Borgarráð
Ár 2023, fimmtudaginn 17. ágúst, var haldinn 5712. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:09. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Elín Björk Jónasdóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. ágúst 2023:
Lagt er til að borgarráð hafni öllum tilboðum í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1 og hafni einnig öllum tilboðum í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 16. ágúst 2023.
Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Hörður Hilmarsson og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
- Kl. 9:23 tekur Ebba Schram sæti á fundinum. FAS22120008
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst það umhugsunarvert að borgin skuli hafa fullnýtt yfirdráttarheimild sína hjá Íslandsbanka nú um miðjan ágúst og þurfi m.a. að fjármagna sig með skuldabréfaútboðum það sem eftir er ársins. Búið er að draga meira á en áætlun gerði ráð fyrir. Tilboð eru ekki góð svo þeim er hafnað. Það hlýtur að verða að skoða allar sviðsmyndir í þessu sambandi þannig að ekkert komi þeim sem ábyrgðina bera í opna skjöldu hvort heldur skuldabréfaútboðin eru ætluð til að fjármagna rekstur borgarinnar eða til að fjármagna framkvæmdir á vegum borgarinnar svo ekki sé minnst á ef þau eru ætluð til að fjármagna afborganir lána. Þetta skiptir máli. Við vitum að rekstrarkostnað verður að borga þegar hann fellur til. Vissulega er hægt að fresta framkvæmdum en það er alvarlegt ef ekki næst að standa við afborganir lána á réttum gjalddögum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. ágúst 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er fram erindi innanlandssviðs Isavia þar sem farið er fram á tafarlausa fellingu um 2.900 trjáa í Öskjuhlíð og til vara 1.200 hæstu trjáa í Öskjuhlíð. Um er að ræða einn elsta samfellda skóg í Reykjavík, nánar tiltekið skóglendi Öskjuhlíðar frá svæðinu þar sem nú stendur Háskólinn í Reykjavík og að svæði kirkjugarðsins í Fossvogi og Perlunnar, sjá meðfylgjandi myndir til skýringar. Ætla má að krafan nái að lágmarki til um helmings elsta og hæsta skógarins í Öskjuhlíð og um þriðjungs samfellds skógar þar í heild. Ljóst er að krafan varðar stórt svæði og skóg sem nýtur hverfisverndar í deiliskipulagi og svæðis í Öskjuhlíð sem nýtur verndar sem borgargarður í aðalskipulagi, auk þess sem Öskjuhlíð er á náttúruminjaskrá. Ljóst er að ekki verður fallist á kröfuna án undangenginna breytinga á þessum skipulagsáætlunum og nauðsynlegs samráðs sem það útheimtir. Lagt er til að meðfylgjandi erindi verði því sent umhverfis- og skipulagsráði til umsagnar áður en erindið verður tekið til afgreiðslu í borgarráði.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Erindi Isavia er vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Glóey Helgudóttir Finnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080029Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Krafa Isavia um að fella um 2.900 tré á stóru svæði í Öskjuhlíð vekur upp fjölmargar spurningar. Um er að ræða eitt elsta og mikilvægasta útivistarsvæði borgarinnar, og hafa aðilar átt gott samstarf um eðlilega grisjun trjáa í Öskjuhlíð undanfarinn áratug. Ætla má að krafa Isavia nái að lágmarki til um helmings elsta og hæsta skógarins í Öskjuhlíð og um þriðjungs samfellds skógar þar í heild. Krafan varðar stórt svæði og skóg sem nýtur hverfisverndar í deiliskipulagi og svæðis sem nýtur verndar sem borgargarður í aðalskipulagi, auk þess sem Öskjuhlíð er á náttúruminjaskrá. Leita þarf umsagna fjölda aðila enda um stórt mál að ræða. Erindið verður sent umhverfis- og skipulagsráði til umsagnar áður en það verður tekið til meðferðar og afgreiðslu í borgarráði.