Borgarráð - Fundur nr. 5676

Borgarráð

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 9. september 2022, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 6. september 2022 hafi verið samþykkt að Alexandra Briem og Kjartan Magnússon taka sæti í borgarráði stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur og Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt var samþykkt að Magnús Davíð Norðdahl og Björn Gíslason taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Alexöndru og Kjartans. MSS22060043

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. september 2022 á breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðisins Esjumela á Kjalarnesi vegna Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22050188

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Innviðir til úrvinnslu úrgangs og endurvinnanlegra efna þurfa að fá sitt pláss í borginni. Það mun að öllum líkindum aukast enn frekar á næstu árum og áratugum eftir því sem mikilvægi þess að endurnýta eykst í samfélaginu vegna skuldbindinga okkar vegna loftslagsbreytinga og aðlögunar samfélagins að þeim. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Íbúar í Kollafirði, næstu nágrannar svæðis AT5-b, gerðu athugasemdir við auglýsta breytingu á deiliskipulagi um Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22. Athugasemdir ganga út á villandi orðalag. Auglýst er að um óverulega breytingu sé að ræða og segir að með því sé borgin að ganga gegn sínu eigin samþykkta skipulagi. Á svæði AT5a-b má einnig gera ráð fyrir starfsemi sem fellur undir iðnaðarsvæði, sbr. skipulagsreglugerð, en tilgreina þarf þá starfsemi sérstaklega í deiliskipulagi að undangengnu umhverfismati breytingarinnar sem horfir sérstaklega til viðkomandi starfsemi. Breytingin sem hér um ræðir ætti því að fara í deiliskipulagsferli og umhverfismat. Lóðir sem hafa verið sameinaðar og þótt þær séu í notkun sama rekstraraðila breytir það ekki þeirri staðreynd að Kalkslétta 1 er á skilgreindu iðnaðarsvæði en Koparslétta 22 er á skilgreindu athafnasvæði. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar til Íslenska gámafélagsins á Koparsléttu 22 var fellt úr gildi vegna skipulagsins UUA 153/2021. Flokki fólksins finnst að skipulagsyfirvöld eigi að taka þessar athugasemdir sem snúa að deiliskipulagsbreytingum til greina. Skilja þarf að með þessu er smám saman verið að breyta athafnasvæðinu í iðnaðarsvæði sem enginn vill hafa í sínu nærumhverfi og við hlið stærsta útivistarsvæðis borgarinnar. Íslenska gámafélagið er nú þegar með um 5 hektara iðnaðarsvæði á Kalksléttu 1.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagssviðs frá 7. september 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Líf Magneudóttir víkur af fundi undir þessum lið.
  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22090079

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. september 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að meðfylgjandi gjaldskrár heilbrigðis- og mengunareftirlits verði hækkaðar um 4,5% að jafnaði. Breytingin taki gildi um leið og birting hefur farið fram í Stjórnartíðindum í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 93/1995 um matvæli með síðari breytingum.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22060113

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er hart í ári fyrir fjölmarga. Þeir hópar sem hafa það erfitt hafa sennilega aldrei haft það eins erfitt og núna. Ójöfnuður hefur aukist mikið og bilið milli ríkra og fátækra hefur aldrei verið eins stórt þrátt fyrir að jafnaðarflokkur eins og Samfylking hafi verið meira og minna við völd í tvo áratugi. 4,5% hækkun gjaldskrár er mikil hækkun. Svo mikil hækkun á þjónustu kemur verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna. Verðbólga hefur aukist mikið sem rekja má einna helst til vanda á húsnæðismarkaði því ekki nóg hefur verið byggt. Ytri aðstæður koma líka til.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. september 2022, þar sem erindisbréf starfshóps um greiningu á tækifærum til haftengdrar upplifunar og útivistar fyrir almenning í Reykjavík er lagt fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. USK22090017

