Borgarráð - Fundur nr. 5704

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 11. maí, var haldinn 5704. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. maí 2023:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.280 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,61%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.079 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.880 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,50% í verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKG 48 1 sem eru 1.889 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 10. maí 2023.

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir, Karl Einarsson og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22120008

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er til afgreiðslu tillaga borgarstjóra um að samþykkt verði tilboð í tvo verðtryggða skuldabréfaflokka (RVK 32 1 og RVK 48 1) fyrir samtals 3,2 milljarða króna að nafnvirði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja sannarlega jákvætt að borginni takist að fjármagna sig á markaði, en lýsa hins vegar ríkum áhyggjum af þeim versnandi kjörum sem borginni bjóðast. Telja fulltrúarnir rétt að borgin dragi úr fyrirhuguðum fjárfestingum sem ekki snúa að grunnþjónustu og hagræði verulega í rekstri, svo draga megi úr lántökuþörf.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þriðja skuldabréfaútboðið var í gær. Útboðið nú er hluti af 21 milljarða króna lántöku sem áformuð er í ár. Borgin hefur þegar selt skuldabréf fyrir um 4,1 milljarð og dregið 3 milljarða á langtímalánalínu hjá Íslandsbanka – samtals 7 milljarða. Hætt var við skuldabréfaútboð sem átti að vera þann 12. apríl sem kom í kjölfar þess að einnig var hætt við skuldabréfaútboð 8. mars sl. Fram kemur að skuldabréfaútboðið 10. maí hafi gengið vonum framar. Óttast er vissulega að traust til fjármálastefnu borgarinnar hafi alla vega ekki aukist eftir að í ljós kom að skekkja var í ársreikningum. Slík villa hefur áhrif á trúverðugleika. Framundan eru miklar lántökur. Þannig er staðan sem er hið versta mál í ljósi lítt hjaðnandi verðbólgu og áframhaldandi hækkandi vaxta. Gera þarf ráð fyrir hinu versta og vona hið besta. Varast ætti að fylgja þeim spám sem eru bjartsýnastar. Horfa skal fyrst og síðast á A-hlutann þegar rætt er um fjármál borgarinnar. A-hlutinn er undirstaðan og bakhjarl B-hluta fyrirtækja ef þau þurfa fjárhagslegan stuðning. Samantekin reikningsskil A- og B-hluta borgarsjóðs leiða fyrst og fremst í ljós hve mikið fjárhagslegt umfang er í rekstri, eignum, skuldum og sjóðstreymi í A-hluta borgarsjóðs og í B-hluta fyrirtækjum.

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þó markaðir séu vissulega erfiðir með bágbornum lánskjörum þá er það ánægjulegt að skuldabréfaútboð Reykjavíkur hafi farið fram og tilboð verið gerð. Það er hins vegar umhugsunarvert að Reykjavíkurborg fær talsvert verri kjör en ríkið og þarf að borga um tvöfalt hærri raunvexti en það. Það er brýnt að koma fjármálum Reykjavíkurborgar á réttan kjöl og endurskoða þá fjármálastefnu sem nú er í gildi. Stjórnmálamenn skulda þeim sem verst standa í samfélaginu að fara vel með fjármuni því það er forsenda þess að skapa öflugt velferðarsamfélag jöfnuðar og velsældar. 

  Fylgigögn

 2. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 3. maí 2023, vegna umsóknar Bjargs íbúðafélags hses., um stofnframlag vegna Haukahlíðar 6.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050005

  Fylgigögn

 3. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 3. maí 2023, vegna umsóknar Bjargs íbúðafélags hses. um stofnframlag vegna verkefnis að Safamýri 58-60.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050005

  Fylgigögn

 4. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 3. maí 2023, vegna umsóknar Brynju leigufélags ses. um stofnframlag.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050005

  Fylgigögn

 5. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 3. maí 2023, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag vegna Háteigsvegar 59.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050005

  Fylgigögn

 6. Lögð fram tillaga matsnefndar vegna veitingar stofnframlaga, dags. 3. maí 2023, vegna umsóknar Félagsbústaða hf. um stofnframlag vegna kaupáætlunar 2023.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir og Karl Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050005