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekki er hægt að fella svo mörg tré úr gömlum skógi án afar ítarlegrar ígrundunar. Tryggja þarf aðkomu skógfræðinga og annars fagfólks um skammtímaaðgerðir og í kjölfarið vinna að mótun aðgerðaáætlunar til framtíðar um aðlögun skógarins í Öskjuhlíð til að uppfylla öryggisatriði vegna nálægðar við flugvöllinn. Fulltrúi Sósíalista samþykkir að senda þetta erindi til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs áður en að endanlegri niðurstöðu kemur, og leggur áherslu á að rætt verði við skógfræðinga og/eða Skógræktarfélag Reykjavíkur sem ræktaði skóginn upp áður en Borgarskógar tóku við umhirðu hans.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta hið erfiðasta mál. Flugvöllur í miðri byggð gengur einfaldlega illa upp og hefur Flokkur fólksins sífellt klifað á að orku og fé eigi frekar að nýta til að finna og rannsaka nýtt flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur en að ætla að skipuleggja nýja byggð við flugvöllinn. Flugvöllur og þétt byggð sem umlykur hann eiga ekki saman. Stutt er síðan að fram kom að búið var að mæta kröfum um mótvægisaðgerðir til þess að sambúð flugvallar og byggðar gangi en samt koma nú nýjar kröfur og hvað svo? Fleiri kröfur frá Isavia? Að fara í slíkt skógarhögg sem farið er fram á er stórmál enda þótt flugöryggi hafi vissulega alltaf forgang. Engu að síður er hér um að ræða friðuð tré/skóg sem er stór og mikilvægur hluti af þessu gróna svæði í miðbæ Reykjavíkur. Hversu stórt öryggismál er þetta? Hvar liggur hættan og geta þessi tré valdið flugslysum? Isavia getur ekki bara heimtað og sett fram kröfur án viðhlítandi rökstuðnings. Á það má minna að það bætir ekki kolefnisspor flugs ef fella þarf skóg sem er að binda kolefni.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. ágúst 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í yfirlýsingu Eurocities um inngildingu loftslagsaðgerða í menningarviðburðum sem ber heitið Call for Action – for low carbon and more inclusive culture. Í umsögn menningar- og íþróttasviðs er talið að yfirlýsingin falli vel að áherslum nýrrar menningarstefnu og gæti verið henni til framdráttar en yfirlýsingunni er ætlað að sýna fram á pólitískan vilja til aðgerða á sviði menninga og lista innan evrópskra borga. Yfirlýsingin verður undirrituð á Eurocites Culture Forum í Birmingham í október en jafnframt verður hægt að undirrita yfirlýsinguna rafrænt.
Frestað. MSS23080037
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. ágúst 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja söluferli á níu íbúðum við Hallgerðargötu.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir víkur af fundi undir þessum lið. FAS23080004Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. ágúst 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samninga við Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga, Fræðagarð og Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga með vísan í hjálagt bréf frá formanni samninganefndar, dags. 14. ágúst 2023.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Lóa Birna Birgisdóttir og Rakel Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23040009
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 14. ágúst 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. júní 2023 á tillögu um samning við Rótina um áframhaldandi rekstur Konukots, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Rannveig Einarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. VEL23060036
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað velferðarsviðs, dags. 16. ágúst 2023, varðandi stöðu útlendinga sem synjað er um alþjóðlega vernd, ásamt fylgiskjölum.
