Borgarráð - Fundur nr. 5706

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 8. júní, var haldinn 5706. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Skúli Helgason og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Hildur Björnsdóttir tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 4. mgr. 44 gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Með vísan til heimildar í 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar um forföll formanns og varaformanns á fundi er samþykkt að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sinni formennsku á þessum fundi.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2023, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 6. júní 2023 hafi verið samþykkt að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í borgarráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt var samþykkt að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. júní 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 2.710 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,90%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 2.280 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 950 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,35% í verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKG 48 1 sem eru 980 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 7. júní 2023.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Helga Benediktsdóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 9:20 tekur Árelía Eydís Guðmundsdóttir sæti á fundinum. FAS22120008

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er til afgreiðslu tillaga borgarstjóra um að samþykkt verði tilboð í tvo verðtryggða skuldabréfaflokka (RVK 32 1 og RVK 48 1) fyrir samtals tæpa 3,7 milljarða króna að nafnvirði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja sannarlega jákvætt að borginni takist að fjármagna sig á markaði, en lýsa hins vegar ríkum áhyggjum af þeim versnandi kjörum sem borginni bjóðast. Í samanburði við kröfuna á ríkisbréf, hefur verðtryggða krafan hækkað umtalsvert meira hjá Reykjavíkurborg en hjá ríkissjóði undanfarna 12 mánuði. Kjör í útboði Reykjavíkurborgar í gærdag voru til að mynda 3,9% á verðtryggðan flokk á gjalddaga árið 2032. Til samanburðar er sambærilegt ríkisbréf á gjalddaga árið 2037 núna á kröfunni 1,95%. Kjör borgarinnar eru því umtalsvert verri en þau kjör sem ríkinu bjóðast. Telja fulltrúarnir rétt að borgin dragi úr fyrirhuguðum fjárfestingum sem ekki snúa að grunnþjónustu og hagræði verulega í rekstri, svo draga megi úr lántökuþörf.

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 8. júní 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2023. Greinargerðir fylgja tillögunum.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Helga Benediktsdóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010016

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. maí 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 31. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Hesthúsabyggð á Hólmsheiði, Almannadal og Fjárborg, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040070

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. maí 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Holtsgötu 10 og 12 og Brekkustíg 16, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgeiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220212

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Gamli vesturbærinn hefur þá sérstöðu að geyma ómetanlegt safn yfir uppbyggingarsögu Reykjavíkur á 19. og 20. öld. Öllum opin og undir berum himni. Húsin sem á að rífa eru kannski lítil og hógvær en þetta er Reykjavík, þetta er saga Reykjavíkur og þeir sem sitja við stjórnvölinn skulda framtíðarkynslóðum að standa vörð um þær fáu sögulegar minjar borgarinnar sem eftir standa. Því nýta borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæðið í þágu umræðu í borgarstjórn. Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur nr. 214 stendur að slíkt byggðamynstur sé eitt af sterkum einkennum vesturbæjarins og endurspegli þau byggingarskeið sem elstu hverfi borgarinnar hafa gengið í gegnum. Húsin þrjú á horni Brekkustígs og Holtsgötu tilheyra þessu byggðamynstri og mynda hluta af sögulegu samhengi svæðisins, sem sannarlega rofnar að hluta með hverju þeirra eldri húsa sem hverfur þaðan burt. Einnig stendur að Sæmundarhlíð sérstaklega hafi hátt varðveiðslugildi og sé elsta hús á reitnum, byggt á þeim tíma þegar timburhús tóku við af torfbæjum og steinbæjum sem híbýli fólks á svæðinu. Saga hússins er því nátengd upphafi og þróun fyrstu byggðar á svæðinu og mikilvægur vitnisburður þeirrar sögu og hefur sem slíkt menningasögulegt gildi. Jafnframt er það hluti af því byggðamynstri sem einkennir stóran hluta byggðar í Vesturbænum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um erfitt pólitískt mál að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Rífa á gömul hús í stað þess að varðveita þau. Mál af þessu tagi eru ávallt umdeild enda tilfinningamál fyrir marga. Um er að ræða gróinn reit í Vesturbænum. Markmiðið er vissulega að fjölga íbúðum sem verða 15 talsins en hér finnst sumum að gengið sé of langt í þéttingaráformum. Niðurrif húsa er vissulega endanleg aðgerð. Sum gömul hús eru orðin það skemmd að ekkert annað en niðurrif kemur til greina.Þetta þarf að vega og meta hverju sinni út frá öllum hliðum. Í þessu tilfelli má vísa í álit Borgarsögusafns á þessum reit en þar er nefnd Holtsgata 10 og segir að húsið sé metið hátt út frá menningarsögulegu gildi og varðveislugildi.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna áréttar andstöðu hreyfingar sinnar við deiliskipulagstillögu þessa á viðkvæmum reit í Vesturbænum. Niðurrif á þessum stað er óheppileg og óafturkræf aðgerð og betra að endurgera gömul hús eða byggja við þau en að raska hverfismynd. Eins er vísað í umsögn Borgarsögusafn um varðveislugildi umræddra húsa og menningarsögu.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurnýjun ásamt lagfæringum á aðgengi við strætóbiðstöðvar 2023, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 150 m.kr.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040145

