Borgarráð
Ár 2022, fimmtudaginn 8. september 2022, var haldinn 5675. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Theodór Kjartansson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 7. september 2022:
Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 2.462 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 2,53%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 2.276 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 160 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,80%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 53 1, sem er 328 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 7. september 2022.
Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. FAS22010057
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. september 2022, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna annars ársfjórðungs ársins 2022. FAS22090002
Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. ágúst 2022, um útboð á fruminnheimtu. FAS22050043
Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að sett verði á laggirnar skammtímaúrræði fyrir úkraínsk börn á grunnskólaaldri með áherslu á undirbúning fyrir skólagöngu og þátttöku í frístundastarfi. Um er að ræða börn úr fjölskyldum sem eru í 8 vikna búsetuúrræði í Reykjavík á vegum ríkisins á meðan leitað er að framtíðarheimili fyrir fjölskyldurnar sem gæti orðið í Reykjavík eða öðru sveitarfélagi. Úrræðið verður staðsett í Vesturbæjarskóla og frístundamiðstöðin Tjörnin kemur að frístundastarfinu. Úrræðið verði starfrækt frá september til desember 2022 og metið í lok tímabils með áframhald. Hægt verður að taka á móti allt að 25 börnum í einu. Lagt er til að borgarráð samþykki fjárheimild fyrir allt að 22,3 m.kr. sem fjármagnað verði af kostnaðarstaðnum ófyrirséð, 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22090023
Samþykkt.Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokki fólksins líst vel á þetta skammtímaúrræði fyrir úkraínsk börn. Í greinargerðinni er óljóst hvort um einhverja blöndun íslenskra og úkraínskra barna sé að ræða nema hugsanlega í frístundinni. Það er jafnframt tekið fram að ekki öll börnin noti frístund. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að börn læra mikið hvert af öðru og er því mikilvægt að þau fái einhvern vettvang þar sem þau geta átt samverustund með íslenskum börnum. Í list- og verkgreinum eru oft stundir þar sem börn geta tjáð sig, t.d. myndrænt. Íþróttir og frímínútur geta líka verið góður vettvangur fyrir íslensk og úkraínsk börn að mætast.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu stafrænnar umbreytingar hjá Reykjavíkurborg.
Óskar Jörgen Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir, Inga Rós Gunnarsdóttir, Karen María Jónsdóttir, Friðþjófur Bergmann, Óskar Þór Þráinsson og Þröstur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON22060029
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú eru liðin tæp tvö ár frá því borgarstjórn samþykkti að fjárfesta 10 milljörðum í stafræna umbreytingu á þriggja ára tímabili. Stafræn umbreyting er sannarlega mikilvægt framfaraskref á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Þó er umhugsunarvert hvernig opinberum fjármunum verður varið og að ekki birtist víðtækari áform um útvistun verkefna. Það er áhyggjuefni þegar hið opinbera fyrirhugar að reisa stærsta hugbúnaðarhús landsins og ráðast í beina samkeppni við atvinnulíf um takmarkaða sérþekkingu. Þá er mikilvægt að hafa hugfasta rannsókn McKinsey and Company sem sýnir að stafræn umbreyting hefur mistekist í að minnsta kosti 70% tilvika. Helstu ástæður þess eru taldar skortur á aga til þess að skilgreina og stíga réttu skrefin í upphafi stafrænnar umbyltingar og ekki síður að halda fókus á meðan á ferlinu stendur. Það er því mikilvægt að sýna verkefninu aðhald og fylgjast með ráðstöfun fjármuna af gaumgæfni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Kynningar eru ávallt glæsilegar hjá þessu sviði og greinilega engu til sparað til að gera þær áhrifaríkar. Nauðsynlegt var að ganga rösklega til verks í stafrænni umbreytingu enda er það framtíðin. Ævintýralegu miklu fjármagni hefur verið veitt í stafræna vegferð borgarinnar sem ekki hefur verið nýtt af skynsemi. Gríðarlegu fjármagni hefur verið eytt í aðbúnað. Starfsmenn sviðsins fá sérstök hlunnindi s.s. samgöngustyrk heilsuræktarstyrk og menningar- og sundkort, einnig rafskútur til notkunar á vinnutíma. Nálgun sviðsins undanfarin ár hefur einkennst af fumkenndri tilraunastarfssemi þar sem miklum tíma og fjármunum hefur verið eytt í að uppgötva hluti sem nú þegar eru til. Þetta hefur fengið að gerast án gagnrýni meirihlutans. Hlaðan, skjalastjórnunarkerfi Reykjavíkurborgar, er eitt slíkt dæmi. Forgangsröðun verkefna hefur verið kolröng. Byrjað var á verkefnum sem ekki voru brýn eða nauðsynleg. Við lestur ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs virðist sem alþjóðafrægð skipti mestu máli. Sviðið hefur lagt megináherslu á að endurnýja samninga við erlenda aðila, ráðgjafafyrirtæki og í það hafa farið tugir milljóna. Ekkert lát er á þessu. Ekki er séð hvernig öll þessi ráðgjöf í gegnum árin hefur skilað sér og sannarlega leiðir hún ekki til þess að fólk fái mat á diskinn sinn eða börn fái sálfræðiþjónustu.