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Strandlengjan í Reykjavík er sífellt að þróast með tilliti til útivistar. Á undanförnum árum höfum við séð stóraukinn fjölda sem stunda útivist sem tengist hafinu á einn eða annan hátt. Reykjavík hefur hlutverki að gegna í því að auka enn frekar áhuga á þessu, einkum ef litið er til norrænu höfuðborganna sem margar hverjar hafa nú þegar skýra stefnu í málaflokknum. Verkefni þessa starfshóps er að greina og kortleggja svæði sem henta fyrir ýmiskonar haftengda upplifun, hvort sem um er að ræða gufuböð, heit böð, sjósund eða annarskonar upplifun við hafið og útivist víðsvegar við strandlengju Reykjavíkur. Starfshópurinn mun skoða sérstaklega ólík rekstrarform, kortleggja hvort tilraunaverkefni eigi við í einhverjum tilfellum og leggur mat á gæði eftir staðsetningum ólíkra verkefna. Þá myndar starfshópur mögulega tímalínu framkvæmda og mun skila af sér ekki seinna en 8. desember.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst ánægjulegt að sjá að loksins er hugsað um fjörur, án þess að moka yfir þær með landfyllingu. En í gögnum segir að „strandlengja Reykjavíkur er dýrmæt eign okkar allra, bætt aðgengi að henni hefur í för með sér meiri möguleika til haftengdrar upplifunar og útivistar.“ Vonandi verður landfyllingum hætt hér með.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 13. september 2022, vegna tillögu ráðgefandi hæfnisnefndar um næstu skref í ráðningu í starf sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs. Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Bókun undir þessum lið er færð í trúnaðarbók.

  Lóa Birna Birgisdóttir og Stefán Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
  Líf Magneudóttir víkur af fundinum undir þessum lið. MSS22070113

 7. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 13. september 2022, vegna tillögu ráðgefandi hæfnisnefndar um næstu skref í ráðningu í starf sviðsstjóra velferðarsviðs. Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Lóa Birna Birgisdóttir og Stella Kristín Víðisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22070110

 8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. september 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022 á drögum að rekstrarleyfi fyrir leikskólann Regnbogann, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22050133

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að leggja til breytingu á rekstrarleyfi leikskólans Regnbogans. Flokkur fólksins fagnar viðbót plássa í þeirri vegferð að hægt sé að innrita 12-18 mánaða börn. Tekið er undir umsögn foreldraráðs Regnbogans um að með því að veita Regnboganum framlag með börnum á aldrinum 12-18 mánaða líkt og í ungbarnaleikskólum er hægt að innrita börn á þessum aldri. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó nefna það sem fram kemur í nýlegri skýrslu innri endurskoðunar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Í henni koma fram upplýsingar um leikskólann Regnbogann. Gerðar eru athugasemdir og er m.a. ein athugasemd appelsínugul sem þýðir í áhættuflokkun meðal áhætta. Segir ennfremur um þennan leikskóla í skýrslunni: „Rekstraryfirlit á einu blaði, án efnahagsreiknings. Ófullnægjandi skil á ársreikningi. Fasteign í eigu Dignitas ehf: Tveir hluthafar samkvæmt fyrirtækjaskrá, en eru ekki skráðir á meðal stjórnenda eða starfsfólks.“ Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hvort áform eru um að bæta úr þessu og hvort því verði fylgt eftir.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. september 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022 á tillögu um framlag til Gaudium ehf. vegna vistunar reykvískra barna í leikskólanum Regnboganum, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22050133

