Borgarráð - Fundur nr. 5710

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 13. júlí, var haldinn 5710. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um eldgos á Reykjanesskaga.

    Birgir Finnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23010046

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þriðja eldgosið á Reykjanesskaga á jafnmörgum árum sýnir að nýtt gostímabil er hafið á svæðinu, sem gæti staðið öldum saman. Jarðfræðingar benda á að það mynstur virðist vera að skapast að gosvirknin færist í norðaustur frá Fagradalsfjalli og þar með nær höfuðborgarsvæðinu. Þessi þróun sýnir að hugmyndir um lagningu nýs alþjóðaflugvallar í Hvassahrauni eru óraunhæfar vegna jarðhræringa og eldgosahættu eins og jarðvísindamenn og atvinnuflugmenn hafa bent á árum saman. Reykjavíkurflugvöllur mun því áfram gegna mikilvægu hlutverki í innanlandsflugi, sjúkraflugi og björgunarflugi og brýnt að ekki verði þrengt að vellinum frekar en orðið er eins og til stendur að gera með nýrri byggð í Skerjafirði. Sjúkraflugið hefur aukist mikið á síðustu árum og er nú almennt viðurkennt sem mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þá gegnir Reykjavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki í millilandaflugi sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í borgarráði var umræða um eldgosið á Reykjanesskaga sem er það þriðja  á jafnmörgum árum á svæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ýmsu í sambandi við þetta gos en mest þó af því að einstaka foreldrar eru að fara með ung börn sín að gosinu, jafnvel ungabörn. Ferðin er tyrfin og oft er mengun mikil, og jafnvel við hættumörk  sem gæti skaðað öndunarfæri barna sem enn eru að þroskast. Vissulega er það þannig að borgarráð hefur ekkert um þessi mál að segja heldur er þetta í höndum lögreglustjóra Suðurnesja. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður tjá sig um þessar áhyggjur í bókun. Einnig er það afar leiðinlegt að lesa um neikvæða framkomu sumra gagnvart sjálfboðaliðum og öðrum sem standa vaktina á svæðinu þótt langflestir séu til fyrirmyndar og sýni skilning, alúð og kurteisi. Flokkur fólksins vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem bjóða fram krafta sína við þessar aðstæður.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að verða við beiðni stjórnar Listahátíðar, dags. 30. júní 2023, um endurnýjun á þríhliða samning vegna Listahátíðar í Reykjavík fyrir árin 2024-2026, sem og að árlegt samningsframlag Reykjavíkurborgar til Listahátíðar á samningstímanum verði hækkað um 15 m.kr. árlega, þ.e. úr 36 m.kr. á ári í 51 m.kr. á ári til að styðja við rekstur Listahátíðar. Gert verði ráð fyrir kostnaðinum í fjárhagsáætlun. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að veita borgarstjóra heimild til undirritunar á samningnum.

    Samþykkt. MSS23070009

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er stoltur bakhjarl Listahátíðar og leggur áherslu á að stór hluti dagskrár verði áfram ókeypis, fjölskyldumiðaður og að lögð verði áhersla á viðburði í almenningsrými og aðgengi í víðasta skilningi þess orðs. Á síðari árum hefur hátíðin verið í fararbroddi í íslensku menningarlífi hvað varðar sýnileika jaðarsettra hópa í listum enda er það leiðarljós hátíðarinnar að listir og menning séu ekki forréttindi fárra heldur réttur allra. Í því ljósi hefur dagskráin teygt sig út í hverfi borgarinnar, til stór-höfuðborgarsvæðisins og í auknum mæli út á land.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júlí 2023:

    Haraldur Þorleifsson hafði sem kunnugt er frumkvæði að verkefninu Römpum upp Reykjavík, sem í fyrstu byggði á samstarfi við Reykjavíkurborg en síðar fjölmarga fleiri. Í kjölfar velgengninnar varð til verkefnið Römpum upp Ísland. Haraldur hafði á dögunum frumkvæði að því að borgarstjóri kannaði grundvöll fyrir því að færa verkefnið út fyrir landssteinana. Haraldur hefur tryggt sér vilyrði fyrir fjármögnun en hlutverk borgarstjóra yrði á koma á tengslum við aðrar borgir, í fyrstu í tilraunskyni, en verkefnið gæti orðið umfangsmikið þegar fram í sækir. Á fundi borgarstjóra í Brussel á dögunum átti borgarstjóri fundi með Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar, Karin Wanngård borgarstjóra Stokkhólms og Andriy Sadovyi borgarstjóra Lviv í því skyni að kanna áhuga þeirra á að vera með í ofangreindu tilraunaverkefni. Allar borgirnar tóku erindinu vel og fyrsti fundurinn til að fylgja málinu eftir var í opinberri heimsókn Anne Hidalgo borgarstjóra Parísar til Reykjavíkur. Átti hún meðal annars fund með Haraldi ásamt borgarstjóra og Lamiu El Aaraje, aðstoðarborgarstjóra Parísar sem ber ábyrgð á aðgengismálum, og var niðurstaða fundarins að Haraldur fór til Parísar til fundar við lykilfólk til að gera verkefnið að veruleika. Lagt er til að borgarráð samþykki að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verði verndari verkefnisins „Ramp up Europe“ og leggi því lið með því að koma á tengslum við borgir sem áhuga kunna að hafa að því að taka þátt. Borgarráð verði upplýst um framgang verkefnisins eins og tilefni er til.

