Borgarráð - Fundur nr. 5671

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 11. ágúst, var haldinn 5671. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:20. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Líf Magneudóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Dóra Björt Guðjónsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. ágúst 2022:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.455 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,99%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 1.369 m.kr. að markaðsvirði. Lagt er til að hafna öllum tilboðum í óverðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKNG 40 1. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 10. ágúst 2022.

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir og Helga Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22010057

  Fylgigögn

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki endurskoðaða uppbyggingaráætlun til viðbótar gildandi áætlun frá 2017. Um er að ræða áframhald af því uppbyggingarátaki sem staðið hefur undanfarin ár. Alls eru þetta 20 íbúðakjarnar með 120 íbúðum og tveimur færanlegum húsnæðisteymum sem myndu veita 48 einstaklingum stuðning. Í heildina er lögð til uppbygging á 168 íbúðum sem Félagsbústöðum yrði falið að útvega. Ennfremur þarf að gera ráð fyrir starfsmannaaðstöðu í hverjum kjarna og tveimur starfsstöðum fyrir færanlegu teymin. Heildarkostnaður til ársins 2028 er metinn á 3.688 m.kr. á verðlagi ársins 2022 með stofnkostnaði. Lagt er til að borgarráð samþykki endurskoðaða uppbyggingaráætlun og vísi henni til gerðar fjárhagsáætlunar og fjárfestingaáætlunar. Aukinheldur verði við framvindu og fjármögnun áætlunarinnar tekið mið af fyrirhuguðum samningaviðræðum við íslenska ríkið um fjármögnun málaflokksins í heild sinni. Viðbótaráætlunin gildi til 2028 en verði endurskoðuð árlega og borgarráð og velferðarráð upplýst um stöðu verkefnisins með hliðsjón af biðlistum og árangri Félagsbústaða við að útvega húsnæði fyrir fatlað fólk.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Regína Ásvaldsdóttir, Ólafía Magnea Hinriksdóttir, Grétar Örn Jóhannsson, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Ósk Soffía Valtýsdóttir og Ricardo Mario Villalobos taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030145

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða áframhald af því uppbyggingarátaki sem staðið hefur undanfarin ár. Alls eru þetta 20 íbúðakjarnar með 120 íbúðum og tveimur færanlegum húsnæðisteymum sem myndu veita 48 einstaklingum stuðning. Í heildina er lögð til uppbygging á 168 íbúðum sem Félagsbústöðum yrði falið að útvega. Heildarkostnaður til ársins 2028 er metinn á 3.688 m.kr. Þetta uppbyggingarátak fyrir fatlað fólk er án fordæma en tilgangurinn með því er að stórbæta umhverfi og þjónustu í þessum viðkvæma málaflokki.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Nauðsynlegt er að tryggja öllum húsnæði sem hentar og að enginn bíði til lengdar eftir viðeigandi húsnæði. Í þessu samhengi hefur mikil umræða átt sér stað um fjárveitingar. Sósíalistaflokkur Íslands nefnir mikilvægi þess að fjármagnseigendur verði ekki undanþegnir greiðslu útsvars til samfélagsins eins og nú á við. Mikilvægt er að ríkustu íbúarnir greiði einnig til samfélagsins.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins fagnar því að endurskoða eigi uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk. Biðlistinn hefur verið langur í áraraðir. Enn er hætta á að hann nái of skammt því einhvern veginn hefur fjölgun alltaf verið gróflega vanmetin. Horfa þarf til reynslunnar þegar framtíðaráætlun um uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk er endurskoðuð. Þessi málaflokkur hefur aldrei verið í neinum forgangi hjá stjórnvöldum og hefur þjónusta við fatlað fólk einnig liðið fyrir að ekki hafa legið fyrir nógu góðar upplýsingar um stöðu mála. Nú er heildarbiðlistinn um 486 manns samkvæmt því sem fram kom í kynningu á fundi SSH um skýrslu um endurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Í Reykjavík er biðlistinn um 135 manns.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lögð er fram niðurstaða dómnefndar í verkefninu Reinventing Cities á innsendri verkefnatillögu við Gufunesbryggju. Lagt er til að borgarráð samþykki niðurstöður dómnefndar og feli skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að hefja viðræður við Þorpið um lóðarvilyrði á grundvelli tillögu þeirra en að teknu tilliti til þeirra ábendinga sem koma fram í niðurstöðu dómnefndar. Hluti undirbúnings viðræðna verði að fullkanna raunhæfni þess hluta tillagna sem lúta að staðsetningu leikskóla á svæðinu. Einnig þarf að tryggja aðgengi almennings og borgarbúa að strandlengjunni og strandsvæðum og að í útfærslunni sé tekið mið af tillögum um brú milli Gufuness og Viðeyjar.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22080027

