Borgarráð - Fundur nr. 5669

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 7. júlí, var haldinn 5669. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Hildur Björnsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Skúli Þór Helgason og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Theodór Kjartansson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á tillögu að deiliskipulagi 3. áfanga Arnarnesvegar, ásamt fylgiskjölum. MSS22010056
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Lagning Arnarnesvegar er hluti af samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu sem Reykjavíkurborg er aðili að. Samgöngusáttmálinn er sögulegt samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem tryggir uppbyggingu grænna samgönguinnviða jafnframt því að greiða fyrir bílaumferð á völdum stöðum. Mjög mikilvægt er að draga eins og unnt er úr neikvæðum umhverfisáhrifum af framkvæmdinni og hefur verið leitast við það eftir fremsta megni í útfærslu gatnamótanna. Í deiliskipulaginu er mikið lagt upp úr góðum tengingum fyrir gangandi og hjólandi bæði yfir Arnarnesveg og yfir í Elliðaárdal. Jafnfram gerir deiliskipulagið ráð fyrir að hægt sé að setja upp vistlok sem minnka áhrif á ásýnd og upplifun íbúa af þeim breytingum sem hér verða. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Síðasta umhverfismat er að verða orðið 20 ára gamalt. Það ætti að gera nýtt áður en lengra er haldið, enda hafa forsendur breyst. Leiðinlegt er að sjá hve lítið hefur verið hlustað á þau félagasamtök sem hafa óskað eftir samtali við borgarfulltrúa og oddvita meirihlutans í þessu máli. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Vatnsendahvarf er dýrmætt grænt svæði sem er varplendi fjölmargra farfuglategunda og vinsælt útivistarsvæði. Með framkvæmd 3. kafla Arnarnesvegar er fyrirhugað að sprengja í loft upp 1,5 km langan kafla plús 60 metra breiða geil, af þessu fallega græna svæði og eyðileggja ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Framkvæmdin byggir á umhverfismati frá 2003. Eins og fram hefur komið í viðtölum lofaði Framsókn að gert yrði nýtt umhverfismat fyrir framkvæmdina. Því miður stóðu þeir ekki við loforðið og harmar Flokkur fólksins það. Forsendur hafa breyst mikið á þessum langa tíma, ný hverfi byggst í kring. Einnig hafa orðið breytingar varðandi áherslur í umhverfis- og samgöngumálum. Byggja á leiksvæði barna, Vetrargarðinn, á horni tveggja stofnbrauta með samtals 11 akreinar, en samt telur borgin ekki þörf á nýju umhverfismati. Rök borgarinnar eru að það þurfi ekki að gera nýtt umhverfismat, vegna glufu í lögum um umhverfismat. Það er öllum ljóst að það er hvorki umhverfislega né siðferðislega rétt, og ekki í anda grænna áherslna borgarinnar. Svör EFLU við athugasemdum áhyggjufullra íbúa, eru vægast sagt ófullnægjandi og vekja ekki traust á athugasemda ferli borgarinnar. Það virðist því miður augljóst að það er í raun ekkert annað en sýndarlýðræði. Lýðheilsa íbúa er hér að veði.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
     
    Í tilefni af bókun Flokks fólksins þá vill Framsókn taka fram að Framsókn hafði ekki á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að krefjast nýs umhverfismats vegna gerðar Arnarnesvegar. Málið hefur verið í vinnslu um árabil og byggir ákvörðun um umhverfismat á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um málið. Að mati stofnunarinnar hafa ekki komið fram efnisleg sjónarmið sem réttlæta að tefja framkvæmdina um 1-2 ár með gerð nýs umhverfismats. Borgarstjórnarflokkur Framsóknar kom fyrst að þessu máli eftir kosningar. Framsókn talaði skýrt fyrir kosningar um að mikilvægt væri að tryggja framgang samgöngusáttmálans. Arnarnesvegur var krafa Kópavogsbæjar inn í gerð samgöngusáttmálans og verður mikil samgöngubót fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Umsagnir íbúa eru fjölmargar. Bæði er talað gegn framkvæmdinni en einnig þess krafist að umferðarmannvirkin séu umfangsmeiri til að anna meiri umferð. Framsókn telur mikilvægt að ráðast í mótvægisaðgerðir vegna sjónarmiða um útivist á svæðinu. Gerð vistloks er mikilvægt skref í þá átt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
     
