Borgarráð - Fundur nr. 5697

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 2. mars, var haldinn 5697. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. febrúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vallár, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23010259

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. febrúar 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. febrúar 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturgötu 61, ásamt fylgiskjölum. Tillagan var áður samþykkt í auglýsingu með röngum uppdrætti á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 11. janúar 2023 og á fundi borgarráðs 19. janúar 2023 og er nú lagt til að tillagan verði á ný afgreidd í auglýsingu með réttum gögnum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SN220428

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. febrúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup á búnaði til endurnýjunar á gangbrautarljósum 2023 í samstarfi við Vegagerðina, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23020046

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna öllum umbótum í gönguljósum en minna á að vegna vanefnda í innleiðingu snjallljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu er minni ágóða að fá af þessum umbótum. Því miður er snjallljósavæðing höfuðborgarsvæðisins ekki hafin og því þarf að sætta sig við áframhaldandi viðhaldskostnað til að þjónusta takmarkaðra umferðarstýringarkerfi en ella. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja einnig nýta tækifærið til að minna á tillögu flokksins um fjölgun snjallgangbrauta við alla grunnskóla í borginni.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Flokkur fólksins fagnar þessu mjög enda víða pottur brotinn hvað varðar gangbrautir í borginni, gönguljós og lýsingu við gangbrautir í öryggisskyni. Gönguljós á þessum stöðum sem hér eru nefndir þarf nauðsynlega að stilla bæði til að þau henti vegfarendum og bílaumferð. Þetta hefur Flokkur fólksins ítrekað bent á. Hitt er að Flokkur fólksins er nýbúinn að leggja fram tillögu um að gerð verði úttekt á götulýsingu við gangbrautir.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. febrúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út ýmsar framkvæmdir vegna viðhaldsátaks í húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson og Rúnar Ingi Guðjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23020308

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fyrir liggur áætlun um 30 milljarða viðhaldsátak í húsnæði skóla- og frístundasviðs á árunum 2022-2026. Hér er lögð fram forgangsröðun á viðhaldi, en í þeirri forgangsröðun er auk átaksins reglubundið viðhald og fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er mjög mikilvægt að vinna forgangsröðun sem bæði tekur á aðkallandi viðhaldsmálum og skaða sem er orðinn, en tekur líka á því ef vitað er af göllum í húsum sem geta leitt til skemmda ef ekki verður gripið inn í. Þessi áætlun er metnaðarfull og mikilvægt að hún nái fram að ganga, en gert er ráð fyrir viðhaldi fyrir 4,5 milljarða króna í skóla- og frístundahúsnæði á þessu ári.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. febrúar 2023, varðandi ferð borgarstjóra til Kaupmannahafnar vegna WHO European High Level Forum on Health in the Wellbeing Economy í Kaupmannahöfn dagana 1. og 2. mars 2023, ásamt fylgiskjölum. MSS23020144

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. febrúar 2023, varðandi ferð borgarstjóra til Parísar og Strassborgar vegna OECD-ráðstefnu og sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins dagana 20. og 21. mars 2023, ásamt fylgiskjölum. MSS23020145

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. febrúar 2023, þar sem erindisbréf neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar er sent borgarráði til kynningar.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að erindisbréfi og skipun neyðarstjórnar Reykjavíkur verði breytt. Lagt er til að borgarráð samþykki að í neyðarstjórn taki sæti í það minnsta einn borgarfulltrúi meirihluta borgarstjórnar og einn borgarfulltrúi minnihluta borgarstjórnar ásamt þeim sem þegar eiga sæti. Eins og neyðarstjórnin er samsett nú hafa kjörnir fulltrúar enga aðkomu að henni.

  Greinargerð fylgir breytingatillögunni. MSS23020135
  Frestað.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 28. febrúar 2023, þar sem erindisbréf starfshóps um loftslagssamning Reykjavíkur er sent borgarráði til kynningar. MSS21120238

  Fylgigögn

 9. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. febrúar 2023, sem var samþykkt á fundi borgarráðs þann 16. febrúar 2023 og færð í trúnaðarbók:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavík og Lviv í Úkraínu verði vinaborgir.

  Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23020104

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu að starfs- og fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins og svæðisskipulagsstjóra fyrir árið 2023, dags. 13. september 2022.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22100010

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. febrúar 2023, varðandi skýrslu regluvarðar Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið 1. febrúar 2022 til 31. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum. Einnig lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 13. febrúar 2023, varðandi bókun nefndarinnar um skýrslu regluvarðar.

  Halldóra Káradóttir og Ólöf Marín Úlfarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020050

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokki fólksins finnst athyglisvert það sem fram kemur í skýrslu regluvarðar Regluvörður hefur óskað eftir því við þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) að útbúa rafræna lausn við söfnun upplýsinga um innherjaskráningar frá starfsmönnum og kjörnum fulltrúum. Rafræn lausn myndi einfalda skráninguna og fækka skrefum í þessu ferli og auðvitað minnka álag á regluvörð og starfsmenn sem þurfa að standa skil á þessum upplýsingum. Beiðnin er enn í bið hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og óvíst hvort eða hvenær hún verður afgreidd. Hér er einmitt vandamál þjónustu- og nýsköpunarsviðs í hnotskurn. Það eru fleiri sem kvarta sáran yfir hægagangi hjá sviðinu með ýmsar lausnir.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. febrúar 2023:

  Lagt er til að borgarráð skipi Hallgrím Tómasson (kennitala falin) sem staðgengil regluvarðar Reykjavíkurborgar í stað Hrefnu Þórsdóttur (kennitala falin).

