Borgarráð - Fundur nr. 5691

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 12. janúar, var haldinn 5691. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. janúar 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 300 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 7,63%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 185 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.515 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 2,88% í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1 sem eru 2.688 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 11. janúar 2023.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

    -     Kl. 9:09 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Hörður Hilmarsson og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22010057

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. janúar 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og Römpum upp Ísland ses. um styrkveitingu vegna verkefnisins Römpum upp Ísland þar sem byggðir eru rampar um allt landið. Samkomulagið er í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 10. mars 2022 þar sem samþykkt var að styrkja verkefnið um 10 m.kr. á ári í þrjú ár.

    Samþykkt. MSS22020088

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Markmið Römpum upp Ísland er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þeim stöðum þar sem fólk kemur saman og er framhald verkefnisins Römpum upp Reykjavík. Verkefnið hefur skipt sköpum í að bæta aðgengi í borginni og hafa nú yfir hundrað staðir í Reykjavík sem áður voru óaðgengilegir verið gerðir aðgengilegir fyrir notendur hjólastóla og aðra sem búa við hreyfihömlun. Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fagnar því samkomulagi Reykjavíkurborgar og Römpum upp Ísland. Þá vill meirihlutinn hvetja rekstraraðila til þess að huga að aðgengilegri salernisaðstöðu og öðrum aðgengismálum innanhúss þar sem rampar eru aðeins einn þáttur af því að útbúa aðgengilegt húsnæði. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. janúar 2023, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um innleiðingu húsnæðissáttmála eru lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. 
    MSS23010098

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. janúar 2023, þar sem viljayfirlýsing Reykjavíkur og Berjaya Land Berhad er lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. 
    MSS22050019

    Fylgigögn

  5. 5.    Lögð fram tillaga um úthlutun úr Miðborgarsjóði 2022, dags. 10. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Hulda Hallgrímsdóttir og Jón Halldór Jónasson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22060189

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    43 umsóknir bárust í Miðborgarsjóð að þessu sinni, um 54,7 milljónir króna. Hér er samþykkt að styrkja 23 verkefni sem fá úthlutað samtals 21,45 milljónum kr. Meginhlutverk Miðborgarsjóðs er að stuðla að því að miðborgin sé áhugaverður og aðlaðandi dvalar- og áfangastaður með það að markmiði að stuðla að fjölbreytni í miðborginni og eflingu hennar sem íbúðarbyggðar og um leið miðstöðvar verslunar, þjónustu, mannlífs, menningar og stjórnsýslu. Við viljum sérstaklega fagna því að nú hefur verið komið á fót nýju félagi, Miðborgin Reykjavík, sem er vettvangur einstaklinga og fyrirtækja sem starfrækja atvinnurekstur í miðborg Reykjavíkur til að skapa jákvæða upplifun og efla atvinnurekstur, verslun og þjónustu og störf á svæðinu. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan 2021 með greiningu og tillögu að nýju félagi miðborgarinnar. Unnin hefur verið ítarleg greining, m.a. með samanburði við sambærileg félög á Norðurlöndunum sem er mikið fagnaðarefni.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru mjög margir góðir viðburðir sem er mikilvægt að komist á dagskrá. Af þeim 23 verkefnum sem er lagt til að fái styrk, eru fjögur sem fá 1 milljón eða meira. Styrkja á verkefni sem ber heitið Miðborgin Reykjavík um 10 milljónir en það snýr að því að koma á fót félagi sem á m.a. að vera „vettvangur einstaklinga og fyrirtækja sem starfrækja atvinnurekstur í miðborg Reykjavíkur til að skapa jákvæða upplifun og efla atvinnurekstur, verslun og þjónustu og störf á svæðinu.“ Fulltrúi Sósíalista telur sérstakt að verið sé að styrkja félagið Miðborgina Reykjavík um 10 milljónir þegar styrkir til annarra verkefna sem snúa að því að efla miðborgina eru mun lægri. Furðu vekur að miðborgarsvæðinu sé verulega hampað umfram önnur hverfi, enda það hverfi borgarinnar sem er hvað auðugast af menningarstofnunum, stórum viðburðum og fjölda árlegra hátíða. Nær væri að styrkja önnur hverfi svo þau geti haldið viðburði sem næra samfélagið og efla félagsleg tengsl. Einungis 20 milljónir eru til ráðstöfunar úr hverfissjóði borgarinnar fyrir árið 2022 og á það að skiptast á milli hverfa borgarinnar. Úthlutanir nú úr Miðborgarsjóði eru samtals 21.450.000 kr. sem er meira en öll hverfin fá í heild sinni úthlutað úr hverfissjóðnum. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. janúar 2023, þar sem lögð er fram til kynningar lokaskýrsla um vinnumarkaðsaðgerðir Reykjavíkurborgar í kjölfar COVID-19, ásamt fylgiskjölum.