Rannveig Einarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Andrea Jóhanna Helgadóttir, Björn Gíslason, Helgi Áss Grétarsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sara Björg Sigurðardóttir og Þorvaldur Daníelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080045Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks Fólksins og Vinstri grænna harma þá stöðu sem uppi er í málefnum hælisleitenda sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd. Það er mat Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sambands íslenskra sveitarfélaga að málaflokkurinn sé á ábyrgð ríkisins og nauðsynlegt að þau ráðuneyti sem málaflokkurinn fellur undir geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja umræddum einstaklingum þak yfir höfuðið og framfærslu á meðan þeir eru hér á landi. Ekkert samtal hefur átt sér stað milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd laganna.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er svívirðilegt að við séum komin á þann stað að á meðan þolendur mansals og önnur sem hafa sótt um alþjóðlega vernd er hent á götuna vegna ómannúðlegrar stefnu ríkisstjórnar, séu ríki og sveitarfélög að rökræða um hver beri ábyrgð á þeim manneskjum sem neyðast til að sofa úti, í tjöldum, án matar og leita að næringu í ruslagámum. Allar manneskjur eiga skilið þá virðingu að fá grunnþörfum sínum mætt. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur neytt þær manneskjur til að búa við óboðlegar og óásættanlegar aðstæður og á sama tíma eru þær notaðar til að réttlæta orðræðu um hnignandi innviði sem er á engan hátt fólki sem býr við hræðilegar aðstæður að kenna, heldur aðgerða- og sinnuleysi stjórnvalda í gegnum árin hvað varðar uppbyggingu innviða. Fjöldi fólks sem stökkt hefur verið á flótta í heiminum nemur nú um 108 milljónum. Það að ætla að svipta þau sem hafa hér sótt um alþjóðlega vernd og eru í viðkvæmri stöðu grundvallarréttindum er ekki að fara að leysa neinn vanda, heldur auka á hann, öllum og samfélaginu til ógagns.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 5. júlí 2023, varðandi sex mánaða skýrslu Betri samgangna ohf., ásamt fylgiskjölum.
- Kl. 10:53 víkja borgarstjóri og Diljá Ragnarsdóttir af fundinum.
Davíð Þorláksson, Þorsteinn R. Hermannsson og Þröstur Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23070018
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma hve hægt gengur að vinna að samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt nýlegum mælingum Vegagerðarinnar hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aldrei mælst meiri, en hún jókst um 7,3% milli ára í júlímánuði, og telja sérfræðingar Vegagerðarinnar að ársumferð á höfuðborgarsvæðinu muni að líkindum aukast um 4,5% milli ára. Það er mikilvægt að tryggja greiða umferð um höfuðborgarsvæðið fyrir alla fararmáta, og því mikilvægt að flýta nauðsynlegum framkvæmdum, enda greiðar samgöngur lífsgæðamál fyrir borgarbúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Framvinduskýrslan vekur upp spurningar og er ekki beint traustvekjandi. Hækkanir og tafir verkefna eru reifaðar með ýmsum skýringum og oft er óljóst hvort skýringar megi rekja til verðbólgu eða lélegra áætlana. Nú kemur í ljós að nauðsynlegt er að breikka Breiðholtsbraut til að tryggja flæði umferðar um Breiðholtsbraut fram hjá gatnamótum við Arnarnesveg. Kostnaður við þetta verk var vanáætlaður. Það dugar ekki að breikka aðeins að Arnarnesvegi heldur verður að breikka Breiðholtsbrautina alla leið að Rauðavatni ef vel á að vera. Það ástand sem nú ríkir á þessum kafla er skelfilegt. Það er eiginlega með ólíkindum að þessi hluti brautarinnar hafi ekki strax verið gerður tvíbreiður. Þetta er úrelt gatnakerfi. Ákall borgarbúa um breikkun er hunsað. Þetta bitnar á öllum þeim sem aka þessa leið, margir á leið út úr bænum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu 2021 um „að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni. Ekki dugir að tvöfalda Breiðholtsbrautina aðeins að Vatnsendahvarfi.“ Tillagan var felld af meirihlutanum. Framkvæmd 3. áfanga Arnarnesvegar er hæpin ekki síst vegna þess að hún byggir á 20 ára gömlu umhverfismati. Flokkur fólksins hefur ítrekað kallað eftir að nýtt mat verði gert en verið synjað jafnoft.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu sorphirðumála í Reykjavíkurborg.
- Kl. 11:34 taka borgarstjóri og Diljá Ragnarsdóttir sæti á fundinum á ný.
