Borgarráð - Fundur nr. 5689

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 15. desember, var haldinn 5689. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og annað starfsfólk sat fundinn: Ebba Schram, Þorsteinn Gunnarsson og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2022 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði 3 í Vogabyggð, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22120093

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er samþykkt að setja tillögu í auglýsingu. Vakin er athygli á því að bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru staðsett við ákveðinn stað, í gögnum kemur fram að: bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun geta verið í borgarlandi við Kænuvog en að öðru leyti er gert ráð fyrir því að svæðið verði bíllaust til framtíðar. Hér er mikilvægt að benda á mikilvægi þess að svæðið verði hannað með tilliti til ólíkra þarfa. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Bílastæði eru ekki heimil innan lóða íbúðabygginga á svæðinu. Heimilt er að vera með bílakjallara frá götuhæð. Þetta er galli að mati Flokks fólksins og munu margir þeir sem eru háðir bílum til að komast leiðar sinnar ekki geta búið þarna. Bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun eru staðsett við Kænuvog og Súðavog. Hvernig á fólk að komast frá stæði og að útidyrum sínum? Mörg þessara nýju hverfa eru aðeins fyrir ákveðna hópa samfélagsins, þ.e. þá sem geta lifað bíllausum lífsstíl. Hér er verið að mismuna fólki. Fordómar í garð fólks sem þarf eða vill nota bíl hafa aukist á vakt síðasta og þessa meirihluta. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar 10 tillögur starfshóps um útfærslu á sameiningu íþrótta- og tómstundasviðs  og menningar- og ferðamálasviðs , í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 21. júlí 2022. Meginmarkmiðið með sameiningunni samkvæmt samþykkt borgarráðs er að styrkja málaflokka menningar, íþrótta og skipulagðra tómstunda af fjölbreyttu tagi með því að nýta samlegð í innviðum og miðlægri stjórnsýslu ásamt því að kortleggja sameiginleg sóknarfæri til framtíðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Eiríkur Björn Björgvinsson, Arnar Pálsson, Steinþór Einarsson og Huld Ingimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22070114

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sameining menningar- og ferðamálasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs er skynsamleg ráðstöfun til að nýta betur mannauð og þekkingu borgarinnar, en líka tíma og fjármuni með því að ná fram samlegðaráhrifum. En einnig er mjög jákvætt að sjá hve vel starfshópurinn hefur notað tækifærið til að uppfæra og nútímavæða skipulagið, með áherslu á teymisvinnu og samstarf þar sem boðleiðir eru styttar og ábyrgð skýr. Segja má að fyrsta skref að þessari sameiningu hafi verið tekið árið 2018 þegar verkefni sviðanna voru færð undir sama fagráðið, en nú hefur það skref verið stigið til fulls. Þessi breyting mun bæta þjónustu við borgarbúa og efla mannlíf Reykjavíkurborgar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hinn 6. júní sl. tilkynntu forsvarsmenn nýs borgarstjórnarmeirihluta að málaflokkar íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs yrðu sameinaðir. Nýr meirihluti kaus þannig að taka ákvörðun um umfangsmikla breytingu á stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar án þess að fyrir lægi greining á kostum og göllum vegna slíkrar sameiningar gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og þjónustunotendum viðkomandi sviða. Æskilegt hefði verið að greina faglegan og rekstrarlegan ávinning af slíkri sameiningu áður en ákvörðun væri tekin og henni hrundið í framkvæmd. Jafnframt er óeðlilegt að svo stór skipulagsbreyting fái ekki umræðu fyrir opnum tjöldum í borgarstjórn. Þrátt fyrir að sex mánuðir séu nú liðnir frá umræddri yfirlýsingu hefur starfsfólk umræddra sviða fengið afar litlar upplýsingar um hvernig staðið verður að sameiningunni. Þá hafa enn ekki verið lögð fram svör við einföldum og eðlilegum grundvallarspurningum um sameininguna, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í borgarráði 6. október sl. en boðað hefur verið að það verði gert síðar á þessum fundi. Svo óvönduð vinnubrögð og skortur á upplýsingagjöf er ekki í samræmi við viðurkennda breytingastjórnun í stjórnsýslu en því miður í fullu samræmi við þann flumbrugang sem einkennt hefur stjórnsýslubreytingar meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Óskað er eftir því að sem fyrst verði bætt úr veigamiklum vanköntum á upplýsingagjöf til starfsmanna vegna umræddra breytinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er greinilega búið að leggja mikla vinnu í að útfæra þessa sameiningu. Aðalmarkmiðið hlýtur að vera að hagræða, spara og einfalda en veita jafnframt framúrskarandi þjónustu. Verið er að gera eitt svið úr tveimur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki skýrt hver sparnaðurinn og hagræðingin verður með sameiningunni. Því er þó fagnað að ekki þurfi að koma til uppsagna. Sá kostnaður, um 100 milljónir sem nefndur er í greinargerð starfshópsins, er m.a. fyrir aðkeypta ráðgjöf. Annað er óútfylltur tékki. Sameiningin mun hafa í för með sér útgjöld sem spyrja má hvort séu nauðsynleg. Undirbúa á nýja aðstöðu fyrir sameiginlegt svið í Borgartúni. Flokkur fólksins vill benda á kolefnisspor í þessu sambandi og að það er í lagi að nota eldri búnað. Gæði þjónustu eru ekki tengd einhverjum fínheitum eða glamúr. Búið er að ráða hönnuði sem öllu jafna kalla á mikil útgjöld. Mörg dæmi eru um að „svona vegferð“ beri með sér fyrirsjáanlega hagræðingu og sparnað en síðan hefst „þensla“ í kringum hið nýja konsept sem leiðir til þess að sameiningin verður þegar upp er staðið mun kostnaðarsamari en Reykjavíkurborg ræður við um þessar mundir. Fyrir liggur að fjárhagur borgarinnar er kominn fram á heljarþröm.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 12. desember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að vísa til borgarstjórnar tillögu valnefndar umdæmisráðs Barnaverndar Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Trausti Fannar Valsson, Rannveig Einarsdóttir og Ellý Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22110171