  Fylgigögn

 7. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 9. maí 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023. Greinargerðir fylgja tillögunum.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010019

  Fylgigögn

 8. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. maí 2023, um breytingar á gjaldskrá Sigluness fyrir árið 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050017

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Siglinganámskeið fyrir börn og ungmenni í Siglunesi við Nauthólsvík hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár og eftirspurn verið langt umfram framboð. Kostnaður hefur hins vegar verið verulegur og farið fram úr áætlunum undanfarin misseri. Framtíð námskeiðanna var því óljós í samhengi við þröngan efnahag borgarsjóðs. Með tillögunni er tryggt að boðið verði upp á þessu vinsælu námskeið á komandi sumri en með breyttum formerkjum og umtalsvert lægri kostnaði fyrir borgarsjóð. Stöðugildum verður fækkað, dregið verulega úr yfirvinnu, heildartímabil námskeiðahalds stytt um eina viku og útgjöld lækkuð um tæpan helming frá raunkostnaði síðasta árs. Gjaldskrá hækkar um fjórðung milli ára sem er nauðsynleg forsenda þess að áfram verði hægt að bjóða börnum þennan valkost. Námskeiðagjöldin hafa ekki alltaf fylgt verðlagi á undanförnum árum og eru lægri en námskeiðagjöld fjölmargra sumarnámskeiða sem í boði eru í borginni og á vegum annarra sveitarfélaga í nágrenninu.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Jákvætt er að sjá að búið sé að hætta við lokun Sigluness en sú tillaga var ein af niðurskurðartillögum meirihlutans sem kom fram í desember á síðasta ári. Það er þó miður að sjá að verið sé að hækka gjaldskrána um 25% og stytta tíma námskeiðanna sem reynst hafa börnum vel.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki glaðst yfir þessari tillögu borgarstjóra og meirihlutans. Lagt er til að þjónusta Sigluness verði dregin saman. Og til viðbótar á að hækka gjaldskrá um rúm 25%. Halda mætti að hér væri komin matarhola fyrir borgarsjóð í erfiðri fjárhagsstöðu. Adam var ekki lengi í Paradís. Það eru tvær vikur síðan fulltrúi Flokks fólksins fagnaði þegar sást í viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 að halda ætti starfinu áfram í Siglunesi. Ljóst er að skera á rösklega utan af starfseminni og er óvissa um tímalengd námskeiða og almennt um framtíð Sigluness.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 8. maí 2023, varðandi tillögu um val á ytri endurskoðunarfyrirtæki, ásamt fylgiskjölum.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Hallur Símonarson og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23050018

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 26. apríl 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. apríl 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands, Vísindagörðum, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23040073

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að á þessari frábæru lóð rísi hús af hæstu gæðum og í allri útfærslu verði kostað kapps um að ná markmiðum um kolefnishlutleysi.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að á þessari frábæru lóð rísi hús af hæstu gæðum og í allri útfærslu verði kostað kapps um að ná markmiðum um kolefnishlutleysi. Einnig er mikilvægt að hugsa húsið þannig að allir eigi þess kost að njóta þess. Leiga eða annar kostnaður sem tengist aðgengi að húsinu þarf að vera viðráðanleg þeim sem hafa minna milli handanna hvort sem það eru einyrkjar eða hópar.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. maí 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Norðurströnd, strandsvæði milli Faxagötu og Laugarness, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22123006

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að málið fari í samráðsferli og kallað verði eftir sjónarmiðum borgarbúa og hagsmunaaðila, en svo virðist sem um umdeilda breytingu sé að ræða. Jafnframt gera fulltrúarnir fyrirvara við kostnað en varla verður séð að um eðlilega forgangsframkvæmd sé að ræða við núverandi aðstæður í rekstri borgarinnar.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Jákvætt er að sjá áherslurnar fyrir þetta svæði en mikilvægt er að tryggja góðar almenningssamgöngur að svæðinu. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Skipulagssvæðið við Norðurströnd er á landfyllingu, en þar var fjöru fórnað. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um að það er óásættanlegt að enn sé verið að ganga á fjörur og hér að litlu tilefni, sbr. þetta: „Þá er gert ráð fyrir að lagfæringar fari fram á sjóvarnargarðinum, en í stað þess að garðurinn verði hækkaður, er stefnt á að hann verði breikkaður út í sjó“. Þetta er ekki lagfæring heldur misþyrming á strandlengju. 