- Kl. 11:49 víkur Ebba Schram af fundinum.Guðmundur B. Friðriksson, Björn Ingvarsson, Gunnar Dofri Ólafsson, Guðmundur Tryggvi Ólafsson og Valgeir Baldursson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080042
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja ótækt hve illa sorphirða hefur gengið yfir sumarmánuðina, en víða um borg reyndust endurvinnslutunnur og grenndarstöðvar yfirfullar og ekki tæmdar samkvæmt áætlun. Sams konar vandræði hafa ekki gert vart við sig í nágrannasveitarfélögum við innleiðingu nýs flokkunarkerfis. Telja fulltrúarnir rétt að íbúum verði veittir afslættir af sorphirðugjöldum til samræmis við þann þjónustubrest sem raungerðist yfir sumarmánuðina.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sorphirðumálin í Reykjavík í sumar hafa vægast sagt gengið illa og kann þar margt að koma til. Fjöldi manns hefur kvartað sáran enda aðstæður sums staðar skelfilegar þegar kemur að sorphirðu. Í viðtali við ábyrgðarmenn var sagt að allt verkefnið hefði gengið glimrandi vel og væri það á undan áætlun. Þetta hljómaði ekki vel í eyrum borgarbúa sem varla eru sama sinnis. Tunnur, t.d. fyrir pappír og plast, hafa ekki verið tæmdar vikum saman í sumum hverfum. Svo virðist sem allar áætlanir um tæmingu hafi farið út og suður og margir spyrja hver sé eiginlega áætlaður tími fyrir losun á sorptunnum borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins á afar erfitt með að skilja af hverju það var ekki fyrirséð að það þyrfti fleiri hirðubíla. Ýmsar vangaveltur eru í gangi með ástæður alls þessa og telur fulltrúi Flokks fólksins að rekja megi vandann jafnvel til yfirvinnubanns hjá Reykjavíkurborg. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir heiðarleika í þessu máli og þegar spurt er út í skýringar á töfum að sagður sé sannleikurinn.
-
Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. ágúst 2023, varðandi þjónustu Strætó á Menningarnótt.
Björg Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23080057Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt raddir fatlaðs fólks um aðgengi að stórviðburðum í miðbæ. Það geta ekki allir nýtt sér Strætó. Framkvæmd Menningarnætur felur í sér hindranir fyrir margt fatlað fólk vegna takmörkunar á aðgengi að svæðinu. Fulltrúi hagsmunasamtaka hefur verið í samráðshópi en skoðanir fatlaðs fólks ná einfaldlega ekki alltaf eyrum ráðamanna. Í raun þarf að endurskoða framkvæmdina frá grunni ef jafnræði og jafnrétti á að ríkja í þessum málum. Borgin verður að sýna meiri metnað við skipulagningu viðburða í borginni. Druslugangan og Hinsegin dagar vilja taka tillit til fatlaðs fólks en borgin hefur lokaorðið. Ef ákveðið er að loka fyrir bílaumferð alfarið inn á ákveðin svæði þá þurfa margir hreyfihamlaðir einstaklingar frá að hverfa sem treysta sér ekki langa vegalengd án bíls. Það verður að hleypa stæðiskorthöfum inn á svæðið og á stæði nálægt viðburðinum, en að sjálfsögðu svo að fyllsta öryggis sé gætt. Það segir líka í aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar að „viðburðir borgarinnar séu fyrir öll og mæti fjölbreyttum þörfum“ og að „ætíð sé gætt að aðgengi á skipulögðum viðburðum á vegum borgarinnar og stuðningur sé til staðar.“
Fylgigögn
-
Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Rannveigar Ernudóttur.
Samþykkt. MSS22060044 -
Lagt til að Oktavía Hrund Jóns taki sæti sem varamaður í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Rannveigar Ernudóttir.
Samþykkt. MSS22060045 -
Lagt til að Oktavía Hrund Jóns taki sæti sem varamaður í stafrænu ráði í stað Rannveigar Ernudóttir.
Samþykkt. MSS22060158 -
Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Rannveigar Ernudóttur.
Samþykkt. MSS22060049 -
Lagt til að Oktavía Hrund Jóns taki sæti sem varamaður í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í stað Rannveigar Ernudóttur.