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð og eftir atvikum borgarstjórn samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 13. desember, að skipan í stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur, Félagsbústaða hf. og Faxaflóahafna sf. Kosning í fimm manna stjórn Félagsbústaða kallar á breytingu á samþykktum. MSS22060144

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Samþykkt að vísa skipan í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna til borgarstjórnar sbr. a-lið 64. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Jafnframt samþykkt skipan í stjórn Félagsbústaða með fyrirvara um breytingu á 19. gr. samþykkta félagsins á aðalfundi. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákvörðun borgarráðs í dag hvað varðar tilnefningar í stjórnir einkaréttarlegra fyrirtækja borgarinnar markar tímamót. Ný eigandastefna markar nýja tíma þar sem borgin innleiðir góða stjórnarhætti og armslengdarsjónarmið við tilnefningar í stjórnir fyrirtækjanna í þverpólitísku samráði. Borgarráð leggur áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnsæi og aukna upplýsingamiðlun og hvetur B-hluta fyrirtæki borgarinnar til að kynna nýjum stjórnum nýja eigandastefnu og góða stjórnarhætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við nýlega eigendastefnu Reykjavíkurborgar sem tók gildi á síðasta kjörtímabili. Við samþykkt stefnunnar höfðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks á stefnunni allt annan skilning en meirihlutaflokkarnir. Mikilvægt er að stefnur af þessu tagi séu skýrar og ekki opnar fyrir túlkun, líkt og sú sem nú er í gildi. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægt að stefnan verði endurskoðuð hið fyrsta.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista ítreka mikilvægi þess að notendur þjónustunnar séu í stjórnum fyrirtækja og félaga sem koma að málefnum sem við koma daglegu lífi borgarbúa. Sérstaklega er mikilvægt að leigjandi Félagsbústaða sé í stjórn þess. Sósíalistar lögðu fram slíka tillögu á síðasta kjörtímabili en hún hefur enn ekki komið til afgreiðslu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur áður bókað um mikilvægi þess að í stjórn fyrirtækja og félaga í eigu borgarinnar eða á hennar vegum séu aðilar með fagþekkingu á viðkomandi sviðum. Velja á þá hæfustu í hvert sinn til að tryggja velfarnað og fagmennsku félagsins/fyrirtækisins. Það hefur ekki reynst vel í sumum bs-fyrirtækjum að í stjórnum hafi verið pólitískir fulltrúar sem ekki hafa haft vit á rekstri þeirra.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölbreytt skipaðar stjórnir af kunnáttufólki í félögum Reykjavíkurborgar er gott markmið og vel hægt að ná því með því að skipa pólitískt kjörna fulltrúa enda bera þeir ávallt að lokum ábyrgð á starfi, stefnu og gengi félaga í eigu borgarinnar. Þó hugmyndin um „óháða“ stjórnarmenn í bland við kjörna fulltrúa sé tilraunarinnar virði þá verður að segjast að hætta sé á því að aukin fjarlægð myndist milli eigenda sem hafa skýrt eftirlitshlutverk og stjórna og það kann ekki góðri lukku að stýra. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. desember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að fresta tímamörkum rammasamkomulags og samkomulags við Festi ehf. vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Ægisíðu 102.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22120052