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir flutningshús á Laugavegi 109, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23060012

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23060013

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lögð er fram til kynningar skýrsla um stöðu tilraunaverkefnisins frístundir í Breiðholti. Jafnframt eru lagðar fram til samþykktar annars vegar tillaga um útfærslu og framhald verkefnisins frístundir í Breiðholti og tillaga að nýtingu aðferða og reynslu af tilraunaverkefninu frístundir í Breiðholti í öðrum borgarhlutum Reykjavíkur. Tillaga um framhald verkefnisins frístundir í Breiðholti felur í sér tíu tillögur til samþykktar. Tillögur 1, 5-7 og 9 fela í sér aukinn kostnað sbr. kostnaðaráætlun í tillögu vegna ársins 2024 upp á 23 m.kr. Lagt er til að umræddar aðgerðir verði festar í sessi og að Suðurmiðstöð stýri þeim. Fjármögnun er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Þráinn Hafsteinsson og Jóhannes Guðlaugsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23040148

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verkefnið frístundir í Breiðholti snýst um að taka vel utan um börn og ungmenni sem þurfa aukinn stuðning vegna félagslegrar stöðu, uppruna eða tungumálakunnáttu með meira samtali og aukinni félagslegri og fjárhagslegri aðstoð. Markmiðið er að auka þátttöku barna í virku íþrótta- og frístundastarfi með áherslu á hópa sem síður hafa nýtt frístundakortið. Íþrótta- og frístundastarf skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að inngildingu barna og fjölskyldna í samfélagið. Eldmóður, umhyggja og manneskjuleg nálgun hefur einkennt verkefnið í hvívetna og það má draga mikinn lærdóm af aðferðunum. Meirihluti borgarráðs er stoltur af því starfi sem unnið er í Breiðholtinu.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistar leggja áherslu á að allar frístundir verði gjaldfrjálsar fyrir börn óháð efnahagslegri stöðu og bakgrunni. Það er réttlátt því börn hafa engar tekjur og dregur einnig úr flækjustigi í stjórnsýslu. Best færi á því að Reykjavíkurborg semdi sjálf við frístundafélögin og tryggði að öll börn hefðu þannig aðgang að gjaldfrjálsum frístundum. Foreldrar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af sérstökum styrkgreiðslum, með tilheyrandi tíma og orku sem fer í að reikna hversu mikið þær duga upp í gjöld. Borgin á að einfalda kerfið með því að gera börnum kleift að taka þátt í frístund án þess að þurfa greiða fyrir. Reykjavík ætti ekki að stuðla að stéttaskiptingu meðal þeirra þar sem foreldrar þurfa að sýna fram á að þau hafi það nógu slæmt til að börn þeirri komist í frístundir.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Svo virðist sem fjölmargar tillögur Flokks fólksins um frístundakortið hafi skilað árangri. Nýting hefur aukist. Einnig hefur meiri áhersla verið lögð á íslenskunám. Tillögur um framlagðar úrbætur eru jafnframt góðar. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins nefna Leikni sem er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt og þar sem býr einn mesti fjölbreytileiki mannlífsins í borginni. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi var frístundakortið lengst af minnst nýtt og er jafnvel enn. Leiknir er að takast á við áskoranir umfram önnur félög vegna þess að í hverfinu er fátækt mest í borginni. Leiknir þarf meiri stuðning. Stuðningur borgarinnar beinist að mestu leyti að frístundamiðstöðinni sem er vel mönnuð og það er vissulega hið besta mál. Ef Leiknir á að geta þróast og geta byggt upp sterkara íþróttasamfélag þá þarf að hlúa að því. Leiknir er nú með körfubolta, blak og badminton. Aðeins fleiri nýta sér frístundakortið en Leiknir þarf að vera með lág iðkendagjöld því margir foreldrar hafa ekki efni á að greiða mismuninn. Annað sem er sérkennilegt er að Leiknir er ekki skilgreint sem hverfisfélag. Leiknir er í augum margra einskonar olnbogabarn borgarinnar og er það miður.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögur áhættustýringar Reykjavíkurborgar um uppfærðan verkferil (útgáfa 3) vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar.

