Borgarráð
Ár 2022, fimmtudaginn 18. ágúst, var haldinn 5672. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:09. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Íris Andrésdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga formanns borgarráðs, dags. 16. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki fjármögnun fyrir hjálagðan samstarfssamning um samstarfsvettvang um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið. Upphæð Reykjavíkurborgar árið 2022 er 6.751.984 kr. og fjármagnast af kostnaðarstaðnum 07160 Atvinnuþróunarátak/sóknaráætlun.
Einnig lögð fram jafnréttisskimun skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2022, vegna tillögunnar.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120157Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Staðfesta á samstarfssamning á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að koma á eins konar byggðasamlagi eins og segir í gögnum og setja á af stað samstarfsvettvang sveitarfélaga og atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu um ferðamál. Flokkur fólksins spyr um vægi stærsta sveitarfélagsins Reykjavíkur í þessu samstarfi. Er það sem áður, mikil fjárhagsleg ábyrgð en lítil framkvæmdar- og stjórnunarleg áhrif? Reykjavík greiðir 56% en fær þrjá fulltrúa af 13. Sporin hræða og ekki er ásættanlegt að borgin sé hvað eftir annað sett í þá stöðu að greiða langmest í byggðasamlag en ráða litlu í samræmi við útgjöldin.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við kaupsamning vegna lóða á Gufunesi, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22070077
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga formanns borgarráðs, dags. 16. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf um nefnd til tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar og skipi Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, sem jafnframt verður formaður nefndarinnar, ásamt Einari Þorsteinssyni, Hildi Björnsdóttur og Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur ásamt borgarstjóra sem fer með eigendafyrirsvar Reykjavíkur, í nefndina.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. MSS22060144Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að þegar verið er að tilnefna í nefndir skuli tilnefna þá sem hafa þekkingu og reynslu af málefni/verkefnum nefndar sem verið er að tilnefna í, sé þess nokkur kostur. Allt of oft hafa aðilar verið tilnefndir í nefndir þar sem verið er að halda utan um mál og verkefni sem krefjast þekkingar. Það hefur ekki reynst vel. Minnihlutafulltrúar þurfa að fá ríka aðkomu að vinnu og framkvæmdum sem eiga sér stað í nefndum á vettvangi borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Tilnefningarnefnd á vettvangi borgarinnar er tilraunarinnar virði. Það er hins vegar skoðun Vinstri grænna að félög í eigu Reykjavíkurborgar og verkefni þeirra eigi að lúta pólitískri stefnu og að framfylgd hennar og eftirlit sé á ábyrgð kjörinna fulltrúa. Pólitískt kjörnir fulltrúar eru aldrei undanþegnir því að vera faglegir og vandaðir í störfum sínum en með þessari aðferðafræði sem hér er beitt gæti skapast meiri fjarlægð við þá stefnumörkun og skyldur sem stjórnmálamenn eru kjörnir til að sinna. Slíkt gæti skapað þrýsting á aukna einkavæðingu verkefna sem sannarlega eru grunnþjónusta. Það eru áhyggjuefni fyrir íbúa Reykjavíkur og leggjast Vinstri græn alfarið gegn þeirri þróun.
Fylgigögn
-
Kosningu í fulltrúaráð hjúkrunarheimilisins Skjóls er frestað. MSS22080078
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna Víðinesvegar 30, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið. FAS22080003
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. ágúst 2022, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2022 á umsókn um stækkun lóðarinnar nr. 39 við Brekkubæ, ásamt fylgiskjölum.