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Svo virðist sem samningar við olíufélögin um uppbyggingu á svokölluðum bensínstöðvareitum séu hagstæðari en almennt gerist í Reykjavík. Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt við úthlutun verðmætra gæða í borgarlandinu og að gagnsæi ríki um endurgjald fyrir slík gæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að við framtíðarskipulag á lóðinni við Ægisíðu 102 verði hugað að sjónarmiðum íbúa, byggðamynstri og þörfum hverfisins, t.d. hvað varðar fleiri leikskólapláss.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti borgarstjórnar gerði samninga við fyrirtæki um fækkun bensínstöðva og hefur þannig gefið stórfyrirtækjum gríðarleg verðmæti í borgarlandinu sem þau munu hagnast á. Þetta var sett fram í nafni „hagrænna hvata“. Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 24. nóvember 2021 lagði fulltrúi sósíalista fram fyrirspurn um byggingarmagn lóða þar sem bensínstöðvar munu víkja. Óskað var eftir upplýsingum um hvert byggingarmagnið væri á þeim reitum þar sem nú eru bensínstöðvar en fyrirhugað væri að íbúar og önnur þjónusta kæmi á svæðin. Óskað var eftir yfirliti skipt út frá þeim lóðum sem tilgreindar eru í minnisblaði nefnt: Fækkun bensínstöðva – áfangaskil samningaviðræðna við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum, lagt fram í borgarráði 24. júní 2021. Svarið sem barst í febrúar 2022 segir að ekki liggi fyrir nein heildræn skipulagsáætlun á deiliskipulagsstigi yfir bensínstöðvalóðirnar og því ekki til nein gögn eða yfirlit um heildar byggingarmagn eða annað umfang uppbyggingar á lóðunum. Undirbúningsvinna vegna deiliskipulags á lóð nr. 102 við Ægisíðu væri enn á frumstigum. Fulltrúi sósíalista gagnrýnir þetta fyrirkomulag, þar sem í gegnum þessa samninga er m.a. verið að ryðja jarðveginn fyrir frekari hagnað fyrirtækja og félaga líkt og olíufélaga. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-október 2022, dags. 13. desember 2022.

    Halldóra Káradóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22060027

  7. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 15. desember 2022, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022. 
    Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22010035

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 12. desember 2022, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaráætlunar Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum með þessum lið með rafrænum hætti. FAS22030040

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. desember 2022 á tillögu um samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Helgi Grímsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22100155