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. maí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna uppbyggingar í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 315 m.kr.
  Samþykkt.

  Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23040224

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er fagnaðarefni að ráðast eigi í framkvæmdir í tengslum við íbúabyggð og hina mikilvægu uppbyggingu í Gufunesi. Í útboðinu felst fegrun og frágangur, þar með talið yfirborðsfrágangur við Jöfursbás, lúkning á malbikun götu, hellulagning gangstétta og bílastæða, blágrænar ofanvatnslausnir og gróðursetning.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka mikilvægi þess að framkvæmdirnar fari ekki fram í vegstæði Sundabrautar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða spennandi uppbyggingu að mjög mörgu leyti. Snyrta á umhverfið m.a. felst í því blágrænar ofanvatnslausnir og gróðursetning. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstakt að gera eigi blágrænar ofanvatnslausnir svona nálægt strönd. Því fylgir vissulega ákveðinn viðbótarkostnaður.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. maí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við Víðinesveg, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 300 m.kr.
  Samþykkt.

  Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23050080

  Fylgigögn

 14. Fram fer kynning á fyrirkomulagi leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16.-17. maí nk.

  Ragnar Þorvarðarson, Gunnar Hörður Garðarsson, Hulda Axelsdóttir, Kristján Helgi Þráinsson og Eva Bergþóra Guðbergsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23040167

 15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. maí 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð og eftir atvikum borgarstjórn samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 4. maí 2023, að skipan í stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. Kosning í 5 manna stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. kallar á breytingu á samþykktum.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060144

  Fylgigögn

 16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. maí 2023, varðandi ferð forseta borgarstjórnar til Sviss dagana 11.-12. maí 2023. MSS23050053

  Fylgigögn

 17. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 8. maí 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þátttöku á stjórnendadegi Reykjavíkurborgar og heildarkostnað við viðburðinn, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. apríl 2023. MOS23030004

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér kemur fram að alls 717 einstaklingar fengu boð á stjórnendadag Reykjavíkurborgar sem haldinn var á dögunum í Hörpu, en fundurinn er haldinn árlega. Varpar þessi fjöldi ljósi á þann umfangsmikla fjölda stjórnenda sem starfa hjá borginni og þá sístækkandi yfirbyggingu sem reynist þung í rekstri hennar. Jafnframt kemur fram að kostnaður við stjórnendadaginn hafi numið kr. 5.317.595 en við þá upphæð bætist kostnaður við kokteilboð á vegum borgarstjóra sem nam kr. 535.600. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks hér einstakt tækifæri til hagræðingar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sjálfsagt er að halda stjórnendadag en það er óskiljanlegt af hverju hann þarf að kosta svona mikið. Markmið stjórnendadagsins er að tengja saman stjórnendur sem starfa hjá borginni á mjög fjölbreyttum starfsstöðum, styrkja og efla þekkingu stjórnenda svo og efla tengsl og samkennd innan hópsins eins og segir í svari og er ekkert gagnrýnisvert við það. Eins að bjóða upp á fræðslu sem oft er hægt að fá fyrir lítið og jafnvel ekki neitt. 717 fengu boð og 445 skráðu sig. Fjöldinn sýnir að borgarkerfið er bólgið af stjórnendum. Bæst hefur rösklega í þann hóp síðustu fimm ár. Kostnaðurinn er ævintýralegur, 5.317.595 kr., og eiginlega ótrúlegur í ljósi sparnaðaraðgerða borgarinnar og fjárhagsvandræða hennar. Brot af þeirri upphæð ætti að duga. Það má sjá þegar farið er ofan í skiptingu kostnaðar (leiga, tæknimál, veitingar, kostnaðar vegna fræðslu og fleira). Þetta er eitt dæmi um að borgarmeirihlutanum er ekki alvara með að ætla að spara.

  Fylgigögn

 18. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að bjóða formanni Samtaka leigjenda á fund borgarráðs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2023.

  Borgarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að taka húsnæðisáætlun Reykjavíkur til umræðu á fundi sínum 25. maí. Á þeim fundi verði formanni Samtaka leigjenda boðið til að kynna nýja skýrslu Samtaka leigjenda um stöðuna á leigumarkaði ásamt fulltrúa Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

  Breytingartillagan er samþykkt.
  Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS23040238

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þessi tillaga er svo sjálfsögð að hún hlýtur að verða samþykkt á staðnum. Samskipti, samtal og tengingar stjórnvalda og hagsmunasamtaka skipta miklu á tímum sem þessum. Leigjendamarkaðurinn er helsjúkur. Þetta er mál sem varðar okkur öll. Í nýrri skýrslu samtaka leigjenda koma fram ýmsar sláandi staðreyndir um stöðuna meðal annars um hversu mikið leiguverð hefur hækkað umfram verðlag síðasta áratuginn. Hægt er að fara yfir þessi mál með formanninum og sjá hvort þróa/finna megi lausnir saman.

  Fylgigögn

 19. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. maí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki húsaleigusamninga vegna Koparsléttu 11B og 11C, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23020024

  Fylgigögn

 20. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 4. maí 2023, varðandi úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.

  Anna Kristinsdóttir og Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060211

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lögð er fram úttekt á stöðu ofbeldisvarnamála Reykjavíkurborgar. Það má með sanni segja að úttektin sé víðfeðm og beri víða niður. Almennt er viðhorf til áætlunarinnar jákvætt en óskir um aukið samráð við ábyrgðaraðila er einkennandi þema hjá sviðunum. Fram kemur að það sé skortur á tölulegum gögnum og engin dæmi eru um að mælikvarðar á árangur séu tilgreindir. Tvö verkefni voru sérstaklega tiltekin vegna góðs árangurs en það eru verkefnin Saman gegn ofbeldi og Jafnréttisskólinn. Flokkur fólksins telur að það sé brýnt að efla Jafnréttisskólann. Athygli vekur hversu mörg verkefni eru óframkvæmanleg vegna tækniörðuleika. Torgið og atvikaskráningakerfið eru dæmi um slíkt. Búið er að hanna fræðslu og taka upp fyrirlestra fyrir fagfólk um fatlað fólk og ofbeldi. Torgið er ekki komið í gagnið og því ekki hægt að nýta þessa fræðslu. Í úttektinni eru margar tillögur um úrbætur, m.a. telur skýrsluhöfundur mikilvægt sé að fara í átak gegn ofbeldismenningu barna. Í borgarstjórn á haustdögum 2022 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að stýrihópur yrði settur á laggirnar sem myndi kortleggja ofbeldi og þ.m.t. aukinn burð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Tillögunni var vísað til ráðsins en hefur ekki fengið frekari skoðun þar.

  Fylgigögn

 21. Lagt fram svar menningar- og íþróttasviðs, dags. 12. apríl 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjóðarhöll, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. mars 2023. MSS22050013

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram kemur í svari að meginástæða þess að æfingar á vegum íþróttafélagana í dalnum falli niður sé að aðrir íþróttaviðburðir á vegum sérsambanda svo sem HSÍ og KKÍ hafi verið í gangi. Sérsambönd og útleiga hafa verið í forgangi í aðstöðunni. Óbreytt fjármögnunarmódel Laugardalshallar og samrekstur með þjóðarhöll þýðir að íþróttafélögin og skólarnir verða áfram víkjandi notendur húsanna. Það er óásættanlegt fyrir samfélagið í Laugardal. Í svarinu kemur fram að á tímabilinu 31. desember 2022-12. apríl 2023 féllu niður 24 æfingadagar vegna afnota sérsambanda og Reykjavík International Games. Það jafngildir að fjórða hvern dagatalsdag hefur Laugardalshöllin verið lokuð notendum úr hverfinu. Augljóst er að það er óásættanlegt. Samtal við skólastjórnendur er ekkert, aðeins hefur verið óskað eftir greinargerð um núverandi lágmarksþörf skólanna. Íþróttafélögin hafa sama og ekkert fengið að koma að undirbúningsvinnunni, aðeins fengið stutt samtal við undirnefnd framkvæmdanefndarinnar (líklega kölluð ráðgjafanefnd í svarinu). Forsvarsfólk íþróttafélaganna er úti í kuldanum í þessari vinnu. „Þjóðarhöll“ hefur verið sem skuggi yfir hverfinu í langan tíma, tefur nauðsynlega uppbyggingu og engar vísbendingar eru um að með henni verði aðstaðan fyrir íþróttafélög og skólana í Laugardal færð í ásættanlegt horf til framtíðar. 