    Svanhildur Jónsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir taka sæti á fundinun undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23010071

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 jókst atvinnuleysi mikið. Til að bregðast við því réðst Reykjavíkurborg í vinnumarkaðsaðgerðir sem hluta af viðspyrnuaðgerðum borgarinnar. Á því tveggja ára tímabili sem verkefnið stóð voru 262 einstaklingar ráðnir í tímabundin störf, 934 fullorðnir voru ráðnir í sumarstörf og 400 einstaklingar sem voru 17 ára. Störfin höfðu jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra sem fengu störf og meirihluti þeirra sem fengu störfin var ánægður í starfi. Reynsla velferðarsviðs er að margir einstaklingar sem fá fjárhagsaðstoð og hafa verið án atvinnu til lengri tíma þurfa aðstoð við að komast aftur í virkni og atvinnu. Þrátt fyrir að þessari vinnumarkaðsaðgerð sé lokið heldur vinna áfram með þann hóp í Virknihúsi þar sem niðurstöður þessa verkefnis munu áfram nýtast. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessari niðurstöðu má sannarlega fagna ef rétt er en samkvæmt stjórnendakönnuninni var ánægja með aðgerðirnar. Eftirfylgni sýndi að mikill meirihluti einstaklinga sem höfðu fengið fjárhagsaðstoð var ánægður í vinnunni. Sérlega áhugavert er að af þeim 262 einstaklingum sem ráðnir voru í tímabundin störf í gegnum vinnumarkaðsaðgerðir Reykjavíkur voru 104 að fá fjárhagsaðstoð til framfærslu. Um 80% þeirra einstaklinga sem voru á fjárhagsaðstoð fyrir úrræðið komu ekki aftur á fjárhagsaðstoð eftir að starfstíma lauk. Það er mikilvægt að framlengja verkefnið því þarna má sjá að margir þeir sem fá fjárhagsaðstoð og hafa verið án atvinnu til lengri tíma þurfa aðstoð og ekki hvað síst hvatningu til að komast aftur í virkni og atvinnu. Þá skiptir máli að viðkomandi fái starf við hæfi og upplifi að vera velkominn á vinnumarkað og finni til vellíðunar og sjálfsöryggis á vinnustaðnum.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. janúar 2023, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lögð er fram til kynningar skýrsla um Þjóðarhöll í Laugardal – frumathugun framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll. Lagt er til að borgarráð samþykki að borgarstjóra verði veitt umboð til að ganga til samninga við ríkið um verkefnið, stofnkostnað og rekstur. Teymi í viðræðum við ríkið verði skipað Halldóru Káradóttur sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, Þórhildi Lilju Ólafsdóttur hjá borgarlögmanni og Ómari Einarssyni fyrrverandi sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs en þau eiga sæti í starfshópi um þjóðarleikvanga fyrir hönd borgarinnar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Ómari Einarssyni, Gunnari Einarssyni og Helga Geirharðssyni sem taka sæti með rafrænum hætti. MSS22080037

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:  

    Það er ákaflega gleðilegt að sjá hversu framkvæmdanefnd um Þjóðarhöll hefur unnið hratt og vel að undirbúningi Þjóðarhallar. Verkefnið er unnið með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi en um leið af miklum metnaði fyrir þá fjölþættu hagsmuni sem í verkefninu felast. Tilkoma Þjóðarhallar mun stórbæta aðstöðu barna og ungmenna í Laugardal þar sem sárlega þarf að bæta úr. Á sama tíma verður Þjóðarhöllin mikil lyftistöng fyrir aðstöðu landsliða og eykur samkeppnishæfni Reykjavíkur á alþjóðavettvangi þegar kemur að ýmiskonar menningarstarfsemi og sýningahaldi. Næsta skref er að ná samningum við ríkið um skiptingu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar og mikilvægt að það gangi hratt og vel. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 2. janúar 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 19. desember 2022 á samstarfs- og styrktarsamningi skóla- og frístundasviðs og RÚV um UNGRÚV, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22120075

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samkomulag skóla- og frístundasviðs við Ríkisútvarpið býður upp á spennandi möguleika fyrir börn í borginni. Þar gefst þeim kostur á að læra bæði um tækni- og dagskrárgerð. Með samningnum eflum við barnamenningu í borginni, eflum fjölmiðlalæsi og gefum börnum tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Samningurinn samræmist innkaupareglum Reykjavíkurborgar en samkvæmt þeim eru samningar um dagskrárgerð undanþegnir hefðbundnu útboðsferli. Eins er fjárhæð samningsins undir viðmiðunarfjárhæð í 8. kafla laga um opinber innkaup.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva eða fjölmiðla til að taka verkefnið að sér. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundasvið að styrkja RÚV ohf. Ekki liggja fyrir skýrar talningar um áhorf á efnið sem framleitt hefur verið hingað til, það er á grundvelli fyrri samnings við RÚV sem nú stendur til að endurnýja.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    RÚV ber að gera ákveðna hluti samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins, þ.m.t. að sinna fræðsluhlutverki og auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn. Við viljum öll að raddir barna og ungmenna heyrist sem víðast enda hafa börn frá mörgu að segja. Við fullorðna fólkið getum svo sannarlega lært margt af þeim. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu á starfssvæði Suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar þar sem samstarfsaðilar lýsa yfir skýrum vilja til að þróa áfram samvinnu sína á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 til að tryggja vernd og umönnun barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Hugmyndin er sú að gera tilraun í einu hverfi og verklagið verði mótað og síðan innleitt í hin hverfin.

    Frestað.

    Óskar Dýrmundur Ólafsson, Rannveig Einarsdóttir og Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23010099

    -    Kl. 11:25 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

  10. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fundargerð borgarráðs, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. nóvember 2022. MSS22100002

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 4. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um verklag vegna barnavagna í Strætó, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september 2022. MSS22090058

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um skiptingu útsvarsgreiðslna eftir póstnúmerum, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080173

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar innri endurskoðunar, dags. 3. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verkefni persónuverndarfulltrúa Reykjavíkur, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. nóvember 2022. MSS22110079

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Staðfest er að starf persónuverndarfulltrúa er einungis ráðgefandi. Þeim hluta fyrirspurnarinnar þar sem óskað er upplýsinga um hvernig málum lyktaði og hvort aðilar séu sáttir með málalyktir (ráðgjöf persónuverndarfulltrúa) og hvort þá ráðgjöfin hafi leitt til lausnar máls eða að málið sé í betri stöðu er ekki svarað. Hlutverk umboðsmanns borgarbúa var meiri alvöru ef hægt er að orða svo. Hann hjálpaði við að semja kærur, andsvör og fleira sem hinn almenni borgarbúi hefur e.t.v. enga sérþekkingu í. Ráðgjöf per se nær skammt ef málið er flókið lögfræði- eða stjórnsýslulega. Þessa aðstoð þarf þjónustuþegi e.t.v. að finna annars staðar og greiða fyrir dýru verði. Hver á að hjálpa borgarbúa sem ekki hefur ráð á lögfræðingi að semja kærur þegar hann telur borgina hafa brotið á sér? Flokkur fólksins endurtekur hér þá skoðun sína að starfið er máttlausara. Mikilvægt er að vita hvernig þeir sem hafa notið þjónustunnar upplifa aðstoðina. Fengu þeir þá hjálp sem þeir þurftu, var málið leyst eða eru margir kannski enn í  sömu sporunum? Hafa skal í huga að borgin er ekki einu sinni bundin af tilmælum ráðgjafar. 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 14. desember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna Klapp greiðslukerfis, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2022. MSS22110212

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um kostnað lykilbúnaðs greiðslukerfis Strætó, skannar Klapp – apps sem notað er í vögnunum og sem nú hefur verið lýst sem ónothæfu og stendur til að skipta út. Hver var heildarkostnaður á þessum búnaði? Í svari kemur fram að Strætó bauð út á EES-svæðinu kaup á greiðslukerfi árið 2019 og var gengið til samninga við FARA AS. Áætlað var að fyrsti áfangi kostaði um 330 m.kr. og hefur verið fjárfest fyrir um 300 m.kr. Segir í svari að Klappið virki mjög vel og yfir 30.000 skannanir séu í kerfinu á dag. Að Klappið virki vel er reyndar ekki reynsla fjölmargra. Óvenjumargar athugasemdir hafa komið eftir að Klappið fór í virkni og byrjunarerfiðleikar voru miklir og eru jafnvel enn. Öll mál hafa ekki verið leyst. Hægt var að nota strætómiða fram eftir árinu 2022. Flokkur fólksins telur að framlengja þurfi þeim möguleika í ljósi þess sem er á undan gengið. Í raun þurfti ekki að leggja miðunum svo skart eins og gert var. Sérstakt er að Strætó hafi ekki haldið utan um þær fjölmörgu kvartanir sem borist hafa eins og segir í svari.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 3. janúar 2023. MSS23010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst það eftirtekarvert sem kemur fram í bókun endurskoðunarnefndar um kynningu á úttekt PwC, innri endurskoðanda SORPU, vegna innri endurskoðunar fyrir árið 2022. Í bókuninni vekur endurskoðunarnefnd sérstaka athygli stjórnar á verulegri athugasemd PwC um að ósamræmi milli stofnsamnings, eigendastefnu og starfsreglna stjórnar skapi verulega óvissu og rekstraráhættu hjá SORPU. Þá kemur einnig fram að meðal tillagna PwC var að endurskoða bréf um samstarf endurskoðunarnefndar og SORPU frá árinu 2015 m.a. til að skilgreina betur upplýsingaflæði og samskipti. Endurskoðunarnefnd er sammála tillögunni og mun senda stjórn SORPU drög að uppfærðu bréfi. Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir þessu og spyr sig hvað gera á í kjölfarið. Ætlar stjórn að taka mark á þessari athugasemd? Og hvað með eigendurna, hafa þeir aðkomu að málinu? Munu kjörnir fulltrúar geta haft eitthvað um þetta að segja, munu minnihlutafulltrúar geta sinnt hlutverki sínu, eftirlits- og aðhaldshlutverki? Það hlýtur að teljast alvarlegt að endurskoðunarnefnd taki svo skýrt og skorinort til orða að „ósamræmi milli stofnsamnings, eigendastefnu og starfsreglna stjórnar“ skapi verulega óvissu og rekstraráhættu hjá SORPU.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 22. desember 2022. MSS22010006

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 5. janúar 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 4. janúar 2023. MSS23010028

    Fylgigögn

  19. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 13. og 19. desember 2022. MSS22010017

    Marta Guðjónsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 13. desember sl:

    Hér er verið að samþykkja heimild til stóraukinnar skuldsetningar Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur með töku skammtímaláns á háum vöxtum. Þetta er þvert á áætlanir Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar sem eru nýsamþykktar. Ámælisvert er að stjórnarmönnum hefur ekki verið gefinn kostur á að sjá þjónustusamning Ljósleiðarans við Sýn, sem allt málið byggist á. Rýnihópur borgarráðs sem skipaður var til að skoða málið hefur ekki lokið störfum. Samt er málið afgreitt á aukafundi. Ekki liggur fyrir hvernig langtímafjármögnun Ljósleiðarans verður háttað vegna fjárútláta í tengslum við kaup á stofnneti Sýnar, fyrirhugaðan viðskiptasamning við Sýn og framkvæmdir á landsbyggðinni sem hann mun hafa í för með sér. Þá er með öllu óljóst hvort heimilt verði að auka hlutafé Ljósleiðarans en sérstakur rýnihópur borgarráðs um það mál hefur ekki lokið störfum. Vegna mjög erfiðrar fjárhagsstöðu borgarinnar er sérstök ástæða til að sýna sérstaka varfærni varðandi frekari skuldsetningu stærsta borgarfyrirtækisins. Það er því í meira lagi hæpið að Orukveita Reykjavíkur breyti skilmálum á lánum sínum í því skyni að rýmka til fyrir frekari skuldsetningu Ljósleiðarans innan OR-samstæðunnar. Ákvörðun um Sýnarsamninginn er óvenjuleg í rekstri Ljósleiðarans enda er með henni gert ráð fyrir því að farið verði í útrás um land allt í stað þess að sinna Suðvesturlandi eins og kveðið er á um í eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Þar sem þessi ákvörðun er mikilsháttar og um margra milljarða kaup og fjárfestingu að ræða utan þjónustusvæðis Orkuveitu Reykjavíkur, ber að leggja hana fyrir borgarráð til samþykktar samkvæmt eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Þá segir í almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum að borgarstjóri skuli leggja mál sem eru óvenjuleg eða mikils háttar fyrir borgarráð til samþykktar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 13. desember sl.:

    Slæm staða Ljósleiðarans hefur verið Orkuveitu Reykjavíkur ljós frá 2019 og jafnvel fyrr en ekki fyrir eigendum sem er Reykjavíkurborg. Stjórn Ljósleiðarans samþykkir að taka lán í flýti áður en að rýnihópur borgarráðs hefur lokið störfum. Í rýnihópnum sitja fulltrúar allra flokka. Fyrir rýnihópnum liggur að að taka ákvörðun um aukna skuldsetningu Ljósleiðarans annars vegar eða að selja hlut í Ljósleiðaranum (40%) til að bæta eiginfjárstöðu hans í stað skuldsetningar. Innihaldi þjónustusamnings Ljósleiðarans við Sýn er haldið leyndum fyrir Borgarstjórn Reykjavíkur og rýnihópi borgarráðs. Leynd og flýtir benda yfirleitt til mikilla persónulegra hagsmuna einhverra. Nú þegar ljóst er að málið er grafalvarlegt og það hulið leyndarhyggju veltir Flokkur fólksins fyrir sér hvort hann vilji setja mark sitt á málið eða eigi erindi í þessum hópi. Flokkur fólksins telur rétt að leggja málið fyrir borgarráð. Það segir í almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum að borgarstjóri skuli leggja mál sem eru óvenjuleg eða mikils háttar fyrir borgarráð til samþykktar.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 9. desember 2022. MSS22010014

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 16. desember 2022. MSS22010019

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar 2023. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar: 

    Tekið er undir tillöguna og er brýnt að fjölga strætóskýlum á Kjalarnesi til að auðvelda samgöngur til Mosfellsbæjar og Reykjavíkur auk þess sem nauðsynlegt er að samræma ferðir leiðar 29 við aðrar leiðir Strætó bs. Gagnrýnt er hvað umsögn kemur seint. Nú er komið nýtt ungmennaráð sem hefur tekið til starfa. Úr umsögn má lesa að áfram á að skrafa um þessi mál en fátt að framkvæma. Flokki fólksins finnst þessi vinna ganga hægt og þ.m.t. hjá Strætó. Flokkur fólksins hvetur Strætó til að spýta í lófana og vinna úr þeim ábendingum sem beinast að leið 29 og almennt séð leita leiða til að bæta almenningssamgöngur á Kjalarnesi.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls fimm mál. MSS23010007

    Fylgigögn

  24. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23010020

    Fylgigögn

  25. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hversu margir bílar eru í eigu og notkun hjá Reykjavíkurborg og hversu margir þeirra eru rafmagnsbílar og eða metanbílar. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir sviðum og B-hlutafyrirtækjum. MSS23010117

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjarfundir verði meginreglan þegar kemur að fundum fjarri vinnustað sem starfsmenn og embættismenn allra sviða Reykjavíkurborgar þurfa að sækja. Hér er sérstaklega átt við fundi erlendis, fundi á landsbyggðinni og einnig aðra fundi innan borgarinnar eftir atvikum. Með þessu fyrirkomulagi er dregið verulega úr útblæstri og kostnaði. Kolefnisspor munu minnka og tími sparast sem ella fer í ferðir. Nú þegar er fordæmi fyrir þessu t.d. hjá ráðuneyti umhverfismála. Flokkur fólksins hefur oft áður verið með tillögur um að draga úr ferðum erlendis ekki síst vegna kostnaðar og með því að gera fjarfundi að meginreglu sparast töluverðir fjármunir sem nú fara í ferðakostnað fyrir embættismenn og kjörna fulltrúa, sérstaklega borgarstjóra og hans föruneyti. Umhverfisráðherra hefur tekið þetta skref nú þegar í sínu ráðuneyti. Borgin á ekki að láta sitt eftir liggja enda tíðrætt um loftgæði. MSS23010119

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig ætlar meirihlutinn að taka á áskorun fjölmargra að hætta við að loka Siglunesi eins og meirihlutinn hefur lagt til? Flokkur fólksins minnir á tal um samráð og að hlusta á fólk. Starfsemi Sigluness er einstök, fyrst og fremst fyrir þær sakir að þar er ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum farveg til að eflast og þroskast á jafningjagrundvelli. Skorað hefur verið á meirihlutann að taka mál Sigluness til skoðunar áður en ákveðið verður að loka 55 ára farsælli starfseminni endanlega. Má þar meðal annars skoða stofnun hollvinasamtaka sem létt gætu róðurinn til að afstýra því slysi sem fylgdi því að leggja starfsemina af fyrir þær þúsundir barna sem Siglunes þjónar. MSS23010123

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um af hverju samskiptaþjónusta Reykjavíkurborgar sé ekki komin lengra en raun ber vitni sbr. kynningu á fundi stafræns ráðs 11. janúar sl. Í því samhengi er bent á skjáskot af spjallsvæði island.is og Akureyrar í kynningu á framlínuþjónustu borgarinnar sem kynnt er sem dæmi um lausn fyrir Reykjavíkurborg. Einnig langar fulltrúann að vita af hverju framlínuþjónusta borgarinnar hefur ekki enn verið efld með þeim hætti að hún taki yfir víðtækari þjónustu innan borgarinnar. Rafræn þjónustumiðstöð velferðarsviðs er að því er virðist ekki hluti af annarri framlínuþjónustu og stendur ein og sér. Einnig eru ýmsir þjónustuþættir enn inn á sviðunum sem tefur alla þjónustu þegar framlínuþjónusta nær ekki til þeirra sem þarf að spyrja hverju sinni og ekki er hægt að nálgast nauðsynlegar upplýsingar fljótt og vel. Að lokum er spurt hvort áætlanir séu um að styrkja framlínuþjónustuna með sameiningu allra þjónustueininga borgarinnar. Sem dæmi að sett verði á laggirnar ein rafræn þjónustumiðstöð innan þjónustuversins svo hægt sé að hafa alla rafræna þjónustu sem og aðra þjónustu á einum stað. MSS23010124

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn vegna kynningar á ábendingavef Reykjavíkur sem fram fór á fundi stafræns ráðs 11. janúar sl. Spurt er hvers vegna svona miklum tíma og fjármunum þjónustu- og nýsköpunarsviðs er varið í alls kyns uppgötvanir, rannsóknir og þróun á lausnum sem fyrir löngu eru komnar í notkun annarsstaðar. Fulltrúinn hefur í langan tíma gagnrýnt þessa einkennilegu nálgun sviðsins og er sú gagnrýni sérstaklega mikilvæg núna þegar litið er til slæmrar stöðu borgarsjóðs. Á þessi nálgun sem í raun byggir á því að uppgötva hið augljósa að halda áfram óbreytt hvað sem það kostar? Í framhaldi af því spyr fulltrúinn hvort ekki hafi verið strax í byrjun athugað hvort til séu tilbúnar ábendingalausnir á vefjum ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hérlendis sem hefði mátt innleiða hratt og örugglega. Notendahegðun Reykvíkinga er varla svo mikið öðruvísi en annarra notenda að tímafrekrar rannsóknarvinnu og greininga sé þörf með þeim hætti sem hér um ræðir. MSS23010125

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

  30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að innleiðing rafrænna byggingarleyfa sé í gangi sbr. kynningu á innleiðingunni á fundi stafræns ráðs 11. janúar sl. Í ljósi þess hversu langan tíma innleiðing rafrænna lausna hjá borginni oft tekur, langar fulltrúann að fá að vita af hverju fjórum vikum var eytt í vigtun pappírs, talningu heimsókna og símtala sem og annarra erinda. Það er löngu vitað að notkun pappírs eykur kolefnisspor og því varla þörf á frekari rannsóknum á því sviði við innleiðingu rafræns kerfis. Fulltrúinn vill einnig fá að vita af hverju tölur um fjölda símtala, heimsókna og rafrænna erinda hafi ekki legið fyrir í þjónustuverinu og þess vegna hafi þurft að eyða tíma og fjármunum í mælingar á því sem yfirleitt liggur ljóst fyrir í þjónustuverum annarsstaðar. MSS23010126

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar um að loka verður hugsanlega húsnæði Draumasetursins að Stórhöfða 15 og er það að kröfu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðis. Fram kemur í upplýsingum frá Draumasetrinu að rekstraraðilar hafi reynt eftir fremsta megni að uppfylla kröfur og nú með kaupum á 32 stk. brunavarnarhurðum, teikningum ásamt uppsetningu vatnsúðakerfis sem kostar fleiri milljónir. Settur hefur verið hringstigi utan á húsið sem flóttaleið, flóttaop upp á þak og ýmislegt fleira. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um þetta mál og hvað það er sem hindrar. Flokkur fólksins hefur upplýsingar um að frestur hafi verið gefinn til mánaðamóta. Draumasetrið hefur verið að uppfylla reglugerðir að sögn og hefur sótt um aðstoð við að ljúka þeirri vinnu. Það er áhyggjuefni þegar þetta mál er skoðað að nú stendur einmitt til að leggja af styrki til áfangaheimila sem byggir á reglugerð frá 16. desember 2008. Draumasetrið gegnir mikilvægu hlutverki. Hjá Draumasetrinu eru að baki 200 þúsund gistinætur Reykvíkinga. MSS23010137

Fundi slitið kl. 11:47

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Marta Guðjónsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs frá 12. janúar 2023 - prentvæn útgáfa