    Flokkur Fólksins vill ítreka það að í aðdraganda kosninga þá mætti Þorvaldur Daníelsson fyrir hönd Framsóknar á fund Náttúruvina Reykjavíkur og sagði á þeim fundi að Framsókn myndi styðja nýtt umhverfismat fyrir 3. kafla Arnarnesvegar, enda hvorki umhverfislega né siðferðislega rétt að byggja svo stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati. Þar sem það var ljóst í stefnuskrá flokksins að hann styddi einnig við samgöngusáttmálann þá höfðu Náttúruvinir samband við Framsókn eftir fundinn til að fá nánari útskýringar. Þorvaldur svarar og staðfestir við Náttúruvini Reykjavíkur og Vini Vatnsendahvarfs að Framsókn muni styðja það að nýtt umhverfismat fyrir 3. kafla Arnarnesvegar verði gert. Náttúruvinir Reykjavíkur og vinir Vatnsendahvarf upplifa að þetta hafi verið svik af hálfu Framsóknar og þau hafi verið notuð til að afla atkvæða fyrir flokkinn. Mikil óeining er enn um útfærslu vegarins og hefur Kópavogur sagt að þau muni láta leggja mislæg gatnamót um leið og tækifæri gefst, enda ljóst að ljósastýrð gatnamót við Breiðholtsbraut muni ekki anna umferðarþunganum, og valda enn meiri stíflu á þegar sprunginni Breiðholtsbraut. Vistlokin eru til bóta, en þar sem þau eru á ábyrgð Kópavogs að fjármagna þá er allsendis óvíst að þau verði nokkurn tímann að veruleika.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs þann 9. desember árið 2020 bókuðu fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata efasemdir sínar um að framkvæmdin væri ólíkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og gagnrýndu skort á upplýsingum hvort hægt væri að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Þá var tekið fram að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat. Tvö ár eru liðin og ekki var vilji til að leggja í slíka vinnu sem hefði að öllum líkindum skilað betri ákvarðanatöku en þeirri sem nú er tekin. Það er brýnt er að bæta umferðaröryggi allra ferðamáta en aðgerðir til þess mega ekki vera umferðaraukandi fyrir óvistvæna ferðamáta. Lagning Arnaresvegar er þannig framkvæmd. Nú fara hundruðir hektara af óspilltu landi undir umferðarmannvirki sem leggur megináherslu á einkabílinn og fjölgun mislægra gatnamóta. Mótvægisaðgerða er þörf og það þarf að rýna vandlega tækifærin til að minnka aðra vegi eða loka þeim og ráðast í gagngerar breytingar til að stuðla að breyttum ferðavenjum og opna vegi í meira mæli fyrir vistvænum ferðamátum. Þá hefur ótal margt breyst frá því umhverfismatið var framkvæmt og það þarf að mæla kolefnisspor framkvæmda og áhrif þeirra á umferðaraukningu (e. induced demand). Það eru hagsmunir Reykvíkinga að það sé gert eins og umhverfisins alls. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna breytinga á skipulagsmörkum deiliskipulagsmarka, ásamt fylgiskjölum. MSS22070026
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir áhyggjur og athugasemdir Hollvinasamtaka Elliðaárdals. Hér er verið að fórna dýrmætu útivistarlandi borgarbúa í landfrekt tengivirki fyrir gatnamót sem er ekki hagstæðasta lausnin í umferðalegu tilliti. Hér er verið að taka svæði af dalnum að nauðsynjalausu. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Fulltrúi Sósíalista harmar að til standi að minnka skipulagssvæði Elliðaárdals. Þetta er svæði sem verður tekið í burtu á óafturkræfan hátt. Þetta er eitt af okkar dýrmætustu útivistarsvæðum. Koma hefði átt til móts við þau samtök og hópa sem mótmæltu og málið unnið í betra samráði með þeim. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Skipulagsmál Elliðaárdalsins er nátengt Arnarnesvegi. Hér er einnig um einstaka náttúruperlu að ræða og stíga þarf því varlega til jarðar. Verið er að skerða útivistarsvæði til að koma fyrir óþörfum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar, gatnamót sem gætu vel verið á mótum Breiðholtsbrautar og götunnar Vatnsendahvarfs. Ekki ætti að breyta deiliskipulaginu fyrr en eftir nýtt umhverfismat. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður-Mjóddar vegna lóða nr. 2A, 2B, 2C og 2D við Álfabakka, ásamt fylgiskjölum. MSS22070021
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis, ásamt fylgiskjölum. MSS22070022
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna tengistígs við Rafstöðvarveg 1A, ásamt fylgiskjölum. MSS22070024
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga í Gufunesi vegna reita A3 og A4, ásamt fylgiskjölum. MSS22070027
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júlí 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna reits F, ásamt fylgiskjölum. MSS22070028
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðar nr. 2 við Kirkjusand, ásamt fylgiskjölum. MSS22070030 
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að fjalla um tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytt byggingarmagn og breytt starfsemi á lóðinni þar sem verður blönduð starfsemi íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, í samræmi við aðra hluta deiliskipulags svæðisins. Enn og aftur er talað um líffræðilegan fjölbreytileika í samhengi við gróðurþök og segir: „Þök eru almennt gróðurþök þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttum gróðri, sem stuðlar að líffræðilegum fjölbreytileika“. Flokkur fólksins spyr hvaða plöntutegundir hafa höfundar í huga? Er talið að gróður á þaki stuðli að líffræðilegum fjölbreytileika? Er það þá líka réttur skilningur að lagning stíga og gatna minnki líffræðilegan fjölbreytileika? Einnig segir. „Gróður skal einnig valinn með tilliti til þess hve mikið vatn hann getur tekið til sín. Þar sem íverusvæði (með hörðu yfirborði) eru á þökum er vatni af þessu svæðum veitt inn á gróðursvæði“. Flokkur fólksins spyr aftur, hvaða plöntutegundir hafa höfundar í huga? 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi við Leirtjörn í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. MSS22070031
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

