Borgarráð - Fundur nr. 5688

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 8. desember, var haldinn 5688. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:09. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtalinn áheyrnarfulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Theodór Kjartansson, Þorsteinn Gunnarsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. desember 2022:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.040 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,1%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 901 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 120 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 2,58%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1, sem er 220 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 7. desember 2022.

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22010057

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins vill segja nokkur orð um verðbólgu. Hún hefur vissulega aukist en verðbólga er hins vegar mjög almenns eðlis þar sem t.d. húsnæðisverð hefur aukist verulega undanfarið ár. Verðbólga er því ekki eingöngu vegna verðhækkana á innfluttum vörum. Enda er aukin verðbólga hér og erlendis ekki afsökun fyrir slakri fjármálastöðu Reykjavíkurborgar heldur eru ástæður fyrir hinni slæmu fjármálastöðu borgarinnar margþættar.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. desember 2022, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna þriðja ársfjórðungs ársins 2022.

  Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22090002

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Fyrir liggur erindi Orkuveitu Reykjavíkur um skilmálabreytingu á lánasamningi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 4. nóvember 2022, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. nóvember 2022. Lagt er til að borgarráð samþykki erindið og vísi því til staðfestingar borgarstjórnar.

  Samþykkt.
  Vísað til borgarstjórnar.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  -    Kl. 9:36 tekur Pétur Kr. Ólafsson sæti á fundinum.

  Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22110037

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða einfalda skilmálabreytingu á láni sem þegar hefur verið tekið.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að breyta skilmálum á láni að fjárhæð 70 milljóna evra eða um 10,5 milljarða króna og verið að heimila frekari skuldsetningu í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Lánið er með eigendaábyrgð, en Reykjavíkurborg er í ábyrgð fyrir 66,6 milljörðum króna af skuldum Orkuveitu Reykjavíkur, sem er gríðarlega há fjárhæð.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. desember 2022, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

  Lagt er til að fjármagnsskipan B-hluta fyrirtækja í samstæðu Reykjavíkurborgar verði rýnd með tilliti til skilvirkrar og arðsamrar fjárbindingar borgarsjóðs (A-hluta) sem eiganda í fyrirtækjum í B-hluta og þeirrar áhættu sem borgarsjóður stendur frammi fyrir sem ábyrgðaraðili á lánum og eftir atvikum rekstri fyrirtækja í B-hluta. Rýningin verði áfangaskipt, með áherslu á að tillögur um fjármagnsskipan Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna liggi fyrir fyrir 1. apríl 2023. Handhafar eigendavalds skipi stýrihóp verkefnisins og verði þeim heimilt að leita sérfræðiráðgjafar ytri aðila. Fulltrúar viðkomandi stjórna komi að umfjöllun á vettvangi stýrihópsins og tillögur lagðar fyrir borgar- og bæjarráð auk formlegra eigendafunda. 

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22080055

  -    Kl. 9:44 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti. 

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. desember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að kaupsamningum á 19 íbúðum að Hallgerðargötu 1, 1A, 11 og 11A, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS21120022

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða kaup á 19 íbúðum en 10 munu renna til Félagsbústaða. Félagsbústaðir eiga félagslegar íbúðir í nær öllum fjölbýlishúsum borgarinnar en það er um leið mikilvægt að blöndun eigi sér stað þannig að félagslegar íbúðir séu um alla borg, ekki bara sums staðar.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Með því að kaupa íbúðir af einkamarkaði er borgin að verða af hærri fjárhæðum en ella skyldi ef hún byggði sjálf. Ef borgin byggði sjálf íbúðir fyrir fólk í þörf væri kostnaður borgarinnar og leigjenda lægri en nú. Núverandi fyrirkomulag gagnast einkum fjármagnseigendum, sem vel að merkja greiða ekki krónu af sínum fjármagnstekjum í borgarsjóð eins og launafólk. Einungis 10 af 19 íbúðum munu fara til Félagsbústaða, fulltrúi sósíalista telur að allar íbúðirnar ættu að fara til Félagsbústaða, ekki einungis hluti af þeim. Á sama tíma eru 864 manneskjur á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Hugmyndafræðin um félagslega blöndun eins og hún er nú framkvæmd er að leiða til þess að manneskjur þurfa að bíða eftir húsnæði til lengdar og slíkt er alls ekki gott fyrir fátækt fólk í leit að húsnæði. 