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins telur að endurskoða þurfi samninga og fjárframlög til sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla í ljósi nýlegrar skýrslu innri endurskoðunar. Setja þarf skýran ramma um rekstur þessara leikskóla með tilheyrandi eftirliti. Setja þarf sektarákvæði sé skilyrðum ekki fylgt. Flokkur fólksins bókaði í borgarstjórn 6. september sl. eftirfarandi: Flokkur fólksins harmar niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Flokkur fólksins getur ekki stutt arðgreiðslur án eftirlits og skilyrða. Vissulega er það gott að rekstrarform leikskóla sé fjölbreytt en upplýsingar úr skýrslu innri endurskoðunar skapa tortryggni og vekja upp margar spurningar. Við verðum að spyrja okkur að því hvort skattfé Reykvíkinga sé vel varið í arðgreiðslur til einkaaðila. Eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga hjá sumum sjálfstætt starfandi leikskólum. Það er hætta á að starfsemin líði fyrir þetta. Tilhneiging gæti verið til að spara of mikið til að borga sér arð. Í skýrslunni kemur fram að engar kvaðir af hálfu Reykjavíkurborgar séu um arðgreiðslur eða hvernig rekstrarafgangur sem rekja má til opinberra framlaga skuli nýttur. 

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. september 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022 á tillögu um framlag skóla- og frístundasviðs til LFA ehf. vegna vistunar reykvískra barna í leikskólunum Korpukoti og Fossakoti, ásamt fylgiskjölum. 
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22070011

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins telur að endurskoða þurfi samninga og fjárframlög til sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla í ljósi nýlegrar skýrslu innri endurskoðunar. Setja þarf skýran ramma um rekstur þessara leikskóla með tilheyrandi eftirliti. Setja þarf sektarákvæði sé skilyrðum ekki fylgt. Flokkur fólksins bókaði í borgarstjórn 6. september sl. eftirfarandi: Flokkur fólksins harmar niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Flokkur fólksins getur ekki stutt arðgreiðslur án eftirlits og skilyrða. Vissulega er það gott að rekstrarform leikskóla sé fjölbreytt en upplýsingar úr skýrslu innri endurskoðunar skapa tortryggni og vekja upp margar spurningar. Við verðum að spyrja okkur að því hvort skattfé Reykvíkinga sé vel varið í arðgreiðslur til einkaaðila. Eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga hjá sumum sjálfstætt starfandi leikskólum. Það er hætta á að starfsemin líði fyrir þetta. Tilhneiging gæti verið til að spara of mikið til að borga sér arð. Í skýrslunni kemur fram að engar kvaðir af hálfu Reykjavíkurborgar séu um arðgreiðslur eða hvernig rekstrarafgangur sem rekja má til opinberra framlaga skuli nýttur.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. september 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022 á rekstrarleyfi fyrir sameinaða leikskólann Fossakot og Korpukot, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22070011

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð eru fram drög að rekstrarleyfi – Fossakot/Korpukot. Flokkur fólksins fagnar því að rekstrarform leikskóla sé fjölbreytt og tekur undir umsögn foreldraráðs um að styðja við fjölgun ungbarnadeilda leikskólans. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður, undir þessum lið, tala um það sem fram kemur í nýlegri skýrslu innri endurskoðunar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Sú skýrsla hefur ekki fengið nægjanlega umræðu í borgarumræðunni. Í henni komu fram upplýsingar um leikskólann sem hér um ræðir sem eru eftirfarandi: Gjaldskrá eins hjá báðum (sami rekstraraðili). Mánaðargjald vegna barna 18 mánaða og yngri er hærra en heimilt er. Hámarksstuðull sem á að vera 2,15 er á bilinu 2,3 upp í 3,2, mismunandi eftir dvalartíma og flokki. Gjaldskráin er því frá 7.206-21.307 kr. hærri á mánuði en heimilt er. Áhættuflokkun er rauð sem þýðir mikil áhætta og ábending er um að athuga eigi með endurgreiðslu. Þetta er áhyggjuefni.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 8. september 2022. MSS22010006

  Fylgigögn

 13. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7. september 2022. MSS22010027

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Foreldrar í Leikni hafa lengi vonast til að börnin geti æft inni á veturna í Austurberginu þar sem Fellaskóli, núverandi innanhúsaðstaða, er ekki nægilega oft laus. Undirskriftarlisti foreldra var afhentur borgarstjóra rétt fyrir kosningar. Svo virðist sem náðst hafi lending um íþróttahúsið við Austurberg. Komið hefur verið til móts við fjölgun æfingatíma hjá íþróttafélaginu Leikni eins og kallað var eftir af hálfu íbúa. Það var orðið afar brýnt að íþróttafélagið Leiknir fengi aukinn aðgang fyrir starfsemi sína í íþróttahúsinu í Austurbergi núna í haust og almennt þarf að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn í efra-Breiðholti. Flokkur fólksins hefur áður látið sig málefni Leiknis varða sem er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt og þar sem býr einn mesti fjölbreytileiki mannlífsins. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi er frístundakortið því miður langminnst nýtt.