     Alla hópa samfélagsins þarf að hafa í huga þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu. Hættan hér er sú eins og víða annars staðar að fáir eignamiklir aðilar fari fremst í röðina og safni íbúðum. Ástæðan er sú að það er ekkert hér sem kemur í veg fyrir þessa þróun. Það eykur á stéttaskiptinguna. Á meðan borgin setur fjárfestum og eignaaðilum engar skorður varðandi húsnæðiskaup, að þá er ekki við því að búast að þessi þróun hætti hér. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 tillögu að breytingu á almennum skilmálum deiliskipulags fyrir Reynisvatnsás, ásamt fylgiskjölum. MSS22030077
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     Ekki á að breyta skipulagi eftir að byggt hefur verið eftir því. Stórir skorsteinar og stórir diskar til að ná sjónvarpsmerki hafa áhrif á útsýni. Hefðbundið loftnet og 30-40 cm þykkt reykrör myndi teljast innan marka. Eitthvað mun stærra ætti að fara í grenndarkynningu. Íbúasamtökin í Úlfarsárdal hafna tillögu á breytingu á skilmálum deiliskipulagsins „Reynisvatnsás, íbúðarhverfi, deiliskipulag“. Þessi afstaða um breytingar svo sem að leyfa skorsteina og loftnet upp fyrir tilgreinda hámarks hæð er of opin. Þarna er verið að opna fyrir að stórir steyptir skorsteinar og gervihnattadiskar geti skyggt á útsýni. 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á kynningu á lýsingu á deiliskipulagi fyrir Suðurlandsveg, ásamt fylgiskjölum. MSS22070032
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Hér er um framkvæmd Vegagerðarinnar að ræða, sem telur þörf á breytingunni til að bæta öryggi og umferðarflæði. Þetta er viðkvæmt svæði sem er mikið notað til útivistar. Bættar hjóla- og gönguleiðir á svæðinu sem farið er í samhliða breytingunni eru þó einnig mikilvægar og mikilvægt að tryggja samfelldan göngu- og hjólastíg til Hveragerðis og Selfoss. Gæta þarf vel að mótvægisaðgerðum. Vatnsbúskapur Rauðavatns hefur verið mjög sveiflukenndur og mikilvægt að skoða hvort hægt sé að hafa jákvæð áhrif á þá stöðu eins og frumkönnun gefur til kynna. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     Lögð fram af skipulagsyfirvöldum skipulagslýsing EFLU verkfræðistofu f.h. umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 4. maí 2022, um nýtt deiliskipulag Suðurlandsvegar, frá vegamótum við Bæjarháls að sveitarfélagsmörkum við Mosfellsbæ nálægt Hólmsá, veghelgunarsvæða hans og gatnamóta á þessari leið. Flokkur fólksins bendir á að mjög líklegt má telja að verði deilur um hvað á að víkja fyrir veginum, hluti skógarreits eða bensínstöð. Svo er athyglisvert að ekki er talað um minnkun á líffræðilegri fjölbreytni við það að leggja nýjar akbrautir og gróður skertur og það er ekki í samræmi við það sem sagt er þegar gróðurmagn er einhversstaðar aukið. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Öskjuhlíðar, ásamt fylgiskjölum. MSS22070033
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastíga árið 2022, ásamt fylgiskjölum. Áætlaður heildarkosnaður er 1.400 m.kr. USK22060091
    Samþykkt.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

     Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna fyrirhuguðum framkvæmdum við gerð hjólastíga í Reykjavík. Hér er þó aðallega um að ræða stofnstíga milli hverfa, en ekki ráðist í þéttingu stígakerfisins innan hverfa líkt og ný hjólreiðaáætlun leggur til. Margt bendir til þess að innan hverfa sem umlykja helstu atvinnu- og þjónustuhverfi borgarinnar séu tækifæri til enn frekari fjölgunar hjólandi. Styðja þarf við þá þróun með með uppbyggingu stíga innan þessara hverfa, samhliða fjölgun stofnstíga. 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úhlutun lóðar og sölu byggingaréttar fyrir atvinnushúsnæði við Jöfursbás 6, ásamt fylgiskjölum. MSS22070013
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Birkimelur 1, ásamt fylgiskjölum. MSS22060238
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

     Samkvæmt samningnum mun lóðarhafi ekki greiða til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva. Það sama mun gilda um hinn nýja aðila, sem þó rekur ekki neinar bensínstöðvar. Borgarfulltrúi Sósíalista spyr sig hver hagnaður Skel fjárfestingarfélags hf. verður af þessum aðilaskiptum. 