Synjun umhverfis- og skipulagsráðs er staðfest. MSS22080067Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. ágúst 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt. MSS22080068Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar þessari uppbyggingu. Þarna eru innviðir til staðar. Ef til vill hefði mátt vera meiri fjölbreytni, allt frá litlum íbúðum í stærri eignir. Mikilvægt er að hafa góðar aðstæður fyrir bíla, bæði við eignir fyrir íbúana og gesti. Í hverfinu eru ekki atvinnutækifæri svo leiða má líkur að því að íbúar noti einkabíl í ríkum mæli enda ekki margir aðrir kostir sem virka nema fyrir lítinn hóp kannski.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. ágúst 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um óafgreiddar tillögur og fyrirspurnir frá fyrra kjörtímabili, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022. MSS22060107
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn á eftir að afgreiða mörg mál frá sósíalistum frá fyrra kjörtímabili, má þar nefna tillögu frá því í apríl 2020 sem var lögð fram í COVID um að grunnlaun borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa hækki ekki í takt við þróun launavísitölu og fyrirspurn um afdrif þeirrar tillögu. Þrátt fyrir framlagða tillögu og fyrirspurn um hvernig gangi að afgreiða tillöguna, þá hefur tillagan um að laun borgarfulltrúa hækki ekki enn ekki komið til afgreiðslu. Athygli er vakin á því að borgarráð á einnig eftir að afgreiða tillögu um að borgin beiti sér gegn spilakössum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 11. ágúst 2022. MSS22070029
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4., 7., 8. og 10. lið fundargerðarinnar:
4. liður; gefið er út tímabundið starfsleyfi fyrir skotvöll í Álfsnesi. Flokkur fólksins spyr hvort þessi leyfisveiting sé gerð í samráði við íbúa. 7. liður; lögð er fram umsögn heilbrigðisnefndar við fyrirspurn um viðbrögð meirihlutans og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við hávaða í tengslum við næturklúbba í miðbænum. Nefndur er sérstaklega Kofinn sem ítrekað hefur verið kvartað yfir vegna hávaða í miðri viku jafnt sem um helgar. Í svari/umsögn kemur fram að leggja þyrfti áherslu á rót vandans, ella muni ástandið verða viðvarandi. Lausn felst í að flytja næturklúbba burt úr miðbænum. 8. liður; í svari við fyrirspurn um hvernig tryggja eigi að reglugerð um hávaðamengun í kringum KR-völlinn verði fylgt eftir og hver viðurlög verði séu reglur brotnar segir að heilbrigðisnefndin ásamt lögreglu muni gera það. Kvörtunum verði sinnt en þó sé talið að KR-svæðið verði ekki undir álagi. Flokkur fólksins telur að þetta svæði sé einmitt undir miklu álagi. Þarna verða haldnir kappleikir og fjöldi gesta mætir á svæðið. Íbúðabyggingar eru nánast ofan í vellinum. 10. liður; tillögu Flokks fólksins um eftirlit með reglugerðum um hávaðamengun, sem var lögð fram fyrst í nóvember 2018, er vísað frá. Rökin eru að verið sé að framfylgja þeim lögum og reglum sem nefndinni ber.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 11. ágúst 2022. MSS22010006
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2022.
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins leggur áherslu á að bæta umferðarflæði á gatnamótum Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Vandinn þar er áratugagamall og hafa tafir á umferð kostað sitt, bæði í tíma og eldsneytiskostnaði. Umferðarflæðið snertir einkum Breiðholtsbúa, auk þeirra sem koma úr syðri sveitarfélögum. Þessi gatnamót eru talin vera ein hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins og er það mat fjölmargra að ef einhvers staðar ættu að vera mislæg gatnamót þá sé það þarna. Raskið á Elliðaárdalnum vegna mislægra gatnamóta á þessum stað er mun minna en verður á Elliðaárdalnum vegna tengingar Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut samkvæmt sérfræðingum. Flokkur fólksins vill að staðinn sé vörður um Elliðaárdalinn. Lausnir sem framkalla hávaða þarf að skoða vandlega því hljóðmanir duga ekki til að dempa hávaða frá umferð. Sjálfsagt er að kanna hvort stokkalausnir eru mögulegar, einkum með tilliti til umhverfisáhrifa. Hafa þarf einnig í huga að borgarlína er ekki að koma næstu árin, tilkynnt hefur verið um tafir í 3-5 ár.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst 2022, varðandi sex tillögur starfshóps um sveigjanleg starfslok, ásamt fylgiskjölum, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst 2022.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Lóa Birna Birgisdóttir, Andri Valur Ívarsson, Elín Blöndal, Katrín Elva Gunnarsdóttir, Ragna Sigrún Kristjónsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22080032
