Borgarráð - Fundur nr. 5694

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 2. febrúar, var haldinn 5694. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Diljá Ragnarsdóttir, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skarfabakka, Klettasvæðis, vegna lóðanna nr. 6, 8 og 10 við Skarfagarða, ásamt fylgiskjölum. SN220719
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 9:25 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóðarinnar nr. 1 við Gullsléttu, ásamt fylgiskjölum. SN220460
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Íbúum Kjalarness finnst þeim hafa verið sýnd vanvirðing vegna Gullsléttu 1. Íbúar hafa enn ekki fengið svör við innsendum athugasemdum sínum frá borginni, þrátt fyrir að búið sé að birta þau opinberlega í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023, 7. mál. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að íbúaráð Kjalarness óskaði eftir kynningafundi vegna fyrirhugaðra breytinga frá skipulaginu og heilbrigðiseftirlitinu þar sem ætlað er að þessi stóru hús verði 1,5 metrum hærri en þau hús sem fyrir eru á svæðinu skv. núverandi skipulagi, þ.e. 9,0 metrar í 10,5 metra. Þessi hús eru samhliða Vesturlandsveginum og breyta því ásýnd hverfisins fyrir alla þá sem aka til og frá borginni. Flokki fólksins finnst að taka eigi meira tillit til þess sem fram kemur hjá íbúaráðum almennt séð. Til hvers eru verið að halda úti íbúaráðum ef ekki á að hlusta á það sem fram kemur frá þeim?

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. janúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki skipun dómnefndar fyrir samkeppni um sundlaug í Fossvogsdal, Fossvogslaug, ásamt fylgiskjölum. USK23010253
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Sundlaug í Fossvogi yrði mikil lyftistöng bæði fyrir íbúa í Reykjavík og Kópavogi. Hér er verið að samþykkja að skipa dómnefnd og hleypa af stað alþjóðlegri samkeppni um hönnun sundlaugarinnar. Hér er ekki verið að tímasetja byggingu sundlaugarinnar en það er gleðilegt að Reykjavík og Kópavogur hafi náð saman um að vinna saman að þessari uppbyggingu. Framundan er því nokkurra ára spennandi hönnunar- og skipulagsferli samhliða því að unnið verður að samningum um framkvæmdina sjálfa milli sveitarfélaganna. Fossvogslaug mun nýta einstaka staðsetningu á fjölsóttu útivistarsvæði. Stefnt er að því að sundlaugin veiti fjölbreytta upplifun og þjónustu fyrir nærliggjandi íbúasvæði og gesti Fossvogsdals og eigi þar með þátt í að auka lífsgæði og sundmenningu á svæðinu.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. janúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki skipun dómnefndar vegna samkeppni um nýjan samþættan leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð, ásamt nýrri göngu- og hjólabrú í Vogabyggð, ásamt fylgiskjölum. USK23010248
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Bygging nýs grunn- og leikskóla í Vogabyggð, þar sem gert verður ráð fyrir frístundaheimili og félagsmiðstöð, verður eitt mikilvægasta uppbyggingarverkefni í menntamálum borgarinnar á þessum áratug. Eftir vandaðan undirbúning fagfólks á umhverfis- og skipulagssviði og skóla- og frístundasviði er nú allt til reiðu að ýta úr vör alþjóðlegri hönnunarsamkeppni sem vonir standa til að skili niðurstöðu á síðari hluta ársins. Leitast verður við að tryggja hagkvæmni og gæði í útfærslu. Þar með verður grunnur lagður að öflugu skólastarfi í hinni nýju Vogabyggð sem er í hraðri uppbyggingu.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar, ásamt fylgiskjölum. USK22120092
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

  Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið, Glóey Helgudóttir Finnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
  Hildur Björnsdóttir víkur af fundinum undir þessum lið. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er jákvætt að hægt sé að leysa úr lóðamálum á opna svæðinu við Vesturbæjarlaug með nýrri deiliskipulagstillögu. Tillagan gerir ráð fyrir að almenningssvæðið stækki umtalsvert frá því sem reyndin er nú með því að girðingar sem hafa staðið í áratugi verði fjarlægðar. Málið er flókið og á sér langa sögu. Í þeim tilvikum þar sem íbúar vilja halda í hluta af lóðunum þurfa þeir að greiða fullt verð fyrir.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sósíalistar mótmæla því að lóðamörk við Einimel 22-26 séu færð út og yfirtaki hluta af lóð við Vesturbæjarlaug sem er í eigu borgarbúa. Íbúar í einbýlishúsum við Einimel reistu girðingar inn fyrir það svæði og hindruðu þannig aðgang að almannalóð. Í stað þess að segja að slíkt sé óboðlegt ætlar borgin að láta undan og stækka lóð viðkomandi. Með því er verið að setja slæmt fordæmi sem sendir þau skilaboð að með því að taka almannalóðir af borginni sé möguleiki á að hún láti undan. Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvar slíka undangjöf er að finna gagnvart fátækum borgarbúum sem er oft og tíðum mætt með stálhnefa. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Íbúar fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Ár er liðið frá því að tillögu um breytingu á lóðamörkum við Vesturbæjarlaug var fagnað og tilkynnt að sátt væri um málið. Samkvæmt athugasemdum í gögnum er greinilegt að þessi sátt var eingöngu sátt á milli meirihlutans og lóðareigenda. Haft var eftir meirihlutanum í bókun frá 2022 að með breytingunni stækkaði túnið miðað við raunverulega stöðu síðustu áratuga. Flokki fólksins finnst þetta sérkennileg röksemdafærsla því borgin á þetta land. Íbúar við Einimel fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst verulega hæpið að leyfa stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði. Eftir auglýsingu tillögunnar kemur fram mikil andstaða sem er eðlilegt enda fer landið úr almenningseigu í einkaeigu. Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. janúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að selja eigendum fasteigna við Einimel nr. 18, 24 og 26 um 236 fermetra úr lóð Vesturbæjarlaugar við Hofsvallagötu 54 með fyrirvara um samþykkt deiliskipulags, ásamt fylgiskjölum. FAS23010033
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

  Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið, Óli Jón Hertervig og Glóey Helgudóttir Finnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
  Hildur Björnsdóttir víkur af fundinum undir þessum lið. 

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er ekki verið að stækka borgarrýmið eins og haldið er fram í málflutningi borgarinnar. Verið er að selja húseigendum hluta af borgarrými. 

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. janúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Rofabæ 39, ásamt fylgiskjölum. MSS23010250
  Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

  Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Líkt og fram hefur komið í áætlunum Festi, þá mun Festi selja byggingarrétt í kjölfar samninga við borgina um fækkun bensínstöðva og því hagnast gríðarlega á húsnæðisuppbyggingu og hverfistengdri þjónustu. Þetta kemur í kjölfar samninga um fækkun bensínstöðva í borginni. Í stað þess að leitast við að fá umráð yfir lóðinni og vinna að því að skipuleggja húsnæði og þjónustu, færir borgin olíufélögum gríðarlegan auð sem mun koma til vegna mikils byggingarmagns. Forsenda fyrir uppbyggingu ætti ekki að vera út frá hagnaðarsjónarmiðum olíufélaga. 

  Fylgigögn

 8. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-nóvember 2022, dags. 31. janúar 2023. FAS22060027

  Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

 9. Lögð fram auglýsing um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem undanþegin eru verkfallsheimild, dags. 26. janúar 2023, og auglýsing um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem heimild til verkfalls nær ekki til, dags. 26. janúar 2023. MOS23010004

  Lóa Birna Birgisdóttir og Rakel Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 10. Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 259/2021. MSS21120211

 11. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 25. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leikskólann Bakka, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september 2022. MSS22090005

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. nóvember 2022, sbr. afgreiðslu borgarstjórnar frá 15. nóvember 2022 á tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um mælaborð vegna eineltis og annarra ofbeldismála til borgarráðs. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 23. janúar 2023.
  Vísað til umsagnar menningar- og íþróttasviðs. MSS22110120

  Fylgigögn

 13. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 19. janúar 2023. MSS23010026

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

  Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillögu frá fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands vegna breytinga á fyrirkomulagi varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Lagt er til að þegar fatlað foreldri/-ar eða aðstandandi ferðast með börn sín undir 18 ára aldri sé ekki greitt aukalega fyrir barnið og að boðið sé upp á sessur sem hentar börnum á aldrinum 3 til 10 ára, til að tryggja öryggi þeirra. Fyrirkomulagið eins og það er í dag veldur því að sumir geta ekki ferðast eins frjálslega um og þeir vilja. Þessi tillaga stuðlar að bættu frelsi fatlaðra foreldra og/eða aðstandenda til að sækja t.a.m. menningarviðburði í borginni ásamt börnum sínum.

  Fylgigögn

 14. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 24. janúar 2023. MSS23010024

  Fylgigögn

 15. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 12. og 25. janúar 2023. MSS23010012

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 25. janúar:

  Reykjavíkurborg hefur nú enn og aftur gefið út starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir kærur tveggja hópa íbúa frá 24. september 2021 þar sem starfsleyfið var fellt úr gildi. Á Álfsnesi er annar samhliða skotvöllur Skotreynar, starfsleyfi þess vallar var einnig fellt úr gildi skv. úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. september 2021 eftir kærur tveggja hópa íbúa úr nágrenninu. Enn og aftur gaf Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út starfsleyfi fyrir Skotreyn sem kært var af þremur hópum íbúa. Það starfsleyfi var fellt úr gildi 28. desember 2022 af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kjalnesingar töldu að þeir væru endanlega búnir að fá úrlausn málsins með birtingu úrskurðar kærendum í hag. Íbúar hafa sent samtals 7 kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á sl. 16 mánuðum. Allir úrskurðir hafa fallið kærendum í hag.