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Skógarhlíð 16, ásamt fylgiskjölum. MSS22070006
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag við lóðarhafa að lóðinni Járnháls 2-4, ásamt fylgiskjölum. MSS22050087
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að bjóða til sölu byggingarrétt atvinnulóðar, reitur G1 við Krókháls, ásamt fylgiskjölum. MSS22060239
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhús við Vatnsstíg 12 og Vatnsstíg 12a, ásamt fylgiskjölum. MSS22070007
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. júlí 2022, þar sem erindisbréf yfirstjórnar Reykjavíkurborgar 2022-2026 er sent borgarráði til kynningar. MSS22060142 

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra þar sem erindisbréf neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar er sent borgarráði til kynningar. MSS22060146 

    Fylgigögn

  22. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-apríl 2022, dags. 5. júlí 2022. FAS22060027

    Helga Benediktsdóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  23. Lagt fram bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 22. júní 2022, varðandi ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. júlí 2022. FAS22040002

    Helga Benediktsdóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Í bréfi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (EFS) kemur fram að samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2021 uppfyllir Reykjavíkurborg ekki lágmarksviðmið eftirlitsnefndar fyrir rekstur borgarinnar. Eftirlitsnefndin var þar aðallega að horfa á A-hluta Reykjavíkurborgar en þar voru þrjár lykiltölur undir lágmarksviðmiðum. Þetta voru framlegð í hlutfalli af tekjum, rekstrarniðurstaða og veltufé frá rekstri í hlutfalli af tekjum. Árið 2021 hefði framlegðin átt að vera að lágmarki 6,1% í hlutfalli af tekjum en var 2,8%. Veltufé frá rekstri hefði átt að vera að lágmarki 3,1% í hlutfalli af tekjum en var 0,3%. Að lokum var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 2,7% í hlutfalli af tekjum en hefði átt að vera jákvæð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa áhyggjum af fjárhagsstöðu borgarinnar og undirstrika mikilvægi þess að ráðist verði í aðgerðir svo bæta megi reksturinn og einfalda. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     Flokkur fólksins tekur undir með eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem leggur áherslu á það við Reykjavíkurborg að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná lágmarkviðmiðum eftirlitsnefndarinnar. Þrátt fyrir bráðabirgðaákvæði VII í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 þar sem sveitarstjórnum er heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 vill EFS benda sveitarstjórn á að árið 2026 þarf að uppfylla framangreind skilyrði. Eðli málsins samkvæmt litast fjárhagsáætlanir fyrir árið 2021 mjög af kórónuveirukreppunni. Kemur það annars vegar fram í lægri tekjum og verri afkomu í ár en hins vegar í auknum fjárfestingum sem ætlað er að mynda viðspyrnu gegn samdrætti í þjóðarbúskapnum. Auknar fjárfestingar eru að langstærstum hluta fjármagnaðar með lántöku til lengri tíma og því hækka skuldir verulega. Þetta allt er áhyggjuefni eins og Flokkur fólksins hefur margsinnis bókað um. Gott er að fá þessar viðvaranir þar sem styttist óðum í að viðmiðið verði eins og áður var. 

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. júní 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. júní 2022 á tillögu um gerð viðauka við samninga sjálfstætt rekinna leikskóla, ásamt fylgiskjölum. SFS22060176
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að endurskoðun á fjármögnun sjálfstætt starfandi skóla verði hraðað. Fjármagna þarf skólana með sambærilegum hætti og þá borgarreknu, svo ekki þurfi að innheimta skólagjöld. Þannig má tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að sækja skólana, óháð efnahag foreldra. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Hættum að rukka börn fyrir leikskólavist. Sama hvort það er hjá sjálfstæðum leikskólum eða ekki. Í þessum samningi og viðauka er gert ráð fyrir að börn séu látin borga. Það er miður að slíkt sé bæði í gildi fyrir leikskóla rekna af borgarbúum og hjá sjálfstæðum leikskólum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að fjármögnun einkareknu skólanna verði hraðað. Flokkur fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að endurfjármagna einkareknu skólana með sambærilegum hætti og þá borgarreknu, svo ekki þurfi að innheimta skólagjöld. Þannig má tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að sækja skólana, óháð efnahag foreldra.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. júní 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. júní 2022 á tillögu um gerð viðauka við samninga sjálfstætt rekinna grunnskóla, ásamt fylgiskjölum. SFS22060177
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að endurskoðun á fjármögnun sjálfstætt starfandi skóla verði hraðað. Fjármagna þarf skólana með sambærilegum hætti og þá borgarreknu, svo ekki þurfi að innheimta skólagjöld. Þannig má tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að sækja skólana, óháð efnahag foreldra. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Hættum að rukka börn fyrir leikskólavist. Sama hvort það er hjá sjálfstæðum leikskólum eða ekki. Í þessum samningi og viðauka er gert ráð fyrir að börn séu látin borga. Það er miður að slíkt sé bæði í gildi fyrir leikskóla rekna af borgarbúum og hjá sjálfstæðum leikskólum.Hættum að rukka börn fyrir að vera í grunnskóla. Hér er jafnræðis ekki gætt. Börn efnameiri foreldra geta frekar sótt sjálfstæða skóla en önnur. 

