Borgarráð - Fundur nr. 5716

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 21. september, var haldinn 5716. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08:10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. september 2023:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.840 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,68%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.538 m.kr. að markaðsvirði og samþykki tilboð að nafnvirði 2.040 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 9,78% í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 1.034 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 20. september 2023.

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

  -    Kl. 8:15 tekur Pawel Bartoszek sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22120008

  Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Enn einu sinni þarf Reykjavíkurborg, undir stjórn núverandi meirihluta, að fjármagna sig með lántökum. Þótt fulltrúar Sjálfstæðisflokks telji jákvætt að borginni takist að fjármagna sig á markaði, lýsa þau hins vegar ríkum áhyggjum af þeim síversnandi kjörum sem borginni bjóðast. Nú á níunda mánuði ársins hefur Reykjavíkurborg nánast fullnýtt heimildir sínar til lántöku. Vegna fjármálastjórnar Reykjavíkur hefur borgin neyðst til að taka að láni að meðaltali tvo milljarða króna hvern mánuð ársins. Nú þegar þrír mánuðir eru eftir af árinu eru heimildir til lántöku einungis rétt rúmir tveir milljarðar. Búið er að þurrausa félög í eigu borgarinnar og engin von til að borgin geti fjármagnað sig með öðrum hætti á næstu mánuðum. Staða Reykjavíkurborgar er því alvarleg til skamms tíma en ekki síður til lengri tíma. Sú staða sem er á markaði sýnir lítil merki þess að vextir muni lækka umtalsvert á næstu misserum og því verða lánskjör áfram erfið. Því er nauðsynlegt fyrir Reykjavíkurborg að fara í raunverulegt aðhald, draga úr fjárfestingum utan grunnþjónustu og fara í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir til að draga úr þörf til skuldsetningar.

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skuldabréfaútboðið sem nú stendur til að ráðast í er dýr fjármögnun og sér í lagi í ljósi síðasta uppgjörs. Reykjavíkurborg getur ekki haldið áfram að fjármagna sig á skuldum. Tiltektar er þörf með það fyrir augum að standa vörð um grunnþjónustu við borgarbúa. Verkefnið er meirihlutanum ofvaxið og ætti hann að staldra við og hugsa hlutina upp á nýtt. Núverandi fjármálaáætlun dugar ekki til.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. september 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. september 2023 á trúnaðarmerktum tillögum að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023.
  Samþykkt.
  Trúnaður er um efni tillagnanna fram að afhendingu viðurkenninganna.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
  Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23010196

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. september 2023, varðandi tillögu um flutning á verkefnum meindýravarna Reykjavíkurborgar til Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
  Guðmundur B. Friðriksson og Þorkell Heiðarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22060049

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða tillögu um að flytja starfsemi meindýravarna Reykjavíkurborgar til Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar. Ef í þessu felst hagræðing, sparnaður, betra skipulag og meiri skilvirkni finnst fulltrúa Flokks fólksins þetta góð tillaga. Ekki er langt síðan Dýraþjónusta Reykjavíkur var sett á laggirnar og þangað fluttist málaflokkur m.a. hunda og katta. Verkefnum tengdum hundum í það minnsta hefur snarfækkað og má ætla að meira svigrúm sé hjá Dýraþjónustunni að bæta við sig verkefnum ef þar á að vera sami fjöldi starfsmanna.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að hefja undirbúning að endurskoðun deiliskipulags annars áfanga nýs Landspítala við Hringbraut. Þá verði unnið að því að útfæra og staðsetja nýtt húsnæði geðþjónustu Landspítalans, sbr. þarfagreiningu og niðurstöðu stefnumótunar um það. Þar er uppbygging á svæði nýs Landspítala fyrsti kostur en raunhæfni þess þarf að rýna. Skipaður verði hópur sem haldi á skipulags- og samgönguþætti verkefnisins, auk borgarhönnunar, en einnig skilgreindir tengiliðir frá eignaskrifstofu vegna fjárfestingaáætlunar og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara vegna eldri samninga og hugsanlegrar samningagerðar þessu tengt.

  Greinargerð fylgir tillögunni.

