No translated content text
Borgarráð
Ár 2023, fimmtudaginn 19. janúar, var haldinn 5692. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. janúar 2023, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 17. janúar 2023 hafi verið samþykkt að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tæki sæti í borgarráði í stað Kjartans Magnússonar. Jafnframt var samþykkt að Kjartan taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Björns Gíslasonar. MSS22060043
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Spöngina, einingu H, vegna hjúkrunarheimilis við Mosaveg, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220067
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreita, vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22122958
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar 2023, á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.133.1, Landhelgisgæslureits, vegna lóðarinnar nr. 61 við Vesturgötu, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220428
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. janúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð framlengi greiðslufrest vegna hluta byggingarréttar á lóðinni Gjúkabryggju 6, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS21120306
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. janúar 2023, þar sem vörumerkjahandbók Reykjavíkur er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22010188
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er sjálfsagt að halda vörumerkjum borgarinnar saman, að þau séu samræmd og aðgengileg á netinu. Flokki fólksins finnst einnig sérkennilegt hvað langan tíma hefur tekið að samræma rafrænar undirskriftir. Það hefur farið umtalsvert fjármagn, þegar allt er til tekið, í merkingar, logo, skjaldarmerki og fleira í þeim dúr.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. janúar 2023, þar sem drög að erindisbréfi ritstjórnar vefs Reykjavíkurborgar, reykjavik.is, er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS22010188
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Eftir að ný heimasíða borgarinnar for í loftið, hafa ekki allir hlekkir virkað sem skyldi. Mikilvægt er að klára vinnu við gerð heimasíðunnar þannig að auðvelt verði að finna upplýsingar og nálgast þær. Eins og staðan er nú hefur verið erfitt að nálgast upplýsingar á nýju heimasíðunni og villumeldingar koma oft upp. Samhliða því þarf að nota eldri heimasíðu borgarinnar til að leita að upplýsingum, t.a.m. í fundargerðum og útgefnu efni sviðanna, og slíkt skapar óþægindi og gerir það að verkum að erfiðara og tímafrekara verður að finna upplýsingar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill benda á vandamál með heimasíðu borgarinnar. Hlekkir hafa ekki virkað sem skyldi og stundum er vonlaust að ná í upplýsingar. Jafnvel hefur verið vandamál að nota eldri heimasíðu sem reynt er þá að nota í neyð. Vesen með heimasíðuna hefur verið mjög íþyngjandi þegar mikið liggur við, t.d. á fundum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. janúar 2023, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Vilníus, ásamt fylgiskjölum. MSS23010153
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjóri ætlar núna til Vilníus til að halda upp á 70 ára afmæli borgarinnar og tekur með sér aðstoðarmann. Svona ferð er alveg álitamál í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Vilníus mun án efa geta fagnað afmæli sínu með glæsibrag þótt borgarstjóri Reykjavíkur sé ekki mættur á staðinn í eigin persónu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. janúar 2023, varðandi úthlutun úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen sem fór fram þann 12. janúar 2023. MSS23010154
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands fyrir árið 2023. Samningurinn er til eins árs. Kostnaður samkvæmt samningnum er 2.750.000 kr. sem færist á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykkar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS23010075
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að hagræða í rekstri borgarinnar enda 15,3 milljarða halli af rekstri borgarinnar árið 2022. Ekki verður séð að fyrirliggjandi samningur sé nauðsynlegur hluti af grunnþjónustu Reykjavíkurborgar. Betur hefði farið á því að leita hagræðingar hér, en verja fjármununum fremur í nauðsynleg verkefni í þágu borgaranna. Til samanburðar mætti nefna að núverandi meirihluti skar nýverið niður bókakaup til skólabókasafna um 9 milljónir árlega, en þeirri tillögu var andmælt af Sjálfstæðisflokknum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú þarf að horfa í hverja krónu enda alvarlegur hallarekstur á borginni. Allt sem er ekki bráðnauðsynlegt þarf að bíða betri tíma. Þessi samningur, samningur við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála 2023 er einn af þeim sem getur beðið. Flokkur fólksins minnir í þessu sambandi á börnin 2049 sem bíða eftir m.a. sálfræðiaðstoð frá skólasálfræðingum og meðferð frá talmeinafræðingum. Mörg hafa beðið mánuðum ef ekki árum saman.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. janúar 2023, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu á starfssvæði Suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar þar sem samstarfsaðilar lýsa yfir skýrum vilja til að þróa áfram samvinnu sína á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 til að tryggja vernd og umönnun barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Hugmyndin er sú að gera tilraun í einu hverfi og verklagið mótað og síðan innleitt í hin hverfin.