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. september 2022, þar sem erindisbréf viðræðuteymis við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um húsnæðismál er lagt fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum. FAS22080056
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu veitukerfa Veitna. MSS22010063
Sólrún Kristjánsdóttir, Bjarni Freyr Bjarnason og Olgeir Örlygsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins finnur sárlega til með því fólki sem varð fyrir tjóni vegna leka þegar lögn fór í sundur í Hvassaleiti. Það sem vekur viðbrögð í málinu er að umrædd lögn er frá árinu 1962. Þetta kallar fram spurningar um endurnýjun og viðhald hjá Veitum. Kryfja þarf þetta mál til mergjar með viðeigandi greiningarvinnu. Vonandi leiðir það til að farið verði í nauðsynlega endurnýjun á lögnum. Svona lagað má ekki gerast aftur þó auðvitað geta alltaf orðið mannleg mistök.
-
Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. september 2022, um spretthóp vegna hávaða í miðbænum. MSS22090038
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar því sem spretthópurinn er að gera og þakkar fyrir að fá að vera hluti af þessari vinnu. Fulltrúi flokks fólksins hefur látið til sín taka bæði í ræðu og riti varðandi hávaðavandan í miðborginni og með framlögðum málum til lausnar. Það er einlæg ósk og von okkar í Flokki fólksins að sú vinna sem er í gangi leiði til varanlegrar lausnar á þessum vanda og farið verði strax í að taka á erfiðustu þáttunum.
Fylgigögn
-
Lagt til að Kjartan Magnússon taki sæti í tilnefninganefnd í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. MSS22060144
Samþykkt. -
Lagt fram að nýju bréf mennta- og viðskiptaráðherra, dags 24. ágúst 2022, varðandi minnisvarða um skákeinvígi Fishers og Spassky og þátttöku Reykjavíkurborgar í verkefninu sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 25. ágúst 2022 og fært í trúnaðarbók. MSS22080161
Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:
Borgarráð samþykkir erindi ráðherra með fyrirvara um fjármögnun þar sem lagt er til að halda samkeppni um minnisvarða um einvígi aldarinnar í tilefni af hálfrar aldar afmæli þess.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. september 2022, um tækifærisleyfi til lengri opnunartíma til kl. 01.30 aðfaranótt föstudagsins 16. september nk. vegna skólaballs Kvennaskólans í Reykjavík í Reiðhöllinni Víðidal, Brekknaási 5. MSS22090017
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. september 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sameiningu íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst 2022. MSS22080055
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frestun verkefna þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september 2022. MSS22090007
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Markmið þjónustu- og nýsköpunarsviðs og sviðsstjóra getur varla verið að öðlast heimsfrægð vegna afreka stafrænna umbreytinga í Reykjavík. það hefur verið ofarlega á forgangslista sviðsins að öðlast frægð í útlöndum eins og sjá má víða í nýútkominni ársskýrslu sviðsins. Nú þarf að velta við hverri krónu og má sannarlega bíða með risastór og rándýr alþjóðaverkefni á erlendri grund sem snúa að stafrænni vegferð, lausnum sem ekki bráðvantar eða kallað er sérstaklega eftir af borgarbúum. Flokkur fólksins vill horfa á árangur sem gagnast Reykvíkingum. Það þarf að efla stafræna þjónustu fyrir leikskóla borgarinnar. Þar hefur ekkert stafrænt gerst í mörg ár. Þetta hefur opinberast í þeim vanda sem leikskólar borgarinnar hafa glímt við undanfarið. Það sárvantar betri yfirsýn og upplýsingar til foreldra. Þetta hefur valdið töfum á þjónustu við foreldra barna sem sækja um leikskólapláss. Vandamál eru tíð með þær lausnir sem komnar eru nú þegar i virkni. Státað er af ýmsum mælaborðum. Áfram streymir fé í alls konar ráðgjöf erlendis sem ekki er séð hvernig nýtist.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 1. september 2022. MSS22010025
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Undir þessum lið er óskað eftir að fjármála- og áhættusvið fái heimild til að hætta að prenta út og senda greiðsluseðla til fyrirtækja og einstaklinga sem eru 79 ára og yngri frá 1. janúar 2023. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta hið ágæstasta mál en veltir fyrir sér af hverju aldurinn 79 ára var valinn. Eru einhver sérstök rök fyrir því? Kannski hefði mátt miða við 70 ára. Segir jafnframt að einstaklingar geti ávallt óskað eftir því að fá senda greiðsluseðla á pappírsformi og tryggt verður að einstaklingar sem hafa óskað eftir því haldi áfram að fá greiðsluseðla. En þá má spyrja sig hversu auðvelt og einfalt það er. Er það gert með símtali eða í viðtali?