  -    Kl. 8:41 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23090090

  Fylgigögn

 5. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5298/2022. MSS22110115

 6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. september 2023, varðandi umsókn um um nýtt lyfsöluleyfi fyrir lyfjabúð að Miklubraut 101, 108 Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. MSS23080111
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 14. september 2023. MSS23010012

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

  Björgun hyggst sækja um breytingar á gildandi leyfum til efnistöku af hafsbotni í Kiðafellsnámu í Hvalfirði. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi bókun: „Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur telur að nauðsynlegt sé að reglubundið eftirlit verði haft með áhrifum á lífríki, hafsbotn og hafstrauma vegna námuvinnslu í Kiðafellsnámu í Hvalfirði.“ Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þessa ályktun.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 12. september 2023. MSS23010027

  Fylgigögn

 9. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 14. september 2023. MSS23010032

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Íbúar hafa miklar áhyggjur af umgengni og skipulagi á Esjumelasvæðinu. Sjálfsagt er að reyna að gera svæðið sómasamlegt í útliti og skipulagi. Þarna þarf t.d. að planta skjólbeltum og mynda hlýlegra svæði en nú er.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. september 2023. MSS23010033

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

  Í fundargerð kemur fram að íbúar óska enn og aftur að dregið verði úr hættu af umferð með einföldum aðgerðum. Að þessu sinni beinast sjónir að Suðurlandsbrautinni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á Laugarásveginn þegar kemur að umferðaröryggismálum en þar er umferðaröryggi mikið. Þegar ekið er inn Laugarásveginn á bíl með búnaði sem sýnir hraðahámark götu má sjá að gatan er merkt sem 50 km gata en gatan er nú skilgreind 30 km gata. Ljóst er að gera þarf skurk í merkingum við Laugarásveginn.

  Fylgigögn

 11. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 27. júní og 11. ágúst 2023. MSS23010016

  Áheynarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 27. júní:

  Fram kemur að fyrirtækið Valcon hefur verið að vinna fyrir SORPU undanfarna mánuði. „Stjórn SORPU þakkar Valcon fyrir faglega og góða vinnu við stefnumótun SORPU. Stjórn mun vinna áfram stefnumótun sína á grundvelli vinnu Valcon.“ Gott og vel. Enn kemur það fram að nærri alltaf er leitað til utanaðkomandi ráðgjafafyrirtækja ef eitthvað á að gera.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. september 2023.
  5. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Samkvæmt ferðakönnun haustið 2022 er einkabíllinn yfirgnæfandi mest notaði samgöngumátinn. Það á eftir að vinna mikla vinnu til að aðrir samgöngumátar geti tekið við af einkabílnum. Sem betur fer fjölgar rafbílum gríðarlega. Til stendur að hækka álagningu á rafbíla en ekkert liggur fyrir um ívilnanir. Engu að síður eru orkuskiptin í fullum gangi og vonandi verður ekki bakslag í þeim efnum. Fjölgun bíla kemur ekki á óvart í ljósi þess að ekki er um aðra alvöru valkosti að ræða. Hjólandi vegfarendum hefur vissulega fjölgað en eru engu að síður eingöngu 5%. Ekki allir treysta sér til að hjóla um hávetur í vondu veðri. Ferðum almennt hefur fækkað sem e.t.v. má rekja til þess að í COVID lærði fólk á fjarfundakerfi í stórum stíl og hefur fólk nýtt það síðan. Strætó bs. hefur dregið saman þjónustu sína vegna fjárhagserfiðleika og aðeins 5% íbúa notar strætó sem eru einu almenningssamgöngur borgarinnar. Borgarlína verður ekki raunveruleiki í Reykjavík á komandi árum eftir því sem heyrst hefur í máli fjármálaráðherra. Það hlýtur þess vegna að þurfa að gera eitthvað róttækt til að hressa upp á einu almenningssamgöngurnar sem eru hér.

