Borgarráð - Fundur nr. 5701

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 13. apríl, var haldinn 5701. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, varðandi ársreikning A-hluta og samantekinn ársreikning A- og B-hluta Reykjavíkurborgar 2022 og lagður fram trúnaðarmerktur ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2022, ódags. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 13. apríl 2023, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2022, dags. 13. apríl 2023, greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, dags. 13. apríl 2023, og bréf endurskoðunarnefndar, dags. 3. apríl 2022. 
  Vísað til ytri endurskoðunar.

  Gögn undir þessum lið eru trúnaðarmerkt fram að framlagningu ársreikningsins á fundi borgarráðs þann 27. apríl nk. Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 hefur verið undirbúinn af fjármálaskrifstofu í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ársreikningur Reykjavíkurborgar telst fullgerður og tilbúinn til endurskoðunar. FAS23020020

  Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Hallur Símonarson og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

 2. Lögð fram yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 13. apríl 2023.
  Frestað. FAS23040003

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
  Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

 3. Lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, um framkvæmd styrkjareglna.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
  Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23040005

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það kemur á óvart að sjá hversu mikill munur er á styrkjaveitingum til sviða 2022. Menningar- og ferðamál taka stærsta hlutann af kökunni en mannréttindaskrifstofa og skóla- og frístundasvið minnst. Af hverju er kökunni svona misskipt? Flokkur fólksins er með margar vangaveltur um styrkveitingar yfir höfuð. Í því árferði sem nú ríkir er spurning hvort draga ætti úr styrkjum. Alla vega þarf ávallt að vera á vaktinni með að skipting sé sanngjörn. Drífa þarf að ljúka við drög að nýjum samræmdum reglum, sem eru í vinnslu. Af hverju hefur sú vinna tafist svo mikið er ekki ljóst en undirbúningur undir nýjan miðlægan styrkumsóknarvef er í höndum þjónustu- og nýsköpunarsviðs eins og fram kemur í gögnum.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. apríl 2023:

  Lagt er til að borgarráð skipi Margréti Lilju Gunnarsdóttur (kennitala falin) sem staðgengil regluvarðar Reykjavíkurborgar í stað Hallgríms Tómassonar (kennitala falin).

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22020050

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
  Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við Hlemm og nágrenni, 3. áfanga, Mjölnisholt, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 174 m.kr.
  Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030380

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja fyrirhugaða tillögu ekki flokkast sem forgangsmál við núverandi aðstæður í rekstri borgarinnar. Betur færi á því að forgangsraða fjármunum í þágu grunnþjónustu borgarinnar. Jafnframt harma fulltrúarnir að tillaga þeirra úr umhverfis- og skipulagsráði, um að leita samráðs við íbúa um breytinguna, hafi ekki verið samþykkt.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð hringtorgs á gatnamótum Víkurvegar og Borgavegar auk stígagerðar og stækkunar hringtorgs á Víkurvegi við innkeyrslu á lóð Egilshallar, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 240 m.kr.
  Samþykkt.
  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030376

  Fylgigögn

 7. Fram fer kynning á breytingum á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
  Guðmundur B. Friðriksson og Gunnar Dofri Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22080136

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fyrirhugaðar breytingar á sorphirðu eru hluti af aukinni og samræmdri flokkun og hirðu á höfuðborgarsvæðinu en eru jafnframt liður í innleiðingu hringrásarhagkerfisins, þar sem leitast er við að lágmarka auðlindanotkun og úrgangsmyndun. Um er að ræða mikilvægan hluta af aðgerðum sveitarfélaga í umhverfis- og loftslagsmálum. Byrjað verður að setja tunnur við heimili í síðari hluta maí og um leið afhenda körfur til að safna matarleifum. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fagnar breytingunum og aukinni flokkun, enda lykilþáttur í því að stemma stigu við urðun og forða hráefnum frá því að verða mengunarþáttur.