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. desember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að kaupsamningi á leikskóla að Hallgerðargötu 11B, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS21120022

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. desember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti heimild til að ganga frá kaupum á 16 færanlegum kennslustofum auk samtengdra ganga og salerna fyrir Hagaskóla, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22030061

  Fylgigögn

 8. Fram fer kynning á þróun ofbeldisbrota í Reykjavík.

  -    Kl. 10:16 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum og Einar S. Guðmundsson tekur þar sæti.

  Halla Bergþóra Björnsdóttir, Ásgeir Þór Ásgeirsson og Marta Kristín Hreiðarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22110218

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna:

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna taka undir bókun stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 5. desember sl.: „Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fagna þeim áformum sem endurspeglast í fjáraukalögum um styrkingu lögreglunnar á landsvísu. Í ljósi þeirra fjölmörgu áskorana sem lögreglan stendur frammi fyrir telja samtökin mikilvægt að lögreglan verði efld og styrkt til þess að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Það er jafnframt mikilvægt að hún sé sýnileg til að auka öryggiskennd íbúa og halda uppi ákveðnu öryggisstigi. Á höfuðborgarsvæðinu búa um 64% landsmanna. Hlutfall lögreglu á höfuðborgarsvæðinu hefur hinsvegar fækkað úr því að vera 47 % af starfandi lögregluþjónum á landinu á árinu 2010 í 39% á árinu 2022. Enn meiri fækkun hefur orðið á hlutfalli borgaralegra starfsmanna lögreglunnar. Sveitarfélögin eiga í góðu samstarfi við lögregluna, ekki síst þegar kemur að forvarnarmálum vegna barna og ungmenna. Það er því afar mikilvægt að styrkja lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, til að halda í við íbúaþróun og jafnframt að þróa áfram hugmyndafræði samfélagslöggæslu. Með fjölgun samfélagslögregluþjóna, sem vinna markvisst með velferðarþjónustu og félagsmiðstöðvum er hægt að grípa strax inn í hópamyndanir og ofbeldi á meðal ungmenna og stemma þannig stigu við afbrotum og jafnframt að auka við þjónustustig lögreglunnar í samfélaginu.“

