Borgarráð - Fundur nr. 5713

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 31. ágúst, var haldinn 5713. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hálsahverfis vegna lóðarinnar nr. 7-11 við Grjótháls, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060302

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna en eru ósammála því að þrengja heimild umrædds fyrirtækis til að hafa bifreiðastæði á eigin lóð svo verulega, þ.e. um 48% eða úr 252 í 170. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg búi vel að atvinnufyrirtækjum í borginni og þrengi ekki um of að heimildum þeirra til að útvega starfsmönnum og viðskiptavinum nægilega mörg bílastæði. 

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Sósíalista styður þessa tillögu sem felur einna helst í sér að Ölgerðin jafni frárennsli frá verksmiðjunni á álagstímum vegna þess að skólplagnir anna ekki rennsli frá verksmiðjunni. Heilbrigðiseftirlitið hefur farið fram á að frárennslið sé hreinsað áður en það fer út skólpkerfið. Ölgerðin hefur því óskað eftir að reisa allt að 400 m3 jöfnunarþró til þess að jafna frárennsli ásamt hreinsunarbúnaði ofanjarðar, hreinsistöð sem er allt að 180 m2.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ef Ölgerðin telur þessa framkvæmd nauðsynlega og frumkvæði að henni hefur komið frá þeim þá er varla hægt að amast yfir þessu þótt þarna sé vissulega  þrengt verulega að heimild fyrirtækisins til að hafa bifreiðastæði á eigin lóð.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060174

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags.16. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturhafnar – Örfiriseyjar vegna lóðarinnar nr. 1 við Grandagarð, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030342

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Barónsreits vegna lóðarinnar nr. 30 við Skúlagötu, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23070196

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 14 við Hlíðarenda, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060006

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármúla – Vegmúla – Hallarmúla vegna lóðarinnar nr. 6 við Suðurlandsbraut, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050226

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. ágúst 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna Nauthólsvegar 79, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080109

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 29. ágúst 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á Dvergshöfða 27, Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080106

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst 2023 á tillögu um framlag til Tónlistarskóla FÍH, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22050078

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er verið að leggja til að samningur Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla FÍH vegna neðri stiga tónlistarnáms sem rann út þann 31. júlí 2023 verði framlengdur með viðauka til 31. júlí 2024, með þeim hætti að framlög til tónlistarskólans verða óbreytt frá fyrri samningi til 30. september 2023. Frá og með 1. október 2023 til 31. júlí 2024 lækki framlög til tónlistarskólans að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla sem tóku gildi þann 29. júní 2023. Fulltrúi Sósíalista er á móti því að framlögin lækki síðar meir. Hér er einungis verið að fresta því tímabundið að lækkuð framlög vegna tónlistarnáms taki gildi.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. ágúst 2023 á tillögu að viðauka við þjónustusamning við Tónstofu Valgerðar, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22050078

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er einugis verið að samþykkja óbreytt framlög til tónlistarskólans tímabundið. Líkt og kemur fram í erindinu á að hefja formlegt samtal við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og ríkisvaldið um hvernig fjármögnun tónlistarnáms fullorðins fólks með fötlun verði best fyrirkomið til framtíðar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Flokkur fólksins styður heilshugar óbreytta fjármögnun en helst vildi fulltrúi Flokks fólksins að framlög yrðu aukin. Ekki er vitað hvort sé biðlisti í skólann. Tónstofa Valgerðar sinnir fjölþættu hlutverki. Auk tónlistarnáms er hér klárlega einnig um iðju- og virkniþjálfun að ræða. Í Tónstofunni fer fram tónlistarkennsla fyrir nemendur sem vegna fatlana og eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning. Tónstofan er eini tónlistarskólinn á landinu þar sem þessir einstaklingar njóta forgangs. 