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Erfitt hefur reynst að halda úti öflugum rekstri leikskólans Bakka og metnaðarfullu uppeldis- og menntastarfi. Stjórnendur hafa ítrekað bent á þá þróun sem orðið hefur á barnafjölda í Bakka og lýst yfir áhyggjum sínum af starfinu þar. Erfitt hefur reynst að fá menntað starfsfólk til starfa þegar starfsstöðvar eru fámennar. Markvissar aðgerðir voru gerðar til að fjölga börnum við leikskólann eins og að gera tvær ungbarnadeildir og átak í kjölfar stóra innritunardagsins en án árangurs. Húsnæði Bakka hefur verið nýtt síðan í haust af starfsemi Ævintýraborgar í Vogabyggð samhliða börnum á Bakka. Um miðjan desember opnar Ævintýraborg Vogabyggðar og þau börn ásamt starfsmanni flytjast þangað. Þá mun foreldrum barna á Bakka standa þrjár leiðir til boða: Að flytja barnið yfir í Ævintýraborg í Vogabyggð, að flytja barnið yfir í aðra borgarrekna leikskóla, en veittur verði forgangur ef laus pláss eru til staðar og að lokum að flytja barnið yfir í sjálfstætt starfandi leikskóla. Styður meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar þá tillögu skóla- og frístundasviðs að sjálfstætt starfandi leikskóli taki við húsnæði Bakka og hefji þar leikskólastarf enda mikilvægt að ná farsælli lendingu fyrir foreldrana, festu í daglegu lífi barnanna og bjóða upp á leikskólastarf í nærumhverfinu.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú staðfestir borgarráð afgreiðslu skóla- og frístundaráðs um að koma leikskólanum Bakka í hendur einkaaðila. Rökin standast ekki skoðun og segja forsvarsmenn að lítil aðsókn sé í leikskólann og þar af leiðandi borgi rekstrareiningin sig ekki. Hins vegar hafa foreldrar greint frá því að í gegnum tíðina hafi borgin talað foreldra af því að skrá börn á leikskólann þar sem óvissa væri um framtíð hans og að valmöguleikinn um að skrá börn í þennan leikskóla hafi ekki verið kynntur fyrir þeim foreldrum sem hafi leitað að leikskóla. Það er einkennilegt að segja að engin eftirspurn sé eftir leikskólanum á meðan hann er rekinn af borginni en þegar hann sé kominn í rekstur einkaaðila þá muni hann fyllast af börnum. Jafnvel hugsanavilla. Allt bendir hins vegar til að aðgerðir borgarinnar hafi rutt veginn fyrir einkavæðingu á þessum leikskóla nú þegar sárlega vantar leikskólapláss í borgarreknum leikskólum þar sem gjöldin eru lægst. Borgin á að sinna leikskólum borgarinnar af myndugleika en ekki svelta þá svo hægt sé að selja þá síðar meir. Einkavæðing er ekki lausnin að langvarandi leikskólavanda Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður hvernig komið er í skólamálum í Staðahverfi. Á síðasta kjörtímabili stóð þáverandi meirihluti borgarstjórnar fyrir því að loka eina grunnskólanum í Staðahverfi, Korpuskóla, og í ár hafa málefni leikskólans í Staðahverfi, Bakka, verið mikið til umfjöllunar. Nú stefnir í einkarekstur sem eins konar „neyðarúrræði“ vegna fámennis í Staðahverfi þrátt fyrir að margir foreldrar hafi sótt um að fá pláss fyrir börn sín en verið synjað. Hluti af vandræðaganginum er sagður vera mannekla. Þrátt fyrir það tilkynnti meirihlutinn við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar að segja ætti upp starfsfólki á leikskólum sem ráðnir höfðu verið sérstaklega til að annast hólfun í COVID. Það er ekki ljóst hvað er rétt og hvað er rangt í starfsmannamálum leikskóla borgarinnar. Er mannekla eða ekki? Þetta mál lyktar sérkennilega. Mjög líklega er fyrir löngu búið að ákveða að einkavæða þennan leikskóla. Sé fámenni og mannekla er líklegt að sá vandi loði við einkarekstur jafnt sem annars konar rekstrarfyrirkomulag nema launin í einkareknum leikskóla sé þeim mun hærri en í borgarreknum leikskólum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 1. desember 2022, varðandi starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. desember 2022.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Páll Björgvin Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram starfs- og fjárhagsáætlun SSH. Fram kemur að starfsemi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi verið efld á undanförnum árum og á árinu 2023 verður starfsemi samtakanna efld enn frekar og byggð áfram upp á þeim grunni sem fyrir er. Starfsfólki er fjölgað. Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hversu gott það er fyrir Reykjavík ef starfsemi SSH verður efld meira en nú. Einnig er því velt upp hvort tekin hafi verið pólitísk ákvörðun um það. Er um þetta breið sátt t.d. meðal minnihlutafulltrúa? Sjálfsagt er að Reykjavík eigi í samstarfi sem þessu og sé hluti af stærri heild en þá aðeins ef það gagnast borginni sem er stærst sveitarfélaga. Sem fyrr í bs-kerfinu greiðir Reykjavík langmest en hefur ekki áhrif í samráði við það þótt fáein skref hafi verið tekin til að gera byggðasamlagskerfið ögn lýðræðislegra. Nær væri að vinna að sameiningu sveitarfélaga frekar en að efla eða fjölga byggðasamlögum. Þjónustu- og nýsköpunarsvið í sinni stafrænu vegferð hefur sem dæmi ekki þegið samflot með öðrum sveitarfélögum og hafa nágrannasveitarfélög farið fram úr borginni í einstaka stafrænum lausnum. Í tilfelli stafrænnar vegferðar hefði einmitt gagnast Reykjavík að vera í þéttu samstarfi við önnur sveitarfélög vegna samlegðaráhrifa. 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 6. desember 2022, sbr. samþykkt íbúaráðs Grafarvogs frá 5. desember 2022 á tillögu fulltrúa íbúasamtaka um tilnefningu í dómnefnd vegna þróunar Keldna og Keldnaholts.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS22120025

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Uppbygging á Keldum og í Keldnaholti er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál allra borgarbúa. Dómnefndin hefur þegar verið skipuð og þar sitja fulltrúar Reykjavíkurborgar, fulltrúar eigenda landsins og erlendir sérfræðingar. Á þessu frumstigi eru fulltrúar borgarinnar að koma fram fyrir hönd allra íbúa og gæta þeirra sjónarmiða gagnvart sjónarmiðum landeigenda og sérfræðinga. Þegar niðurstaða dómnefndarinnar liggur fyrir fer hún í hefðbundið umsagnarferli og samráð við íbúa í Grafarvogi enda er mikilvægt að huga vel að hagsmunum íbúa í nærumhverfinu þegar kemur að endanlegri útfærslu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar kjósi að hafna einróma samþykkt íbúaráðs Grafarvogs um að fulltrúi þess og Íbúasamtaka Grafarvogs fái sæti í dómnefnd um þróun skipulags Keldna og Keldnaholts. Um er að ræða stærsta skipulagsmál í Grafarvogi í áratugi. Átta manns taka sæti í dómnefnd samkeppninnar, þrír frá Reykjavíkurborg, þrír frá landeigendum og tveir erlendir sérfræðingar. Miðað við stærð dómnefndarinnar hefði verið auðvelt að hleypa fulltrúa íbúaráðs og íbúasamtaka þar inn en borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að virða þær óskir að vettugi. Sú afgreiðsla sýnir að tyllidagaskvaldur fulltrúa meirihlutans um aukið gagnsæi og samráð við íbúa um mikilvægar ákvarðanir, er innantómt og merkingarlaust. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista styður það að fulltrúar íbúaráða eigi sæti í þessari dómnefnd. Þá telur fulltrúi sósíalista einnig mikilvægt að fá inn fjölbreytta sýn þeirra sem koma að húsnæðismálum og að fulltrúi leigjenda ætti að eiga sæti í dómnefndinni. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins telur það af hinu góða að hafa dómnefndina sem fjölbreyttasta og að aðilar í henni komi úr ólíkum áttum enda er hér um mikilvægt skipulagsverkefni að ræða. Tryggja þarf að tenging sé við borgarbúa og aðra áhuga- og hagsmunaaðila og samráð við íbúa/borgarbúa. Þetta hverfi á að skipuleggja öllum borgarbúum til heilla.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2022, varðandi tillögur vegna reglulegs eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur þann 9. desember 2022, ásamt fylgiskjölum, sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 8. desember 2022 og færð í trúnaðarbók.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22120021