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg á að vera góður vinnustaður. Það hefur verið ákall um aukinn sveigjanleika þegar kemur að starfslokum vegna aldurs og því ákalli viljum við svara. Fræðsla um möguleika við starfslok til stjórnenda og starfsmanna verður aukin auk þess sem við beinum því til samningsaðila við kjarasamningagerð að skoða sérstaklega hvort rétt sé að endurskoða ákvæði um starfslokaaldur í kjarasamningum.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Þegar talað er um sveigjanleg starfslok er ávallt átt við sveigjanleika í átt að lengri starfsævi. Það er þó staðreynd að fjölmargir erfiðisvinnuhópar, þeirra á meðal fólk sem starfar fyrir Reykjavíkurborg, byrja að kenna sér meins af langri starfsævi fyrr en aðrir hópar sem búa við betri starfsskilyrði. Til dæmis stór hópur kvenna í leikskólum og öðrum umönnunarstörfum sem fellur af vinnumarkaði vegna örorku að öllu leyti eða hluta til fyrir núverandi viðmið um starfslok. Þau sem ekki taka langa skólagöngu hefja störf fyrr og hafa því að jafnaði verið þó nokkuð lengur á vinnumarkaði en langskólagengnir og unnið erfiðisvinnu sem tekur sinn toll af líkama og heilsu fólks. Ef til stendur að ræða sveigjanleika í þessum efnum mælir Sósíalistaflokkur Íslands með því að sveigjanleikinn verði gerður raunverulegur svo hann gagnist þeim sem virkilega þurfa á honum að halda heilsu sinnar vegna og verði ekki aðeins búbót fyrir þau sem hafa getu til að inna sín verk af hendi án heilsutjóns fram á gamals aldur.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar hverju skrefi sem tekið er í átt að sveigjanlegum starfslokum eldra fólks. Mannekla í ákveðnum störfum á þó ekki að stýra því hvort fólki sé leyft að vinna eins lengi og það langar og getur. Missir er fyrir samfélagið að sjá á eftir fólki af vinnumarkaði fyrir þær einar sakir að ná sjötugsaldri. Um er að ræða dýrmætan mannauð. Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um atvinnumál sín eins og annað í lífinu. Sá hópur sem nú hefur skilað niðurstöðum sínum með sex tillögum hefur stigið ansi varfærnislega til jarðar. Setja á af stað þróunarverkefni um sveigjanleg starfslok hjá tilteknum hópum, auka fræðslu og beina því til samningsaðila að skoða við næstu kjarasamninga hvernig megi koma til móts við kröfur um aukinn sveigjanleika við starfslok. Hér hefði mátt ganga röskar fram. Að losa um höft, hindranir og hömlur í kjarasamningum er pólitísk ákvörðun. Fella þarf brott þakið í þessum efnum enda er það einstaklingsbundið. Fulltrúi Flokks fólksins vill lýsa undrun sinni yfir að enginn fulltrúi eldra fólks hafi verið í þessum hópi og aldrei hafi verið haft samband við Félag eldri borgara eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. MSS22070153
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið yfirlitsins:
Flokkur fólksins tekur undir tillögu Sjálfstæðisflokks um að greiða foreldrum sem eiga börn 12 mánaða eða eldri, sem enn eru á biðlista eftir leikskólaplássi, biðlistabætur að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega á hvert barn. Grípa þarf til fjölþættra úrræða til að ná utan um það neyðarástand sem myndast hefur vegna skorts á leikskólaplássi. Flokkur fólksins hefur einmitt talað fyrir að veita neyðarstyrki og einnig heimgreiðsluúrræði sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun sennilega létta á biðlistum og gætu foreldrar átt þess kost að vera heima hjá barni sínu í allt að 2 ár.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22080007
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum sem færð eru í trúnaðarbók borgarráðs:
Lagt er til að samþykkt verði tillaga stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. júní 2021 um stofnun hlutafélagsins Carbfix hf.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram umsögn rýnihóps borgarráðs dags. í dag.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka Edda Sif Aradóttir Pind, Elín Smáradóttir, Friðjón Friðjónsson, Marta Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Pawel Bartoszek, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Björn Gíslason og Andrea Helgadóttir sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030202
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Carbfix býr yfir hugviti og tækni sem getur reynst verulegt framlag til að binda koltvísýring í berg. Takist að þróa og nýta þessa tækni víðar og á stærri skala getur það verið verulegt framlag til loftslagsmála á heimsvísu. Næsti kafli í þróun Carbfix kallar á gríðarlegt fjármagn sem er langt umfram þær fjárhæðir sem geta runnið úr borgarsjóði eða OR. Því þarf að sækja aukið fé með sölu hlutafjár eða lánum og er stofnun Carbfix hf. liður í því. Borgarráð skipaði rýnihóp til að fara yfir fyrirliggjandi tillögu að stofnun Carbfix hf. Rýnihópurinn telur mikilvægt að Carbfix-tæknin verði þrautreynd og fjármögnuð til innlendra og alþjóðlegra verkefna sem liður í loftslagsaðgerðum borgarinnar, Íslands og heimsins. Hópurinn tekur undir mikilvægi traustari lagastoða undir stofnun Carbfix hf. eins og boðað hefur verið. Hópurinn telur að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram til að taka megi afstöðu til stofnunar Carbfix hf. og styður það. Rýnihópurinn tekur undir ábendingar í áhættumati fjármála- og áhættustýringarsviðs og borgarlögmanns um að ávarpa verði „óvirkar“ forvirkar aðgerðir í framhaldi af samþykkt málsins. Er eðlilegt að þær verði lagðar fram á vettvangi borgarráðs þegar þær verða fullbúnar til að ljóst sé að þessum ábendingum hafi verið fylgt eftir eins og kostur er.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista styður það að Carbfix tæknin sé notuð víðar. Þörf er á því að fjármagna þau verkefni sem framundan eru og vinna í þágu loftslagsins. Fram hefur komið að leitast hefur verið við að fjármagna verkefnin með opinberu fjármagni að einhverjum hluta og að slíkt hafi ekki gengið upp. Fulltrúi sósíalista telur eðlilegt að gert sé ráð fyrir því að hið opinbera eigi alltaf hlut í þeirri tækni sem hér um ræðir svo að fulltrúar þess geti haft sitt að segja um framtíðarákvarðanatöku og stefnumótun. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að tryggja fyrirfram að eignarhlutur hins opinbera geti ekki farið niður fyrir ákveðið hlutfall eða í 0% en eins og staðan er nú þarf skriflegt samþykki meirihluta eigenda sem koma að ákvarðanatöku til að samþykkja slíkt. Fulltrúi sósíalista telur að stofnsamþykktir eigi að gera ráð fyrir að eignarhlutur eignarhaldsfélagsins Carbfix ohf. verði tryggður frá byrjun. Ef að slíkt fyrirkomulag gengur alls ekki upp er alltaf hægt að endurskoða stofnsamþykktir.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokki fólksins finnst þetta verkefni spennandi fyrir margar sakir. Carbfix á að fjármagna alfarið í gegnum einkageirann og/eða að fjármagn komi frá fjárfestingum eða í gegnum styrkjakerfi á alþjóðavísu. Sagt er nú að þetta eigi ekki að kosta borgina neitt og að leita þurfi að fjármagni frá utanaðkomandi aðilum/fjárfestum. Borgarbúar þurfa að geta treyst á að þetta sé rétt og breytist ekki í framtíðinni. Flokkur fólksins vill orða það hreint út að aldrei komi fjármagn í þetta verkefni úr borgarsjóði, útsvar borgarbúa á ekki að nota í þetta verkefni enda þarf að nota það fjármagn til að laga þjónustu í borginni sem víða er ábótavant. Auðvelt er að rökstyðja tilganginn með Carbfix hf. Þetta er dýrt verkefni og mistakist markmiðið á það ekki að koma niður á hinum almenna borgara hvorki nú eða síðar. Loks má velta upp hvort erlendir aðilar muni einn góðan veðurdag eignast Carbfix og að opinberir aðilar hafi þá enga aðkomu að ákvarðanatöku/stefnumótun.
Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Í þessu verkefni má ekki missa sjónar af umhverfis- og loftslagsábata og upphaflegum tilgangi Carbfix. Eins þarf að fylgja því fast á eftir að lagalegri óvissu um málið verði eytt á næsta löggjafarþingi. Ef fjárhagslegur ábáti verður af verkefninu verður að tryggja að hann fari til fjölbreyttra umhverfis- og loftslagsverkefna og þróunar á aðferðum til að ráða niðurlögum á loftslagsbreytingum. Sömuleiðis verður að tryggja að fari verkefnið í vaskinn með tilheyrandi skuldasöfnun og litlum eða engum umhverfislegum ábata að reikningurinn verði ekki sendur á komandi kynslóðir.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga formanns borgarráðs, dags. 16. ágúst 2022, um uppbyggingu leikskóla, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Skúli Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Helgi Grímsson og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22010084Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg stendur fyrir mestu uppbyggingu í leikskólamálum í áratugi með átakinu um að brúa bilið sem mun skila 553 nýjum plássum fyrir börn í leikskólum borgarinnar eingöngu á þessu ári. Tafir á opnun nýrra skóla hafa hins vegar leitt til vandræða fyrir fjölskyldur sem gerðu ráð fyrir að leikskólavist gæti hafist snemma í haust. Þeim aðgerðum sem samþykktar eru í dag er ætlað að flýta opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi, nýta laust húsnæði borgarinnar til að taka við nýjum börnum á leikskóla, opna nýjan leikskóla í Fossvogi, stækka Steinahlíð, hefja sérstakt átaksverkefni með dagforeldrum og breyta verklagi við innritun á leikskóla. Mikil og góð umræða hefur verið í samfélaginu varðandi stöðu leikskóla sem er mikilvægt að þróa áfram, s.s. um lengd fæðingarorlofs, sveigjanleika fæðingarorlofskerfisins og mönnunarvanda leikskóla á landinu. Tillögur frá flokkum í minnihluta verða skoðaðar og metnar. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hlustað og rætt við foreldra ásamt því að fá skýringar frá starfsfólki borgarinnar í leikskólamálum. Við tökum þetta verkefni alvarlega og viljum bregðast við. Við trúum því að þær tillögur sem hér eru samþykktar séu einmitt leið til að mæta því og taka stór skref strax án þess að gefa neitt eftir af gæðum og öryggi fyrir börnin í borginni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því sannarlega að unnið sé að lausnum við leikskólavandanum. Fyrirliggjandi áætlun skortir þó raunhæfa tímaáætlun og áreiðanlegar áætlanir um mönnun leikskólanna. Ekki virðist horfst í augu við þá miklu mannfjölgun sem spáð er á næstu árum og mun fyrirsjáanlega þyngja biðlistavandann enn frekar. Mikilvægt verður að mæta þörfinni þar sem hún reynist mest og að tryggja öllum börnum leikskólapláss í eigin hverfi. Leikskólavandinn er stærsta jafnréttismálið sem sveitarstjórnarsviðið fæst við, og mikilvægt að vinna að lausn vandans með skjótum en vönduðum hætti – og gefa ekki foreldrum væntingar um úrræði sem ekki er unnt að standa við.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mat Flokks fólksins á þessum 6 tillögum. 800 pláss vantar. 1. Lagt er til að opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi verði flýtt til fyrri hluta september. Er þetta raunhæf tillaga í ljósi þess að ekki hefur tekist að klára lóðir á svæðinu? Nú virðist sem hægt sé að klára málið á einum mánuði. Flokkur fólksins vill ekki að lofað sé upp í ermina. 2. Meirihlutinn leggur til að laust húsnæði borgarinnar verði nýtt til að taka við nýjum börnum í leikskóla, 160 til 200 pláss. Flokkur fólksins fagnar því að nýta eigi laust húsnæði. 3. Nýr leikskóli í Fossvogi. Lagt er til að Reykjavíkurborg nýti forkaupsrétt með kaupum á lóð í Fossvogsdalnum. Flokkur fólksins sér þetta sem langtímalausn. 4. Stækkun Steinahlíðar er einnig langtímalausn. 5. Dagforeldrar. Lagt er til að samþykkt verði að hækka niðurgreiðslu vegna þjónustu dagforeldra til að fjölga dagforeldrum. Mat Flokks fólksins er að tillaga 5 sé eina raunhæfa tillagan og gæti orðið virk fljótt. 6. Verklag leikskólainnritunar þarf að bæta. Flokkur fólksins bendir á að milljarðar sem farið hafa í stafrænar lausnir og þróun á rafrænni þjónustu hafa farið framhjá skóla- og frístundaráði þegar kemur að innritun.
Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Það hefur lengi verið skoðun borgarfulltrúa Vinstri grænna að það þurfi að raungera leikskólann sem fyrsta menntastig barna með því að staðfesta lög þess eðlis. Sé raunverulegur vilji stjórnvalda til að auka farsæld barna, setja velferð þeirra og þroska í öndvegi og búa til framsækið og öruggt menntasamfélag sem tekur mið að þörfum þeirra, þá þarf að lögfesta leikskólann sem fyrsta menntastigið, gera hann endurgjaldslausan og tryggja örugga inntöku barna rétt eins og í grunnskólum landsins. Þá þarf Alþingi einnig að lengja fæðingarorlofið, hækka greiðslur sjóðsins og gefa meiri sveigjanleika við fæðingarorlofstöku. Stjórnvöld þurfa að taka höndum saman um að jafna aðstöðumun barna í menntakerfinu og eyða óvissunni um hvenær börn hefja leikskólagöngu sína. Það þarf að umbylta því gallaða kerfi sem við búum við í dag og hrinda í framkvæmd nýrri hugsun sem miðast alfarið við börn, þarfir þeirra og velferð. Vandi ungra barna í dag er kerfislegur fortíðarvandi og viljaleysi stjórnmálanna að sannarlega viðurkenna með lagasetningu að leikskólinn sé fyrsta menntastigið okkar þar sem börn fá góða menntun og atlæti frá fagfólki í heilsusamlegu og þroskandi umhverfi leikskólans.
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að skóla- og frístundasvið hefji undirbúning að því að bjóða vinnustöðum sveigjanleika til að opna daggæslu eða leikskóla á vinnustaðnum fyrir börn starfsmanna. Tryggðar verði sömu niðurgreiðslur og almennt gilda fyrir daggæslu í heimahúsi eða sjálfstætt starfandi leikskóla. Gætt verði að öllum gæðakröfum miðað við fyrirliggjandi reglugerðir og löggjöf. Með úrræðinu mætti styðja betur við foreldra sem eiga í erfiðleikum með að komast aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna, fjölga valkostum og skapa aukinn sveigjanleika. MSS22080107
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að kannaður verði möguleikinn á því að fjölga leikskólum á núverandi og væntanlegum uppbyggingarreitum í borginni. MSS22080115
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að borgin styðji við fjölgun foreldrarekinna leikskóla í Reykjavík. Foreldrarekstur leikskóla hefur gefið góða raun í borginni og fjölgar valkostum fyrir fjölskyldur í Reykjavík. Borgin tryggi húsnæði undir starfsemina eftir áður gefnum fordæmum, bjóði reksturinn út til foreldrahópa og tryggi sömu niðurgreiðslur og almennt gilda um sjálfstætt starfandi leikskóla. MSS22080106
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um bakvarðasveit leikskóla.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080115
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um starfsnám nemenda í leikskólaliðanámi og leikskólakennaranámi.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080116
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um heilsdags- og heilsársstörf í leikskólum og frístundaheimilum.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080117
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fé fylgi barni í leikskóla.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080121
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um rýmkun rekstrarheimilda leikskóla.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080118
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um færanlegar kennslustofur við leikskóla.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080119
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um mælaborð um stöðu leikskólamála.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. SFS22080120
Fylgigögn
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Reykjavíkurborg samþykkir að leita að húsnæði í öllum hverfum borgarinnar sem hentar til leikskólarýmis á meðan unnið er að uppbyggingu nýrra leikskóla. Ef ekki er hægt að nota laust húsnæði í eigu borgarinnar verði húsnæði tekið til leigu. Ljóst er að finna þarf húsnæði sem hentar eða fara í breytingar á húsnæði þannig að það henti leikskólastarfsemi. Þessi tillaga er lögð fram með það að leiðarljósi að börn geti sótt leikskóla í sínu nærumhverfi. MSS22080101
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Reykjavíkurborg samþykkir að greiða þeim foreldrum sem hafa óskað eftir flutningi frá sjálfstætt starfandi leikskóla yfir á borgarrekinn leikskóla, muninn sem er á gjaldskrá dagvistunargjalda. Sem dæmi má nefna að munurinn getur numið um 50 þúsund krónum á mánuði fyrir dagvistun barns í um 8 klukkustundir hafi barnið ekki náð 18 mánaða aldri. Samkvæmt tölum frá 15. ágúst sl. var 61 barn þar sem óskað hafði verið eftir flutningi frá sjálfstætt starfandi leikskóla á borgarrekinn leikskóla. MSS22080102
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Reykjavíkurborg samþykkir að veita þeim foreldrum sem hafa þurft að segja starfi sínu lausu vegna þess að borgin hefur ekki staðið við fyrirheit um leikskólapláss fyrir börn, skaðabætur vegna tekjumissis. Þetta verði gert svo að skaðanum verði ekki velt yfir á fjölskyldur og litið á sem nokkurskonar dagsektir á borgina. MSS22080104
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að allt verði gert til að tryggja að ókláraðar leikskólabyggingar og lóðir verði tilbúnar sem fyrst. Fjármagni verði veitt í að klára þær byggingar og lóðir hvort sem um er að ræða aðföng eða starfskraft sem þörf er á til þess að tryggja að sú uppbygging geti átt sér stað. MSS22080105
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.