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. ágúst 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki stækkun lóðar og afsal lóðarleiguréttinda vegna Einimels 20, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

  Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010033

  Fylgigögn

 12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. ágúst 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki bókun stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 11. ágúst sl. sbr. minnisblað framkvæmdastjóra samtakanna um málefni fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu og áskoranir við fjármögnun málaflokksins, dags. 25. ágúst 2023. Jafnframt er lögð fram skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, dags. í apríl 2022. Í samantekt Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að halli málaflokksins, þ.e. það sem vantar upp á fjármagn frá ríkinu til að standa undir þjónustu borgarinnar við fatlað fólk nemi samtals rúmlega 29 milljörðum á árunum 2018-2022 hjá Reykjavíkurborg og 41,6 milljörðum hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í heild á sama tímabili.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Rannveig Einarsdóttir og Halldóra Káradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080110

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarráð tekur undir bókun stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ítrekar mikilvægi þess að ríkið fjármagni málaflokk fatlaðs fólks að fullu. Mikilvægt er að viðræðum við ríkið ljúki sem fyrst.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi sósíalista tekur undir megininntak bókunar Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en telur þó rétt að áretta eftirfarandi: Hér er rétt að minna á að um er að ræða manneskjur sem eiga rétt á ákveðinni þjónustu og stuðningi en fá ekki alltaf slíkt vegna deilna um fjármögnun á milli stjórnsýslustiga. Það er vissulega óboðlegt að ríkið fullfjármagni ekki þá þjónustu sem manneskjur eiga rétt á. Í umræðunni um fjármögnun hafa íbúar verið smættaðir niður í tölur á blaði og rætt um líf þeirra sem „málaflokk“ og „kostnað við verkefni“. Fatlað fólk á ekki að þurfa að bíða til lengdar eftir þjónustu sem það á rétt á. Ekki er viðeigandi að tala um þjónustu við fatlað fólk sem ástæðu hallareksturs í sveitarfélögum. Í tölum og umfjöllun um rekstrarniðurstöðu vegna þjónustu við fatlað fólk er ekki talað eins mikið um fjölda þeirra sem eru á bið eftir nauðsynlegri þjónustu né hvaða neikvæðu afleiðingar sú bið hefur fyrir þau sem eiga í hlut.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Flokkur fólksins tekur undir bókun Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið hefur vanáætlað stórlega þennan málaflokk og vanfjármagnað hann í kjölfarið um tugi milljarða síðustu ár. Þetta þarf að leiðrétta. Fulltrúi Flokks fólksins er hins vegar ekki bjartsýnn í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin talar og hagar sér í þessum málum. Gagnrýnt er það sem kemur fram í kostnaðarþróun NPA samninga þar sem segir „Í frumvarpinu kemur ekki fram í hverju sú hagræðing felst sem ætlað var að ná hjá sveitarfélögunum með því að gera NPA samninga. Fram kemur að kostnaður við önnur þjónustuform ætti að lækka um 15% við upptöku á NPA þjónustu en ekki er tilgreint hver þessi önnur þjónustuform væru.“ Þvert á móti er það niðurstaða greiningarinnar að meðalkostnaður við NPA þjónustu er hærri en annarra þjónustuúrræða, eins og sýnt er fram á í skýrslunni. Í ljósi reynslunnar ættu sveitarfélög að mótmæla harðlega ef til stendur að færa málaflokka frá ríki til sveitarfélaga því aldrei er hægt að treysta á að fullnægjandi fjármagn fylgi.

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það er brýnt að veita fötluðu fólki þá lögbundnu þjónustu sem það á rétt á og áríðandi að fullfjármagna hana óháð deilum ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun. Leysa þarf úr þessari deilu stjórnsýslustiganna sem allra fyrst enda bitnar hún fyrst og fremst á fötluðu fólki og sjálfsögðum réttindum þess. Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir bókun SSH og brýnir jafnframt deiluaðila til að vinna hratt og örugglega að því að fullfjármagna þjónustu við fatlað fólk. Reykjavíkurborg á ekki að láta ekki deilur um fjármögnun standa í vegi fyrir því að veita fötluðu fólki þjónustu eins og nú er raunin.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. ágúst 2023, varðandi áætlun um útgáfu skuldabréfa fyrir tímabilið september-desember 2023.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22120008

