Borgarráð
Ár 2023, fimmtudaginn 27. júlí, var haldinn 5711. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Heiða Björg Hilmisdóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram trúnaðarmerkt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar til maí 2023.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23060028
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um framkvæmdir vegna frágangs á lóð Austurbakka 2 og aðliggjandi svæðis á lóðamörkum, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23070024
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. maí 2023, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki húsaleigusamning um Úlfarsfellsveg 31, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050014
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela borgarstjóra að undirrita hjálagða yfirlýsingu um betri forvarnir, viðbúnað og viðbragð við heimsfaraldri, sem gerð er í samráði við Global Parliament of Mayors og Geneva Cities Hub.
Samþykkt. MSS23070067
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálögð erindisbréf viðræðuhóps um uppbyggingu hjúkrunarheimila í borginni, dags. 25. júlí 2023, og veiti hópnum þar með heimild til viðræðnanna.
Samþykkt. MSS23070069
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á stofnun viðræðuhóps um uppbyggingu hjúkrunarheimila í borginni því það er ljóst að það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt nýlegri greiningu á velferðarsviði um raunþörf fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2038. Í þeirri greiningu er gert ráð fyrir að raunþörfin sé 717 rými. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum um uppbyggingu hjúkrunarrýma er þörfinni ekki mætt á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt greiningu velferðarsviðs er þörf á 3-4 hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, til viðbótar við fyrirliggjandi áætlanir. Það er ekki eingöngu skortur á hjúkrunarheimilum heldur er víða pottur brotinn á þeim heimilum sem nú þegar eru í rekstri. Á allt of mörgum heimilum þurfa vistmenn að deila herbergi. Flokkur fólksins telur mikilvægt að framtíðar hjúkrunarheimili uppfylli skilyrði um mannsæmandi búsetu og íbúar fái sérbýli.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Margréti Pálmadóttir og Sigurð Björn Blöndal sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1. ágúst nk. til næstu fjögurra ára, sbr. hjálagt erindi menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060201Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. júlí 2023, varðandi fyrirhugaða ferð borgarráðs til Portland og Seattle, ásamt fylgiskjölum. MSS23070080
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 13. júlí 2023. MSS23010005
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. MSS23070019
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið yfirlitsins:
Bréf frá íþróttafélaginu Leikni, dags. 17. júlí 2023, um umsókn um stöðu hverfafélags Fulltrúi Flokks fólksins styður umsókn Leiknis um að fá stöðu sem hverfisfélag. Leiknir er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt og þar sem býr einn mesti fjölbreytileiki mannlífsins í borginni. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi var frístundakortið lengst af minnst nýtt og er jafnvel enn. Leiknir er að takast á við áskoranir umfram önnur félög vegna þess að í hverfinu er fátækt mest í borginni. Leiknir þarf meiri stuðning. Stuðningur borgarinnar beinist að mestu leyti að frístundamiðstöðinni sem er vel mönnuð og það er vissulega hið besta mál. Ef Leiknir á að geta þróast og geta byggt upp sterkara íþróttasamfélag þá þarf að hlúa að því. Leiknir er nú með körfubolta, blak og badminton. Aðeins fleiri nýta sér frístundakortið en Leiknir þarf að vera með lág iðkendagjöld því margir foreldrar hafa ekki efni á að greiða mismuninn. Leiknir er í augum margra einskonar olnbogabarn borgarinnar og er það miður. Fulltrúi Flokks fólksins skorar á borgaryfirvöld að veita Leikni skilgreiningu sem hverfisfélag.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23070024
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki breytingu á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um dvöl barna á frístundaheimili í ágúst frá sumarlokun leikskóla fram að skólasetningu grunnskóla þannig að öll börn sem hefja nám í 1. bekk í Rimaskóla, Breiðholtsskóla og Norðlingaskóla fái boð um að taka þátt í tilraunaverkefninu, sbr. hjálagt minnisblað skrifstofustjóra frístundamála skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júlí 2023. Verkefnið var áður takmarkað við ákveðna leikskóla.
Samþykkt.
Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23070045Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn lýsir yfir ánægju með að tilraunaverkefnið hafi farið af stað og sýnir sig að foreldrar telja það vera kost að geta komið börnum sem eru að hefja skólavist í þeim skólum sem valdir voru og vilja taka þátt. Í ljósi þess að verkefnið var skipulagt út frá þeim leikskólum sem valdir voru þá hefur komið í ljós að betra er að bjóða þeim sem munu hefja skólavist. Eftir ábendingar hefur ákvörðun verið tekin um að opna fyrir þær umsóknir og við gerum ráð fyrir að verkefnið muni skila okkur árangri til að rýna næstu skref fyrir borgina alla.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það kemur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins ánægjulega á óvart að brugðist hafi verið við ábendingum foreldra og er því fagnað. Einungis var um 15 börn að ræða sem átti að meina þátttöku í frístund á grundvelli þess að koma úr leikskóla utan hverfis, þar af höfðu einhver þegar fengið undanþágu. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarráði hafði óskað eftir því að málið kæmi á borð borgarráðs og því er ánægjulegt að sjá að það er vilji fyrir að kippa þessu í liðinn. Að því sögðu telja fulltrúar flokksins tilefni til að bæta ferla innan skóla- og frístundasviðs í kjölfar þess þegar ábendingar sem þessar koma frá foreldrum. Foreldrar ættu ekki að telja sig nauðbeygða til að leita til fjölmiðla eftir áheyrn þegar þeir koma með réttmætar ábendingar.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það kemur fram í umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva við fyrirhugað tilraunaverkefni að mannekla hái starfseminni og m.a. af þeim ástæðum eru settar fram efasemdir um þetta tilraunaverkefni. Auk þess er það áhyggjuefni hve lítið tillit er tekið til umsagna leikskólastjóra sem mótmæla því að starfsfólk leikskóla taki þátt í verkefninu. Við skipulagningu þessa verkefnis virðist samráð við fagfólk á sviði frístundaheimila og leikskóla hafa verið takmarkað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins bókaði í borgarráði 6. júní síðastliðinn undir þessu máli að skóla- og frístundasvið ætti að heyra í foreldrum og taka tillit til óska þeirra. Eftir því hefur greinilega verið farið og ber að fagna því. Í ljósi ábendinga frá foreldrum er verið að leggja til breytingu á tilraunaverkefninu um dvöl barna á frístundaheimili í ágúst frá sumarlokun leikskóla fram að skólasetningu grunnskóla fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu sem samþykkt var í borgarráði 6. júní síðastliðinn. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að taka tillit til ábendinga foreldra um að ekki sé eingöngu miðað við ákveðna leikskóla heldur að bjóða öllum börnum sem eru að hefja nám í 1. bekk í Rimaskóla, Breiðholtsskóla og Norðlingaskóla að taka þátt í tilraunaverkefninu.
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að hækka sérstakar húsnæðisbætur sjálfkrafa í hverjum mánuði, þannig að verðgildi þeirra haldi í við vísitölu húsaleigu. Byrjað verði á því að stilla bæturnar inn á raungildi sitt frá því árið 2016, þegar hámarksfjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings var 82.000 kr. Sé verðgildi þeirrar upphæðar reiknuð fram til dagsins í dag, samsvarar hún 111.000 kr. Í kjölfarið verði húsnæðisbæturnar miðaðar við vísitölu húsaleigu og hækki sjálfkrafa í takt við þær. MSS23070093
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að sett verði á laggirnar leigumarkaðsnefnd á vegum Reykjavíkurborgar. Hennar hlutverk verði að hafa eftirlit með framboði á húsnæði og stöðu leigjenda í Reykjavík sem allar kannanir sýna að er mjög bágborin. MSS23070094
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að Reykjavíkurborg ráðist í átak til að útrýma biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Þar er átt við almennt félagslegt húsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, þjónustuíbúðir aldraðra og húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það verði gert með því að hefja stórfellda uppbyggingu félagslegra íbúða. Eigið fé Félagsbústaða nam í árslok 2022, 83.767 m.kr. og eiginfjárhlutfall félagsins var 56,1%. Fasteignafélög á markaði eru með um 30% eiginfjárhlutfall. Eigið fé Félagsbústaða umfram þessi mörk gæti því staðið undir byggingum íbúða. Meira en nóg til þess að vinda ofan af biðlistum eftir félagslegu húsnæði. MSS23070095
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hætti að útvista sorphirðu við grenndargáma innan sinna marka. Þess í stað sjái borgin sjálf um verkið og sé með beinráðið starfsfólk og vinnuvélar til að sinna sorphirðunni. MSS23070096
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að óska eftir því að Isavia útvegi sundurliðaða tölfræði yfir umferðina um Reykjavíkurflugvöll hvern mánuð fyrir sig, undanfarið ár. Lagt er til að óskað verði eftir yfirliti yfir fjölda farþegaflugvéla í áætlunarflugi innanlands, þyrluflugi Landhelgisgæslunnar, afþreyingarflugi með þyrlum, flugi einkaþotna, skemmtiflugi smávéla o.s.frv. auk upplýsinga er óskað um fjölda flugtaka og lendinga. Með upplýsingar sem þessar í höndunum er hægt að átta sig betur á því hvar mesti umferðarþungi flugvallarins liggur. MSS23070098
Frestað.