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir og Ólöf Marín Úlfarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22020050

 13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. febrúar 2023, varðandi tillögu um breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23020119

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 10. október 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. október 2022 á tillögu um viðbótarfjármagn vegna samnings um rekstur Konukots, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. febrúar 2023.
  Samþykkt.

  Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL22090271

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins styður heilshugar tillögu velferðarráðs um viðbótarfjármagn til Rótarinnar vegna reksturs Konukots. Lagt er til að samningsupphæð við Rótina um rekstur neyðarskýlis fyrir húsnæðislausar konur verði aukin um 8,5 m.kr. á ári frá núgildandi samningi til að hægt verði að mæta starfsmati sem leiddi til launahækkana. Óskað er eftir að breytingin taki gildi frá og með 28. apríl 2022 eða frá þeim tíma er starfsmatið á starfi við þjónustu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt. Aukinn kostnaður á árinu 2022 yrði 5,7 m.kr. en 8,5 m.kr. á ári eftir það. Mikil aukning hefur verið á notkun gistiskýla borgarinnar og sem dæmi var nýtingin í Konukoti 103% í ágúst. Aðstaðan í Konukoti er mjög slæm hvað varðar húsakost og þarf sem fyrst að finna lausn á þeim vanda. 

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 20. febrúar 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. janúar 2023 á samstarfssamningum til þriggja ára á sviði menningarmála, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MOF22110010

  Fylgigögn

 16. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 20. febrúar 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. janúar 2023 á nýjum þjónustusamningi við Bandalag íslenskra listamanna, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MOF23010074

  Fylgigögn

 17. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. janúar 2023 á samstarfssamningi við Menningarfélagið Tjarnarbíó, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MOF23010075

  Fylgigögn

 18. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 20. febrúar 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. nóvember 2022 á tillögu um styrki til menningarmála árið 2023, ásamt fylgiskjölum.
  Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 10:50 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti. MOF22110010

  Fylgigögn

 19. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. febrúar 2023, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að starfsemi Borgarskjalasafns taki breytingum í samræmi við valkost þrjú í meðfylgjandi skýrslu KPMG um framtíðarhögun á starfsemi safnsins og verði verkefninu flýtt eins og kostur er. Tillagan felur í sér að skilgreind lögbundin verkefni þess verði flutt til Þjóðskjalasafns Íslands. Þjónustu- og nýsköpunarsviði verði falið að fylgja ákvörðuninni eftir m.a. með því að ganga frá samkomulagi um útfærslu og framkvæmd við Þjóðskjalasafn. Verkefni sem snúa að menningarmiðlun verði flutt til Borgarsögusafns og/eða annarra menningarstofnana á menningar- og íþróttasviði skv. nánari útfærslu. Í tillögunni felst því að Borgarskjalasafn verður lagt niður í núverandi mynd. 

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Einnig er lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 23. febrúar 2023, varðandi umsögn stafræns ráðs, bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 28. febrúar 2023, varðandi umsögn menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, umsögn Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 24. febrúar 2023, umsögn Borgarskjalasafns Reykjavíkur, dags. 28. febrúar 2023, og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. febrúar 2023.
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. 

  Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Óskar J. Sandholt, Svanhildur Bogadóttir, Eiríkur Björn Björgvinsson, Hjálmur Dór Hjálmsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Helena Óladóttir og Davíð Halldórsson taka sæti á fundinum. Borgarstjóri og Hrefna Róbertsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23010028

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Samkvæmt þeirri greiningu sem fyrir liggur er þörf á töluverðri uppbyggingu innviða til þess að standa undir kröfum nútíðar og framtíðar um gagnageymd og gagnaöryggi borgarinnar, en einnig til að tryggja að við hættum að safna metrum af skjalaskápum af gögnum á pappír. Það snýst um umhverfið, en líka um betri nýtingu fjármagns, húsnæðis og mannauðs. Það eru samlegðaráhrif í því að fela Þjóðskjalasafni þetta gagnageymdarhlutverk og styrkja þá um leið grundvöll þess til að bæta sína innviði, frekar en að margir aðilar séu hver í sínu horni að byggja upp sams konar gagnaver. Verkefni sem snúa að menningarmiðlun verða flutt til Borgarsögusafns eða annarra viðeigandi menningarstofnana Reykjavíkurborgar. Starfshópur sem vann þessar tillögur var skipaður starfsfólki víðsvegar úr borgarkerfinu, þar á meðal var borgarskjalavörður. Hópurinn átti víðtækt samráð og fékk til viðtals starfsfólk af þjónustu- og nýsköpunarsviði, menningar- og ferðamálasviði, Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni, þar á meðal þjóðskjalavörð. Framundan er vandað samráð við ráðherra málaflokksins, Þjóðskjalasafn og aðra um framtíðartilhögun.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna harðlega óviðunandi vinnubrögð borgarstjóra og borgarstjórnarmeirihlutans vegna Borgarskjalasafns. Um er að ræða veigamikla breytingu á stjórnsýslu borgarinnar, sem krefst vandaðra vinnubragða og gagnsæis. Svo er ekki í þessu máli. Tillaga borgarstjóra um niðurlagningu safnsins kom fyrirvaralaust og án samráðs við yfirmenn og starfsfólk safnsins eða borgarstjórn. Borgarstjóri krafðist trúnaðar um tillöguna og ætlaði í skjóli leyndar og án opinberrar umræðu að fá hana samþykkta. Slíkt laumuspil vekur grunsemdir um að eitthvað annað búi að baki málinu en faglegur ávinningur. Var trúnaði af tillögunni ekki aflétt fyrr en í síðustu viku eftir að minnihlutinn hafði gagnrýnt vinnubrögðin harðlega. Tillaga borgarstjóra er vanreifuð, tímalínu vantar, talnameðferð stórlega ábótavant og ekki liggja fyrir upplýsingar frá ríkinu um vilja eða möguleika á að taka við verkefnum safnsins og kostnaði. Með niðurlagningu safnsins er hætta á að upplýsingagjá myndist í gögnum borgarinnar og jafnvel að gögn tapist. Í ljósi mikillar tregðu borgarstjóra við að útvista starfsemi, sem heyrir ekki undir grunnþjónustu borgarinnar, vekur furðu að nú sé ofuráhersla lögð á að samþykkja niðurlagningu Borgarskjalasafns í miklum flýti. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að rifja upp aðfinnslur yfirstjórnar Reykjavíkurborgar við safnið vegna gagnrýni þess á óviðunandi skjalameðferð vegna braggamálsins svonefnda.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  KPMG skýrslan er ekki vandað plagg að mati Flokks fólksins. Niðurstaðan er pöntuð. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri og hans fólk séu fyrir löngu búin að ákveða að leggja niður Borgarskjalasafn og fengið starfsmenn KPMG til að leiða að þeirri niðurstöðu í skýrslunni. Einungis voru höfð tvö viðtöl við borgarskjalavörð og teymisstjóra eftirlits og rafrænna skila. Vinnan núna er því ólík vinnu með KPMG árið 2018. Ekkert hefur verið fundað með öllum starfsmönnum Borgarskjalasafns, engir stefnumótunar- eða verkefnafundir haldnir með starfsmönnum. Greinendur hafa ekki kynnt sér ítarlega verkefni eða störf safnsins. Ekki var haldinn fundur með forstöðumanni Borgarskjalasafns til að kynna drög að tillögum. Hér er ekki um neina stefnumótunarvinnu að ræða heldur er aðeins keyrt áfram og yfir alla sem málið varðar. Skýrslan er neikvæð, niðurrífandi og allt gert til að láta safnið líta illa út til að réttlæta að skella í lás. Ekki er minnst á styrkleika, orðalag skýrslunnar er gildishlaðið og eingöngu einblínt á vandamálin. Fela á verkefnið öðrum í stað þess að skoða leiðir til að efla safnið. Hávær mótmæli eru um áformin og telur Flokkur fólksins að borgarstjóri eigi umsvifalaust að draga þessa tillögu til baka og biðja starfsfólk Borgarskjalasafns afsökunar.

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarskjalasafn er komið í miklar ógöngur vegna óvandraða vinnubragða meirihlutans og skorts á þekkingu og pólitískri sýn um framtíð skjalasafnsins. Það veldur vonbrigðum hvernig haldið hefur verið á málum. Málið er augljóslega tvíþætt. Annars vegar snýst það um hvort Reykjavíkurborg hafi metnað til að stýra sjálf sínum skjalamálum og hins vegar hvort það losi sig undan 70 ára skuldbindingu sinni og komi skjalasafninu til ríkisins með tilheyrandi óvissu. Það felast ríkir hagsmunir, öryggi og verðmæti í því að reka Borgarskjalasafn og einkum á tímum umfangsmikillar stafrænnar vegferðar sem borgin hefur hafið. Ef meirihluti borgarstjórnar ákveður að losa sig undan þeirri ábyrgð sem hún hefur gengist við í sjötíu ár þyrfti í það minnsta að undirbúa slíkt vel. Það er ekki raunin í þeirri valkostagreiningunni sem liggur til grundvallar. Skýrsluhöfundar hafa brugðist í að greina hvað þriðja sviðsmyndin felur í sér, s.s. varðandi mögulega kerfisáhættu, þjónustustig, tímaramma eða áhuga og getu Þjóðskjalasafns og ríkisins á að taka við verkinu. Hér er byrjað á röngum enda og í raun útilokað að taka endanlega ákvörðun fyrr en í það minnsta að undangengnum undirbúningsviðræðum við Þjóðskjalasafn og fulltrúa ríkisvaldsins auk raunverulegs samráðs við hagaðila og fagfólk. Þetta mál má ekki einkennast af tómlæti og skeytingarleysi eins og áferðin virðist bera með sér núna.

  Fylgigögn

 20. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar 2023. FAS22010020

  Fylgigögn

 21. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda bíla í eigu Reykjavíkurborgar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. janúar 2023. MSS23010117

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Óskað er eftir upplýsingum um hversu margir bílar eru í eigu og notkun hjá Reykjavíkurborg og hversu margir þeirra eru rafmagnsbílar og eða metanbílar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svörin mjög athyglisverð og satt að segja sláandi. Samkvæmt upplýsingum frá sviðum borgarinnar og B-hlutafyrirtækjum Reykjavíkurborgar þá er meirihluti bíla dísil- eða bensínbílar. Af 72 strætisvögnum eru 50 dísilvagnar. OR á 200 bíla og 117 af þeim eru dísilbílar. Malbikunarstöðin Höfði á 17 bíla og 16 af þeim eru dísilbílar. Eignasjóður stendur sig best því þar eru eingöngu 19 dísilbílar af 102 bílum. Þarna er sóknarfæri hjá borginni til að gera betur því það sýnir ekki mikinn metnað í að flýta orkuskiptum þegar aðeins um fjórðungur bíla sem borgin notar séu knúnir af vistvænum orkugjöfum. 