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. desember 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við bækling um uppbyggingu íbúða, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2022. MSS22110019

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Bæklingur um uppbyggingu íbúða, sem sendur var á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu, degi eftir að upplýst var um 15,3 milljarða rekstrarhalla borgarsjóðs árið 2022, kostaði borgina tæpar 17 milljónir (með vsk.). Bæklingar af þessu tagi eru augljóst tækifæri til niðurskurðar sem meirihlutinn hefur vannýtt. Til samanburðar hefur meirihlutinn ákveðið að skera niður bókakaup til bókasafna grunnskólanna sem nemur 9 milljónum árlega. Hefur niðurskurðartillagan vakið mikla reiði meðal skólastjórnenda. Betur hefði farið á því að fjárfesta í bókum fyrir grunnskólabörn heldur en bæklingi með upplýsingum sem vel mætti gera aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kostnaður við gerð ritsins var kr. 13.322.240 fyrir utan virðisaukaskatt. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að góð upplýsingagjöf sé í borginni en telur fjármunum ekki best varið með þessum hætti. Útgáfa á þessu riti kostar meira en kostnaðurinn við að halda félagsmiðstöðvum fyrir unglinga opnum til kl. 22:00 á ársgrundvelli. Í ljósi fjárhagsstöðu borgarinnar ákvað meirihluti borgarstjórnar að skera niður víða í rekstri og m.a. að loka félagsmiðstöðvum unglinga 15 mínútum fyrr enn ella og telur sig þannig ná sparnaði upp á 9 milljónir 859 þúsund á næsta ári. Nær hefði verið að skera niður við gerð þessa rits og tryggja þess í stað að unglingar hafi gott athvarf í formi félagsmiðstöðva en starfsfólk og þau sem koma að starfi miðstöðvanna hafa gagnrýnt þessar aðgerðir um að loka fyrr.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. desember 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um upplýsingagjöf til starfsmanna vegna sameiningu íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. október 2022. MSS22100066

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins skilur illa þessa tilhneigingu að kaupa rándýra ráðgjöf utan úr bæ eða erlendis frá eins og þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur gert ómælt. Hér er það sama á ferðinni. Það er eins og ekkert megi gera í borginni nema að milljónir streymi til ráðgjafafyrirtækja líkt og enginn viti neitt sem starfar hjá borginni. Spurt var um kostnað og liggur hann fyrir: Ráðgjafakostnaður er áætlaður um 3 m.kr. Gert ráð fyrir sama heildarfjölda stöðugilda á nýju sviði en að 6 stöðugildi breytist og verði laus á árinu 2023 en áætlun vegna þeirra er um 102.000 þ.kr., en þar af falla til um 50.000 þ.kr. vegna kostnaðar við starfslok, s.s. uppsagnarfrestur og orlofsuppgjör. Samkvæmt útreikningi er gert ráð fyrir að ráðningar í þessi 6 nýju stöðugildi kosti um 88.400 þ.kr. og munar þar um 13.800 þ.kr. Það kann að vera að meirihlutanum þyki 100 milljónir til eða frá ekkert tiltökumál. Sé það raunin er mikil firring í gangi þegar horft er á svarta fjárhagsáætlun þar sem núll krónur eru eftir til að greiða skuldir.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 7. desember 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verktakagreiðslur Strætó til Kynnisferða og Hópbíla, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. nóvember 2022. MSS22110078

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 28. nóvember 2022. MSS22010020

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 8. desember 2022. MSS22070029

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Áhugaverðar niðurstöður koma fram í þessari skýrslu. Hávaði reiknaður sem Lden í 2 m hæð yfir jörð, er á milli 55-64 dB hjá um 300 íbúum, sem er mikið. En fram kemur að megin niðurstaða þessarar vinnu er sú að hávaði vegna flugumferðar er undir settum viðmiðunarmörkum eins og fyrir árið 2013. Frá 2013 til 2018 jókst flugumferð og var yfir 60 þúsund flughreyfingar á ári t.d. 2016, 2017 og 2018. Segir jafnframt að það sé viðbúið að flugumferð um Reykjavíkurflugvöll geti aukist eitthvað í framtíðinni en óljósara er hvort eðli hennar breytist. Ekki fer mikið fyrir því að íbúar Skerjafjarðar kvarti vegna flugvallarins, m.a. vegna hávaða hans eða það er allavega tilfinning fulltrúa Flokks fólksins. 