  Fylgigögn

 22. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 4. maí 2023. MSS23010026

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

  Þetta tiltekna mál hefur tekið sex ár og reynt mikið á aðila máls. Hér hefur verið brotið á fötluðu fólki, því mismunað. Blessunarlega er til umboðsmaður sem fylgir lögum. Niðurstaðan er afgerandi þar sem staðfest var að ákvörðun borgarinnar um að synja umsókn aðila um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks hafi ekki verið í samræmi við lög. Niðurstaðan byggist á því að gjaldskráin hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við lokamálslið 3. mgr. 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Umboðsmaður leggur til að málið verði tekið upp að nýju. Beiðni hefur komið frá aðila um að það verði gert. Málið fer næst til velferðarráðs og -sviðs. Hvernig ætlar borgarmeirihlutinn að bregðast hér við? Hvernig á að bæta aðila tjónið og öllum þeim sem brotið hefur verið á með sama hætti? Endurgreiða á öllum þeim sem ofgreitt hafa enda um að ræða lögbrot samkvæmt umboðsmanni Alþingis.

  Fylgigögn

 23. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 17. og 24. apríl og 3., 4. og 8. maí 2023. MSS23010022

  Fylgigögn

 24. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 25. apríl 2023. MSS23010024

  Fylgigögn

 25. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 27. apríl og 4. maí 2023. MSS23010005

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

  Bent er á enn og aftur að þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar er einfaldlega ekki alveg með á nótunum um raunverulega stöðu borgarsjóðs. Þrátt fyrir að búið sé að ausa milljörðum á milljarða ofan í sviðið heldur það áfram að heimta meira fjármagn úr tómum borgarsjóði í alls kyns verkefni sem ekki er hægt að flokka sem nauðsyn. Á sama tíma og biðlistar barna gera ekkert annað en að lengjast, ætlar þjónustu- og nýsköpunarsvið sér að eyða 20,4 milljónum í leigu á teiknitöfluforriti til að halda utan um óskilgreinda hugarflugsvinnu nokkurra starfsmanna sviðsins næstu tvö árin. Það virðist sem þetta tiltekna svið sé algjörlega undanþegið hagræðingarkröfu meirihlutans. Árið 2020 í miðju COVID segir sviðið upp fjölda starfsfólks þvert á yfirlýsingar borgarstjórnar um að standa vörð um störf borgarstarfsmanna. Í síðasta mánuði auglýsir sviðið eftir þróunar- og tæknistjórum á sama tíma og meirihlutinn kynnir aðhald í mannaráðningum. Það ætti öllum að vera orðið ljóst fyrir löngu að það þurfa að eiga sér stað umfangsmiklar breytingar á þjónustu- og nýsköpunarsviði til þess að reyna að koma í veg fyrir enn meiri fjársóun en þá sem nú þegar er orðin af völdum þessa sviðs.

  Fylgigögn

 26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 3. maí 2023. MSS23010028

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

  Undir 3. lið er umsögn íbúaráðs Breiðholts um matsáætlun Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, að teknu tilliti til Borgarlínu. Íbúðaráðinu er eins og öllum umhugað um aðgengi að Elliðaárvogi og að útivistarsvæðið við Elliðaár verði ekki skert. Horfast þarf í augu við að það munu ekki allir nota Borgarlínu og að mikilvægt er að þeir sem nota bíl hafi greiða leið um svæðið. Tekið er undir undrun íbúaráðsins að ekki er í neinni útfærslunni gert ráð ráð fyrir að stoppistöð Borgarlínu þjóni vegfarendum á leið inn í útivistarparadís Elliðaárdalsins og að íþróttamannvirkjum Víkings. Eins og segir í umsögninni þá er með þessu verið að „beina farþegum sem eiga leið inn á þessi tvö grænu svæði borgarinnar í gegnum skiptistöðina í Mjódd eða Vogabyggð.“ Í ljósi þessa er enn mikilvægara að það sé greið leið fyrir bíla enda löng leið fyrir gangandi inn á græn svæði, sérstaklega fyrir fólk með skerta hreyfigetu og börn. Íbúar hverfisins hljóta einnig að að fá eitthvað um þetta að segja enda hér um stórmál að ræða. Finna þarf leiðir svo allir komist leiðar sinnar með öruggum og skjótum hætti óháð því farartæki sem þeir kjósa að nota. 