 8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur sem fram koma í meðfylgjandi minnisblaði til að bæta öryggi enn frekar í sundlaugum Reykjavíkurborgar. Menningar- og íþróttasviði verði falið að gera aðgerðaáætlun í nafni Guðna Péturs Guðnasonar og fylgja eftir í samráði við hlutaðeigandi aðila. Öryggisstjóra borgarinnar verði falið eftirlit með innleiðingunni og geri stöðuskýrslu árlega. Áætlað er að innleiðingunni verði lokið vorið 2026.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23020024

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Bæta á öryggi sundlauga Reykjavíkurborgar. Menningar- og íþróttasviði er falið að gera aðgerðaáætlun. Uppfæra þarf verklagsreglur m.a. vegna óvirkni myndavélakerfa, mönnunar og ýmissa annarra þátta sem geta haft áhrif á öryggi. Einnig að endurskoða tímalengd námskeiða og próftaka viðhöfð til staðfestingar á skilningi efnis. Flokki fólksins líst vel á þessar hugmyndir og eru þær í góðu samræmi við öryggisstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í apríl 2022. Þessi aðgerðaáætlun er gerð í nafni Guðna Péturs Guðnasonar sem lést í Sundhöll Reykjavíkur 21. janúar 2021. Nafn Guðna Péturs á að verða tengt árlegri vitundarvakningu um öryggismál í sundlaugum borgarinnar sem verði 21. janúar ár hvert. Flokki fólksins finnst það sérlega fallegt að minnast þessa unga manns á þennan hátt. Flokkur fólksins vill hafa öryggi allra í fyrirrúmi og hugsar oft til allra þeirra t.d. innflytjenda sem ekki hafa fengið neina sundkennslu um ævina og einnig til allra þeirra sem ekki kunna að synda. Að kunna að synda er dýrmætara en margir átta sig á. Reykjavíkurborg gæti beitt sér af krafti til að stuðla að sundkennslu og að öll börn sem koma til landsins til lengri dvalar læri að synda.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir þjónustukjarna við Stekkjarbakka 5.
  Samþykkt.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23040026

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með þessari tillögu um úthlutun á lóð og byggingarétti er Félagsbústöðum gert mögulegt að hefja uppbyggingu á lóðinni við Stekkjarbakka 5. Hámarks byggingarmagn lóðarinnar er samtals 1.300 fermetrar ofanjarðar en í þessari úthlutun er eingöngu um að ræða 750 fermetra. Þarna er gert ráð fyrir 5 til 15 íbúðum. Úthlutunin er ýmsum skilyrðum bundin en mikilvægt er að fjölga íbúðum hratt og örugglega og er tillagan hluti af því.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. apríl 2023. ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð og eftir atvikum borgarstjórn samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 4. apríl 2023, að skipan í stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. Kosning í fimm manna stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. kallar á breytingu á samþykktum.

  Frestað. MSS22060144

 11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viljayfirlýsingu þar sem Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Vísindagarðar Háskóla Íslands eru sammála um að greiða götu þess að nýsköpunar- og frumkvöðlasetur rísi á lóðum B og E á svæði Vísindagarða Háskóla Íslandsbyggt á fyrirmynd og hugmyndafræði Grósku hugmyndahúss. Gert er ráð fyrir að sömu aðilar, Gróska ehf., komi að uppbyggingu og rekstri hinna nýju mannvirkja. Unnin verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi á lóðunum, þróun á forsögn og samgöngumat, ásamt því að haldin verði samkeppni um hönnun bygginga.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030026