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Tillaga að endurskoðaðri útgáfuáætlun skuldabréfa, sem hér liggur fyrir, sýnir svo ekki verður um villst, að þrátt fyrir ört versnandi lánskjör hyggst meirihluti borgarstjórnar halda áfram að fjármagna gífurlegan taprekstur Reykjavíkurborgar með glórulausum lántökum. Taprekstur borgarinnar nam tæpum fjórum milljörðum króna fyrstu þrjá mánuði ársins og var niðurstaðan um tveimur milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Við slíkar aðstæður er æskilegt að árshlutauppgjör liggi sem fyrst fyrir og er því óheppilegt að sex mánaða uppgjör hafi ekki enn verið lagt fram í borgarráði. Fyrir tveimur vikum neyddist borgin til að hafna öllum tilboðum í skuldabréfaútboði vegna dræmrar þátttöku. Versnandi lánskjör Reykjavíkurborgar eru uggvænleg vísbending um fjárhagsstöðu hennar. Fjárhagsvandinn verður ekki leystur með áframhaldandi taprekstri og skuldabréfaútboðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að borgarstjórn ráðist nú þegar í róttækar aðgerðir í því skyni að koma rekstri Reykjavíkurborgar í jafnvægi og hætta þannig lántökum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skuldabréfaútboð borgarinnar hafa ekki gengið sem skyldi. Niðurstaðan úr síðasta skuldabréfaútboði kom ekki á óvart og er einmitt líkleg þegar útboðsaðilinn er kominn með bakið upp að vegg. Fulltrúi Flokks fólksins spyr sig hvaða önnur ráð borgin hafi upp í erminni. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um hvort borgin eigi aðra valkosti en að fara í skuldabréfaútboð og hvað gerist ef ítrekað kemur á daginn að ekki sé mikill áhugi fyrir skuldabréfaútboðum borgarinnar. Flokkur fólksins væntir svara við þessum og fleirum sem lagðar hafa verið fram um skuldamál borgarinnar.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar borgarlögmanns, dags. 24. ágúst 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um heildarkostnað varðandi kærumál vegna útboða síðastliðin fimm ár, ásamt fylgiskjölum, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars 2023. MSS23030015

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það kom fulltrúa Flokks fólksins á óvart hversu gríðarlegur málafjöldi þetta er. Kostnaður hlýtur að vera óheyrilegur. Árið 2018 eru málin um 4, árið 2019 um 6 og síðan er eins og það verði sprenging því árið 2020 eru málin um 23 og hafa haldist álíka mörg síðan. Þetta gefur vísbendingar um að eitthvað sé að í borgarkerfinu í útboðsmálum. Flokkur fólksins hefur áður bókað um mikla aukningu í útboðsmistökum borgarinnar og það þótt lögfræðingar sviðanna komi að þeim og síðan innkaupa- og framkvæmdaráð. Engu að síður hefur útboðsmistökum fjölgað með tilheyrandi kostnaði fyrir borgarbúa. Enginn skyldi halda að Reykjavíkurborg ætti ekki að kunna til verka þegar kemur að undirbúningi útboða og útboðsgagna eftir áratuga reynslu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að skoða þurfi gaumgæfilega framkvæmd innkaupa- og útboðsmála hjá Reykjavíkurborg. Innkaupaskrifstofa virðist vera eingöngu notuð til ráðgjafar í stað þess að hafa yfirumsjón með innkaupum skrifstofa og sviða borgarinnar. Margir starfsmenn skrifstofa og sviða sjá t.d. um innkaupa- og útboðsmál, oft án aðkomu innkaupaskrifstofu. Þegar innkaupamál eru nánast dreifð um allt borgarkerfið hlýtur að vanta ákveðna yfirsýn og heildrænt mat innkaupa- og útboðsmála innan borgarinnar.

  Fylgigögn

 15. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að dregið verði úr aðkeyptri ráðgjöf til borgarinnar, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. júlí 2023. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. ágúst 2023.
  Tillagan er felld.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23070050