  Fylgigögn

 27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 25. apríl 2023. MSS23010031

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

  Undir 3. lið er umsögn íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um matsáætlun Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, að teknu tilliti til Borgarlínu. Áhyggjur íbúaráðsins eru töluverðar eðli málsins samkvæmt enda mun breytingin á umræddum gatnamótum hafa talsverð áhrif íbúa í Háaleitis- og Bústaðahverfi allt frá flæði bílaumferðar, hávaða og loftmengunar frá framkvæmdasvæðinu og til aðgengis gangandi og hjólandi vegfarenda að Elliðaárdalnum svo eitthvað sé nefnt. Tekið er undir með ráðinu að þessar ólíku útfærslur sem dregnar eru upp á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar og legu sérreinar Borgarlínunnar í þversniði Reykjanesbrautarinnar eru óljósar og engin frekari gögn birt til að lýsa þeim ólíku kostum og göllum sem fylgja hverri útfærslu. Málið er ef til vill ekki nógu vel undirbúið. Hvernig á íbúaráðið að geta tekið afstöðu eða myndað sér skoðun þegar svo grófar útfærslulýsingar eru það eina til að byggja á? Íbúar hverfisins hljóta einnig að fá eitthvað um þetta að segja enda hér um stórmál að ræða. Finna þarf leiðir til að allir komist leiðar sinnar með öruggum og skjótum hætti hvernig farartæki sem þeir kjósa að nota. 

  Fylgigögn

 28. Lagðar fram fundargerðir íbúaráðs Laugardals frá 13. mars og 24. apríl 2023. MSS23010033

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 13. mars og 2. lið fundargerðarinnar frá 24. apríl: 

  Fulltrúi Flokks fólksins hvetur meirihlutann og skipulagsyfirvöld til að taka erindi íbúaráðsins vegna göngustígs við bílastæði World Class alvarlega. Íbúar óttast um öryggi barna og annarra vegna fjölmargra tilfella þar sem gestir World Class hafa ekið gáleysislega t.d. yfir göngustíginn, þrátt fyrir merkingar um að slíkt sé óheimilt. Keyrt hefur verið utan í fólk og árið 2018 var keyrt á barn á þessum stíg. Fara þarf í frekari aðgerðir. Erindi íbúaráðs Laugardals er ákall um aðgerðir strax. Öryggismál eiga að hafa forgang og taka ber athugasemdir íbúa alvarlega. Að ekið sé á gangandi fólk á göngustíg er ekki boðlegt. Það þarf að aðgangsstýra þessari leið. Ein hugmynd að setja niðurgrafna staura sem hægt er að stýra upp/niður með fjarstýringu. Það þarf einhverja slíka lausn því að óbreyttu verður þarna alvarlegt slys.

  Fylgigögn

 29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. apríl 2023. MSS23010035

  Fylgigögn

 30. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. og 10. maí 2023.
  3. liður fundargerðarinnar frá 3. maí og 14. liður fundargerðarinnar frá 10. maí eru samþykktir. MSS23010011