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. ágúst 2022. MSS22010020
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur framsvohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Þessi liður er um árshlutareikning Félagsbústaða hf. og könnunarskýrslu Grant Thornton vegna fyrstu 6 mánaða ársins 2022. Endurskoðunarnefnd telur að árshlutareikningurinn sé tilbúinn til framlagningar í stjórn Félagsbústaða eins og kemur fram í fundargerð. Það er auðvitað sjálfsagt að nefna undir þessum lið matsbreytingar Félagsbústaða. Félagsbústaðir högnuðust um 17,5 milljarða króna á fyrri helmingi árs en hagnaðurinn var allur tilkominn vegna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins. Matsbreyting fjárfestingareigna nam alls 19,5 milljörðum króna og var því 2 milljarða tap á rekstri félagsins fyrir matsbreytingu. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins. Eins og ekki þarf að fjölyrða um er þessi reikningsskilaaðferð umdeild.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 1. september 2022. MSS22010006
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. ágúst 2022. MSS22010017
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. september 2022.
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 30. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi flokk fólksins lýsir yfir óánægju með svör og almennt viðhorf skrifstofu umhverfisgæða og meirihlutans í skipulags- og samgönguráði sem og afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um sorphirðumál. Í tillögu Flokks fólksins var eingöngu talað um að kanna hagkvæmni þess að bjóða út sorphirðu í einu póstnúmeri og kanna hagkvæmni þess að bjóða út þjónustu djúpgáma. Þessi tillaga er byggð á skýrslu norræns samkeppniseftirlits. Fulltrúi flokk fólksins sér ekki hvernig slík tillaga getur leitt til grundvallarmisskilnings á framkvæmd úrgangsstjórnunar borgarinnar. Bent er á að þessari tillögu var vísað af fundi umhverfis- og skipulagsráðs til skrifstofu umhverfisgæða til umsagnar. Tillagan er felld í umhverfis- skipulagsráði þann 7. september sl. í kjölfar umsagnarinnar. Draga má þá ályktun af afgreiðslunni að meirihlutinn hefur ekki áhuga á að kanna hvort hægt sé að lækka gjöld borgarbúa fyrir sorphirða. Það er miður að tillaga sé svæfð í kjölfar ómálefnalegrar umsagnar skrifstofu umhverfisgæða sem virðist ekki hafa áhuga á að skoða þetta mál fyrir borgarbúa eða borgarfulltrúa.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. MSS22080224
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið yfirlits:
Flokkur fólksins fagnar og tekur undir bréf umboðsmanns barna þar sem hann tjáir sig um málefni leikskóla í Reykjavíkur og tillögur meirihlutans um bráðaaðgerðir. Umboðsmaður hefur einnig áréttað skyldur sveitarfélaga um að leggja sérstakt mat á hvaða áhrif ákvarðanir þeirra hafa á börn. Þetta er liður í að kanna hvort ákvarðanir samræmast 3. gr. barnasáttmálans varðandi að það sem börnum er fyrir bestu skuli ávallt vera í forgangi þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða þau. Ýmis lög og reglur eru um lágmarkskröfur til húsnæðis leik- og grunnskóla. Reykjavík ber að fylgja þessum lögum skilyrðislaust. Umboðsmaður barna leggur áherslu á að tillögur um aðgerðir í leikskólamálum uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi leikskóla. Barnasáttmálinn hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík og hefur Flokkur fólksins lagt til að skipaður stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Ekkert hefur frést af tillögunni sem vísað var til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22080225
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að ráðist verði í stafræna umbreytingu við skráningu á máltíðum starfsmanna Reykjavíkurborgar í ráðhúsinu og á Höfðatorgi. Á þessum stöðum er búnaður, sem ætlað er að lesa af aðgangskortum starfsfólks, og skrá þannig máltíðir þeirra með stafrænum hætti. Umræddur búnaður hefur hins vegar ekki virkað í mörg ár og þarf starfsfólk því að slá kennitölur sínar inn í tölvuna með handvirkum hætti í hvert sinn, sem það fær sér máltíð, eða skrifa jafnvel þessar upplýsingar á pappír, sem liggur frammi í mötuneytunum í þessu skyni. Markmið tillögunnar er að flýta fyrir afgreiðslu í mötuneytunum þar sem núverandi fyrirkomulag leiðir til tafa og biðraðamyndunar. Úrbætur varðandi þetta einfalda atriði myndi einnig eflaust auka trúverðugleika Reykjavíkurborgar gagnvart starfsfólki sínu og gera það jákvæðara varðandi þá stafrænu vegferð sem borgin er á. MSS22090057