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillaga um að draga úr aðkeyptri þjónustu er felld. Í umsögn segir ekki mikið um hagkvæmni þess að kaupa ráðgjöf sem vissulega er oft hagkvæmt og nauðsynlegt. En líklega er þeirri aðferð beitt allt of oft og slíkt gerir starfsmenn borgarinnar fælna við ákvarðanatöku. Í svarinu segir að: „Hraðinn skiptir oft talsverðu máli við úrlausn verkefna, en ráðgjafar vinna iðulega eftir vel skipulögðum ferlum og eiga af þeim sökum auðvelt með að skipuleggja og nálgast viðfangsefnið“. Af hverju vinna starfsmenn borgarinnar ekki eftir sömu ferlum? Og svo segir: „Endurtekin kaup á ráðgjöf geta til lengri tíma litið haft neikvæð áhrif, þannig að starfseiningar verði háðar ráðgjöfum og skortur verður á eðlilegri uppbyggingu þekkingar innan starfseininga“. Þarna er einmitt bent á hættu sem til langframa er að raungerast í borginni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að dregið verði úr aðkeyptri ráðgjöf til borgarinnar. Þetta er lagt til í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Dæmi um verk sem keypt eru frá utanaðkomandi aðilum er nagladekkjatalning og dæmi eru um að hámenntaðir verkfræðingar, verktakar, séu ráðnir til þess eins að skrá fundargerðir fyrir einstaka svið. Allt þetta telur. Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum um háar fjárhæðir sem streyma til einkaaðila og fyrirtækja vegna verk- og ráðgjafakaupa og einna helst til verkfræði- og arkitektafyrirtækja.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er á hendi einstaka stjórnenda að ákvarða hvenær skuli leita utanaðkomandi ráðgjafar og hvenær ekki, byggt á sjónarmiðum hagræðis og faglegheita þó það geti verið hlutverk kjörinna fulltrúa að setja almennar línur í þeim efnum. Þessi tillaga er þó felld þar sem að það getur verið hagkvæmara að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf auk þess sem þá er hægt að leita mjög sérhæfðrar ráðgjafar hverju sinni sem getur verið mjög gagnlegt og uppbyggilegt fyrir starfsemi borgarinnar. Að sjálfsögðu skal ætíð fara vel með fé en tillaga þessi er ekki talin bæta neinu við í því samhengi.

  Fylgigögn

 16. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um útboð á ráðgjafaþjónustu, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. apríl 2023. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. júlí 2023.
  Tillögunni er vísað frá.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23040050

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillögunni er vísað frá af meirihlutanum. Full ástæða er til, eftir lestur umsagnar frá borginni, að hvetja borgina til að líta gagnrýnum augum á kaup á ráðgjöf og skýrslum frá einstaka ráðgjafarfyrirtækjum. Oft eru þessar skýrslur og ráðgjöf lítils virði og borginni jafnvel skaðleg. Borgin virðist líta á skýrslur KPMG eins og heilaga ritningu án nokkurrar gagnrýni. Þetta mátti sjá í skýrslu um Borgarskjalasafn sem talin er af allmörgum að hafi að geyma hreinar rangfærslur. En svona gagn kostar sannarlega sitt. Í allt of mörgum tilvikum er ráðgjöfum falið að vinna verk sem mætti finna annan stað innan borgarkerfis. Vissulega eru tilvik sem réttlætanlegt er að fá utanaðkomandi ráðgjöf um eða að verkefni sé unnið af utanaðkomandi aðila en rýna þarf í hvert og eitt og meta með gagnrýnum augum nauðsyn þess. Þetta er ekki síst áríðandi nú þegar borgin stendur illa fjárhagslega eins og fjármálastjóri veit manna best.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillögunni er vísað frá þar sem það er ekki hlutverk kjörinna fulltrúa að taka slíka afstöðu. Við innkaup er farið að innkaupareglum borgarinnar. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að móta gagnsæja ferla og umgjörð um innkaup borgarinnar. Það er lykilatriði að það sé ekki í höndum kjörinna fulltrúa að ákveða við hvaða aðila er skipt hverju sinni.

  Fylgigögn

 17. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg leiti leiðsagnar hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. apríl 2023. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. júlí 2023.
  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23040048

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins þakkar umsögina en vill segja að það eru miklar áhyggjur af fjármálavanda borgarinnar og er fulltrúi Flokks fólksins ekki einn um þær. Þess vegna myndi aðkoma eftirlitsnefndar að málefnum borgarinnar auka öryggistilfinningu ekki síst í ljósi þess að skuldabréfaútboð hafa ekki gengið vel og það er óvíst hvernig næstu útboðum reiðir af. Borgin hefur vissulega sínar áætlanir um hvernig snúa skuli við skuldahlutfallinu fyrir árið 2026 þegar bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga fellur úr gildi. En áætlanir hafa bara oft ekki staðist. Allt getur gerst. Nýlega varð enn önnur stýrivaxtahækkun sem eykur álagið og óvíst hvort fleiri eigi eftir að koma. Þess utan er borgin ekki að spara nógu mikið og má hér nefna allan þann kostnað sem fer í mál eins og kærumál og kaup á ýmissi utanaðkomandi ráðgjöf svo ekki séu nefnd fjárfrek verkefni sem mætti seinka meira en gert hefur verið. Það er ekki nóg að vera bara bjartsýnn. Borgin þarf bæði belti og axlabönd og allir tiltækir björgunarbátar þurfa að vera settir á vakt. Það er engin skömm að því að leita leiðsagnar eftirlitsnefndarinnar vegna hagræðingar í rekstri.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillögunni er vísað frá þar sem málið er í skýrum farvegi. Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar var gerð ítarleg grein fyrir því hvernig borgin hyggst snúa við skuldahlutfallinu fyrir árið 2026 þegar bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga fellur úr gildi. Í fjármálastefnu Reykjavíkurborgar til næstu fimm ára eru enn fremur tiltekin markmið og megináherslur í fjármálastjórn borgarinnar þar sem m.a. er lögð áhersla á að rekstrarniðurstaða verði jákvæð frá og með árinu 2025.