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Efla þarf forvarnarstarf lögreglu og sýnilega löggæslu. Meirihluti borgarráðs fagnar þeim áformum sem endurspeglast í fjáraukalögum um styrkingu lögreglunnar á landsvísu. Í ljósi þeirra fjölmörgu áskorana sem lögreglan stendur frammi fyrir teljum við mikilvægt að lögreglan verði efld og styrkt til þess að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Það er jafnframt mikilvægt að hún sé sýnileg til að auka öryggiskennd íbúa og halda uppi ákveðnu öryggisstigi. Á höfuðborgarsvæðinu búa um 64% landsmanna. Hlutfall lögreglu á höfuðborgarsvæðinu hefur hinsvegar fækkað úr því að vera 47% af starfandi lögregluþjónum á landinu á árinu 2010 í 39% á árinu 2022. Enn meiri fækkun hefur orðið á hlutfalli borgaralegra starfsmanna lögreglunnar. Sveitarfélögin eiga í góðu samstarfi við lögregluna, ekki síst þegar kemur að forvarnarmálum vegna barna og ungmenna. Það er því afar mikilvægt styrkja lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, til að halda í við íbúaþróun og jafnframt að þróa áfram hugmyndafræði samfélagslöggæslu. Með fjölgun samfélagslögregluþjóna, sem vinna markvisst með velferðarþjónustu og félagsmiðstöðvum er hægt að grípa strax inn í hópamyndanir og ofbeldi á meðal ungmenna og stemma þannig stigu við afbrotum og jafnframt að auka við þjónustustig lögreglunnar í samfélaginu.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fjölgun ofbeldisbrota í Reykjavík er mikið áhyggjuefni. Ljóst er að lögreglan stendur sig vel og hefur brugðist af festu við alvarlegum líkamsárásum, sem hafa komið upp að undanförnu. Fyrir það ber að þakka. Æskilegt er að lögreglan leggi aukna áherslu á að bregðast við minni háttar líkamsárásum og taka þær til kærumeðferðar í kerfinu án dráttar. Erlendar rannsóknir sýna að það hefur mikið forvarnargildi að taka á slíkum brotum hratt og af festu áður en gerendurnir leiðast út í enn alvarlegra ofbeldi. Þá þarf að auka hverfalöggæslu og sýnileika lögreglunnar almennt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði til í október að stofnaður yrði stýrihópur til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Tillögunni var vísað til mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs og verður afgreidd þann 8. desember. Bylgja ofbeldis hefur riðið yfir á meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík. Kortleggja þarf þessa þróun og meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum auk þess að koma með hugmyndir um hvernig bregðast megi við auknum vopnaburði hjá ungu fólki og almennt fjölgun ofbeldisbrota þar sem ungt fólk kemur við sögu sem gerendur. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar. Erfitt er að ná utan um skráningu eggvopna. Hvernig getur Reykjavíkurborg beitt sér vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu? Setja þarf þessa vinnu af stað hið fyrsta, hefja samtalið. Þegar um börn er að ræða eru gerendur jafnframt þolendur. Snertiflöturinn við börn er í gegnum leik- og grunnskólana og íþrótta- og tómstundahreyfinguna. Kalla þarf eftir félagslegri umræðu og skerpa á ábyrgð foreldra, skólasamfélagsins og íþrótta- og tómstundahreyfinga. Stoppa þarf þessa þróun með öllum ráðum og dáð. Orsakir eru bæði flóknar og margslungnar. Af mörgum ofbeldisbrotum hafa síðan verið teknar ýmist myndir eða myndbönd sem dreift er út á netið með alvarlegum, langvinnum afleiðingum.

 9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 6. desember 2022, þar sem áfangaskýrsla Græna plansins fyrir janúar til 2022, ásamt uppfærðu útliti og enskri þýðingu er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

  Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030045

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þetta plagg er svo sem ágætt yfirlit yfir stefnu borgarinnar en á sama tíma ekki alltaf trúverðugt og sumar setningar standast varla. Sem dæmi má nefna að sagt er að „fjármálastjórnun sé ábyrg og gott umhverfi sé fyrir atvinnulíf og nýsköpun, samtal við íbúa verði bætt og kolefnisbinding aukin. Græn svæði verði efld.“ Hér má minnast á að tillaga Flokks fólksins um umfangsmikla skógrækt til kolefnisbindingar var felld. „Kraftmikið, samkeppnishæft borgarsamfélag og frjósamur jarðvegur fyrir skapandi hugmyndir sem laðar fólk að til búsetu, heimsókna og athafna sé í borginni“. En er þetta raunin? Ef hlustað er á raddir íbúa þá eru einmitt gerðar athugasemdir við hversu mikið er gengið á græn svæði í borgarlandinu með þéttingu byggðar sem mörgum finnst hafa gengið of langt.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að auglýsa eftir áhugasömum fyrirtækjum vegna þróunar á nýju grænu athafnasvæði við Hólmsheiði.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22120016

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 29. nóvember 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. nóvember 2022 á tillögu vegna gjaldskrár fyrir hundahald.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Steinþór Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ITR22110012