  Fylgigögn

 14. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. september 2022. MSS22010029

  Fylgigögn

 15. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 8. september 2022. MSS22010031

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi fundargerð íbúaráðs Kjalarness afar rýr. Vel kann að vera að hér sé um byrjunarörðugleika að ræða t.d. ef ráðsmenn eru flestir nýir. Það er mjög mikilvægt að nýtt íbúaráð fari af stað af krafti enda er af nógu að taka í þessu hverfi sem þarf að bóka og/eða álykta um. Gæta þarf að lýðræðinu, auglýsa fundina vel og sjá til þess að íbúar hafi aðgang að því. Íbúaráðin þurfa að vera í góðum tengslum við íbúa, hlusta á þá og fjalla um athugasemdir þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna mál sem hefur reynst íbúum afar þungt. Baráttan við Reykjavíkurborg um skotvellina, þ.e. að koma þeim á brott, og skipulagsmálin á Esjumelum er eitt af þessum málum sem valdið hefur íbúum vanlíðan. Íbúaráðin verða að virka, þau eru dýr, launakostnaður hár. Ef þau eru ekki að skila tilætluðu hlutverki þarf að endurskoða tilgang og markmið þeirra.

  Fylgigögn

 16. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2022.
  B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Liður 4; Landakotsreitur/Öldugata: Því hefur verið lofað að hlusta eigi á borgarbúa, hafa samráð. Umfram allt mega skipulagsyfirvöld ekki valta yfir borgarbúa. Komið hafa fram athugasemdir frá íbúum á Öldugötu 25 um að grenndargámar í hverfinu verði ekki í opnu rými, tengdir þjónustukjörnum, heldur verði staðsettir við götu. Ekki er tekið á því hvernig fólk, sem kemur akandi með sorp, geti lagt bílum sínum meðan það flokkar í ílátin. Við blasir, miðað við umferðarþunga, að raunin verður sú að fólk stöðvar bifreiðar sínar í götunni, meðan það athafnar sig við gámana eins og segir í athugasemdum. Börnum hefur fjölgað mikið í hverfinu á undanförnum árum. Mörg þessara barna sækja leikskóla við Öldugötu eða Landakotsskóla. Með þessari tillögu er því almennu öryggi og umferðaröryggi gangandi og akandi vegfarenda stefnt í hættu, þvert á það sem fullyrt er í kynningargögnum um tillöguna. Liður 9, friðlýsing Blikastaðakróar: Fagna ber að friðlýsa eigi fjörur og nágrenni þeirra sem eru í Blikastaðakró. En eins og kunnugt er hafa borgaryfirvöld gengið langt í að eyðileggja náttúrulegar fjörur, en markmið friðlýsingar svæðisins er að viðhalda og vernda til framtíðar náttúrulegt ástand mikilvægs búsvæðis fugla og sjávarhryggleysingja. Þetta mætti oft hafa í huga.
   

