Borgarráð
Ár 2023, fimmtudaginn 5. janúar, var haldinn 5690. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. janúar 2023, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2022 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 vegna lóðanna nr. 12B og 16 við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum.
Synjun umhverfis- og skipulagsráðs er staðfest.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220565
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að fylgja eftir áframhaldandi hönnun og framkvæmd vegna vinningstillögu um endurhönnun og stækkun á Grófarhúsi, þ. á m. að ganga frá samkomulagi við þá aðila sem voru hlutskarpastir í samkeppni sem lauk í nóvember sl. Tillagan Vitavegur varð hlutskörpust en tillagan er hönnuð af hollensku arkitektastofunni JVST í samstarfi við Inside Outside, Hanrath Architect, Kreatíva teiknistofu, VSÓ Ráðgjöf og Örugg verkfræðistofu.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22120085
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarbókasafn í Grófinni er stærsta og mest sótta bókasafn Reykjavíkur. Tillagan að endurnýjun á safninu gerir ráð fyrir því að það verði spennandi og lifandi menningar- og samfélagshús, þar sem áhersla er lögð á að ólíkir hópar hafi jafnt aðgengi að rýmum þess, upplifun og upplýsingum, óháð samfélagsstöðu, efnahag, kyni, heilsu eða þjóðerni. Mikilvægi þess að borgin styðji við slík rými er ótvírætt. Í fjárfestingaráætlun 2023 og 2024 er gert ráð fyrir að undirbúningur haldi áfram og að hönnunarvinna hefjist. Gert er ráð fyrir um 50 milljónum í verkefnið 2023 og 200 milljónum 2024. Í hönnunarvinnu og undirbúningi er mikilvægt að horfa til þess að ekki er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður aukist við endurnýjunina og mikilvægt að finna lausnir og skipuleggja undirbúningsvinnu þannig að rekstrarkostnaður á núvirði í fullbúnu Grófarhúsi aukist ekki.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þó vinningstillagan sé sannarlega glæsileg ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks þá afstöðu sína að endurskoða eigi framkvæmdina við Grófarhús. Áætlanir frá síðasta kjörtímabili gera ráð fyrir að framkvæmdin kosti á fjórða milljarð næstu fimm árin, og á sjötta milljarð þegar framkvæmdum er lokið. Nú þegar útkomuspá gerir ráð fyrir rekstrarhalla borgarsjóðs sem nemur 15,3 milljörðum fyrir árið 2022 þarf að draga saman seglin og leggja megináherslu á grunnþjónustu við borgarana, hagræðingu í rekstri og niðurgreiðslu skulda.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta eru skemmtilegar tillögur að mati fulltrúa Flokks fólksins og verkefnið í heild sinni áhugavert og spennandi. Fyrsta tillagan lofar mjög góðu. En nú vita allir hvernig fjármálastaða borgarinnar er. Hún er á heljarþröm og er þá ekki ofsögum sagt. Það hefur komið fram tillaga um frestun fjárfestingar í Grófarhúsi, að frestað verði áformaðri 3.050 milljóna króna fjárfestingu í Grófarhúsi til næstu fimm ára og að handbært fé verði hækkað sem því nemur næstu árin. Tillaga var felld í borgarstjórn 6. desember 2022. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki sé hægt að líta framhjá því að það er sennilega ekki raunhæft að fara í þetta stóra verkefni nú. Það skýtur einnig nokkuð skökku við að á sama tíma og samþykkt er að hefja kostnaðarsama framkvæmd á Grófarhúsi þá hefur meirihlutinn lagt til að leggja niður starfsemi Vinjar og unglingasmiðjanna Traðar og Stígs. Flokkur fólksins hefur lagt til að þessar ákvarðanir verði endurskoðaðar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. janúar 2023, þar sem skýrsla um lýðheilsumat á fyrstu lotu Borgarlínu innan Reykjavíkur er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.