    Samþykkt.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Óli Jón Hertervig og Stefanía Scheving Thorsteinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23050101

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi borgarráðs 11. mars 2021 var samþykkt að frumkvæði meirihlutans að ráðast í undirbúning nýs verkferils um hvernig beri að bregðast við þegar koma upp raka- og myglumál í húsnæði borgarinnar. Þessi ítarlegi verkferill var unninn með sérfræðingum í málaflokknum. Með honum var verið að skerpa á því sem betur mátti fara varðandi skipulag, verkstjórn, undirbúning og upplýsingagjöf um framkvæmdir sem tengjast myglu og rakaskemmdu húsnæði í eigu borgarinnar. Við viljum að húsnæði borgarinnar sé heilnæmt og tökum myglu- og rakavandamál mjög alvarlega. Þess vegna var þessi mikilvægi verkferill þróaður og eftir honum hefur verið unnið frá haustmánuðum 2021. Hér er svo verið að uppfæra hann og ítra með tilliti til reynslu síðustu missera.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja jákvætt að verkferlarnir hafi verið uppfærðir enda mikilvægt að draga lærdóm af þeim vandamálum sem upp hafa komið á undanliðnum árum. Næsta skref væri að skoða leiðir til að bregðast við því aukna vinnuálagi sem starfsfólk verður fyrir vegna ástandsins og sömuleiðis að skoða aðferðir til að koma í veg fyrir niðurfellingu kennslu vegna þess rasks sem verður þegar raki eða mygla greinist í húsnæði á vegum borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn leggur til uppfærslu á verkferli (útgáfa 3) vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar. Þetta þýðir að ákveðin reynsla hefur sýnt að gera þarf breytingar. Svona ferill þarf að vera í stöðugri endurskoðun og taka breytingum eftir atvikum. Nýi verkferillinn vaknar til lífs þegar „grunur um léleg loftgæði og rakaskemmdir kviknar og endar með því að eðlileg starfsemi hefst á ný, þverslaufugreiningar sem varpa m.a. ljósi á helstu orsakir lélegra loftgæða og rakaskemmda eins og segir í gögnum. Verkferillinn hefur verið staðfestur og endar þegar framkvæmdum er lokið og húsnæði er afhent á ný“. Hvað sem þverslaufugreining er nú, þá hljómar þetta vel.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að leggja grunn að breiðu samráði um áhugaverðar og bestu leiðir til að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur. Í því skyni verði stillt upp valkostum og útfærðir mismunandi kostir við að seinka upphafi skóladagsins. Við útfærsluna verði meðal annars horft til vísbendinga úr áhugaverðum rannsóknarniðurstöðum um áhrif á upphafi skóladags á svefn. Markmiðið er að útfærslurnar kallist á við menntastefnu borgarinnar, látum draumana rætast, styðji við nám, lýðheilsu og góðan skólabrag. Hugað verði að því hvaða móttaka eða þjónusta gæti verið í boði fyrst á morgnana hjá þeim nemendum sem búa við aðstæður eða kjósa að koma fyrir upphaf skóladags, s.s. hafragrautur, hreyfing eða heimanámsaðstoð. Hugað verði að því hvaða tækifæri eru til að innleiða breytingarnar án þess að lengja heildar skóla- og frístundadag barna og jafnvel stytta hann, án þess að gengið sé á skipulagt skólastarf eða ákvæði í námsskrá, m.a. með nánara samspili skóla og frístundar og aðila sem veita frístundaþjónustu, s.s. íþróttafélög. Þá verði hugað að því hvernig breytt fyrirkomulag skóladags geti komið til móts við hugmyndir skólastjórnenda og óskir kennara og annars starfsfólk um að sinna undirbúningi ýmist fyrir eða eftir skipulagðan skóladag. Til að vinna að hugmyndunum verði kallaðir til fulltrúar nemenda, kennara, starfsfólks og samráð skólastjóra, auk sérfræðinga á sviði svefns, lýðheilsu og fjármála.