  Fylgigögn

 17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. MSS22080224

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Embættisafgreiðslur, liður 5, staðan í samstarfi sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu. Í yfirliti embættisafgreiðslna er skjal sem ber nafnið „Viltu vita stöðuna í samstarfi sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu?“. Í skjalinu kennir ýmissa grasa og í umfjöllun um stafræn mál er lögð áhersla á að sveitarfélög einfaldi og samræmi leyfainnkaup og að skynsamlegra sé að fjárfesta í skýrri og samræmdri stafrænni stefnu í stað þess að fjárfesta í dýrum hugbúnaðarleyfum sem víða er ekki þörf á að nota. Þetta hljómar skynsamlega. Einnig segir að huga þurfi að samvirkni kerfa við málakerfi sem notast á við. Sameinast á um sem mest, t.d. stafræna leiðtoga, og áhersla er á miðlæga þjónustukjarna. Flokki fólksins finnst hann ekki hafa séð umræðu eins og þessa í Reykjavík. Vikið er í þessu sama skjali að nokkrum verkefnum þar sem markmiðið er að hanna sameiginlegan grunn og kaupa sameiginlegar lausnir sem eru aðlagaðar að hverju sveitarfélagi. Er Reykjavík með öðrum sveitarfélögum í þessari vegferð? Eða er Reykjavík bara á sinni eigin vegferð?

  Fylgigögn

 18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22080225

  -    Kl. 10:27 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 19. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík.
  Lagt er til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík í stað Arnar Þórðarsonar.
  Samþykkt. MSS22060079

 20. Fram fer kynning á rekstrargreiningu fyrir áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins.

  Björn H. Reynisson og Sævar Kristinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040065

  Fylgigögn

 21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Um árabil hefur merkum munum úr skólastarfi í Reykjavík verið safnað saman til varðveislu í svonefndri skólamunastofu, sem staðsett er í risi Austurbæjarskóla. Hollvinafélag skólans hefur annast varðveislu gripanna og sýningarhald á þeim í sjálfboðavinnu. Lagt er til að horfið verði frá þeim áformum að leggja skólamunastofuna niður. Þess í stað verði framtíð hennar tryggð, helst í núverandi húsnæði í risi Austurbæjarskóla en annars í öðru hentugu húsnæði á vegum skóla- og frístundasviðs eða Borgarsögusafns Reykjavíkur.

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS22060127

 22. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Til stendur að leggja niður skólamunastofu Austurbæjarskóla, sem varðveitir sögu skólans með hinum ýmsu munum. Hollvinafélag Austurbæjarskóla hefur barist fyrir að halda stofunni lifandi. Lagt er til að hætt verði við þessi áform og ákvörðunin endurskoðuð. Hér er um að ræða vanhugsað skref sem einkennist af geðþóttaákvörðun eftir því sem séð verður. Þess utan er þetta í hrópandi mótsögn við auglýsingu um stöðu skólastjóra Austurbæjarskóla. Þar stóð einmitt að leitað væri að einstaklingi sem gæti leitt starfið inn í framtíðina með virðingu fyrir ríkri menningarlegri arfleifð. Hverju má það sæta að skólastjórinn skuli ekki sporna við fæti hér?

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS22060127

  Fylgigögn

 23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Til stendur þvert gegn vilja fjölda manns að loka skólamunastofu Austurbæjarskóla. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvert munirnir eigi að fara. Munu þeir fá stað þar sem hægt verður að sýna þá? Munirnir sem þarna eru varðveittir, eru menningarverðmæti. Það yrði afar sorglegt ef þeir lendtu ofan í kössum og geymslu einhvers staðar úti í bæ á vegum borgarinnar. Þar verða þeir engum til ánægju og gleymast bara. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda borgaryfirvöldum á að skólamunastofan raungerir margt sem nefnt er í menningarstefnu borgarinnar. Það verður ekki liðið að sópa þessum merkilegu munum ofan í kassa þar sem þeir gleymast.

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS22060127

 24. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við aðila sem þekkja vel til Austurbæjarskóla. Húsnæðið er illa nýtt. Ein kennslustofa er notuð eina stund á viku. Námsráðgjafinn hefur heila stofu fyrir sig. Nýting á bíósalnum er lítil. Ekki verður séð að Spennistöðin sé nýtt að einhverju ráði. Risið sem nú á að fá annað hlutverk en að varðveita skólamuni spilar nú stórt hlutverk skyndilega. En risið er versti kosturinn í húsinu að mati þeirra sem þekkja til, ef leita þarf að stað fyrir eitthvað nýtt í skólastarfinu. Íbúasamtök miðborgarinnar og fleiri aðilar hafa ályktað gegn því að risið verði tekið undir kennslu. Þetta eru m.a. rök fyrir því að fulltrúi Flokks fólksins telur að það sé mikilvægt að þarfagreina húsnæði Austurbæjarskóla.