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fyrirliggjandi tillaga felur í sér hækkun hundaeftirlitsgjalds um 59%. Um er að ræða gífurlega hækkun á hundaeigendur, sem er ekki í neinu samræmi við þróun verðlags.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sú tillaga sem meirihlutinn leggur hér fram er frekar óljós. Lagt er til að gjald fyrir að halda hund verði 15.700 kr. í stað 12.200 kr. á ári. Um verður að ræða eitt gjald og er námskeiðsafsláttur 30% á það. Ekki er rukkað á skráningarári. Skráningargjald er lagt af, var 2.200 kr. Eins og fulltrúi Flokks fólksins skilur þetta þá er gulrótin sú til að fá þá til að skrá hunda sína að ekki verður rukkað árgjald fyrsta árið þegar hundur er skráður. En hér er ekki um neina lækkun að ræða fyrir hundaeigendur þótt kerfið sé einfaldað. Segir í gögnum að eftir að Dýraþjónusta Reykjavíkur var stofnuð hefur ásókn í þjónustu, símtöl og ráðgjöf aukist mikið og snúa flest erindi um hunda. Fulltrúi Flokks fólksins trúir þessu ekki og mun óska eftir yfirliti erinda, eðli þeirra og umfang sem og viðbrögð dýraþjónustunnar sem hefur á sínum snærum tvo hundaeftirlitsmenn. Ekki er sagt hvort handsömunargjald verður áfram rukkað en það verður 34.650 kr. árið 2023.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 5. desember 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 30. nóvember 2022 á tillögu um breytingu á gildistíma reglna Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL22110264

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikið framfaraskref var tekið í þjónustu við fólk með fötlun þegar samningum um notendastýrða persónulega þjónustu var komið á fót. Ljóst er að þjónustuformið hefur haft mikil og jákvæð áhrif á líf og störf einstaklinga sem hafa notið þjónustunnar, það hefur verið valdeflandi og aukið sjálfstæði einstaklinganna. Mikil eftirspurn hefur verið eftir þessum samningum og hafa myndast biðlistar eftir þjónustunni, sem sýnir skýrt vilja fólks með fötlun. Hér er samþykkt að framlengja reglur um NPA en á sama tíma bíðum við eftir því að ríkið framlengi innleiðingartímann og tryggi mótframlög svo unnt sé að fjölga samningum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins styður tillöguna. Það er með öllu ólíðandi sú óvissa sem ríkir um framtíð NPA þjónustunnar. Ríkisstjórnin fól sveitarfélögunum framkvæmd NPA þjónustunnar en hefur þráast við að láta fjármagn fylgja. Það er ekki á það bætandi fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af framtíð þjónustunnar. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að Alþingi muni samþykkja breytingartillögur stjórnarandstöðunnar um viðhlítandi fjármögnun NPA þjónustunnar á næsta ári, þannig að fatlað fólk geti notið þeirrar lögbundnu þjónustu sem þau eiga svo sannarlega rétt á.

  Fylgigögn

 13. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók. MSS22120021

 14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð uppfærð drög að erindisbréfi valnefndar um tilnefningar í umdæmisráð barnaverndar Reykjavíkur þar sem lagt er til að Trausti Fannar Valsson verði formaður valnefndarinnar.

  Samþykkt. MSS22110171

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. desember 2022, þar sem drög að erindisbréfi samninganefndar vegna Keldna og Keldnaholts er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS22040189

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Erindisbréf samninganefndar vegna Keldna og Keldnaholts er lagt fram. Meirihlutinn leggur til að starfshópinn skipa: Fulltrúi lögfræðiteymis á SBB, fulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs, fulltrúi eignaskrifstofu og fulltrúi framkvæmda- og viðhalds. Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hvort ekki hefði mátt skoða betur að fá meiri fjölbreytni inn í dómnefndina, þ.m.t. einhvern utanaðkomandi, til að tryggja einhverja tengingu við borgarbúa og aðra áhuga- og hagsmunaaðila og samráð við íbúa/borgarbúa.

  Fylgigögn

 16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg undirriti hjálagða yfirlýsingu The Montreal Pledge, þar sem borgir taka höndum saman um að vinna gegn hnignun líffræðilegrar fjölbreytni með mikilvægum aðgerðum. Með yfirlýsingunni er borgum gefinn kostur á að taka þátt í 15 skrefa skuldbindingu sem verður undirrituð á 15. ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, COP 15 í Montreal 7.-19. desember 2022 þar sem ríki heims munu samþykkja að vinna í samræmi við Post-2020 Global Biodiversity Framework. Yfirlýsingin er í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um að tryggja líffræðilega fjölbreytni með verndunaraðgerðum, rannsóknum, vöktun og fræðslu.