  Fylgigögn

 13. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 13. september 2023. MSS23010025

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Fulltrúi Flokks fólksins sér á fundargerð að mikill samhljómur er í ráðinu sem fær til sín margar metnaðarfullar kynningar sem vissulega er ekki annað hægt en að hrósa fyrir. Flokki fólksins er þó umhugað um að ráðið beiti sér fyrir að gerð verði úttekt á hvar skóinn kreppi í málefnum aldraðra. Margir eiga nefnilega um sárt að binda bæði vegna fátæktar og aðgengismála. Til að fjölga þeim sem vilja búa sem lengst heima þarf að bæta við og dýpka ákveðna þjónustuþætti, t.d. að aðstoð standi til boða með að flokka og fara út með sorp, hengja upp þvott og fleiri verk sem reyna á jafnvægi og hreyfifærni. Ekki allir eiga fjölskyldu til að hlaupa undir bagga með þeim. Það væri frábært ef öldungaráð myndi ræða þessi mál, bóka og álykta um hvað það vill að meirihlutinn geri betur í málefnum eldra fólks í Reykjavík. Einnig um þá staðreynd að verið er að hækka gjöld á ýmsa þjónustu. Sem betur fer hafa margir það fjárhagslega gott og munar ekki um þessar hækkanir en aðrir eru það bágstaddir að þeir eiga ekki aur til að kaupa gjafir handa barnabörnum sínum. Áhugavert væri að ráðsmenn í öldungaráði tækju afstöðu til mála sem þessara.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. MSS23090015

  Fylgigögn

 15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23090013

  Fylgigögn

 16. Lagðar fram styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
  Öllum styrkumsóknum er hafnað. MSS23050047
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 17. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Fram kom í fjölmiðlum í gær, 20. september, að borgarfulltrúinn Magnús Davíð Norðdahl, formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og nefndarmaður í velferðarráði, geti í engu um hagsmuni sína vegna málefna flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. Hefur borgarfulltrúinn komið að úthlutun fjármuna til verkefna sem tengjast fólki í fyrrnefndri stöðu í þeim ráðum sem hann situr? Ef svo er, hve oft og hve háar fjárhæðir er um að ræða? Einnig er óskað yfirlits yfir þegar borgarfulltrúinn hefur ályktað eða bókað um málefni flóttafólks eða umsækjenda um alþjóðlega vernd í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði og velferðarráði. MSS22060124

 18. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Líkt og fram kom í fjölmiðlum í gær, 20. september, er það áhyggjuefni að borgarfulltrúinn Magnús Davíð Norðdahl, formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og nefndarmaður í velferðarráði, hafi leitast við að dylja hagsmuni sína í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd með því að geta þess í engu að hann sé launaður fyrirsvarsmaður fólks í þeirri stöðu. Borgarfulltrúinn getur trauðla setið í þeim tveim ráðum Reykjavíkurborgar sem fjalla hvað mest um málefni þess fólks. Óskað er því eftir áliti borgarlögmanns um hæfi borgarfulltrúans og hvort eðlilegt sé að skipa borgarfulltrúann í þá stöðu að draga megi óhlutdrægni hans í efa. Því markmið okkar hlýtur að vera að stuðlað sé að vandaðri ákvörðunartöku, trúverðugleika og því að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé hlutlæg og málefnaleg. MSS22060124

 19. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins leggur til að skólayfirvöld boði til fundar með skólasamfélaginu í Reykjavík til að ræða þróunarverkefnið Kveikjum neistann og hvort áhugi sé á að innleiða það í einhverja skóla Reykjavíkur t.d. í tilraunaskyni. Jafnframt er lagt til að forsvarsmönnum verkefnisins verði boðið á fundinn til að kynna verkefnið og þróun þess. Til þessa hefur enginn grunnskóli í Reykjavík haft samband við skrifstofu skóla- og frístundasviðs og lýst yfir áhuga á verkefninu Kveikjum neistann sem Grunnskóli Vestmannaeyja hefur tekið þátt í ásamt Rannsóknasetri um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands. Þetta kom fram í svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hversu margir grunnskólar í Reykjavík hafi sýnt verkefninu áhuga og haft samband við skóla- og frístundasvið vegna þess. Draga má þá ályktun af þessu að skólar í Reykjavík þekki ekki verkefnið og væri því vert að halda kynningarfund fyrir kennara og skólastjórnendur þar sem forsvarsmenn Kveikjum neistann gætu kynnt verkefnið og þróun þess og svarað spurningum.