    Samþykkt.

    Erla Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23060023

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Góður svefn er undirstaða almennrar heilsu og vellíðunar og er afar mikilvægt að börn séu vel úthvíld þegar þau koma í skóla. Niðurstöður rannsóknar sem unnin var í nokkrum skólum borgarinnar, um hvort seinkuð skólabyrjun hafi áhrif á svefn barna, sýna að árangur af því að seinka upphafi skóladags er mikill. Borgarráð er sammála um mikilvægi þess að unnið verði að því að finna bestu mögulegu leiðir til þess að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur og fagna því að þessi vinna sé hafin. Markmiðið er að tillögur að útfærslu kallist á við menntastefnu Reykjavíkurborgar (látum draumana rætast), styðji við nám, lýðheilsu og góðan skólabrag, en hugsunin er ekki að lengja skóla- og frístundadag barna. Þá verði litið til þess hvort breytt fyrirkomulag skóladags geti komið til móts við hugmyndir skólastjórnenda, kennara og starfsfólks um að sinna undirbúningi ýmist fyrir eða eftir skipulagðan skóladag. Hvetur borgarráð skóla- og frístundasvið til að hraða vinnunni, hugsa stórt og stefna að því að vera leiðandi í að endurskipuleggja skóladag barna til að bæta svefn.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Rannsóknir gefa vísbendingar um að seinkun á upphafi skóladags skili bættum svefni meðal ungmenna. Ýmsar ástæður eru fyrir því en benda má á að klukkan á Íslandi er vitlaust stillt miðað við hvar landið liggur á tímabelti. Þegar klukkan er 8:00 samkvæmt opinberum tíma hérlendis er hún í raun 07:00, og jafnvel má færa rök fyrir því að hún sé 06:00. Í raun lifa Íslendingar á vitlausum tíma sem hlýtur að hafa áhrif á svefngæði. Fyrir nokkrum árum skoðuðu íslensk stjórnvöld möguleikana á því að seinka klukkunni. Það mál náði ekki í gegn þrátt fyrir vilja landsmanna, en hagsmunir golfklúbba og stórfyrirtækja virtust vega þyngra. Mikilvægt er að klukkunni sé breytt á Íslandi til að landsfólk lifi í takt við hinn raunverulega tíma sem hér er. Þar til það gerist getur verið skynsamlegt að seinka upphafi skóladags og vinnudegi verkafólks, í þeim tilgangi að bæta svefngæði og jafnframt lífsgæði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur og var með tillögu þess efnis á síðasta kjörtímabili. Tillagan fékk engan hljómgrunn þá hjá þáverandi meirihluta. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þetta skref verði tekið hið fyrsta hvort sem það er í færri eða fleiri skólum. Það mætti hugsa þetta sem tilraunaverkefni í ákveðinn tíma til að byrja með. Óþarfi er að flækja málið um of. Ágæti seinkunar, m.a. góð áhrif á heilsu barnanna, er margrannsakað. Mikilvægt er að standa vel að móttöku þeirra barna sem búa við aðstæður eða kjósa að koma fyrir upphaf skóladagsins. Að mörgu er að huga en nú er bara að einhenda sér í verkið.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samninga við Félagsráðgjafafélag Íslands, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Samiðn – samband iðnfélaga, Samband stjórnendafélaga og Verkfræðingafélag Íslands með vísan í hjálagt bréf frá formanni samninganefndar, dags. 29. maí 2023.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Kolbeinn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23040009

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, þar sem kjarasamningar Sambands íslenskra sveitarfélaga við Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara eru lagðir fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Kolbeinn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23040009

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögu um tilraunaverkefni um dvöl barna á frístundaheimili í ágúst fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22030077