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. júní 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. júní 2022 á tillögu um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla, ásamt fylgiskjölum. SFS22060110
    Samþykkt.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. júní 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. júní 2022 á tillögu um þjónustusamninga vegna efri og neðri stiga tónlistarnáms, ásamt fylgiskjölum. SFS22050078
    Samþykkt.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     Flokkur fólksins fagnar því að Reykjavíkurborg framlengi þjónustusamninga við tónlistarskólana á neðri og efri stigum tónlistanáms. Hins vegar var umsóknum um aukið kennslumagn fyrir skólaárið 2022- 2023 synjað þar sem ekki er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun skóla og frístundasviðs. Flokki fólksins þykir miður að ekki sé hægt að auka kennslumagn því þörfin er mikil eins og sést á biðlistum barna í að komast í skólahljómsveitir borgarinnar. Á annað hundrað barna eru á biðlista eftir að komast í skólahljómsveit. Það er líka mikilvægt að fjölga tækifærum allra til að stunda tónlistarnám og þar höfum við sérstakar áhyggjur af börnum frá efnaminni heimilum. 

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. júní 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. júní 2022 á samkomulagi UNICEF á Íslandi og skóla- og frístundasviðs vegna verkefnisins Réttindaskóli og -frístund, ásamt fylgiskjölum. SFS22020013
    Samþykkt.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. júní 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. júní 2022 á tillögu um að sameinuð frístundamiðstöð Ársels og Gufunesbæjar hljóti nafnið Brúin, ásamt fylgiskjölum. SFS22060149
    Samþykkt.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  30. 30.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. júlí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2022, er varða breytingar á rekstrarleyfi Hjallastefnunnar ehf. vegna leikskólans Öskju. SFS22060161

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Borgin hefur unnið með Hjallastefnunni að því að greiða úr húsnæðismálum fyrir leikskólann Öskju vegna vandamála sem komu upp tengd myglu í húsnæði skólans við Öskjuhlíð. Nú hefur verið tryggt aðstaða fyrir leikskólann í nánustu framtíð í Skógarhlíð sem skapar tækifæri til að fjölga plássum fyrir reykvísk börn um 27 að lágmarki frá því sem nú er en sú tala gæti hækkað í 37. Þessi lausn mun hafa jákvæð áhrif á innritun barna í leikskóla en óvissa tengd húsnæðismálum Öskju hefur tafið fyrir innritun undanfarið. 

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. júlí 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að heimilt verði að greiða framlag vegna fleiri barna með lögheimili í Reykjavík í tengslum við breytingar á rekstrarleyfi leikskólans. SFS22060161

    Samþykkt.

    Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  32. Lagt er til að Dagur B. Eggertsson, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Þorkell Sigurlaugsson og Líf Magneudóttir taki sæti í stefnuráði byggðasamlaganna. MSS22060151
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessu stefnuráði enda mun það leiða til margra ágætra hluta. Hins vegar sýna fylgigögn að minnihlutar í sveitarfélögunum eiga erfitt með að veita aðhald. Minnihlutaflokkar eiga ekki aðkomu að SORPU og Strætó eða samstarfsnefnd skíðasvæðanna. Flokkar eiga að vísu möguleika á að komast í stefnuráð byggðasamlaga höfuðborgarsvæðið og er það vel. En byggðasamlög eru ekki lýðræðislegt fyrirkomulag og borgin ætti að draga úr slíku fyrirkomulagi en ekki auka það. 

  33. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 5. júlí 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fundi borgarstjóra með forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. nóvember 2021. MSS22060192 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst athyglisvert hversu oft borgarstjóri fundar með forsvarsmönnum Orkuveitunnar en 2018 voru 12 fundir, 2019 voru 16 fundir, 2020 voru 17 fundir, 2021 voru 22 fundir með borgarstjóra. Það sem af er þessu ári hafa verið 6 fundir. Samtals eru þetta 73 fundir. Það vekur athygli borgarfulltrúa að þetta eru ansi margir fundir. Flokkur fólksins mun leggja fram sérstaka fyrirspurn um skýringar af hverju svo oft þarf að funda og óskar eftir að gerð verði grein fyrir hvað veldur. 

    Fylgigögn

  34. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. júlí 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um dreifingu borgar- og varaborgarfulltrúa eftir póstnúmerum, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022. MSS22060105 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     Mjög athyglisverð og þörf fyrirspurn frá borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Sjá má að flestir borgarfulltrúar búa í póstnúmerum 101 og 107 sem er út af fyrir sig afar athyglisvert. Þetta á líka við um fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði. Fæstir búa í úthverfum eða efri byggðum borgarinnar. Þessi staðreynd ætti að vera hvatning til borgarfulltrúa sem ekki búa í úthverfum eða efri byggðum að gleyma ekki þeim skyldum sínum að þeir eru fulltrúar allra borgarbúa. Hvað skal um þetta segja nema það að þetta er kannski tilfinningin sem almenningur hefur fengið þegar horft er á áherslur og áhuga á miðsvæði borgarinnar. Með þetta í huga vill fulltrúi Flokks fólksins hvetja alla borgarfulltrúa til að standa vörð um öll hverfi borgarinnar hvort sem það sé þeirra heimasvæði eða ekki. 