  Fylgigögn

 18. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp vegna stefnumótunar, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. júlí 2023.
  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030221

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins leggur til hér að starfshópur verði settur á laggirnar til að skoða stefnumótun og stefnur borgarinnar sem eru fjölmargar og hvort þær séu meira en orð á blaði. Tillagan er felld af meirihlutanum. Borgin er ábyrg fyrir því að stefnur standi undir sér en séu ekki aðeins orð á blaði eða hugmyndir sem aldrei ná að verða að veruleika. Slíkar stefnur virðast hafa það eitt að markmiði að slá ryki í augu borgarbúa. Tillagan er felld af meirihlutanum og er það miður. Það væri mjög til bóta að saman kæmi hópur fulltrúa frá öllum flokkum sem skoðaði hvernig móta mætti stefnu sem væri í takti við þann raunveruleika sem borgin býr við hverju sinni eins og tillagan kveður á um. Öll vitum við hver fjárhagsleg staða borgarinnar er og ef í stefnu stendur að gera eigi eitthvað sem flestir stjórnendur vita að ekki er króna til fyrir þá segir það sig sjálft að slík stefna er engin alvöru stefna. Reykvíkingar eiga meira og betra skilið en það. Ekkert ætti að rata á blað í „stefnu“ nema að staðið sé við það og tímamörk sett sem standa skal við. Platstefnur með aðgerðaáætlunum sem sjaldnast standa eru grundvöllur vantrausts gagnvart meirihluta borgarstjórnar.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ekki er hægt að samþykkja þessa tillögu eins og hún er borin hér upp þar sem hún er bæði óskýr og blandar inn ótengdum forsendum.

  Fylgigögn

 19. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 24. ágúst 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgerðir 3.2. og 3.3. í aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2023. MSS22010199

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins fagnar því sem fram kemur í svari, m.a. því að báðar aðgerðir eru komnar í vinnslu. Hagsmunasamtök gera þó meiri kröfu um samráð sem hefur verið ágætt en í mörgum málum ekki nægjanlegt. Búið er að lofa að ræða við leyfisdeild borgarinnar sem gæfi grænt ljós á ýmsa viðburði, en ekkert hefur heyrst meira af því enn. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hagsmunasamtök eiga ekki að þurfa að ýta á eftir gjörðum sem búið er að lofa að verði gert í aðgengisstefnunni. Þetta gengur of hægt, ganga þarf röskar í að gera alvöru úr hlutunum og efna loforð.

  Fylgigögn

 20. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 23. ágúst 2023. MSS23010022

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 24. ágúst 2023. MSS23010005

  Fylgigögn

 22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 24. ágúst 2023. MSS23010035

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

  Í fundargerðinni er lagt fram erindi Íbúasamtaka Miðborgar, dags. 11. júlí 2023, um breytingar á bílastæðagjöldum í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins tekur heilshugar undir bókun íbúasamtakanna en hún er eftirfarandi: „Þessi hækkun og lenging á gjaldskyldutíma er fjárhagslega íþyngjandi fyrir íbúa í hverfinu en ekki síður er það áhyggjuefni að þessi nýja gjaldtaka á kvöldin og á sunnudögum mun gera gestum íbúa erfitt fyrir varðandi heimsóknir.“ Fulltrúi Flokks fólksins telur að verið sé að mismuna fólki eftir búsetu og telur það brjóti gegn jafnréttislögum þar sem stendur að ekki skal mismuna fólki eftir m.a. eftir búsetu. Íbúar miðbæjar og nágrennis eru látnir blæða mest. Þessum íbúum sem þarna búa og eiga og nota bíl er refsað með hærri bílastæðagjöldum og eru bílastæði staðsett í vaxandi mæli fjarri heimilum þeirra. Vandamál er fyrir íbúa þessa svæðis að fá til sín gesti. Borgin leggur aukaskatt á fólk fyrir það eitt að búa við ákveðnar götur í borginni.