Harpa Þorsteinsdóttir og Hugrún Snorradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100203
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Varla þarf að efast um að Borgarlínan hafi góð áhrif á marga þætti. En þetta er kostnaðarsöm framkvæmd og kannski eru til aðrir valkostir. Sífelld þróun er í þessu sem öðru og borgarlínuhugmyndin er komin til ára sinna. Það hljómar ekki vel ef réttlæta þarf Borgarlínuna með einhverjum loforðum um að heilsa borgarbúa batni og einhverjir hópar fái fríar ferðir. Tímasetning á þessu lýðheilsumati er auk þess nokkuð sérkennileg í ljósi þess að langt er þangað til að Borgarlína kemur. Ekki er vitað hvenær fyrstu vagnar fara af stað. Markmiðið með þessu mati er sennilega að reyna að laga viðhorfin, stuðla að því að fólk fái jákvæðara viðhorf til Borgarlínunnar en margir hafa litla trú á verkefninu. Hvernig mun Borgarlína virka fyrir fatlað fólk, fólk sem notar hjólastóla? Verður einhver við vagnana til að aðstoða þá sem eiga erfitt með hreyfingu að fara út og inn í vagnana? Eins þarf að huga að rými fyrir bíla við borgarlínustöðvarnar þar sem þeir sem vilja taka sér far með Borgarlínunni en búa fjarri henni, þeir þurfa að geta komið að Borgarlínunni akandi og geymt bílinn á stöðinni þar til komið er til baka. Á stöðvunum mun kannski þurfa að reisa bílastæðahús eða bílastæðakjallara.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. janúar 2023, þar sem viðbragðsáætlun neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.
Dagný Ingadóttir, Birgir Finnsson og Þóra K. Ásgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22120022
Fylgigögn
-
Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga að úthlutun úr Miðborgarsjóði 2022 dags. 22. desember 2022.
Frestað. MSS22060189 -
Lagður fram úrskurður Landsréttar í máli nr. 550/2021. MSS22080146
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. janúar 2023, varðandi uppfært fundadagatal borgarráðs fyrir árið 2023, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt. MSS22060038Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar, innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík á tímabilinu 2023-2032 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Haraldur Sigurðsson, Sonja Wiium og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23010034
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fagnar því stórátaki í húsnæðismálum sem felst í samkomulagi Reykjavíkurborgar, innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aukið framboð íbúðarhúsnæðis 2023-2032 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis. Samkomulagið undirstrikar að Reykjavík ætlar sér að vera leiðandi í húsnæðisuppbyggingu á Íslandi og felur í sér metnaðarfyllstu áform um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sögu Reykjavíkur. Samkomulagið felur í sér að hafist verði handa við að byggja 2000 íbúðir á ári á næstu fimm árum en að á hverjum tíma séu til reiðu byggingarhæfar lóðir fyrir allt að 1500-3000 íbúðir. Á tíu árum er markmiðið að byggja 16 þúsund íbúðir en þó alltaf í samhengi við þörf á húsnæðismarkaði. Markmið samkomulagsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri þörf ólíkra hópa samfélagsins á næstu tíu árum, auka fyrirsjáanleika á húsnæðismarkaði, skapa betri grundvöll fyrir ákvarðanatöku og að draga úr sveiflum á byggingarmarkaði. Samkomulagið styður einnig við uppbyggingu vistvænna samgönguinnviða, vistvæna mannvirkjagerð og tekur mið af loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar og ríkisins. Þá felur samkomulagið í sér að ráðist verði í endurbætur á húsnæðisbótakerfinu, átak verði gert vegna óviðundandi húsnæðis, regluverk í skipulags- og byggingarmálum verði einfaldað og að uppbyggingarheimildir í deiliskipulagi verði tímabundnar.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Eina leiðin til að leysa húsnæðiskreppuna sem hefur ríkt, er að byggja á félagslegum forsendum. Það er engin lausn fólgin í því að halda áfram á sömu braut þar sem engin tilraun er gerð til þess að fjarlæga hagnaðarsjónarmið frá húsnæðisuppbyggingu. Við eigum öll rétt á heimili og áætlanir hins opinbera þurfa allar að miða að því að byggja út frá þörfum og væntingum almennings, þar sem braskvæðing er fjarlægð frá húsnæðisuppbyggingu. Hér er enga breytingu að finna í grundvallarsjónarmiðum húsnæðisuppbyggingar, skilgreina á ákveðið hlutfall í óhagnaðardrifið húsnæði, í stað þess að litið sé á húsnæði sem félagslegan rétt sem á að vera varinn frá hagnaðarkröfu fjársterkra aðila og gróðafyrirtækja.