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23090125

 20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Búið er að taka niður lyfturnar og staurana í skíðabrekkunni í Breiðholti og talað er um að hefja landmótun á Vetrargarðinum og undirbúning fyrir Arnarnesveg. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort þetta þýði að lyfturnar verði ekki í notkun næsta vetur og þá kannski ekki heldur veturinn þar á eftir, þótt varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins hafi lofað því í nýlegri færslu á Facebook.Hvenær geta íbúar vænst þess á ný að nýta skíðabrekku hverfisins?

  Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23090121

 21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Hefur lagning gönguskíðabrautar á grónu svæði (mön) fyrir ofan Jaka-, Jóru- Kalda- og Klyfjasel verið rædd sérstaklega við íbúa, og þá sérstaklega þá sem búa næst fyrirhugaðri skíðagöngubraut? Flestir íbúar vilja að umrætt náttúrusvæði, verði látið í friði og frekar gróðursett tré á svæðinu í stað þess að ryðja gróður til að útbúa gönguskíðabraut alveg upp við garða íbúa. Í litprentuðum bæklingi sem Reykjavíkurborg dreifði í júlí 2021 eru m.a. tvær myndir, önnur teiknuð en hin mynd af korti, sem sýna væntanlegan Vetrargarð og næsta nágrenni. Þar má sjá að gera á gönguskíðabrautir rétt fyrir ofan Jaka-, Jóru- Kalda-, Klyfjasel og fleiri nærliggjandi Sel sem gætu skaðað hið vel gróna svæði milli efstu lóðanna og væntanlegs Arnarnesvegar. Verður trjágróðri, sem íbúar hafa gróðursett á síðustu áratugum, til að rækta upp þetta dýrmæta græna svæði, rutt í burt fyrir þessar gönguskíðabrautir? Þessi mön milli íbúabyggðarinnar og vegarins mun að einhverju leyti vernda íbúa fyrir hávaða og mengun frá tilvonandi Arnarnesvegi, og því gríðarlega mikilvægt að hlúa vel að gróðri og náttúru á þessu svæði. Fyrirspurninni fylgir skýringarmynd.

  Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23090122

 22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Óskað er eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði um þau börn sem hafa sótt um í Klettaskóla og Brúarskóla vegna skólaársins 2023 og 2024 og ekki fengið skólavist þar. Óskað er upplýsinga einnig vegna skólaársins 2021 og 2022. Beðið er um upplýsingar um fjölda, lögheimilissveitarfélag og helstu ástæður synjunar. Hvernig er þjónustuþörf barna með mikla þjónustuþyngd mætt í hverfisskóla ef um er að ræða börn með lögheimili í Reykjavík? Hver er munurinn kostnaðarlega séð að veita barni þjónustu í Klettaskóla og Brúarskóla samanborið við að veita sérþjónustuna í heimaskóla?

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23090123

 23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig Reykjavíkurborg hyggst bregðast við niðurstöðum skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar kemur að kvörtunum um einelti og ofbeldi svo og ferli um viðbrögð við einelti og ofbeldi. Það þarf að endurmeta og skýra hlutverk meðal annars og spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort Reykjavíkurborg muni taka þátt í þeirri vinnu. Reykjavíkurborg er einn af rekstraraðilum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með 18% hlut. Stjórn og framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands óskuðu í byrjun þessa árs eftir að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á hljómsveitinni. Meðal niðurstaðna er að í hljómsveitinni hefur starfsfólk liðið ofbeldi og kynþáttafordóma. Upplifanir um vanvirðingu, fordóma, kynferðisofbeldi og fleira af því tagi er lýst í skýrslunni.

  Vísað til umsagnar stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. MSS23090124

 24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Óskað er upplýsinga um kostnað við verkefni frá 1-7 í kosningu Hverfið mitt í Breiðholti. Flokkur fólksins hefur áður spurt um vúlgar stigann í Breiðholti sem lenti í 8. sæti í kosningunni Hverfið mitt og hvort verkefnin sem voru í sæti 1 til 7 hefðu verið framkvæmd en þau voru jólaljós í tré og jólaljós við Seltjörn, nýjar ruslatunnur, bætt lýsing í hverfið, gróðursetning trjáa, Ærslabelgur og trampólíngarður. Í svari segir að fjárheimildir, 130 m.kr., hafi rúmað stigann, kr. 36 m.kr. sem hafnaði í 8. sæti. Ekki er getið um hvað hin verkefnin kostuðu. Gefið er í skyn í svari að verkefni 1-7 á vinsældarlistanum hafi öll verið framkvæmd. Í ljós hefur komið að það er mögulega alls ekki rétt. Hvergi bólar t.d. á bættri lýsingu og nýjum tunnum, í það minnsta kannast íbúar ekki við það. Í framhaldi má spyrja af hverju er sagt að þessi verkefni hafi verið framkvæmd þegar þau hafa ekki verið framkvæmd.

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS23090126

 25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja til að íbúalýðræði verði útvíkkað. Kominn er tími til að skoða íbúalýðræðiskosningar í anda Hverfið mitt. Slík kosning myndi þá ná yfir fleiri þætti en bara stíga og steypu. Hér er átt við kosningu sem fengi nýtt heiti í samræmi við tilganginn og markmiðið. Um verði að ræða kosningu verkefna sem næðu yfir mannréttindamál eins og það að spyrja hvaða biðlista íbúar vilja helst sjá minnka eða hvar íbúar telja að skóinn kreppi mest þegar kemur að þjónustu við íbúa. Nú eða hvaða stafrænu lausnir íbúar vilja að verði innleiddar fyrst.

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS23090127

 26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um árlegt hundagjald í Reykjavík og hvað margir hafa borgað það frá því að breytingar voru gerðar á fyrirkomulaginu fyrir um tveimur árum (upplýsingar per ár). Árið 2021 var ákveðið að stofna Dýraþjónustu Reykjavíkur til þess að fara með málefni hunda og katta í borginni. Þá var einnig ákveðið að árlegt hundagjald yrði lækkað til þriggja ára um 40% í von um aukna skráningu en skráningin sjálf kostar ekkert. Þegar þessar breytingar voru gerðar var farið að draga úr skráningum. Væntingar meirihlutans voru að eftir þessar breytingar myndu fleiri hundaeigendur skrá dýrin sín og greiða árlegt hundagjald. Hundagjaldið var þá 11.900 krónur í stað 20.800 króna áður og kostnaður við handsömun hunds var 30.200. Nú hefur gjaldið verið hækkað í kr. 15.700 og handsömunargjaldið er 34.000 krónur.

  Vísað til umsagnar menningar- og íþróttasviðs. MSS23090128

 27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Nýlega voru kynntar niðurstöður ferðavenjukönnunar. Þar kemur fram að hlutfall þeirra sem nota strætó stendur í stað, eingöngu 5% íbúa nota strætó. Í könnuninni var spurt um ástæður og eru þær reifaðar í svörum við spurningu 25 í könnuninni. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort framkvæmdastjóri og stjórn Strætó ásamt eigendum byggðarsamlagsins hyggist taka þessar niðurstöður alvarlega og gera þær breytingar sem kallað er eftir til að freista þess að fjölga í hópi viðskiptavina Strætó. Helstu ástæður sem nefndar eru sem ástæða fyrir að fólk vill ekki nota strætó og velur frekar annan ferðamáta eru m.a.: of lítil tíðni, hátt fargjald, löng leið að stoppistöð, löng bið eftir strætó, vandamál með Klappið, langur ferðatími og neikvætt viðmót. Mun fleira er nefnt.

  Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs. MSS23090129

 28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Í ljósi þess að skipulagsyfirvöld og meirihlutinn í borgarstjórn hafa ákveðið að endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, eins og ríkisstjórnin hefur kallað eftir að verði gert, óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvort ekki verði þá skoðað að gera nýtt umhverfismat fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Eina umhverfismatið sem til er nú er 20 ára gamalt. Margsinnis hafa komið beiðnir og tillögur frá Vinum Vatnsendahvarfs um að gert verði nýtt umhverfismat á þessu svæði þar sem fyrirhugaður Vetrargarður á að rísa nánast ofan í hraðbrautinni en því hefur ávallt verið hafnað. Minnt er á dýrmætt lífríki á þessum einstaka stað í borginni. USK23090042

  Lagt fram svohljóðandi svar borgarstjóra:

  Nei.

Fundi slitið kl. 8:59

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Friðjón R. Friðjónsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Pawel Bartoszek Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 21. september 2023 - prentvæn útgáfa