    Fylgigögn

  35. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. júlí 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um uppbyggingu á lóðinni Suðurlandsbraut 34-Ármúli 31, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022. MSS22060104 

    Fylgigögn

  36. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 1. júní 2022. MSS22010020 

    Fylgigögn

  37. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 23. júní 2022. MSS22070029 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins fagnar að loksins sé komin umsögn um tillögu sem lögð var fram fyrir fjórum árum. Fram kemur í umsögn hvaða heimildir heilbrigðisnefndin hefur til að tryggja að hávaðareglugerð sé framfylgt og staðfest er að heilbrigðisnefndin hafi gripið til allra þessara úrræða ítrekað. Við vitum að þessi mál eru samt ekki í góðu lagi. Flokkur fólksins veit að þessi mál eru flókin og margslungin. Eltast þarf við hvern og einn sem brýtur reglugerðina og kannski er tímabært að heilbrigðisnefnd hafi á að skipa starfsmönnum sem taki vaktir á kvöldin, um helgar og að nóttu til. Einnig væri æskilegt að eftirliti væri haldið úti yfir lengri tíma, t.d. 6-8 vikur í einni samfellu. Nú hefur verið stofnaður spretthópur í kjölfar umfjöllunar Flokks fólksins á þessu íþyngjandi vandamáli. Flokkur fólksins hefur unnið náið með fulltrúum íbúa sem eru langþreyttir á ástandinu. Heilbrigðisnefndin hefur sinn fulltrúa í hópnum. Flokkur fólksins hefur miklar væntingar til að ekki verði látið staðar numið fyrr en íbúar miðbæjarins verða lausir við þann vanda sem lýst er í tillögunni. Flokkur fólksins óskaði eftir að fulltrúi flokksins fengi sæti i spretthópnum til að fylgja málum eftir en því var hafnað. 

    Fylgigögn

  38. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 30. júní 2022. MSS22010006 

    Fylgigögn

  39. Lögð fram fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarnefndar frá 30. júní 2022. MSS22070019 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
     
    Fulltrúi Flokks fólksins telur afar brýnt að hafinn verði sem fyrst undirbúningur að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík og minnir í því sambandi á tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 18. janúar s.l. þess efnis að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Nú er komið nýtt kjörtímabil og því mikilvægt að leggjast yfir þetta verkefni sem m.a. önnur sveitarfélög hafa lokið en Reykjavík ekki. Til að hægt sé að innleiða sáttmálann þarf að leggjast í þá vinnu að finna út hvað þarf að laga og bæta í aðstæðum barna í Reykjavík. Daglega er brotið á börnum í Reykjavík á hinum ýmsu sviðum og er skemmst að nefna að þau fá ekki nauðsynlega sálfræði- og talmeinaþjónustu. Fyrsta skrefið er að greina og leggja mat á hvað þarf til til að hægt sé að hefja innleiðingarferlið. Skipa þarf stýrihóp, eins og tillagan kveður á um, sem legðist í ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. 

    Fylgigögn

  40. Lögð fram fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. júní 2022. MSS22010008 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

     Flokkur fólksins fagnar þessari hækkun en nefnir enn og aftur að breyta þarf reglunum sem eru alltof stífar og ósveigjanlegar. Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar enda eru þær almennt alltof stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera átta vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt og efnaminni foreldrar geta ekki alltaf greitt mismuninn. Með því að afnema skilyrðin um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkur á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið. Mikilvægt er að börn geti notað styrkinn á sumarnámskeið á vegum borgarinnar. Útvíkka mætti starfsemi sem telst styrkhæf og bæta við ýmsum námskeiðum, s.s. teikninámskeiðum eða námskeiðum í sköpun og list. Ef horft er til nýtingar frístundastyrksins þá er einnig alltaf sama vandamálið. Hverfi 111 er alltaf með minni nýtingu en önnur gróin hverfi og munar miklu en þar býr fátækasta fólk borgarinnar m.a. margir innflytjendur. Gera þarf átak í að hvetja börn til að finna sér tómstund við hæfi með því að ræða við hvert og eitt þeirra sem ekki eru að nýta styrkinn. 