  Fylgigögn

 16. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 19. og 26. janúar 2023. MSS23010005

  Fylgigögn

 17. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 10. janúar 2023. MSS23010027

  Fylgigögn

 18. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaða frá 24. janúar 2023. MSS23010031

  Fylgigögn

 19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 26. janúar 2023. MSS23010035

  Fylgigögn

 20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 16. janúar 2023. MSS23010036

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. febrúar 2023.
  9. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna þeirri ákvörðun að deiliskipulag fyrir Elliðaárdalinn verði tekið upp, enda gefst þá tækifæri til að endurskoða áform um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Elliðaárdal og jafnframt tækifæri til að staðfesta aftur Árbæjarlón í skipulagi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka þau vonbrigði sín að borgarstjórn hafi ekki enn beint því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að fyllt verði án tafar aftur í Árbæjarlón. Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 24/2022 er áfellisdómur yfir þeirri framkvæmd þegar Árbæjarlón var tæmt í október árið 2020. Í úrskurðinum kemur fram það mat nefndarinnar að í tæmingu lónsins hafi falist meiri háttar framkvæmd sem hafði áhrif á umhverfið og breytti ásýnd þess. Af þeim sökum hefði borið að afla framkvæmdaleyfis vegna tæmingarinnar. Það var ekki gert og af þeim sökum hefði skipulagsfulltrúa borið að stöðva tæminguna tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

  Engar beinar framkvæmdir eru farnar af stað vegna borgarlínunnar sjálfrar en her fólks er í fullri vinnu. Þetta er ekki mjög traustvekjandi. Búið er að kynna nýja kostnaðaráætlun vegna verkefna samgöngusáttmálans. Kostnaður við tengd verkefni eykur heildarkostnaðinn. Kostnaður við samgöngusáttmálann eykst úr 120 í rúma 170 milljarða króna og fyrsti áfangi borgarlínu kostar 28 milljarða. Kostnaður við borgarlínu fer úr 49,6 í 68,6 milljarða einmitt vegna þessa fyrsta áfanga. Tugir milljarða fara í stokka. Þetta á að fjármagna m.a. með þróun Keldnalandsins og tafagjöldum, verði ákveðið að leggja þau á. Flokkur fólksins hefur áður bent á þennan „annan kostnað“ sem tengist borgarlínuverkefninu sem að ekki mun bókast sem kostnaður við borgarlínuna. Jafnvel tugmilljarða stokkar við Sæbraut og Miklubraut sem tekið verður sem samgönguverkefni. Hluti af því er til að mynda rými fyrir borgarlínuna. Nú er Reykjavíkurborg að biðja um að stokkar verði styrktir sér til að halda hugsanlegum byggingum við stokkinn. Taka verður með í reikninginn að umferðartafir vegna þessara stokkaframkvæmda munu verða gríðarlegar. Hvert er þjóðhagslegt tjón af þeim töfum og hefur það verið reiknað út? Þá veit enginn hver rekstrarkostnaður borgarlínunnar verður. Margur „annar kostnaður“ mun því gera þetta verkefni dýrara en lagt var upp með.

  Fylgigögn

 22. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 25 mál. MSS23010281

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið yfirlitsins: 

  Flokkur fólksins vill vekja athygli á erindi foreldra vegna synjunar á systkinaafslætti fyrir skólamáltíð, án viðeigandi rökstuðnings og hunsun á beiðni um skýringar. Um er að ræða foreldra með sameiginlegt forræði þriggja barna. Foreldrarnir eru með skipta búsetu og skipta því kostnaði samkvæmt lögum. Lögheimili er hjá báðum foreldrum. Í þessum tilfellum eru engar meðlagsgreiðslur. Foreldrar fengu lögfræðiálit á málinu sem segir að þetta sé mismunun og uppfylli ekki góða stjórnsýsluhætti hjá Reykjavíkurborg. Leiða má líkur að því að synjunin standist ekki lög. Þess utan er stjórnsýslan gagnrýnd harðlega. Erindið hefur verið hunsað og dregið á langinn. Rökin fyrir synjun er að þar sem börnin eiga tvö heimili eru þau ekki með sama fjölskyldunúmer. Flestar aðrar stofnanir hafa aðlagað sig að nýjum og breyttum lögum um skipta búsetu en borgin þráast við. Þannig eru aðgerðir borgarinnar í beinu ósamræmi við anda og markmið laga um skipta búsetu. Tekið er undir lokaorð erindisins sem er: „Túlkun innheimtusviðs er þunn og vísar í lögheimili með „computer says no“ stemmningu og horfir fram hjá fjölda staðreynda í málinu“.

