No translated content text
Borgarráð
Ár 2022, fimmtudaginn 22. september, var haldinn 5677. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. september 2022, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 20. september 2022 hafi verið samþykkt að Andrea Jóhanna Helgadóttir taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Trausta Breiðfjörð Magnússonar. MSS22060043
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. september 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2022 á trúnaðarmerktum tillögum að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022. MSS22090122
Samþykkt.Trúnaður er um efni tillagnanna fram að afhendingu viðurkenninganna. Bókanir undir þessum lið færðar í trúnaðarbók.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. september 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar, svæðis 1, vegna lóðanna nr. 1 og 2 við Stefnisvog (reitir 1-2 og 1-6), ásamt fylgiskjölum. MSS22090124
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. september 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2022 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel, ásamt fylgiskjölum. MSS22010054
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill undirstrika að með þessari breytingu verði byggingarmagn á lóðinni ekki aukið. Áhyggjur eru af því. Fínt er að húsið Reynimelur 66 fái að standa áfram. Íbúar þurfa að fá að vera með í þessum ákvörðunum og fá að sjá gögn í tíma og með skýrum hætti. Öðruvísi er ekki hægt að mynda sér skoðun á málinu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. september 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis, svæði 4, vegna lóðarinnar nr. 1 við Undraland, ásamt fylgiskjölum. MSS22090125
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-júlí 2022, dags. 20. september 2022. FAS22060027
Bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók.
Halldóra Káradóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. september 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa stofnframlög vegna almennra íbúða til umsóknar til samræmis við auglýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnframlög. FAS22090028
Samþykkt.Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. september 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að kaupa hluta af landi Móavíkur, ásamt fylgiskjölum. FAS22090016
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. september 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu að umgjörð samstarfsverkefnis Reykjavíkurborgar og Betri samgangna ohf. um skipulagssamkeppni til undirbúnings rammahluta AR2010-2040 og fyrstu deiliskipulagstillagna um þróun Keldna og Keldnalands í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 28. apríl sl. um gerð viljayfirlýsingar við Betri samgöngur ohf. Gert er ráð fyrir að formaður borgarráðs sitji fundi stýrihóps verkefnisins. Verkefnisstjórn mun leggja fram tillögu að samkeppnisformi og samsetningu dómnefndar ásamt kostnaðar- og tímaáætlun á fundi stýrihóps í október nk. og í framhaldi verði tilhögun samkeppninnar kynnt í borgarráði. MSS22040189
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Keldnaland og Keldnaholt eru meðal stóru uppbyggingarreitanna í borginni á næsta áratug. Mikilvægt er að vanda til verka með markmiðum um vandaða, þétta og græna byggð sem skapar góðan borgarbrag. Í því ljósi er verið að samþykkja umgjörð að samkeppni um þróun Keldna og Keldnaholts. Þegar úrslit samkeppninnar liggja fyrir á næsta ári verður aðalskipulagi og deiliskipulagi á svæðinu breytt með tilliti til niðurstaðanna.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista hefur áhyggjur af því að húsnæðisuppbygging á svæðinu muni ekki þjóna þörfum þeirra tekjulægri og þeim sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði ef áherslan er „að hámarka virði“ einungis á fjárhagslegum forsendum. Mikilvægt er að staðið verði við það að a.m.k. 20% íbúða verði leiguíbúðir, þ.m.t stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., íbúðir fyrir aldraða og/eða búseturéttaríbúðir og að sú uppbygging komist hratt af stað íbúum til góða. Fulltrúar sósíalistar árétta að 20% er algjört lágmark þess sem þarf að gera í núverandi stöðu. Rétt er að minna á hver ein fyrstu orðin í loforðapakkanum frá stjórnvöldum, sem uppbygging Keldnalandsins er hluti af, eru: „Aðgerðirnar nýtist best ungu fólki og þeim tekjulægri“. Í viljayfirlýsingu um samstarf vegna þróunar og uppbyggingar Keldnalands og Keldnaholts og flýtingu uppbyggingar innviða tveggja borgurlínuleiða er fjallað um að „ [...] vinna að hámörkun á virði landsins [...] “. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að unnið verði að því að hámarka félagslegt virði í stað virðis í fjárhagslegu formi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er rætt um samkeppni um þróun Keldnalands og Keldnaholts. Samkeppni er af hinu góða enda eykur hún valkosti. Huga þarf að blandaðri byggð og fjölbreytni. Einnig að því að auka hlutfall af hagkvæmu húsnæði en hagkvæmt húsnæði hefur sárvantað. Auka þarf hressilega framboð af ódýru, vönduðu húsnæði í Reykjavík og á Keldnalandi og Keldnaholti er tækifæri til þess. Keldnaland og Keldnaholt eru stórir reitir sem hafa verið í umræðunni lengi. Málið er mörgum hugleikið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. september 2022, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Rannveigu Einarsdóttur í starf sviðsstjóra velferðarsviðs en hún er metin hæfust til þess af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði í júlí 2022. MSS22070110
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Dagur B. Eggertsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Stella Kristín Víðisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð þakkar ráðningarnefnd vegna ráðningar sviðsstjóra velferðarsviðs fyrir vinnuna og óskar jafnframt Rannveigu til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska nýjum sviðsstjóra velgengni í starfi, með von um gott samstarf.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. september 2022, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Eirík Björn Björgvinsson í starf sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs en hann var metinn hæfastur til þess af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði í júlí 2022. MSS22070113
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Dagur B. Eggertsson og Lóa Birna Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð þakkar ráðningarnefnd vegna ráðningar sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs fyrir vinnuna og óskar jafnframt Eiríki til hamingju með starfið og óskar honum velfarnaðar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Athugasemdir vegna vinnubragða við ráðningarferli sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs, sem bókaðar voru fyrr í ferlinu eru ítrekaðar. Athygli vekur að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru nokkrir umsækjendur með afar víðtæka og farsæla stjórnunarreynslu á sviði íþrótta-, tómstunda- og/eða menningarmála, ekki boðaðir í viðtal vegna ráðningar í umrætt starf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska þó nýjum sviðsstjóra velgengni í starfi, með von um gott samstarf.
Fylgigögn
-
Lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir taki sæti sem fulltrúi Reykjavíkurborgar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA. MSS22010025
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22090136 -
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 15. september 2022. MSS22010025
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun þar sem áhersla er lögð á að unnar verði úrbætur sem gera fötluðu fólki kleift að nálgast persónuleg gögn á borð við upplýsingar í Heilsuveru, netbanka, mínum síðum Reykjavíkurborgar, Tryggingastofnunar og fleiri stöðum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að leita þurfi lausnar á stafrænum aðgengishindrunum sem fyrst því þær eru brot á fullgildum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðgengishindrun hefur valdið mörgum fötluðum miklu álagi.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 8. september 2022. MSS22070029
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. og 15. lið fundargerðarinnar:
7. liður: Sótt er um undanþágu fyrir heimsóknir hunda í skólastofu í Fossvogsskóla. Fulltrúi Flokks fólksins telur orðið brýnt að breyta reglugerð um hollustuhætti. Flækjustig og skriffinnska sem fylgir umsókn af þessu tagi er út í hött. Sama gildir sé óskað eftir heimsókn hunda á hjúkrunarheimili ef því er að skipta. Hér er um að ræða heimsókn hundar tvisvar í viku í fáeinar klukkustundir í senn og skilyrðin sem sett eru eru með ólíkindum. Meðal skilyrða er t.d. sérstök leið fyrir hundinn út og inn, stofan sótthreinsuð eftir heimsókn hundsins og sérstakar ráðstafanir vegna öryggismála. Reglugerð sem þessi er aftan úr fornöld og ekki borginni til sóma. Kominn er tími á að nútímavæðast þegar kemur að samskiptum við gæludýr í opinberum byggingum. 