  - Kl. 11:20 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi og Kjartan Magnússon tekur þar sæti. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Gróska hefur gengið vonum framar og verið ótrúlega öflug gerjunarmiðstöð fyrir nýsköpun og samstarf fræða, atvinnulífs og sprotafyrirtækja. Mikil tækifæri eru möguleg í nýju nýsköpunar- og frumkvöðlasetri á svæði Vísindagarða, með hugmyndafræði Grósku hugmyndahúss að fyrirmynd. Viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að sömu aðilar og reka Grósku komi að uppbyggingu og rekstri þessarar nýju uppbyggingar og að unnin verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi á lóðunum, þróun á forsögn og samgöngumati og loks haldin samkeppni um hönnun bygginganna.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er lögð fram viljayfirlýsing um að greiða götu þess að nýtt nýsköpunar- og frumkvöðlasetur rísi á lóðum á svæði Vísindagarða byggt á fyrirmynd og hugmyndafræði Grósku hugmyndahúss. Í Grósku býðst fyrirtækjum og einyrkjum að þróa hugmyndir sínar og geta m.a. leigt vinnuaðstöðu og það geta einstaklingar einnig gert. Sósíalistar leggja áherslu á mikilvægi þess að borgin og háskólasamfélagið styðji einnig vel við félagasamtök, samvinnufélög og hópastarf, þannig að áhersla sé ekki einna helst á fyrirtæki.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins fagnar þessari viljayfirlýsingu sem er um að greiða götu fólks til að þróa hugmyndir sínar. Skoða þarf að hafa leigu þannig að þeir sem hafa minna milli handana fái einnig tækifæri til að fá vinnuaðstöðu, hvort sem það eru einyrkjar eða hópar.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram umsögn rýnihóps borgarráðs, dags. 11. apríl 2023, um erindi Ljósleiðarans ehf. um hlutafjáraukningu, dags. 24. október 2022.

  Halldóra Káradóttir, Stefanía Scheving Thorsteinsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Hörður Hilmarsson, Theodór Kjartansson, Erling Freyr Guðmundsson, Birna Bragadóttir og Elín Smáradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
  Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Trausti Breiðfjörð Magnússon taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23010191

  Borgarráðsfulltrúi Pírata leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ljósleiðarinn hefur byggt upp öfluga fjarskiptainnviði í Reykjavík og þannig aukið samkeppnishæfni borgarinnar. Stefna fyrirtækisins að byggja á opnu háhraðaneti hefur stuðlað að fjölbreyttu vali neytenda á viðráðanlegu verði og komið í veg fyrir einokunarstöðu á markaði. Píratar hafa staðið gegn tilraunum til að selja Ljósleiðarann að hluta eða í heild, meðal annars til að koma í veg fyrir fákeppni. Nú er komin upp sú staða að til að geta staðið áfram vörð um hag neytenda og tryggt fjárhagslega sjálfbærni þarf Ljósleiðarinn að stækka og byggja upp innviði. Eftir gagngera rýni virðist ljóst að hlutafjárútboð er sú leið sem best tryggir framtíð Ljósleiðarans og hlutverk hans. Mikilvægt er að mæta vaxtarþörfum Ljósleiðarans um leið og hagsmunir Reykvíkinga eru áfram tryggðir. Píratar standa ávallt vörð um hag almennings og gegn einokun á markaði. Það markmið skiptir meira máli en kreddufesta og mikilvægt er að bregðast rétt við breyttum aðstæðum. Ekki kemur til greina að selja Ljósleiðarann í heild, né að missa meirihlutastjórn í fyrirtækinu. Fjarskiptainnviðir eru mikilvægir samfélagslegir grunninnviðir. Öryggi þeirra, gæði og gott aðgengi að þeim á sanngjörnu verði skiptir máli. Sú almannaþjónusta má ekki hverfa. Umgjörð hlutafjárútboðsins verður því að vera gagnsæ, sanngjörn og í takt við þá sýn.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar sósíalista hafna einkavæðingu en lagt er til að selja hlut af opinberu félagi til einkaaðila. Um þetta er fjallað í umsögn meirihluta rýnihóps borgarráðs um erindi Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu. Ljósleiðarinn sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, byggir upp og rekur ljósleiðaranet fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Mikilvægt er að rekstur slíkra grunninnviða sé á vegum hins opinbera. Fulltrúar sósíalista hvetja borgaryfirvöld til að sækjast eftir undanþágu frá hamlandi tilskipunum EES samningsins sem fela í sér að rekstur félaga sem sjá um fjarskipti og net verða að vera á samkeppnismarkaði. Hér er um mikilvægan grunninnvið að ræða sem mikilvægt er að verði rekinn á samfélagslegum grunni. Vísað er til umsagnar og tillagna borgarfulltrúa sósíalista Trausta Breiðfjörð Magnússonar sem átti sæti í rýnihópi um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans en þar er fjallað með ítarlegri hætti um afstöðu sósíalista til þessa máls. Finna þarf lausn á stöðunni m.a. með því að þrýsta á ríkisvaldið til að falla frá heftandi lögum um samkeppni sem leiða til þess að opinber félög fara á svið einkavæðingar í leit að fjármögnun.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Slæm staða Ljósleiðarans hefur legið fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2019 og jafnvel enn fyrr. Félagið er í dag skuldsett og er eiginfjárhlutfall orðið hættulega lágt. Eigendur, sem að stærstum hluta til er Reykjavíkurborg, voru ekki upplýstir um slæma stöðu fyrirtækisins þegar hún lá fyrir. Fulltrúa Flokks fólksins var boðið að sitja í þverpólitískum rýnihópi sem hafði það hlutverk að leggja mat á umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra um heimild til hækkunar hlutafjár félagsins. Í rýnihópnum hafa ýmsar sviðsmyndir verið skoðaðar en engin þeirra er án óvissu og allar krefjast einhverrar frekari skuldsetningar félagsins, þó mismikillar. Erfitt er að spá fyrir um fjölmargar áhrifabreytur til lengri tíma, s.s. markaðsvirði, þjónustustig og samkeppni. Allan þann tíma sem rýnihópurinn hefur fundað hefur ríkt leynd yfir gögnum. Flokkur fólksins ætlar ekki að taka ábyrgð á málum sem fóru úrskeiðis á vakt hvorki síðasta né þessa meirihluta og tekur því ekki afstöðu um „heimild til hækkunar hlutafjár félagsins“ eins og lagt er til í umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra. Framtíð og framtíðarhorfur Ljósleiðarans eru alfarið á ábyrgð meirihlutans. Það er hans hlutverk að finna út hvað best er að gera í þeirri slæmu stöðu sem Ljósleiðarinn er í og undir öllum kringumstæðum að standa vörð um hagsmuni borgarsjóðs og borgarbúa. 

