Borgarráð - Fundur nr. 5683

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 3. nóvember 2022, var haldinn 5682. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Eftirtaldir fulltrúar, ásamt borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með rafrænum hætti: Þorsteinn Gunnarsson og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. nóvember 2022:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.681 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 3,02%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.448 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 190 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 7,20%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem er 118 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 2. nóvember 2022. FAS22010057

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram tillögu um að fresta afgreiðslu málsins.
  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillaga borgarstjóra er samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti borgarráðs hefur samþykkt tilboð að nafnvirði 1.681 milljón króna miðað við 3,02% ávöxtunarkröfu í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs og tilboð í 190 milljóna króna óverðtryggðan skuldabréfaflokk miðað við 7,20% ávöxtunarkröfu. Hér er um mikilvæga ákvörðun að ræða enda fara skuldir borgarsjóðs nú hratt vaxandi á sama tíma og lánskjör versna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við að umrædd tillaga, ásamt greinargerð, hafi verið send til fulltrúa í borgarráði einungis tæpri klukkustund fyrir fund og hún síðan afgreidd í miklu tímahraki á fjarfundi en tilkynnt var að málið þyldi ekki bið. Þar með höfðu fulltrúar í borgarráði afar takmarkað svigrúm til að kynna sér umrædda tillögu og greinargerð, sem varðar þó mikla hagsmuni. Með óviðunandi upplýsingagjöf og mikilli tímapressu býr borgarstjóri svo um hnúta að borgarráð fær ekki eðlilegt svigrúm til að rýna umrædda tillögu og greinargerð með fullnægjandi hætti. Enda virðist hann líta á borgarráð sem eins konar stimpilpúða, sem eigi án eðlilegrar rýni, að samþykkja vafasamar ráðstafanir meirihlutans í fjármálum borgarinnar.

  Borgarráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Meirihlutinn leggur til að borgarráð samþykki tilboð í verðtryggðan skuldabréfaflokk. Greinagerð fylgir. Lítill sem enginn fyrirvari var á þeim aukafundi sem boðað var til, til að afgreiða málið. Gögn komu seint og sum gögn eru leynileg. Flokkur fólksins hefur enga möguleika haft til að kynna sér þetta mál til að hafa á því skoðun. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum. Réttast væri að fresta málinu, alla vega um einn dag til að setja minnihlutann betur inn í tilboðin. Af hverju þessi hraði og af hverju er ekki vitað um þetta fyrr? Hér er greinilega eitthvað neyðarástand í gangi.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Skuldabréfaútboð eru afgreidd með hefðbundnum hætti nú eins og endranær. Þá er rétt að benda á að skuldahlutföll borgarinnar eru lægri sé litið til skuldahlutfalla nágrannasveitarfélaga og ríkissjóðs.

  Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins óskar eftir fá sundurliðaða kostnaðargreiningu sem liggur að baki gjaldskrá hundaeftirlitsgjalda. Hækkunin er 10% milli ára. Skýra þarf þessa hækkun þar sem fyrir liggur að verkefnum sem tengjast hundum hefur fækkað og samlegðaráhrif aukist. Einnig er spurt hvernig gjaldskráin samræmist  lagaheimildinni sem tiltekur að í hundasamþykktum megi eingöngu  innheimta gjöld fyrir það sem þarf að gera. Skýra þarf og rökstyðja ef gerðar eru ítarlegri kröfur en þær sem fjallað er um í reglugerðum sem falla undir lög um hollustuvernd. MSS22110018

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 3. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við bæklinginn um uppbyggingu íbúða í borginni, dags. nóvember 2022. Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við 1. vinnu við umsjón og ritstjórn, efnis- og myndöflun, textaskrif, uppsetningarvinnu, leiðréttingar, frágang og samskipti við verkkaupa, 2. hönnun og umbrot, 3. prentun og 4. dreifingu. MSS22110019

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Fundi slitið kl. 10:28

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Dagur B. Eggertsson Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Trausti Breiðfjörð Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarrad_0311.pdf