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur að 5% íbúðanna verði félagslegar íbúðir. Mikil vöntun er á félagslegu húsnæði. Á biðlista eru mörg hundruð manns. Skoða mætti fleiri leiðir en að Félagsbústaðir bæti sífellt við sig. Vissulega geta íbúðir verið beint í eigu sveitarfélaga. Útrýma þarf að fullu herbergjasambýlum og biðlistum um sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Samkomulagið leggur litlar skyldur á ríkið fyrr en ákveðin verður kostnaðarskiptingin milli ríkis og Reykjavíkur vegna sértæks húsnæðis fyrir fatlað fólk. Samkomulagið gerir þó ráð fyrir þátttöku ríkisins í auknum mæli og að fara eigi í úttekt til að ákveða rétta skiptingu kostnaðar milli ríkis og borgar. Í 4. grein kemur fram að leitast á við að tryggja nægilegt framboð byggingarsvæða þannig að byggingarhæf svæði og lóðir ár hvert rúmi 1.500-3.000 íbúðir. Nú er búið að meta að 70 lóðir eru byggingarhæfar í Reykjavík. Þarf ekki að fara að skoða hvort brjóta eigi nýtt land undir byggð? Setja þarf einnig kvaðir á lóðakaupendur um að byggja á lóðinni innan ákveðins tímaramma. Áformin um byggingu 16.000 íbúða á næstu 10 árum þarf að endurskoða reglulega. Vel má vera að þörfin sé meiri og því þurfi að byggja mun fleiri íbúðir en samkomulagið kveður á um.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. janúar 2023, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viðaukasamningi milli mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um viðbyggingu fyrir verknámsaðstöðu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem samþykkt er stækkun á fyrirhuguðu verknámshúsi með áætluðum viðbótarkostnaði. Fyrirhuguð stækkun á viðbyggingu og framangreindur viðbótarkostnaður vegna hennar var samþykktur í borgarráði þann 21. júlí 2022.
Samþykkt. MSS22120127
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. janúar 2023, þar sem drög að erindisbréfi um framtíðarlausn á uppbyggingu og staðsetningu fyrir skotíþróttir eru sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS23010043
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggur áherslu á að fundin verði framtíðarstaðsetning fyrir íþróttamiðstöð skotíþrótta. Hlutverk starfshópsins er að leggja fram tillögur að nýrri staðsetningu sem hentar slíkri starfsemi, í samráði við sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu í gegnum Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, íþróttahreyfinguna, skotfélögin og íslenska ríkið. Mannvirki íþróttamiðstöðvar skotíþrótta yrðu reist utan alfaraleiða og fjarri byggð og nýtast öllum skotíþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Mikilvægt er að sátt náist um málið og að staðinn verði vörður um þetta mikilvæga íþróttastarf.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er fram erindisbréf starfshóps um framtíðarlausn á uppbyggingu og staðsetningu fyrir skotíþróttir. Það er mat margra að þetta sé íþrótt sem á ekki heima í Reykjavík, enda þótt félagið sé talið elst íþróttafélaga í bænum. Fram kemur að „starfshópurinn leiti ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á“. Ef kalla á til sérfræðinga þarf að vanda val þeirra vel, þannig að þeir gangi ekki aðeins erinda áhugamanna um skotveiði. Erfitt getur reynst að finna svæði í Reykjavík þar sem ekkert mannlíf er í nágrenninu og þar sem blýmengun veldur ekki skaða og/eða þar sem skotæfingar skaða ekki náttúru. Ef utandyra þarf það svæði að vera einangrað eða afskekkt og sem ekki er metið mikils virði út frá náttúru. Flokkur fólksins vonar að á þessu máli finnist lausn sem flestir geti verið sáttir við.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2022, sem var samþykkt á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2022, og færð í trúnaðarbók:
Lagt er til að Reykjavíkurborg gefi öllu starfsfólki sínu inneignarkort í formi gjafakorta frá Landsbankanum að verðmæti 10.000 kr. í jólagjöf árið 2022. Heildarkostnaður við jólagjöfina er 121.200.000 kr. og færist af liðnum 09126 Launa- og starfsmannakostnaður.