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS22060127

 25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins óskar upplýsinga um leikskólann Sælukot sem er einkarekinn leikskóli. Reykjavíkurborg gerir samninga við einkarekna leikskóla sem greiða sér arð á sama tíma og þeir þiggja fé frá borginni. Nýlega kom út skýrsla innri endurskoðunar um sjálfstætt starfandi leikskóla. Innri endurskoðun birtir í skýrslunni ábendingar til nokkurra leikskóla út frá ákveðnu áhættumati. Í skýrslunni kemur fram að mánaðargjald vegna barna 18 mánaða og yngri er hærra en heimilt er hjá Sælukoti og að hámarksstuðull sem á að vera 2,15 er á bilinu 2,37-2.63, mismunandi eftir dvalartíma og flokki. Gjaldskráin er því frá 6.764 kr. til 9.312 kr. hærri á mánuði en heimilt er. Áhættuflokkun er rauð sem þýðir mikil áhætta og ábending er um að athuga eigi með endurgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar nánari upplýsinga um þennan leikskóla. Í hversu mörg ár hafa stjórnendur greitt sér arð og hversu háan? Hefur verið gerð úttekt á leikskólastarfinu, þ.e. hvort það standist kröfur sem gerðar eru til aðstæðna þar sem börn dvelja daglangt 5 daga vikunnar? Hefur verið gerð ánægjukönnun meðal foreldra? Hvert er hlutfall fagmenntaðra starfmanna? Hvernig er mönnun háttað? (Síðustu 2-3 ár). Hvernig er almennur aðbúnaður barna og starfsfólks? Starfsmannavelta? Hvernig líður börnunum?

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS22090103

 26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur leitað álits hjá þeim sem þekkja til Austurbæjarskóla og starfsemi hans. Í ljós kemur að starfsmannavelta er mikil. Niðurstöður starfsmannakannana og skólapúlsins hafa ekki verið nægjanlega sýnilegar. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um niðurstöður starfsánægjukannana undanfarin ár. Vitað er til þess að skóla- og frístundasvið hefur ekki brugðist við kvörtunum kennara og starfsfólks. Annað sem hefur verið upplýst um er að ekki hefur verið framkvæmt ytra mat á Austurbæjarskólanum í nokkur ár. Starfsmannakannanir eru nauðsynlegar en gagnast ekki ef þær eru ekki nægjanlega sýnilegar. Niðurstöður slíkra kannana sýna m.a. hvernig lýðræðinu er háttað í skólanum og hvort fagmennska ríki þegar teknar eru ákvarðanir. Er t.d. hlustað á skólaráðið og er það haft með í ráðum t.d. þegar ákveðið var að rýma risið og hefja tölvunám þar?

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS22090102

 27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:

  Spurt er um afdrif afgreiðslu tillögu Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands sem lögð var fram í borgarráði 7. júlí sl. og varðar hækkun viðmiðunarfjárhæðar um sérstakan húsnæðisstuðning. Hver vika sem líður án afgreiðslu þessarar tillögu verður til þess að margir af efnaminnstu íbúum Reykjavíkur verða fyrir óafturkræfum tekjuskerðingum. Það er réttlætismál að bæta úr þessu og samþykkja þá tillögu sem þegar hefur verið lögð fram. Þá er ljóst að í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir enn auknum hækkunum á örorkulífeyri og því þarf borgin að bregðast tafarlaust við í samræmi við það.

  Vísað til meðferðar velferðarráðs. MSS22070052

Fundi slitið kl. 11:16

Einar Þorsteinsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon

Sanna Magdalena Mörtudottir