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvenær hefja á niðurrif á Íslandsbankahúsinu við Kirkjusand. Íbúar eru þreyttir á þessu ófremdarástandi en eigendur segja niðurrif handan við hornið. Fengin var umsögn byggingarfulltrúa sem hefur í raun engin svör nema bara að tafir séu á ferlinu, ekki hafi verið gefin heimild í deiliskipulagi fyrir niðurrif. Vandinn er sífellt sá sami, það skortir alla skilvirkni. Hlutir ganga á hraða snigilsins. Vissulega er það skiljanlegt að ekki sé ráðist í lagfæringar á húsi sem á að rífa. Það er ekki hægt að kenna eigandanum um þetta því deiliskipulagsvinnunni er ekki lokið og hún er á ábyrgð skipulagsyfirvalda. Þegar sú vinna er frá er komið að eigandanum að senda inn umsókn. Það er því ekki við eigandann að sakast nú. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandssjóðum, sem eiga húsið, eru öll leyfi fyrir niðurrifi komin og gögnin komin á borð Skipulagsstofnunar. Ekkert virðist því vera að vanbúnaði um að hefjast handa.

  Fylgigögn

 31. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 26 mál. MSS23050045

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir ályktun öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna byggðar í Skerjafirði, en þar segir meðal annars: „Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar“.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25. lið yfirlitsins: 

  Ánægjulegt er að sjá málið um aðgengisfulltrúa vera komið í þetta ferli. Nú hefur verið samþykkt að fela starfsfólki mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og formanni nefndarinnar að klára starfslýsingu fyrir aðgengisfulltrúa en aðgengis- og samráðsnefnd hyggst sækja um styrk til jöfnunarsjóðs sem ætlaður er til þess að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og skal að fullu nýttur til aðgengismála. Langur vegur er í að aðgengismál verði viðunandi, hvað þá fullnægjandi í Reykjavík. Í aðgengisstefnu borgarinnar sem samþykkt var sl. vor var kveðið á um stöðugildi aðgengisfulltrúa til reynslu í eitt ár. Stöðugildi aðgengisfulltrúa er forsenda þess að hægt sé að framfylgja aðgengisstefnunni, bæta aðgengi í borginni með skilvirkum hætti og nýta vel það fjármagn sem úthlutað er til aðgengismála. Flokkur fólksins hefur verið með fyrirspurnir um þetta mál, hvort Reykjavíkurborg hafi nýtt sér fjárstyrk úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til úrbóta í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Kannski er sá þrýstingur að skila sér.

  Fylgigögn

 32. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23050046

  Fylgigögn

 33. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
  Öllum styrkumsóknum er hafnað. MSS23050047

  Fylgigögn

 34. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Reykjavíkurborg samþykkir búsetu í hjólhýsum og húsbílum sem viðurkennt búsetuform og samþykkir jafnframt að finna langtímastæði fyrir þau sem kjósa slíkt búsetuform. Unnið verði að því að skilgreina slíka búsetu þannig að íbúar geti skráð lögheimili sitt á þeim stað og fengið öll þau réttindi sem því fylgja.

  Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23050067
  Frestað. 

  Fylgigögn

 35. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir upplýsingum um sölu byggingarréttar á lóðum í Reykjavík. Hvert er meðalsöluverð á lóð sem Reykjavík hefur boðið út á ári síðustu 10 ár? Hversu mikið hefur söluverð á lóðum hækkað síðustu 10 ár? Hvers vegna býður borgin lóðir út til hæstbjóðenda? Hvernig var fyrirkomulag lóðaúthlutana áður en Reykjavíkurborg fór að bjóða þær út? MSS23050068

 36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg kanni viðhorf meðal íbúa og skólasamfélagsins í Laugardal til Þjóðarhallar. Nokkuð ljóst er að sérsambönd og útleiga hafa verið og munu að öllum líkindum vera í forgangi í aðstöðunni. Óbreytt fjármögnunarmódel Laugardalshallar og samrekstur með Þjóðarhöll þýðir að íþróttafélögin og skólarnir verða áfram víkjandi notendur húsanna sem er óásættanlegt fyrir samfélagið í Laugardal. Brýnt er að heyra í íbúum í Laugardal og heyra viðhorf þeirra til Þjóðarhallar nú þegar engar vísbendingar eru um að með henni verði aðstaðan fyrir íþróttafélög og skólana í Laugardal færð í ásættanlegt horf til framtíðar. Íþróttafélögin hafa sama og ekkert fengið að koma að undirbúningsvinnunni, aðeins fengið stutt samtal við undirnefnd framkvæmdanefndarinnar (líklega kölluð ráðgjafanefnd í svarinu). Forsvarsfólk íþróttafélaganna er úti í kuldanum í þessari vinnu. Kalla þarf fram viðhorf íbúa, foreldra og barnanna í Laugardal áður en lengra er haldið. MSS23050069

  Frestað.