  -    kl. 12:45 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að auglýsa húsnæði að Langholtsvegi 70, Sunnutorg, til leigu.
  Samþykkt.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23030055

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi sósíalista minnir á að enn á eftir að afgreiða tillögu sósíalista frá því í desember 2021 sem fjallar um það að íbúar Langholtshverfis sem hafi áhuga á því að mála skipulagða götulist og/eða graffítí á hús Sunnutorgs, fái leyfi til þess þar til skipulag er komið um framtíð húsnæðisins. Húsnæðið sem um ræðir er ekki upp á sitt besta og því var lagt er til að íbúar hverfisins í Langholtshverfi fengju leyfi til að vinna með húsið með þessum hætti. Miður er að sjá að tíminn hafi ekki verið nýttur til að skoða slíkt.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. mars 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um húsnæði fyrir Heilsugæslu Grafarvogs, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars 2023. MSS23030007

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja vekja athygli á því að á vef heilsugæslunnar segir að til að komast úr Grafarvogi á heilsugæsluna þurfi notendur að taka tvo vagna eða svo vitnað sé orðrétt í texta af vefsvæði heilsugæslunnar: „Til að komast frá Spönginni í Hraunbæ 115 með Strætó er hægt að taka leið 6 og fara út á stoppistöðinni Ártún A (sem er á brúnni). Gengið niður göngustíginn í stoppistöðina Ártún D (sem er undir brúnni) og leið 16 tekin. Farið er út á stoppistöðinni Bæjarbraut en þaðan er 2 mínútna gangur að Hraunbæ 115 (Heilsugæslan í Árbæ er í sama húsi).“ Leiðarlýsing þessi sýnir, svo ekki verði um villst, að ekki er hlaupið að þjónustunni fyrir íbúa Grafarvogs og því er ekki furða að það gæti mikillar óánægju meðal íbúa hverfisins. Eðlilegra og skynsamlegra væri að leysa málið með nærtækari lausnum en að fara með starfsemi heilsugæslunnar í önnur hverfi. Víða er atvinnuhúsnæði laust í Grafarvoginum, t.d. í Hverafoldinni og Gylfaflötinni svo dæmi séu tekin.

  Fylgigögn

 15. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um húsaleigubætur, húsaleigustyrki eða viðhaldsstyrki til sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar 2023. MSS23010084

  Fylgigögn

 16. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. apríl 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samanlagðan kostnað vegna myglu í Fossvogsskóla, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. janúar 2023. MSS23010264

  Fylgigögn

 17. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. apríl 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðskipti borgarinnar við ráðgjafafyrirtæki, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. mars 2023. MSS23030060

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Frá 2018 hefur KPMG fengið um 100 milljónir fyrir ýmis verkefni. Hæsta upphæðin er 2022 tæpar 42 milljónir. Önnur fyrirtæki eru ekki á spena hjá borginni í sama mæli og KPMG samkvæmt svari. Fulltrúi Flokks fólksins er djúpt hugsi yfir þessum viðskiptum sérstaklega í ljósi nýlegrar skýrslu um niðurlagningu Borgarskjalasafns þar sem hluti skýrslunnar fór í að níða skóinn af borgarskjalaverði sem hefur á löngum ferli sínum sýnt framúrskarandi fagmennsku í starfi. Borgarskjalavörður hafði m.a. kjark og þor að gera frumkvæðisathugun á braggamálinu í óþökk meirihlutans þar sem fram kom í niðurstöðum að farið hafði verið á svig við lög. Flokkur fólksins telur að niðurstaðan um að leggja niður Borgarskjalasafn hafi verið „pöntuð“ eins og stundum er sagt. Það er þekkt fyrirbæri sem er ekki aðeins ófaglegt heldur einnig ómerkilegt. Fyrirtækinu eru gefnar ákveðna forsendur til að vinna út frá, sem leiða á leynt og ljóst að ákveðinni niðurstöðu og fær fyrir ríflega summu og auðvitað áframhaldandi verkbeiðnir. Umrædd skýrsla sem kallast „Ráðgjöf vegna skjalastjórnunar“ kostaði 8.495.547 kr. (2022) plús 1.741.110 kr. (2023) Alls 10.236.657 kr.. Sem sé, rúmar tíu milljónir fyrir að leggja til að saga Reykjavíkur verði falin.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Vakin er athygli á því að frá árinu 2018 hafa samtals 101.636.735 króna verið greiddar til eins ráðgjafarafyrirtækis. Mikilvægt er að leita rágjafar um ýmis málefni en hér er þó um háa upphæð að ræða. Ráðgjafavæðing stjórnmálanna virðist hafa farið vaxandi, ekki einungis hérlendis heldur einnig erlendis, þar sem leitað er í síauknum mæli til utanaðkomandi fyrirtækja og greiningaraðila um pólitíska stefnumótun.

  Fylgigögn

 18. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 30. mars 2023. MSS23010026

  Fylgigögn

 19. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 29. mars 2023. MSS23010024

  Fylgigögn

 20. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 30. mars 2023. MSS23010005

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 30. mars 2023. MSS23010027

  Fylgigögn

 22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 30. mars 2023. MSS23010028

  Fylgigögn

 23. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 3. apríl 2023. MSS23010030

  Fylgigögn

 24. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaða frá 28. mars 2023. MSS23010031

  Fylgigögn

 25. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 9. og 14. mars 2023. MSS23010018

  Fylgigögn

 26. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 17. mars 2023. MSS23010015

  Fylgigögn

 27. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. apríl 2023.
  6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afreiðslu málsins.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