Greinargerð fylgdi tillögunni. MSS21120187
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. janúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki uppfærðar reglur um fjárstýringu Reykjavíkurborgar og uppfærða viðauka við viðkomandi reglur, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS21120135
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í uppfærðum reglum um fjárstýringu er mest orðalagsbreytingar til að gera texta skýrari án þess að breyta merkingu. Það vekur athygli fulltrúa Flokks fólksins að í viðauka 1 er heimildarákvæði og er heimild til skammtímalántöku hækkuð úr 14.000 m.kr. í 16.000 m.kr. Einnig er breyting í kaflanum Markmið í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 tengd greiðsluhæfi A-hluta. Markmið ávöxtunar á handbæru fé á árinu 2023 er uppfært í 753,5 m.kr. í stað 255 m.kr. sem var markmið ársins 2022. Þetta sýnir áþreifanlega hversu illa er komið í fjármálum borgarinnar. Vart líður sá fundur að borgarfulltrúar fái ekki mál sem tengjast aukinni lántöku borgarinnar til að standa straum af skuldum sem ekki er til króna til að greiða af.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. janúar 2023, varðandi áætlun um útgáfu skuldabréfa fyrir tímabilið janúar-júní 2023.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22120008
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 21.000 m.kr. Gert er ráð fyrir að lántakan verði framkvæmd með stækkun á virkum skuldabréfaflokkum borgarsjóðs eða með öðrum hætti sem álitinn er hagkvæmur út frá markaðsaðstæðum. Það er ekki grín hvernig komið er í fjármálum borgarinnar. Flokkur fólksins bókaði við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2023-2027 eftirfarandi: Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er kolsvört. Árshlutauppgjörið sýnir verri stöðu en von var á. Það er ekkert eftir upp í fjárfestingar og afborganir lána. Veltufé frá rekstri í A-hluta er rúmar 800 milljónir af 111 milljarða tekjum eða 0,8%. Það þyrfti að vera 10 sinnum hærra til að vera ásættanlegt. Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hærri en handbært lausafé, sem er ávísun á aukningu dráttarvaxta. Á tímabilinu 2021-2023 er aukning langtímaskulda um einn milljarður króna á mánuði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hætta að prenta út og senda greiðsluseðla til fyrirtækja og einstaklinga sem eru 79 ára og yngri, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt að hætta að prenta út greiðsluseðla til fyrirtækja og einstaklinga sem eru 79 ára og yngri frá og með 1. mars 2023. FAS22080009Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Rafræn miðlun greiðsluseðla er ágætis sparnaðaraðgerð. Fulltrúi Flokks fólksins hefur velt því fyrir sér af hverju aldurinn 79 ára var valinn en það er sennilega ekki aðalmálið hér. Gott er að vita að einstaklingar geti ávallt óskað eftir því að fá senda greiðsluseðla á pappírsformi og tryggt verði að einstaklingar sem hafa óskað eftir því haldi áfram að fá greiðsluseðla.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt til að hætt verði að prenta út og senda greiðsluseðla til fyrirtækja og einstaklinga sem eru eldri en 18 ára og yngri en 79 ára og tekið er fram að þessir greiðsluseðlar séu allir birtir í rafrænum skjölum í netbönkum. Mikilvægt er að kynna þessa breytingu vel fyrir íbúum, þannig að hún fari ekki fram hjá neinum. Tryggja þarf að kynning eigi sér stað með fjölbreyttum leiðum, ekki einungis rafrænt, þar sem ekki öll í borginni hafa aðgang að slíkum boðleiðum. Mikilvægt er að tryggja að það sé skýrt hvert sé hægt að leita til að fá greiðsluseðla senda á pappír, óski viðkomandi eftir því.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. janúar 2023, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að taka tilboði Íslandsbanka í langtíma lánalínu til 10 ára að fjárhæð allt að 6.000 m.kr. Fjármagnið verður nýtt til fjármögnunar á fjárfestingaráætlun borgarinnar vegna ársins 2023. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 2. desember 2022.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22120011Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Verið er að afgreiða lánalínu hjá Íslandsbanka sem sýnir enn frekar hvað borgarsjóður stendur illa. Flokkur fólksins veltir því upp hvort ekki hafi ríkt of mikil bjartsýni hjá meirihlutanum og fjármálastjórnendum borgarinnar að telja að fjármálin muni færast hratt til betri vegar á þessu og næsta ári. Það sem blasir við er að þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega næstu tvö árin. Það liggur ekki fyrir hvað stóð að baki þessari björtu framtíðarsýn sem meirihlutinn lýsti fyrir borgarstjórn við fyrri og seinni umræðu um fjárhagsáætlun. Á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Þessum spurningum er enn ósvarað. Langtímaskuldir vaxa ár frá ári á sama tíma og lítið sem ekkert stendur eftir af rekstri A-hluta borgarsjóðs til greiðslu afborgana og til fjárfestinga. Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar eru forsendur fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 28. nóvember 2022, sbr. samþykkt stjórnar lífeyrissjóðsins frá 28. nóvember 2022 á tillögu um að endurgreiðsluhlutfall launagreiðenda á greiddum lífeyri í Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 verði óbreytt frá fyrra ári, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs , dags. 2. janúar 2023.
Vísað til borgarstjórnar. MSS22040113Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. janúar 2023, sbr. samþykkt forsætisnefndar frá 16. desember 2022 á bréfi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins, þar sem óskað er eftir að borgarráð staðfesti umboð til borgarstjóra til að undirrita samning um stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22090093Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur að miðað við forsendur sem lagðar eru fram í skýrslunni, þ.e. að starfsemi Áfangastaðastofu verði byggð upp á árinu 2023 og að fullri starfsemi verði komið á á árinu 2024, er gert ráð fyrir að heildarkostnaður sem skiptist milli sveitarfélaganna á árinu 2023 nemi 39.590.000 kr., og er þar miðað við tiltekið hlutfall, eða 37%, af kostnaði við fulla starfsemi samkvæmt fyrirliggjandi rekstrargreiningu KPMG. Hlutur Reykjavíkur er 56,33%, 22.301.047. Nú liggur fyrir að fjárhagur borgarinnar er kominn á heljarþröm og ekki króna eftir til að greiða af lánum. Þá veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvernig á að fjármagna þetta, hvaðan eiga þessir peningar að koma? Vissulega er hægt að lækka rekstrarkostnað, finna þarf leiðir til þess. Jákvætt er þó að sjá í gögnum að skipa á í stjórn eftir stærð sveitarfélaganna.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. desember 2022, við fyrirspurn borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tillögu vegna útsvars á fjármagnstekjur, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júní 2022. MSS22060186
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Nauðsynlegt er að efla tekjustofna sveitarfélaganna og eðlilegt er að fjármagnseigendur greiði útsvar af sínum tekjum líkt og launafólk. Hér er rétt að taka fram að um er að ræða mikilvægi þess að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur og að slíkt renni til sveitarfélaganna, en ekki að sveitarfélög fái hlutdeild í fjármagnstekjusköttum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. desember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á ofbeldisvarnarnefnd, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022. MSS22060090
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins óskaði skýringa og raka fyrir því hvers vegna ofbeldisvarnarnefnd var lögð niður og sett undir mannréttindaráð. Í svörum kemur fram að gera eigi málaflokki ofbeldisvarna enn hærra undir höfði með því að gera ofbeldisvarnarnefnd hluta að sameinuðu fagráði. Jafnframt segir í svörum að ráðið eigi að funda um ofbeldisvarnarmál eigi sjaldnar en mánaðarlega og á þá fundi skuli boða áheyrnarfulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Samtaka um kvennaathvarf og landlæknis. Flokkur fólksins er sammála því að gera þurfi ofbeldisvörnum hátt undir höfði. Á þeim fjórum mánuðum sem ráðið hefur starfað hafa því miður eingöngu verið tveir fundir með áheyrnarfulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Samtaka um kvennaathvarf og landlæknis. Það má hins vegar geta þess að ráðið hélt opinn fund 12. desember í Iðnó með yfirskriftinni Örugg borg-Betra samfélag. Fundurinn var tileinkaður ofbeldisvörnum og vonandi er það til marks um að þessi málefni fái meira vægi hjá ráðinu í framtíðinni. Flokkur fólksins hefur verið með nokkur mál sem lúta að ofbeldi bæði í formi tillögu og umræðu nú síðast í borgarstjórn 3. janúar 2023. Lítil umræða skapaðist og þótti borgarfulltrúa Flokks fólksins það miður að sjá slíkt áhugaleysi af hálfu meirihlutans.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um einkavæðingu Strætó, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. nóvember 2022. MSS22110080
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um hvort Reykjavík hefði í hyggju að styðja einkavæðingu á Strætó. Fulltrúi Flokks fólksins fær ekki séð að fyrirspurninni sé svarað. Ferill að ákvarðanatöku er útskýrður en það var ekki það sem beinlínis var spurt um. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af áformum um að útvista leiðum Strætó bs. til einkaaðila. Ef horft er til reynslu þá er hætta á því að laun verði lækkuð og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Einnig hefur reynslan sýnt í alltof mörgum tilfellum að þjónustan verði dýrari en ekki betri fyrir vikið. Útséð yrði ef reksturinn verður boðinn út með að borgin hafi þann kost að ákveða að hafa frítt í strætó eins og talað hefur verið um að skoða. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Flokkur fólksins hvetur sveitarfélögin sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að veita nægilegu fé til rekstursins.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sósíalista mótmæla öllum áformum um frekari útvistun á akstri strætó. Vagnstjórar sem starfa hjá Strætó bs. sem og Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, hafa harðlega gagnrýnt fyrirætlanir um frekari útvistun. Vagnstjórar óttast að missa störf sín eða verða fyrir tekjumissi verði farið í útboð á leiðum. Hér er rétt að taka fram að útvistun leiðir til lakari kjara og ef útvistun á öllum leiðum nær fram að ganga er verið að einkavæða kerfið að innnan. Það sem er kallað lægri rekstrarkostnaður er ávallt tekið út með einhverjum leiðum, líkt og lakari kjörum til vagnstjóra. Í núverandi kerfi fá vagnstjórar ekki sömu kjör fyrir sömu störf. Auk þess má ætla að kostnaður útvistunar aukist með tímanum vegna eftirlits með verktökum og sífelldum uppfærslum á smáa letrinu í samningum. Aðkoma milliliða flækir þar að auki boðleiðir sem eru til staðar til að gera umbætur á þjónustunni.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar SORPU bs. frá 16. desember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hlunnindabifreiðar og launakjör framkvæmdastjóra SORPU, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2022. MSS22110213
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði um hlunnindabifreiðar hjá SORPU og hverjir fá aðgang að slíkum bifreiðum. Einnig var spurt um launakjör framkvæmdastjóra og af hverju þau væru trúnaðarmál. Hlunnindabifreiðar eru sjö. Af svari að dæma er mikið um akstur vegna starfsins sem fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki forsendur til að meta hvort sé nauðsynlegur. Ein bifreið er skráð sem hlunnindabifreið á rekstrarstjóra Góða hirðisins og ein bifreið er skráð á rekstrarstjóra urðunarstaða. Launakjör framkvæmdastjóra eru ekki leynileg segir í svari en voru það um tíma þar til búið var að ganga frá ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra. Laun framkvæmdastjóra eru 1.950.000 á mánuði frá og með 1. maí 2022 að telja. „Jafnframt skal framkvæmdastjóra lagður til hæfilegur bíll sem gagnast honum við framkvæmd starfa á starfssvæði SORPU bs. til fullra afnota“. Fulltrúa Flokks fólksins ofbjóða þessi háu laun framkvæmdastjóra og annarra forstjóra B-hluta fyrirtækja eins og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Hér er um að ræða dótturfyrirtæki borgarinnar í meirihlutaeigu hennar sem borgarfulltrúar hafa í raun ekkert að segja um að heitið geti. Laun æðstu yfirmanna B-hluta fyrirtækja eru út úr öllu korti.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Nauðsynlegt er að setja á launastefnu fyrir borgina sem og fyrirtæki í eigu borgarinnar og tryggja þannig að hæstu laun séu ekki upp úr öllu valdi miðað við lægstu laun. Hér eru laun forstjóra í byggðasamlagi 1.950.000 á mánuði á meðan lægstu laun sem eru greidd innan sveitarfélaga eru mun, mun lægri.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um spretthóp vegna hávaða í miðbænum, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst 2022. MSS22080058
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi fyrirspurn var lögð fram af fulltrúa Flokks fólksins áður en honum var aftur boðið að sitja fundi með spretthópnum. Fulltrúi Flokks fólksins hafði setið tvo fundi með hópnum síðastliðið sumar og óskaði eftir að fá að taka þátt í framhaldsvinnu með hópnum. Við því var orðið síðar á árinu. Fulltrúi Flokks fólksins veit því hvernig gekk hjá hópnum og hvar vinnan var stödd þegar síðasti fundur var haldinn. Reyndar er orðið nokkuð langt síðan og telur fulltrúi Flokks fólksins að kominn sé tími á annan fund. Reglulega berast okkur í hópnum skeyti frá íbúum sem kvarta sárlega vegna hávaða og skrílsláta í tengslum við þá staði sem opnir eru langt fram á nótt. Hávaðinn vegna tónlistar sem hækkuð er í botn er þar mest lýjandi og mörg þessara húsa sem hýsa staðina eru illa einangruð. Heilbrigðiseftirlitið hefur sett upp hljóðmæli á a.m.k. einum stað en lítið hefur farið fyrir upplýsingum um hvað Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er meira að gera í þessum málum. Því væri gott að fara að koma saman að nýju og fara yfir stöðuna. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgarritara til að kalla saman spretthópinn.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kynningu á innheimtuaðferðum B-hluta fyrirtækja, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst 2022, ásamt ítrekun borgarráðsfulltrúans, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. desember 2022.
Frestað. MSS22080174Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um endurskoðun málstefnu Reykjavíkur, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. desember 2022.
Samþykkt. MSS22120080Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 15. desember 2022. MSS22010025
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 12. og 19. desember 2022. MSS22010020
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 15. desember 2022. MSS22010006
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:
Lagður er fram til kynningar úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 5. desember 2022 í máli nr. 13/2022. Flokkur fólksins tekur undir bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks þar sem segir að kröfur sem settar voru fram í útboðsgögnunum voru óskýrar. Flokkur fólksins hefur áður bókað um mikla aukningu í útboðsmistökum borgarinnar og það þótt lögfræðingar sviðanna komi að þeim og síðan heilt ráð, innkaupa- og framkvæmdaráð. Engu að síður hefur útboðsmistökum fjölgað svo um munar með tilheyrandi kostnaði sem kemur auðvitað beint úr vasa borgarbúa.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 13. desember 2022. MSS22010026
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7. desember 2022. MSS22010027
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst ánægjulegt að sjá og heyra af hinu góða samstarfi foreldrafélaga í skólum í Breiðholti. Tekið er undir bókun ráðsins þar sem segir: „vart verður metið til fjár hversu mikilvægt samfélagslegt framlag er af starfsemi foreldrafélaga en sem dæmi sýna rannsóknir að þátttaka og sýnileiki foreldra skiptir miklu máli þegar kemur að forvörnum barna í skóla- og tómstundastarfi“. Samvinna og samstarf er ómetanlegt, ekki síst þegar erfið og krefjandi mál koma upp og einnig til að finna leiðir til að auka þátttöku barnanna í fjölbreyttu starfi skólasamfélagsins sem og fjölmargt annað er varðar nemendur.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 14. desember 2022. MSS22010028
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðarinnar:
Liðir 3 og 4 snúa að umferðaröryggi í hverfinu. Því er beint til samgöngustjóra að leggja mat á hvort tilefni sé til að bæta úr aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda á veginum frá Úlfarsbraut við íþróttahús og að Reynisvatnsási og spurt er um merkingar á gatnamótum Urðarbrunns og Úlfarsbrautar. Umferðaröryggi hefur lengi verið ábótavant í Úlfarsárdal. Nefna má gatnamótin inn í hverfið Úlfarsárdal, Lambhagavegur-Mímisbrunnur. Þarna hafa orðið mjög mörg slæm slys. Hraðakstur er stundaður eftir Lambhagaveginum í báðar áttir, ef ekki er ætlunin að beygja inn í hverfið upp Mímisbrunn. Bílar sem koma upp brekkuna að Bauhaus sjást mjög seint. Eins er það hringtorgið sem flytur alla umferð inn í Úlfarsárdal og Leirtjörn. Þarna vantar allar gangbrautarmerkingar (sebrabraut) og lýsingu. Þarna er mikið hjólað og gengið yfir. Fleiri öryggisþætti mætti nefna hér, t.d. gatnamót Úlfarsbrautar og Freyjubrunns. Þegar keyrt er í norðurátt upp Úlfarsbraut er grindverk um lóð húss í Lofnarbrunni sem skyggir á umferð gangandi sem koma niður Freyjubrunn. Þarna er brekka niður í móti og það koma oft krakkar á mikilli ferð og yfir gangbrautina sem tekur við. Hætta er á að þarna geti orðið slys.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaðahverfis frá 14. desember 2022. MSS22010030
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 8. desember 2022. MSS22010031
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðarinnar:
Liður 3: Lögð eru fram drög að umsögn íbúaráðs Kjalarness dags. 7. desember 2022 um tillögu að starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi. Nú hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotvallar á Álfsnesi. Starfsemin hefur því verið stöðvuð. Þessi niðurstaða hefur án efa komið mörgum á óvart. Liður 4: Íbúaráðið bókar að farið verði í að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að færa tré norðan Fólkvangs og ef svo er hvort hægt sé að verða við ósk um staðsetningu þeirra eða hvort önnur staðsetning sé heppilegri. Það er alla vega vitað að það er hægt að flytja tré, þótt stór séu, ef gröfur með stórri skóflu eru notaðar og góður rótarhnaus tekinn. Ekkert er því til fyrirstöðu að flytja stór tré til, hvað þá lítil.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 12. desember 2022. MSS22010032
