakjarna á lóðum þeirra í samræmi við samningsmarkmið borgarinnar: Reitir – vegna Loftleiðareits, Köllunarklettur – vegna Köllunarkletts, Íþaka – vegna Stórhöfða, Þorpið – vegna Ártúnshöfða 2, Klasi hf. – vegna Ártúnshöfða 1, norður Mjódd og Álfheima. Samráð verði haft við umhverfis- og skipulagsráð varðandi skipulagsþátt málsins og heilbrigðisráðuneytið varðandi hugsanlega staðsetningu hjúkrunarheimila á viðkomandi reitum. Niðurstöður viðræðna verða lagðar fyrir borgarráð til samþykktar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22040200

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 26. september 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. september 2023 á tillögu að viðauka við samstarfssamning Reykjavíkurborgar og Menningarfélagsins Tjarnarbíó, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    María Rut Reynisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOF23010075

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tjarnarbíó hefur um árabil verið í forystu sjálfstæðra sviðslista í borginni en tvísýnt hefur verið um áframhaldandi starfsemi ef ekki kæmi til viðbótarstuðningur. Reykjavíkurborg og ríkið hafa nú samþykkt að leggja fram viðbótarframlag til að styrkja reksturinn á yfirstandandi leikári en á sama tíma verður ráðist í greiningu á því hvernig megi bæta aðstöðu og rekstur sjálfstæðra sviðslista á höfuðborgarsvæðinu til lengri tíma.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður með að styðja eigi við Tjarnarbíó. Tjarnarbíó er þáttur í lífi og menningu hóps Íslendinga. Reyndar er brýnt að finna framtíðarlausn fyrir sviðslistir svo ekki þurfi að vera að plástra endalaust.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi heilsustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg og þær þrjár aðgerðir sem áætlað er að komi til framkvæmda á árinu 2024 sem eru hækkun á heilsuræktarstyrk, hækkun á samgöngustyrk og stofnun stuðnings- og ráðgjafateymis. Ekki er verið að samþykkja fjármögnun þeirra fjögurra aðgerða sem lagt er til að komi til framkvæmda á næstu árum sem eru hollur matur fyrir alla, heilsufarsmælingar, stoðkerfisráðgjöf inn á starfsstaði og hjóla- og sturtuaðgengissjóður en leitast verður eftir að fjármagna þær við gerð fjárhagsáætlana á næstu árum.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS22080017

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er samþykkt fyrsta heilsustefna vinnustaðarins Reykjavíkurborg með það að markmiði að efla líkamlega, andlega og félagslega heilsu starfsfólks. Sumir þættir stefnunnar krefjast viðbótarfjárheimilda og þarf að útfæra nánar og áfangaskipta í tengslum við fjárhagsáætlunargerð.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þegar unnið er að því að efla heilsu þarf að líta til allra þátta sem hafa áhrif á heilsuna líkt og starfsaðstæður og tryggja þarf að þær séu eins góður og kostur er. Hér eru lagðar fram þrjár aðgerðir sem áætlað er að komi til framkvæmda á árinu 2024 sem eru hækkun á heilsuræktarstyrk, stofnun stuðnings- og ráðgjafateymis og hækkun á samgöngustyrk þar sem lagt er til að hann hækki í skrefum og hækki í 7.500 kr. árið 2024. Fulltrúi sósíalista telur eðlilegt að samgöngustyrkur miðist við kostnað Klapps kortsins sem gildir í strætó og er nú 9.300 krónur fyrir 30 daga kort. Þá er einnig mikilvægt að annað sem starfsfólk hefur verið að kalla eftir komi til framkvæmda, líkt og læst hjólaaðstaða ásamt sturtuaðstöðu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður þessar tillögur og tekur undir þau sjónarmið að fjármagni sé veitt í tillögur um heilsu- og samgöngustyrk og að ráðgjöf skili sér til baka. Tekið er undir þau sjónarmið að veikindi og fjarvistir á vinnustað eru í beinum tengslum við stjórnendafærni. Það er mannskemmandi að vera á vinnustað sem stýrt er af vanhæfum stjórnanda sem jafnvel beitir starfsfólk sitt ofbeldi af einhverju tagi. Iðulega hefur það sýnt sig að stjórnandi kemst upp með svoleiðis háttalag jafnvel árum saman. Leiða má sterkum líkum að því að ef lögð er áhersla á að fræða og þjálfa stjórnendur muni verulega draga úr fjarvistum. Standi stjórnandi sig ekki sem skyldi og meirihluta starfsmanna líður illa á vinnustaðnum þá hlýtur að þurfa að skoða að losna við viðkomandi stjórnanda. Vissulega eru þessi mál ekki einhlít og geta þau verið afar flókin. Þess vegna þarf að vanda hvert skref. Hvað sem öllu líður er ekki hægt að líta framhjá niðurstöðum rannsókna sem sýnt hafa ítrekað að rekja megi óánægju og vanlíðan með tilheyrandi fjarvistum til stjórnanda/stjórnenda. Ábyrgð stjórnenda er mikil því þeir hafa það hvað mest í hendi sér hvort starfsfólk upplifi vellíðan í starfi.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki uppfærða viðverustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23040002