    Samþykkt. MSS23070022

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Að frumkvæði Haraldar Þorleifssonar startaði Reykjavíkurborg samstarfsverkefninu „Römpum upp Reykjavík“ sem fljótlega varð að samstarfsverkefni fleiri aðila í verkefninu  „Römpum upp Ísland“.  Borgarráð samþykkir hér þá beiðni að að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verði verndari verkefnisins „Ramp up Europe“  þar sem hans hlutverk yrði að koma á tengslum við aðrar borgir og vinna að framgangi verkefnisins.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. júlí 2023, þar sem drög að erindisbréfi persónuverndar Reykjavíkurborgar eru lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS23040013

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. júlí 2023, að rammaúthlutun Reykjavíkurborgar 2024, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010019

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í þessari rammaúthlutun er lögð sérstök áhersla á grænu málin. Hér má benda á að í grænum umbreytingunum verður einnig að fylgja félagslegt réttlæti. Umbreytingin má ekki bitna á þeim efnaminni. Ef kostnaður við það að lifa grænum lífsstíl er meiri en sá sem fyrir var, er ólíklegt að borgin fái íbúa með sér í lið á þeirri vegferð. Þétting byggðar er umhverfisvæn aðgerð, en ef hún leiðir til hækkandi íbúðaverðs fær hún ekki meðbyr. Sama gildir um almenningssamgöngur. Ef það á að þrengja götur í borginni og fækka stæðum verða almenningssamgöngur að eflast samhliða. Strætó gengur alltof sjaldan, vagnaflotinn er að þrotum kominn og opnunartími inniaðstöðu farþega er alltof stuttur. Grænum áherslum verða að fylgja aðgerðir sem auka jöfnuð og auðvelda íbúum að nýta sér græna kosti. Auk þess gerir fulltrúi Sósíalista athugasemdir við þá orðræðu að fatlað fólk sé gert að ógn við sjálfbærni í rekstri borgarinnar. Öryrkjabandalagið hefur lýst furðu yfir slíkum málflutningi, en hér er því enn haldið fram að málaflokkur fatlaðs fólks ógni fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar. Gæta þarf betur að því hvernig talað er um þennan málaflokk, þannig sá hópur sem um er að ræða upplifi sig ekki sem blóraböggul þegar kemur að fjárhag borgarinnar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í framlögðum gögnum kemur fram að reyna eigi að ná hagræðingu með því að ná fram lækkun launaútgjalda í hlutfalli af tekjum, sameiningu starfa, aðhald í ráðningum og að „nýta stafræna umbreytingu til aukinnar skilvirkni og hagræðingar í rekstri.“ Þetta hljómar skynsamlega en hefur ekki verið í raun. Fram til þessa hefur þjónustu- og nýsköpunarsvið sem dæmi með sitt stafræna sérfræðingaráð þanist út, nánast í línulegu samhengi við versnandi efnahagsstöðu borgarinnar. Bæst hafa við 11 ný stöðugildi á stuttum tíma. Tilbúnar afurðir sem sannarlega myndu skila hagræðingu eru í miklu ósamræmi við það gríðar mikla fjármagn sem veitt hefur verið til sviðsins undanfarin ár. Í dag þarf samt ennþá að skrá barn inn í nýjan leikskóla skriflega með því að fylla út 4-6 A4 blöð. Þetta er orðið einsdæmi ef horft er til annarra sveitarfélaga. Sú rammaúthlutun sem hér er lögð fram sýnir að sannarlega verða viðbætur í þágu skóla og velferðar en á þeim sviðum hefur mikið mætt. Þrátt fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn hefur ekki náðst að hjálpa öllum þeim börnum sem glíma við vanda í skólakerfinu. Nú bíða 2.511 börn á biðlista. Finna þarf leiðir til að taka á þessu rótgróna vandamáli. Börnum í vanda verður að hjálpa. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. júlí 2023, varðandi forsendur fjárhagsáætlunar 2024 og fimm ára áætlunar 2024-2028.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010019

    Fylgigögn

  7. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar – apríl 2023, dags. 13. júlí 2023, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum.
    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23060028

  8. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. júní 2023, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna fyrsta ársfjórðungs ársins 2023, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23070015

  9. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 11. júlí 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2023. Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010016

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hækkunum vegna launa ungmenna í vinnuskólanum en þau höfðu ekki fylgt kjara- og almennum verðbótum. Flokkur fólksins skilur einnig að fjölga þurfi stöðugildum hjá Barnavernd Reykjavíkur. Nú er staðan þannig að foreldrar í auknum mæli sjá sig nauðbeygð til að tilkynna sig og barn sitt sjálf til Barnaverndar. Tilfelli um að foreldrar tilkynni sjálfa sig voru árið 2017 279 en árið 2022 eru tilkynningarnar 337. Ástæðuna má án efa rekja til þess að nú bíða 2.511 börn á biðlista skólaþjónustunnar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun fljótt. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests og athuga hvort ástæða sé til þess að það fari í svokallaða könnun. Foreldrar sem eiga börn á biðlista skólanna og fá þar ekki þjónustu eru ráðalausir. Um er að ræða mál sem mörg hver voru áður unnin á vettvangi skólanna, t.d. hjá skólasálfræðingi. Taka má dæmi um skólaforðunarvandamál en árið 2019 voru tilkynningar um skólaforðun til Barnaverndar 67, árið 2021 voru þau 46 en árið 2022 eru málin um 70. 

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. júlí 2023:

    Lagt er til að laun borgarfulltrúa hækki um 2,5% þann 1. júlí nk. í stað 7,88% skv. þróun launavísitölu frá nóv. 2022 til maí 2023. Borgarstjóri mun einnig óska eftir sömu breytingum á sínum launum. Tillagan felur í sér að grunnlaun borgarfulltrúa hækka úr 963.647 kr. í 987.738 kr. eða 24.091 kr. á mánuði utan launatengdra gjalda í stað hækkunar um 76.000 kr. Álagsgreiðslur og starfskostnaður hækki um hlutfallslega með sama hætti. Breytingin taki gildi frá og með 1. júlí 2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23010278