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Reinventing Cities verkefnið kemur upphaflega frá París þar sem markmiðið er að hefja græna og framsækna uppbyggingu á óvæntum stöðum í borgum. Borgarsamtökin C40 tóku verkefnið upp á sína arma og varð Reykjavík aðili að verkefninu í gegnum C40. Í borgunum sem eru aðilar að C40 búa yfir 650 milljónir manns og þær standa fyrir fjórðungi alls fjármagns heims. Reykjavík hefur verið þátttakandi á undanförnum árum og nú þegar liggja fyrir nokkrar lóðir í borginni með spennandi verkefnum sem vonandi komast til framkvæmda sem fyrst. Hér er verið að samþykkja að ganga til viðræðna við tillöguhöfunda um spennandi lífsgæðaverkefni í Gufunesi. Um er að ræða sjóböð, gufu, jafnvel leikskóla og margt fleira.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavík hefur verið þátttakandi í Reinventing Cities verkefninu undanfarin ár. Nú liggja fyrir nokkrar lóðir í borginni sem eiga eftir að komast til framkvæmda t.d. til að byggja á leikskóla í Gufunesi. Það er kannski það brýnasta í ljósi alvarlegrar stöðu í leikskólamálum í borginni. Sennilega hefur staðan aldrei verið svo slæm sem raun ber vitni og þarf að huga að þeim vanda víða í borginni. Flokkur fólksins vill ekki að verið sé að hygla ákveðnum hópi eða hópum heldur þarf að huga að jöfnuði í borginni þegar kemur að lífsins gæðum. Rétt er að byrja á að lagfæra og bæta nauðsynlega þjónustu áður en farið er í að byggja sánu og heilsulindir hvort heldur er ofan- eða neðansjávar.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Hjálagt erindisbréf stýrihóps um Evrópusamstarf um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030 er lagt fram til samþykktar. Óskað er eftir því að borgarráð staðfesti skipan fulltrúa í stýrihópinn. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að leiða stefnumótun varðandi þátttöku Reykjavíkurborgar í Evrópusamstarfi um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030.

  Samþykkt. MSS21120238

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Aðgerðir í loftslagsmálum verða að vera samfélagslega réttlátar. Mikilvægt er að öll loftslagsumbreyting verði gerð á forsendum hagsmuna almennings og umhverfisins, til lengri og skemmri tíma. Hafa verður lífsgæði almennings að leiðarljósi allra loftslagsaðgerða, ekki hagnaðarkröfu fyrirtækjaeigenda. Mikilvægt er að hafa þetta að leiðarljósi í vinnunni sem er framundan.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins bendir á að huga þarf að öllum hópum í samfélaginu þegar horft er til aðgerða í loftslagsmálum. Efnaminna fólk hefur sem dæmi ekki efni á að borga tolla og gjöld, s.s. veggjöld. Í þessum málum sem öðrum þarf að ríkja sanngirni.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Hjálögð erindisbréf starfshóps um uppbyggingu þjóðarleikvanga í íþróttum og framkvæmdanefndar vegna uppbyggingar þjóðarhallar í innanhúsíþróttum eru lögð fram til kynningar. Jafnframt er lagt til að meðfylgjandi fjárhagsáætlun vegna framkvæmdanefndar um þjóðarleikvang í innanhúsíþróttum verði samþykkt þar sem gert er ráð fyrir að hluti Reykjavíkurborgar í þeim kostnaði verði 50% á móti ríkinu. Kostnaður Reykjavíkurborgar verði fjármagnaður af kostnaðarstað á framkvæmdaáætlun um íþróttamál – kostnaðarstaður íþróttahús í Laugardal.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22080037