Samþykkt. MSS22060053 -
Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Rannveigar Ernudóttur. Jafnframt er lagt til að Oktavía Hrund Jóns taki sæti sem varamaður í stað Kristins Jóns Ólafssonar.
Samþykkt. MSS22060075 -
Lagt til að Atli Stefán Yngvason taki sæti í íbúaráði Laugardals í stað Rannveigar Ernudóttur. Jafnframt er lagt til að Atli verði formaður ráðsins.
Samþykkt. MSS22060061 -
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. ágúst 2023, varðandi dagskrá kynnisferðar borgarráðs til Portland og Seattle 20.-24. ágúst 2023, ásamt fylgiskjölum. MSS23070080
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023:
Lagt er til að borgarráð samþykki að óska eftir því að Isavia útvegi sundurliðaða tölfræði yfir umferðina um Reykjavíkurflugvöll hvern mánuð fyrir sig, undanfarin 10 ár. Lagt er til að óskað verði eftir yfirliti yfir fjölda farþegaflugvéla í áætlunarflugi innanlands, þyrluflugi Landhelgisgæslunnar, afþreyingarflugi með þyrlum, flugi einkaþotna, skemmtiflugi smávéla o.s.frv. auk upplýsinga um fjölda flugtaka og lendinga. Með upplýsingar sem þessar í höndunum er hægt að átta sig betur á því hvar mesti umferðarþungi flugvallarins liggur.
Samþykkt. MSS23070098
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölgun sumarstarfa fyrir ungmenni, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní 2023. Einnig lögð fram umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 10. júlí 2023.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060092Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sumarvinnu þarf að skipuleggja með þeim hætti að bæði borginni og þeim ungmennum sem vinna finnist að gagn sé af þeirri vinnu sem boðin er. Ekki má líta á sumarvinnu sem „atvinnubótavinnu“. Ungmenni sem sækjast eftir sumarvinnu hjá borginni þurfa að fá hana á þeim tíma sumars sem hverjum og einum hentar. Þarna þarf borgin að vera sveigjanleg. Borga þarf ungmennunum mannsæmandi laun, laun sem eru í takti við almenna kjaraþróun. Því miður hefur verið brestur á því þegar kemur að þessum hópi. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að atvinnumöguleikum ungs fólks, þ.m.t. Vinnuskólanum, sem þjónar mikilvægu hlutverki.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp vegna stefnumótunar, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. júlí 2023.
Frestað. MSS23030221Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. ágúst 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verðþak ráðgjafakaupa starfshópa, sbr. 62 lið fundargerðar borgarráðs frá 25. maí 2023. MSS23050154
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um hvort verðþak sé sett á hvað starfshópar geta keypt sér mikla ráðgjöf frá ráðgjafarfyrirtækjum og sé svo, hver sú upphæð sé. Spurt var í ljósi óhemjumikils fjármagns sem fer í aðkeypta ráðgjöf, innanlands sem erlendis. Fram kemur að fjárhæð skuli taka mið af fjárheimild sé heimild á annað borð fyrir hendi í útgefnu erindisbréfi. En þegar kemur að ákvörðun sviðs eða deildar eru þessi mál e.t.v. lausari í taumi. Skylt er að viðhafa innkaupaferli, annað en verðfyrirspurn, þegar áætluð samningsfjárhæð án virðisaukaskatts vegna kaupa á vöru og þjónustu er yfir kr. 15,5 m.kr. án vsk. Fæstir samningar um kaup á ráðgjöf ná slíkri upphæð. Í gegnum árin hafa tugir milljóna streymt til ráðgjafafyrirtækja vegna ýmissa verkefna og skýrslna. Hver einstök beiðni til ráðgjafafyrirtækja, þótt verðmörk séu 15,5 milljónir, telur og er liður í óhóflegum kostnaði við ráðgjafakaup þegar allir samningar eru til taldir. Heimild til að kaupa ráðgjöf gerir embættismenn að milliliðum. Þar sem ekki eru til peningar um þessar mundir í borgarsjóði telur fulltrúi Flokks fólksins að setja þurfi bremsu á utanaðkomandi ráðgjafarkaup og nýta þess í stað mannauð borgarinnar betur. Hér þarf að gæta hófs og hleypa ekki ráðgjafarfyrirtækjum taumlaust að.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 10. ágúst 2023. MSS23010022
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 10. ágúst 2023.
- Kl. 12:14 víkur Elín Björk Jónasdóttir af fundinum. MSS23010005
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 7. júlí 2023. MSS23010021
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 5. lið fundargerðarinnar:
1. liður, útvistun: Fram kemur að framkvæmdastjóri hafi farið yfir niðurstöðu eigendafundar um frekari útvistun. Fulltrúi Flokks fólksins er forvitinn að vita meira um þetta mál. Vonandi hefur eigendafundur sett spurningarmerki við áætlanir um útvistun enda er það skref sem ekki endilega leiðir til farsældar í þjónustufyrirtæki eins og Strætó. 5. liður, önnur mál: Sífellt er verið að skerða þjónustu Strætó og virðist sem fyrirtækið sé að lognast út af. Hvað ætla borgaryfirvöld að gera í þessu? Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af hvert þetta stefnir hjá Strætó. Fjöldi fólks neyddist til að snúa sér að öðrum ferðamátum en strætó eða hreinlega hætta við bæjarferð á Gleðigönguna vegna yfirfullra strætisvagna sem önnuðu ekki eftirspurn. Fólk þurfti að bíða í tvo og hálfan tíma. Yfirfullir vagnar óku fram hjá strætóstoppistöðvum þar sem fjöldi manns beið. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig á að engar ráðstafanir höfðu verið gerðar, vitandi hvað veðrið væri gott og hve stór hátíðin er. Fjármagnsskortur er svarið, sem er sama svar og við öllum vandamálum Strætó þessa dagana. Áfram halda skerðingarnar því nú verður ekki frítt í strætó á menningarnótt. Undanfarin ár hefur verið frítt í Strætó. Um þetta munar heldur betur fyrir stórar fjölskyldur.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. ágúst 2023.
9. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Varla er hægt að deila um það að Sundabraut mun stórbæta samgöngur inn og út úr borginni til norðurs. Ekki er enn búið að ákveða endanlega staðsetningu Sundabrautar sem hlýtur að vera erfitt þegar kemur að öðrum framkvæmdum í tengslum við hana. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að við undirbúning framkvæmdar verði borin virðing fyrir náttúru og lífríki, að sem minnst verði um landfyllingar. Brúa þarf leiðina yfir Leiruvog frekar en að landfylla. Annað er móðgun við lífríkið. Leggja á áherslu á brýr og raska eins lítið og hægt er því lífríka svæði sem Leiruvogur og Blikastaðakró eru. Leiruvogur er mikilvægur viðkomustaður farfugla og fóstrar ríkulegt fuglalíf árið um kring. Verndargildi svæðisins er hátt og felst ekki síst í grunnsvæði, miklum sjávarfitjum og víðáttumiklum leirum. Leirurnar eru meðal fárra óraskaðra leira á höfuðborgarsvæðinu og þær ber að friða algjörlega. Auðvitað á að taka tillit til fornminja. Það hlýtur að þurfa að hafa í huga að byggð mun rísa í Geldinganesi og gera þarf því ráð fyrir tengslum við Geldinganes. Í svo stóru máli sem þessu þarf að sýna fyrirhyggju og hugsa hlutina langt fram í tímann.