Samþykkt. MSS23010099
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar þessari samstarfsyfirlýsingu. Börn eru í viðkvæmri stöðu af ýmsum ástæðum. Börn sem ekki fá þörfum sínum mætt eru í sérlega erfiðri stöðu. Líklegt má telja að líðan barna sem bíða eftir þjónustu fagfólks fari versnandi því lengur sem þau bíða eftir hjálpinni. Reykjavík lætur 2048 börn bíða eftir aðstoð fagfólks skóla en annar eins hópur bíður eftir að komast á mikilvæg námskeið og önnur hjálparúrræði. Þetta er slæmt og stríðir gegn því sem fram kemur í þessari yfirlýsingu. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 skylda þá sem veita þjónustu að bregðast við þörfum barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur. Með því að láta börn bíða svo lengi eftir aðstoð er meirihlutinn í borgarstjórn að bregðast þessum börnum.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. janúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn American Bar, Austurstræti 8-10, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrstlitaleik Superbowl 2023 í Bandaríkjunum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010069Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borist hefur umsagnarbeiðni Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 3. janúar, um tímabundið leyfi til lengri veitingatíma áfengis eða til kl. 04:30, aðfaranótt mánudagsins 13. febrúar nk. vegna veitingastaðarins American Bar, Austurstræti 8-10b vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum. Samþykkja þarf þetta sérstaklega því hér er um lengri opnunartíma að ræða þetta kvöld. Í ljósi umræðunnar um hávaðann í miðbæ og vinnu við að koma böndum á hann koma upp í hugann margar spurningar sem tengjast leyfi af þessu tagi. Langt er síðan spretthópurinn sem vinnur að þessum málum hefur verið kallaður saman og vill fulltrúi Flokks fólksins ítreka að það verði gert sem fyrst. Vandinn er ekki úr sögunni enda þótt eitthvað hafi e.t.v. sljákkað í hávaðanum þar sem hann var verstur og langt yfir leyfilegum mörkum. Gera má því skóna að færri fari út á lífið til að skemmta sér fram eftir nóttu kannski vegna ófærðar og kuldatíðar sem verið hefur að undanförnu.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning Orkuveitu Reykjavíkur á orkukostum, orkuöflun og aðgerðum til framtíðar. MSS23010164
Hera Grímsdóttir, Vala Hjörleifsdóttir og Ingvar Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst gæta nokkurrar bjartsýni í þessari kynningu þar sem rætt er um djúpborun. Markmið Íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP) er að kanna með beinum hætti dýpri jarðlög og leita leiða til að opna okkur auðlindina undir auðlindinni eins og segir í kynningu. Djúpborun, eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst, er þegar borað er djúpt og niður í mjög heitt berg. Það er áhættusamt og oft vantar vatn, en ef vel tekst til er mikil orka þar. Enn hefur árangur ekki náðst þrátt fyrir nokkrar tilraunaboranir. Hitaorka er einnota. Gæta þarf að nýtingu og sóa ekki. Það er stór áskorun. Stóra spurningin er hvar á að finna ný svæði og kanna nýjan orkukosti. Ekki er nægur forði í núverandi kerfum.