  Fylgigögn

 23. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 21. ágúst 2023. MSS23010036

  Fylgigögn

 24. Lögð fram fundargerð stafræns ráðs frá 23. ágúst 2023. MSS23010009

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 11. lið fundargerðarinnar:

  Liður 2: Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs sýnir að áfram á að halda á sömu braut fjárausturs í allskyns tilraunaverkefni og þróun sem er óljóst hvernig muni enda. Í skýrslunni eru sömu skýringar og áður á seinagangi sviðsins við að skila tilbúnum lausnum eins og lesa má í inngangi þar sem segir að stafræn umbreyting sé einna helst menningar- eða hegðunarbreyting. Liður 11: Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um af hverju Borgarskjalasafn heyri undir sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs í skipuriti borgarinnar. Þetta skýtur skökku við í ljósi þess að að sviðið ætti að hafa það hlutverk að styðja við stofnanir borgarinnar en ekki valdastofnun sem ákveður hvort stofnun lifir eða deyr. Sá liður svarsins sem útskýrir tillögu um að útvíkka skjalamál í tengslum við stafræna umbreytingu og aukinn stuðning er skiljanlegur. Það vald sem sviðinu er fært til að róa að því öllum árum að leggja safnið niður er hins vegar með öllu óskiljanlegt, óeðlilegt og illa rökstutt. Algjör óvissa ríkir um framhaldið og varðveislu verðmæta. Það hefur ekki farið fram hjá fólki að KPMG skýrslan er hvorki trúverðug né sönn í mörgum atriðum og það stutt af sérfræðingum sem hafa rýnt hana.

  Fylgigögn

 25. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. og 30. ágúst 2023.
  7. liður fundargerðarinnar frá 23. ágúst 2023 er samþykktur. MSS23010011

  Fylgigögn

 26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. MSS23080026

  Fylgigögn

 27. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23080035

  –     Kl. 11:00 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Eru til mælingar eða gögn um stig vatnsmengunar í Elliðaám? Er verið að fylgjast með vatnsmengun í Elliðaám að staðaldri? Ef svo er hver er þá staða vatnsmengunar í Elliðaám og hvernig hefur þróun hennar verið síðan mælingar hófust? Hafi mælingar verið slitróttar er samt óskað eftir að teknar verði saman allar upplýsingar um mælingar vatnsmengunar í Elliðaám. Einnig er spurt hvort það hafi verið lagt mat á væntanleg áhrif Arnarnesvegs og tvöföldun Breiðholtsbrautar á vatnsmengun í Elliðaám og hvort lagt hafi verið mat á væntanleg áhrif uppbyggingaráforma í Suðurfelli á vatnsmengun í Elliðaám. MSS23080126

 29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hver er skilgreining borgargarða? Hvaða sérreglur gilda um borgargarða hjá Reykjavíkurborg? Hvaða sérreglur eiga við um borgargarða út frá skipulagslegum sjónarmiðum? Hverjir eru borgargarðarnir og hver er lega þeirra? Hvenær voru þeir samþykktir og var það gert fyrir hvern garð fyrir sig eða voru þeir allir samþykktir á sama tíma? Hefur mörkum eða legu borgargarðanna einhvern tímann verið breytt og ef svo er, þá á hvaða forsendum? MSS23080127

 30. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fallið var frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar og það tilkynnt þann 20. mars sl. Fréttatilkynningin greindi frá því að fyrst um sinn muni handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihömluð þurfa að hringja í stjórnstöð í síma og gefa upp númer stæðiskorts síns og bílnúmer við komu í bílastæðahús. Þar sem núverandi aðgangsbúnaður í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar bjóði ekki upp á að handhafar stæðiskorta geti með sjálfvirkum hætti notað bifreiðastæði húsanna án greiðslu, verði fyrst um sinn viðhöfð sú tilhögun sem mælt er fyrir um hér að framan. Greint var frá því að vinna væri hafin af hálfu Bílastæðasjóðs við tæknilegar útfærslur fyrir bílastæðahús Reykjavíkurborgar til að koma til móts við þessa breyttu framkvæmd til lengri tíma litið. Spurt er: Hvers vegna hefur ekki verið leyst úr þessu? Þ.e.a.s fundin auðveldari leið en að hringja í hvert skipti? Er hægt að byrja á því að leyfa þeim sem eru með p-kort að fá áskriftarkortið sitt í bílastæðahús ókeypis óski þau sérstaklega eftir því? Þá er einnig spurt út í hvers vegna það hafi tekið svo langan tíma af hendi Reykjavíkurborgar að fella niður gjaldtökuna, þegar ljóst var að það mætti ekki rukka í umrædd stæði. MSS23080129