  Samþykkt. MSS22120010

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins veltir fyrir sér tilgangi með yfirlýsingu af þessu tagi, fyrir hvern er hún og hverju hún skilar. Er þetta hugsað sem hvatning til að gera betur. Ef svo er þá er það gott. Stefna Reykjavíkurborgar til að tryggja líffræðilega fjölbreytni er metnaðarfull en raunveruleikinn er svo nokkur annar. Borgaryfirvöld telja sér sífellt til tekna ef smá blettur er bættur með einhverjum gróðri, en svæði auðug af lífríki er eytt af minnsta tilefni og hér er átt við fjörur í borgarlandinu og hvernig rústa á Vatnsendahvarfinu með hraðbraut. Það er ekki mikið grænt í þessum aðgerðum. Þriðji áfangi Arnarnesvegar sem kljúfa mun Vatnsendahvarfið skaðar lífríki svæðisins. Byggja á þessa framkvæmd á 18 ára umhverfismati og ekki er tekið í mál að gera nýtt eins og farið hefur verið fram á ítrekað.

  Fylgigögn

 17. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um boðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2022. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. desember 2022.
  Samþykkt. MSS22110209

  Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er samþykkt. Vakin er athygli á að lögreglustjórinn mætti fyrir borgarráð fyrr á þessum fundi.

  Fylgigögn

 18. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 5. desember 2022, á fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samstarf Hopp og Strætó bs., sbr. 49. liður fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí 2022. MSS22070055

  Fylgigögn

 19. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 5. desember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Klapp, greiðslukerfi Strætó, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí 2022. MSS22070062

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Verið er að svara fyrirspurn Flokks fólksins frá í mars um hversu margar kvartanir hafa borist vegna hins nýja greiðslukerfis Klapp. Segir í svari að fjölmargar ábendingar/kvartanir hafi borist við innleiðingu greiðslukerfis Strætó en ekki hefur verið haldið utan um fjölda þeirra. Þetta finnst Flokki fólksins skrítið því Strætó bs. hefur einmitt verið svo akkúrat með að halda utan um kvartanir og afgreiðsluferli þeirra. Fram kemur í svari að nokkrir möguleikar eru í stöðunni ef fólk er ekki tölvu- eða nettengt til að fylla á Klappið en eftir stendur að finna varanlega lausn ef viðkomandi getur ekki, af einhverjum orsökum notað rafræn skilríki. Nú segir að reynt sé að hjálpa eftir hendinni.

  Fylgigögn

 20. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 1. desember 2022. MSS22010025

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Það er engu líkara en að í svari skrifstofu rafrænnar Reykjavíkur við fyrirspurn fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands um vefþulu á vef Reykjavíkurborgar að það sé beinlínis verið að ýja að því að uppsetning vefþulu á vefjum Reykjavíkurborgar sé nánast óvinnandi vegur vegna þess hve flókið og víðtækt vefsvæði borgarinnar er. 
  Þessar skýringar koma á óvart í kjölfar allra kynninga þjónustu- og nýsköpunarsviðs um það hversu notendavæn og einföld öll vefsvæði borgarinnar séu og eigi að vera. Einnig kemur fram í svari að innleiðing vefþulu sé í athugun en mikillar greiningarvinnu og rannsókna sé þörf áður en hægt sé að finna einhverja lausn. Fulltrúi Flokks fólksins þykist heyra hér gamalkunnug stef í svörum sviðsins gagnvart óskum um lausnir sem búið er að kaupa en ekkert bólar á að birtist notendum, að leggjast þurfi í miklar notendarannsóknir og pælingar áður en eitthvað sé hægt að gera. Í þessu eins og öðru er að alveg ótækt að sviðið sé búið að greiða leigu af Red Speaker kerfinu frá 2020 án þess að hafa klárað að koma því í virkni.