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að kynna erindisbréf framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal. Í hópnum eiga sæti fulltrúar borgarinnar og fulltrúar ríkisins. Tilgangurinn með aðkomu borgarinnar er fyrst og fremst að auka og stórbæta aðstöðu til æfinga og keppni fyrir börn og unglinga í Laugardal. Þróttur og Ármann og skólarnir í hverfinu verða eftir þetta með fyrsta flokks aðstöðu. Um leið er fagnað að með þjóðarhöll verður umgjörð landsliða og leikja til fyrirmyndar og verður sannkallað fjölnotahús fyrir þjóðina.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Síðustu tvö kjörtímabil hafa málefni þjóðarleikvanga í Laugardal verið tafin og svæfð ítrekað af meirihlutanum í borginni. Hópar skipaðir, nefndir stofnaðar, málefnum Þróttar og Ármanns þvælt inn í umræðu um þjóðarleikvanga og börn og ungmenni þannig notuð í vandræðalegri störukeppni við ríkisvaldið og sérsambönd íþróttafélaganna. Mikilvægt er að tekið verði fast á málum héðan af og þess jafnframt gætt að uppbygging þjóðarleikvangs hafi ekki áhrif á löngu tímabæra uppbyggingu fyrir börn og ungmenni í Laugardal.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins harmar hvað málefni þjóðarleikvanga í Laugardal hafa verið tafin. Endalausir hópar skipaðir og annað sem flækist fyrir framgangi málsins. Á meðan bíða börn í Laugardal eftir almennilegri íþróttaaðstöðu en þau hafa lengi verið á vergangi þar sem bæði skólar og íþróttaaðstaða eru löngu sprungin.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki beiðni Women Political Leaders um aukna notkun á nafni Reykjavíkurborgar í samræmi við hjálagt bréf dags. 4. ágúst sl.

  Samþykkt. MSS22080036

  Fylgigögn

 7. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst 2022, varðandi sex tillögur starfshóps um sveigjanleg starfslok, ásamt fylgiskjölum.
  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Frestað. MSS22080032

 8. Lagður fram rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum, dags. 12. júlí 2022.
  Anna Guðmunda Ingvarsdóttir og Hermann Jónasson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22070117

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurborg er eitt af sveitarfélögunum sem á aðild að þessu samkomulagi sem er jákvætt í sjálfu sér. Nokkur atriði eru þó umhugsunarverð að mati Flokks fólksins. Hagkvæmt húsnæði er húsnæði sem samfélagið niðurgreiðir svo sem með niðurgreiddum lánum eða ódýrum lóðum. Ekki síður er mikilvægt að byggja með sem hagkvæmustum hætti. Þar kunna að koma til atriði í byggingarreglugerðum sem og hönnun og útfærsla húsnæðis. Fram kemur að semja þurfti við sérhvert sveitarfélag en tekið er fram að húsnæðismál, skipulagsmál, byggðamál og samgöngumál séu öll komin undir sama ráðuneyti, ásamt sveitarstjórnarmálum. Þetta ráðuneyti þarf síðan að semja við öll sveitarfélögin svo hægt sé að skapa nýja umgjörð um húsnæðisuppbyggingu á Íslandi. Sameining sveitarfélaga myndi spara kostnað í þessu sambandi. Komið er inn á samningsmarkmið. Flokkur fólksins telur að breyta megi samningsmarkmiðum borgarinnar þannig að uppbygging óhagnaðardrifins húsnæðis gangi mun hraðar. Óhagnaðardrifin félög þýða að ekkert er greitt út úr félaginu.

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Aukin uppbygging á hagkvæmu og góðu húsnæði er áríðandi og brýnt mannréttindamál. Rammasamningur um húsnæðisáætlun Íslands til 2032 er því kærkomið samkomulag sem gefur fyrirheit um að skurkur verði gerður í húsnæðisuppbyggingu um land allt. Margt sem þar kemur fram er til mikilla bóta fyrir sveitarfélögin og það umhverfi sem þau starfa í. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna saknar þó nokkurra atriði í samkomulaginu og telur að það gæti verið betra. Það er ekki nóg að nefna aukið lóðaframboð og að veita fjárstuðning til að tryggja íbúðaruppbyggingu heldur verður fyrirhuguð íbúðaruppbygging að haldast í hendur við sjálfbærni hverfa, vistvæna samgönguinnviði, náttúrulegt og gróðursælt umhverfi, hágæða hönnun og arkitektúr og þjónustu í göngufæri. Það er einnig brýnt að breyta lögum sem kveða á um skyldu uppbyggingaraðila til að hefja uppbyggingu innan ákveðins tíma eftir samþykkt skipulags og láta þau ná yfir þegar samþykkt skipulag, s.s. afturvirkt. Eins mætti kveða fastar á um ábyrgð ríkisins til að breyta ferðavenjum fólks og aðkomu þess að uppbyggingu og rekstri vistvænna ferðamáta enda eru skipulagsmál samgöngumál og öfugt.