Vísað til meðferðar stafræns ráðs.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um verklag og fyrirkomulag Strætó bs. varðandi þjónustu við farþega með barnavagna. Eru reglur í gildi um þessa þjónustu og þá hverjar? Fyrirspurnin er lögð fram þar sem ábendingar hafa borist um að of algengt sé að vögnum sé ekið af stað áður en farþegar fái ráðrúm til að koma barnavögnum sínum (og þar með börnum) tryggilega fyrir. MSS22090058
Vísað til umsagnar Strætó bs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að erindi frá UNICEF sem sent var borgarráði verði vísað til mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs en því hefur verið vísað til skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs til umsagnar. Í janúar lagði Flokkur fólksins fram tillögu í borgarstjórn um að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til að Reykjavík geti farið í innleiðingarferli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert var í Kópavogi. Tillögunni var vísað til borgarráðs þar sem ekkert hefur spurst til hennar. Eins og kom fram í ræðu fulltrúa Flokks fólksins við flutning tillögunnar þá liggur erindi í borgarráði frá UNICEF þar sem Reykjavíkurborg er boðið að taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs sem átti að leita liðsinnis velferðarsviðs við gerð umsagnarinnar. Flokkur fólksins óskar eftir að þessu erindi verði vísað til mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs til umsagnar og er farið fram á að umsögn berist fljótt. MSS21120183
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs kemur fram að svo kallað I-teymi eða innovation team hagnýti gögn og stafræna tækni til að bæta opinbera þjónustu og finna skapandi leiðir til að skapa verðmæti fyrir samfélagið. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Segir í skýrslunni að teymið hafi tekið til starfa í desember og var fyrsta verkefnið „að hefja undirbúning við umbreytingu á aðgengi barna, ungmenna og forráðamanna að skólaþjónustu svo og vinnuumhverfi sérfræðinga í skólum og þjónustumiðstöðvum. Verkefnið gengur undir heitinu Betri borg fyrir börn: Skólaþjónusta og er unnið í samstarfi starfsfólks velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs, þjónustu- og nýsköpunarsviðs og i-teymisins en eigandi þess er verkefnastjóri borgarinnar um farsæld barna. Ætlunin er meðal annars að umbreyta umsóknarferlum í stafrænt form og einfalda og stórbæta verkferla og upplýsingaflæði milli ólíkra stofnana og fagaðila.“ Flokkur fólksins spyr: Hvaða stafrænar lausnir eru þetta, hvert er markmið með þeim og tilgangur? Hvað heita þær, hvar er hægt að sjá þær? Hverjar eru komnar í gagnið og hver er staða annarra lausna? Hvaða hópar eru einna helst farnir að njóta góðs af þeim, foreldrar, starfsfólk?. MSS22090055
Vísað til meðferðar stafræns ráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Velferðarsvið og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa borgarinnar taka undir umsögn skóla og frístundasviðs, dags. 13. desember 2021, um hvatningu UNICEF þess efnis að Reykjavíkurborg gerist barnvænt sveitarfélag. Í umsögninni kemur fram að velferðarsvið og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa taki undir umsögn skóla- og frístundasvið um barnvænt sveitarfélag og Reykjavíkurborg verði fyrsta barnvæna höfuðborgin á heimsvísu. Fullrúi Flokks fólksins spyr hvernig Reykjavík getur verið fyrsta barnvæna höfuðborgin á heimsvísu þegar 2012 börn bíða eftir þjónustu ýmissa fagaðila? Hvernig samræmist það því að vera með alla þessa biðlista og leikskólavanda? MSS21120183
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Fundi slitið kl. 11:53
Einar Þorsteinsson Skúli Helgason
Alexandra Briem Pawel Bartoszek
Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon
Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarrad_0809.pdf