Borgarráð - Fundur nr. 5702

Borgarráð

Ár 2023, miðvikudaginn 19. apríl, var haldinn aukafundur borgarráðs nr. 5702. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:18. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Einar Sveinbjörn Guðmundsson og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að samþykkt verði heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að kr. 3.250.000.000,- að nafnverði, (þrír milljarðar tvöhundruð og fimmtíu milljónir króna), þ.e. 33,33% af heildarhlutafé félagsins , eða þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði aldrei minni en 66,67% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. Fjárhæðin byggir á sviðsmynd A hybrid og tekur mið af ítarlegu áhættumati sem lagt var fyrir rýnihóp borgarráðs. Jafnframt er lagt til að samþykkt verði að val á aðferðafræði og umbúnaði við útgáfu nýs hlutafjár verði undirbúið á ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnar hennar og verði borgarráði kynnt áformin. Stjórn Ljósleiðarans ehf. verði veitt heimild til að ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verði nýtt. Samþykkt þessi er bundin því skilyrði að andvirði nýs hlutafjár í Ljósleiðaranum ehf. verði nýtt til að greiða niður skuldir Ljósleiðarans ehf. og styrkja stöðu félagsins á samkeppnismarkaði. Jafnframt skal Ljósleiðarinn ehf. leggja nýtt mat á og forgangsraða fjárfestingaráformum út frá greiningu á kostnaði þeirra, ábata og áhættu. Þá er lagt til að samþykkt verði að heimild þessi til hlutafjárhækkunar falli niður 31. desember 2024 að því marki sem hún er þá enn ónýtt.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23010191

    -    Kl. 11:20 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að kr. 4.333.333.333 að nafnverði og að heildarhlutafé félagsins verði allt að kr. 10.833.333.333 að nafnverði þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði um sinn ekki minni en 60% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. Jafnframt er sett það skilyrði að Orkuveita Reykjavíkur leggi Ljósleiðaranum ehf. hvorki til frekara hlutafé né lánsfé og að Orkuveita Reykjavíkur taki ekki þátt í umræddu hlutafjárútboði. Að lokum verði tryggt að andvirði selds hlutafjár dugi fyrir fyrirhugðum fjárfestingum félagsins svo ekki þurfi að koma til frekari lántöku hjá Ljósleiðaranum ehf. vegna þeirra.

    Breytingartillagan er felld með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Tillaga borgarstjóra er samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar við stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Stefanía Scheving Thorsteinsson og Theodór Kjartansson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vísar til niðurstöðu meirihluta rýnihóps borgarráðs um erindi Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu dags. 24. október 2022.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi barist fyrir því að borgarstjórn og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur láti af samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði. Á síðasta kjörtímabili lögðu fulltrúar flokksins það til í þrígang að Ljósleiðarinn yrði seldur í heild sinni, en þá voru aðstæður á markaði sérlega góðar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa nú enn lagt til að Ljósleiðarinn verði seldur í heild sinni. Til vara lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til nákvæmlega sömu tillögu og rýnihópur um hlutafjáraukningu í Ljósleiðaranum gerði upphaflega en með ákveðnum skilyrðum sem taka allan vafa af því að tilgangur þessa hlutafjárútboðs sé ekki að liðka til fyrir frekari fjárveitingum frá Orkuveitu Reykjavíkur á síðari stigum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta með engu móti fallist á áframhaldandi fjármögnun umsvifa Ljósleiðarans með skattfé eða fjármunum Orkuveitunnar. Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar hefur lýst sig reiðubúinn til að leggja Ljósleiðaranum til aukið eigið fé gegn vilja þess borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem er stjórnarmaður. Þessi viljayfirlýsing stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og sú staðreynd að nú er búið að lækka þá upphæð í nýju hlutafé sem til stóð að selja og draga þar með úr fjárfestingagetu Ljósleiðarans ehf. eru skilaboð um að enginn hugur fylgi máli hjá meirihlutanum og alltaf standi til í lok „leiksýningarinnar“ að Orkuveita Reykjavíkur leggi Ljósleiðaranum ehf. til nýtt hlutafé. Auk þess er ekki hægt að ætlast til þess af eigendum að samþykkja hlutafjárútboð sem byggir á samningi við Sýn sem eigendur mega ekki sjá þótt ljóst sé að sá samningur hljóti alltaf að vera undir í áreiðanleikakönnun hugsanlega stórra kaupenda í Ljósleiðaranum. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar sósíalista hafna einkavæðingu en lagt er til að selja hlut af opinberu félagi til einkaaðila. Um þetta er fjallað í tillögu borgarstjóra sem og í umsögn meirihluta rýnihóps borgarráðs um erindi Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu. Ljósleiðarinn sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur byggir upp og rekur ljósleiðaranet fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Mikilvægt er að rekstur slíkra grunninnviða sé á vegum hins opinbera. Fulltrúar sósíalista hvetja borgaryfirvöld til að sækjast eftir undanþágu frá hamlandi tilskipunum EES-samningsins sem fela í sér að rekstur félaga sem sjá um fjarskipti og net verði að vera á samkeppnismarkaði. Hér er um mikilvæga grunninnviði að ræða sem mikilvægt er að verði reknir á samfélagslegum grunni. Vísað er til umsagnar og tillagna borgarfulltrúa Sósíalista Trausta Breiðfjörð Magnússonar frá 11. apríl 2023, sem átti sæti í rýnihópi um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans en þar er fjallað með ítarlegri hætti um afstöðu Sósíalista til þessa máls. Finna þarf lausn á stöðunni m.a. með því að þrýsta á ríkisvaldið til að falla frá heftandi lögum um samkeppni sem leiða til þess að opinber félög fara á svið einkavæðingar í leit að fjármögnun.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Allt þetta mál, alveg frá því að hugmyndir framkvæmdastjórnar Ljósleiðarans litu dagsins ljós og sú niðurstaða sem meirihluti stýrihópsins nær, er með ólíkindum. Margt í ferli þessa einkavæðingarmáls vekur upp áleitnar spurningar, m.a. um skyldur og aðhald eigenda gagnvart félögum sínum en líka hvernig umboði stjórna er háttað sem ekki eru skipaðar kjörnum fulltrúum og eru í mikilli fjarlægð frá þeim sem að lokum bera ábyrgðina. Sala og einkavæðing á innviðum í almannaeigu er ekki smámál heldur umfangsmikið samfélagsmál sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Ekki sér fyrir endann á framvindu þessa máls og það er dapurleg staðreynd að flokkar sem helst hafa staðið gegn sölu á mikilvægum innviðum í eigu almennings hafa tekið kúvendingu. Óvissan í þessu máli er ærandi og farsælast hefði verið að halda Ljósleiðaranum í eigu almennings með því að Orkuveitan veitti dótturfélagi sínu hlutafjáraukningu á markaðsvirði samhliða því að fjárhagsleg og stjórnunarleg endurskipulagning færi fram. Eins ættu eigendur að festa starfssvæði Ljósleiðarans og þá samkeppnissvæði hans með t.d. samþykktum. Þá er brýnt að fara í saumana á m.a. eigendasamkomulagi og öðru sem liggur til grundvallar starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga hennar. Eins verður fróðlegt að fylgjast með hvernig hinu opinbera og einkaaðilum tekst að samræma hugmyndir sínar um rekstur Ljósleiðarans ehf. Þegar öllu er á botninn hvolft þá stendur það eftir að með þessu er verið að einkavæða eigur almennings. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins átti sæti í rýnihópi um málefni Ljósleiðarans og skilaði sérályktun: Slæm staða Ljósleiðarans hefur legið fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2019 og jafnvel fyrr. Félagið er í dag skuldsett og er eiginfjárhlutfall hættulega lágt. Eigendur, sem að stærstum hluta til er Reykjavíkurborg, voru ekki upplýstir um slæma stöðu fyrirtækisins þegar hún lá fyrir. Fulltrúa Flokks fólksins var boðið að sitja í þverpólitískum rýnihópi sem hafði það hlutverk að leggja mat á umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra um heimild til hækkunar hlutafjár félagsins. Í rýnihópnum hafa ýmsar sviðsmyndir verið skoðaðar en engin þeirra er án óvissu og allar krefjast einhverrar frekari skuldsetningar félagsins, þó mismikillar. Erfitt er að spá fyrir um breytur eins og markaðsvirði, þjónustustig og samkeppni. Allan þann tíma sem rýnihópurinn hefur fundað hefur ríkt leynd yfir gögnum. Flokkur fólksins ætlar ekki að taka ábyrgð á málum sem fóru úrskeiðis, hvorki á vakt síðasta né þessa meirihluta, og tekur því ekki afstöðu um „heimild til hækkunar hlutafjár félagsins“ eins og lagt er til í umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra. Framtíð Ljósleiðarans er alfarið á ábyrgð meirihlutans. Það er hlutverk meirihlutans að finna út hvað ber að gera í þeirri slæmu stöðu sem Ljósleiðarinn er í og undir öllum kringumstæðum að standa vörð um hagsmuni borgarsjóðs og borgarbúa.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna eftirfarandi aðila sem fulltrúa Reykjavíkur í forvals- og dómnefnd í samkeppni um gerð listaverka á Sóleyjartorgi við nýja Landspítalann í Reykjavík, til samræmis við beiðni Nýs Landspítala ohf. frá 4. apríl sl. Forvalsnefnd: Dorothee Kirch. Dómnefnd: Ólöf Kristín Sigurðardóttir. MSS23040021