  Fylgigögn

 9. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Björns Gíslasonar.
  Samþykkt. MSS22060045

 10. Lagt til að Björn Gíslason taki sæti í stafrænu ráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur.
  Samþykkt. MSS22060158

 11. Lagt til að Einar Þorsteinsson taki sæti varamanns í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur.
  Samþykkt. MSS22060155

 12. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um álit borgarlögmanns um leiðbeiningarskyldu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. júní 2022. Einnig lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 5. ágúst 2022.
  Samþykkt. MSS22060244

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Atvinnurekendur í Reykjavík, ekki síst veitingamenn, kvarta gjarnan undan þeim flöskuhálsi sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) veldur þegar hafinn er rekstur í borginni. Samskipti við HER reynast eins konar völundarhús og ómögulegt að fá skýrar leiðbeiningar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað bent á leiðbeiningarskyldu HER gagnvart þeirri starfsemi sem það hefur eftirlit með. Nú hefur borgarlögmaður staðfest þann skilning að HER beri að lögum leiðbeiningarskyldu og beri að aðstoða og leiðbeina aðilum um þau mál sem heyra undir starfssvið þess. Ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægi þess að HER bregðist við álitinu og veiti hér eftir viðeigandi leiðbeiningar til þeirra aðila sem til þess leita og heyra undir starfssvið þess. Mun Sjálfstæðisflokkur fylgja málinu eftir með tillögum að úrbótum.

  Fylgigögn

 13. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2022.
  B-hlutar fundargerðarinnar eru samþykktir. MSS22060175

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 48. lið fundargerðarinnar:

  Flokkur fólksins hefur enn á ný og nú á nýju kjörtímabili lagt fram tillögu um gerð nýs umhverfismats vegna 3. áfanga Arnarnesvegar þar sem fyrra umhverfismat er frá 2003 og því úrelt. Tillagan var lögð fram með von og trú að leiðarljósi þar sem frambjóðandi Framsóknarflokksins gaf út loforð, skömmu fyrir kosningar, að Framsóknarflokkurinn, kæmist hann til valda, myndi láta gera nýtt umhverfismat. Tillögunni var vísað frá. Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærðar voru ákvarðanir umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um að samþykkja deiliskipulag fyrir 3. kafla Arnarnesvegar og Elliðaárdals 29.  júní 2022, sem og staðfesting borgarráðs frá 1. júlí 2022 á nefndum skipulagsáætlunum. Þess er krafist að deiliskipulag fyrir 3. kafla Arnarnesvegar og deiliskipulag Elliðaárdals frá 1. júlí 2022 verði felld úr gildi. Þess er einnig krafist að engin framkvæmdaleyfi fyrir 3. kafla Arnarnesvegar eða Elliðaárdals verði gefin út á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Flestir íbúar í nágrenni við framkvæmdina telja að framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, hljóðvist og útivist á svæðinu og koma í veg fyrir að svæðið verði miðstöð útivistar og afþreyingar.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. MSS22070153

  Fylgigögn

 15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22080007

  Fylgigögn

 16. Fram fer frekari kynning á áformum um stofnun Carbfix hf., sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí 2022. Kynnt eru drög að trúnaðarmerktu áhættumati eigenda, dags. 10. ágúst 2022. MSS22030202

 17. Fram fer umræða um stöðuna á leikskólum borgarinnar.
  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22010084

 18. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að borgin greiði þeim foreldrum sem eiga börn 12 mánaða eða eldri, sem enn eru á biðlista eftir leikskólaplássi, biðlistabætur að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega á hvert barn. Bæturnar skoðist sem tiltekið neyðarúrræði og verði greiddar þar til börnin fá leikskólapláss í Reykjavík. Með bótunum verði viðurkennt að fjölskyldur ungra barna í borginni fái ekki þá þjónustu í Reykjavík sem þær hafa réttmætar væntingar til að njóta. MSS22080053

  Frestað.

 19. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að við 12 mánaða aldur hækki niðurgreiðslur til dagforeldra svo kostnaður foreldra verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Þetta á við um þau börn sem dvelja hjá dagforeldrum og eru orðin 12 mánaða gömul hið minnsta. MSS22080054

  Frestað.