    Fylgigögn

  41. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. júní 2022. MSS22010009 

    Fylgigögn

  42. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. MSS22070004 

    Fylgigögn

  43. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22070009 

    Fylgigögn

  44. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að gera könnun á upplifun borgarbúa á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík. Reynt verði að meta hvort markaðurinn sé að svara eftirspurn borgarbúa. Í henni verður m.a. athugað hvernig húsnæði fólk vill, hversu dýrt það má vera og á hvaða svæðum í borginni það vill fá það. Framkvæmd könnunar skal ákveðin og útfærð nánar í samráði við umhverfis- og skipulagssvið og æskilegt að henni verði lokið eigi síðar en í árslok 2022. MSS22070050

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Frestað.

    Fylgigögn

  45. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að velferðarsviði verði falið að skilgreina hvert lágmarks framfærsluviðmið sé. Bæði verði slíkt flokkað eftir því hvort einstaklingur/ar eigi börn eða ekki og ef svo er, að það fari eftir því hve mörg börn er um að ræða. Einnig verður lágmarks framfærsluviðmið reiknað eftir því hvort viðkomandi sé einstætt foreldri eða ekki. Nánari úrvinnsla skal ákveðin og útfærð nánar í samráði við velferðarsvið. MSS22070051

    Frestað.

  46. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Þann 1. júní síðastliðinn hækkaði lífeyrir örorku um 3%. Svo þessi hækkun komi örorkulífeyrisþegum að gagni er lagt til að viðmiðunarfjárhæð um sérstakan húsnæðisstuðning hækki til samræmis. MSS22070052

    Frestað.

  47. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð leggur til að framkvæmd verði úttekt í Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu á stöðu eignarhalds á húsnæðismarkaðnum og áhrif þess á framboð og verðlag. Hlutfall íbúðarhúsnæðis í eigu lögaðila eða einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð verði kannað. Jafnframt mun úttektin fela í sér að kanna hversu margir einstaklingar eiga eina íbúð, hversu margir tvær, þrjár og svo áfram. Það sama skal kannað hjá lögaðilum. Fjöldi og umfang leigusala skal kannaður og áætlun þeirra um afkomu. Hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunarfé leigjenda og eigenda skal einnig vera kannaður. Framkvæmd úttektar skal ákveðin og útfærð nánar í samráði við umhverfis- og skipulagssvið og æskilegt að henni verði lokið eigi síðar en í árslok 2022. MSS22070053

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  48. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sést að 23% samþykktra byggingarheimilda voru á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar fyrir almennan markað. Þær eru allar ætlaðar til uppbyggingar á hinum almenna markaði. Hver eru rökin fyrir því að borgin sjálf byggi ekki íbúðir á eigin lóðum eins og margar borgir í Evrópu gera og leigi síðan út eða selji á kostnaðarverði? MSS22070054

  49. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á síðustu dögum kom fram að rafskútufyrirtækið HOPP ætli að eiga í samstarfi við Strætó. Í því samstarfi verði markmiðið að samræma ferðaáætlun, nota sömu tækni til að greiða fyrir heildarferðina og samtengja ferð með rafskútu og strætisvagni. Hver verða áhrif af þessu samstarfi á kostnað farþega og leiðarkerfi Strætó? Hvernig mun þetta samstarf auka virði hins einkarekna fyrirtækis og möguleika þess á að greiða út arð af þessari almannaþjónustu? Mun kostnaður af þessu samstarfi valda því að skorið verði niður í annarri þjónustu Strætó á móti? Við þetta má bæta að það er langt því frá að allir hópar geti og treysti sér til þess að nota rafskútur. Þess vegna er mikilvægt að fá upplýsingar um hvort þetta samstarf verði á kostnað þjónustu þeirra. MSS22070055

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó. 

  50. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að taka upp heimgreiðslur þ.e. að foreldrum verði boðið að þiggja mánaðarlegan styrk sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt öllum yngstu börnunum leikskólapláss þá sé ein lausn að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss. MSS22070056

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  51. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg hætti að slá gras á mönum og umferðareyjum. Að slá þessi svæði er óþarfi eins og margir hafa bent á. Þarna er færi á að spara án þess að spilla umhverfinu að nokkru ráði. Villigarðar eða órækt er nú viðurkennd sem hluti af sjálfbærni. Þessi svæði eiga að fá frið til að þróast samkvæmt náttúrulegum ferlum. MSS22070057

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. 

  52. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Enn á ný er komið upp hið árlega vandamál í Reykjavíkurborg þ.e. að börn fá ekki leikskólapláss. Nýlega barst skeyti frá foreldrum sem fá ekki pláss fyrir 18 mánaða gamalt barn sitt. Í angist sinni hafa foreldrar reynt að ná eyrum embættismanna borgarinnar og leikskólanna sem taka ekki lengur síma enda hafa þeir engin svör. Stór hópur foreldra er í þessari stöðu og er óvissan að sliga þá. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um það hvernig meirihluti borgarstjórnar ætlar að bregðast við þessu ástandi? Eiga þessi börn sem nú eru á biðlista ekki að fá leikskólapláss fyrr en eftir áramót? Fulltrúar Flokks fólksins hafa ítrekað bent á að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt öllum börnum leikskólapláss þá sé ein lausn að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar. Kæmi til greina að skoða þessa tillögu Flokks fólksins í ljósi ástandsins í leikskólum borgarinnar? MSS22070058