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það kemur fram í umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva að mannekla hái starfseminni og m.a. af þeim ástæðum eru í umsögninni settar fram efasemdir um þetta tilraunaverkefni. Fulltrúi Sósíalista tekur þar að auki undir áhyggjur leikskólastjóra sem mótmæla því að starfsfólk leikskóla taki þátt í verkefninu. Við skipulagningu þessa verkefnis virðist samráð við fagfólk á sviði frístundaheimila og leikskóla hafa verið takmarkað. Þegar tilraunverkefni af þessu tagi er ýtt úr vör er lágmark að það sé unnið í góðu samráði við þá aðila sem eiga að sinna því.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samstarfssamninga skóla- og frístundasviðs við Móðurmál – samtök um tvítyngi. Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 8. maí 2023 var lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. apríl 2023, um endurnýjun á samstarfssamningi við Móðurmál – samtök um tvítyngi ásamt drögum að samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs og samtakanna Móðurmáls. Samningurinn var samþykktur og honum vísað til borgarráðs.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23030098

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði að fara í viðræður við Móðurmál – samtök um tvítyngi og Pólska skólann með það að markmiði að gera þjónustu þeirra gjaldfrjálsa. Markmiðið með tillögunni er að ná samningum um aukinn stuðning við Móðurmál og Pólska skólann til að hin mikilvæga kennsla þeirra verði endurgjaldslaus. Það myndi tryggja aðgengi að móðurmálskennslu án tillits til efnahags og stuðla að því að börn með annað móðurmál en íslensku gætu nýtt frístundakort sitt til að taka þátt í öðrum frístundum, sem er hverju barni nauðsynlegt.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23030098

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 24. maí 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 22. maí 2023 á tillögu um breytingu á framlagi til KFUM og KFUK vegna leikskólans Vinagarðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23010038

    Fylgigögn

  19. Lagt fram trúnaðarmerkt fullnaðaruppgjör borgarlögmanns, dags. 5. júní 2023, vegna greiðslu skaðabóta, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MSS21120215

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagða umsögn Reykjavíkurborgar um drög að reglugerð um málsmeðferð við setningu skipulagsreglna fyrir flugvelli, dags. 6. júní 2023.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030053

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. júní 2023, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Stuttgart. MSS23060014

    Fylgigögn

  22. Lagt fram að nýju bréf borgarstjóra, dags. 9. maí 2023, varðandi ferð borgarstjóra til Lviv í Úkraínu, sem lagt var fram á fundi borgarráðs þann 11. maí 2023 og fært í trúnaðarbók. MSS23050061

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa Magneu Gná Jóhannsdóttur í stýrihóp um heildstæða matarstefnu Reykjavíkurborgar, í stað Guðnýjar Maju Riba. Hjálögð eru drög að uppfærðu erindisbréfi.

    Samþykkt. MSS23010261

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er svo sem aðeins verið að leggja til breytta skipan í stýrihópi um heildstæða matarstefnu en engu að síður er ástæða til að ítreka fyrri bókun. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að setja eigi á laggirnar þennan hóp og væntir þess að hann skili einhverju bitastæðu af sér. Umfram allt þarf að leggja áherslu á stefnu sem felur í sér að fæða sé framleidd í sátt við umhverfi og náttúru og með dýraverndarsjónarmið að leiðarljósi. Sérstök áhersla ætti að vera lögð á dýraverndunarsjónarmið og að dregið verði úr matariðnaði sem skilur eftir sig flestu kolefnissporin. Einnig verður að draga úr sóun matar sem er alltof mikil. Reykjavík er í lykilstöðu enda eru þar framleiddar milljónir máltíða á ári hverju og ber borgin mikla ábyrgð á næringarástandi þeirra sem reiða sig að hluta eða nær eingöngu á máltíðir frá borginni. Reykjavíkurborg er því í áhrifastöðu á þróun matvælaframboðs. Það hlýtur að þurfa að draga úr framboði (ruslfæði) og ávallt að bjóða upp á val og að fólk skammti sér sjálft, þar með talið börnin.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 25. maí 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. maí 2023 á vali á borgarlistamanni Reykjavíkur 2023.

    Samþykkt.