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Málefni Sóltúns 2-4 var og er erfitt og umdeilt mál og hefur Flokkur fólksins margítrekað að meirihlutinn og skipulagsyfirvöld skuli hafa betra samráð við íbúa og íbúaráð í málum þar sem umtalsverð óánægja er með ákvarðanir skipulagsyfirvalda. Tekið er undir bókun íbúaráðs Laugardals sem lýsir yfir vonbrigðum yfir viðbrögðum umhverfis- og skipulagssviðs vegna beiðni ráðsins um samráð við íbúa vegna deiliskipulagsbreytinga við Sóltún 2-4, sem kynntar voru í maí 2022. Fólki þykir stærð húss og fjöldi íbúða að Sóltúni 4 samkvæmt þessu breytta skipulagi of mikið og hefur áhyggjur af að breytingunni fylgi aukin bílaumferð. Óttast er um hvort Sóltún anni þessari miklu umferð. Í hverfinu er eins og gengur skóli sem vissulega er ekki skilgreindur sem hverfisskóli, enda ekki rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin þarf engu að síður að tryggja öryggi í nágrenni skólans með gönguljósum, gangbrautum, gangstéttum og góðri götulýsingu. Auðvitað ætti borgin að reka skóla í hverfinu enda íbúafjöldi kominn vel yfir 2000 og með fyrirhugaðri uppbyggingu í Hátúni mun íbúum fjölga nokkuð. Sá skóli sem skilgreindur er sem hverfisskóli er í um 1200-1400 metra fjarlægð frá miðju hverfisins og Sólstafir, sem er einkaskóli, er því notaður af sumum íbúum þess.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 15. desember 2022. MSS22010033
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Fram fer umræða um málefni Sigluness. Flokkur fólksins hefur skorað á meirihlutann að standa vörð um starfsemina og koma í veg fyrir að Siglunesi verði lokað. Flokkur fólksins hélt að það ætti að hlífa börnum og þjónustu við viðkvæma hópa. Mikil andstaða er við þessar tillögur meirihlutans. Undirskriftalistar liggja fyrir um Siglunesið. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur í sinni bókun einnig áherslu á að sú mikilvæga starfsemi fyrir börn og unglinga sem fram fer hjá Siglunesi í Nauthólsvík leggist ekki af.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 19. desember 2022. MSS22010034
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins tekur undir bókun íbúaráðsins. Íbúaráð Vesturbæjar skorar á Reykjavíkurborg að taka frumkvæði og skoða möguleikann á öðrum valkostum í stað flugeldasýninga á stórum viðburðum sem borgin kemur að, eins og hverfishátíðum og Menningarnótt. Til dæmis með því að nota leysigeisla (e. laser) eða dróna með ljósum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað rætt loftgæði á síðasta kjörtímabili og lagði m.a. til að borgarráð samþykkti að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hafi neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 14. desember 2022. MSS22010018
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 14. október og 28. nóvember 2022. MSS22010014
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 25. nóvember 2022. MSS22010015
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 14. desember 2022. MSS22010024
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS23010007
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23010020
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um það hvort greiddar hafi verið húsaleigubætur, húsaleigustyrkir eða viðhaldsstyrkir til sjálfstætt starfandi grunnskóla eða leikskóla í Reykjavík síðastliðin 10 ár. Óskað er eftir sundurliðun niður á einstaka skóla. MSS23010084
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um hvenær innheimtuviðvaranir eru sendar sé viðskiptakrafa/reikningur ógreiddur, hvenær kröfur fari í milliinnheimtu og jafnframt hvað þurfi að eiga sér stað svo að krafa fari í milliinnheimtu og svo löginnheimtu. Hvað líða margir dagar frá því að reikningur íbúa er ógreiddur og þangað til að hann fer í milliinnheimtu? Eftir hversu marga daga fara ógreiddar körfur í lögunnheimtu? Óskað er eftir svörum frá öllum B-hlutafyrirtækjum í meirihlutaeigu borgarinnar sem senda út viðskiptakröfur vegna þjónustu, nema Félagsbústöðum þar sem verklag í kringum innheimtu liggur skýrt fyrir. MSS22080174
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Kallað er eftir upplýsingum um hvernig færðin hefur raskað velferðarþjónustu og kennslu í leik- og grunnskólum og hvort haldið sé utan um kostnaðinn og afleiðingarnar sem af hljótast vegna þjónustuskerðingar og forfalla í kennslu. Eins væri gott að fá upplýsingar um hvort stofnanir borgarinnar fylgi einhvers konar verklagi í þessu ástandi. MSS23010082
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
- Kl. 11:35 víkja Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Kjartan Magnússon af fundinum.
Fundi slitið kl. 11:40
Einar Þorsteinsson Heiða Björg Hilmisdóttir
Alexandra Briem Hildur Björnsdóttir
Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 5. janúar 2023 - prentvæn útgáfa