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 29. nóvember 2022. MSS22010022

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

  Flokkur fólksins tekur undir þessa bókun ráðsins að það sé ótækt að hluti starfsfólks hafi ekki getað sótt íslenskunámskeið á vinnutíma vegna manneklu á vinnustað þeirra eins og könnun Sameykis sýnir í niðurstöðum. Það er algert grunnatriði að fólk af erlendum uppruna geti sótt fræðslunámskeið til að læra um sín réttindi og íslenskunámskeið til að komast sem fyrst inn í íslenskt samfélag. Aukinheldur sýnir könnun Sameykis að starfsfólk af erlendum uppruna þekki síður réttindi sín sem er grafalvarlegt mál að mati Flokks fólksins.

  Fylgigögn

 22. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 10. nóvember og 1. desember 2022. MSS22010006

  Fylgigögn

 23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS22110226

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. og 8. lið yfirlitsins:

  Fulltrúi sósíalista tekur heilshugar undir erindi Samfés, landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, vegna fyrirhugaðrar styttingar opnunartíma félagsmiðstöðva hjá Reykjavíkurborg þar sem skorað er á borgina að endurskoða það að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva fyrir unglinga. Þar er fjallað um hagræðingartillögu meirihluta borgarstjórnar sem beinast að mikilvægri þjónustu við börn og ungmenni og mikilvægi þess að stórauka stuðning við börn er ítrekuð. Fulltrúi sósíalista tekur einnig undir erindi frá aðstandendum Sigluness sem skora á borgarfulltrúa að standa vörð um starfsemina og koma í veg fyrir að Siglunesi verði lokað. Mikilvægt er að skerða ekki þjónustu við börn og ungmenni. Slíkt mun kosta meira til langtíma bæði fjárhagslega og félagslega. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. og 8. gr. yfirlitsins:

  Hér er um að ræða breytingartillögur meirihlutans sem höggva í þjónustu við börn og unglinga. Þessu er mótmælt í erindi Samfés, landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa en fyrirhugað er að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva hjá Reykjavíkurborg. Loka á Siglunesi og í erindi fyrrverandi starfsfólks Sigluness er skorað á meirihlutann að standa vörð um starfsemina og koma í veg fyrir að Siglunesi verði lokað. Flokkur fólksins hélt að það ætti að hlífa börnum og þjónustu við viðkvæma hópa. Síðari tillögunni hefur reyndar verið vísað til íþrótta- og tómstundasviðs þar sem fulltrúi Flokks fólksins óttast að hún verði felld. Mikil andstaða er við þessar tillögur meirihlutans. Undirskriftalistar liggja fyrir varðandi Siglunesið. Einnig á að leggja niður starfsemi unglingasmiðja og segja á upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27. Flokkur fólksins mótmælir þessu harðlega.

  Fylgigögn

 24. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22110227

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins hefur nokkrar áhyggjur af öllum þessum tímabundnu rekstrar- og áfengisleyfum í miðbænum, á stöðum sem eru inn í íbúðahverfum. Ef farið er yfir hávaðamörk í þessum tilfellum sem eru tímabundin leyfi er ekki mikið hægt að eltast við það en búið er að ræna engu að síður íbúa í nágrenninu svefnfriðnum í einhverjar nætur. Á meðan eftirfylgni með hávaðareglugerð er ekki meiri en raun ber vitni er varla hægt að vera að dæla út leyfum að mati fulltrúa Flokks fólksins. Skemmst er að minnast „hávaðasamrar útitónlistarkeyrslu“ Nova og Manhattan Marketing, sem er rekstraraðili skautasvellsins á Ingólfstorgi 1. desember, með drynjandi bassa, sem fór langt yfir viðmiðunarmörk (55 dB). Hávaðinn lagðist yfir miðborgina með fullum þunga, sem náði alla leið upp á Skólavörðustíg“. Í skeyti frá íbúum segir að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gegnum starfsmann Reykjavíkurborgar, tókst ekki að fá styrkinn lækkaðan í gegnum þann tengilið. Hér eru aftur á ferðinni „saklausar“ umsóknir sem fá jákvæða umsögn enda skilyrði uppfyllt en ef þessi mál eru ekki rædd við umsóknaraðila og ef Heilbrigðiseftirlitið bregst ekki við kvörtunum eða lögregla þá má búast við fleiri svefnlausum nóttum í nágrenni þessara staða.