 37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Spurt er um fundargerð stafræns ráðs frá 26. apríl sl. 2. liður, um gagnahögun. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá að vita hver raunveruleg staða gagnaframsetningar er hjá Reykjavíkurborg núna. Þá er átt við hverju öll þessi gagnavinna þeirra gagnaeininga sem orðið hafa til innan þjónustu og nýsköpunarsviðs hefur skilað í fullkláruðum lausnum undanfarin þrjú ár. Einnig vill fulltrúinn fá að vita á hvaða hátt almenn gagnavinnsla sé öðruvísi hjá Reykjavíkurborg en hjá öðrum sveitarfélögum og þeim borgum sem við viljum bera okkur saman við? Af hverju er ekki hægt að innleiða tilbúnar gagnalausnir og hefjast þannig handa við framsetningu og miðlun gagna til borgarbúa og starfsfólks? Bent er á að þrátt fyrir allt þetta er enn um mikla gagnaóreiðu að ræða hjá Reykjavíkurborg og fyrirspurnum til borgarinnar oft svarað bæði seint og illa. 3. liður, um gagnagreiningu. Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita, í ljósi vægast sagt bágborinnar stöðu borgarsjóðs, hvort „gagnadrifin ákvörðunartaka“ sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið að kynna undanfarin ár, sé almennt komin í notkun innan borgarinnar en lesa má úr kynningunni að ætlunin sé enn og aftur að uppgötva og þróa alla ferla og gagnalausnir upp á eigin spýtur með tilheyrandi notendarannsóknum. Allflestar þessar innanbúðaruppgötvanir sviðsins á lausnum ættu að vera til og í notkun annars staðar. Áður hefur verið bent á að sú nálgun sem sviðið beitir í hinni stafrænu vegferð er verulega gagnrýniverð enda bæði dýr og tafsöm. 4. liður, um hagnýtingu gagna. Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita af hverju svo mikilli vinnu hefur verið eytt í uppfærslur á sorphirðudagatali Reykjavíkur sem búið er að vera lengi virkt í einfaldari mynd á vef borgarinnar. Í framhaldi er óskað upplýsinga um af hverju þetta endalausa nostur við sorphirðudagatalið hafi lent ofar í forgangsröðun sviðsins undanfarin ár en mörg önnur ókláruð stafræn verkefni eins og til dæmis innritanir barna í leik- og grunnskóla. Einnig er óskað skýringa á því af hverju sviðið ætlar sér að fara að leggja mikla vinnu í að búa til svokallaðar „gagnasögur“ til að birta á vef borgarinnar ásamt því að leggjast í miklar notendarannsóknir til að komast að því hvaða „gagnasögur“ borgarbúar eru mest spenntir að fá að lesa á vefnum. Hvaða þarfir borgarbúa er verið að reyna að uppfylla með allri þessari „gagnasagnavinnu“? Einnig er spurt hver sé eftirspurnin eftir svona löguðu á vef Reykjavíkurborgar, sem ekki er beint hægt að skilgreina sem vinsælan afþreyingarvef. 5. liður, um virði gagna. Um er að ræða almenna kynningu þjónustu- og nýsköpunarsviðs á gögnum og ýmsum gagnahugtökum ásamt tilheyrandi upptalningum og flæðiritum. Þess vegna spyr fulltrúi Flokks fólksins hvaða tilgangi þessar kynningar þjóna þegar þær fjalla nánast allar um það sama, sem er það hvað sé hægt að gera við gögn og hvers virði gögn séu o.s.frv. MSS23010009

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. 

 38. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hefur fjárhagsaðstoð borgarinnar hækkað í takt við hækkanir launa í kjarasamningum eða vegna verðbólgu? MSS23050072

Fundi slitið kl. 11:20

Einar Þorsteinsson Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Kristinn Jón Ólafsson

Pawel Bartoszek Sanna Magdalena Mörtudottir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 11.5.2023 - Prentvæn útgáfa