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um lóðir í eigu Reykjavíkurborgar, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí 2022. MSS22070054
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjarfundi sem meginreglu, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. janúar 2023. MSS23010119
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að fjarfundir verði meginreglan þegar kemur að fundum fjarri vinnustað sem starfsmenn og embættismenn Reykjavíkurborgar (allra sviða) þurfa að sækja. Átt var sérstaklega við fundi erlendis. Tillagan er felld. Það kemur á óvart fyrir a.m.k tvær sakir. Í fyrsta lagi er komið fordæmi fyrir þessu hjá umhverfisráðuneytinu og í öðru lagi þá hefur meirihlutinn sagt að spara þurfi fé vegna slæmrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og í raun er þriðja ástæðan sú að meirihutinn talar fjálglega um grænt plan. En þegar á reynir stendur ekki steinn yfir steini. Þrátt fyrir ofangreint þá vill þessi meirihluti halda áfram að eyða peningum í ferðir og losa koltvísýring. En með þessu fyrirkomulagi sem hér er lagt til er dregið verulega úr útblæstri og auðvitað kostnaði. Kolefnisspor mun minnka og tími sparast sem ella færi í ferðir. Af hverju skyldi borgarstjóri ekki vilja standa jafnfætis umhverfisráðherra í þessum efnum? Vissulega kostar þetta þor og kjark og að vera tilbúinn að sjá á eftir ferðalögum erlendis.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjarfundir eru mikilvægt verkfæri til að spara fjármuni og draga úr kolefnisspori, en einnig til að nýta tíma starfsfólks sem best. Vandinn við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins er að hún vegur að kjarasamningsbundnum réttindum starfsfólks og möguleikum þess til að nýta ferðastyrki aðila utan Reykjavíkurborgar. Þar má nefna að starfsfólk Reykjavíkurborgar sækir árlega fjölmarga ferðastyrki úr Erasmus styrkjakerfi Evrópusambandsins. Þá sækir starfsfólk borgarinnar mjög í ferðastyrki hjá stéttarfélögum sem þeir tilheyra. Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar telur mikilvægt að sýna ítrasta aðhald í rekstri og meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort nýta eigi fjarfundabúnað eða ferðast á fund. Það er þó ekki skynsamleg ráðstöfun að borgarráð taki til meðferðar ferðabeiðnir hvers starfsmanns á svo stórum vinnustað sem Reykjavíkurborg er.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir mikilvægi þess að notkun fjarfundabúnaðar verði aukin í starfsemi Reykjavíkurborgar. Eflaust má með fyrirkomulaginu ná fram auknu hagræði, minnka kolefnisspor og draga úr ferðakostnaði. Þó getur undir vissum kringumstæðum vissulega verið nauðsynlegt að mæta á staðfundi. Mikilvægt er að mótuð verði einföld stefna um þetta efni innan borgarkerfisins.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fargjaldahækkun Strætó, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. október 2022. MSS22100068
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Spurt var um hvaða áhrif talið er að hækkun strætófargjalds hafi á börn sem búa við fátækt. En þann 1. nóvember 2021 fór ungmennafargjaldið úr 25.000 í 40.000 kr. Aldursviðmið barna sem fá frítt í Strætó var hækkað úr sex ára og yngri í 11 ára og yngri. Í svari við „áhrif hækkunar á líkum þess að foreldrar notist frekar við bíl“ er sagt að vert sé að nefna að samkvæmt upplýsingum frá FÍB kostar um 1,5 m.kr. á ári að reka smábíl og sé því langt í að kostnaðurinn sé sambærilegur. Þetta er vissulega punktur en þá erum við komin að stærsta vandamálinu og það er þjónustustig Strætó. Dregið hefur úr þjónustu, tíðni ferða m.a., og Klappið hefur haft mikinn fælingarmátt. Flokkur fólksins bendir á að dæmi eru um að fólk eigi fleiri en eitt og fleiri en tvö börn 11 ára og eldri. Á það þarf að líta í samanburði milli bíls og strætó. Það er ekki lausn að kaupa mánaðarkort í stað árskorts enda það síðarnefnda hlutfallslega ódýrara. Einnig var spurt hvernig þessi hækkun samræmist loforði meirihlutans um ókeypis fyrir grunnskólabörn í strætó. Ekki var brugðist við þeirri fyrirspurn.