 31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hversu mörg mál, tilkynningar og/eða beiðnir um að Reykjavíkurborg standi straum af lækniskostnaði nemenda og starfsmanna skóla sem veikst hafa vegna myglu í skólahúsnæði, hafi borist. Einnig hvort Reykjavíkurborg hafi borist beiðnir um að borgin standi straum af kostnaði vegna vinnutaps sem rekja má til fjarveru starfsfólks vegna myglu. MSS23080125

  Greinargerð fylgir fyrirspurninni. 

  Fylgigögn

 32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar frekari upplýsinga um það sem fram kom í svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs við spurningu Flokks fólksins um matarsóun í mötuneytum Ráðhússins og Borgartúni. Í svarinu kemur fram að afgangi sem ekki hefur tekist að nýta er seldur áfram til bænda sem nýta þá í fóður. Segir ennfremur í svarinu að „með því er nýting aðfanga hámörkuð, og magn lífræns úrgangs lágmarkað, eins og frekast er kostur.“ Svar þetta bendir til þess að hér sé um öllu alvarlegra mál að ræða en fyrirspyrjandi gerði ráð fyrir vegna þess að það er óheimilt að senda matarafganga aftur til bænda sem fóður fyrir búfé. Slíkt er talið allt of áhættusamt gagnvart útbreiðslu sjúkdóma og hringrásar smitefnis. Hér er greinilega um talsvert magn að ræða því varla eru bændur að kaupa eina og eina fötu af matarafgöngum. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á nánari skýringar á svari ÞON við þessari spurningu en svarið var lagt fram á fundi borgarráðs 13. júlí 2023. Óskað er einnig eftir að vita nánar um afdrif matarafganga í mötuneytum borgarinnar sem seldir eru bændum eins og segir í svari. MSS23050147

 33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fyrirspurnin snýr að lið 5. í fundargerð stafræns ráðs frá 23. ágúst þar sem fjallað er um siglingakort fyrir samstarf um nýsköpun og þróun. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá að vita hvað Bloomberg er að fjármagna í tengslum við stafræna umbreytingu Reykjavíkurborgar. Einnig er óskað upplýsinga um hvort fyrir liggi markvissar áætlanir um það hvernig sú alþjóðlega tilraunastarfsemi sem hugsuð er sem starfsþróun fyrir einstaka starfsmenn borgarinnar komi til með að nýtast í þjónustu við borgarbúa í kjölfarið. MSS23050179

 34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fyrirspurnin varðar lið 11 í fundargerð stafræns ráðs frá 23. ágúst þar sem lagt er fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um Borgarskjalasafn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um ferlið við að leggja niður Borgarskjalasafn en aðdraganda að ákvörðuninni er lýst m.a. í svari frá borgarritara. Hvernig verður flutningi gagna háttað frá Borgarskjalasafni yfir á Þjóðskjalasafn, stafrænt  eða með öðrum hætti? Með hvaða hætti ætlar borgin að safna saman þeim gögnum og upplýsingum sem geyma á hjá Þjóðskjalasafni? Hvaða deild eða svið eða aðilar innan borgarinnar eiga að sjá um flokkun og úrvinnslu þeirra gagna sem senda á til Þjóðskjalasafns? Hver er framtíðarhugsunin varðandi þær gagnaeiningar sem nú þegar hafa orðið til undir þjónustu- og nýsköpunarsviði? ÞON23010028

 35. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir upplýsingum um starfslokasamning fyrrverandi framkvæmdastjóra Ljósleiðarans. MSS23080128

Fundi slitið kl. 11:05

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Kjartan Magnússon

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 31.8.2023 - Prentvæn útgáfa