Fylgigögn
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. ágúst 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 27. júní 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 4. júlí 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 11. júlí 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 18. júlí 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 25. júlí 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 1. ágúst 2023
- Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa frá 8. ágúst 2023
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. MSS23080026
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23080035
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra eins skiptis afslátt af sorphirðugjöldum í ljósi þess að sorphirðudagar féllu út í sumar og íbúar Reykjavíkur urðu fyrir verulegum þjónustubresti.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23080042
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Óskað er eftir upplýsingum um eftirfarandi atriði: a. Rekstrarkostnað grenndarstöðva í Reykjavík síðustu 10 ár. b. Rekstrarkostnað endurvinnslustöðva í Reykjavík síðustu 10 ár. c. Rekstrarkostnað við sorphirðu í Reykjavík síðustu 10 ár. d. Kostnað vegna framkvæmda og fjárfestinga í tengslum við fjölgun grenndarstöðva í Reykjavík síðustu 10 ár. e. Kostnað vegna framkvæmda og fjárfestinga í tengslum við endurvinnslustöðvar í Reykjavík síðustu 10 ár. f. Kostnað vegna framkvæmda og fjárfestinga í tengslum við sorphirðu í Reykjavík síðustu 10 ár.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23080042
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg setji sér þá stefnu að einungis séu keyptir endurnýttir símar fyrir þá starfsmenn borgarinnar sem eiga rétt á að fá símtæki. Með þessu væri Reykjavíkurborg að taka mikilvægt skref í umhverfismálum og styðja við þá aðila sem gera við síma til að endurnýta. Eitt af stærstu umhverfisvandamálum dagsins í dag er sóun á raftækjum. Reykjavíkurborg getur eins og aðrir tekið þátt í að taka á þessu vandamáli. Það má gera með því að endurnýta raftæki. Flokkur fólksins telur að Reykjavíkurborg eigi að setja inn í sína umhverfisstefnu að allir símar sem keyptir eru fyrir starfsmenn séu endurnýttir.
Frestað. MSS23080068
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvar aðgerðir 3.2 og 3.3 í aðgengisstefnunni eru staddar í borgarkerfinu. Aðgerð 3.2: Gefnir séu út gátlistar um aðgengismál á viðburðum sem berist sviðum og starfsstöðum borgarinnar. Markmið 3.2: 10-15 viðburðum verði fylgt eftir með könnunum á framkvæmd og að 75-90% viðburða hafi nýtt gátlista. Ábyrgð: Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa í samstarfi við velferðarsvið, umhverfis- og skipulagssvið og þjónustu- og nýsköpunarsvið. Aðgerð 3.3: Skipulagning stærri viðburða í borginni sem fela í sér lokanir gatna og verulegt inngrip í leiðakerfi almenningssamgangna fari fram í samráði við aðgengis- og samráðsnefnd borgarinnar og eftir atvikum einnig önnur hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Ábyrgð: Menningar- og ferðamálasvið.
Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. MSS22010199
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Forsvarsmenn tennisfélaga sem eru með heilsársstarfsemi í Reykjavík, tennisdeild Fjölnis, Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur og Víkingur, hafa haft samband við fulltrúa Flokks fólksins vegna niðurskurðar. Í sparnaðarskyni á að fækka æfingatímum reykvískra tennisdeilda í Tennishöllinni um 15% (61 vallatími verða 52). Afleiðingin fyrir reykvískar tennisdeildir er að tennisiðkendur munu æfa 15% minna en þau hafa gert undanfarin ár þann hluta ársins sem þau æfa innanhúss sem er 75% af árinu (september til maí). Óskað er svara við eftirfarandi spurningum: Hvað með aðrar íþróttagreinar? Hvaða aðgerðir notar Reykjavíkurborg til að spara útgjöld þeirra? Verður æfingatímum fækkað hjá þeim líka? Ef ekki, hvernig fer sparnaðurinn fram? Til þess að reykvísku tennisdeildirnar geti haldið sömu æfingatímum núna í haust vantar tvær milljónir króna þar sem ráðstafað fjármagn fyrir 2023 er 17 milljónir en kostnaðurinn við óbreyttan tímafjölda 19 milljónir. Sparnaðaraðgerð borgarinnar krefst þess að tennisdeildir í Reykjavík fækki æfingatímum um 15%. Æfingatímum sem tennisdeildir í Reykjavík þurfa að sleppa frá sér núna hefur tekið mörg ár að púsla saman til að þeir nýtist iðkendum. Þennan tíma verður ekki hægt að fá aftur þar sem vallaleigjendur munu halda sinni áætlun áfram haustið 2024.
Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23080066
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram hér frekari fyrirspurnir vegna niðurskurðar tennisdeildar Fjölnis, Hafna- og mjúkboltafélags Reykjavíkur og Víkings: Óskað er upplýsinga um hvort hægt hefði verið að skera hlutfallslega meira niður annars staðar en í sjálfum grunnþáttum tennisíþróttarinnar. Það eru einungis fimm innanhússtennisvellir hérlendis en eftirspurn eftir innanhússtennisaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu er metin 15-18 vellir (miðað við núverandi iðkendafjölda). Tímar sem eru í boði í Tennishöllinni í dag eru tímar sem reykvísku tennisdeildirnar geta ekki nýtt sér (þ.e. fyrir kl. 14:30 eða eftir kl. 22:30). Þessi 15% niðurskurður verður varanlegur og takmarkar framtíðarmöguleika reykvísku tennisdeildanna sem eru að reyna að halda úti metnaðarfullu æfingaprógrammi fyrir sína iðkendur. Þessi ráðstöfun gerir tennisdeildum í Reykjavík ókleift að uppfylla afreksstefnu Tennissambands Íslands. Til samanburðar, þá er Tennisfélag Kópavogs með 98 vallatíma á viku meðan fjórar reykvískar tennisdeildir, Fjölnir, Hafna- og mjúkboltafélags Reykjavíkur, Víkingur og Þróttur, eru með samanlagt 52 vallatíma á viku með þessari niðurskurðaraðgerð.
Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23080066 -
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fyrirhugað er enn eitt skuldabréfaútboðið hjá borginni sem hefur fullnýtt yfirdráttarheimild sína hjá Íslandsbanka nú um miðjan ágúst og þarf borgin að fjármagna sig með skuldabréfaútboðum það sem eftir er ársins. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um eftirfarandi: Á borgin enga aðra valkosti en að fara í skuldabréfaútboð og þarf hún bara að taka þeim tilboðum sem berast, hvernig sem þau líta út? Hvað gerist ef ekki er mikill áhugi fyrir skuldabréfaútboðum borgarinnar? Hvað gerir borgin ef hún nær ekki að fjármagna sig með skuldafjárútboðum eins og fyrirhugað er? Eru skuldabréfaútboðin ætluð til að fjármagna rekstur borgarinnar, eru þau ætluð til að fjármagna framkvæmdir á vegum borgarinnar eða eru þau ætluð til að fjármagna afborganir lána?
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. FAS22120008
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvað margir foreldrar barna sem byrja eiga í leikskóla í ágúst og september hafa ekki fengið staðfestan dag sem barn þeirra hefur aðlögunarferlið. Einnig hvað margir foreldrar hafa ekki enn fengið staðfestingu um leikskólapláss. Hinn árlegi vandi er nú í algleymingi sem er óvissa og angist foreldra barna sem hefja eiga leikskólagöngu í haust. Fjöldi foreldra hefur ekki hugmynd um hvenær barn þeirra getur hafið aðlögun, hvað þá byrjað sinn fyrsta dag í leikskóla. Vandinn er ekki minni hjá foreldrum sem eru að sækja um hjá einkareknum ungbarnaleikskólum sem ekki geta svarað hvenær eldri börn flytjast yfir í almenna leikskóla borgarinnar. Reykjavíkurborg er flöskuháls. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt í foreldrum sem lifa í angist og óvissu um hvort þeir geti hafið vinnu eftir sumarfrí. Þeir fá engin svör hvort heldur frá leikskólum eða borgaryfirvöldum/skóla- og frístundasviði. Í reglum segir að foreldrar eigi að fá þessar upplýsingar eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst, miðað við 1. eða 15. hvers mánaðar. MSS23080069
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
- Kl. 12:27 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum.
Fundi slitið kl. 12:28
Einar Þorsteinsson Alexandra Briem
Hildur Björnsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Sanna Magdalena Mörtudottir Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borrgarráð 17.8.2023 - Prentvæn útgáfa