- Kl. 10:58 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi áform um barnvæna höfuðborg, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september 2022. MSS21120183
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði: Hvernig getur Reykjavík verið fyrsta barnvæna höfuðborgin á heimsvísu þegar 2049 börn bíða eftir þjónustu ýmissa fagaðila skólanna og mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi? (Með vísan í umsögn sviða um hvatningu UNICEF að Reykjavíkurborg gerist barnvænt sveitarfélag). Í svari kemur réttilega fram að Reykjavíkurborg ber að innleiða Barnasáttmálann. Flokkur fólksins hefur bent á að lítið fari fyrir þeirri vinnu og hefur ítrekað lagt til að spýtt verði í lófana. Í svari er tekið undir mikilvægi þess að ná niður biðlistum. Flokkur fólksins sér ekki að neitt sé verið að vinna í því um þessar mundir. Það er talsvert síðan Betri borg fyrir börn verkefnið var sett á laggirnar og engu að síður fjölgar á biðlistum. Það er eitthvað sem ekki er að virka. En hvað? Skilvirkni? Samstarf? Markviss vinna í að fá fleira fagfólk? Það vantar ekki háleit markmið hjá meirihlutanum en blákaldur veruleikinn er annar. Dæmi um háleit markmið eru: áhersla á samstarf, samhæfa þjónustu, bæta stjórnun. En hvernig er þetta allt að skila sér til barna og foreldra? Biðlistinn hefur farið frá 400 börnum frá 2018 í 2048 börn 2023. Á sama tíma ætlar Reykjavík að verða fyrsta barnvæna borgin á heimsvísu.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 9. janúar 2023. MSS23010022
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 9. janúar 2023. MSS23010030
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. janúar 2023. MSS23010032
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Lögð fram umsögn íbúaráðs Kjalarness, dags. 8. desember 2022, um tillögu að starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi. Síðan 8. desember hefur margt breyst og gerst í þessum efnum. Nú eru skotvallamálin á Kjalarnesi búin að fá úrlausn eftir kæru á útgáfu starfsleyfis og birtingu úrskurðar kærendum í hag. Ef litið er yfir söguna þá er þetta í þriðja sinn á einu og hálfu ári sem skotfélögin missa starfsleyfi útgefin af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað upplýsinga um hver borgar fyrir alla þessa vinnu sem þarna liggur að baki bæði hjá borginni og launalausum íbúum. Flokkur fólksins vonar að skotfélögin fái góða aðstöðu til sinna æfingum þar sem fyllsta öryggis sé gætt, fyrst og fremst með tilliti til jarðvegsmengunar og hljóðmengunar. Það var aldrei framkvæmt á Álfsnesi en með betri sameiginlegri æfingaaðstöðu félaganna á höfuðborgarsvæðinu yrðu umhverfiskröfur mun strangari, en slík íþróttasvæði þurfa að fara í umhverfismat. Hér er um stórt náttúruverndarmál að ræða sem vonandi fær farsæla lausn.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 9. janúar 2023. MSS23010033
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Rík áhersla er á íbúðar- og atvinnustarfsemi með heimildum fyrir atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð, þar sem fólk getur búið og starfað á sama bletti. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki alveg hvernig þetta muni ganga upp þar sem bílar hafa enga aðkomu. Ef atvinnustarfsemi sem er með beina þjónustu við fólk á að þrífast að einhverju viti þarf að vera gott aðgengi allra samgöngumáta, líka bíla. Ekki nema atvinnustarfsemin eigi aðeins að vera fyrir íbúa hverfisins. Fyrir þá sem þarna búa þá eru bílastæði ekki heimil innan lóða íbúðabygginga á svæðinu. Heimilt er að vera með bílakjallara frá götuhæð. Þetta er galli að mati Flokks fólksins og munu margir þeir sem eru háðir bílum til að komast leiðar sinnar ekki geta búið þarna. Bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun eru staðsett við Kænuvog og Súðarvog. En hvernig á fólk með mikla hreyfihömlun að komast frá stæði og að útidyrum sínum? Mörg þessara nýju hverfa í Reykjavík eru aðeins fyrir ákveðna hópa samfélagsins, þ.e. þá sem geta lifað bíllausum lífsstíl.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 4. janúar 2023. MSS23010018