  Fylgigögn

 25. Lagt fram fundadagatal borgarráðs 2023.
  Samþykkt. MSS22060038

  Fylgigögn

 26. Lögð fram ítrekun á tillögu borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kynningu á innheimtuaðferðum B-hluta fyrirtækja, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst 2022:

  Óskað er eftir því að öll B-hluta fyrirtækin sem eru í meirihlutaeigu borgarinnar og rukka íbúa fyrir þjónustu í formi reikninga, komi á fund borgarráðs til þess að kynna verklag í kringum innheimtu reikninga innan sinna fyrirtækja. Einnig er óskað eftir skriflegu minnisblaði frá B-hluta fyrirtækjunum þar sem fram kemur hvernig staðið sé að innheimtunni. Óskað er eftir upplýsingum um hver sjái um innheimtu, milliinnheimtu og löginnheimtu fyrir umrædd fyrirtæki, hvort og hvenær innheimtuviðvaranir séu sendar sé reikningur ógreiddur, hvenær kröfur fari í milliinnheimtu og jafnframt hvað þurfi að eiga sér stað sem leiði til þess að krafa fari í löginnheimtu.

  Frestað. MSS22080174

 27. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins leggur til að tillaga meirihlutans um að leggja niður starfsemi Vinjar verði endurskoðuð. Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka frá fólki með geðraskanir vettvang þar sem þeir njóta félagsskapar. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár. Vin er stórum hópi gríðarlega mikilvægur staður enda er þar góð og mikil starfsemi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki ganga að niðurskurðarhnífurinn gangi svo nærri þjónustu sem þessari. Það er viðkvæmur hópur sem sækir Vin og margir líta á staðinn sem sitt annað heimili.

  Frestað. MSS22120043

 28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðað yfirlit yfir þjónustuþætti og eðli erinda til Dýraþjónustu Reykjavíkur sem snúa að hundum í Reykjavík og hvernig þjónusta hefur verið veitt t.d. ráðgjöf eða útköll. Óskað er eftir upplýsingum frá því að Dýraþjónusta Reykjavíkur var stofnsett og þær bornar saman við þrjú ár fyrir stofnun hennar. Tillaga meirihlutans liggur nú fyrir um að það verði innheimt eitt gjald 15.700 kr. Ekki verður rukkað á skráningarári (er nú 12.200 kr.). Skráningargjald verður 0 kr., var 2.200 kr. Flokkur fólksins bendir á að verið er að einfalda kerfið en í þessu felst engin lækkun fyrir hundaeigendur. Gulrótin til að fá hundaeigendur til að skrá hunda sína er að ekki verður rukkað árgjald fyrsta árið þegar hundur er skráður. Segir í gögnum að eftir að stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur hefur ásókn í þjónustu, símtöl og ráðgjöf aukist mikið og snúa flest erindi um hunda. Þetta vill Flokkur fólksins fá staðfest með því að sjá tölur.