    Trúnaður er um efni tillögunnar til 17. júní nk. MOF23030005

  25. Fram fer umræða um starfsáætlun borgarráðs 2023-2024. MSS23010046

  26. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 6. júní 2023, varðandi áskorun frá nemendum í Landakotsskóla um nýjan fótboltavöll. MSS23060026

    Fylgigögn

  27. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, dags. 25. maí 2023, um aukafund borgarráðs með stjórn OR, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. maí 2023.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttir, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það stendur til að fulltrúar stjórnar OR komi strax á næsta fund og er það hluti af málsmeðferðarplaninu eins og var lagt upp með. Þess vegna er tillögunni vísað frá enda málið þegar í farvegi.

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er mat borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem einnig situr í stjórn Orkuveitunnar að þörf sé á að ræða ákveðin mál og upplýsa borgarráð um framgang þeirra að ákveðnu leyti áður en að næsta fundi borgarráðs kemur með stjórn Orkuveitunnar. Vegna trúnaðar getur undirrituð ekki útfært ástæðurnar frekar en þykir einkar vont að ekki hafi verið vilji til þessa samtals.

    Hildur Björnsdóttir víkur af fundinum undir þessum lið. MSS23050161

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. júní 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um staðsetning og nýtingu eftirlitsmyndavéla, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023. MSS23030132

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 26. maí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um málefni Strætó, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023. MSS23030117

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hafði fengið ábendingu um að ekki væri samræmi í skiptimiðaafhendingu, að ekki hafi verið hægt að treysta því að fá skiptimiða og að stundum sé því einfaldlega hafnað. Segir í svari að þeir sem greiða með peningum geti fengið skiptimiða sem gildir í 75 mínútur en hjá þeim sem greiða með klapp-tíu korti eða stökum miða úr klapp-appi gildir miðinn sjálfkrafa í 75 mínútur. Þetta er sannarlega skýrt svar og vonandi vel sýnilegt á vefsíðunni. Einnig var spurt um af hverju safna þarf persónuupplýsingum notenda við kaup á fargjaldi. Við því segir að þegar upplýsinga er aflað frá skóla- og menntastofnunum í þeim tilfellum sem sótt er um námsmannaafslátt sé það að beiðni einstaklingsins og háð samþykki hans. Upplýsingar eru sóttar í gegnum hlutaðeigandi námsumsjónarkerfi. Vissulega þarf að staðfesta að viðkomandi er í námi ef hann á að fá námsmannaafslátt en ekkert umfram það myndi maður halda.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 1. júní 2023. MSS23010026

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 22. maí 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 30. maí 2023. MSS23010024

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 1. júní 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 25. maí 2023. MSS23010035

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. maí 2023. MSS23010018

    Fylgigögn

  36. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 31. maí og 7. júní 2023.

    11. liður fundargerðarinnar frá 7. júní 2023 er samþykktur. MSS23010011

    Fylgigögn

  37. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 34 mál. MSS23050183

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 28. lið yfirlitsins: 

    Það eru vonbrigði að í framlagðri umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur skuli vera stuðningur við frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum. Um er að ræða lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Vísað er í 12. grein barnasáttmálans sem segir að tryggja skuli barni sem getur myndað sér eigin skoðanir rétt á að láta þær frjálslega í ljós. Segir einnig í barnasáttmálanum að aðildarríki skuli taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur og þroska barns. Við í Flokki fólksins teljum að nóg sé á ungmenni lagt án þess að þau séu ekki líka krafin um pólitíska afstöðu og trúnað við stjórnmálaafl. Vissulega eru rök með og á móti í svona máli en Flokki fólksins hryllir við ef þetta verður samþykkt að horfa upp á stjórnmálaflokka berjast um hylli 16 ára barna og bjóða þeim alls konar gylliboð komi þeir til liðs við sig. Börn á þessu aldursbili er mislangt komin í þroska til að verja sig gegn kappsfullum tilraunum stjórnmálaflokka að ná atkvæðum þeirra. Hér er enginn að segja að börn geti ekki haft skoðun á þessum málum ekki síst ef þau eru alin upp í umhverfi þar sem pólitík er mikið skeggrædd. Fögnum sannarlega áhuga ungs fólks á öllum jákvæðum samfélagsmálum en halda á kosningaaldrinum í 18 árum.

    Fylgigögn

  38. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23060006

    Fylgigögn

  39. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.