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að styðja starfsfólk og skapa góðar starfsaðstæður. Vitað er að langtímaálag og streita vegna undirmönnunar og undirfjármögnunar ýta undir langtímaveikindi sem og önnur veikindi. Neikvæð áhrif streitu á ónæmiskerfið eru vel þekkt vísindi. Mikilvægt er að manna fjarveru vegna styttingar vinnuvikunnar til að draga úr álagi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjarvera vegna veikinda starfsfólks hefur aukist undanfarin 5 ár og eru án efa margar skýringar á því. Viðverustefnan hefur það að markmiði að hlúa að starfsfólki en einnig að draga úr veikindafjarvistum með „markvissu aðhaldi og stuðningi af hálfu stjórnenda“ eins og segir í gögnum. Þessi mál eru viðkvæm. Fólk á sína veikindadaga samkvæmt kjarasamningi og ef rekja má vanlíðan til vinnustaðarins með einhverjum hætti t.d. vegna ofbeldis, eineltis eða óheyrilegs vinnuálags koma þessir dagar til góða til að hvílast og hlaða batteríin. Vísað er í þessu sambandi í kannanir sem gerðar hafa verið á ofbeldi á vinnustöðum borgarinnar. Álag eða vandamál á vinnustað eru líkleg til að leiða til líkamlegra veikinda enda eru sál og líkami nátengd. Flokkur fólksins vill að stigið sé varlega til jarðar í þessum málum. Ef mikið er um veikindafjarvistir hlýtur fyrsta skrefið að vera að kanna hvort vinnustaðurinn sé óheilbrigður áður en farið er í að breyta fyrirkomulagi, verkefnum starfsmanns eða öðru. Milli stjórnanda og starfsmanns er aldrei jafnræði enda sá fyrri yfirmaður hins. Mikilvægt er að bjóða starfsmanni að hafa með sér í viðverusamtal annan aðila sem hann velur sjálfur til að vega upp á móti valdaójafnvægi.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði að ganga til endurnýjunar samninga við sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla á grundvelli fyrirliggjandi samninga auk eftirfarandi samningsmarkmiða vegna samningaviðræðna við Samtök sjálfstætt starfandi skóla sem borgarráð gerir kröfu um. Samningsmarkmið hafa tekið breytingum með hliðsjón af meðfylgjandi umsögnum: 1. Ekki verður gerð breyting á ákvæðum um innheimtu skólagjalda/námsgjalda í samræmi við viðbrögð Samtaka sjálfstætt starfandi skóla í umsagnarferli samningsmarkmiða. Heildarframlög taka því jafnframt mið af sama grunni og áður, ákvæðum grunnskólalaga og eldri samningum um leikskóla. 2. Þeir skólar sem gera þjónustusamninga við Reykjavíkurborg taka mið af stefnumótun Reykjavíkurborgar, þar með talið menntastefnu og mannréttindastefnu. Reykjavíkurborg vill stefna að traustum starfsskilyrðum sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla í borginni sem skapa fyrirsjáanleika, gagnsæi, jafnræði og stöðugleika í rekstri þeirra til lengri tíma og gerir þeim kleift að haga starfi sínu í samræmi við lög, reglugerðir, kjarasamninga, Græna planið og menntastefnu Reykjavíkurborgar. 3. Reykjavíkurborg vill taka upp samræmt umsóknar- og innritunarkerfi fyrir leikskóla- og grunnskólaþjónustu í borgarreknum og sjálfstætt starfandi skólum sem borgin er með þjónustusamninga við. 4. Börn með lögheimili í Reykjavík njóti forgangs umfram börn úr öðrum sveitarfélögum að lausum plássum hjá sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum til samræmis við ákvæði þjónustusamninga. Eldri börn njóti forgangs umfram yngri í leikskólum, nema þegar um sérstaka ungbarnaleikskóla er að ræða. 5. Framlög til sjálfstætt starfandi leikskóla vegna leikskólaþjónustu verði endurskoðuð. Launaliður og aðrir rekstrarliðir verði tengdir fastri fjárhæð og launaliður taki breytingum skv. kjarasamningum. Húsnæðisframlag miðist við ákveðna fjárhæð pr. m2 og taki breytingum skv vísitölu. 6. Reykjavíkurborg gerir kröfu um að rekstrarafgang af starfsemi leikskólans sem rekja má til opinberra fjárveitinga skuli nýta til að þróa leikskólaþjónustu skólans í samræmi við reglur um grunnskóla. 7. Reykjavíkurborg gerir kröfu um að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar séu með nauðsynlegar og viðeigandi tryggingar. 8. Reykjavíkurborg gerir kröfu um að sjálfstætt starfandi skólar sem gera þjónustusamninga við Reykjavíkurborg skili endurskoðuðum ársreikningi og ársskýrslu starfseminnar fyrir 1. maí ár hvert til samræmis við ákvæði reglugerðar 1150/2018 um sjálfstætt rekna grunnskóla.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi breytingartillögu á lokamálslið 6. lið tillögunnar: 