  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS22120039

 29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir nánari útskýringum á eðli og umfangi samstarfs þjónustu- og nýsköpunarsviðs við Samband íslenskra sveitarfélaga og Stafrænt Ísland í stafrænni umbreytingu. Í ræðu formanns stafræns ráðs í borgarstjórn 6. desember. kom fram að sviðið telji að sameiginleg innkaup með öðrum opinberum aðilum leiði til hagkvæmni og ávinnings fyrir alla. Þetta breytta viðhorf sviðsins gagnvart þátttöku borgarinnar í víðtækara samstarfi ríkis og sveitarfélaga kemur Flokki fólksins nokkuð á óvart. Eins og flestir vita hefur fulltrúi Flokks fólksins ítrekað verið að benda á mikilvægi samstarfs við Stafrænt Ísland, án þess að nokkuð hafi verið á það hlustað. Vert er að minnast á fyrirspurn frá Flokki fólksins á sínum tíma varðandi það af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi ekki tekið boði ríkisins til þátttöku í útboði ríkis og sveitarfélaga á Microsoft leyfum fyrir skóla. Þá var svar sviðsins á þá leið að Reykjavíkurborg hafi gert miklu betri samninga við Microsoft heldur en ríkið ásamt öðrum sveitarfélögum. Í framhaldi af því vill fulltrúi Flokks fólksins fá að vita hvort þær fullyrðingar sviðsins standist miðað við þá breyttu nálgun sem formaður stafræns ráðs kynnti í ræðu sinni í borgarstjórn.

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS22120042

 30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar frekari skýringa í kjölfar kynningar formanns stafræns ráðs á verkefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs í borgarstjórn 8. desember. Formaður ráðsins upplýsir á borgarstjórnarfundi að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé búið að smíða fyrstu útgáfu nemendagrunns sem ætlaður sé fyrir alla grunnskóla á Íslandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill vita hvort Reykjavíkurborg sé komin með víðtæka sölu- og þjónustusamninga við ríkið varðandi innleiðingu kerfisins eða ætli sér að gefa þetta endurgjaldslaust. Annað sem fulltrúi Flokks fólksins óskar skýringar á er sú fullyrðing formanns ráðsins að Samband íslenskra sveitarfélaga, Stafrænt Ísland og aðrar borgir í stafrænni vegferð „hafi ekki á lager staðlaða mælikvarða sem taka heildstætt utan um afleiddan ávinning stafrænna umbreytinga“. Hefur verið gerð alþjóðleg könnun á þessu? Einnig vill fulltrúinn fá að vita hver sé áætlaður kostnaður þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna fyrirhugaðrar smíði sviðsins á þessum „árangursmælikvörðum sem stefnt er á að meti heildstætt hagræðinguna og samfélagslegan og umhverfislegan ábata í takt við Græna planið”. Loks er spurt af hverju sviðið ætli að eyða bæði tíma og fjármunum í þetta. Eiga svona mælingar ekki heima hjá þar til gerðum greiningarfyrirtækjum á markaði, sem er kannski ástæða þess að aðrar borgir eru ekki með svona á lager.

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS22120041

 31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um það hversu margar MacBook Pro og MacBook Air fartölvur ásamt öðrum Apple búnaði, þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið að kaupa undanfarin þrjú ár og fyrir hvaða starfsemi innan borgarinnar. Vill fulltrúinn einnig sjá hver dreifingin er á þessum búnaði eftir sviðum, skrifstofum og deildum. Einnig vil fulltrúinn fá að vita hvaða rök þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fyrir kaupum á svona dýrum búnaði fyrir borgarfulltrúa og annað starfsfólk sem ekki er beint að vinna með þunga grafík, krefjandi hljóðvinnslu eða annað sem krefst slíks tækjabúnaðar. Það kemur fulltrúa Flokks fólksins á óvart að þjónustu- og nýsköpunarsvið skuli bjóða starfsmönnum og borgarfulltrúum upp á að vera með MacBook Pro fartölvum og annan Apple búnað þegar ljóst er að slíkur búnaður er mun dýrari en hefðbundnar PC tölvur. Fulltrúinn fær ekki betur séð en að einhver hluti borgarfulltrúa hafi einmitt fengið úthlutað MacBook Pro fartölvur til þess að fletta í gegnum fundargerðir og annað sem ekki flokkast beint undir þunga tölvuvinnslu. Þarna er enn eitt dæmið um það hversu frjálslega sviðið virðist fara með það fé sem því er úthlutað af skattfé borgarbúa.

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS22120040

Fundi slitið kl. 11:55

Einar Þorsteinsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Pawel Bartoszek

Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarrad_0812_0.pdf