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vegna efnahagsaðstæðna er lagt til að hækkun á launum kjörinna fulltrúa verði minni en samþykktir borgarstjórnar gera ráð fyrir og er þetta gert í samræmi við heildar þróun launa í samfélaginu. Lagt er til að laun borgarfulltrúa hækki um 2,5% þann 1. júlí nk. í stað 7,88% skv. þróun launavísitölu frá nóv. 2022 til maí 2023. Borgarstjóri mun einnig óska eftir sömu breytingum á sínum launum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Við hefðum viljað ganga lengra og taka ekki við neinum launahækkunum í því árferði sem nú ríkir. Launin eru mjög há í samanburði við margt af því fólki sem borgarfulltrúar vinna fyrir. Þetta er hins vegar skref í rétta átt. Með samþykkt þessarar tillögu er meirihluti borgarstjórnar loksins að viðurkenna að eðlilegt sé að líta til utanaðkomandi þátta þegar launahækkanir eru ákvarðaðar. 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júní 2023, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs fyrir því að auglýsa eftir rekstraraðila að biðstöð strætófarþega við Þönglabakka 4, ásamt fylgiskjölum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg taki yfir reksturinn að biðstöð strætófarþega við Þönglabakka 4. Opnunartími biðstöðvarinnar, sem er afar mikilvæg skiptistöð, verði tryggður allan þann tíma sem Strætó gengur á hverjum sólarhring.

    Greinargerð fylgir breytingartillögunni.
    Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Erindi fjármála- og áhættustýringarsviðs, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs fyrir því að auglýsa eftir rekstraraðila að biðstöð strætófarþega við Þönglabakka 4, er samþykkt.
    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23060026

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er löngu tímabært að bæta aðstöðu fyrir notendur Strætó í Mjódd. Sú aðferð sem gafst vel við Hlemm var að fá inn rekstraraðila til að reka þar Mathöll, sem einnig nýtist fyrir farþega að bíða og til að bæta þjónustuframboð á svæðinu og gera það meira aðlaðandi. Síðast þegar slíkt var reynt í Mjódd kom í ljós að stærð húsnæðisins hentaði illa, en nú er verið að bjóða stærra svæði sem passar betur fyrir slíkan rekstur. Mjóddin er mjög fjölfarin umferðarmiðstöð og þar eru að auki stórir vinnustaðir. Því má leiða að því líkur að vel væri hægt að koma upp góðum rekstri þarna, nú þegar húsnæðið sem er í boði er af heppilegri stærð.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Allt frá árinu 2016 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins flutt fjölmargar tillögur um að ráðist veðri í úrbætur á skiptistöðinni í Mjódd, sem að lágmarki feli í sér eftirfarandi.1. Kvöldopnun. Biðstöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga. 2. Umsjón með biðsalnum verið aukin og salernisþrifum komið í lag. 3. Sætum í biðsal verði fjölgað. 4. Biðsalurinn verði gerður hlýlegri, t.d. með uppsetningu listaverka. Meirihlutinn hefur hingað til verið alveg áhugalaus um áðurnefndar tillögur þótt augljóst sé að skiptistöðin hafi verið vanrækt árum saman. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna enn og aftur á tillögurnar og óska eindregið eftir því að þeim verði komið í framkvæmd nú, þegar til stendur að auglýsa eftir nýjum rekstraraðila að skiptistöðinni. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Erfitt hefur reynst að fá rekstraraðila til að sjá um biðstöð strætófarþega í Mjóddinni. Árið 2019 skilaði einungis einn aðili inn tilboði og hefur núverandi rekstraraðili sagt upp leigusamningi við borgina. Ef ekki er hægt að fá nógu mikinn fjölda af áhugasömum aðilum til að reka biðstöð farþega ætti Reykjavíkurborg sjálf að sjá um slíkt. Almenningssamgöngur eru reknar m.a. af Reykjavík og hennar hlutverk er að þjónusta íbúa sem nýta sér þær. Verkefni eins og að tryggja inniaðstöðu farþega eru ekki tímabundin verk, sem henta vel til að verktöku, heldur er um langtímaverkefni að ræða sem leggst aldrei af. Í því ljósi ætti borgin sjálf að reka aðstöðu strætófarþega. Farþegar hafa hingað til ekki verið ánægðir með inniaðstöðuna í Mjóddinni. Ef fáir aðilar sýna verkefninu áhuga, eða jafnvel bara einn, er ekki líklegt að það leiði til þeirrar þjónustu sem farþegar eiga skilið. Borgin ætti ekki að útvista ábyrgð sem þessari til lægstbjóðandi fyrirtækis, sem hefur ekki endilega mikinn áhuga á verkefninu, heldur frekar því að fá pening frá borginni fyrir litla vinnu. Þessi litla vinna er greinileg þegar þjónusta síðustu ára er skoðuð fyrir farþega í Mjóddinni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það hversu erfitt það hefur reynst að fá rekstraraðila til að reka biðstöð farþega segir heilmikið um hversu erfitt verkefni þetta er. Fulltrúi Flokks fólksins telur að best væri því komið að borgin reki biðstöðina sjálf. Hér er um tegund þjónustu sem best er að veita innan frá ef svo má orða. Hafa skal í huga að engin býður í verkefni nema til að hagnast á því og hér er um þjónustu að ræða sem varla mun gefa nokkurn hagnað og mögulega þarf að borga með ef þjónustan á að vera viðunandi hvað þá fullnægjandi.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti heimild til að ganga frá kaupum á einni færanlegri kennslustofu auk salernis fyrir Hagaskóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23070013

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar því að loksins á að ganga frá kaupum á færanlegri kennslustofu auk salernis fyrir Hagaskóla. Stofan var pöntuð í kjölfar mikilla viðhaldsframkvæmda sem nauðsynlegt var að ráðast í. Árum saman hafa skólayfirvöld kvartað vegna ástandsins, skólinn löngu sprungin og mygla og raki víða í eldri byggingum. Hagaskóli eins og Fossvogsskóli hefur verið í langan tíma heilsuspillandi húsnæði en yfirvöld hunsuðu það. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin stór og komið er að skuldadögum. Um Hagaskóla er óhætt að segja að þar hefur staðan verið sérlega slæm. Blessunarlega er hreyfing á málinu og vonandi eru veikindi vegna heilsuspillandi húsnæðis úr sögunni.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 24. maí 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. maí 2023 um synjun á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Laugavegar 176, ásamt fylgiskjölum. Einnig lagt fram bréf Reitna, dags. 2. júní 2023.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23030175

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. mars 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi í Árbæ, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. 