    Reykjavíkurborg gerir kröfu um að rekstrarafgang af starfsemi leikskólans sem rekja má til opinberra fjárveitinga skuli nýta til að þróa leikskólaþjónustu skólans með sama hætti og gildir um sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík.

    Breytingartillagan er samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Tillaga borgarstjóra er borin upp til atkvæða svo breytt.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

    Helgi Grímsson og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23090108

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistar hefðu vilja sjá að girt hefði verið betur fyrir arðgreiðslur en í tillögunni kemur fram að „Reykjavíkurborg gerir kröfu um að rekstrarafgang af starfsemi leikskólans sem rekja má til opinberra fjárveitinga skuli nýta til að þróa leikskólaþjónustu skólans með sama hætti og gildir um sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík.“ Þá telja sósíalistar einnig mikilvægt að ekki sé tekið gjald fyrir skólaþjónustu þannig að öll menntun verði gjaldfrjáls.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. september 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2023 á tillögu um fjölda barna í leikskólanum Brákarborg, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23080106

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, skrifstofustjóra á velferðarsviði, sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í starfshóp til að finna lausn á þeim ágreiningsmálum sem uppi eru á milli Sjómannadagsráðs og Skjóls en þau snúa að breytingum á skipulagsskrá, lóðarleigusamningum, skipulagi lóða og fleiru. Hlutverk fulltrúa Reykjavíkurborgar í hópnum er að leiða vinnuna og miðla málum samanber hjálagt erindi stjórnar og fulltrúaráðs Skjóls, dags. 21. september 2023.

    Samþykkt. MSS23050116

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 20. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lokun skólabygginga fyrir þeim sem ekki eiga þangað erindi, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september 2023. MSS23090082

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst virðist að allir eru á svipaðri blaðsíðu í þessum málum og hefur margt verið gert til bóta. Eftir lestur svars eru þó nokkur atriði sem koma upp í huga fulltrúa Flokks fólksins og þá hvort allir þeir sem vinna í þessum málum séu að tengjast nægjanlega vel. Að hver og einn aðili sé ekki að vinna í sínu horni. Kannski þurfa þessi mál að vera að einhverju leyti miðlæg en síðan einnig í höndum sérhvers skóla að útfæra nánar enda aðstæður skóla mismunandi. Skólar eru einnig misbúnir fjárhagslega í þessu sambandi. Fræðsla og fræðsluefni um ofbeldi er vissulega mikilvægt nemendum en eins og fram kemur í fyrirspurninni er ekki síður verið að hugsa um utanaðkomandi aðila sem hvorki eiga erindi í skóla né eru velkomnir þangað ef orða má svo. Þeir einu sem eiga erindi í skóla eru starfsfólk, börnin og foreldrar. Aðrir sem eiga erindi s.s. sem á fundi hafa fengið um það boð. Aðgengi er enn mjög auðvelt í marga skóla þrátt fyrir að margir hafi gert ákveðnar ráðstafanir. Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á talnalása og hefur margsinnis talað fyrir öryggismyndavélum sem ávallt hafa ákveðinn fælingarmátt. Enn er starfandi hópur frá 2019 og hefur skilað tillögum. Hann er enn að störfum en ekki liggur fyrir hvert er hlutverk hans nú.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar Ljósleiðarans, dags. 22. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um starfslokakjör framkvæmdastjóra Ljósleiðarans, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. ágúst 2023. MSS23080128