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 8. desember 2022. MSS22010006

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. desember 2022. MSS22010029

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar: 

    Tillaga íbúaráðs Grafarvogs um að borgarráð tilnefni fulltrúa úr íbúaráði Grafarvogs og Íbúasamtökum Grafarvogs í dómnefndina um þróun Keldna og Keldnaholts auk átta fulltrúa, þrír frá Reykjavíkurborg, þrír frá landeigendum og tveir erlendir sérfræðingar. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sjálfsagt að hverfið eigi sinn fulltrúa í dómnefndinni um þróun Keldna og Keldnaholts. Umfram allt á að skipuleggja þetta svæði öllum borgarbúum til heilla. Það er því af hinu góða að dómnefndin sé skipuð breiðum hópi.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. nóvember 2022.

    Hildur Björnsdóttir víkur af fundi undir umræðum um fundargerðina. MSS22010017

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) ákvað í gær að heimila stjórn Ljósleiðarans að ganga frá samningum við Sýn og verður það væntanlega gert í dag, 15. desember. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að vísa umræddri ákvörðun til borgarráðs, var felld. Með umræddri ákvörðun er samþykkt heimild til stóraukinnar skuldsetningar Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis OR, með töku yfirdráttarláns á háum vöxtum. Slík viðbótarskuldsetning er þvert á nýsamþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkur. Umrætt mál er knúið í gegnum stjórn OR á óeðlilegum hraða þrátt fyrir skort á rekstrarupplýsingum, sem eðlilegt er að rýna við töku slíkra ákvarðana, t.d. þjónustusamning Ljósleiðarans við Sýn, sem allt málið byggist á. Ákvörðun um Sýnarsamninginn er óvenjuleg í rekstri Ljósleiðarans og OR enda með henni gert ráð fyrir kaupum á stofnneti Sýnar og að farið verði í útrás um land allt í stað þess að sinna Suðvesturlandi, sem er skilgreint starfsvæði samkvæmt eigendastefnu OR. Þar sem umrædd ákvörðun er mikilsháttar og um margra milljarða kaup og fjárfestingu að ræða utan þjónustusvæðis OR, ber að leggja hana fyrir borgarráð til samþykktar samkvæmt áðurnefndri eigendastefnu. Þá segir í almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum að borgarstjóri skuli leggja mál sem eru óvenjuleg eða mikils háttar fyrir borgarráð til samþykktar. Borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að samþykkja ákvörðun, sem brýtur gegn báðum þessum eigendastefnum. Tilgangurinn með svo óvandaðri málsmeðferð er augljóslega sá að firra borgarstjóra ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn OR eftir því sem kostur er.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Að sögn fulltrúa og lögmanns Ljósleiðarans ehf. er fyrirhugaður þjónustusamningur félagsins við Sýn hf. útfærsla á þegar gerðu samkomulagi þessara félaga frá 5. september 2022 um einkaviðræður og helstu skilmála þjónustusamnings þeirra á milli. Samkvæmt fulltrúum og lögmanni Ljósleiðarans ehf. felst ekki í þjónustusamningnum eðlisbreyting á starfsemi Ljósleiðarans ehf. heldur einvörðungu samkomulag um fjarskiptaþjónustu sem OR hefur heimild til að sinna. Þess vegna mun samningurinn ekki koma til kasta borgarráðs. Borgarlögmaður tekur undir með lögmanni Ljósleiðarans um að ekki sé þörf á samþykki eigenda fyrir gerð samningsins eða eftir atvikum afléttingu fyrirvara um gerð hans með vísan til ákvæða sameignarsamnings og eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Miðað við þær upplýsingar sem fulltrúar og lögmaður Ljósleiðarans ehf. hafa veitt Reykjavíkurborg er um að ræða samning sem er einvörðungu viðskipta- og rekstrarlegs eðlis um atriði sem falla undir hefðbundna starfsemi Ljósleiðarans ehf. Þannig felst að þeirra sögn ekki í þjónustusamningnum óvenjuleg, veigamikil eða stefnumarkandi ákvörðun um starfsemi Ljósleiðarans ehf. þótt samningurinn sé að þeirra mati talinn vera mikilvægur fyrir rekstur félagsins. Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa hingað til hvorki haft aðkomu að né afskipti af gerð eða samþykkt sambærilegra þjónustusamninga innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2022. 
    12. liður fundargerðarinnar er staðfestur. MSS22060175 
     