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23020273

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 10. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á Selásbraut 98, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS23070002

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að taka undir hjálagða áskorun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, dags. 11. júlí 2022, varðandi aukna kostnaðarhlutdeild Úrvinnslusjóðs vegna söfnunar og annarrar meðhöndlunar á vörum og umbúðum sem bera framlengda framleiðendaábyrgð. Aukin kostnaðarhlutdeild Úrvinnslusjóðs myndi mæta þeim kostnaði sem heimili verða annars fyrir vegna fyrirmæla laga um aukna flokkun og breytta sorphirðu.

    Samþykkt. MSS23070029

    Fylgigögn

  17. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að rifta samningi um uppbyggingu í Vesturbugt, sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 22. júní 2023 og fært í trúnaðarbók. MSS23020112

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 3. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaup og innleiðingu eldhúsumsjónarkerfis, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 11.20 víkur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir af fundinum. ÞON20120011

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meginmarkmið borgarinnar með því að móta matarstefnu var að stuðla að betri heilsu Reykvíkinga, styrkja máltíðaþjónustu borgarinnar og stuðla að því að borgin nái markmiðum sínum hvað varðar öryggi, sjálfbærni, menntun, lýðheilsu og hagkvæmni. Með innleiðingu á eldhúsumsjónarkerfi Reykjavikurborgar er tekið stórt skref í aðlögun starfsemi framleiðslueldhúsa borgarinnar að markmiðum matarstefnunnar. Þar má nefna aukið öryggi, bætt gæði og þjónustu. Þjónustuþegar geta fengið upplýsingar um næringargildi máltíða, uppruna hráefna, ofnæmisvalda og kolefnisspor máltíðanna. Auðveldara verður að bjóða upp á val á milli rétta. Hægt er ná fram heildaryfirsýn yfir þjónustuúrval og innkaupaþarfir þvert á eldhúsin og í því felast tækifæri til hagstæðari innkaupa og minni matarsóunar.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Rökin með þessari tillögu eru að koma á kerfi sem styður við matarstefnu Reykjavíkurborgar. Það er flott að hér eigi að vinna eftir henni. Hins vegar má benda á að þann 20. mars sl. lögðu Sósíalistar fram tillögu þess efnis að borgin ynni einmitt eftir henni í mötuneytum leik- og grunnskóla Reykjavíkur. Þannig yrði tryggt að börn yrðu fengin til að taka þátt í undirbúningi, ræktun og matargerð þegar því yrði við komið. Í matarstefnu Reykjavíkur kemur fram að matur eigi að vera mikilvægur þáttur í menntun barna og starfsemi skóla í Reykjavík. Sú tillaga var felld af meirihluta skóla- og frístundaráðs. Það er ekki í lagi að meirihlutinn týni eftir hentugleika þau atriði úr matarstefnunni sem þau vilja vinna eftir. Þannig grafa þau undan eigin stefnu og trausti íbúa gagnvart borgarstjórn, en matarstefna Reykjavíkur var samþykkt árið 2018 af öllum flokkum núverandi meirihluta, að Framsóknarflokknum undanskyldum.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar til framfærslu, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. júlí 2023.
    Samþykkt.

    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23060052

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsaðstoð er fyrir fólk sem ekki getur séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á að í styðja fólk til virkni og vinnu og að borga gjöld sem tengjast börnum fólks á fjárhagsaðstoð svo sem leikskólavist, skólamáltíðir, frístund og meðlag. Starfandi er stýrihópur á vegum velferðarráðs sem er að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð og munu þær tillögur liggja til grundvallar fyrir næstu fjárhagsáætlun. Í ljósi verðbólguþróunar er hér samþykkt að hækka fjárhæðir fjárhagsaðstoðar um 5% og taki hækkunin gildi frá 1. júlí 2023. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Tillögurnar fela í sér að viðmiðunarmörk grunnfjárhæða hækka um 5% og er gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi frá og með 1. júlí 2023. Enda þótt kostnaðarmatið byggi á forsendum sem óvissa ríkir um sjá allir að þessi 5% hækkun nær skammt í þeirri verðbólgutíð sem nú ríkir. Sá hópur sem er á fjárhagsaðstoð er fátækasti hópurinn í Reykjavík og stór hluti hans er á leigumarkaði sem rífur til sín stærsta hlutann af ráðstöfunartekjum fólks á fjárhagsaðstoð þrátt fyrir sérstakan húsnæðisstuðning sem sumir kunna að njóta.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna lýsir ánægju með hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar sem hér er samþykkt. Vinstri græn hafa ítrekað haldið til haga mikilvægi þess að fjárhæðir þeirra nái í það minnsta að halda í við almennar verðlagshækkanir og er ítrekuð sú tillaga að það verði gert með sjálfvirkum hætti með tengingu við vísitölu til að losa hóp í viðkvæmri stöðu við óvissuna um hvort og þá hvenær fjárhæðir séu endurskoðaðar.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að velferðarsvið samþykki breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. júlí 2023.
    Samþykkt.
    Dís Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23070006