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

  53. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað veldur því að fundir borgarstjóra með forsvarsmönnum Orkuveitunnar eru svo margir sem raun ber vitni en samtals var fundað 67 sinnum á árunum 2018 til 2021. Hvaða skýringar liggja að baki því að fundað er svo oft? Væri hægt að draga úr fjölda funda með því t.d. að lengja sérhvern fund eða samtengja efni funda? Af hverju er tala fjölda funda 2021 mun hærri en fjöldi funda önnur ár? Var eitthvað sérstakt að gerast hjá Orkuveitu Reykjavíkur á því ári? MSS22060192

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

  54. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um tillögu Flokks fólksins sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 18. janúar 2022 en ekkert hefur spurst til. Lagt var til að samþykkt yrði að skipað stýrihóp sem greinir og leggur mat á hvað vanti upp á til að hægt verði að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Nú er komið nýtt kjörtímabil og því mikilvægt að leggjast yfir þetta verkefni sem m.a. önnur sveitarfélög hafa lokið en Reykjavík ekki. Til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann þarf að leggjast í þá vinnu að finna út hvað þarf að laga og bæta í aðstæðum barna í Reykjavík. Daglega er brotið á börnum í Reykjavík á hinum ýmsu sviðum og er skemmst að nefna að þau fá ekki nauðsynlega sálfræði- og talmeinaþjónustu. Fyrsta skrefið er að greina og leggja mat á hvað þarf til til að hægt sé að hefja innleiðingarferlið líkt. Skipa þarf stýrihóp eins og tillagan kveður á um sem legðist í ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. MSS22010214

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  55. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í minnisblaði borgarlögmanns til borgarstjóra kemur fram að borgarlögmaður telur að Bílastæðasjóður Reykjavíkur hafi gerst brotlegur við umferðarlög, og hafi brotið á réttindum fatlaðs fólks, með því að innheimta gjald hjá handhöfum stæðiskorta fyrir notkun bílastæða í bílastæðahúsum. Óskað er upplýsinga um brot Bílastæðasjóðs og hvað Reykjavíkurborg hyggst gera í því máli. Verður krafist skaðabóta? Fulltrúi Flokks fólksins telur málið alvarlegt og óskar upplýsinga um hvort aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkur muni ekki fjalla um málið og álykta um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða skuli undanskildir gjaldskyldu í borgarlandinu, hvort sem er í bílastæðahúsum, bílskýlum eða á götum úti? Í meira en þrjú ár hefur bílastæðasjóður brotið á þeim sem aka á P-merktum bílum. Árið 2019 voru ný umferðarlög samþykkt þar sem skýrt er kveðið á um að handhöfum stæðiskorta sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu og einnig að handhafar stæðiskorta megi leggja í sérmerkt bílastæði í öllum göngugötum. MSS22070061

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. 

  56. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvenær vænta má svars við fyrirspurnum Flokks fólksins um Klapp greiðslukerfið. Meðal fyrirspurna var hversu margar kvartanir hafa borist vegna hins nýja greiðslukerfis. Einnig er óskað eftir að brugðist verði við tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram 3. mars sl. þar sem því var beint til stjórnar Strætó að samþykkja að hægt verði að nota eldri greiðsluaðferðirnar áfram þar til reynsla er komin á nýtt greiðslukerfi Strætó. Ekki eiga allir tölvur eða snjall/farsíma og geta þar af leiðandi ekki notað Klapp og mínar síður. Hér má nefna t.d. ákveðinn hóp fatlaðs fólks, eldra fólks og fólks af erlendum uppruna t.d. hælisleitendur sem ekki tala tungumálið, eru ekki með kennitölu og eiga ekki rétt á að sækja um rafræn auðkenni. Klapp tíu er ekki valkostur sem er sambærilegur öðrum kostum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki tímabært að loka á möguleikann að nota pappírsmiða. Fólk af erlendu bergi brotið sem t.d. talar ekki tungumálið á erfitt með þessar breytingar. Margt fólk, t.d. hælisleitendur býr í Breiðholti og er Mjóddin skiptistöð fyrir marga. Þetta fólk á erfitt með að finna leið upp í Hestháls. MSS22070062

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó. 

  57. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela borgarstjóra að ganga til samninga við samgönguyfirvöld um að beina umferð á einkaþotum og þyrluflugi annað en um Reykjavíkurflugvöll. Slíkar breytingar myndu hafa margs konar jákvæð áhrif á borgina, íbúa hennar og umhverfið. Hljóð- og loftmengun og almennt ónæði yrði minna, öryggi íbúa í miðborginni og í grennd við flugvöllinn myndi aukast og svo samræmist aðgerðin markmiðum borgarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum svo fátt eitt sé nefnt. MSS22070063

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 11:35

Einar Þorsteinsson Skúli Helgason

Alexandra Briem Pawel Bartoszek

Hildur Björnsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_0707.pdf