  Fylgigögn

 23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23010283

  Fylgigögn

 24. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. janúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Irishman Pub, Klapparstíg 25-27, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum. MSS23010238
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

  -    Kl. 10:57 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 25. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hversu mörg mál eru sambærileg skipulagsmálum við Sundlaugartún og Einimel 18, 24 og 26, þar sem húseigendur hafa fært lóðamörk inn á borgarland? Hversu mörg þannig mál hefur borgin vitneskju um? Hvernig hafa slík mál verið afgreidd og hver er forsaga slíkra mála? Hafa svipaðir samningar verið lagðir til á síðustu árum þar sem húseigendum er gefinn kostur á að kaupa hluta af borgarlandi? MSS23020015

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. 

 26. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Reykjavíkurborg hefur sett fram samningsmarkmið vegna uppbyggingarsvæða í Reykjavík, á nýjum byggingarreitum er oft samið um kauprétt Félagsbústaða á 5% íbúða og að 20% íbúða verði skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Hafa samningsmarkmiðin alltaf náð fram að ganga? Hversu margar íbúðir hafa farið til Félagsbústaða vegna þessara samningsmarkmiða og hversu margar hafa verið skilgreindar sem leiguíbúðir vegna samningsmarkmiða á síðustu fimm árum? MSS23020018

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

 27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvernig eftirliti er háttað með íþrótta- og tómstundafélögum Reykjavíkurborgar varðandi úrræði þegar upp koma eineltis-, og eða önnur ofbeldismál. Spurt er einnig hvort hægt sé að sjá miðlægt hvort íþrótta- og tómstundafélög á vegum borgarinnar hafi viðbragðsáætlun og verkferla tiltæka og sýnilega á heimasíðu sinni þegar upp koma eineltis- eða ofbeldismál eða þegar grunur leikur á um að einelti viðgangist. Óskað er eftir ítarlegu svari og sundurliðun, t.d. hvaða félög, ef einhver, hafa ekki áætlun gegn einelti og viðbragðsáætlun tiltæka á heimasíðu sinni. Óskað er upplýsinga um hvort kallað sé eftir þessum upplýsingum frá íþrótta- og tómstundafélögum Reykjavíkurborgar reglulega og ef svo er, hversu reglulega? MSS23020010

  Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

 28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Á ekki að taka áskorun fjölmargra og hætta við að loka Siglunesi? Spurt er: Hvernig ætlar meirihlutinn að taka á áskorun fjölmargra að hætta við að loka siglingaklúbbnum Siglunesi eins og meirihlutinn hefur lagt til? Flokkur fólksins minnir á tal um samráð og að hlusta á fólk. Starfsemi Sigluness er einstök, fyrst og fremst fyrir þær sakir að þar er ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum farveg til að eflast og þroskast á jafningjagrundvelli. Skorað hefur verið á meirihlutann að taka mál Sigluness til skoðunar áður en ákveðið verður að loka 55 ára farsælli starfseminni endanlega. Má þar meðal annars skoða stofnun hollvinasamtaka sem létt gætu róðurinn til að afstýra því slysi sem fylgdi því að leggja starfsemina af. USK22122901

  Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. 

 29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í nokkur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðna fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvernig viðmiðin hafa nýst til að greina á milli ástæðu fjarvista. Einnig er spurt hvaða skólar nýta ekki þessi viðmið og rök þeirra fyrir því. Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista sem kann að vera m.a. ástæða þess að ekki allir skólar hafa viljað nota viðmiðin. MSS23020012

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hefur aðlagast breyttum lögum sem lúta að lögheimili og búsetuheimili barna hjá báðum foreldrum í þeim tilfellum þar sem foreldrar eru með sameiginlega forsjá. Heimilisföng barns eru þá tvö og eru bæði skráð í Þjóðskrá. Þegar samningur um skipta búsetu er gerður verða engar meðlagsgreiðslur og eru foreldrar þá í sömu stöðu og áður hvað kostnað varðar. Á þetta reynir þegar sótt er sem dæmi um systkinaafslátt. Íþróttafélög (Þróttur, Ármann), kirkjan og fleiri hafa engu breytt við framkvæmd systkinaafsláttar. Embætti landlæknis og fleiri opinberar stofnanir hafa aðlagað sig að breyttum veruleika í kjölfar laga um skipta búsetu. Að heimila barni að hafa tvö lögheimili hefur gjörbreytt stöðunni og umhverfinu öllu og hefur þetta verið baráttumál árum saman. MSS23020013

Fundi slitið kl. 11:05

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Hildur Björnsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Skúli Helgason

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 2. febrúar 2023 - prentvæn útgáfa