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárhagsleg aðstoð við fjölskyldur og einstaklinga á leigumarkaði sem þurfa sérstakan stuðning vegna greiðslu á húsaleigu sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna. Reykjavíkurborg hækkaði fjárhæð tekjumarka um 7,40% frá 1. janúar 2023 og hér er samþykkt að hækka fjárhæð tekjumarka um 2,5 % til viðbótar afturvirkt frá sama tíma. Einnig er samþykkt að húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur geti aldrei numið samtals 100.000 kr. í stað 90.000 kr. áður. Þetta er liður í aðgerðum Reykjavíkurborgar til að styðja við þau sem erfiðast eiga með að mæta áhrifum hækkandi húsnæðiskostnaðar, verðbólgu og stýrivaxtahækkana. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hækkun tekjumarka vegna sérstaks húsnæðisstuðnings fylgir ekki verðlagi. Um rýrnun er því að ræða. Hækkun tekjumarka ásamt öllum stuðningi ætti að fylgja vísitöluþróun. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari hækkun á húsnæðisstuðningi: Hver króna skiptir máli fyrir þennan hóp enda stór hluti hans á leigumarkaði sem um þessar mundir er helsjúkur. Því er fagnað að nú þurfa umsækjendur ekki að endurnýja umsókn á 12 mánaða fresti. Reykjavíkurborg verður að koma inn í þá vinnu að hemja leiguverð á meðan framboð af húsnæði nær ekki eftirspurn. Þetta kerfi er flókið en nú hefur sú breyting verið gerð að greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings takmarkast við að húsnæðiskostnaður leigjenda að teknu tilliti til samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sé að lágmarki 50.000 en áður var það 40.000. Þetta þýðir að ákveðinn hópur notenda muni fá lægri greiðslur vegna hækkunar á lágmarki húsnæðiskostnaðar. Með lausn á einum vanda skapast því e.t.v. nýr vandi.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 10. júlí 2023, um málaferli Reykjavíkur. MSS23010233

  22. Lögð fram beiðni Jórunnar Pálu Jónasdóttur, dags. 6. júní 2023, um tímabundna lausn frá störfum frá og með 18. júlí 2023 til og með 17. júlí 2024.
    Samþykkt. MSS23010065

    Fylgigögn

  23. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 29. júní 2023, um að innri endurskoðun kanni tildrög atviks í íbúaráði Laugardals, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. júní 2023.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS23010033

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar grundvallast á því að nefndir og ráð innan borgarinnar starfi með þeim hætti sem þeim er ætlað að gera og samkvæmt samþykktum ráða og nefnda Reykjavíkurborgar. Ef grunur leikur á að starfsfólk og kjörnir fulltrúar leggi mjög mismunandi skilning í verksvið og heimildir þeirra nefnda og ráða sem þeir starfa í ætti það að kalla á yfirferð þessa mála. Enda felur það í sér vanvirkni þeirra ráða og nefnda með tilheyrandi sóun á tíma allra aðkomandi og fjármunum borgarsjóðs. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við leggjum til að tillögunni verði vísað frá. Innri endurskoðun og ráðgjöf hefur m.a. það verkefni að taka við ábendingum um ámælisverða háttsemi frá starfsmönnum og borgarbúum. Verkefnaval og forgangsröðun verkefna byggir á áætlun hverju sinni ásamt því að innri endurskoðandi hefur heimild til að setja mál, sem upp koma hverju sinni ,á sína dagskrá. Innri endurskoðun brást strax við varðandi þetta mál og telur ekki ástæðu til að hefja sérstaka könnun og rannsókn á atvikinu. Innri endurskoðun og ráðgjöf hefur fullt frelsi á hverjum tíma til að hefja rannsókn, kannanir eða greiningar ef tilefni er til. Ekki er talin ástæða til þess í þetta skiptið að innri endurskoðun og ráðgjöf breyti áður ákveðnum áætlununum um kannanir og rannsóknir sem samþykktar eru í endurskoðunarnefnd á hverju ári.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tekið er undir það sem kemur fram í greinargerð tillögunnar að ætla má að umrætt tilvik hafi ekki verið einangrað tilvik „enda ólíklegt að starfsmenn hafi vísvitandi ætlað að villa um fyrir þessu tiltekna íbúaráði og að atvikið endurspegli skilning mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu á samþykktum íbúaráðanna eða viðteknar venjur innan skrifstofunnar sem kunna að vera meðvitaðar eða ómeðvitaðar“. Fyrir vikið gátu fundarmenn ekki innt hlutverk sitt af hendi með réttum hætti sem þýðir jafnframt að íbúaráðið starfaði ekki með réttum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins er afar feginn að upp komst hvernig í pottinn er búið undir niðri og eygir von að róttæk jarðvegsskipti eigi sér stað en það sem þarna birtist ljóslifandi á sér eitthvað upphaf, einhverjar rætur. Stjórnendur eru ábyrgir enda þótt hver og einn einstaklingur sé vissulega ábyrgur fyrir sinni eigin hegðun og framkomu.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. janúar 2023, sbr. afgreiðslu borgarstjórnar frá 3. janúar 2023 á tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætta aðstöðu strætisvagna í Mjódd. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júní 2023.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS23010060

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Allt frá árinu 2016 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins flutt fjölmargar tillögur um að ráðist verði í úrbætur á skiptistöðinni í Mjódd, sem að lágmarki feli í sér eftirfarandi. 1. Kvöldopnun. Biðstöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga. 2. Umsjón með biðsalnum verið aukin og salernisþrifum komið í lag. 3. Sætum í biðsal verði fjölgað.4. Biðsalurinn verði gerður hlýlegri, t.d. með uppsetningu listaverka. Meirihlutinn hefur hingað til verið alveg áhugalausir um áðurnefndar tillögur þótt augljóst sé að skiptistöðin hafi verið vanrækt árum saman. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna enn og aftur á tillögurnar og óska eindregið eftir því að þeim verði komið í framkvæmd nú, þegar til stendur að auglýsa eftir nýjum rekstraraðila að skiptistöðinni. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga var tekin með í vinnuna um að finna lausn á málefnum Mjóddarinnar, og niðurstaða þeirrar vinnu var að stækka húsnæðið sem leitað væri samstarfs um að reka og gera aðra tilraun til þess.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. júní 2023, sbr. afgreiðslu borgarstjórnar frá 20. júní 2023 á tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um frestun launahækkana kjörinna fulltrúa 2023 og endurskoðun launauppbyggingar. MSS23060117
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. MSS23010060