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins vill styðja við fyrirspurn Kjartans Magnússonar um að stjórnarmenn Orkuveitu Reykjavíkur fái aðgang að nýgerðum viðskiptasamningi milli Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar, og Sýnar. Fulltrúi Flokks fólksins getur reyndar ekki, frekar en aðrir, vitað hvort einhverjir úr stjórninni hafi séð umræddan samning. Leynd sem hvílir yfir þessu plaggi er óþolandi og veldur því að stýrihópur sem meta á umsögn um hlutafjáraukningu til að bjarga Ljósleiðaranum getur ekki sinnt starfi sínu sem skyldi. Flokkur fólksins íhugar hvort það sé skynsamlegt fyrir flokkinn að eiga fulltrúa í rýnihópnum þar sem byggja á niðurstöðu á skjali sem ekki má sjá.
- Kl. 11:02 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. desember 2022. MSS22010015
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:
Gallamál sem tengjast GAJU voru til umræðu undir þessum lið en engar niðurstöður eru birtar sem er bagalegt. Borgarbúar, meirihlutaeigendur SORPU, hafa ekki grænan grun um hvað fram fer bak við tjöldin í SORPU sem varla getur talist eðlilegt. Alvarleg mistök voru gerð hjá SORPU á síðasta kjörtímabili og er margt ennþá óljóst í þeim efnum. Til dæmis liggur ekki fyrir heildarkostnaður vegna byggingar GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU bs. Endanlegar upplýsingar um kostnað vegna galla liggja ekki fyrir og heldur ekki hver kostnaður hefur verið af málaferlum, endurbótum og viðgerðum sem gerðar hafa verið.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. janúar 2023.
5. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Aðferðafræðin um forgangsröðun gatna sem lýst er í gögnum er ekki gagnrýnd hér. Ástand gatna er upp til hópa slæmt og má þar um kenna án efa áralöngu og jafnvel áratuga viðhaldsleysi. Kostnaður við endurbætur og að gera sumar götur að borgargötum mun hlaupa á milljörðum. Forgangsraða þarf eftir umferðaröryggi. Taka má dæmi norðan Laugarásvegar eins og lýst er í gögnum. Þar eru gangstéttar beggja megin orðnar slitnar, sprungur, bætur og frekar mjóar. Þar eru samsíða bílastæði austan megin. Við Sunnutorg og gatnamót Laugarásvegar eru miðeyjar við gönguþverun (ekki merktar gangbrautir). Sunnan Laugarásvegar breikkar gatan, akreinar 4-5 m hvor auk samsíða bílastæða beggja megin götu (um 14 m milli gangstéttabrúna). Gangstéttar almennt 3 m en víða orðnar lélegar. Þetta eru dæmigerðar lýsingar um fjölmargar aðrar götur. Laugarásvegur er slysagildra. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að öryggisþáttum er víða ábótavant í borginni þar á meðal í Laugardal og Úlfarsárdal. Úrbætur ganga alltof hægt. Sá hluti borgarkerfisins sem annast þessi mál virkar bæði svifaseinn og óskilvirkur.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 11. janúar 2023. MSS23010025
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar hefur verið í kynningu. Þar er lýst háleitum markmiðum m.a. að vinna að auknum og bættum búsetuúrræðum fyrir eldra fólk. Um 700 byggingar eru í þróun og/eða byggingu. Tæplega 500 hafa ekki fengið samþykkt deiliskipulag. Á biðlista eftir búsetuúrrræði fyrir eldra fólk er á annað hundrað manns í Reykjavík. Þörf fyrir búsetuúrræði fyrir eldra fólk hefur alltaf verið vanáætluð. Kominn er tími til að áætla betur enda ætti það ekki að vera vandamál. Þriðja æviskeiðið þarf að fara að taka alvarlega. Flokkur fólksins kallar eftir fjölbreytni og að hugsað sé út fyrir boxið. Fólk hefur ólíkar þarfir. Sumir vilja vera sér, aðrir vilja búa í hverfi sem hefur sérstaklega verið hannað og skipulagt fyrir þennan aldurshóp með tilliti til þjónustu og aðgengismála og enn aðrir vilja búa í blandaðri byggð. Tekið er undir vilja ráðsins um að upplýsingar um fjölda hjúkrunarrýma verði aðgreindar frá öðrum tegundum íbúða fyrir eldra fólk í áætluninni.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sex mál. MSS23010007
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23010020
Fylgigögn
-
Samþykkt að taka kosningu í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar á dagskrá.
Lagt er til að Maríjon Ósk Nóadóttir taki sæti aðalmanns í stjórninni í stað Janusar Arn Guðmundssonar og að Helgi Áss Grétarsson taki sæti varamanns í stjórninni í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.
Samþykkt. MSS22060152 -
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um heildarkostnað við fyrirhugaða ferð borgarstjóra og aðstoðarmanns hans til Vilnius dagana 22.-25. janúar nk. MSS23010153
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvenær er gert ráð fyrir að skipað verði í stýrihóp vegna innleiðingar matarstefnu Reykjavíkurborgar? Á síðasta kjörtímabili tókst ekki að klára endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar og ekki hefur enn verið skipað í hópinn að nýju. Mikilvægt er að hópurinn taki til starfa sem fyrst svo ekki verði endað í sömu stöðu og síðast, að vinnan klárist ekki fyrir kosningar MSS23010194
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Er vitað hversu mörg börn búa við fátækt í Reykjavík? Óskað er eftir upplýsingum um fjölda barna sem eru í þeirri stöðu, eða áætlun ef tölur liggja ekki fyrir. Einnig er óskað eftir upplýsingum um fjölda barna sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum. Óskað er eftir nýjustu upplýsingunum sem til eru. MSS23010199
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu mörgum málum leigjenda hjá Félagsbústöðum hefur verið vísað til Motus í innheimtu vegna vanskila? Óskað er eftir sundurliðun á þessum málum, tímalengd þeirra hjá Motus, fjölda nýrra máli ár hvert síðustu fimm árin. Flokkur fólksins hefur hvað mestar áhyggjur af því að gengið sé of harkalega að leigjendum Félagsbústaða sem ekki geta staðið í skilum með leigu og óskar því eftir þessum upplýsingum. Hér er um afar viðkvæman hóp að ræða og þykir Flokki fólksins það kaldranalegt að skuldir, smáar sem stórar, nýjar sem gamlar séu sendar í innheimtu til innheimtufyrirtækis eins og Motus. Félagsbústaðir hafa átt í viðskiptum við Motus síðan 30. október 1998 vegna innheimtu viðskiptakrafna sem komnar eru fram yfir eindaga. Áður önnuðust Félagsbústaðir innheimtu krafnanna. MSS23010200
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Flokkur fólksins óskar upplýsinga um skilvirkni og viðbrögð nú þegar myglumálin eru orðin fjölmörg. Hversu langur tími líður frá því að upplýsingar berast um myglu áður en farið er í aðgerðir? Er sérstaklega hlúð að börnum og starfsfólki hvað varðar heilsufar og mat á heilsufarsskaða vegna myglunnar? Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem aðeins tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski í skólastarfi vegna myglu og raka. Nýlega bættust við enn fleiri skólar sem glíma við mygluvandamál eða eftirköst vegna myglu. Þetta hefur verið staðfest af sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Nýlega bættust á lista mengaðra skóla Maríuborg, Garðaborg og Hálsaskógur. MSS23010201