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð og eftir atvikum borgarstjórn samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 4. apríl sl., að skipan fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. Breyting á fjölda varamanna í stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. kallar á breytingu á samþykktum. Þá er lagt til við borgarráð að styðja Ingibjörgu Ósk Stefánsdóttur sem formann stjórnar Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. MSS22060144

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. apríl 2023, varðandi fulltrúa Reykjavíkurborgar á stjórnarfund Vestnorræna höfuðborgarsjóðsins. MSS23040040

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 27. mars 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. apríl 2023. MSS23010012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins fagnar innilega þeirri ákvörðun að lausaganga hunda verði leyfð á afmörkuðu svæði á Klambratúni. Enda þótt um sé að ræða tilraunarverkefni þá eru bundnar vonir við að hér sé um framtíðarfyrirkomulag að ræða. Allt of mikil stífni og hræðsla hefur ríkt hjá stjórnvöldum þegar kemur að mörgu sem snýr að hundum, hundaeigendum og ýmsu sem varðar gæludýraeigendur yfir höfuð.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 13. apríl 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 12. apríl 2023. MSS23010025

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

    Lagt fram svar menningar- og íþróttasviðs dags.10. mars 2023, við fyrirspurn öldungaráðs um styrki tengda heilsueflingu eldra fólks, sbr. 5. lið fundargerðar öldungaráðs frá 11. janúar 2023. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun þar sem lýst er undrun á að tölulegar upplýsingar um þátttöku meðal eldra fólks séu ekki aðgengilegar þegar um er að ræða fjármuni borgarbúa. Það vill oft bregða við að þessi aldurshópur er látinn sitja á hakanum, skilinn eftir í m.a. ýmsum tölfræðigreiningum. Í það minnsta er þessi hópur ekki oft settur í forgang. Til þess að geta skipulagt fullnægjandi þjónustu og tilboð í virkni þarf að vita hverjar þarfirnar eru sem og óskir og væntingar eldra fólks í Reykjavík.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. MSS23040004

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið yfirlitsins:

    Umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024-2028. Vísað er í margt sem kemur fram í umræddri þingsályktunartillögu, m.a. að það sé í samræmi við áherslur Reykjavíkurborgar sem koma fram í stefnu um málefni eldri borgara í Reykjavík 2018-2022, að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst heima. Í Reykjavík þarf þó ýmislegt að breytast til batnaðar, bæði fjölga þjónustuþáttum og dýpka aðra ef gera á fólki kleift að vera eins lengi heima og það mögulega getur. Nefnd er góð samvinna milli borgar og ríkis. Mörgum finnst þeir ekki sjá nógu skýr merki þess og oft bendir hvert á annað. Allir eru þó sammála um að fjölga þarf úrræðum, t.d. úrræðum sem eru á milli heimilis og hjúkrunarheimilis. Tekið er undir að verkefnið SELMA hefur verið farsælt. SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna, sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnandi heilsu. Einnig er tekið undir lokaorð umsagnarinnar. Gera þarf raunhæft kostnaðarmat og ráðstafa fjármagni samkvæmt skýrri forgangsröðun. Aðalatriðið er samfelld og samþætt þjónusta og tækifæri til velja um fjölbreytt þjónustuúrræði eftir aðstæðum hvers og eins.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23040022

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð beinir því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að selja allt hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. Andvirði sölunnar verði notað til að lækka skuldir Orkuveitunnar. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að stuðla að því að Orkuveita Reykjavíkur fái sem mest fyrir hlut sinn í slíku söluferli, t.d. með beinni sölu eða hugsanlegri sameiningu við önnur fyrirtæki. Einnig má skoða hvort rétt sé að selja umrætt hlutafé í áföngum.

    Tillagan er felld með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS23010191

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarráð samþykkir fyrir hönd Reykjavíkurborgar að heimila Orkuveitu Reykjavíkur að veita hlutafé inn í Ljósleiðarann til að tryggja rekstrargrundvöll. Lagt er til að þetta erindi verði borið undir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Auk þess er lagt til að Reykjavíkurborg skori á Alþingi að biðja um undanþágu frá EES-tilskipunum um um fjarskipti, sem gera ráð fyrir markaðs- og samkeppnisvæðingu þeirra. Nýjasta útgáfa laga sem byggja á þeim grunni eru lög nr. 70/2022 um fjarskipti. Slík undanþága myndi tryggja að innviðir sem tryggja íbúum internet séu ekki settir í heftandi samkeppnisrekstur, sem leiðir til fákeppni og opnar á einkavæðingu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23010191

    Tillagan er felld með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt er til að greiðslur til starfsfólks Reykjavíkur í 50-100% starfshlutfalli vegna samgöngusamninga svari til þeirrar upphæðar sem það kostar á mánuði að ferðast með Strætó. Starfsfólk í starfshlutfalli fram að 50% fái helming þeirrar fjárhæðar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Frestað. MSS23040129

    Fylgigögn

  14. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins hefur fengið ábendingar, m.a. frá fólki með fötlun, um að aðgengisstefna Reykjavíkur sé ekki vel sýnileg. Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar til 2030 hefur aldrei verið kynnt innan kerfis borgarinnar – svo sem í ráðum, deildum og stofnunum hennar. Hún virðist heldur aldrei hafa verið kynnt formlega fyrir borgarbúum. Flokkur fólksins spyr hver sé ástæða þess. Er eitthvað í stefnunni sem meirihlutanum þykir kannski ekki gott að komist fyrir augu borgarbúa? Það er víða pottur brotinn í þessum málaflokki og segja má að brotið sé á fötluðu fólki daglega. Starfsfólk hefur ekki einu sinni verið upplýst um hvernig hægt er að skila ábendingum um hvar aðgengi sé ábótavant innan starfsstaða borgarinnar. Stefnan er á ytri vef borgarinnar – en það eru ekki margir sem hafa vitneskju um hana þar. MSS22090008

Fundi slitið kl. 12:13

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 19.4.2023 - Prentvænt útgáfa