 20. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fram kemur í minnisblaði Strategíu sem lagt var fyrir borgarráð 24. febrúar sl. að tækifæri liggi til framtíðar í að rýna kosti og galla þess að sameina íþrótta- og tómstundasvið og menningar- og ferðamálasvið. Fór sú rýni fram áður en ákveðið var að sameina sviðin? Ef svo er þá er óskað eftir því að kynning fari fram á þeirri rýni í borgarráði á næsta fundi ráðsins. MSS22080055

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 21. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu um að skipaður verði stýrihópur með fulltrúum skóla- og frístundaráðs til að leysa bráðan vanda foreldra og forráðamanna sem þurfa á dagvistun að halda. Foreldrar hafa bent á erfiða stöðu í leikskólamálum þar sem bið er eftir plássi og þá óvissu sem henni fylgir. Þetta setur foreldra og fjölskyldur í mjög erfiða stöðu, jafnvel þótt fæðingarorlof hafi verið lengt. Ljóst er að finna þarf langtímalausnir sem og að leitast við að leysa þann bráðavanda sem stendur yfir varðandi inntöku barna á leikskóla í borginni. Hér þarf að leitast við að hafa eins skýra sýn og mögulegt er um hvernig mannfjölgun er að þróast í borginni og reyna að vera skrefinu á undan í stað þess að þurfa að bregðast við eftir á. Hópurinn skal skila niðurstöðum og úrræðum sem allra fyrst. Stýrihópurinn verði skipaður formanni skóla- og frístundaráðs, fulltrúa minnihluta úr skóla- og frístundaráði, formanni borgarráðs og oddvitum allra flokka í borgarstjórn. Leitað verði til foreldra til ráðgjafar og samstarfs sem og annarra innan og utan borgarkerfisins með sérþekkingu á viðfangsefninu. MSS22080060

  Frestað.

 22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Svo virðist sem stafræn umbreyting borgarinnar gangi stundum meira inn á þætti sem ekki snúa beint að bættu aðgengi borgarbúa að þeirri rafrænu þjónustu sem þeim ætti að standa til boða. Dæmi um þetta er þegar foreldri þarf að segja upp dvalarsamningi barns í leikskóla. Þá þarf viðkomandi að taka á móti útprentuðu A4 blaði frá leikskólanum sem þarf að fylla út skriflega með öllum viðeigandi upplýsingum og skila því aftur til baka í leikskólann. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvenær stafræn umbreyting Reykjavíkurborgar nái að skila sér að fullu, alla leið til leikskólanna í borginni. MSS22080056

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Leikskólamálin hafa verið mikið í umræðunni síðustu vikur því alvarlegur skortur er á leikskólaplássum þrátt fyrir loforð um annað hjá þessum og síðasta meirihluta. Foreldrar eru ekki aðeins óánægðir heldur einnig í angist yfir hvernig þeir eigi að komast í vinnuna sína. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hversu margir foreldrar sem nú þegar eru búnir að fá pláss fyrir börn sín á leikskóla, hafa ekki fengið upplýsingar um hvaða dag barn þeirra getur hafið aðlögun. Í reglum segir að foreldrar eigi að fá þessar upplýsingar eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst, miðað við 1. eða 15. hvers mánaðar. MSS22080057

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins sat tvo fundi í sumar vegna kvartana íbúa varðandi hávaða og skrílsláta í miðbænum. Fundina sátu einnig lykilaðilar úr borgarkerfinu, lögregla og fulltrúar íbúa. Í kjölfarið var settur á laggirnar spretthópur sem vinna átti málið áfram. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig starfið gengur hjá hópnum. Spurt er hvernig þessari vinnu miðar og hvert stefnir. Hafa allir útihátalarar t.d. verið fjarlægðir eins og talað var um að gera, enda ólöglegir? Hefur verið velt upp möguleikum á frekari hljóðvörnum t.d. eins og í gömlum húsum sem vitað er að bergmála vegna slakrar einangrunar? Eru kvartanir nú allar færðar til bókar? Flokkur fólksins hefur verið með tillögur til lausnar þessa vanda. Sú fyrsta var lögð fram 2018 þar sem lagt var til að reglugerð um hávaðamengun yrði fylgt, og nú síðast að farið yrði í fjölþættar aðgerðir til að leysa vanda m.a. með ráðningu miðbæjarstjóra og skoða að flytja klúbba sem eru opnir fram eftir nóttu úr miðbænum til dæmis út á Granda. MSS22080058

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Í kjölfar frétta um gagnaleka í vefþjónustu sem starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa notað í einhverjum mæli, hefur fulltrúi Flokks fólksins áhuga á að vita hvort ekki sé lengur skannað eftir því hvaða hugbúnaður er notaður á tölvum Reykjavíkurborgar. Einnig vill fulltrúinn fá að vita hvort vitað sé hversu margir starfsmenn borgarinnar eru með stjórnandaréttindi á sínum tölvum og hvernig staðið er að því að úthluta þessum réttindum til að geta sett upp hvaða hugbúnað sem er á tölvum borgarinnar. MSS22080059

  Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Fundi slitið klukkan 12:50

Einar Þorsteinsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Hildur Björnsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir