Borgarráð - Fundur nr. 5695

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 9. febrúar, var haldinn 5695. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Alexandra Briem. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Diljá Ragnarsdóttir, Bjarni Þóroddsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.180 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 8,40%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 707 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 300 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,00% í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1 sem eru 529 m.kr. að markaðsvirði.

    -    Kl. 9:10 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22120008

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2023, varðandi stöðu umbóta- og hagræðingartillagna, ásamt fylgiskjölum. MSS23020030

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa vonbrigðum með hagræðingartillögur meirihlutans. Þar eru kynntar margar en smávægilegar tillögur sem samanlagt skila aðeins einum milljarði í hagræðingar á ársgrundvelli. Það er aðeins dropi í hafið í 15,3 milljarða hallarekstri borgarinnar. Þá lýsa borgarfulltrúarnir jafnframt vonbrigðum með þá ákvörðun meirihlutans að skera niður framlög til leikskóla, grunnskóla og æskulýðs- og tómstundastarfs í borginni. Betur færi á því að minnka sístækkandi yfirbyggingu borgarinnar og lækka rekstrarkostnað, fremur en að skera niður mikilvæga grunnþjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er fram til kynningar yfirlit á stöðu umbóta- og hagræðingartillagna sem samþykktar voru 8. desember 2022 við síðari umræðu í borgarstjórn um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Um er að ræða tillögur meirihlutans en fjöldi hagræðingartillagna minnihlutans voru allar felldar við fyrri og seinni umræðu fjárhagsáætlunar 2022. Flokki fólksins er umhugað um tillögur sem skerða beina þjónustu við fólkið eins og tillögur vegna unglingasmiðju Stígs og Traðar og Vin dagseturs (niðurlagningar). Eins hefur tillögu til lækkunar á þjónustusamningi Sléttuvegar verið mótmælt. Mótmæli þrýstu meirihlutanum til að stíga hálft skref til baka. Velferðarráð ákvað óbreytta þjónustu Vinjar út árið 2023 og tillaga um að leggja niður unglingasmiðjurnar eru til skoðunar og meðferðar hjá starfshópi. Flokkur fólksins hefði viljað sjá meiri sparnað hjá fjárfrekum sviðum eins og hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og hjá miðlægri stjórnsýslu. Sá sparnaður sem stefnt er að á þeim sviðum er sáralítill í stóra samhenginu.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2023:

    Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að auglýsa eftir áhugasömum fyrirtækjum í skapandi greinum vegna þróunar á öðrum áfanga hverfisins Gufunes.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23020028

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gufunes er merkilegt hverfi með mikla sérstöðu sem er mikilvægt að halda í. Þar haldast í hendur skapandi greinar og nýsköpun með áherslu á gerjun. Þessi sérkenni sem einkenna þetta „fríríki frumkvöðlanna“ þurfum við að halda í og tryggja að eigi áfram sinn sess þegar hverfið er þróað. Það skiptir máli nú þegar áfangar 2 og 3 eru í undirbúningi að tryggja að þeir aðilar sem koma að þeirri uppbyggingu fái að vera með í undirbúningsvinnu, en einnig að þeir komi inn með því hugarfari að viðhalda sérkennum hverfisins þegar það byggist upp. Þá þarf einnig að tryggja öfluga íbúabyggð sem stendur undir skólastarfi innan hverfis, án þess að fórna þessum gildum. Ábyrgð borgarinnar er að tryggja að samþætta þessi markmið og passa að metnaður fyrir uppbyggingu á einstaka reitum taki ekki framar heildar hagsmunum hverfisins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að hér eigi að úthluta atvinnulóðum en undirstrika mikilvægi þess að lóðirnar verði seldar á markaðsvirði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að óska eftir hugmyndum um byggingar fyrir skapandi greinar í Gufunesi. Segir í gögnum að þótt að um atvinnulóðir sé að ræða þá er opið fyrir að allt að 20% bygginga verði nýtt undir húsnæði sem tengist starfseminni, t.d. listamannaíbúðir. Kannski mætti ganga mun lengra. Vel þekkt er að fjölmargir listamenn og einyrkjar í skapandi greinum vilja vera með vinnustofu á jarðhæð sem er í tengslum við umhverfið, en búa á efri hæð. Þess vegna mætti vel hugsa sér að allt að 50% bygginga verði íbúðir.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi á Landakotstúni svo unnt sé að reisa þar sparkvöll og leiksvæði sem nýtist börnum í Landakotsskóla á skólatíma og börnum í hverfinu í heild þess utan. Umhverfis- og skipulagssvið mun vinna tillöguna í samráði við Landakotskirkju og Landakotsskóla en lóðin er í eigu Landakotskirkju. Jafnframt verði eignaskrifstofu falið að gera samning um heimild borgarinnar til að eiga, gera og reka leiksvæði og sparkvöll á svæðinu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS23010205

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við styðjum lagningu sparkvallar með gervigrasi á Landakotstúni. Með henni kemst til framkvæmdar tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið frá árinu 2018. Ljóst er að slíkur völlur mun stórbæta aðstæður barna og unglinga í gamla Vesturbænum til leikja og íþróttaiðkunar, sem er löngu tímabært.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. febrúar 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. febrúar 2023 á styrkveitingum úr borgarsjóði 2023, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23010021

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. febrúar 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. febrúar 2023 á tillögu um niðurfellingu reglna um styrki til áfangaheimila, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23010071

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Upphaflegt markmið reglna um styrki til áfangaheimila var að jafna stöðu íbúa á áfangaheimilum við aðra sem geta sótt um húsnæðisstuðning, en sú breyting á lögum hefur orðið síðan reglur um styrki til áfangaheimila voru samþykktar í velferðarráði 16. desember 2008, að nú geta leigjendur áfangaheimila skráð þar lögheimili og sótt um húsnæðisstuðning eins og aðrir íbúar Reykjavíkur. Reglur um styrki til áfangaheimila eru því ekki nauðsynlegar með sama hætti og áður. Mikilvægt er að rekstraraðilar fái upplýsingar um þessa ákvörðun með góðum fyrirvara svo þau geti brugðist við og sótt eftir atvikum um stuðning til velferðarráðs í gegnum styrkjapott fyrir þeirri þjónustu sem þeir veita leigutökum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er til af meirihlutanum að reglur Reykjavíkurborgar um styrki til áfangaheimila verði lagðar niður. Flokkur fólksins minnir á skeyti sem allir borgarfulltrúar fengu nýlega frá Draumasetrinu. Þar er óskað enn og aftur eftir svörum við spurningum Draumasetursins um hvort stuðningurinn verði tekinn af Draumasetrinu og hvernig fyrirkomulagið verður í kringum þann gjörning. Í skeyti þessu er lýst mikilli óvissu um framhaldið og er það án efa hjá fleiri áfangaheimilum sem þessi breyting snertir. Óvissan er ekki aðeins fyrir rekstraraðila heldur einnig íbúa. Vel kann að vera að þessar reglur séu komnar til ára sinna en það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að vita ekki hvað tekur við eða bíður þeirra sem treysta á úrræði af þessu tagi.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 12. janúar 2023, þar sem óskað er eftir heimild til að hefja verkefni um talgreiningu borgarstjórnarfunda, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON22090061

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tilraunaverkefni um sjálfvirka textun og talgreiningu á fundum borgarstjórnar hefur gengið vel og verður sífellt betri. Það er mikilvægt að bæta aðgengi heyrnarskertra að fundum borgarstjórnar og tryggja það að ræður séu gerðar aðgengilegar og hægt sé að lesa þær sem texta og leita í þeim að efnisorðum. Það er líka mikilvægt að taka þátt í því að þróa þessa tækni, sérstaklega meðan þróun hennar er á mikilvægum krossgötum, og tryggja að íslenskan verði með í þeirri þróun, það er mikilvægt til að bæta aðgengi almennt að íslensku og öðrum fundum. Borgarstjórn býr yfir miklu safni af mæltu máli, oft formlegu máli um flókin mál, og það er því líka mikilvægt fyrir þróun talgreiningar á íslensku að veittur sé aðgangur að því efni til að bæta þá tækni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við síðustu fjárhagsáætlun lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks til niðurskurð í stafrænni umbreytingu, sem nema myndi einum og hálfum milljarði króna árið 2023. Ekki verður séð að talgreining borgarstjórnarfunda geti talist forgangsverkefni við núverandi aðstæður, þar sem útkomuspá fyrir árið 2022 gerði ráð fyrir 15,3 milljarða rekstrarhalla. Betur færi á því að halda áfram tilraunaverkefni um rauntímatextun, sem myndi nægja tímabundið til að gera fundi borgarstjórnar aðgengilega öllum, en fresta frekari fjárfestingu þar til fjárhag borgarinnar hefur verið komið í betra horf.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill koma því á framfæri að hann styður öll þau verkefni sem stuðla að bættu aðgengi fyrir borgarbúa að upplýsingum um það sem fram fer í borgarstjórn. Það þarf hins vegar að forgangsraða þeim verkefnum sem brýnust eru hverju sinni sérstaklega í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Huga þarf fyrst og fremst að lögbundinni þjónustu og sinna þeim sem þurfa sérstaka aðstoð. Hvað varðar væntingar borgarbúa um nákvæmlega þessa tæknilegu framkvæmd er ekki vitað og setur því fulltrúi Flokks fólksins spurningarmerki við fullyrðingu skrifstofustjóra stafrænnar Reykjavíkur um að þetta verkefni sé í takt við væntingar borgarbúa um tæknilegar framfarir og framboð á textuðu efni. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 26. janúar 2023, þar sem óskað er eftir heimild til að hefja verkefni vegna færsluhirðingar Reykjavíkurborgar, ásamt trúnaðarmerktri greinargerð.
    Samþykkt.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON22090063

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við síðustu fjárhagsáætlun lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks til niðurskurð í stafrænni umbreytingu, sem nema myndi einum og hálfum milljarði króna árið 2023. Hugsanlega mun nást fram hagræðing með breytingunni, sem er sannarlega jákvætt skref, en gögn málsins eru þó nokkuð óljós hvað þetta varðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ef þetta verkefni eykur sparnað og hagræðingu er fulltrúi Flokks fólksins sáttur. Áður hefur verið bent á hversu ómarkvisst og ruglingslegt hlutverk innkaupaskrifstofu Reykjavíkur er og að lítið miðlægt eftirlit eða stjórnun virðist vera á innkaupamálum Reykjavíkurborgar. Það er ljóst að það er ekki bara samræming færsluhirðingar sem þarf að innleiða, heldur þyrfti að eiga sér stað allsherjar greining á innra skipulagi fjármálaumsýslu borgarinnar. Það þarf að skoða þetta heildrænt og inn í það ferli þarf að taka innkaupamál borgarinnar. Í kjölfarið hljóta að þurfa að eiga sér stað skipulagsbreytingar sem tækju mið af þeirri greiningu. Skoða þyrfti hvernig svona málum er háttað hjá hinu opinbera almennt.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2023, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023 á tillögu um útfærslu breytinga á reglum um systkinaafslátt með tilliti til skiptrar búsetu barna, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    -    Kl. 10:35 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Hjálmar Sveinsson víkur af fundi.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23020001

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna tillögunni en telja rétt að rifja upp að hinn 7. nóvember 2019 lögðu fulltrúarnir fram sams konar tillögu í borgarráði sem var síðar samþykkt í skóla- og frístundaráði. Var þá ákveðið að ráðast í greiningu á áhrifum þess að breyta gjaldskrám með þessum hætti. Er því fagnað að sú greining hafi skilað jákvæðri niðurstöðu og málið fái nú framgang.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur ekki með afgerandi hætti gengist við nýjum lögum um skipta búsetu barns og þar að leiðandi ekki gert tilheyrandi breytingar á reglum sem gilda um afslátt vegna systkina vegna dvalargjalda í leikskóla, frístundaheimilum, sértækum félagsmiðstöðvum og fæðisgjalda. Skóla- og frístundasvið hefur hunsað erindi frá foreldrum með grófum hætti sem bent hefur á hið breytta lagaumhverfi. Foreldrum hefur verið synjað um systkinaafslátt fyrir skólamáltíð, án viðeigandi rökstuðnings og beiðnir um skýringar verið hunsaðar  sem kemur í veg fyrir að foreldrarnir geti sent stjórnsýslukæru til ráðuneytisins. Um var að ræða foreldra með sameiginlegt forræði þriggja barna og þar með með skipta búsetu og skipta kostnaði samkvæmt lögum. Lögheimili og búsetuheimili er hjá báðum foreldrum. Í þessum tilfellum eru engar meðlagsgreiðslur. Sú ákvörðun borgarinnar að synja þessum foreldrum um afslátt er ekki hafin yfir jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Sérstaklega er athyglisvert að borgin geti ekki vísað í regluna eða veitt foreldrum rök fyrir synjuninni. Sviðið hefur nú gert sér grein fyrir að ekki er hægt að fara á svig við lögin og er sjálfsagt að mati Flokks fólksins að afslátturinn verði afturvirkur frá því lögin tóku gildi.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. febrúar 2023, varðandi erindisbréf stýrihóps um samnýtingu skóla- og frístundahúsnæðis, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Jafnframt er samþykkt að skipa Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, Alexöndru Briem og Helga Áss Grétarsson í stýrihópinn og að Árelía Eydís verði formaður hópsins. MSS23010206

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista telur jákvætt að verið sé að skoða hvernig megi nýta húsnæði betur og hefði vilja sjá aðkomu fleiri að stýrihópum en í stýrihópum er oft einungis gert ráð fyrir einum fulltrúa úr minnihluta.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. janúar 2023, varðandi erindisbréf stýrihóps um mótun framtíðarsýnar og stefnumörkun um starfsemi Hins hússins, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Jafnframt er samþykkt að skipa Skúla Helgason, Rannveigu Ernudóttur, Magneu Gná Jóhannsdóttur, Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttir og Stefán Pálsson í stýrihópinn og að Skúli Helgason verði formaður hópsins. MSS23010272

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2023, þar sem erindisbréf starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa í borginni er sent borgarráði til kynningar. MSS23010163

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú er að störfum stýrihópur sem hefur það að markmiði að gera drög að nýrri heildstæðri stefnu um félagsstarf Reykjavíkur. Sá stýrihópur var skipaður í ágúst 2022 en var svo sameinaður öðrum hópi sem er að móta virknistefnu. Markmið að baki hópsins sem skoða á félagsstarf er að gera drög að nýrri heildstæðri stefnu um félagsstarf í Reykjavík, til þess að skapa aðstæður sem bæta félagslega heilsu allra aldurshópa, þ.m.t. eldra fólks. Markmiðið er að styðja við nýsköpun, virkni og heilbrigði, blöndun verði milli kynslóða og félagsstarfið verði sniðið að þörfum mismunandi samfélagshópa, þ.m.t. eldra fólks. Hópurinn móti tillögu að staðsetningu og skipulagi samfélagshúsa ásamt framtíðarnýtingu húsnæðis sem nú þegar er nýtt undir félagsstarf, en hentar ekki undir slíka starfsemi. Fulltrúi sósíalista telur að þetta skarist mjög við verkefni starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa í borginni en um tvo ólíka vinnuhópa er að ræða sem eru að skoða þessi mál. 

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að félagsmiðstöðvarrými fyrir Laugarnes- og Laugalækjaskóla verði útfært með menningarrými og bókasafni í tengslum við stúku Laugardalslaugar. Jafnframt eru hjálögð drög að erindisbréfi starfshóps um undirbúning framkvæmda vegna skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi lögð fram til kynningar.

    Samþykkt.
    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23020033

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks Fólksins fagnar tillögum að félagsmiðstöðvarrými fyrir Laugarnes- og Laugalækjarskóla og að skipaður verði starfshópur um nauðsynlegar og tímabærar framkvæmdir við skólana í Laugardal. Varðandi forsendur starfshópsins er ýmislegt sem þarf að fá nánari skýringar á t.d. hvers vegna það er minna byggingarmagn en lýst er í forsagnarskýrslu. Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar frá nóvember 2022 kemur fram að í Laugardal og nærliggjandi svæði verði byggðar 3.587 íbúðir en ekki er vitað í hvaða skólahverfum þessar íbúðir verði byggðar. Gert er ráð fyrir að stækkun leikskólans Hofs minnki skólalóð Laugarnesskóla en þá liggur ekki fyrir hvort skólinn verði þá ekki stækkaður með því að hækka byggingar eða hvort eigi að stækka hann að grunnfleti. Eins er ekki vitað hvort greining verið unnin á því hvort stærð lóðar dugi Laugarnesskóla eftir stækkun leikskólans eða hvort greining hefur farið fram á þátttökuhlutfalli nemenda skóla í frístundastarfi borgarinnar m.t.t. fjarlægðar milli staða. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort gætt verði að því að samræma framkvæmdir við stækkun skólanna og viðgerðir vegna rakaskemmda eins og kostur er. Og allt er óvíst með hvort óskert aðgengi verður tryggt og samræmis gætt við önnur hverfi borgarinnar þegar kemur að íþróttakennslu og þjálfun í þjóðarhöll og/eða Laugardalshöll.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna ferða formanns borgarráðs og forseta borgarstjórnar í lok árs 2022, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2023. MSS22110214

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður við þessar ferðir sem spurt er um eru: Ferð til Færeyja til að afhenda jólatré, 174.310 kr. Ferð til Belgíu vegna vinnufundar EFTA, 268.964 kr. Í ljósi sóunar á fjármagni í borginni eru alls konar hlutir þar sem hefði mátt sýna meiri skynsemi. Þessar upphæðir eru kannski ekki háar í stóra samhenginu. En margt smátt gerir eitt stórt. Það hlýtur að þurfa að endurskoða ferðalög borgarstjóra og hans föruneytis nú þegar hart er í ári. Hver nýtur góðs af þessum ferðum aðrir en þeir sem fara þær? Hvernig eru þær að skila sér til borgarbúa? Flokkur fólksins hefur lagt til að fjarfundir verði meginreglan þegar kemur að fundum fjarri vinnustað sem starfsmenn og embættismenn allra sviða Reykjavíkurborgar þurfa að sækja. Hér er sérstaklega átt við fundi erlendis, fundi á landsbyggðinni og einnig aðra fundi innan borgarinnar eftir atvikum. Með þessu fyrirkomulagi er dregið verulega úr kolefnisspori og kostnaði. Nú þegar er fordæmi fyrir þessu t.d. hjá ráðuneyti umhverfismála. Af hverju er það svona erfitt fyrir borgaryfirvöld að gæta að sér í fjármálum og sýna skynsemi og hagsýni í fjármálum?

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. nóvember 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna ráðstefnuferðar borgarstjóra og fleiri starfsmanna til Amsterdam, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. október 2023. MSS22100002

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var um kostnað vegna ráðstefnuferðar til Amsterdam. Kostnaður er samtals 585.525 kr. Aðhalds er þörf nú meira en nokkru sinni. Ekki er að efa að þetta hafi verið skemmtileg ráðstefna en í raun hefur þátttaka á henni engin áhrif á neitt er varðar líf og líðan borgarbúa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að fjarfundir verði meginreglan þegar kemur að fundum fjarri vinnustað sem starfsmenn og embættismenn allra sviða Reykjavíkurborgar þurfa að sækja. Hér er sérstaklega átt við fundi erlendis. Með þessu fyrirkomulagi er dregið verulega úr kolefnisspori og kostnaði. Flokkur fólksins hefur oft áður verið með tillögur um að draga úr ferðum erlendis ekki síst vegna kostnaðar. Umhverfisráðherra hefur tekið þetta skref nú þegar í sínu ráðuneyti. Borgin á ekki að láta sitt eftir liggja enda tíðrætt um loftgæði. 

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ferð borgarstjóra til Barcelona, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. nóvember 2023. MSS22110021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var um ferð borgarstjóra til Barcelona. Kostnaður er 515.060 kr. Flokkur fólksins hefur oft áður verið með tillögur um að draga úr ferðum erlendis ekki síst vegna kostnaðar og einnig lagt til að fjarfundir verði meginreglan til að spara fjármuni og minnka kolefnisspor.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svör skóla- og frístundasviðs, dags. 31. janúar 2023, og velferðarsviðs, dags. 6. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um áhrif færðar á velferðarþjónustu og kennslu, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar 2023. MSS23010082

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt er um áhrif færðar á velferðarþjónustu og kennslu. Í svörum frá skóla- og frístundasviði virðist sem að færðin hafi lítið raskað kennslu og að í tilvikum þar sem starfsfólk komst ekki til vinnu í leik- og grunnskóla voru málin leyst innanhúss með eigin mannskap innan þeirra fjárheimilda sem þeir hafa. Í svörum frá velferðarsviði kemur hins vegar fram að það hafi orðið þó nokkur vandkvæði vegna færðarinnar undanfarnar vikur. Þeir þættir velferðarþjónustu sem helst hafa orðið fyrir áhrifum eru heimaþjónusta, akstursþjónusta á heimsendum mat, búsetuþjónusta og stoð- og stuðningsþjónusta fyrir fatlað fólk og þjónusta við heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt kemur fram að bílafloti heimaþjónustunnar sé takmarkaður og ekki útbúinn fyrir slæma færð. Þetta hefur sérstaklega valdið vandræðum við að þjóna efri byggðum þar sem er illfært. Gripið hefur verið til þess ráðs að leigja jepplinga fyrir þjónustuna og er kostnaður umtalsverður eða um 1 m. kr. síðustu vikur. Endurskoða þarf þessi mál í heild sinni. Flokkur fólksins finnst þessi skerta þjónusta við viðkvæmustu borgaranna mjög alvarleg og telur að setja þurfi bíla borgarinnar á nagladekk til að auka líkur þess að hægt sé að sinna þessari þjónustu.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. febrúar 2023.
    6. liður fundargerðarinnar er staðfestur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Í athugasemdum er kvartað yfir ófullnægjandi kynningu. Einnig er kvartað yfir of miklu skuggavarpi. Enda þótt allar byggingar varpi vissulega einhverjum skugga er hér um að ræða vandamál sem tengist of mikilli þéttingu byggðar og þá er það þéttingarstefnan sem er vandamálið. Nefndir eru mögulegir vindstrengir og það er atriði sem á að kanna áður en form bygginga er ákvarðað. Skipulagsyfirvöld sinna þessu atriði lítið sem ekkert með þeim afleiðingum að allt of oft myndast hættulegir vindstrengir nálægt háum byggingum. Um það eru þekkt dæmi í Reykjavík. Í gögnum er ekkert fjallað um þennan þátt sem ætti að vera eitt af aðalatriðunum. Bent er á að leikskóla- og skólamál séu í ólestri í hverfinu. Taka þarf strax á þeim málum. Vonandi verður tekið tillit til þessara athugasemda. Endurskoða þarf samráðs- og kynningarmál.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 2. febrúar 2023. MSS23010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Tillaga aðgengis- og samráðsnefndar vegna breytinga á fyrirkomulagi akstursþjónustu fatlaðs fólks. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt að það sé óánægja með hvað það sé erfitt að komast að í símaveri til að panta akstursþjónustu. Jafnframt er kvartað yfir því að bílstjórar yfirgefi viðkomustaðinn ef þjónustuþeginn er ekki sýnilegur strax. Þetta er auðvitað ekki boðlegt og samræmist ekki starfsháttum um góða og faglega þjónustu. Það verður að vera skýrt af hendi Pant til hvers er ætlast. Nú á fólk að vera tilbúið í anddyrinu áður en bíllinn kemur, sem er afar íþyngjandi sérstaklega ef seinkun er á bílnum. Þetta skapar mikið stress svo ekki sé talað um að ef fólk óttast að bílstjórinn bara fari ef hann sér ekki fólk koma út í hvelli. Hér er verið að tala um fatlað fólk. Það er ekki nægt svigrúm og skilningur fyrir því að fólk er misfljótt að athafna sig. Akstursþjónustan eins og hún er uppbyggð virðist ósveigjanleg, krefst mikils undirbúnings og tíma. Ekki er vitað hvað margir nota hana.
     

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 2. febrúar 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. febrúar 2023. MSS23010028

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. janúar 2023. MSS23010018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Í fundargerð er sagt frá mörgu sem er verið að gera hjá Orkuveity Reykjavíkur, en engar niðurstöður koma fram. Í lið 2 er lögð fram svohljóðandi tillaga vegna fjármögnunarheimildar ársins 2023: „Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) veitir forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála heimild til fjármögnunar í formi skuldabréfaútgáfu, víxlaútgáfu eða bankaláns fyrir allt að 25 ma.kr. á árinu 2023. Fjármögnunarheimildin er 5 ma.kr. umfram lánsfjármögnun í samþykktri fjárhagsáætlun. Framangreindar heimildir ná einnig til undirritunar allra skjala sem heimildir ná yfir.“ Fulltrúa Flokks fólksins finnst það eftirtektarvert að þarna er veitt heimild til aukinnar skuldsetningar og fær framkvæmdastjóri fjármála heimild til undirritunar allra skjala sem heimildin nær yfir. Hér er verið að sýsla með tugi milljarða. Það er ekki léttvægt. Eftir því er tekið að tillagan er samþykkt með atkvæðum allra utan þriggja. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn greiða atkvæði gegn tillögunni. 

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 20. janúar 2023. MSS23010021

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka þá afstöðu sína að fjölga þurfi stjórnarsætum Reykjavíkurborgar í stjórn Strætó bs. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á stærstum meirihluta af rekstri byggðasamlagsins og því eðlilegt að borgin eigi aukið vægi við ákvarðanatöku fyrirtækisins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í fundargerðinni má skynja með áþreifanlegum hætti hversu illa er komið fyrir Strætó bs. Ekkert eigið fé er í félaginu og er Strætó illa undirbúið undir óvænta atburði sem geta komið upp. Vegna ástands flotans hefur þurft að fella niður um 50 ferðir á síðasta einum og hálfa mánuði. Meginskýring ástandsins er að lítið hefur verið fjárfest í nýjum vögnum síðustu árin, vegna fjárhagsstöðu Strætó. Stjórn felur framkvæmdastjóra að skoða nánar hvort mögulegt sé að fela verktökum frekari akstur svo að þjónustustig verði viðunandi. Fram kemur í fundargerð að framkvæmdastjóri kynnti stöðuna á vinnu við útboðsgögn vegna útboðs á akstri. Fara á í útvistun. Flokkur fólksins spyr hvort það sé í samræmi við stefnu eigendanna? Flokkur fólksins hefur varað við útvistun og eru nokkrar ástæður nefndar. Ef horft er til reynslu er hætta á lækkun launa og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Einnig hefur reynslan sýnt í alltof mörgum tilfellum að þjónustan verði dýrari en ekki betri fyrir vikið. Ef reksturinn verður boðinn út er útilokað að borgin hafi þann kost að hafa frítt í strætó eins og talað hefur verið um að skoða. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 27. janúar 2023. MSS23010015

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar starfsáætlun stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er hrint í framkvæmd á árinu 2023, sbr. lið 2 í fundargerð stjórnarinnar dags. 27. janúar sl., er mikilvægt að viðfangsefni sem tengjast styttingu vinnuvikunnar verði tekin föstum tökum, m.a. til að viðhalda öflugum starfsanda og tryggja stöðugleika í starfsmannahaldi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 5. lið fundargerðarinnar: 

    Á fundinum fór fram umræða um árlegt árangursmat á störfum stjórnar og slökkviliðsstjóra og lagt var til að því verði frestað. Fulltrúi Flokks fólksins undrast að fresta eigi matinu. Eru stjórnendur búnir að gleyma starfsánægju/óánægju könnuninni sem gerð var fyrir fáum misserum? Niðurstaða var öll á „rauðu“ sem merkti mikla óánægja og vanlíðan hjá starfsfólki. Starfsmannamálin eru eftir breytingar á vaktakerfi í uppnámi, óánægjan er ennþá mikil eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur fregnað. Fátt virðist hafa batnað á þessum vinnustað sem snýr að starfsfólkinu. Því er galið að fresta þessu mati. Ekki liggur þó fyrir út á hvað matið gengur nákvæmlega. Er um að ræða árangursmat varðandi fjármál eða er verið skoða hvort starfsmenn eru eitthvað sáttari nú eða er verið að meta árangur í störfum t.d. brunavörnum og slökkviliðsstörfum? Liður 5. Kynning og umræður um stöðu húsnæðismála Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins með hliðsjón af áætlunum um byggingu nýrrar slökkvistöðvar í stað Tunguháls, úrbótaþörf á Kjalarnesi og fyrirsjáanlegum breytingum á aðstöðu í Skógarhlíð vegna nýrrar björgunarmiðstöðvar. Loksins er búið að deiliskipuleggja hverfi á Kjalarnesi og þá mun íbúafjöldi í hverfinu tvöfaldast. Úrbætur eru því varla nægar heldur þarf framtíðarstefnu fyrir næstu 10-15 ár.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. MSS23010281

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið yfirlitsins: 

    Flokkur fólksins á fulltrúa í rýnihópi um Ljósleiðarann. Þar sem enn vantar að fá að sjá mikilvæg gögn til að rýnihópurinn geti sinnt sínu hlutverki er allsendis óvíst hvernig vinnu hópsins mun lykta. Ekki virðist fara fyrir því að meirihlutinn kalli eftir gögnum, sé t.d. að freista þess af krafti að fá upp á borðið samning Ljósleiðarans við Sýn og aðra viðskiptasamninga. Það er áhyggjuefni. Flokkur fólksins í borgarstjórn íhugar nú alvarlega að stimpla sig út úr þessum rýnihópi. Sýnt er að það verður flokknum sem berst fyrir bættri þjónustu fyrir borgarbúa, fæði, klæði og húsnæði fyrir alla, aldrei til góðs að vera tengdur við mál af þessu tagi þar sem leyndarhyggja ríkir.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23010283

    Fylgigögn

  27. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. febrúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Keiluhöllina Egilshöll, Fossaleyni 1, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010207

    Fylgigögn

  28. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. febrúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Ölver, Álfheimar 74, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010293

    Fylgigögn

  29. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn The English Pub, Austurstræti 12, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23020004

    Fylgigögn

  30. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 03:00 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Just Winging it, Snorrabraut 56, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23020063

    Fylgigögn

  31. Borgaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir eftirfarandi upplýsingum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023. Hversu miklar breytingar urðu á áætluðum útgjöldum Reykjavíkurborgar sundurliðað eftir fjárfestingu og rekstri frá framlagningu frumvarps 1. nóvember 2022, til og með lokasamþykkt 6. desember? Jafnframt er óskað eftir sambærilegum upplýsingum um breytingar á áætlaðri lántöku og skuldaniðurstöðu milli áðurnefndra dagsetninga.

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. FAS22010020

  32. Borgaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um allar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar frá 1. janúar 2022. Beðið er um að í svarinu verði gerð grein fyrir samanlagðri hlutfallshækkun (%) hverrar gjaldskrár fyrir sig yfir tímabilið.

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. FAS22010020

  33. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Reykjavíkurborg auglýsti nýlega eftir verkefnastjóra framtíðarinnar. Starfsyfirlýsingin var svohljóðandi: „Umhverfis- og skipulagssvið leitar að verkefnastjóra til að taka þátt í mótun nýrrar verkefnastofu. Á verkefnastofu er unnið eftir hugmyndafræði verkefnastjórnunar, verkefnum er fylgt eftir frá upphafi til enda þvert á verkþætti og ábyrgðasvið fagskrifstofa. Verkefnin krefjast mikillar samvinnu teymismeðlima og allra hagsmunaaðila sem koma að verkefnum verkefnastofu. Um er að ræða fjölbreytt og spennandi starf í faglegu starfsumhverfi þar sem áhersla er á teymisvinnu og góða þjónustu. Næsti yfirmaður er skrifstofustjóri verkefnastofu.“ Óskað er eftir nánari útskýringum á því hvað felst í starfinu, t.a.m. með dæmum um hvernig verkefnum á að sinna. Einnig er óskað skýringa á því hvernig þetta fellur að samþykkt borgaryfirvalda varðandi tímabundnar ráðningareglur þar sem áhersla var sett á aðhald í ráðningum með áherslu á að manna störf í grunnþjónustu. Fellur þetta starf undir grunnþjónustu? MSS23020062

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavík taki sér Hafnarfjörð til fyrirmyndar og hefji undirbúning í samráði við foreldra og leikskólasamfélagið við að samræma starfstíma í leikskólum og grunnskólum þannig að skólaárið á þessum tveimur skólastigum verði sambærilegt. Þetta væri gert til að laða fólk til starfa á leikskólum en mikil mannekla hefur ríkt á leikskólum allt frá 2016. Hafnarfjörður er fyrsta sveitarfélagið til að stíga þetta skref. Markmiðið með þessu er að búa til aðlaðandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu, fjölga kennurum í leikskólum borgarinnar og auka þar með fagmennsku og bæta gæði náms börnum til heilla. Umfram allt skiptir máli að gera breytingu til að gera starfið meira aðlaðandi án þess að skerða þjónustu. Nauðsynleg er að styrkja hana frá því sem nú er.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23020056

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði hefji undirbúning í samráði við leikskólasamfélagið um námslínu fyrir leiðbeinendur sem ætlað er til að styrkja þá í faglegu starfi á leikskóla. Þetta er lagt til m.a. í ljósi alvarlegrar manneklu sem ríkt hefur í leikskólum borgarinnar frá 2016. Freista þarf þess að hugsa út fyrir boxið og finna nýjar leiðir til að laða fólk til starfa í leikskólum. Önnur sveitarfélög hafa farið þessa leið og beitt fleiri nýjungum sem leitt hefur til aukinnar eftirsóknar í störfum á leikskólum. Reykjavík þarf að taka sér þessi sveitarfélög til fyrirmyndar. Ekki gengur að sýna uppgjöf í þessum málum en nú ríkir hreint neyðarástand. Fæst börn geta verið á leikskólum sínum alla fimm daga vikunnar vegna vöntunar á starfsfólki.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23020058

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga um aukið samráð við foreldra, skólayfirvöld og hagsmunaaðila Laugardals vegna framkvæmda félagsmiðstöðvarrýmis fyrir Laugarnes- og Laugalækjarskóla og undirbúnings framkvæmda vegna skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til og telur það mjög mikilvægt að haft verði þétt og gott samstarf og samráð við alla hagsmunaaðila sem tengjast framtíðarskipulaginu og að þeir komi að ákvarðanaferlinu og ákvarðanatökunni. Það skiptir sköpum og er mikið farsælla bæði til skemmri og lengri tíma að hafa hagsmunaaðila og notendur með í samtalinu strax frá upphafi fremur en að leiða þá inn í umsagnarferli eftir á. Þetta hefur reynslan ítrekað sýnt.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23020033

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hversu mörg stöðugildi vantar til að fullmanna leikskóla borgarinnar. Í október 2022 spurði fulltrúi Flokks fólksins um hver staða mönnunar í leikskólum væri og þá átti ennþá eftir að ráða í 83 grunnstöðugildi í 67 borgarreknum leikskólum. Alls voru þá laus 449 pláss í 69 leikskólum, mest vegna mönnunarvanda og vegna þess að ekki var hægt að nota húsnæðið. Mönnunarvandi hefur fest rætur í Reykjavík og breytir þá engu hvernig árferði er, hvort það er næg atvinna eða atvinnuleysi. Leikskólar virðast ekki laða að starfsfólk. Flokkur fólksins var með tillögu sem gæti hjálpað. Sú tillaga laut að því að ráða eldra fólk sem það vill og getur, fólk yfir sjötugu til að vinna í leikskólum. Í þeim aldurshópi er mikill mannauður. Einnig hefur Flokkur fólksins lagt til að heimgreiðsluúrræðið verði sett á laggirnar og foreldrum sem geta og vilja vera lengur heima með barni sínu eftir fæðingarorlof fái heimgreiðslu mánaðarlega. Sú greiðsla getur verið allt frá 200 þúsundum í 400 hundruð þúsund sem er það sama og leikskólapláss kostar um það bil.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23020057

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fyrirspurnir varðandi tillögur að félagsmiðstöðvarrými fyrir Laugarnes- og Laugalækjaskóla. Borgarfulltrúi Flokks Fólksins fagnar tillögum að félagsmiðstöðvarrými fyrir Laugarnes- og Laugalækjarskóla og að skipaður verði starfshópur um nauðsynlegar og tímabærar framkvæmdir við skólana í Laugardal. Tillagan felur í sér jákvæða nýtingu á stúku Laugardalslaugarinnar og getur, ef vel er framkvæmt, orðið lyftistöng fyrir hverfið og félagsleg þungamiðja fyrir unga sem aldna. Varðandi forsendur starfshópsins er spurt: Hvers vegna er minna byggingarmagn en lýst er í forsagnarskýrslu? Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar (nóvember 2022) kemur fram að í Laugardal og nærliggjandi svæði verði byggðar 3.587 íbúðir. Í hvaða skólahverfum verða þessar íbúðir byggðar? Gert er ráð fyrir að stækkun Leikskólans Hofs minnki skólalóð Laugarnesskóla. Verður skólinn ekki stækkaður með því að hækka byggingar, á að stækka hann að grunnfleti? Hefur greining verið unnin á því hvort stærð lóðar dugi Laugarnesskóla eftir stækkun leikskólans? Hefur farið fram greining á þátttökuhlutfalli nemenda skóla í frístundastarfi borgarinnar m.t.t. fjarlægðar milli staða? Verður gætt að því að samræma framkvæmdir við stækkun skólanna og viðgerðir vegna rakaskemmda eins og kostur er? Varðandi íþróttakennslu og þjálfun í þjóðarhöll og/eða Laugardalshöll, verður óskert aðgengi tryggt og samræmis gætt við önnur hverfi borgarinnar?

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23020033

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir samantekt á öllum fyrirspurnum og tillögum sem enn er ósvarað/óafgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og síðasta kjörtímabili í borgarráði.

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar. MSS23020059

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um nýtingu akstursþjónustu fatlaðra og að upplýsingar nái aftur um fimm ár eða svo. Ítrekað hafa borist kvartanir vegna akstursþjónustu fatlaðra, að þjónustan sé einfaldlega ekki góð og að hún sé ósveigjanleg. Sem dæmi hefur verið óánægja með hvað það er erfitt að komast að í símaveri til að panta akstursþjónustu. Jafnframt berast kvartanir vegna þess að bílstjórar yfirgefa viðkomustaðinn ef þjónustuþeginn er ekki sýnilegur strax. Þetta skapar mikið stress og ótta hjá þeim sem nýta sér akstursþjónustu fatlaðra. Fatlaðir einstaklingar standa eftir einir þegar bílstjórar eru farnir af vettvangi af því að þeir voru ekki nógu fljótir að koma sér ýmist niður í anddyri eða út til að láta vita af sér. Fatlað fólk er misfljótt að athafna sig eins og gengur og telur Flokkur fólksins mikilvægt að tekið sé tillit til þess. MSS23020060

  41. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Árið 2019 voru leyfisbréf kennara sameinuð í eitt sem gildir þá um leik- og grunnskólastig. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hversu margir leikskólakennara hafa síðan þá hætt að kenna í leikskólum og fært sig á yfir á grunnskólastigið.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23020061

Fundi slitið kl. 11:20

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 9.2.2023 - Prentvæn útgáfa