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu margt starfsfólk Reykjavíkurborgar sinnir þrifum á borgarlandinu í miðbænum um helgar? Er fjöldi starfsfólks sem sinnir þrifnaði og hreinsar götur eftir næturlífið um helgar talinn fullnægjandi? Ef ekki, hver væri fullnægjandi starfsmannafjöldi? Hversu margar stjórnunarstöður eru yfir því starfsfólki sem sinnir þrifnaði í miðbænum um helgar? MSS23070097
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um það hvort skóla- og frístundasvið sé að vinna í að útvega fleiri úrræði sem eru sambærileg þeim sem Klettaskóli býður. Brúarskóli og Klettaskóli eru báðir sprungnir og er biðlisti í báða. Hópur barna sem vegna sérstöðu sinnar myndu njóta verulega góðs af að sækja nám í þessum skólum eru látin stunda nám í almennum bekkjardeildum þar sem þau upplifa oft vanmátt og vanlíðan enda eru þau ekki að stunda nám með jafningjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir upplýsingum um hver staðan sé á næsta skólaári. Heimaskólar hafa ekki mörg úrræði á sinni könnu til að mæta þörfum barna með sérþarfir og hafa því takmarkaða burði til að þjónusta þau. Hér er átt við tækifæri til að stunda nám í smærri, fámennari hópum þar sem börnin fá þjónustu við hæfi. Ef svigrúm væri fyrir þetta þá myndu biðlistar í sérskóla styttast en þess í stað lengjast þeir. Foreldrar barna með frávik eða fötlun af einhverju tagi sem ekki njóta sín í almennum bekk hafa ítrekað sagt að „skóli án aðgreiningar“ standi ekki undir nafni. Mæta þarf þörfum allra barna í skólakerfinu en þessi hópur barna á erfitt með að stunda nám í stórum bekkjardeildum. MSS23070099
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver staðan sé á biðlista eftir leikskólaplássi i Reykjavík. Eins og löngum er þekkt er sár skortur á leikskólaplássum en í vor biðu 911 börn á biðlista samkvæmt talningu, á sama tíma á síðasta ári biðu 800 börn. Núna er meðalaldur barna á biðlista 23 mánuðir, eftir plássi í borgarreknu skólana en var lengi 20 mánuðir. MSS23070100
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort fyrirhugað sé að bjóða upp á heimgreiðslur eða styrki til foreldra sem nýtt geta sér slíkt úrræði. Úrræðið yrði sem liður í að létta á og stytta biðlista. Nokkur sveitarfélög hafa tekið upp þennan valkost og hefur hann fallið vel í kramið hjá foreldrum. MSS23070101
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda dagforeldra sem hefja munu störf eftir sumarfrí og hver er aukning/fækkun frá í fyrra. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi fyrir um þremur árum að meirihluti borgarstjórnar væri að ganga að dagforeldrakerfinu dauðu. Þá hélt meirihlutinn að dagar dagforeldra væru liðnir og að Brúum bilið væri handan við hornið. Sú varð ekki raunin. Dagforeldrum hefur fækkað úr 204 niður í 86 á tæpum áratug. Árið 2014 voru 700 börn hjá dagforeldrum en þau voru 371 í fyrra. Hvernig verður staðan haustið 2023? MSS23070102
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú bíða 2515 börn eftir fagfólki skólaþjónustu, langflest eftir sálfræðingi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort eigi að fjölga stöðugildum sálfræðinga og talmeinafræðinga á komandi hausti og hvað áætlanir liggja fyrir um hvernig taka skuli á þessum sí stækkandi biðlista? Ef fram heldur sem horfir munu sífellt fleiri foreldrar grípa til þess ráðs að tilkynna sig og barn sitt til Barnaverndar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests og athuga hvort ástæða sé til þess að það fari í svokallaða könnun. Þetta er vissulega fýsilegri kostur en að bíða endalaust eftir að barnið komist til fagfólks skólaþjónustu. MSS23070103
Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Fundi slitið kl. 10:20
Heiða Björg Hilmisdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs frá 27. júlí 2023 - prentvæn útgáfa