-
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Þegar horft er á biðlista eftir leikskóladvöl á leikskólum Reykjavíkurborgar (15. ágúst sl.) voru 645 umsóknir vegna barna sem verða 12 mánaða eða eldri þann 1. september 2022 og eru að hefja leikskóla. Til viðbótar eru umsóknir vegna 61 barns þar sem óskað hefur verið eftir flutningi frá sjálfstætt reknum leikskóla á borgarrekinn leikskóla. Hvernig er staða foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börnin sín? Hversu margir foreldrar eru einstæðir? Hversu margir eru í sambúð? Eru til upplýsingar um fjölda foreldra af erlendum uppruna sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börnin sín? Heldur Reykjavíkurborg utan um sambærilegt kerfi vegna biðlista hjá dagforeldrum? Og ef svo er, hversu mörg börn eru á biðlista hjá dagforeldrum og hvernig er staða foreldra þar út frá ofangreindum spurningum? MSS22080114
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að veita foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið að að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Einnig er lagt til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildi niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun sennilega létta á biðlistum. Jafnframt er lagt til að styrkja dagforeldra með öllum ráðum og dáðum enda eitt af þeim úrræðum sem getur skipt sköpum í því ástandi sem ríkir nú vegna skorts á leikskólaplássum. Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Mannekla er tilkomin einna helst vegna lélegra launa. Um 800 pláss vantar núna. Framsóknarflokkurinn lofaði að borgin snerist um börnin og nú er að standa við það. Sveitarfélagið Reykjavík, skóla- og frístundasvið og velferðarsvið verða að stíga inn af krafti og setja allan fókus á þetta vandamál. MSS22080110
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. -
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að hraðlestrarpróf verði einungis lögð fyrir börn með samþykki foreldra og barnanna sjálfra. Spurning er hvort of mikil áhersla m.a. frá Menntamálastofnun (MMS) sé á leshraða (lesfimi) og mælingar á honum. Fjölmörg dæmi eru um að hraðlestrarpróf valdi börnum angist og kvíða. Hraðlestrarsamanburður á lestrarhraða getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Börn sem standa höllum fæti fá sífellt þau skilaboð að frammistaðan sé ekki nægilega góð jafnvel þótt hún batni. Að sama skapi getur verið að börn sem standa vel að vígi upplifi að þar sem þau séu búin að ná markmiðum þurfi þau ekki að bæta sig frekar. Færa má rök fyrir að leshraði sé stundum á kostnað lesskilnings. Á meðan hvatt er til að skólar mæli leshraða er e.t.v. ekki eins mikil áhersla á samræmdar mælingar á orðaforða, stafsetningu og lestur á sjónrænum orðaforða. Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að lesskilningur komi bara hjá börnum þegar þau ná auknum hraða eins og stundum er haldið fram. MSS22080108
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að verkefnið Kveikjum neistann verði innleitt í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við skólasamfélagið þar sem það hefur sýnt einstaklega skýrt að það er að virka og er skemmst að vísa til reynslunnar í Vestmannaeyjum. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurn um hvort skóla- og frístundasvið ætli ekki að innleiða verkefnið Kveikjum neistann en fengið loðin svör, s.s. að skóla- og frístundasvið hyggist skoða þetta verkefni. Flokki fólksins finnst þetta ekki nógu skýrt svar. Verkefninu er ætlað að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun á skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. MSS22080111
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á fundi heilbrigðisnefndar 11. ágúst sl. var lagt fram og kynnt tímabundið starfsleyfi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir skotvöll á Álfsnesi dags. 26. júlí 2022. Gildistími er til 31. október 2026. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort haft var samráð við íbúa í nágrenni við svæðið við veitingu leyfisins. MSS22080112
Vísað til meðferðar heilbrigðisnefndar.
- Kl. 12:48 er gert hlé á fundinum og þá víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum.
- Kl. 13:45 er fundi fram haldið.
- Kl. 14:15 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.
Fundi slitið klukkan 14:20
Einar Þorsteinsson Alexandra Briem
Heiða Björg Hilmisdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1808.pdf