15. liður: Í svari Heilbrigðiseftirlitsins við fyrirspurn Flokks fólksins um samráð við íbúa í nágrenni við svæðið vegna veitingu starfsleyfis fyrir skotvöll í Álfsnesi segir að „starfsleyfistillagan hafi verið auglýst á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og tilkynning send til íbúa. Á auglýsingatímabilinu var heimilt að gera skriflegar athugasemdir.“ Telja má víst að að skriflegar athugasemdir hafi borist og þær ófáar enda íbúar langþreyttir á starfsemi skotvallarins en óskir íbúa hafa með öllu verið hunsaðar.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 15. september 2022. MSS22010006
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 14. september 2022. MSS22010032
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista tekur undir bókun íbúaráðsins um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi sem er svohljóðandi: „Íbúaráð Laugardals þakkar fulltrúa foreldrafélaganna fyrir kynninguna, sem var ítarleg og vönduð. Ljóst er að um er að ræða uppsafnað vandamál sem hefur tekið of langan tíma að afgreiða og leysa. Einnig er mikilvægt, í ljósi þess að byggja á gagnkvæmu trausti milli skólafélagsins og svo borgaryfirvalda, að tekið sé mark á því sem hagsmunaaðilar skólafélaganna hafa að segja um málið. Engin þekkja betur hvað skiptir máli fyrir velferð barnanna sem og hverfisins en einmitt þessir aðilar. Íbúaráðið leggur þunga áherslu á að tímasett áætlun með forgangsröðun um úrbætur í húsnæðismálum skólanna verði kynnt og hrundið í framkvæmd sem allra fyrst. Íbúaráðið tekur undir með meirihluta umsagnaraðila sviðsmyndagreiningarinnar „framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugardal“ að farið verði eftir sviðsmynd 1 sem felur í sér að stækka hvern skóla fyrir sig.“ Einnig tekur fulltrúi sósíalista undir mikilvægi þess að farið verði í umferðaröryggisáætlanir og að unnið verði að frágangi í Vogabyggð.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að foreldrar eigi sterka rödd í íbúaráðinu. Því miður hafa borgaryfirvöld brugðist foreldrum og börnum þessa hverfis í mörg ár. Fulltrúi Flokks fólksins væri ekki hissa þótt djúpstæður trúnaðarbrestur væri orðinn eftir samskipta- og afskiptaleysi sem skóla- og frístundasvið hefur sýnt íbúum hverfisins. Beðið er nú staðfestingar á að sviðsmynd 1 sem langflestir aðhyllast verði valin en hún felur í sér að stækka hvern skóla fyrir sig og vernda þannig skólagerð þeirra, skólahverfin og hverfamenningu. Það vantar einnig tímalinu framkvæmda, forgagnsröðun, um kostnað, um rekstrarkostnað, hvernig á að bæta íþróttaaðstöðu og fleira. Laugalækjarskóli er eini grunnskólinn í borginni með 7.-10. bekk. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 167 frá 2008 og stefnir í fjölgun 115 út áratuginn. Ástandið er slæmt. Húsnæðisskortur hefur verið frá 2013. Íþróttahúsið er barn síns tíma. Nú eru 7 færanlegar stofur og eiga 2 að bætast við. Allt annað er löngu sprungið, mötuneyti, smíða-, myndmennta- og tónmenntaaðstaða og aðstaða fyrir kennara og starfsfólk. Skólahljómsveitinni hefur verið úthýst. Hljóðvist er erfið og loftræstingu vantar í gamla skólahúsinu. Úttekt á rakaskemmdum stendur yfir. Frístund er fjarri.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. september 2022. MSS22060175
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins tekur undir erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um umferðaröryggi í miðborginni. Í miðborginni er 30 km hámarkshraði. Hópur ökumanna virðir ekki þennan hraða og það skapar hættu. Grípa þarf til markvissra aðgerða til að sporna við hraðakstri á þessum götum sem nefndar eru í erindinu. Í þessu sambandi langar fulltrúa Flokks fólksins að nefna götu sem áður hefur komið til tals þegar talað er um umferðaröryggisaðgerðir og er það Laugarásvegurinn sem er sérstök gata fyrir þær sakir að hún er löng, breið og tengir saman hverfi. Nauðsynlegt er að skoða aðrar leiðir sem virka til að minnka hraðakstur á þessu götum. Íbúar vita best hvaða úrræði virka helst. Þeir hafa nefnt að setja þarf upp fleiri hraðahindranir og laga þær sem fyrir eru. Einnig að bæta við hraðamyndavélum. Í umsögn kemur hins vegar fram að ekki sé talið tilefni til þess að forgangsraða aðgerðum á þeim stöðum sem nefndir eru í erindi íbúaráðsins. Ef þetta er niðurstaða skipulagsyfirvalda er ekki verið að hlusta á íbúa að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hvað varð um samráðið?
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 14. september 2022. MSS22010024
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar:
Árið 2020 var skipaður stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Fulltrúi Flokks fólksins átti sæti í þeim hópi sem var um það bil að skila af sér þegar einn fulltrúi meirihlutans stöðvaði ferlið. Verið er að mynda nýjan hóp nú. Fulltrúa Flokks fólksins þótti þetta miður og var aldrei upplýstur um ástæðu þess að hópurinn fékk ekki að kynna niðurstöður sínar. Hópurinn 2020 var byggður á tillögu Flokks fólksins frá 2019, sennilega þeirri einu sem fékk hlustun að heitið geti á síðasta kjörtímabili. Tillagan hljóðaði svo: „Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og þjóna sínum tilgangi. Því hefur þó verið fleygt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Hafa ber í huga að þeir sem nú eru aldraðir eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Flokkur fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem skoði að beita aðferðum nýsköpunar við þróun nýrra þjónustuleiða og afþreyingar fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.“
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. MSS22080224
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið yfirlitsins:
Fulltrúi sósíalista ítrekar það sem kemur fram í bréfi umboðsmanns barna í tengslum við hækkun á gjaldskrá þar sem gjald fyrir árskort ungmenna hækkaði verulega og ljóst er að slíkt hafi mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Umboðsmaður barna óskaði eftir svörum við því hvort mat hafi verið lagt á áhrif þessarar ákvörðunar og tekur fram að hún sé tekin á vettvangi sveitarfélaga sem hafa lýst því yfir að vera barnvæn. Um nauðsynlega þjónustu er um að ræða fyrir börn. Einnig er fjallað um ákvörðun núverandi meirihluta um að afnema gjaldtöku í strætó fyrir börn á grunnskólaaldri, ekki hefur komið fram hvenær eigi að ráðast í umræddar breytingar, né með hvaða hætti. Sósíalistar ítreka mikilvægi þess að börn verði ekki rukkuð fyrir nauðsynlega þjónustu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið yfirlitsins:
Fulltrúi Flokks fólksins vill beina athygli að bréfi umboðsmanns barna um gjaldtöku í strætisvögnum fyrir börn þar sem hann kallar eftir svörum við bréfum sínum. Bréfið er sent til framkvæmdastjóra og stjórnar Strætó bs., þar sem óskað var skýringa vegna nýrrar gjaldskrár, en samkvæmt henni hækkaði gjald fyrir árskort ungmenna verulega, eða úr 25.000 kr. í 40.000 kr., en hækkunin er um 60%. Segir í bréfinu að í janúar hafi umboðsmaður barna sent bréf til borgarstjóra Reykjavíkur þar sem óskað var svara við því hvernig umrædd hækkun samræmist bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hafa borist svör átta mánuðum eftir að það var sent. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig á þessu enda er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Einnig hefur spurningu umboðsmanns ekki verið svarað um hvort mat hafi verið lagt á áhrif þessarar ákvörðunar á þau börn sem ljóst er að hækkunin snerti hvað mest, þ.e. börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22080225
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
Öllum styrkumsóknum er hafnað. MSS22010042
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að láta fara fram könnun hjá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks á ánægju þeirra með störf aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkur í málefnum fatlaðs fólks.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22090167
Frestað.Fylgigögn
Fundi slitið kl. 10:50
Einar Þorsteinsson Heiða Björg Hilmisdóttir
Alexandra Briem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon
Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarrad_2209.pdf