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Eftir lestur loftslagsstefnunnar vill Flokkur fólksins minna á tillögu flokksins um skógrækt til kolefnisjöfnunar frá Rauðavatni og langleiðina að Hengli. Þar eru mörg svæði sem henta til skógræktar. Tillagan var ekki aðeins felld heldur kaus meirihlutinn að misskilja hana illilega. Sektir bíða til Evrópu ef ekki er staðið við lofaða losun. Skógrækt reiknast sem kolefnisbinding svo og endurheimt votlendis. Á öllum Reykjanesskaga er skógrækt nærtækur kostur. Leggja þarf áherslu á að minnka sóun. Endurnýting kolefnis þarf að vera virk. Þannig á t.d. að nýta allt metan sem myndast á svæðinu sem orkugjafa. Sömuleiðis á að nýta allan glatvarma og sóun frá matvælageiranum, hefja söfnun á endurnýjanlegum úrgangi svo sem fitu sem brenna mætti í stað olíu. Landbúnaður eins og hann er stundaður hér veldur verulegri losun en kemur Reykjavík lítið við. Framleiðsla á lífeldsneyti er mjög orkukrefjandi þar sem orkunýting er aðeins um 20% og er ofmetinn kostur. Mikið er talað um orkuskipti en minna gert eða vitað um þau. Miklu betra er að nota rafmagnið beint og t.d. reyna að vera með beintengda strætisvagna við rafmagns loftlínu. Samgöngur eru lítill hluti orkunotkunar, en ástæða er til að breyta vali á samgöngumátum með tilliti til losunar.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. MSS22110226

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Undirbúningur vegna lagningar Sundabrautar er orðin ein mesta sorgarsaga samgöngumála á Íslandi. Frá árinu 2010 hafa borgarstjórnarmeirihlutar undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka gripið til margvíslegra ráða til að tefja framgang verkefnisins og leggja steina í götu þess. Smáhýsi hafa verið byggð á fyrirhuguðu vegsvæði brautarinnar, vildarvinum úthlutað fjölbýlishúsalóðum mun nær umræddu vegsvæði en ráðlegt er, sem og landinu undir heppilegustu tengingu brautarinnar við Sæbraut. Þannig má áfram telja og virðist það vera stefnumál vinstriflokkanna í borgarstjórn að koma í veg fyrir að Sundabraut verði að veruleika. Fyrirliggjandi umsögn ber það með sér að borgaryfirvöld hyggist halda áfram að tefja lagningu Sundabrautar með öllum ráðum. Ekki kemur á óvart að fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar styðji áframhaldandi tafir vegna Sundabrautarverkefnisins enda hafa þær verið hluti af samgöngustefnu þessara flokka um árabil. Það kæmi hins vegar á óvart ef áðurnefndum flokkum tækist að fá fulltrúa Framsóknarflokksins með sér í þá vegferð að halda tafaleikjunum áfram og spilla þannig enn frekar fyrir þessu þarfa verkefni.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Bókun Sjálfstæðisflokks varðandi Sundabraut kemur á óvart. Á vettvangi borgarinnar er unnið eins hratt að þessu verkefni og unnt er. Það er skýr pólitískur vilji fyrir verkefninu og kemur fram í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að hafist verði handa við gerð Sundabrautar, að ráðist verði í gerð umhverfismats, hafist handa við víðtækt samráð og nauðsynlegar skipulagsbreytingar vegna hennar undirbúnar. Að auki kemur fram að leggja þurfi áherslu á að Sundabraut nýtist öllum ferðamátum, að skoða þurfi loftslagsáhrif framkvæmdarinnar og áhrif hennar á nærliggjandi byggð og rýna mögulegar mótvægisaðgerðir. Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs tilgreinir réttilega þau atriði sem þarf að huga að við undirbúning Sundabrautar og ekki er hægt að sleppa. Eins liggur fyrir að Vegagerðin þarf að ljúka lýsingu verkefnisins af sinni hálfu áður en borgin getur hafist handa við þær hliðar verkefnisins sem snúa að henni. Það er fásinna að borgarstjórn vinni gegn eigin samþykktri stefnu og þeim mun fjarstæðukenndara að fagfólk á umhverfis- og skipulagssviði vinni gegn framgangi þeirrar stefnu.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið yfirlitsins: 

    Fulltrúi Sósíalista tekur heilshugar undir erindi fyrrum forstöðumanns unglingasmiðjanna Stígs og Traða um mikilvægi þess að starfseminni verði þar áfram haldið. Þar kemur m.a fram: „Ég óska eindregið eftir því að borgastjórn endurskoði og dragi samþykktina um að leggja niður unglingsmiðjurnar til baka, kynni sér þess í stað vandlega starfsemina og leyfi því að lifa sem gerir gagn, og sem setur ekki fjármál borgarinnar á hliðina.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið yfirlitsins:

    Bréf Hollvinafélags Sundhallarinnar, ódags., um fyrirhugaðar breytingar á Sundhöll Reykjavíkur. Undir þessu er langt bréf með ýmis konar athugasemdum frá Hollvinafélagi Sundhallarinnar. Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld og meirihlutann í borginni að vanda nú til verka og vinna með fólkinu í borginni í alvöru samráði. Skemmst er að minnast mistaka sem gerð voru við hönnun á búningsklefum kvenna. Flokkur fólksins barðist allt síðasta kjörtímabil fyrir því að konur fengju, eins og karlar, aftur gamla búningsklefann sinn í aðalbyggingu Sundhallar Reykjavíkur að endurgerð lokinni. Rík áhersla var lögð á þetta, ekki síst vegna þess að óvenju langur spölur er utandyra frá hinum nýju klefum og í innilaug. Konum og stúlkum í skólasundi hefur verið gert að ganga þennan veg í hvaða veðri sem er í blautum sundfötum. Athugasemdir Hollvinafélags Sundhallarinnar sem hér eru til umræðu lúta að fyrirhuguðum framkvæmdum í innviðum Sundhallar Reykjavíkur [eldri laug]. Krafist er að haldið verði í hönnun Guðjóns Samúelssonar að svo miklu leyti sem hægt er. Líka að virt verði friðun á útliti eldri byggingar, búningsklefa og sundlauginni.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22110227

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn berst okkur borgarfulltrúum skeyti frá íbúum miðbæjarins. Nú síðast ákall til Heilbrigðiseftirlitsins vegna heilsuspillandi hávaðamengunar frá hátölurum Nova á skautasvellinu á Ingólfstorgi. Segir í skeytinu að helgarnar og kvöldin séu verst. Ákall íbúanna snýr ekki að skautasvelli heldur hávaðasamri tónlist frá hátölurum götunnar, langt yfir þolmörkum.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. desember 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð tilnefni fulltrúa í vinnuhóp til að yfirfara fyrirliggjandi styrkumsóknir auk umsagna og gera í framhaldinu tillögu til borgarráðs um árlega úthlutun.
    Samþykkt að tilnefna Einar Þorsteinsson, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Friðjón R. Friðjónsson í vinnuhópinn. MSS22110168

    Fylgigögn

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að dragi ákvörðun um að leggja niður unglingasmiðjurnar Stíg og Tröð til baka enda er höggvið gróflega í viðkvæma þjónustu. Nær væri að hætta að sóa fé í áskriftarsamninga ráðgjafafyrirtækja s.s. Gartner Group í Írlandi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið vill að samið verði við um ráðgjöf án útboðs. Hér er hins vegar um mikilvæga starfsemi að ræða. Starfsemi smiðjanna er ómetanleg fyrir félagslega einangraða unglinga. Að vera félagslega afskiptur og að vera ekki gefið tækifæri í samskiptum við jafnaldra er ein virkasta leiðin til að draga úr sjálfstrausti og valda lágu sjálfsmati, þá má einu gilda hverjar ástæðurnar eru. Minnt er á að leiðarljós forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar er að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi, sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd, einkennist af samkennd og býr yfir viðeigandi stuðningsúrræðum, þegar þörf krefur. MSS22120078

    Frestað.

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hægt er að sjá í opnu bókhaldi Reykjavíkurborgar á vefnum að þjónustu- og nýsköpunarsvið og forveri þess, skrifstofa þjónustu og reksturs, hefur verið áskrifandi að erlendri ráðgjöf Gartner Group á Írlandi í heilan áratug. Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita nákvæmlega hvað felst í þeim áskriftarsamningi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið er nú enn og aftur að endurnýja við Gartner á Írlandi. Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins fá að vita hvaða ávinning borgarbúar hafa haft af allri þessari erlendu ráðgjöf sviðsins og hverju hún hefur skilað í formi lausna eða annarra afurða sem ekki hefðu orðið til án ráðgjafar frá Gartner. Að lokum spyr fulltrúi Flokks fólksins, í ljósi aðhaldsaðgerða meirihlutans sem einna helst bitna á börnum og unglingum, af hverju er ekki tekin ákvörðun um að þjónustu- og nýsköpunarsvið láti af þessum gegndarlausu ráðgjafarkaupum frá Gartner Group á Írlandi. MSS22120079

    Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

  27. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skipaður verði starfshópur sem taki sem fyrst til starfa á nýju ári, 2023, við að endurskoða málstefnu Reykjavíkurborgar sem var samþykkt í maí árið 2018 og á að endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá gildistöku hennar. MSS22120080

    Frestað. 

  28. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í tengslum við kjarasamninga á vinnumarkaði hafa stjórnvöld kynnt hækkun húsnæðisbóta í annað sinn á árinu – sem og hækkun tekjuskerðingarmarka húsnæðisbóta. Hver eru áform Reykjavíkurborgar í að mæta þessum breytingum? Stendur til að hækka viðmiðunarmörk fyrir sérstakar húsnæðisbætur til samræmis? MSS22120081

  29. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Stendur til að skipa að nýju götunafnanefnd Reykjavíkurborgar eftir að nefndarmenn sögðu sig úr henni í vor? MSS22120082

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

Fundi slitið kl. 12:17

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs frá 15. desember 2022 - prentvæn útgáfa