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 21. september 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 20. september 2023. MSS23010029

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 18. september 2023. MSS23010036

    Fylgigögn

  21. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 31. maí, 26. júní, 14. og 28. ágúst 2023. MSS23010018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar frá 26. júní:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur eftir að Orkuveitan hefur tekið upp nýtt starfsheiti, umhverfisgyðja. Fulltrúi Flokks fólksins er forvitin um hvert skilgreint starfssvið umhverfisgyðju er og hvert sambærilegt starfsheiti væri, ef starfið væri skipað karli, er það þá umhverfisgoð? En hvað með ef hán? Er það þá umhverfishán? Fulltrúi Flokks fólksins mun senda inn formlega fyrirspurn til að svala þessari forvitni en fagnar á sama tíma auðvitað hugmyndaauðgi og allri fjölbreytni.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15. september 2023. MSS23010021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

    Óttast er að ívilnun vegna virðisaukaskatts á rafmagnsvögnum verði felld niður um áramót sem er hið versta mál. Rétt væri að Reykjavíkurborg ásamt Strætó bs. myndi mótmæla þeirri ákvörðun af krafti.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. MSS23090015

    Fylgigögn

  24. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23090013

    Fylgigögn

  25. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgaryfirvöld komi á skilgreiningu og viðmiði um það hvað megi teljast sem hagkvæmt húsnæði. Hún verði bundin við ákveðið hlutfall af markaðsverði eða vísitölu byggingarkostnaðar. Skilgreiningin feli í sér að hagkvæmnin sé skilgreind út frá forsendum þeirra sem kaupa eða leigja viðkomandi húsnæði. MSS23090180

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Fylgigögn

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um aðkeypta ráðgjöf Reykjavíkurborgar á tímabilinu 2019-2023. Upplýsingarnar óskast sundurliðaðar eftir sviðum/skrifstofum þar sem fram kemur hvaða ráðgjöf er keypt, af hverjum og fjárhæð kaupanna. MSS23090179

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Árið 2021 var ákveðið að fara í styttingu vinnuvikunnar. 1. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig aðgerðin stytting vinnuvikunnar gekk hjá Reykjavíkurborg og hvort útfærslu sé ólokið á einhverri stofnun. 2. Aðgerðinni var fagnað en óttast var að með breytingunni þegar um er að ræða vaktavinnu, myndi að óbreyttu verða til stórt mönnunargat. Aðgerðin var flókin enda þurfti ekki aðeins að breyta vaktaplaninu heldur einnig forritum sem halda utan um launamál. Vinnutímastyttingin sjálf var einfaldari. Hvernig hefur gengið að stoppa í það gat nú þegar um tvö ár eru liðin frá aðgerðinni? 3. Skilaboð með aðgerðinni, stytting vinnuviku hjá dagvinnufólki, var að hún mætti ekki kosta. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað aðgerðin kostaði þegar upp var staðið, hjá dagvinnufólki annars vegar og hjá vaktavinnufólki hins vegar. MSS23090177

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað margir skólar í Reykjavík kenna samkvæmt aðferðinni byrjendalæsi. Hver var kostnaðurinn við innleiðingu aðferðarinnar og hver er árlegur kostnaður hvers skóla eftir innleiðingu fyrsta ársins og hver er árlegur kostnaður í heild sinni er eftir það? Er árangur í lestri betri í þeim skólum sem nýta byrjendalæsi heldur en í þeim skólum sem gera það ekki? Er það á valdi skólastjóra í hverjum skóla hvaða aðferð við lestrarkennslu verður fyrir valinu? Hver hefur árlegur kostnaður Reykjavíkurborgar við sérkennslu verið síðustu fimm ár sundurliðaður frá ári til árs? MSS23090178

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur eftir að Orkuveitan hefur tekið upp nýtt starfsheiti, umhverfisgyðja, eins og fram kemur í 6. lið fundargerðar stjórnar Orkuveitunnar frá 26. júní. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um starfssvið umhverfisgyðju og hvert sambærilegt starfsheiti væri, ef starfið væri skipað karli, er það þá umhverfisgoð? En hvað með ef hán? Er það þá umhverfishán? MSS23010018

    Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.

Fundi slitið kl. 12:20

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 28.09.2023 - Prentvæn útgáfa