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Launamál borgarfulltrúa hafa oft verið til umræðu en í kjölfar úrskurðar kjararáðs árið 2016 ákvað borgarstjórn að afþakka 44% hækkun. Borgarstjórn samþykkti í apríl 2017 nýtt launafyrirkomulag sem grundvallast á því að laun borgarfulltrúa fylgja almennum markaði og taki breytingum samkvæmt launavísatölu. Ein af grunnforsendum í því kerfi er að pólitíkin hverju sinni sé ekki breyta eða hræra í eigin launakjörum og hefur um það ríkt friður með þeirri undantekningu að borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins leggja ítrekað til að breyta launum borgarfulltrúa. Með tillögum um lækkun launa borgarfulltrúa t.d. vegna COVID og hagræðingar. Meirihluti borgarstjórnar hefur ávallt haldið til haga að borgarfulltrúar eigi að fylgja almennum launahækkunum og ef teknar eru ákvarðanir um annað þá verði það gert hvað varðar borgarfulltrúa. Sú stund er einmitt komin nú og því er lagt  til að laun borgarfulltrúa hækki einungis um 2,5% þann 1. júlí nk. í stað 7,88% skv. þróun launavísitölu. Borgarstjóri mun einnig óska eftir sömu breytingum á sínum launum. Ekki er tekið undir hugmyndir borgarfulltrúa Sósíalista um að breyta launakerfi og heildarendurskoðun launa borgarfulltrúa og það vekur furðu að sósíalistaflokkurinn í borginni skuli ítrekað gera það að baráttumáli að kjörnir fulltrúar handstýri sínum launum og vilji að borgarfulltrúar fari með sín eigin laun sem pólitískt mál. 

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um matarsóun í mötuneytum Ráðhúss og Höfðatorgs, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. maí 2023. MSS23050147

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um matarsóun í mötuneytum Ráðhússins og Borgartúni. Hvernig er skipulagi og skilvirkni háttað í innkaupum og hvernig tekst til að nýta afganga en á sama tíma að bjóða upp á hollan og girnilegan mat? Hversu miklu er hent t.d. birgðum sem hafa verið keyptar en ekki náðst að nýta?  Svar er lagt fram á fundi borgarráðs 13.7. 2023 og finnst fulltrúa Flokks fólksins það kannski ekki alveg trúverðugt. Í svarinu er sagt að: „Afgangur sem ekki hefur tekist að nýta, eins og hvatt er til í útboðsskilmálum, er seldur áfram til bænda sem nýta matarafganga í fóður. Með því er nýting aðfanga hámörkuð, og magn lífræns úrgangs lágmarkað, eins og frekast er kostur“. Nú er það svo að almennt er ekki heimilt að nota afganga úr mötuneytum sem fóður fyrir búfé. Ef það er tilfellið í mötuneytum borgarinnar þarfnast það frekari skoðunar. 

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. júlí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við neyðarástandi í leikskólamálum, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. mars 2023. MSS22010084

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 27. júní 2023. MSS23010031

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 26. júní 2023. MSS23010033

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar grundvallast á því að nefndir og ráð innan borgarinnar starfi með þeim hætti sem þeim er ætlað að gera og samkvæmt samþykktum ráða og nefnda Reykjavíkurborgar. Ef grunur leikur á að starfsfólk og kjörnir fulltrúar leggi mjög mismunandi skilning í verksvið og heimildir þeirra nefnda og ráða sem þeir starfa í ætti það að kalla á yfirferð þessa mála. Enda felur það í sér vanvirkni þeirra ráða og nefnda með tilheyrandi sóun á tíma allra aðkomandi og fjármunum borgarsjóðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sú opinberun sem átti sér stað á íbúafundi í Laugardal fyrir skemmstu sem ekki verður rakið nánar hér var áfall. Fulltrúi Flokks fólksins er þó ánægður með að þessi opinberunin varð því ella hefði engin vitað á hversu veikum mórölskum grunni íbúaráðin starfa. Skipta þarf um jarðveg svo mikið er víst. Af hógværð og lítillæti verður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofan sem þarna ber ábyrgð að gjörbreyta ekki aðeins móralnum, heldur einnig þeim forsendum sem íbúaráðin eiga að vinna eftir. Fara þarf að bera virðingu fyrir þeirri miklu vinnu sem fulltrúar leggja á sig í ráðunum t.d. þeir sem eru í forsvari fyrir foreldra og skóla. Svara á fyrirspurnum frá íbúaráðinu hratt og örugglega. Ef boðuð er umræða með fagfólki á dagskrárliðurinn að standa í stað þess að slá hann af með stuttum fyrirvara. Vettvangurinn á ekki að vera eitthvað sýndarsamráð heldur alvöru samráð. 

    Fylgigögn

  30. Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 9. og 27. júní 2023. MSS23010010

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Bókun vegna framlagningar fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. júní: Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði hefur á yfirstandandi kjörtímabili ósjaldan vikið frá grundvallarreglum um vandaða stjórnsýslu í því skyni að koma sínum málum áfram en stöðva og tefja mál frá minnihluta, sbr. t.d. bókanir minnihlutans undir lið 3 í fundargerð ráðsins frá 6. mars 2023 (sjálfstætt starfandi skólar) og undir liðum 2-4 í fundargerð ráðsins frá 22. maí 2023 (dagforeldrar). Í ljósi þess hvernig meirihlutinn hefur kosið að beita dagskrárvaldi sínu á fundum skóla- og frístundaráðs vildu fulltrúar minnihlutans koma því til leiðar að þeir gætu haft raunveruleg áhrif á dagskrá funda ráðsins. Þetta átti að gera með því að fulltrúar flokka í minnihluta skóla- og frístundaráðs fengju að lágmarki ávallt á einum fundi ráðsins í hverjum mánuði rétt til að taka mál á dagskrá með þeim hætti að aðili, með viðeigandi sérþekkingu, reynslu og sem væri eftir atvikum ekki starfsmaður Reykjavíkurborgar, fengi að koma á fund ráðsins til að kynna viðkomandi mál. Í stað þess að koma til móts við þessa hógværu tillögu minnihlutans kaus meirihlutinn að vísa henni frá. Þessi niðurstaða er hörmuð enda er full ástæða fyrir starfsemi skóla- og frístundaráðs að minnihlutinn geti fengið á fund ráðsins óháða sérfræðinga til að fjalla um tiltekið mál.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 26.-28. lið fundargerðarinnar frá 27. júní: 

    Liður 26; Spurt var um hvort gerð hafi verið viðhorfskönnun um upplifun og reynslu foreldra á verkefninu Betri Borg fyrir börn. Í svari segir að verkefnið sé nýtt og því ekki tímabært að ætla að fá svör frá foreldrum. Stór hluti svarsins eru lýsingar frá þjónustu- og nýsköpunarsviði á ýmsum rafrænum lausnum sem búið er að bíða eftir lengi. Nefnt er sem dæmi stafrænt utanumhald skólaþjónustu sem er ennþá í þróunarfasa. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá viðbrögð foreldra á hvort þeim finnist Betri borg fyrir börn vera að hjálpa t.d. þeim 2500 börnum sem bíða eftir fagaðstoð. Upplifun fulltrúa Flokks fólksins er þegar kemur að því að fá eigi viðbrögð frá foreldrum þá sé farið sem köttur í kringum heitan graut. Liður 27; Fyrirspurn um viðbrögð borgarinnar við úrskurði um að veita eigi systkinaafslátt vegna skólamáltíða þótt systkinin eigi ekki sama lögheimili. Segir í svari að Reykjavíkurborg muni gera breytingar í samræmi við úrskurðinn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að greiða þurfi foreldrum sem sviknir voru um þennan afslátt afturvirkt. Liður 28: Í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um skóla sem hafa fengið fræðslu frá Samtökunum ´78 kemur fram að allir skólar hafi þegið fræðslu, mismikla, utan eins skóla sem ekki er tilgreindur. 

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023.
    31. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar: 

    Fossvogsbrú er mikið mannvirki, um 300 metra löng og tengir saman Kársnes og Nauthólsvík. Um hana eiga ekki að fara bílar. Fulltrúi Flokks fólksins óttast umferðarteppur og tafir þegar ný byggð verður risin í Skerjafirði. Aðgengi inn og út úr hverfi þarf að vera gott ef þetta á að virka. Kostnaður hefur hækkað mikið og mun halda áfram að hækka þar sem ekki er spáð jafnvægi í efnahagsmálum fyrr en eftir 2-5 ár. Ýmis afþreying er á svæðinu s.s. sjósund og siglingar sem standa þarf vörð um. Áhrif brúarframkvæmdanna á flugvallaröryggi á meðan á þeim stendur er e.t.v. ekki alveg ljóst. En mikil eftirsjá er eftir fjörum sem verða fylltar en landfyllingar sjást í gögnum málsins. Allt of langt hefur verið gengið með eyðingu fjara í borgarlandinu.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 9. júní 2023. MSS23010013

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. MSS23070019

    Fylgigögn

  34. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23070024

    Fylgigögn

  35. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg standi við skuldbindingar sínar um trégrisjun í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis. Metið verði hversu mörg há tré þurfi að grisja til að tryggja flugöryggi í tengslum við aðflug og brottflug frá austur-vestur braut flugvallarins (13/31). Jafnframt verði ráðist í mótvægisaðgerðir með gróðursetningu nýrra og lægri trjátegunda í Öskjuhlíð og nágrenni, t.d. birkis, í stað þeirra grenitrjáa sem óhjákvæmilegt er að grisja í þágu flugöryggis. Við þá gróðursetningu verði haft að leiðarljósi að svæðið verði fegrað og notagildi þess aukið í þágu almennrar útivistar. MSS23070054

    Frestað. 

  36. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að öryggismál á Borgarbókasafninu verði tekin til skoðunar og gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja öryggi starfsfólks og gesta safnsins. Borið hefur á og færst í aukana undanfarið að öryggi starfsfólks og gesta hafi verið ógnað þannig að kalla hafi þurft á lögreglu og jafnvel sérsveit. Slíkt kallar á skjót viðbrögð borgaryfirvalda til að tryggja öryggi starfsmanna og gesta safnsins. MSS23070055

    Frestað. 

  37. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Ábendingar hafa borist um að frágangur hafi enn ekki farið fram á skurðum á gangstéttum, sem grafnir voru á síðasta ári vegna lagningar ljósleiðara í Hlíðahverfi, t.d. í Mávahlíð og Blönduhlíð. Slíkt er óviðunandi, ekki síst fyrir blinda og sjónskerta vegfarendur, sem ganga oft um áðurnefndar götur. Lagt er til að lokafrágangur vegna umræddra framkvæmda fari fram sem fyrst. MSS23070056

    Frestað. 

  38. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvar og hverjir tóku ákvörðun um val á fulltrúa Reykjavíkurborgar í starfshóp innviðaráðuneytisins vegna áhrifa nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. MSS23070052

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

  39. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um mikla efnissöfnun, sem átt hefur sér stað á horni Álfabakka og Árskóga að undanförnu. Um er að ræða háa hauga af möl og grjóti og kvarta íbúar yfir því að sandur, mold og ryk fjúki yfir svæðið. 1. Á hvers vegum er þessi efnissöfnun og hver er tilgangur hennar? 2. Hefur Reykjavíkurborg gefið leyfi fyrir umræddri efnissöfnun? 3. Hvenær má vænta þess að efnið verði fjarlægt? MSS23070057 

  40. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að komið verði á laggirnar sjálfvirkum leiðréttingum á grunnfjárhæðum fjárhagsaðstoðar. Annars vegar er sú breyting lögð fram að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sé leiðrétt mánaðarlega í takt við neysluvísitölu, þar sem útgjöld íbúa hækka mánaðarlega, m.a. húsaleiga. Hins vegar er lagt til að upphæðin sé leiðrétt árlega í takt við launavísitölu, ef hún hefur hækkað umfram neysluvísitölu, svo fjárhagsaðstoðin dragist ekki aftur úr launaþróun. MSS23070051

    Frestað. 

  41. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg komi á laggirnar, í samstarfi við félagsmiðstöðvar grunnskóla, fræðslu um stéttaskiptingu og afleiðingar hennar í samfélaginu. Inni í þeirri fræðslu verði farið yfir ýmsar birtingarmyndir stéttaskiptingar og hvernig fátæktarandúð (e. aporophobia) hefur áhrif á fólk sem verður fyrir henni. Birtingarmyndum fátæktarandúðar verði einnig gerð skil í fræðslunni. Leitað verði til samtaka sem hafa þekkingu og reynslu af fátækt, stéttaskiptingu og afleiðingum þeirra til að sinna fræðslunni. Einnig verði fólki með fagþekkingu á sviði sálfræði og félagsráðgjafar falið að fræða ungmenni um áhrif stéttaskiptingar og fátæktarandúðar á andlega líðan þeirra lægst settu eða þeim sem verða fyrir barðinu á andúðinni. Foreldrum ungmenna á frístundamiðstöðvum og leiðbeinendum verði einnig boðið upp á fræðslu. Nánari útfærsla skal unnin hjá skóla- og frístundasviði, í samstarfi við samtök og aðila með reynslu eða þekkingu af fátækt og stéttaskiptingu. MSS23070049

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  42. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fyrirspurn um rafræna miða á vegum Reykjavíkur og fyrirtækja í hennar eigu. Hvernig er friðhelgi einkalífs fólks sem notar rafræna aðgangsmiða að þjónustu borgarinnar tryggð? Átt er við miða eins og þá sem veita aðgang í sundlaugar og strætó, svo dæmi séu tekin. Geta lögregluyfirvöld fengið aðgang að sundkortum eða strætókortum sem eru skráðar á tilteknar manneskjur? Ef svo er, þarf sérstaka heimild til þess? Er hægt að fylgjast með því hvenær og hvar tiltekin manneskja notaði aðgangskort sitt í sundlaugar eða strætó til þess að fylgjast með eða hafa upp á viðkomandi? MSS23070047

  43. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Þann 20. mars sl. tilkynnti Reykjavíkurborg að fallið hafi verið frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihömluð í bílastæðahúsum sem rekin eru á vegum borgarinnar. Hvaða skref hefur Reykjavíkurborg eða Bílastæðasjóður tekið til að gera hreyfihömluðum ljóst að fallið hafi verið frá gjaldtökum? Eins og staðan er núna þurfa handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra að láta vita af komu sinni þegar fara skal inn í bílahúsin, þá er kerfið stillt þannig að viðkomandi komist út án þess að greiða. Borið hefur á því í samtölum borgarfulltrúa við hreyfihamlaða notendur bílastæðahúsa að þessi réttur hafi ekki verið þeim ljós þegar ákvörðunin var tekin um að falla frá gjöldum. Hefur Reykjavíkurborg sent skilaboð/póst til handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, um að viðkomandi sé ekki lengur skylt að borga fyrir notkun stæða í bílahúsum? Ef ekki, hafa einhver skref verið tekin til að gera handhöfum kortanna það ljóst að ekki sé skylt að greiða fyrir þau lengur? Þá er ekki átt við fréttatilkynningu, sem gríðarlega margir munu aldrei sjá eða lesa. Ef ekki, stendur þá til að gera handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaðra betur grein fyrir rétti sínum? Hvenær er áætlað að nýtt kerfi verið sett upp, sem gerir það að verkum að hreyfihamlaðir þurfi ekki lengur að láta vita af komu sinni, svo ekki þurfi að borga? MSS23070048

  44. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að draga af afli úr aðkeyptri ráðgjöf til borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bókað um þá gríðarlegu fjármuni sem fara í aðkeypta ráðgjöf af ýmsu tagi þrátt fyrir ríkan mannauð í starfsmannahópi borgarinnar. Nýlegar bárust fréttir um að Reykjavíkurborg hafi greitt 34 milljónir króna til félags í eigu fyrrverandi fjármálastjóra borgarinnar fyrir sérfræðiþjónustu frá árinu 2021 en viðkomandi fjármálastjóri lét af störfum sem fjármálastjóri borgarinnar fyrir aldurs sakir árið 2019. Félagið fékk greiddar tæplega 11,5 milljónir króna árið 2021 og tæplega 5,1 milljón á fyrsta fjórðungi þessa árs, að því er fram kemur á upplýsingavef um fjármál borgarinnar, sjá m.a. umfjöllun í Viðskipablaði Morgunblaðsins MSS23070050

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  45. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 24. liður fundargerðar borgarráðs frá 22. júní sl.: 

    Lagt er til að tímalaun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði uppfærð á milli ára í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands og hækki þannig um 9%. Hækkunin verði fjármögnuð af lið 09205, ófyrirséð í gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. MSS23060139

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að laun 13-16 ára unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði leiðrétt. Tillagan fól í sér að tímalaun unglinganna hækkuðu um 9% á milli ára eða í samræmi við launavísitölu. Slík launafrysting er sem blaut tuska í andlit yngsta starfsfólks Reykjavíkurborgar, sem sinnir mikilvægum verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds í borginni. 

Fundi slitið kl. 12:12

Heiða Björg Hilmisdóttir Alexandra Briem

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs frá 13. júlí 2023 - prentvæn útgáfa