    Öllum styrkumsóknum er hafnað. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málins. MSS23050047

    Fylgigögn

  40. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Frá Veitum hafa fengist þær upplýsingar að á komandi árum þurfi íbúar að búast við enn frekari lokunum sundlauga á köldum dögum vegna skorts á heitu vatni. Hvaða leiðir eru færar til að bregðast við svo ekki verði hrun í veitingu heits vatns á álagstímum? Stendur til hjá Veitum að bora eftir auknu magni af heitu vatni til að tryggja að nóg sé til fyrir íbúa, stofnanir og sundlaugar? Ef nei, hver eru rökin fyrir því að ná ekki í meira heitt vatn? Eru aðrar leiðir betur til þess fallnar að bæta þjónustuna? Hafa Veitur sett upp áætlanir til að bregðast við auknum veðuröfgum vegna loftslagsbreytinga, sem geta haft í för með sér ýktari og lengri kuldaköst? MSS23060041

  41. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðu mála varðandi uppbyggingu Loftkastalans í Gufunesi og eftir yfirliti um framgang málsins hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt upplýsingum frá lóðarhafa hefur Reykjavíkurborg ekki enn afhent eigendum Loftkastalans gögn um mælingar í Gufunesi. Lóðarhafar segjast ekki hafa enn fengið réttan hæðarkóta né nauðsynlegar innkeyrslur fyrir starfsemi sína í rúm fimm ár frá kaupum og hefur uppbygging Loftkastalans, sem var að fullu fjármögnuð árið 2019 á 23 íbúðum og leikmyndaverkstæðis tafist vegna þessa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fylgst með framvindu málsins og m.a. sótt fund með eigendum hjá innri endurskoðun sem lofaði að þoka málum áfram til sáttar. MSS23060042

  42. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um nýráðningar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hvað hafa margir starfsmenn verið ráðnir á þessu ári? Má rekja einhverjar nýráðningar til breyttra aðstæðna vegna styttingar vinnuvikunnar og ef svo er, hversu margar? Hafa einhverjir sumarstarfsmenn verið ráðnir og ef svo er, hversu margir? Einnig er óskað upplýsinga um kostnað vegna nýráðninga á árinu og hvort stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur verið upplýst um þær. MSS23060043

  43. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um gildandi reglur og fyrirkomulag lóðaúthlutana hjá Reykjavíkurborg. Óskað er eftir því að í svarinu komi fram allar þær leiðir sem unnt er að fara til að fá lóð úthlutaðri hjá borginni, hvaða skilyrði lögaðilar og einstaklingar þurfa að uppfylla til að geta fengið lóð. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um fjölda lóða sem hefur verið úthlutað á tímabilinu 2018 til dagsins í dag og hversu mörgum hefur verið úthlutað til einstaklinga og hversu mörgum til lögaðila.

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. MSS23060044

  44. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Vísað er til 3. liðar fundargerðar stafræns ráðs frá 10. maí þar sem fram fór kynning á öryggi upplýsingatækni innviða. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um ástæður þess að Reykjavíkurborg er svo skammt á veg komin með innleiðingu skýjaþjónustu eins og Microsoft 365 miðað við bæði ríkið og mörg fyrirtæki á einkamarkaði. Einnig er óskað upplýsinga um hvernig öryggi upplýsingatækniinnviða er nú háttað í Reykjavíkurborg eftir að staða öryggisfulltrúa sviðsins var lögð niður árið 2020. Hver ber nú ábyrgð á úttekt og eftirliti ISO27001 eins og er í ljósi þess að enn er verið að kynna „forgangsröðun og flokkun kerfa eftir mikilvægi“? Hver er staðan á allri þessari flokkun og greiningu kerfa Reykjavíkurborgar sem búið er að minnast á í öðrum kynningum sviðsins undanfarin ár og hvenær er áætlað að þeirri vinnu ljúki?

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS23060045

  45. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um nýtingu frístundakortsins og hvernig sú þróun hefur verið frá því fyrir og eftir COVID. Óskað er upplýsinga um nýtingarhlutfall eftir hverfum, hlutfall barna sem eru skráð í skipulagt tómstundastarf eftir aldri og kynjum og þátttöku eftir póstnúmerum og ráðstöfun frístundakorts eftir póstnúmerum.

    Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23060046

Fundi slitið kl. 12:05

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Skúli Helgason

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs frá 8. júní 2023 - prentvæn útgáfa