  Fylgigögn

 22. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfsmannafjölda borgarinnar í júlí 2023, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september 2021. FAS23020041

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Með ólíkindum er að það skuli taka eitt og hálft ár að fá svar við eins einfaldri fyrirspurn og þeirri hver starfsmannafjöldi Reykjavíkurborgar sé. Svo mikill dráttur er ámælisverður og sýnir að framkvæmd stjórnsýslu er ekki í lagi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Slíkar grundvallarupplýsingar á borgarstjóri ætíð að hafa á reiðum höndum, miðla þeim fljótt og vel þegar um slíkt er beðið og skýra ef á þarf að halda.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Spurt var um starfsmannafjölda borgarinnar og aukningu en samkvæmt mælaborði borgarinnar er þetta talan og hefur hækkað um 13% milli ára. Fram kemur að árið 2021 var meðal starfsmannafjöldi Reykjavíkur 11.382 skv. mælaborði en árið 2020 var fjöldinn 10.898. Aukningin í mælingu á meðalfjölda starfsmanna nam 4,4% á milli ára. Ráðningar hafa verið miklar hjá borginni síðustu ár. Ekki hefur þó tekist að ráða fólk til að sinna allri lögbundinni þjónustu. Í miðlægri stjórnsýslu og á þjónustu- og nýsköpunarsviði hafa bæst við tugir stöðugilda.

  Fylgigögn

 23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gjaldskrár 2023, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar 2023. FAS22010020

  Fylgigögn

 24. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tjón vegna malbiksskemmda, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars 2022. MSS22030278

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Með ólíkindum er að það hafi tekið rúma ellefu mánuði að svara umræddri fyrirspurn og finna það út að ekki sé unnt að svara henni. Það vekur spurningar um hvernig staðið er að stjórnun borgarráðs og samhæfingu innan borgarkerfisins. Ótrúlegt er að ekki séu til upplýsingar um fjölda tilkynninga vegna skemmda í malbiki, sem valdið hafa tjóni, eða a.m.k. upplýsingar um tjónabætur borgarinnar vegna þess. Spyrja verður um ástæður slíks svarleysis: Er ekki um slíkan kostnað að ræða af hálfu Reykjavíkurborgar eða er slíkur kostnaður ekki bókfærður og þannig aðgengilegur í bókhaldskerfi hennar? Sé slíkar upplýsingar eingöngu að finna hjá tryggingafélögunum, var þá reynt að fá þær upplýsingar frá þeim?

  Fylgigögn

 25. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. mars 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fé frá ríkinu vegna lögbundinnar þjónustu, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júní 2022. MSS22060188

  Fylgigögn

 26. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um launaauka fyrir mönnun, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022. MSS22010220

  Fylgigögn

 27. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um nýjar tímabundnar innheimtureglur Reykjavíkurborgar, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020. FAS23020043

  Fylgigögn

 28. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tekjutap vegna læknisheimsókna á vinnutíma, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember 2021. MSS21120222

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Spurt var um tekjutap vegna læknisheimsókna á vinnutíma og ef starfsmaður þarf að fara til læknis á vinnutíma ef hann getur ekki komið læknistíma fyrir í „styttingunni“. Hér er um raunverulegt vandamál að ræða og meira nú en oft áður er erfitt að fá tíma hjá læknum. Bið eftir sérfræðingi er stundum margar vikur, jafnvel mánuðir. Í þessum tilfellum er býsna ósanngjarnt að starfsmaður þurfi að nota sérstaka fjarvistartegund í viðverukerfinu Vinnustund til að fara til læknis ef hann hefur ekki getað fengið tíma þegar hann er í styttingu. Segir í svari að fjarvera vegna læknisheimsókna skal ekki valda tekjutapi eða vera til frádráttar frá föstum launum starfsfólks að því gefnu að tilefnið sé brýnt og ekki hafi verið unnt að hliðra til tímasetningu heimsóknarinnar. Starfsfólki ber því að stimpla sig út í slíkri fjarveru og telst þá eftir atvikum hafa ráðstafað styttingu vinnuvikunnar sem þeirri fjarveru nemur eða merkir fjarveruna með sérstakri fjarverutegund í viðverukerfi eins og segir í svari. Þar með er „styttingin“ uppurin og er ekki að nýtast sem frí/hvíld. Í þessum tilfellum finnst Flokki fólksins að viðkomandi eigi að fá frí án þess að skerða styttinguna.

  Fylgigögn

 29. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september 2022. MSS22090008

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins vildi vita hvað væri að frétta af aðgengisstefnu borgarinnar en slík stefna var samþykkt 2020 en ekki mikið spurst af henni síðan. Fram kemur í svari að aðgengisstefna Reykjavíkurborgar hefur ekki verið kynnt sérstaklega í heild fyrir borgarbúum en stefnan er þó aðgengileg öllum á ytri vef borgarinnar. Flokki fólksins finnst skrítið að verið sé að leggja mikla vinnu í gerð stefnu. Síðan er henni skutlað á vefinn þar sem varla er hægt að finna hana og engin kynning fer fram á henni. Nú á að fara að gera eitthvað í þessu en liðið er heilt ár án þess að hafið sé ferli innleiðingar. Segir að hafa eigi samráð við aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks og að borgarbúar verði upplýstir um framgang aðgerða í aðgerðaáætlun aðgengisstefnunnar eftir því sem við á hverju sinni. Það er þó aldeilis gott.

  Fylgigögn

 30. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afdrif hugmynda um búsetuhús, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019. VEL23020076

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að svara fyrirspurn Flokks fólksins frá því árið 2019. Spurt var um hugmyndir um búsetuhús sem hópur foreldra barna með þroskahömlun lagði fyrir fyrrverandi skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og fyrrverandi formann velferðarráðs fyrir u.þ.b. átta árum síðan. Fundað var alloft um þessar hugmyndir og fjöldi bréfa fór á milli aðila en síðan er ekki vitað hvað varð um þær. Segir í svari að eftir viðamikla eftirgrennslan þá verður ekki séð að þetta mál hafi komið til umfjöllunar á velferðarsviði. Engin gögn hafa verið skráð um það í skjalavistunarkerfi sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi við eitt af þessum foreldrum sem segir aðra sögu. Foreldrar og börnin bjuggu til sérstaka bók með hugmyndum um búsetuhús. Þessi foreldrahópur skilaði inn mikið af gögnum frá þeim og börnum þeirra. Systir eins barnsins var arkitekt og bauðst til að teikna húsið frítt og börnin máluðu málverk sem á stóð „Ekki gleyma okkur“. Þáverandi skrifstofustjóri lét að því liggja að þetta hús gæti risið í Skerjafirði. Það er alveg ljóst að eitthvað var að í skjalavörslu borgarinnar á þessum tíma.

  Fylgigögn

 31. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 16. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innheimtu á vegum Félagsbústaða, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2023. MSS23010200

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um hversu mörgum málum leigjenda hjá Félagsbústöðum hefur verið vísað til Motus í innheimtu vegna vanskila. Einnig var óskað eftir sundurliðun, tímalengd mála hjá Motus og fjölda nýrra mála síðustu fimm árin. Í svari segir að á árinu 2022 fór um 5% af útgefnum kröfum, eða 1828 mál, í innheimtuferli hjá Motus. Um 500 greiðendur voru að baki málanna. Miðgildi vinnslutíma mála hjá Motus var um 28 dagar á tímabilinu 2018-2022. Flokki fólksins finnst almennt að þessi mál eigi ekki að fara til Motus. Hér er um afar viðkvæman málaflokk að ræða og það eykur kvíða og angist að hafa lögfræðinga yfir höfði sér ef ekki er til peningur til að greiða leigu. Því er þó fagnað að sveigjanleiki er til staðar innan innheimtuferils til að vinna með greiðendum sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Flokkur fólksins veit reyndar ekkert hvað nákvæmlega felst í því en það væri áhugavert að heyra í leigjendum sjálfum um hvað þeim finnst um þetta fyrirkomulag. Allir geta lent í því á einum tímapunkti í lífi sínu að geta ekki greitt reikninga.

  Fylgigögn

 32. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 15. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mælaborð vegna uppbyggingar húsnæðis, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2023. MSS23010203

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir ítarlegum upplýsingum varðandi kostnað og þann tíma sem eytt var í gerð mælaborðs þjónustu- og nýsköpunarsviðs varðandi uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík. Spurt var sérstaklega um hvaða rök hafi verið lögð til grundvallar ákvörðunar þjónustu- og nýsköpunarsviðs um að hefja smíði á þessu mælaborði. Eins og vitað er setti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun upp slíkt mælaborð á svipuðum tíma. Það mælaborð sýnir á rauntíma uppbyggingu húsnæðis á landinu öllu og þar á meðal í Reykjavík. Fram kemur í svari að ekki þurfti að fara í sérstaka vinnu við að taka saman og uppfæra gögnin fyrir þetta tiltekna verkefni þar sem þau byggja á gögnum sem tekin eru saman m.a. úr landupplýsingakerfi Reykjavíkur og uppfærð reglulega í tengslum við gerð ársfjórðungsskýrslu húsnæðisáætlunar. Heildarkostnaður er 8 milljónir rúmar. Gott og vel en af hverju er ráðist í gerð þessa mælaborðs þegar til er slíkt fyrir hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun? Flokkur fólksins hefur lengi kallað eftir skynsemi í fjármálastjórnun sviðsins og að forgangsraða þurfi verkefnum eftir nauðsyn.

  Fylgigögn

 33. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um rekstrarhalla borgarinnar, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júní 2022. MSS22060182

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins óskaði eftir minnisblaði fjármálaskrifstofu um áhrif vaxtahækkunar á skuldastöðu og afborgunarþunga lána hjá borginni í ljósi 1,9 milljarða halla á A-hluta umfram áætlun. Spurt er hvar er hægt að spara eða auka hagræðingu í rekstri borgarinnar og hvort ekki sé hægt að fresta einhverjum verkefnum. Þessar spurningar eru enn meira knýjandi nú þegar verðbólga er komin yfir 10%. Huga þarf að fólki sem hefur lítið milli handanna. Búast má við frekari stýrivaxtahækkun og þá mun staða borgarinnar versna enn frekar vegna mikillar lántöku og hárra lána. Þótt vaxtahækkun Seðlabanka Íslands ein og sér hafi ekki áhrif á þau skuldabréf sem gefin voru út fyrir upphaf vaxtahækkunarferlis Seðlabankans þar sem þau eru öll með föstum vöxtum, mun svo há verðbólga sem raun ber vitni sem jafnvel fer hækkandi hafa áhrif á skuldastöðu borgarinnar þar sem um 70% af útgefnum skuldabréfum borgarinnar eru verðtryggð. Við þessu þarf að bregðast. Ekki er séð að draga eigi nægjanlega mikið úr fjárfestingum. Um þessar mundir er verið að hefja endurgerð Lækjartorgs og hefja á framkvæmdir á næsta ári. Með þetta og önnur stórverkefni á að bíða. Það er ekkert vit í að hægja ekki meira á.

  Fylgigögn

 34. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð vegna myglu í skólahúsnæði, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2023. MSS23010201

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins óskar upplýsinga um skilvirkni og viðbrögð nú þegar myglumálin eru orðin fjölmörg. Hversu langur tími líður frá því að upplýsingar berast um myglu áður en farið er í aðgerðir? Í svari er rakið ferlið sem fer af stað þegar grunur er um léleg loftgæði og slæma innivist. Það kerfi sýnist ágætt. Margir koma að og þá er vissulega alltaf spurning um skilvirkni. Talað er um teymi með ýmsum aðilum, mannauðsráðgjafa og Heilbrigðiseftirliti. Í svona málum hlýtur að þurfa að hafa yfirsýn og heildarmynd og að einhver einn haldi utan um verkið ef ekki á að enda í endalausum fundum sem fátt kemur út úr. Spurt var um hvort sérstaklega væri hlúð að börnum og starfsfólki hvað varðar heilsufar og mat á heilsufarsskaða vegna myglunnar. Því er svarað til að öllum starfsmönnum Reykjavíkurborgar í húsnæðinu stendur til boða að leita til trúnaðarlæknis. Flokkur fólksins vill sjá hér að hugað sé að börnunum í þessum aðstæðum og foreldrum þeirra hjálpað og þeir studdir. Lækniskostnaður gæti verið mikill og ekki allir foreldrar hafa ráð á honum.

  Fylgigögn

 35. Lagt fram svar innkaupaskrifstofu, dags. 22. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um öryggisvörslu Reykjavíkurborgar, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020. FAS23020036

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Verið er að svara fyrirspurn sem lögð var fram árið 2020 og miðlægan samning vegna öryggisvörslu en Flokkur fólksins hafði frétt að það væri miðlægur samningur í gangi en velferðarsvið skipti við aðra öryggismiðstöð. Þetta er skýrt út í svarinu. Hins vegar er því velt upp hvort verið sé að velja hagkvæmustu leiðirnar í öryggismálum borgarinnar, notast við útboð og reynt að hafa þessi mál sem mest miðlæg. Ekki síður mikilvægt er að einhver hafi heildarsýn yfir öryggismálin en ekki að hver og einn sé að grúska í þessum málum í sínu horni.

  Fylgigögn

 36. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um að leita umsagna vegna framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar 2023.
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands að vísa tillögunni frá. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarráði bárust umsagnir frá stafrænu ráði, menningar-, íþrótta- og tómstundaráði, Þjóðskjalasafni Íslands, Borgarskjalasafni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sögufélagi og Félagi héraðsskjalavarða.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúarnir eru sammála því að leita hefði átt eftir umsögnum þeirra aðila sem hér er fjallað um í tillögu Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

  Fylgigögn

 37. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks Fólksins um breytingar á hlutverki Borgarskjalasafns, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar 2023. ÞON23010028
  Tillagan er felld. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Borgarmeirihlutinn er að gera stór mistök með því að leggja niður Borgarskjalasafn. Flokkur fólksins er með þessari tillögu að reyna að koma í veg fyrir stórslys. Eina skynsama leiðin er að allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verði færðar undir Borgarskjalasafn. Með því er allri skjala- og gagnavinnslu Reykjavíkurborgar ásamt innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfa, komið á einn stað sem auðveldar heildaryfirsýn allra skjalamála. Borgarskjalasafn er kjölfestan í skjalamálum borgarinnar og heldur safnið úti öflugri starfsemi. Borgarskjalasafni er best treyst til að vera yfirstofnun annarra skjalavörslusafna í borginni. Það er einnig komið vel af stað í stafrænni umbreytingu, til að uppfylla breyttar áherslur í rafrænni skjalastjórn. Safnið hefur staðið sig hvað best innan borgarinnar í að innleiða stafræna umbreytingu. Eðlilegt er því að Borgarskjalasafn hafi umsjón með skjalavörslu borgarinnar. Á Borgarskjalasafni starfa sérfræðingar á sínu sviði, svo sem lögfræði, skjalfræði, safnfræði, sagnfræði, kerfisfræði og miðlun. Safnið heldur úti öflugri starfsemi og er leiðandi hjá héraðsskjalasöfnum. Það hefur birt á þriðja hundrað síðna af skjölum á vefsíðu sinni, sem nú er unnið að því að endurgera. Í undirbúningi er að deila sameiginlegu húsnæði með Þjóðskjalasafni en bæði söfnin yrðu áfram sjálfstæð. Húsnæðisgreiningar og mannaflaþörf hafa verið unnar fyrir næstu 30 árin til að dreifa kostnaði.

  Fylgigögn

 38. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 16. febrúar 2023. MSS23010026

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Drög að tillögu aðgengis- og samráðsnefndar vegna breytinga á fyrirkomulagi varðandi akstursþjónustu fatlaðs fólks. Flokkur fólksins væntir þess að agnúar verði skornir af akstursþjónustu fatlaðra og að gerðar verði breytingar á fyrirkomulagi akstursþjónustunni þannig að auðveldara verði að komast að í símaveri til að panta akstursþjónustu. Jafnframt er kvartað yfir því að bílstjórar yfirgefi viðkomustaðinn ef þjónustuþeginn er ekki sýnilegur strax. Þetta skapar mikið stress svo ekki sé talað um að ef fólk óttast að bílstjórinn bara fari ef hann sér ekki fólk koma út í hvelli. Hér er verið að tala um fatlað fólk. Það er ekki nægt svigrúm og skilningur fyrir því að fólk er misfljótt að athafna sig.

  Fylgigögn

 39. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 6., 13., 20. og 24. febrúar 2023. MSS23010022

  Fylgigögn

 40. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 16. og 23. febrúar 2023. MSS23010005

  Fylgigögn

 41. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 14. febrúar 2023. MSS23010027

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

  Erindi íbúaráðs um að fá fund með Strætó bs. Flokkur fólksins á erfitt með að skilja af hverju ekki fást úrbætur í almenningssamgöngum tengdum hverfunum. Það hlýtur að verða að tryggja að góðar almenningssamgöngur eftir hverfinu endilöngu, t.d. að tryggt sé að fólk, ekki hvað síst börn, geti sótt þjónustu á milli hverfishlutanna, allt frá Ártúnsholti að Norðlingaholti. Einnig þarf að bæta almenningssamgöngur þvert á hverfin austan Elliðaáa, þar sem íbúum hverfisins er ætlað að sækja þjónustu, s.s. í Egilshöll og Borgarholtsskóla í Grafarvogi og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Staða almenningssamgangna hefur versnað mikið síðustu misseri og ekki sést til sólar í þeim efnum. Þessi mál þarf að ræða og umfram allt leysa.

  Fylgigögn

 42. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. febrúar 2023. MSS23010029

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

  Umsögn um skýrslu starfshóps um framtíð skóla- og frístundastarfs við Ingunnar-, Dals-, og Sæmundarskóla. Flokkur fólksins telur það vera raunverulega ógn og veikleika í framtíðarspám borgarinnar sú óvissa um hvort nemendum i Dalskóla eigi eftir að fjölga meira og hraðar en nemendaspáin gerir ráð fyrir, m.a. vegna stefnu núverandi borgaryfirvalda um hraðari uppbyggingu á byggingarreitum. Það hlýtur að blasa við að mikil fjölgun á eftir að verða í þessu hverfi enda innviðir til staðar. Nú óttast Flokkur fólksins að sagan endurtaki sig, þ.e. að fjölgun nemenda verði stórlega vanáætluð.

  Fylgigögn

 43. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 13. febrúar 2023. MSS23010033

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Flokkur fólksins vill ítreka mikilvægi samráðs við íbúa í öllum málum, þ.m.t. málefni um smáhýsin í Laugardal. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að gefa ekki tækifæri á góðu samtali við íbúa hverfisins.

  Fylgigögn

 44. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 20. febrúar 2023. MSS23010036

  Fylgigögn

 45. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. febrúar og 1. mars 2023.
  4. liður fundargerðarinnar frá 22. febrúar og 5. liður fundargerðarinnar frá 1. mars eru samþykktir. MSS23010011

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 1. mars: 

  Skipulagsyfirvöld óska heimilda til að hefja undirbúning og verkhönnun á Lækjartorgi og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar, en ekki á að hefja framkvæmdir á þessu ári. Nú er verðbólga hærri en áætlað var og vænta má fleiri aðgerða Seðlabankans í formi hækkana stýrivaxta. Þess vegna telur Flokkur fólksins að bíða eigi með að hefja undirbúning og verkhönnun Lækjartorgs í nokkur ár. Áætlaður kostnaður fyrir þennan hluta sem er torgsvæðið, er um 355 milljónir og er þá ekki talinn með kostnaður við hitalagnir. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem má bíða betri tíma. Vissulega er Lækjartorg lykilrými í miðborginni og á sinn sess í hugum fjölmargra. Vinningstillagan er vissulega glæsileg. Um það er ekki deilt. Sama gildir um Kirkjustræti. En nú er staðan þannig að borgin getur ekki sinnt lögbundinni þjónustu sómasamlega. Nú bíða 2291 börn eftir nauðsynlegri þjónustu sálfræðinga og annars fagfólks í skólum. Eitthvað verður undan að láta. Það er ekki alltaf hægt að taka meiri lán og stefna borginni í gjaldþrot. Það segir sig sjálft að meðal slíkra verkefni er hvorki endurgerð Lækjartorgs eða Kirkjustrætis. Það er einfaldlega ekki um neyðarástand að ræða hvað þessi torg varðar og má þetta því bíða betri tíma.

  Fylgigögn

 46. Lögð fram fundargerð neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 22. febrúar 2023. MSS23020174

  Fylgigögn

 47. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. MSS23020106

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið yfirlitsins:

  Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir fyrirvara við þá hugmynd að Þjóðarhöll leysi aðstöðuvanda íþróttafélaganna í dalnum. Hér er ekki nýtt áhyggjuefni. Enn hefur ekki verið lögð fram greining á afkastagetu Þjóðarhallarinnar á þeim tímum sem hægt er að hafa æfingar. Er þar verið að horfa til tímabilsins milli klukkan 14 og 22 virka daga, 10 til 16 laugardaga, og þá fyrst og fremst mánuðina frá september til og með maí. Flokkur fólksins er sammála því mati að mannvirkið eins og það hefur verið kynnt muni ekki anna þörf hverfisfélaganna fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka. Óttast er að æfingar félagsfólks, barna, unglinga og fleiri muni verða víkjandi í starfsemi mannvirkisins, eins og staðan er nú, þegar kemur að æfingum í Laugardalshöll. Það er óviðunandi af hálfu félaganna. Flokkur fólksins hefur margsinnis ávarpað þetta mál í samhengi við umræðu um framtíðarskipulag skóla og íþróttamála í dalnum. Tekið er undir það sem fram kemur í þessari ályktun að „aðstöðuvandi hverfisfélaganna í Laugardal er bráðamál. Brotthvarf yngri iðkenda vegna skorts á æfingaaðstöðu er raunverulegt vandamál sem félögin glíma við af vaxandi þunga“. Þessi skortur hamlar uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Laugardalnum. Við þessu ástandi þurfa borgaryfirvöld að bregðast strax.

  Fylgigögn

 48. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23020163

  Fylgigögn

 49. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarráð samþykkir að óska eftir samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í því skyni að tryggja rekstur öflugrar heilsugæslustöðvar í Grafarvogi til framtíðar. Tveir eftirfarandi kostir verði einkum skoðaðir í því skyni: 1. Reykjavíkurborg útvegi bráðabirgðahúsnæði fyrir Heilsugæslu Grafarvogs í hverfinu, eða hafi milligöngu um það, á meðan endurbætur standa yfir á húsnæði heilsugæslunnar í Spönginni. 2. Skoðaðir verði möguleikar á því að stofna einkarekna heilsugæslustöð í Grafarvogi.

  Frestað. MSS23030007

 50. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Nú hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins flutt Heilsugæslu Grafarvogs í Árbæinn vegna framkvæmda í fyrra húsnæði. Íbúar Grafarvogs hafa vakið athygli á því að þetta torveldar sérstaklega eldra fólki sem sækir heilsugæsluna og þeim sem hafa ekki aðgengi að bíl vegna lakra almenningssamgönguleiða milli þessa tveggja hverfa. Spurt er hvort borgin hafi húsnæði til umráða í Grafarvogi sem hægt væri að nýta undir heilsugæsluna og hvernig borgin gæti haft milligöngu um að lána heilsugæslunni það húsnæði á meðan á þessum framkvæmdum stendur svo Grafarvogsbúar geti áfram sótt grunnheilbrigðisþjónustu í sitt hverfi. Vakin er athygli á því að nánast jafn margir búa í Grafarvogi og búa á Akureyri. Því munar um hverja bílferð á milli hverfanna tveggja.

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23030007

 51. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir upplýsingum um kostnað Reykjavíkurborgar við ferð borgarstjóra ásamt aðstoðarmanni til Kaupmannahafnar dagana 1. og 2. mars 2023. MSS23020144

 52. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir upplýsingum um kostnað Reykjavíkurborgar við ferð borgarstjóra ásamt aðstoðarmanni til Parísar og Strassborgar 20. og 21. mars 2023. MSS23020145

 53. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hver er heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna kærumála fimm ár aftur í tímann vegna útboða? Óskað er eftir yfirliti yfir útboðsmálin og kostnað við hvert mál, skipt eftir árum. Eins er óskað eftir því að yfirlitið nái yfir félög í eigu Reykjavíkurborgar. MSS23030015

 54. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Undanfarið hafa foreldrar þurft að sækja börn sín fyrr á leikskóla vegna þess að ekki tekst að manna daginn. Einnig hefur þurft að skerða þjónustu leikskóla kerfisbundið vegna manneklu. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort leikskólagjöldin hafi verið lækkuð í hlutfalli við skerðingu þjónustu. MSS23030010

 55. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig öryggismálum er háttað í leik- og grunnskólum og íþrótta- og tómstundastarfi á vegum borgarinnar, t.d. verklagi ef vá stendur fyrir dyrum. Hér er t.d. átt við ef fram kemur ógn eða hótun um að skaða börn og starfsmenn. MSS23030011

 56. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:

  Borgarráð samþykkir að fela innri endurskoðanda Reykjavíkur að yfirfara forsendur og kostnaðarmat þeirra þriggja sviðsmynda sem KPMG dregur upp í skýrslu sinni um Borgarskjalasafn. Eins er honum falið að áhættugreina þessar ólíku sviðsmyndir og meta orðsporsáhættu verkefnisins m.t.t. til undangengins verklags og afleiðinga af þeirri ákvörðun sem tekin er í tengslum við framtíð Borgarskjalasafns. ÞON23010028

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. 

 57. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur til að borgarráð láti kanna kosti þess og kostnaðarmeti að senda áfyllanlegt Klapp kort á hvert heimili í Reykjavík með tveimur eða fleiri ókeypis ferðum með Strætó. Tilgangurinn væri að kynna fólk fyrir þægindum almenningssamgangna, hvetja til notkunar þeirra og efla Strætó. Skoða mætti samstarf til að ná kostnaðinum niður við gerð og dreifingu korta. Þá væri hægt að útvíkka hugmyndina og taka hana upp á vettvangi Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og gefa hverju heimili á höfuðborgarsvæðinu eitt Klapp kort. Verkefnið yrði síðan tekið út með formlegum og faglegum hætti m.t.t. fjölgunar farþega og hversu oft heimsenda kortið hafi verið virkjað og fleira sem þætti áhugavert að skoða.

  Frestað. MSS23030016

 58. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:

  Óskað er eftir upplýsingum um ráðningar eftir 1. janúar 2023 eftir sviðum. Eins er óskað eftir upplýsingum um heildarfjölda starfsmanna eftir sviðum. Þá er óskað eftir yfirliti yfir skiptingu sviða á skrifstofur og svæði á Höfðatorgi og í Ráðhúsinu og hver innri leiga hvers sviðs er. MSS23030017

Fundi slitið kl. 13:50

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 2.3.2023 - Prentvæn útgáfa