  Nýi Skerjafjörður, breyting á deiliskipulagi: Vera kann að búið sé að bregðast við ýmsum athugasemdum um Nýja Skerjafjörðinn. Þótt hér sé verið að fjalla um 1. áfanga þar sem fjaran kemur ekki við sögu, kemur fram í gögnum að ekki sé frekari þörf á að bregðast við athugasemdum frá Náttúrufræðistofnun. En var ekki þar eitt af meginathugasemdum að ekki yrði gengið á fjöruna? Þegar flugvöllurinn fer, hvenær sem það verður, þá fyrst er ástæða til að skipuleggja nýja byggð á svæðinu og þá þarf ekki að fara í landfyllingar. Margar athugasemdir bárust vegna mengunar í jarðvegi. Fjarlægja þarf og hreinsa mengun úr jarðvegi áður en uppbygging hefst. Gerðar voru athugasemdir um að ekki var athugað hvort hættulegt efni (PFAS) efni sem m.a. koma frá slökkvifroðu séu í jarðveginum. Allt þetta er reifað í löngu máli í gögnum. Eftir stendur hvort þessi framkvæmd sé tímabær. Innviðaráðuneytið telur að svo sé ekki án þess að fullkannað sé hvort búið sé að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta hefði átt áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og hefja ekki framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggur fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. júní 2022.

  Fylgigögn

 28. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. MSS23040004

  Fylgigögn

 29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23040022

  Fylgigögn

 30. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að auglýsa eftir samstarfsaðila til að reka og halda utan um rekstur í miðstöð fyrir skapandi greinar að Laugavegi 105.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að afgreiðslu málsins verði frestað.
  Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23030054

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Húsnæðið sem um ræðir er í eigu Félagsbústaða. Félagið er á mörkum þess að vera rekstrarhæft og óeðlilegt að það haldi á svo verðmætri atvinnueign, enda samræmist það ekki hlutverki félagsins. Eðlilegast væri að eignin væri seld og borgin styddi við skapandi greinar með öðrum hætti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að afgreiðslu málsins yrði frestað svo skoða mætti betur þá hugmynd hvort hluti húsnæðisins gæti hentað betur fyrir aðstöðu strætisvagnastjóra en núverandi aðstaða þeirra við Snorrabraut. Úr hornhúsnæðinu við Laugaveg 105 er gott útsýni yfir strætisvagnaaðstöðuna á Hlemmi og bendir því margt til að það henti mun betur en það fremur þrönga húsnæði, sem vagnstjórar hafa nú við Snorrabraut. Fulltrúar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar féllust ekki á þessa frestun, sem hefði m.a. falið í sér skoðun á úrbótum fyrir starfsaðstöðu strætisvagnastjóra. 

  Fylgigögn

 31. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins leggur til að Reykjavík óski leiðsagnar frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um hvernig Reykjavíkur getur hagrætt í rekstri og náð þannig undirtökum í rekstri borgarinnar. Reykjavík er komin yfir þau skuldaviðmið sem sveitarfélögum eru sett. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skulu heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Á árinu 2021 var veltufé frá rekstri A-hluta borgarsjóðs 0,3%, í útkomuspá fyrir árið 2022 var það -2,3% og í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er það áætlað 2,3%. Allar líkur benda til að A-hluti Reykjavíkurborgar hafi á þessu þriggja ára tímabili ekki getað greitt af eigin rekstrartekjum, neitt sem skiptir máli, upp í afborganir lána og til fjárfestinga. Þessi staða hefur þýtt aukna lántöku sem aftur á móti leiðir af sér að þungi afborgana lána vex stöðugt og fjárhagslegt svigrúm borgarsjóðs minnkar að sama skapi. Í vaxandi verðbólgu verða áhrif þessarar þróunar enn meiri. Það segir sig sjálft að slík vegferð tekur enda fyrr en síðar. Nú þegar eru farin að blikka sterk aðvörunarljós á vegarenda sem birtast meðal annars í áhugaleysi markaðarins á skuldabréfaútgáfu Reykjavíkurborgar.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23040048