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað eru margir upplýsingafulltrúar/sérfræðingar í upplýsingamálum og miðlun hjá Reykjavíkurborg. Hvernig er verkaskipting þeirra á milli og hver eru laun upplýsingafulltrúa á mánuði, samtals? MSS23010202
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um hvaða skólar í Reykjavík hafa ekki óskað eftir eða þegið boð Samtakanna 78 um fræðslu sem Samtökin bjóða öllum skólum upp á. Hvaða skólar eru það sem ekki hafa þegið fræðsluna sem hér um ræðir? Samtökin hafa boðið upp á þessa þjónustu um hríð en ekki fengið boð frá öllum skólum í Reykjavík eftir því sem næst er komist. MSS23010215
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir ítarlegum upplýsingum varðandi kostnað og þann tíma sem eytt var í gerð mælaborðs þjónustu- og nýsköpunarsviðs varðandi uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík. Óskað er upplýsinga um heildarkostnað verkefnisins, hversu margir starfsmenn komu að gerð þess og hversu langan tíma það tók. Einnig vill borgarfulltrúinn fá að vita hver er áætlaður kostnaður vegna nauðsynlegs viðhalds og uppfærslu gagna í mælaborðinu til næstu ára. Í framhaldi vill fulltrúinn fá að vita hvaða rök hafi verið lögð til grundvallar ákvörðunar þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborg að hefja smíði á þessu mælaborði samhliða mælaborði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 10. nóvember sl. var sett í loftið mælaborð um uppbyggingu húsnæðis á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Eins og flestir vita hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á svipuðum tíma sett í loftið mælaborð sem sýnir rauntíma uppbyggingu húsnæðis á landinu öllu, þar á meðal í Reykjavík. MSS23010203
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Spurt er hver sé staðan á þeirri uppbyggingu tæknilegra innviða, þekkingaruppbyggingu, þróun sameiginlegra lausna og kaupum á lausnum, sem borgarráð samþykkti í janúar 2021, sbr. svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs í 7. lið í fundargerð stafræns ráðs frá 11. janúar 2023. Hver er staðan á væntanlegum ábendingarvef sem þjónustu- og nýsköpunarsvið virðist vera að hefja smíði á? Er borgin í samstarfi við önnur sveitarfélög eða ríkið með slíkan vef? MSS22110210
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölda ábendinga vegna Klapp greiðslukerfisins og vandamála með notkun þess. Það má nefna reynslu notenda sem hafa keypt Klappkort og eru til dæmi um notendur sem kaupa 4 kort sem hvert um sig á að duga í 10 ferðir. Kortin hafa verið keypti í Mjódd og nýtt í heimferð með strætó. Til þess að komast úr Mjóddinni heim getur verið nauðsynlegt að skipta um vagn og nota klappkortið aftur í næsta vagn. Í stað þess að greiða far með gömlu strætómiðunum og fá skiptimiða þurfa notendur að „klappa“ fjórum sinnum sömu leið, og þá eru eftir sex ferðir af tíu sem hvert kort býður upp á. Erlendir ferðamenn og trúlega fólk utan af landi getur ekki borgað með peningum og er talið að margir útlendingar geti verið í vandræðum því þeir fá ekki far nema þeir séu með Klapp. Svo er líka óskað upplýsinga um gildistíma kortanna en notendur hafa bent á að hafa fengið athugasemdir um að bílstjórar hafi talið að kortið væri útrunnið stuttu eftir kaup. MSS23010214
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.
Fundi slitið kl. 11:07
Einar Þorsteinsson Alexandra Briem
Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir
Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek
Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 19. janúar 2023 - prentvæn útgáfa