  Fylgigögn

 32. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins leggur til að hætt verði að skipta við KPMG og látið verði reyna á útboð eða farið í verðkönnun, sé talið nauðsynlegt að kaupa vinnu af þessu tagi. Af yfirliti yfir viðskipti við KPMG að dæma er nokkuð ljóst að aðkeypt þjónusta frá þessu fyrirtæki er komin úr böndunum. Á síðasta ári fékk fyrirtækið 41,5 milljón fyrir greiningarskýrslur/verkefni án þess að skýringar liggi fyrir um nauðsyn þeirra. Frá 2018 hefur KPMG fengið um 100 milljónir frá Reykjavíkurborg fyrir skýrslur sem sjá má í yfirliti sem fulltrúi Flokks fólksins fékk sem svar við fyrirspurn sinni um viðskipti borgarinnar við ráðgjafarfyrirtæki. Fulltrúa Flokks fólksins er ofboðið, ekki aðeins bruðlið sem hér á sér stað heldur einnig vegna dæma um að að greiningaskýrslur frá KPMG séu ekki taldar trúverðugar. Vísað er m.a. í skýrsluna Ráðgjöf vegna skjalastjórnunar (niðurlagning Borgarskjalasafns). Sú skýrsla er talin innihalda rangfærslur og dylgjur í garð borgarskjalavarðar sem dregur úr trúverðugleika hennar að mati margra sem tjáð sig hafa um gagnið. Héraðsskjalavörður í Kópavogi hefur lýst svipaðri skoðun á úttekt sem KPMG hefur gert fyrir bæjarstjórnina á menningarstofnunum bæjarins og segir að hann „vænti þess að bæjarfulltrúar í Kópavogi hafi til að bera skynsemi og ábyrgðartilfinningu til að stíga engin óheillaspor á grundvelli þessarar skýrslu.“ MSS23040050

  Frestað.

 33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um stöðu á yfirdráttarlánum (lánalínum) Reykjavíkurborgar hjá Íslandsbanka og Landsbankanum og fleiri lánardrottnum ef um þá er að ræða.

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. FAS23020020

 34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hversu alvarlegur fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar er. Er Reykjavíkurborg á leið í þrot? Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) sendi Reykjavíkurborg bréf í lok febrúar sl. þar sem athugasemdir eru gerðar við að borgin uppfylli ekki öll lágmarskviðmið fyrir A-hluta rekstra. Flest bendir til að fjárhagsstaða Reykjavíkur sé verri en áður eru dæmi um. Sveitarfélagið virðist engan veginn vera rekstrarlega sjálfbært. Hætt var við skuldabréfaútboð sem átti að vera þann 12. apríl. Það kemur í kjölfar þess að Reykjavíkurborg hætti einnig við skuldabréfaútboð sem átti að fara fram þann 8. mars sl. Það hlýtur að hafa verið niðurlægjandi fyrir Reykjavíkurborg, fjölmennasta sveitarfélag landsins, enda merki um ákveðið vantraust markaðarins á fjárhagsstöðu borgarinnar og greiðslugetu hennar. Niðurlægingin er þó ekki aðalatriðið heldur alvarleiki málsins alls. Þær skýringar sem gefnar hafa verið um að borgin þurfi ekki að fara í skuldabréfaútboð þar sem hún hefur aðra betri lánakosti (lánalínur) eru ekki trúverðugar. Borgin hefur á undanförnum misserum spennt bogann til hins ýtrasta hvað varðar rekstrarkostnað, fyrirhugaðar framkvæmdir og sívaxandi lántöku. Ekki er séð að sýna eigi nauðsynlegt aðhald með því að fresta fjárfrekum framkvæmdum sem ekki er brýn þörf á að ganga í.

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23040049

 35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um gestakomur í Húsdýragarðinn. Hver er fjöldi gesta sl. tvö ár? Óskað er sundurliðunar eftir árstíma, sumar vetur, vor og haust.

  Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23040051

 36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Reykjavíkurborg hefur ekki ráðið sérstakan aðgengisfulltrúa. Það er sérstakt meðan önnur og langtum minni sveitarfélög hafa gert það nú þegar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvenær slíkur fulltrúi verði skipaður. Ítrekað hefur verð spurt um þetta en engin svör hafa borist. Í samkomulagi er fjallað um nauðsyn þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa (sveitarfélögin þar með talið) og að hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur. Um þetta er fjallað í aðgerð A.3 í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra. Hvernig má það vera að 66.000.000 kr. styrkur frá Jöfnunarsjóði er ónotaður hjá borginni til að bæta aðgengi, þegar fyrir liggja næg verkefni í málaflokknum?

  Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. MSS23040055

Fundi slitið kl. 13:27

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sabine Leskopf Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 13.4.2023 - Prentvæn útgáfa